Í yfirliti um blaðagreinar sem snerta Varið land (sjá Varið land II) segir frá gagnrýni norrænna rithöfundasamtaka á málferli Varins lands í september 1974, sem m.a. varð tilefni forsíðufréttar í Þjóðviljanum 2. október það ár. Þessi afskipti norrænna samtaka voru að tilstuðan eins hinna stefndu, Sigurðar A. Magnússonar, formanns Rithöfundasambands Íslands. Til að rekja frekar þá atburðarás sem fylgdi þessum afskiptum skal hér birt frétt Morgunblaðsins frá 24. september 1975 þar sem segir frá greinargerð forvígismanna Varins lands til Norræna rithöfundasambandsins. Einnig bréf forvígismannanna til norska rithöfundafélagsins, dags. 25. október 1975. Til skýringar fylgir minnisblað frá Þór Vilhjálmssyni sem hann sendi samstarfsmönnum í janúar 1976. Minnisblaðið ber það með sér að Þór hefur séð um að semja bréfið til norska félagsins. Þ.S. 7. apríl 2019. |