Undirskriftasöfnunin "Varið land"

   Árið 1974 var efnt til undirskriftasöfnunar hér á landi undir kjörorðinu "Varið land". Saga þessarar undirskriftasöfnunar hefur aldrei verið rituð, og er það miður, því að hún var minnisstæður atburður í stjórnmálasögu síns tíma og fyllsta ástæða til að rifja hana upp.1)

   Reyndar komst það einu sinni á dagskrá. Í aprílmánuði 1999 kom piltur nokkur að máli við mig og óskaði eftir viðtali um þessa undirskriftasöfnun. Að hans sögn átti þetta viðtal að birtast sem hluti ritgerðar sem hann var að semja fyrir próf í Háskóla Íslands. Ég varð við ósk piltsins, og áttum við alllangt samtal. Að auki fékk hann mikið af gögnum (blaðaúrklippum og málsskjölum) sem einn af forgöngumönnum undirskriftasöfnunarinnar hafði varðveitt.

    Tíminn leið, en ekkert bólaði á ritgerðinni þrátt fyrir ítrekuð loforð piltsins. Svo fór að viðtalið var aldrei birt.  Fyrir skömmu rakst ég á eintak af þessu viðtali í fórum mínum. Við lestur þess sýndist mér að þetta gæti nýst sem fyrsta framlag til sögu Varins lands.  Á undan viðtalinu fór inngangur þar sem fjallað var um menntun mína og störf og þau litlu afskipti sem ég hafði haft af stjórnmálum. Viðmælandi minn bar síðan fram þær spurningar sem hér birtast og svör mín við þeim. Ég hef lagfært orðalag lítillega og bætt við myndum til fróðleiks. Á stöku stað hefur texta verið skotið inn til leiðréttingar eða viðauka og þá innan hornklofa. Sá hluti af inngangi viðtalsins sem snerti Varið land hefur verið felldur inn í svarið við fyrstu spurningunni.
                                                              
                                                                   Þorsteinn Sæmundsson

1) Síðan þessar línur voru ritaðar hefur tímaritið Þjóðmál  birt tvær greinar um þetta efni, í sumarhefti og hausthefti ársins 2008.
 

 Hver var aðdragandinn að stofnun Varins lands?

   
Aðspurður um hvort hann hefði starfað á vegum Varðbergs eða Samtaka um vestræna samvinnu, svaraði Þorsteinn því að hann hefði einu sinni sótt fund SVS rétt áður en Varið land kom fram. Það var síðla árs 1973 að hann gekk í samtökin ásamt þeim Þorvaldi Búasyni og Ragnari Ingimarssyni. Þeir þremenningarnir lögðu fram tillögu sem efnislega var á sömu nótum og síðar kom fram í áskorun Varins lands. Tillagan var ekki samþykkt heldur vísað til stjórnar, og gengu þeir félagar þá af fundi og sögðu sig úr samtökunum. En undirskriftasöfnun Varins lands var ekki komin á dagskrá þegar þetta gerðist. Að öðru leyti tók Þorsteinn engan virkan þátt í þessum samtökum frekar en Varðbergi þótt hann hafi einstöku sinnum sótt fundi sem þessi samtök boðuðu til, vegna áhuga á fundarefni. Þorsteinn segist vera hlynntur Samtökum um vestræna samvinnu, en á þessum tíma var hann mjög ósáttur við hvað þau gerðu lítið í þeirri hættulegu stöðu sem komin var upp.

     "Nú þegar aldarfjórðungur er liðinn, er ég hræddur um að þú fáir ekki alveg sama svar hjá öllum, en eins og ég man þetta var það síðla árs 1973 að ég og tveir vinir mínir, þeir Ragnar Ingimarsson og Þorvaldur Búason, komum saman til að ræða hugsanlegar aðgerðir vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp var komin í varnarmálunum. Um þetta leyti voru liðnir sex mánuðir frá því að vinstri stjórnin hafði farið fram á það við Bandaríkjastjórn að varnarsamningurinn frá 1951 yrði endurskoðaður, og þar sem samkomulag hafði ekki náðst, var stjórnin í þeirri aðstöðu að geta sagt samningnum upp einhliða.
  

    Herstöðvaandstæðingar höfðu haft sig mikið í frammi, í dagblöðum, á fundum og með kröfugöngum, og það var farið að gæta þeirrar tilfinningar, jafnvel innan raða Sjálfstæðisflokksins og meðal þingmanna hans, að þjóðin væri á móti veru varnarliðsins. Ég er alls ekki að segja að þetta hafi verið skoðun meirihluta sjálfstæðismanna. En þessi skoðun var orðin svo útbreidd að hennar gætti jafnvel í þingliði flokksins. Það sem sérstaklega hafði áhrif á mig var frétt sem kom í útvarpi þar sem sagt var  að Einar Ágústsson utanríkisráðherra hefði verið á blaðamannafundi í Kaupmannahöfn og lýst því yfir að meirihluti íslensku þjóðarinnar vildi að herinn yrði látinn fara. Utanríkisráðherrann trúði því sýnilega að þetta væri staða mála. Mér blöskraði satt að segja. Ég þóttist vita af viðræðum við menn að þetta væri alls ekki almenn skoðun þó að þeir væru hávaðasamir sem krefðust brottfarar varnarliðsins, herstöðvaandstæðingar, þekktastir fyrir sínar Keflavíkurgöngur. Ég tók upp símann og hringdi, að mig minnir í Ragnar Ingimarsson, frekar en Þorvald Búason, og sagði: "Þetta gengur ekki lengur, eitthvað verður að gera."  Við komum síðan saman þrír til að ræða hugsanlegar leiðir, og umræðan beindist fljótlega að undirskriftasöfnun.  Fyrsta spurningin var hvort við ættum að leita eftir undirskriftum valinna manna, eins og herstöðvaandstæðingar höfðu einatt gert, eða hafa söfnunina víðtækari. Ef seinni leiðin yrði valin, myndum við þá ráða við þetta og hverjir fleiri ættu að standa að þessu? Fljótlega stækkaði umræðuhópurinn. Það gerðist með þeim hætti að hver talaði við menn sem hann þekkti, og þeir bentu svo á aðra o.s.frv. Þetta voru áhugasamir menn og komu úr öllum áttum. Meðal þeirra fyrstu var Valdimar Magnússon, svo og Bjarni Helgason sem var gamall vinur okkar þremenninganna.  Þór Vilhjálmsson og Jónatan Þórmundsson þekkti ég vel, en aðra minna eða ekkert. Mjög fljótlega vorum við komnir með fjórtán manna hóp. Þjóðviljinn kallaði hópinn alltaf VL-13, sem stafaði líklega af því, að fyrst þegar við efndum til blaðamannafundar var einn okkar fjarstaddur. Sumir þessara manna höfðu  komið nálægt stjórnmálum, en í ólíkum flokkum, sumir voru sjálfstæðismenn, aðrir alþýðuflokksmenn og enn aðrir úr Framsóknarflokki. Það var náttúrlega ekkert reynt við Alþýðubandalagið. En við gerðum það með vilja að hafa samband við menn úr mismunandi flokkum svo að ekki væri hægt að kenna samtökin við neinn sérstakan stjórnmálaflokk. Það var höfuðatriði hjá okkur að samtökin tengdust ekki stjórnmálaflokkum, og það var ekki haft samband við nokkurn flokk. "

Forgöngumenn Varins lands. Talið frá vinstri: Bjarni Helgason, Hreggviður Jónsson, Ragnar Ingimarsson, Björn Stefánsson, Þór Vilhjálmsson, Ólafur Ingólfsson, Þorsteinn Sæmundsson, Óttar Yngvason, Unnar Stefánsson, Stefán Skarphéðinsson, Hörður Einarsson, Jónatan Þórmundsson, Þorvaldur Búason og Valdimar Magnússon. Undirskriftalistarnir voru bundnir inn í bækur sem sjást á myndinni og settir í stálkistil sem afhentur var í Alþingishúsi. Myndina tók Björn Bjarnason.

 Og svo voru tveir á Akureyri?

     "Jú, en þeir voru ekki í þessum fjórtán manna hópi." Þorsteinn dró úr fórum sínum blað með yfirlýsingunni um stofnun samtakanna. Hann segir  að þessi stutta yfirlýsing sé það eina sem samtökin hafi látið frá sér fara áður en undirskriftasöfnunin hófst.

Tilkynningin sem send var til fjölmiðla 15. janúar 1974

 Gerðuð þið einhverjar kröfur til meðlima?

    "Nei, nei, ekki annað en það að menn væru áhugasamir um málefnið og líklegir til að geta unnið saman, því að það var alveg ljóst að mikið starf var framundan. Við boðuðum til blaðamannafundar 15. janúar 1974 á Hótel Loftleiðum, þar sem ég hafði orð fyrir okkur. Sjónvarpið sýndi frá þessu og Eiður Guðnason tók viðtal við mig. Ég frétti síðar að hann hefði orðið fyrir miklu aðkasti fyrir þetta tiltæki, að vera að auglýsa þetta framtak okkar, en þetta var bara venjulegt fréttaviðtal. Ég man að eitt af því sem Eiður spurði mig um var það hvað ég héldi að það yrði mikil þátttaka. Ég svaraði að við yrðum ánægðir ef við næðum fimm þúsund undirskriftum. Við sáum fram á að það yrði mikið verk að safna undirskriftunum, ekki síst á þessum árstíma þegar færð var með erfiðasta móti úti á landsbyggðinni. Ég held að flestir sem voru í hópnum hafi kannski hugsað eitthvað á svipuðum nótum og ég, að við næðum kannski fimm þúsund undirskriftum, í mesta lagi tíu þúsund. Þó voru tveir í hópnum sem spáðu mun hærri tölu, þeir Ólafur Ingólfsson og Ragnar Ingimarsson. Síðar fréttum við að viðbrögð herstöðvaandstæðinga hefðu verið mjög skjót; að þeir hefðu skotið á fundi nánast samdægurs og þar hefði komið fram sú eindregna skoðun að við myndum fá feiknarlegar undirtektir. Þessir andstæðingar okkar vissu að sú plata sem þeir voru búnir að spila allan tímann, að þeir hefðu mikinn meirihluta þjóðarinnar á bak við sig, var alls ekki sönn. Þeir gerðu sér miklu betur grein fyrir því en við hver þátttakan yrði.

    Við byrjuðum á þessu án þess að hafa hugboð um hvað þetta yrði mikið verk. Þetta varð alveg gífurleg vinna. Fyrir utan sjálfa okkur urðum við algerlega að treysta á sjálfboðaliða, en þeir komu reyndar í hrönnum. Eiginkonurnar komu líka til hjálpar [sjá innskot]. Við leigðum skrifstofu í Miðbæ við Háaleitisbraut þar sem Hreggviður Jónsson var ráðinn skrifstofustjóri. Þangað fórum við hinir eftir vinnutíma og unnum fram eftir kvöldum og um helgar. Þarna gekk oft mikið á, því að móttökurnar sem við fengum voru ótrúlegar. Það er erfitt fyrir þá sem ekki upplifðu þetta að gera sér grein fyrir hvernig þær voru.



 Kvöldvinna á skrifstofu Varins lands. Á myndinni sjást, talið frá vinstri: Valdimar Magnússon, Hreggviður Jónsson, Þorvaldur Búason, sjálfboðaliði (kona) og Bjarni Helgason. Myndina tók Þorsteinn Sæmundsson



Inngangurinn að skrifstofu Varins lands í Miðbæ við Háaleitisbraut
 

Undirskriftalistinn

    Við höfðum látið prenta 1000 lista með 20 línum á hverjum lista fyrir undirskriftir og héldum að það yrði yfrið nóg, en sá bunki var horfinn áður en við var litið. Fólk kom bókstaflega hlaupandi upp stigann og sagði: "Hvar eru listarnir? Loksins fær maður tækifæri til að segja sitt álit." Þetta fólk var orðið langþreytt á að hlusta á þann kór sem stöðugt kyrjaði: burt með herinn, Ísland úr NATO. Sá söngur hafði glumið í eyrum árum saman og aldrei hafði honum verið mótmælt af almenningi. Meirihlutinn var þögull. Það voru engir að vinna í þessu. Vissulega var Sjálfstæðisflokkurinn á öndverðri skoðun, svo og margir góðir menn í öðrum flokkum, og sem betur fer hafði þessi krafa ekki náð fram að ganga. En nú stefndi í óefni."

 Voru einhverjar fyrirmyndir að Vörðu landi?

    "Nei, við byggðum samtökin algjörlega upp frá grunni. Við settum  upp spjaldskrá og komum upp kerfi þannig að sjálfboðaliðar, sem urðu í kringum tvö þúsund manns undir lokin, fengu undirskriftalista sem voru númeraðir og skráðir á nöfn þeirra sem við þeim tóku. Þar með vissum við alveg hve margir listar höfðu farið út og hver hafði fengið hvaða lista. Þegar listarnir fóru að skila sér aftur til okkar, þá byrjaði vinnan við að fara yfir þá. Kanna þurfti hvert einasta nafn, hvort viðkomandi fyndist með það heimilisfang sem upp var gefið, hvort hann hefði náð tvítugsaldri og hvort nafnið kæmi fyrir á öðrum undirskriftalistum. Andstæðingar okkar létu strax til sín heyra, fyrst og fremst í Þjóðviljanum, en einnig í öðrum blöðum s.s. Nýju landi, sem var málgagn frjálslyndra og vinstri manna, í Stúdentablaðinu og víðar. Fyrstu viðbrögð Þjóðviljans, fyrir utan það að ausa yfir okkur fúkyrðum, voru þau, að ekkert væri að marka svona undirskriftasöfnun; þarna myndu sumir skrifa mörgum sinnum, nöfn yrðu skálduð á listana, börn myndu skrifa á þá o.s.frv.  En þegar við sögðum frá því hversu nákvæmlega væri farið yfir listana og að tölva væri notuð við verkið, breyttist tónninn. Þá var það tölvuvinnslan sem var stórhættuleg, þetta væru persónunjósnir, við værum útsendarar bandarísku leyniþjónustunnar og að hún og Sjálfstæðisflokkurinn fengju aðgang að gögnunum. Þá var okkur legið á hálsi fyrir það að mæta ekki á fundum sem andstæðingarnir boðuðu til, sagt að við þyrðum ekki að verja okkar málstað. Við neituðum alltaf að mæta á kappræðufundum þótt skorað væri á okkur. Ástæðan var annars vegar sú, að við höfðum alls engan tíma til að sinna slíku, gátum ekki dreift kröftunum á þann hátt. En í öðru lagi sáum við ekki tilganginn með þess konar kappræðum. Við höfðum ekki komið fram  til að ræða varnarmálin. Við töldum að þetta væri löngu útrætt mál og öll rök með og móti hefðu komið fram á liðnum árum í stjórnmálaumræðunni. Fólk væri búið að mynda sér skoðun á málinu og það eina sem þyrfti að gera væri að sýna fram á hver skoðun alls almennings væri. Við vorum ekkert að blanda okkur í pólitískar umræður, vorum aðeins að gefa fólki kost á að skrifa undir. Plaggið var stutt og skýrt og menn réðu því hvort þeir skrifuðu undir eða ekki.

    Reyndar boðuðum við til eins fundar, sem haldinn var á Hótel Sögu, en sá fundur var auglýstur sem fundur fyrir stuðningsmenn, en ekki í áróðursskyni. Það kom þó ekki í veg fyrir að róttækir stúdentar fjölmenntu á fundinn og reyndu að hleypa honum upp. Slík var lýðræðisvitund andstæðinga okkar. En fundurinn tókst með ágætum þrátt fyrir allt, og mátti þakka það styrkri fundarstjórn."

 Það var þá frekar starf SVS og Varðbergs að mæta á kappræðufundina?

     "Já, einmitt. Enda tók Sjálfstæðisflokkurinn svo málefnið upp eftir að þetta var komið af stað og studdi vissulega undirskriftasöfnunina. Það fór ekkert á milli mála. Og Morgunblaðið gerði það einnig. En starfsmenn Sjálfstæðisflokksins voru ekki inni á gafli hjá okkur, gagnstætt því sem sumir héldu fram. Sigurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn vann í kosningunum sem á eftir fóru, var þakkaður okkur að töluverðu leyti, sem og stuðningi flokksins við okkar málstað. En óvinir okkar héldu því fram að úrslitin væru því að kenna eða þakka að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið skrárnar frá okkur og notað þær í kosningunum. Ég man sérstaklega eftir því að Sigurjón Pétursson, sem þá var borgarfulltrúi Alþýðubandalagsins, fullyrti það í morgunfréttum útvarpsins daginn eftir kosningar að einfalt væri að skýra niðurstöður kosninganna. Skýringin væri sú að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið tölvuskrár Varins lands og hefði notað þær í kosningastarfinu. Ég get sagt það hreint út að þetta voru ósannindi; Sjálfstæðisflokkurinn fékk aldrei neinar upplýsingar frá okkur með einum eða öðrum hætti. Það sem  mér finnst broslegast við þessar sögur er það að fólk sagði við mig: "Ég trúi því að þú sért að segja satt, en þú getur ekki vitað hvað hinir í hópnum gerðu." Þetta er mikill misskilningur. Við vorum aðeins fáir sem héldum utan um gögnin og það á þann hátt að ekki var nokkur möguleiki á að þau kæmust í hendur óviðkomandi aðila. Við gerðum okkur strax í upphafi grein fyrir því að þetta var veigamikið atriði. Reyndar var engin tilraun gerð þess að fá gögnin.  Hvorki Sjálfstæðisflokkurinn né aðrir báðu nokkru sinni um þau."

 Hvað varð um gögnin?

    "Á tíu ára afmæli Varins lands var undirskriftasöfnunarinnar minnst, meðal annars með skrifum í Morgunblaðinu. Þá voru gerðar ráðstafanir til að fá allan staflann sem innbundinn var í 33 bækur, og taka myndir af. Ég man ekki betur en kistillinn með bókunum hafi þá verið varðveittur í geymslu í Lögreglustöðinni í Reykjavík. Hvar hann er nú veit ég ekki. Það var krafa okkar við afhendingu undirskriftanna árið 1974 að þær yrðu hafðar til sýnis almenningi. Hugsun okkar var sú að gögnin ættu að liggja frammi undir lögregluvernd, en Alþingi gerði það með þeim hætti að fæstir vissu af því. Þannig held ég að almenningur hafi í raun aldrei fengið að sjá undirskriftirnar. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi verið með vilja gert, ráðamenn kærðu sig ekkert um það að fólk sæi þetta, því miður. Bækurnar voru geymdar í mjög fallegri kistu sem Sveinbjörn heitinn í Ofnasmiðjunni gaf. Ég man alltaf viðbrögð Ólafs Jóhannessonar þegar við afhentum undirskriftirnar í Alþingishúsinu. Hann sagði: "Fallegur er kassinn, hvað sem segja má  um  innihaldið." Þetta voru heldur kuldaleg viðbrögð; Ólafur var greinilega ekki hrifinn. Nokkrir þingmenn stóðu þarna og sumir gerðu hróp að okkur. Ég man sérstaklega eftir Jónasi Jónssyni framsóknarþingmanni sem kallaði: "Nú á bara eftir að syngja Allt eins og blómstrið eina". [Jónas settist síðar í stjórn svonefnds Málfrelsissjóðs.]



Kistillinn með undirskriftunum borinn inn í Alþingishúsið. Þór Vilhjálmsson og Þorvaldur Búason bera kistilinn, en auk þeirra sjást á myndinni Óttar Yngvason, Ólafur Ingólfsson og Þorsteinn Sæmundsson

 

Frá afhendingu undirskriftanna í Alþingishúsinu. Þeir sem veittu undirskriftunum viðtöku og snúa baki í myndavélina eru Eysteinn Jónsson forseti Sameinaðs þings, og Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra. Lengst til hægri er Bjarni Einarsson, bæjarstjóri á Akureyri, sem tók þátt í afhendingunni með forgöngumönnum Varins lands.


 
   Önnur mynd frá afhendingunni. (Ljósmynd: Gunnar V. Andrésson)
 
  Viðbrögð ríkisfjölmiðlanna eru svo annar þáttur. Gerðu þér grein fyrir því að þessi undirskriftasöfnun er sennilega einstæð meðal lýðræðisþjóða; ég efast um að nokkurs staðar séu dæmi um svona mikla þátttöku í undirskriftasöfnun. Enn þann dag í dag eru andstæðingar okkar að reyna að gera lítið úr þessum árangri. Ég sé það t.d. í Íslandssögu Einars Laxness. [Nýrri dæmi eru ummæli Ólafs Hannibalssonar, sjá hér, og endurminningar Guðna Ágústssonar, sjá hér] Þú skalt lesa kaflann, hann er mjög athyglisverður. Ekki er þar að sjá að undirskriftasöfnunin hafi haft nokkra þýðingu fyrir framvindu mála. Lýsingin er ömurleg. Einar segir að það hafi komið fram menn sem kölluðu sig "Varið land"! Hann leggur síðan áherslu á að það hafi ekki verið helmingur kosningabærra manna sem skrifaði undir. Þjóðviljinn hamraði á því líka og skrifaði meira að segja ávarp til þeirra 74000 sem ekki skrifuðu undir.[Þetta var misminni, talan sem Þjóðviljinn birti var 71664, sjá Varið land II, Þjóðviljinn 28. júní 1974, 6. grein.] Þetta áttu að vera menn sem voru þessu andvígir. En taktu eftir einu. Fjöldi manns tekur aldrei þátt í undirskriftasöfnun af neinu tagi. Margir taka heldur ekki þátt í kosningum. Ef við lítum nánar á, sjáum við að undirskriftirnar eru svo margar að þær ná meirihluta þeirra sem að jafnaði taka þátt í kosningum. Ef kosningar hefðu verið á sama tíma, hefðum við haft meirihluta miðað við þá tölu. Engum heilvita manni dettur í hug að þarna sé allt fylgið komið, að allir hafi skrifað undir sem voru þessarar skoðunar. Sérstaklega með tilliti til þess að þetta fór fram  um miðjan vetur, og það var ekki hægt að koma listum í allar byggðir landsins. Ég heyrði til dæmis af mönnum austur í Þingvallasveit sem aldrei sáu lista og veit persónulega dæmi þess hér í Reykjavík. Þá þykist ég muna rétt, að Framsóknarflokkurinn hafi skorað á sína fylgismenn að taka ekki þátt í söfnuninni. Þátttakan verður enn athyglisverðari ef þetta er haft í huga. Það varð líka til að auka á erfiðleika okkar sem að söfnuninni stóðum, að víðtæk verkföll áttu sér stað á þessum tíma.

    Svo að þú getur séð að sú fullyrðing, að allir þeir sem ekki skrifuðu undir hafi verið þessu andvígir, er bara blekking. Þessi geysilega þátttaka í undirskriftasöfnuninni var ekki okkur að þakka; hún sýndi áhuga fólksins. Staðreyndin er að fólk var áhyggjufullt, nákvæmlega eins og við sjálfir. Það hafði sömu tilfinningu eins og við, að eitthvað mjög hættulegt væri í aðsigi, og fólk vildi koma í veg fyrir það með því að skrifa undir áskorun um áframhaldandi landvarnir. Í þessu sambandi er rétt að minnast þess að herstöðvaandstæðingar höfðu áður efnt til undirskriftasöfnunar af sama tagi, en undirtektirnar voru ekki meiri en svo að niðurstaðan var aldrei birt. Þegar Varið land var til umræðu, var Ragnar Arnalds spurður um þessa undirskriftasöfnun herstöðvaandstæðinga, en hann vildi ekki segja annað en að þær undirskriftir væru vel geymdar. Menn geta deilt um það nákvæmlega hvaða ályktun megi draga af undirskriftasöfnun Varins lands, en mitt mat er það að a.m.k. 70% landsmanna hafi verið málefninu hlynntir.

    Umfjöllun ríkisfjölmiðla meðan á söfnuninni stóð er svo kapítuli út af fyrir sig, og hann er stórmerkilegur. Ég hefði ekki trúað því fyrirfram að ríkisfjölmiðlarnir létu Alþýðubandalagið og herstöðvaandstæðinga segja sér fyrir verkum, en sú varð raunin. Besta dæmið um þetta er það, að sjónvarpið skyldi neita að senda myndatökumenn þegar við afhentum undirskriftirnar. Það var verið að afhenda undirskriftir 55 þúsund Íslendinga, og sjónvarpið lét ekki sjá sig! Þess vegna er ekki til nein sjónvarpsmynd af atburðinum. Ekki löngu síðar sýndi sjónvarpið frá blysför fámenns hóps að hliðinu á Keflavíkurflugvelli til að mótmæla veru hersins. Það gátu þeir sýnt! En þegar meirihluti landsmanna var að lýsa skoðun sinni, þá hafði sjónvarpið engan möguleika á að senda mann. Svona var þetta alltaf. Við sendum fréttatilkynningar við og við eftir því sem leið á undirskriftasöfnunina og í ljós kom sívaxandi þátttaka, meiri  en flestir okkar höfðu látið sig dreyma um. Í hvert skipti sem við sendum tilkynningu til ríkisútvarpsins um það hvernig undirskriftasöfnunin gengi, birtu þeir hana, en í leiðinni birtu þeir margar tilkynningar frá alls konar samtökum úti um allt land, samtökum sem enginn hafði áður heyrt getið um, jafnvel í afskekktustu byggðarlögum, þar sem undirskriftasöfnuninni var mótmælt. Það kom skriða slíkra tilkynninga í hvert sinn sem við létum frá okkur heyra, þannig að við hættum að senda inn fréttatilkynningar. Við sáum okkar engan hag í því að auglýsa andstæðinga okkar. Ég held að það hafi verið á þeim tímapunkti þegar við vorum komnir með 30 þúsund undirskriftir, að fréttastjóri sjónvarpsins, sem þá var sr. Emil Björnsson, hringdi í Þorvald Búason. Emil var þá að leita eftir því hvernig söfnunin gengi, og Þorvaldur sagði honum eins og var. "Nú, þetta er stórfrétt! Þetta er stórfrétt! Af hverju sendið þið okkur þetta ekki?", spurði Emil.  Þorvaldur svaraði eitthvað á þá leið að sér fyndist það vera hlutverk sjónvarpsins að leita eftir fréttaefni en ekki endilega okkar að koma því á framfæri, enda vissu allir að undirskriftasöfnunin væri í gangi.  En við drógum þá ályktun, að Emil hefði líklega verið kominn með heila hrúgu af tilkynningum frá herstöðvaandstæðingum og vissi ekkert hvað hann ætti að gera við þær, því að hann væri að bíða eftir tilkynningu frá okkur til þess að hafa það sem hann teldi vera jafnvægi í fréttaflutningnum!

    Hér má bæta því við, að útvarp og sjónvarp neituðu fljótlega eftir byrjun söfnunarinnar að taka við auglýsingum frá okkur á þeim forsendum að þeim væri óheimilt að birta áskoranir á alþingismenn! Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að slíkar áskoranir hafi oftsinnis síðar verið birtar í þessum sömu fjölmiðlum.

    Ég held að aðrir fjölmiðlar hafi ekki heldur staðið sig vel, nema Morgunblaðið, sem skýrði alltaf rétt frá gangi mála. Hlutverk ríkisfjölmiðlanna var skammarlegt. Hið eina sem hægt var að hrósa þeim fyrir var þetta eina fréttaviðtal, í upphafi undirskriftasöfnunarinnar, en þá voru þeir  óviðbúnir!"

 Hvaða skoðun hafði Alþýðublaðið á þessu máli?

     "Það voru skiptar skoðanir í Alþýðuflokknum á þessum tíma. Meirihluti flokksmanna studdi okkur áreiðanlega, en ég man til dæmis að Benedikt Gröndal var beggja blands í málinu, og meðal ungra alþýðuflokksmanna var töluverð andstaða við málstað okkar. Þarna voru alls ekki hreinar línur. Ég held að eitthvert félag Alþýðuflokksins hafi lýst yfir stuðningi við okkur og að sú yfirlýsing hafi birst í Alþýðublaðinu. En ég man ekki  hvernig blaðið tók annars á málinu, og mér er nær að halda að það hafi ekki fjallað mikið um undirskriftasöfnunina. Það þyrfti að fletta þessu upp."

 Nú sögðu andstæðingar ykkar á sínum tíma að þið hefðuð misnotað aðstöðu ykkar með því að mata upplýsingar inn á tölvu háskólans.

    "Það var alltaf verið að hræða fólk með tölvuvinnslunni. Fólk vissi miklu minna um tölvur þá heldur en nú. Tölva er bara verkfæri, og í þessu tilviki var hún notuð til að flýta fyrir vinnu sem annars hefði orðið að vinna í höndunum og orðið hefði allt of seinleg fyrir svo lítinn hóp manna. Eins og ég sagði áður þurfti að sannreyna öll nöfn á listunum, ganga úr skugga um að undirskrifendur hefðu náð kosningaaldri (20 ára) og að ekki væri um tvítekningar að ræða. Við vissum dæmi þess að reynt hafði verið að spilla listum með því að skálda á þá fáránleg nöfn.  En við höfðum frá upphafi ákveðið að undirskriftasöfnunin væri marklaus ef ekki yrði kannað ofan í kjölinn hvert einasta nafn. Við ætluðum okkur alltaf að bera listana saman við þjóðskrá. Þegar til kom gátum við ekki fengið afrit af þjóðskrá með svo stuttum fyrirvara. En stjórnmálaflokkarnir höfðu þegar fengið kjörskrár vegna væntanlegra kosninga 1975 (þeir einir gátu fengið kjörskrár) og við gátum fengið slíka skrá hjá Sjálfstæðisflokknum. Það gerðum við og greiddum fullt verð fyrir.

    Samanburður á listum og kjörskrá var auðvitað mikið verk og sjálfsagt að nota við það bestu fáanlegu tækni, þ.e. tölvu. En ekki tölvu Háskólans. Hún kom aldrei til álita, til þess var hún allt of lítil. Þess í stað fengum við aðgang að tölvu hjá IBM á Klapparstíg og gengum þannig frá málunum að við vorum sjálfir viðstaddir alla vinnslu. Enginn gat tekið afrit án þess að við yrðum varir við, því að við vorum með fingurna á öllu saman. Við vorum þarna seint á kvöldum og jafnvel á nóttunni til þess að trufla ekki aðra starfsemi og meira að segja fyrir opnum tjöldum.  Þetta var á horni við Hverfisgötuna og engin tjöld fyrir gluggum. Þeir sem gengu fram hjá gátu séð okkur þarna. En andstæðingar okkar sáu sér hag í að búa til sögur um að við værum að misnota aðstöðu okkar og nota tölvu Háskólans. Sú tölva var aldrei notuð, hvað þá misnotuð. Það var enginn leyndardómur í sambandi við þessa tölvuvinnslu. Það sem fór inn í tölvuna var einfaldlega það sem stóð á seðlunum, nöfn og heimilisföng sem fólk hafði sjálft skrifað til þess að koma opinberlega á framfæri. Þetta var aldrei tengt við neinar aðrar upplýsingar. Ef þú skrifar nafnið þitt undir plagg sem á að leggja fram opinberlega, er það varla neitt leyndarmál. Tölvuvinnslan fólst í því að raða nöfnunum upp í stafrófsröð og eftir heimilisföngum og prenta þau út. Annað var það nú ekki. Síðan tók við handavinna, að bera þetta saman við kjörskrána, því að hana höfðum við ekki á tölvutæku formi.  

Gögnin sem sett voru í tölvu voru götuð á gataspjöld. Til þess fékk ég aðstoð frá konu sem starfaði hjá mér á Raunvísindastofnun, en hún rak götunarþjónustu sem aukastarf. Það broslega við þetta var að þessi ágæta kona var á algjörlega andstæðum pól við okkur í stjórnmálum. Hún hafði meira að segja starfað í Æskulýðsfylkingunni. En hún vissi vel hvað við vorum að gera og sá ekkert athugavert við það.

Þetta hafa líklega verið hátt í þrjátíu kassar af spjöldum, 2000 spjöld í hverjum kassa. Eftir að úrvinnslunni var lokið fórum við með þessi frumgögn tölvuvinnslunnar upp á Keldnaholt, í námunda við Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins, og brenndum þau í tunnum. Ég á myndir af þessu. Það var mjög erfitt að eyða spjöldunum þótt mikið væri notað af steinolíu. Hefur þú séð þessi gömlu IBM spjöld? Þegar þetta er komið saman í bunka er nær ómögulegt að brenna þessu. Þetta verður eins og timburkubbur. Við hlustuðum á útvarpið á meðan og heyrðum Ragnar Arnalds flytja ræðu á Alþingi þar sem hann var að tala um þessi djöfullegu tölvugögn og þessar hættulegu persónunjósnir. Og gott ef  hann talaði ekki um að það væri verið að koma þessu til óviðkomandi aðila eins og Bandaríkjamanna. Ragnar er kvæntur frænku minni og mig  hefur oft langað til að spyrja hann hvort hann hafi ekki haft áhyggjur af þessu seinna meir, hvað varð um þessi voðalegu tölvugögn. En það er athyglisvert, eftir allt moldviðrið sem þyrlað var upp á þessum tíma, að enginn skuli hafa spurt um gögnin þegar frá leið. Mér finnst það benda til þess að þessir menn hafi sjálfir ekki trúað því sem þeir voru að segja.



Gögnum eytt á Keldnaholti. Á myndinni sjást, talið frá vinstri: Bjarni Ragnarsson, Ragnar Ingimarsson, Björn Stefánsson og Þorvaldur Búason. Myndina tók Þorsteinn Sæmundsson

    Mig minnir að við höfum dæmt ógildar á annað þúsund undirskriftir, þær sem voru tvítaldar eða undirskriftir þeirra sem voru undir aldri. Og sumir fundust ekki á kjörskrá.  Það gat átt eðlilegar skýringar að menn skrifuðu tvisvar á lista, því að stundum héldu menn að listi hefði glatast og skrifuðu því aftur. Sömuleiðis kom það fyrir að menn  rituðu nöfn sín með öðrum hætti en þau voru skráð í kjörskrá. Oftast gátum við ráðið fram úr slíkum vandamálum, en það er þó hugsanlegt að einhver fullgild nöfn hafi ekki verið talin með. Við héldum eftir afriti á segulspólum og greindum frá því við málaferlin gegn andstæðingum okkar. Til þess lágu tvær einfaldar ástæður: við þurftum að geta sannað staðhæfingar okkar um þátttöku ef einhver vildi bera brigður á þær, og einnig var sá möguleiki fyrir hendi að frumritin, undirskriftalistarnir sjálfir, glötuðust fyrir slysni (í bruna, til dæmis) eða vegna aðgerða andstæðinganna. Við vissum um nokkur dæmi þess að einstakir listar höfðu verið rifnir og eyðilagðir, en vegna þess hvernig söfnunin var skipulögð, töpuðust undirskriftirnar sjaldnast því að sá sem ábyrgur var fyrir viðkomandi lista gat farið sama hringinn aftur og leyft fólki að skrifa á nýjan leik. Segulbandsspólurnar hafa alltaf verið vandlega varðveittar, og er svo enn. Þær hafa aldrei verið notaðar og gætu verið ónýtar nú þar sem líftími stafrænna gagna á segulspólum er ekki mjög langur, oft talinn um 10 ár, sérstaklega ef ekki er hreyft við spólunum.

    Ég tek lítið mark á hvers kyns undirskriftasöfnunum sem síðar hafa farið fram án þess að eftirlit væri með sama hætti og hjá okkur. Það verður að vinna þetta svona. Nú veit ég ekki hvort þetta yrði leyft samkvæmt nútíma tölvulögum, en ég fæ þó ekki séð ástæðu til annars. Mér fyndist það mjög neikvætt ef ekki má nota nútíma tækni til þess að koma lýðræðislegum sjónarmiðum á framfæri. Það mætti gera þetta allt í höndunum, en það er bara svo óskapleg vinna að menn myndu tæplega leggja það á sig."

Málaferlin árið eftir

    "Það sem á eftir fylgdi voru málaferli vegna þeirra ærumeiðinga sem við höfðum orðið fyrir, og það er hægt að segja margar sögur af því. Það að höfða mál var út af fyrir sig ákvörðun sem var vel ígrunduð. Okkur þótti mjög gróflega á okkur brotið og ég hefði aldrei búist við því að menn gætu hagað sér jafn svívirðilega eins og þeir gerðu. Þetta gekk svo langt að litlu strákarnir mínir tveir, annar fimm ára og hinn sjö ára, urðu fyrir aðkasti fullorðins fólks úti á götu. Það voru gerð hróp að þeim og sagt að pabbi þeirra væri vondur maður. Svipaða sögu heyrði ég frá einum félaga minna. [Sjö ára sonur Ragnars Ingimarssonar varð fyrir þessu líka.] En verstar voru þó svívirðingarnar sem birtust í Þjóðviljanum. Hann var helgaður þessu málefni dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, svo mikið þótti við liggja. Ég skal sérstaklega nefna þér eitt dæmi því það snertir þann "ágæta" mann sem þú minntist  á í símtali við mig, Svavar Gestsson. Hann var ritstjóri og ábyrgðarmaður  Þjóðviljans á þessum tíma. Ég hlustaði á útvarpsviðtal við Svavar daginn fyrir kosningarnar 1974, þar sem hann endurtók  mörg af þeim ærumeiðandi ummælum sem hann hafði áður viðhaft um forvígismenn Varins lands og fullyrti meðal annars að undirskriftasöfnunin væri ekki innlent framtak heldur gerð að undirlagi CIA, leyniþjónustu  Bandaríkjanna. Þetta var auðvitað gróf ásökun. En Svavar gekk skrefi lengra. Hann lýsti því yfir að þessi fullyrðing  væri ekki skætingur heldur rökstudd niðurstaða og hann hefði sannanir sem hann gæti lagt fram fyrir rétti. Hann fékk tækifæri til þess þegar við höfðuðum meiðyrðamál, því að fyrir Hæstarétti var hann minntur á ummælin og gefinn kostur á að standa við þau. Og veistu hvað Svavar Gestsson gerði? Hann sagði ekki neitt, bara þagði. Dómurinn var orðaður þannig að fullyrðingar Svavars stæðu öldungis órökstuddar. Þetta er maðurinn sem Siðfræðistofnun Háskólans ætlar að fá til sín til að ræða um "íslensk stjórnmál í ljósi lýðræðislegra stjórnarhátta, og einkenni stjórnmálalegrar umræðu hér á landi"!

    Mesti óhróðurinn var í Þjóðviljanum, en einnig mikið í Nýju landi, Stúdentablaðinu og fleiri blöðum. Það voru birtar af okkur háðsmyndir og okkur líkt við hunda, nasista og guð má vita hvað. Níðvísur fylgdu með. Stúdentar gengu svo langt að þeir kröfðust þess að mér og þremur öðrum forvígismönnum Varins lands, sem störfuðu við  Háskólann, yrði sagt upp störfum. Þarna var úr vöndu að ráða því að það var ekkert gaman fyrir háskólastarfsmenn að fara að lögsækja stúdenta við Háskólann. Við sem hlut áttum að máli skutum á fundi og niðurstaðan varð sú, að óska eftir því við Háskólaráð að það ávítti stúdentana [ritstjóra Stúdentablaðsins] fyrir framkomu þeirra og láta þar við sitja. En ef Háskólaráð skyldi af einhverjum ástæðum ekki vilja samþykkja það að ávíta stúdentana, þá yrðum við að stefna þeim eins og öðrum. Þessi fundur var haldinn í Norræna húsinu. Þegar þetta gerðist átti ég sjálfur sæti í Háskólaráði sem fulltrúi Félags háskólakennara og hlaut því að víkja af fundi þegar málið kom til umræðu. Það er skemmst frá því að segja að Háskólaráð hafnaði því að áminna stúdentana. Ég spurði einn af þeim, sem sæti áttu í ráðinu, hvers vegna þetta hefði orðið niðurstaðan. Hann sagði það vera sína skoðun að ef okkur þætti á okkur hallað, ættum við að fara í persónulegt meiðyrðamál, en ekki blanda Háskólanum inn í það. Þegar við svo fórum  í meiðyrðamál við stúdentana [ritstjóra Stúdentablaðsins], var þessi sami maður einn af þeim sem  hneykslaðist mest og skrifaði undir þessa orðljótu yfirlýsingu."  Þorsteinn sýnir mér skjal, undirritað af 152 mönnum (sjá hér). "Ef þú lest textann muntu sjá að þetta er ekkert annað en eintómar svívirðingar. Þetta er svo slæmur texti að þeir fengu ekki alla til að skrifa undir, af þeim sem þeir leituðu til. Það voru nokkrir sem skrifuðu undir annan texta, m.a. Jónas Kristjánsson, sem  var forstöðumaður Handritastofnunar. Frá þeim kom kurteislegt mótmælaplagg sem ekkert var við að athuga.*) Það sýnir bara að sumir áttuðu sig á því að þeim var ekki fært að skrifa undir svona orðaðan texta."
*) [Það var rangminni mitt þegar viðtalið var tekið að ekkert hefði verið athugavert við þetta síðara plagg. Að vísu var það mun hófsamlegra en 152-manna yfirlýsingin, en óhæfilega harðort engu að síður (sjá Varið land II, Þjóðviljinn 29. júní 1974, 4. grein). Til dæmis stendur þar að stefnendur hafi krafist fangelsisdóma fyrir ósæmileg ummæli í sinn garð. Þetta er öldungis fráleitt. Þótt krafist væri þyngstu refsingar, gat engum heilvita manni dottið í hug að íslenskir dómstólar kvæðu upp fangelsisdóma í þessum málum. Hvað 152-manna yfirlýsinguna snertir, þótti hún svo ósmekkleg að erfiðlega gekk að fá hana birta annars staðar en í Þjóðviljanum. Eftir starfsmanni ríkisútvarpsins var það haft, að engin setning hefði verið á þann veg að útvarpið treystist til að hafa hana orðrétt eftir.] 

Hér eru þekkt nöfn úr þjóðlífinu.

    Þorsteinn hlær. "Þú finnur mörg þekkt nöfn þarna. Það sem mér finnst undarlegt  er það að þarna eru menn sem ég hafði átt góð samskipti við og jafnvel talið á meðal minna vina. Ég fyrir mitt leyti skil ekki þann hugsunarhátt að geta skrifað undir svona plagg. Trúlega höfðu þessir menn enga tilfinningu fyrir því hvað það er að verða fyrir meiðyrðum eins og þeim sem við stefndum fyrir. Fyrir vana menn í pólitík eru svívirðingar daglegt brauð. Það hrín ekkert á þeim. En fyrir menn eins og mig og aðra sem ekki standa í pólitík daglega, er þetta mun alvarlegra. Maður finnur fyrir því þegar maður er sakaður um alls konar lygar og ósóma. Við litum svo á, að við værum í raun og veru að verja málfrelsið með því að segja að einhvers staðar væru mörk sem ekki mætti fara út fyrir. Við vorum ofsóttir fyrir það eitt að vilja leyfa þjóðinni að tjá hugsun sína í tilteknu máli. Það var ekki eins og við hefðum verið að espa menn upp með því að halda ræður eða reka áróður. Það var ekki fyrr en eftir að árásirnar hófust að við skrifuðum greinar til að svara þeim og hrekja ásakanirnar lið fyrir lið eins og nauðsynlegt var.

    Svo kom annar hópur á eftir. Það voru stofnendur svonefnds Málfrelsisjóðs sem átti að sinna því göfuga hlutverki að  styrkja þá sem höfðu svívirt okkur og standa straum af kostnaði og miskabótum vegna meiðyrðamálanna. Tilkynninguna um stofnun sjóðsins, sem birtist í dagblöðum, á ég innrammaða eins og þú sérð (sjá hér), alveg eins og 152-manna skjalið, en þessi plögg hanga ekki lengur uppi á vegg hjá mér, það er langt síðan ég tók þau niður. Ég held að margir þeirra sem stóðu fyrir þessu vildu ekki muna það í dag. Þegar upp var staðið voru dómarnir ekki þungir - allt of vægir að mínu mati. Þótt ummælin væru dæmd ómerk þá voru þetta engar miskabætur eða sektardómar sem orð var á gerandi. Það kom okkur þó ekki á óvart. Við gerðum okkur alltaf grein fyrir því að miðað við íslenskar réttarvenjur væru það ekki háar upphæðir sem við myndum sækja í miskabætur. Andstæðingarnir töluðu um einhverjar milljónir sem við ætluðum að sækja til manna. Lögmaður okkar, Gunnar Guðmundsson, taldi hins vegar að við myndum sleppa frá þessu sléttir. Ég held að það hafi farið mjög nærri lagi. Ef eitthvað var, þurftum við að greiða mismun úr eigin vasa.

    Tveir úr hópnum, báðir lögfræðingar, vildu ekki fara í mál, þeir Hörður Einarsson og Óttar Yngvason. Þeir sögðu sem svo að þeir nenntu ekki að eltast við marklausa menn og gerðu grein fyrir því opinberlega. Það getur vel verið að þeir hafi metið það rétt að það borgaði sig ekki að fara í málaferli vegna þess að það myndi gefa andstæðingum okkar tækifæri til að ráðast á okkur. Andstæðingarnir notuðu þetta óspart gegn okkur; málaferlin voru meira að segja farin að snúast um það að koma höggi á okkur. Lögfræðingur þeirra, Ingi R. Helgason, notaði þá aðferð. Það var eins og við værum sakborningarnir við yfirheyrslurnar. Þjóðviljinn birti dag eftir dag orðrétt upp úr réttarsalnum svör manna, með öllum endurtekningum, hiki, mismælum o.s.frv. til þess að hæðast að stefnendum. Þetta gat komið bjögulega út eins og við mátti búast, því að talað mál verður aldrei jafnskipulegt og ritað mál. Hvað sjálfan mig snerti, neitaði ég á endanum að svara öðru vísi en skriflega fyrir dóminum. En ég sé ekkert eftir því að hafa farið út í málaferlin. Ég tel að þeir sem andmæltu þeim, og sérstaklega þeir sem lögðu pening í það að styðja  níðfrelsið, eigi að skammast sín. Með níði er hægt að kæfa alla þjóðfélagsumræðu. Og þá eru menn komnir inn á þá línu sem Lenín kenndi: Að tilgangurinn helgi meðalið. Allt sem að þjónar byltingunni er leyfilegt og gott, sagði Lenín og dró engin mörk. Allt sem þjónaði málstaðnum var réttlætanlegt. Ég lærði það af þessu framtaki að þeir eru furðu margir sem hugsa á þennan hátt, miklu fleiri en mann grunaði."

Hvernig fjármögnuðuð þið starfsemi Varins lands?

    "Við söfnuðum peningum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Einnig var talsvert um það að fólk kæmi á skrifstofuna og legði fram peninga að eigin frumkvæði. Þótt það væru ekki stórar upphæðir, sýndi þetta hug þessa fólks. Við vorum viðbúnir spurningum um þetta efni og gættum þess  vandlega að gefa kvittun fyrir hverri greiðslu og bókfæra, þannig að allt væri í röð og reglu og tilbúið til endurskoðunar í lokin. Skýrsla löggilts endurskoðanda var lögð fram við málaferlin. Þar var ekkert að fela. Þarna voru engin skuggaleg framlög. Margir voru tilbúnir til þess að hjálpa okkur þannig að starfsemin gekk upp og við stóðum sléttir eftir. Allir reikningar voru borgaðir.  Í rauninni þarf engan að undra þótt við fengjum nægan fjárstuðning þegar í hlut átti málefni sem svo margir studdu. Og það var vissulega sérkennilegt að heyra efasemdir frá mönnum sem voru jafnframt tilbúnir að trúa því að Þjóðviljanum væri haldið uppi árum saman að meira eða minna leyti með peningum frá fátækum verkamönnum!"

Fenguð þið stuðning frá Morgunblaðinu vegna auglýsinga? 

    "Nei, við fengum engan slíkan styrk, og auglýsingar urðu reyndar stærsti útgjaldaliðurinn hjá okkur ef ég man rétt." [Þetta var ekki rétt munað. Athugun á reikningsuppgjöri sýnir að tölvuvinnslan var dýrust, en auglýsingar voru næststærsti liðurinn.]

 Skipulagning samtakanna

    "Starfsemin á Akureyri var alveg sjálfstæð. Áhugamenn þar, undir forystu Árna Bjarnarsonar og Bjarna Einarssonar, tóku það upp hjá sér sjálfir að opna skrifstofu, enda var þetta langt frá skrifstofu okkar í Reykjavík. Þeir voru svo í sambandi við okkur. Sem viðurkenning á þeirra þátttöku voru fyrrnefndir tveir  heiðursmenn að norðan með okkur í Alþingishúsinu þegar við afhentum undirskriftirnar. Það voru um það bil tvö þúsund manns sem söfnuðu á lista; menn gerðu þetta hver með sínu lagi og skiluðu til okkar. Listar voru að berast, jafnvel eftir að við lokuðum söfnuninni, en við urðum einhvers staðar að setja endapunkt. Þessi tala sem tilkynnt var, 55522 undirskriftir, hún er ekki alveg endanleg. Það lá á því að skila undirskriftunum.

    Annaðhvort komu menn á skrifstofuna eða hringdu og báðu um að fá senda lista. Við gátum ekkert vitað hvaða möguleika við hefðum á miðjum vetri að koma listum á afskekkta staði. Það var á valdi einstaklinga úti um allt land. Þetta var harðasti tími vetrarins. Ég get ekki svarað fyrir einstök byggðarlög eins og Strandasýslu, hverjar ástæðurnar voru fyrir lítilli þátttöku þar. Hugsanlegt er að þar hafi stuðningur verið með minna móti, En maður getur ekki treyst því að listarnir hafi komið fyrir augu hvers manns, svo að allar  vangaveltur um þetta efni eru út í bláinn."

 Sést það kannski eftir flokkslínum hverjir studdu Varið land?

    "Það er mín skoðun að fólk úr öllum flokkum hafi stutt undirskriftasöfnunina. Auðvitað var stuðningurinn eindregnastur frá sjálfstæðismönnum. En aðrir flokkar komu þarna líka við sögu. Ekki má gleyma 170 manna hópi framsóknarmanna sem ritaði undir stuðningsyfirlýsingu við undirskriftasöfnunina. Og mjög margir alþýðuflokksmenn voru þarna líka.Við vildum ekki segja frá einstökum nöfnum sem við sáum á listunum. En þarna gerðust skrýtnir hlutir. Við sáum stundum nöfn manna sem við töldum öruggt að væru alþýðubandalagsmenn. Og sums staðar úti á landi var þátttakan svo mikil að maður komst varla hjá því að draga þá ályktun að stuðningsmenn allra flokka hefðu sameinast að þessu sinni. Það var greinilegt að þetta fylgdi ekki fullkomlega flokkslínum, ekki einu sinni hjá alþýðubandalagsmönnum.  Svo voru á listunum nöfn þekktra manna sem við hefðum getað notað okkur í áróðursskyni. En við töldum ekki rétt að gera það. Því miður voru listarnir ekki hafðir nægilega vel til sýnis.  Það hefði verið æskilegt að sem flestir hefðu séð þá.  Við ræddum við nokkra alþingismenn eftir á, í sambandi við tilraunir okkar til að fá þinghelgi lyft af tilteknum alþingismönnum vegna meiðyrða. Þá fékk ég á tilfinninguna að þingmenn, hvar í flokki sem þeir stæðu, væru ekki allt of hrifnir af framtaki okkar. Stjórnmálamenn vilja ráða ferðinni, en þarna var komin upp hreyfing utan stjórnmálaflokka og án afskipta þeirra. Hver gat vitað nema þetta leiddi til nýs framboðs? Það sem þingmenn vilja helst að við gerum er að skila atkvæði í kosningum. Síðan eigum við bara að þegja. Þeir vilja vera í friði við að skipta kökunni. "Varið land" var framtak sem kom þeim öllum í opna skjöldu. Sjálfstæðisflokknum líka."

Voru forvígismenn VL í sambandi við ráðamenn meðan á undirskriftasöfnuninni stóð?

    "Ekkert fyrr en við afhentum undirskriftirnar. Og þú veist hvað þeir gerðu sama dag. Þeir gáfu út tilkynningu um að þeir myndu krefjast endurskoðunar varnarsamningsins með það fyrir augum að herinn færi úr landi ekki seinna en 1976. Þeir vissu það þegar þeir gáfu út þessa yfirlýsingu að málið var tapað. Þetta var sýndarmennska. Þeir gerðu þetta sama dag til þess að láta líta út fyrir að þeir tækju ekki mark á undirskriftunum, en vitaskuld var það blekking.

    Mjög lengi á eftir má segja að Samtök herstöðvaandstæðinga hafi verið dauð og grafin. Það getur verið að þau  séu að lifna við núna, þótt ég trúi því tæpast, því að þau eru tæknilega séð dauð vegna þess að það er búið að kveða niður þessa fullyrðingu eða tilfinningu sem samtökin voru að reyna að læða inn hjá fólki, að meirihluti landsmanna væri andvígur varnarliðinu. Eftir undirskriftasöfnunina var það búið spil. Allir sáu að staðreyndin var önnur en herstöðvaandstæðingar sögðu. Þeir hafa ekki lengur það bakland sem þeir treystu á. Þú mátt ekki misskilja mig. Það er til fólk sem er mjög einlægt, á móti öllu sem heitir hernaður, vill ekki koma nálægt því og telur að okkur sé best borgið með því að standa utan hernaðarbandalaga. Þetta er ákaflega falleg hugsjón, og fólk sem er friðarsinnar af því tagi, ég skil það út af fyrir sig mæta vel. En það lætur blekkjast ef það heldur að það sé mögulegt að hafa hér óvarið land. Ég man eftir því, að nokkrum árum eftir undirskriftasöfnun Varins lands skrifaði maður í Morgunblaðið og spurði mig hvaða álit ég héldi að Jón Sigurðsson hefði haft á atferli og málflutningi "Varins lands manna". Ég svaraði þessum góða manni með grein, þar sem ég tók upp úr skrifum Jóns Sigurðssonar um varnarmál þar sem hann segir að við eigum að hafa her til varnar í landinu svo að það sé "ekki uppnæmt fyrir einni hleypiskútu eða fáeinum vopnuðum bófum" eins og hann orðar það. Menn hafa bara ekki lesið Jón Sigurðsson! Í sömu grein minnti ég á, að Jón hefði líka lagt orð í belg um hófsamlegan málflutning. Hann sagði meðal annars: "Þegar menn hafa einungis fyrir augum að koma fram sínu máli með hverjum þeim brögðum sem verða má, og níða alla sem móti mæla, bæði leynt og ljóst, þá er málinu komið í illt horf, því þá má verða að sá hafi sitt mál sem verr gegnir og hrekkvísastur er eða illorðastur, einkum þegar við einfaldan almúga er að tefla ....".  Þessi orð hefðu andstæðingar Varins lands gjarnan mátt hugleiða.

    Þeir sem héldu því fram með grjótkasti á Austurvelli árið 1949 að við værum að fórna sjálfstæði okkar með því að ganga í Atlantshafsbandalagið, hvað segja þessir menn nú? Ég get aðeins sagt þér svar eins þjóðkunns manns [sjá nánar]sem var mjög virkur í andstöðunni við aðildina að NATO. Það var oftar en einu sinni vitnað í þennan mann í réttarhöldunum til að koma höggi á okkur. Þessi maður sagði við mig: "Já, við vorum hræddir við þetta, en reynslan hefur sýnt að þarna var ekki eins mikil hætta á ferðum og við héldum". Hann var búinn að sjá það. Enda sér hver einasti maður sem vill sjá, að þessar hrakspár, sem þá voru hafðar uppi, að búið væri að gera okkur að nýlendu Bandaríkjanna, þær hafa ekki ræst. Sem betur fer."

Hversu mikinn þátt átti undirskriftasöfnunin í því að vinstri stjórnin féll frá markmiðum sínum?

    "Spurningin er ekki rétt orðuð, því að vinstri stjórnin féll ekki frá markmiðum sínum, að minnsta kosti ekki opinberlega. Hún hélt sinni stefnu þar til slitnaði upp úr stjórnarsamstarfinu, aðeins sjö vikum eftir að undirskriftir Varins lands voru afhentar. En ég býst við að þú eigir við það, hvaða þátt undirskriftasöfnunin hafi átt í því að ráðamenn hættu við að láta herinn fara. Ég er sannfærður um að þar hafi söfnunin haft úrslitaþýðingu. Fyrir herstöðvaandstæðinga var taflið tapað um leið og undirskriftirnar komu fram. Sjálfstæðisflokkurinn tekur við forsæti ríkisstjórnar eftir mikinn sigur í kosningum, sem er að einhverju leyti að þakka stuðningi flokksins við undirskriftasöfnunina. Þá fyrst var skipt um stefnu í varnarmálunum. En ég held að það sé alveg sama hvaða ríkisstjórn hefði verið mynduð eftir kosningar, hún hefði aldrei látið sér detta í hug að framfylgja óbreyttri stefnu og láta varnarliðið fara. Ég get ekki sagt þér með fullri vissu hvað hefði gerst ef undirskriftasöfnunin hefði ekki verið framkvæmd. En ég er sannfærður um það að ríkisstjórnin ætlaði að láta herinn fara. Allt benti til þess og þjóðin trúði því líka. En í seinni tíð hefur því verið haldið því fram að framsóknarmönnum í vinstri stjórninni hafi ekki verið alvara, þeir hafi aldrei ætlað að láta herinn fara. Þetta hefur meðal annars komið fram í Reykjavíkurbréfum Morgunblaðsins. Ég mótmælti þessu í blaðagrein fyrir nokkrum árum. Við getum ekki fundið neitt í ræðu eða riti sem bendir til þess að ráðherrar Framsóknarflokksins hafi ekki meint það sem þeir sögðu. Ég skil ekki þá sem trúa betur vafasamri frásögn af einkaviðræðum manna heldur en öllum opinberum yfirlýsingum sömu manna."

 Nú talar Frederick Irving um að tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi verið "pro-base", væntanlega þeir Ólafur Jóhannesson og Einar Ágústsson.

    "Einar var hinn mætasti maður, og ég hef enga trú á því að hann hafi talað um hug sér í þessu máli. Hann taldi eflaust að hann væri að  framfylgja skoðun meirihluta þjóðarinnar þegar hann boðaði brottför hersins. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir hann þegar hann þurfti að fara aftur til Bandaríkjanna sem þátttakandi í nýrri ríkisstjórn og kynna þveröfuga stefnu. Hvað segja menn í einkaviðtölum? Hvað kann Einar að hafa sagt við sendiherrann? Er víst að sendiherrann hafi skilið hann rétt? Ég hef ekki hugmynd um það. Við höfðum aldrei samband við sendiherrann, og sendiráðið hafði aldrei samband við okkur. Ég var svolítið hissa, ég hefði búist við því að þeir hefðu kannski þann áhuga á þessu framtaki okkar að þeir hefðu a.m.k. þreifingar til að fylgjast með málum. En ef til vill hafa þeir  talið að það væri öruggara að hafa ekkert samband við okkur.

Kuldalegt tilsvar Ólafs Jóhannessonar við afhendingu undirskriftanna í Alþingi var ekki á þeim nótum að hann væri feginn að fá þessar undirskriftir sem stuðning við sína innri skoðun. Síður en svo. Ég frétti líka af öðrum viðbrögðum  Ólafs Jóhannessonar sem benda í öfuga átt við það sem þú varst að segja. Okkur bárust fregnir af því þegar Ólafur heyrði af þessari undirskriftasöfnun og hverjir stæðu að henni, þar á meðal Jónatan Þórmundsson, sem hafði verið virkur í Framsóknarflokknum. Þá hváði Ólafur og sagði: "Hann Jónatan okkar?" Hann var undrandi og að mér skildist hneykslaður.1)  Ef þeir Ólafur og Einar voru innst inni fylgjandi veru varnarliðsins, hvers vegna gripu þeir þá ekki tækifærið eftir undirskriftasöfnun Varins lands og breyttu um stefnu? Auðvelt hefði verið að rökstyðja slíka stefnubreytingu. Þess í stað gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um óbreytta stefnu. Ég hef enga ástæðu til að ætla að þessir menn, Ólafur og Einar, hafi leikið tveim skjöldum. Við skulum gefa þeim þá einkunn að þeir hafi verið einlægir í sinni framgöngu."

1)[Jónatan segist hafa heyrt söguna þannig að Ólafur hafi bætt við: "Og ég sem hélt að hann væri kommúnisti". Þegar þetta gerðist voru þrjú ár voru liðin frá því að Jónatan hætti þátttöku í Framsóknarflokknum.]

Hvað datt þér í hug þegar þú last Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins?

    "Þú átt við kenninguna um afstöðu framsóknarráðherranna til varnarliðsins. Ég hef þegar sagt að ég skil ekki þá sem halda þessu fram í alvöru.  En ég hef eina tilgátu. Þetta er mín persónulega skoðun sem ég get ekki sannað. Það er gott að vera vitur eftir á, og eftir á að hyggja er miklu betra að hafa verið með Vörðu landi en á móti því. Eftir á er engan veginn snjallt að hafa verið á móti veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Sjáðu hvað er að gerast úti í heimi; nú vilja allar þjóðir komast í bandalagið. Ekki til að láta hneppa sig í fjötra heldur til þess að fá vernd. Það er ekkert gaman að eiga þá fortíð að hafa verið að berjast á móti þessu. Þar að auki er sjálfsblekking algeng, og það er ekkert ótrúlegt að sumir þessara manna telji sér trú um að þeir og þeirra vinir hafi þrátt fyrir allt stutt undirskriftirnar."

Þið hljótið sem sagt að hafa verið ánægðir með útkomuna?

    "Auðvitað vorum við afskaplega ánægðir. Jafnvel þeir bjartsýnustu í okkar hópi höfðu ekki talið að við næðum  þessum árangri. Ég hefði verið fullkomlega ánægður með 5 til 10 þúsund undirskriftir. Slíkur fjöldi hefði vegið þungt, svo margar staðfestar undirskriftir kosningabærra manna. En 55 þúsund var  hreint og beint yfirgengileg tala, miklu meira en þurfti til  þess að sannfæra ráðamenn.

    Verkið dróst talsvert á langinn því að umfangið var  gríðarlega mikið. Mig minnir að við höfum ætlað að skila af okkur fyrir 1. mars, en í reynd tók úrvinnslan okkur heilan mánuð eftir að undirskriftasöfnuninni lauk og afhendingin fór ekki fram fyrr en 21. mars. Við höfðum varla undan, menn voru orðnir gjörsamlega úrvinda. Eftir á að hyggja var þetta ógleymanlegur tími, og ég held að allir sem stóðu að þessu séu stoltir af framtakinu. En þetta kostaði mikla fyrirhöfn og er nokkuð sem ég held að eigi aldrei eftir að gerast aftur. Ef við hefðum gert okkur grein  fyrir því hvað þetta var gríðarlegt verk, er ég ekki viss um að við hefðum lagt út í þetta. En fólkið streymdi að og vildi koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Því var ofboðið vegna áróðursins sem var búið að reka. Það er hægt að reka áróður sem gengur fram af fólki. Það skrýtna er að stjórnmálamennirnir skildu þetta ekki. Þeir voru farnir að trúa áróðrinum, jafnvel í Sjálfstæðisflokknum.

    Ég er afar ánægður með að hafa verið virkur þátttakandi í þessu. Þetta er eina pólitíska framtak mitt að heitið geti. Á þessum tíma stafaði okkur mikil hætta af stórveldinu í austri eins og skjöl hafa staðfest eftir fall Berlínarmúrsins. Austur-Þjóðverjar voru meira að segja búnir að smíða orðurnar sem átti að veita þegar Varsjárbandalagið legði undir sig Vestur-Evrópu."

Hvert er sögulegt mikilvægi Varins lands?

    "Þessu er náttúrlega erfitt að svara því að maður sér ekki hver þróunin hefði orðið ef við hefðum á þessum tíma látið herinn fara og sagt okkur úr Atlantshafsbandalaginu. Ég get ekki spáð í það, en við hefðum verið í mjög hættulegri stöðu. Við erum svo fámenn þjóð og vopnlaus að það er lítið mál ná hér yfirtökum, sérstaklega ef á meðal okkar eru svo ófyrirleitnir menn að þeir eru tilbúnir til þess að gera hvað sem er til að ná markmiðum sínum. Það þarf heldur ekki nema eina flugvél til þess að hertaka Ísland. Það sem Jón Sigurðsson sagði um eina skútu, stendur enn. Við höfum lengi búið við þau forréttindi að geta látið aðra sjá um varnir okkar. Að þurfa ekki að kosta neinu til og geta notið okkar lýðræðis ef svo mætti segja undir verndarvæng stórveldis sem hefur engan áhuga á því að kúga okkur. Stórveldis sem nýtir ekki einu sinni þá aðstöðu sem það fær þegar Sovétríkin, helsti andstæðingurinn, hrynja. Við höfum svo sannarlega verið heppin. Það er ekki oft sem stórveldi eru svo góðviljuð eða afskiptalaus.

    En sögulegt mikilvægi Varins lands er ekki síður fólgið í þeirri staðreynd, að undirskriftasöfnunin opinberaði sannleikann í máli sem miklu varðaði íslenska þjóð. Lygin er eitthvert mesta bölið í mannlegum samskiptum, hvort heldur er persónulegum eða pólitískum. Hver sigur gegn henni, þótt hann sé aðeins áfangasigur, er skref í rétta átt og hefur áhrif um ókomna framtíð."

(Sett á vefsíðu 12. janúar 2008. Síðast breytt 9. 4. 2019)


Blaðagreinar sem snerta Varið land - sjá hér.

Athugasemdir við blaðagreinar - sjá hér.

Stefnur og dómar - sjá hér.

Afskipti norrænna rithöfunda - sjá hér

Villur í Wikipediu - sjá hér.

Afmæli Varins lands - sjá hér.


Forsíða