Varið land - villur í Wikipediu

    Í alfræðiritinu Wikipediu er að finna margháttaðar gagnlegar upplýsingar. Þeir sem þangað leita verða þó að hafa hugfast að þar geta slæðst inn villur því að ekki eru allir jafn aðgætnir sem setja efni á vefinn. Í textanum um Varið land, sem undirritaður rakst á, stendur sitthvað sem lagfæra þyrfti. Þar stendur m.a.:

 "en herstöðvaandstæðingar gagnrýndu forgöngumenn undirskriftasöfnunarinnar harkalega fyrir að neita að taka þátt í umræðum um hana."

Ekki er minnst á aðra gagnrýni en þessa. Hið rétta er að forgöngumennirnir voru fyrst og fremst gagnrýndir fyrir sjálfa undirskriftasöfnunina, sem andstæðingarnir töldu óþjóðlega starfsemi. Hitt var smámál og auðskýrt, eins og fram kemur í viðtali sem er fyrsti liður í heimildalista Wikipediu.

Birtur er listi yfir forgöngumenn Varins lands. Þar er Ragnar Ingimarsson sagður forstjóri Happdrættis Háskólans, en þá stöðu fékk hann ekki fyrr en löngu síðar (1990). Þorvaldur Búason er titlaður prófessor, en hann var stundakennari við Háskóla Íslands. Þá er Björn Bjarnason "alþingismaður" sagður hafa tekið virkan þátt í söfnuninni. Björn varð ekki þingmaður fyrr en mörgum árum síðar (1991). Hann var mjög áhugasamur um söfnunina og studdi hana dyggilega, en það er ekki sanngjarnt og í rauninni villandi að nefna hann einan til sögunnar á þessum stað í ljósi þess hve margir þeir voru sem léðu söfnuninni lið í sjálfboðavinnu. *)

Þorsteinn Sæmundsson

*) 13.12. 2011. Listinn yfir forgöngumenn hefur verið lagfærður.

Sett á vefsíðu 3. september  2008. Viðbót 13. des. 2011

Forsíða