Blaðagreinar sem snerta Varið land  

     Á sínum tíma var mikið ritað í dagblöð um undirskriftasöfnun Varins lands, bæði af hálfu fylgismanna söfnunarinnar og þó einkum af hálfu andstæðinga hennar. Til þess að lesendur geti áttað sig á umfangi þessara skrifa er hér birtur listi yfir þær greinar sem forgöngumenn undirskriftasöfnunarinnar héldu til haga og varðveist hafa með vinnuplöggum Varins lands. Við lestur listans er líklegt að spurningar vakni, sérstaklega hjá hinum yngri lesendum sem ekki þekkja til málavaxta. Verður því reynt að bæta við nánari skýringum þegar færi gefst. Þótt listinn sé langur er hann ekki tæmandi. Tekin eru sýnishorn úr sumum greinanna, en engin tilraun gerð til að tíunda öll stóryrði sem þar er að finna.


Tíminn 3. jan. 1973. SUF síðan. "Ríkisstjórnin stendur eða fellur með brottför hersins". Brottför hersins var lögð undir dóm þjóðarinnar við alþingiskosningarnar 1971 og sigraði. Allir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn höfðu það helsta mál í afstöðu sinni til utanríkissamskipta. Trausti kjósenda getur ríkisstjórnin ekki brugðist. Forystumaður eins stjórnarflokksins hefur lýst því yfir að brottför hersins sé ein af meginstoðum stjórnarsamstarfsins. Langlíf ríkisstjórnarinnar er því háð því að staðið verði við þetta ákvæði. Baráttan fyrir brottför hersins er því um leið barátta fyrir langlífi ríkisstjórnarinnar.

Tíminn 7. janúar 1973. "Þjóðaratkvæðagreiðsla um herstöðvamálið". Grein eftir Alfreð Þorsteinsson þar sem hann hvetur til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en gripið verði til róttækra aðgerða í herstöðvamálinu eins og t.d. forystumenn SUF krefjist. Einar Ágústsson hafi lýst yfir vilja til að endurskoða varnarsamninginn. Slík endurskoðun sé áreiðanlega að vilja þorra Íslendinga. En engin ákvörðun verði tekin fyrr en að könnun varnarmálanna sé lokið.

Tíminn 20. jan. 1973. Staksteinar: "Málefnasamningurinn og brottför hersins". Vitnað er í greinar Alfreðs Þorsteinssonar sem lýsi áreiðanlega sjónarmiðum meginþorra framsóknarmanna. Hann bendi á að frekja og yfirgangur herstöðvarandstæðinga á flokksþingum hafi valdið því að menn hafi freistast til að samþykkja ályktanir um brottför varnarliðsins. Alfreð bendi á að varnarmálin hafi ekki verið rædd í kosningabaráttunni, þess vegna sé ekki hægt að setja þau á oddinn nú. Þetta sé rétt, enda hefðu úrslit kosninganna orðið önnur ef varnarmálin hefðu verið í brennidepli. Ráðherrar flokksins hafi nú mótmælt túlkunum SUF í málinu, og það sýni ótvírætt að hvorki Ólafur Jóhannesson né Einar Ágústsson ætli sér að standa við ákvæði málefnasamningsins. Að vísu sé erfitt að finnna opinber ummæli þessara ráðherra sem beinlínis túlki þessa skoðun.

Morgunblaðið 20. jan. 1973. "Út í óvissuna". Grein eftir Baldur Guðlaugsson þar sem hann varar við kröfum um brottför varnarliðsins. Þriðja grein Baldurs um öryggismál Íslands.

Tíminn 21. jan. 1973. "Þetta eru aðeins könnunarviðræður".Sagt frá för Einars Ágústssonar til Bandaríkjanna til viðræðna um öryggis- og varnarmál, til undirbúnings þess að síðar verði látið reyna á ákvæðin um endurskoðun varnarsamningsins.

Tíminn 23. janúar 1973. "Vesturför utanríkisráðherra". Forystugrein. Vitnað er í ályktun á flokksþingi Framsóknarflokksins 16.-21. apríl 1971 þar sem segi ..."Samkvæmt þessum fyrirvara og í samræmi við fyrri yfirlýsingar vill Framsóknarflokkurinn vinna að því að varnarliðið hverfi úr landi í áföngum". Í málefnasamningi núverandi ríkisstjórnar segi m.a.: "Varnarsamningurinn við Bandaríkin skal tekinn til endurskoðunar eða uppsagnar í því skyni að varnarliðið hverfi frá Íslandi í áföngum. Skal að því stefnt að brottför liðsins eigi sér stað á kjörtímabilinu". Það sé í samræmi við framangreindar stefnuyfirlýsingar sem utanríkisráðherra hefji nú viðræður við Bandaríkin um varnarmálin.

Morgunblaðið 1. febr. 1973. "Spá Völvunnar". Grein eftir Kristján Albertsson þar sem hann varar við varnarlausu landi.

Þjóðviljinn 11. júlí 1973. "Vanmáttur eða styrkur". Forystugrein í tilefni af erindi Þorsteins Sæmundssonar um landhelgismálið. "Kenning Morgunblaðsins sem flutt var af miklum þunga af Þorsteini Sæmundssyni stjörnufræðingi í útvarpserindi á dögunum er sú að Watergatemálið "beri vott um styrk bandarísks stjórnkerfis"".

Þjóðviljinn 18. júlí 1973. "Stjörnufræðingurinn og stjórnmálin." Grein eftir Sverri Kristjánsson um sama mál."Þegar dúxinn er kominn út fyrir hið friðhelga svæði skólanna og gengur út á paðreim hins hversdagslega lífs, verður það oftar en ekki að skóladúxinn verður fúx, neðstur á tossabekk tilverunnar. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur hefur hlotið þessi ömurlegu örlög."

Morgunblaðið 21. júlí 1973. "Hverjir hafa skert sjálfstæði Háskóla Íslands". Grein eftir Jónatan Þórmundsson þar sem hann fjallar um ályktun Stúdentaráðs H.Í sem birtist í Tímanum 19. júlí og 20. júlí. Þar var talað um "tilræði Þorsteins Sæmundssonar og félaga við SHÍ".

Morgunblaðið 16. nóv. 1973. "Varnir Íslands. Er aðild að NATO næg vörn?" Grein eftir Styrmi Gunnarsson þar sem hann deilir á málflutning Þórarins Þórarinssonar og Magnúsar Kjartanssonar.

Morgunblaðið 23. des. 1973. "Afstaða Steingríms". Kafli úr Reykjavíkurbréfi. "Fyrir nokkrum dögum fór Steingrímur Hermannsson alþingismaður á fund hinna svonefndu Samtaka herstöðvarandstæðinga þar sem hann lýsti því yfir að hann teldi að gera ætti landið varnarlaust á næstu árum. Orðrétt hefur Þjóðviljinn þetta eftir Steingrími: "Ég vil leysa þetta mál á þann hátt að herinn fari en núverandi ríkisstjórn sitji."

Morgunblaðið 28. des. 1973. "Viðræður um varnarmálin um miðjan janúar." Frétt. "Frestur sá sem, veittur er samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna um endurskoðun samningsins rann út á jóladag, svo sem kunnugt er. Samningsumleitunum milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna er ekki lokið enn og samkvæmt upplýsingum Einars Ágústssonar utanríkisráðherra verður þeim fram haldið um miðjan janúar..."

Morgunblaðið 3. jan. 1974. "Þjóðhátíðarárið efli heilbrigðan þjóðarmetnað og sjálfstæða dómgreind." Áramótaræða Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra. ..."Viðræður við Bandaríkjamenn um endurskoðun varnarsamningsins eru byrjaðar. Þeim verður haldið áfram með eðlilegum hætti eftir áramótin, og þá auðvitað með það markmið fyrir augum sem í málefnasamningi stjórnarflokkanna segir. Náist eigi viðunandi niðurstaða í þeim endurskoðunarviðræðum verður leitað eftir heimild Alþingis til uppsagnar samkvæmt ákvæðum samningsins."

Morgunblaðið 16. jan. 1974. "Undirskriftasöfnun gegn uppsögn varnarsamningsins." Sagt frá blaðamannafundi þar sem tilkynnt var um undirskriftasöfnun Varins lands og yfirlýsing forgöngumanna birt.

Þjóðviljinn 16. jan. 1974.

1) "Bandaríkjalepparnir á stjá: Krefjast varanlegs hernáms í undirskriftasöfnun."

2) "Stundar pólitískt heimatrúboð á elliheimili". Sagt frá undirskriftasöfnun á Hrafnistu um ævarandi hernám Bandaríkjamanna á Íslandi. Þrír hafi skrifað undir.

Þjóðviljinn 17. jan. 1974.

1) "Víxlinn frá Watergate". ..."Aðeins eitt varð til að gleðja hinn aðþrengda forseta Bandaríkjanna þann dag sem þessi frétt barst út um heiminn og hann stóð uppi afhjúpaður og rúinn trausti þjóðar sinnar. Honum barst skeyti frá Íslandi. Þrettán menn tilkynntu að einmitt nú vildu þeir sverja forseta Bandaríkjanna, hugsjónum hans og hernaðarvél, ævarandi trú og hollustu. Yrði hinn mikli forseti dæmdur í tugthús færu þeir í tugthúsið með honum eins og trúir rakkar fylgja húsbændum sínum í dauðann..."

2) "Enn um Jörund konung". Pistill undirritaður "dþ". þar sem segir m.a.: "Íslenskum hernámssinnum hæfir því sama kveðjan og Þorsteinn Erlingsson sæmir hliðstæðar undirlægjur í kvæðinu um Jörund konung: ....en gott var þú fékkst ekki flokk þann að sjá, sem færði hér Jörundi níð: þér hefði orðið bumbult (svo!) að horfa þar á, svo hundflatan skrælingjalýð." Fyrir ofan er birt mynd Morgunblaðsins af forvígismönnum VL með fréttinni um undirskriftasöfnunina.

3) "Árás á ríkisstjórnina". Ritstjórnargrein um undirskriftasöfnunina. Þar segir m.a. "Útburðurinn er greinilega skriðinn undan Mogganum sínum eins og fyrri daginn, uppvakinn af áróðri óþjóðlegasta blaðsnepils í heimi. Tilgangurinn er sá að tryggja hermangsgróðanum áframhaldandi umsvif í landinu; enginn þarf að efast um að forustusauðirnir í þeirri hjörð sem Bandaríkjamenn hafa komið sér upp á Íslandi að undanförnu fá ríkuleg verkalaun. Fyrir hvern og einn sem þeim tekst að fá til að skrifa undir plaggið hækkar metorðasúlan í Washington og dollurum verður dreift á garðinn...."

Þjóðviljinn 18. jan. 1974.

1) "Votergeit-víxillinn". Grein eftir Einar Braga með ummælum sem síðar var stefnt fyrir.

2) "Þá ertu líka kommúnisti". Frétt um undirskriftasöfnunina þar sem sagt er að vafasömum aðferðum sé beitt til að fá fólk til að skrifa undir.

3) "Hugmyndir um herstöðvaflutninga". Pistill undirritaður "úþ" þar sem segir að nýtt líf hafi færst í gleðikonuhugsjón íslensku borgarastéttarinnar vegna ætlunar stjórnarinnar að reka herinn burt af landinu. Enn fremur er rætt um grein Valdimars Kristinssonar og Sigurðar Líndal í Mbl. þar sem lagt var til að herstöðin yrði flutt norður á Melrakkasléttu.

4) "Sú þjóð sem löngum átti ekki í sig brauð..." Ritstjórnargrein um undirskriftasöfnunina. Þar segir m.a.: "Þess vegna etja forráðamenn Sjálfstæðisflokksins nú á foraðið sínum óhreinustu börnum - Votergeitdeildinni...".

Þjóðviljinn 19. jan. 1974.

1) "Votergeitvíxill og nasistakveðja á barnum á Óðali". Ófagrar lýsingar á aðferðum við undirskriftasöfnunina.

2) "Sjálfboðaliðar til sköffunar á aðhlátursefni". Illyrt grein undirrituð "úþ" með ummælum sem síðar var stefnt fyrir.

3) "Atvinnukúgun". Ritstjórnargrein um undirskriftasöfnunina þar sem fram koma ásakanir um að forstjóravaldi hafi verið beitt við söfnunina.

Þjóðviljinn 20. jan. 1974. "Fíflum att á foraðið". Afar illyrt grein undirrituð "Dþ" um undirskriftasöfnunina. Ummæli sem stefnt var út af.

Þjóðviljinn 22. jan. 1974.

1) "Þannig eru "rök" herstöðvasinna". Ritstjórnargrein sem hefst þannig: "Samþykkjendur Votergeitvíxilsins hafa farið hamförum undanfarna daga. Hefur alls konar þvingunum og fortölum verið beitt til þess að fá fólk til að skrifa undir endemisplagg þetta." Síðan eru ræddar "höfuðröksemdir herstöðvasinna" og þeim andmælt. "...Hernám hugarfarsins hefur breiðst óhugnanlega út þó enn sé ljóst að meirihluti þjóðarinnar er andvígur hersetunni..." "...Ríkisstjórn Íslands fjallar nú um það tilboð sem gera eigi Bandaríkjamönnum, en það tilboð getur samkvæmt stjórnarsáttmálanum hljóðað upp á það eitt að herinn eigi að fara úr landinu...."

2) "Hetjusamtökin "Varið land". Þora ekki að ræða herstöðvamálið. Sagt að fulltrúi "Varins lands" hafi skorast undan því að mæta á fund Skólafélags Iðnskólans.

3) "Lengi getur vont versnað". Frétt um að hjúkrunarkona af taugadeild Landspítalans hafi hringt og sagt að "frumherjar félagsskaparins VARIÐ LAND hefðu í gær gengið um meðal sjúklinga og beðið um uppáskrift á víxilinn..." Á Elliheimilinu Grund "væri jafnt fólki með fullri rænu sem rænulausu boðið að skrifa upp á."

4) "Meirihluti á fundi sem "Varið land" boðaði: Krefst brottfarar hersins - fordæmir undirskriftasöfnun." Sagt frá fundi sem VL boðaði fyrir stuðningsmenn á Hótel Sögu en hernámsandstæðingar reyndu að hleypa upp. Sagt er að 356 manns á fundinum hafi undirritað kröfu um brottför hersins.

Þjóðviljinn 23. jan. 1974. "Hvað gerðist á Sögufundinum? Frásögn Þjóðviljans rétt". Frásögn tveggja fundarmanna þar sem mótmælt er "villandi fréttaflutningi Morgunblaðsins og útvarps af fundi samtakanna Seljum landið á Hótel Sögu í fyrrakvöld".

Nýtt land 24. jan. 1974. "Varnarmálin". Ritstjórnargrein um uppsögn varnarsamningsins. Minnst er á Varið land og sagt "Er ágengi þessara manna og smekkleysi slíkt að þeir leita jafnvel eftir stuðningsmönnum sínum með því að fara með lista inn í barnaskóla landsins, opinberar stofnanir og sjúkrahús. Mun sjálfstæðisbarátta af þessu tagi vera eindæmi í sögu þjóðarinnar."

Þjóðviljinn 24. jan. 1974.

1) "Enginn vildi ljá víxlinum nafn". Sagt frá undirskriftalista sem legið hafi óútfylltur á skrifstofu Ungmennafélags Íslands. Sagt er að Ludvig Storr hafi plantað víxlinum í aðalstöðvar ungmennasamtakanna. "Þetta er glöggt dæmi um þá ósvífni sem senditíkur Sjálfstæðisflokksins og annarra hernámssinna beita í hernámstilbeiðslu sinni."

2) "Halastjarna-stjörnuhrap. Þeir fylgja húsbónda sínum í fallinu". Teikning sem sýnir Nixon í falli með VL menn á eftir sér.

Þjóðviljinn 25. jan. 1974.

1) "Forstjóravaldinu beitt vegna Votergeitvíxilsins". Sagt að deildarstjóri á tollstjóraskrifstofum hafi haft forustu um að undirmenn skrifuðu undir, að starfsmaður á sjúkrahúsi hafi gengið á sjúkrastofur, og að "víxillinn" hafi legið til undirskriftar á skrifstofu Haralds Böðvarssonar á Akranesi og menn beðnir um að kvitta um leið og þeir kvittuðu fyrir kaupinu sínu.

2) "Herstöðvafundur SHÍ í kvöld. Seljendur Votergeitvíxilsins lögðu ekki í kappræðuna."

Þjóðviljinn 25. jan. 1974. "Lítið gleður vesælan". Ritstjórnargrein þar sem mótmælt er ummælum Morgunblaðsins um slæmt orðbragð Þjóðviljans í garð VL. Talað er um Votergeitdeild Sjálfstæðisflokksins og Votergeitvíxilinn.

Þjóðviljinn 26. jan. 1974.

1) Yfirlýsing frá Ludvig Storr um að hann hafi engan þátt átt í að undirskriftalisti var á skrifstofu UMFÍ. Hins vegar hafi hann sjálfur fúslega skrifað undir.

2) "Athugasemd við yfirlýsingu" Ludvigs Storr. Þjóðviljinn viðurkennir mistök, en það hafi verið nánasti erindreki Ludvigs sem þarna var á ferð. "Náið er nef augum, og væntanlega veit kaupmaðurinn hvað einkaritarinn aðhefst í vinnutímanum".

3) "Falsrök Jóns Skaftasonar". Einar Bragi mótmælir grein Jóns Skaftasonar alþingismanns í Tímanum 23. jan. og telur fráleitt að "mikill meirihluti Íslendinga..... aðhyllist öryggisstefnu íhaldsins: erlenda hersetu á Íslandi og aðild að hernaðarbandalaginu Nató". "Eins og allir mega sjá er brostinn óstöðvandi flótti í lið hersetumanna."..."Votergeitvíxlarnir (svo!) eru með sína hreintrúarsöfnuð."

4) "Varið land". Elínborg Kristmundsdóttir skrifar í Bæjarpóstinn og hneykslast á undirskriftasöfnuninni. Telur ástæðu til að kanna "hverskonar mannleg afbrigði það eru sem standa fyrir því að gjöra Íslendinga og allt sem íslenskt er að alheimsathlægi."

5) "Yfirmenn misbeita aðstöðu sinni." Dagsbrúnarverkamaður skrifar í Bæjarpóstinn og segir að yfirmenn í tveimur ríkisreknum stofnunum, Fiskifélagi Íslands og Áburðarverksmiðjunni, hafi gengið um með víxilinn og "misbeiti aðstöðu sinni til þess að safna nöfnum undir landráðavíxil hernámssinna".

Stúdentablaðið 25. jan. 1974. "Ameríkanasleikjur komnar á stjá. Nú á að safna undirskriftum. Fjórir kennarar við Háskóla Íslands afhjúpa sig." Ýmis ummæli sem stefnt var út af. Háðmynd af fjórum háskólamönnum VL í líki landvætta.

Þjóðviljinn 27. jan. 1974.

1) "Skrifið undir, skrifið undir". Pistill undir heitinu "Satt best að segja". Þar segir m.a. "Nú hafa liðsoddar þessa safnaðar á Íslandi farið á kreik og hafið allsherjar undirskriftasöfnun til að ganga erinda þess erlenda hervalds sem hér hefur dvalið, reyna að koma í veg fyrir að því verði nú vísað úr landi og fullnægja um leið sínum pólitísku hneigðum og spillta hugarfari.... Alla aðra hernaðarsinna í landinu bið ég að muna eftir listanum því að þegar "loksins" Rússarnir koma gæti verið gagnlegt að hafa söfnuðinn skrásettan."

2) "Það verður fróðlegt flokk þann að sjá". Ritstjórnargrein. Þar segir m.a. "Dæmi um svona fólk er frúin sem Morgunblaðið sagði frá sigrihrósandi 19. janúar að sendimenn þess hefðu hitt á skrifstofu Votergeitvíxlaranna og kvaðst mundu fylgja bandaríska hernum frá Íslandi yrði hann að fara þaðan... En máske verður það ekki bara frúin á Votergeitskrifstofunni og hennar líkar sem bregða á það ráð að axla sín skinn og fylgja verndurum sínum úr landi, heldur líka stærri spámenn. Það verður fróðlegt flokk þann að sjá..." Sagt er frá tillögu á Bandaríkjaþingi um að skera niður herafla Bandaríkjamanna erlendis..."Það þarf víst ekki að benda neinum á hvorum megin Geir Hallgrímsson og Þorsteinn Sæmundsson stæðu í þessum deilum á Bandaríkjaþingi, ættu þeir þar atkvæði, - auðvitað Votergeitmegin."

3) "Ferðasaga Votergeitvíxils". Þ.K. á Selfossi skrifar og birtir mynd af undirskriftalista: "Þetta er fyrsti Votergeitvíxillinn sem birtist austanfjalls og brunaði um Selfoss og Flóa. Menn skrifa nöfn eiginkvenna sinna á listann, en hvar er umboðið". "Frétt hef ég að sumir menn skrifi sig á marga lista, og er þannig auðvelt að fylla út mörg blöð með slíkri aðferð". "Einn... sem dreifir nú þessum víxli sagði við mig: "Það er ekkert að marka svona undirskriftasöfnun. Það er hægt að fá fólk til að skrifa undir hvað sem er."...."Hvað getur sami maður skrifað sig oft á listann? Getur ekki hver sem er skrifað einhvern Pétur eða Pál á þennan lista?"

Þjóðviljinn 29. jan. 1974.

1) "Hinir læðast með veggjum". Ritstjórnargrein um fundahöld samtaka herstöðvandstæðinga, sérstaklega fund í Háskólabíói (27. jan.) þar sem nærri fjögur þúsund manns hafi komið og hundruð þurft frá að hverfa. Herstöðvasinnar læðist hins vegar með Votergeit-víxla með veggjum. "...margir þeirra vita sem er að málefnið þolir ekki dagsljósið..."

2) "Hvað er frétt?". Önnur ritstjórnargrein þar sem kvartað er yfir því að fréttastofa sjónvarps hafi ekki sagt frá fundinum í Háskólabíói strax á sunnudagskvöld eftir að fundurinn var haldinn.

3) "Votergeitvíxillinn spillir mannfagnaði í Mývatnssveit". Grein eftir "Starra í Garði" þar sem undirskriftalistinn er kallaður "landráðaskjal".

4) "VL-fólk og vestræn samvinna". Grein eftir Guðstein Þengilsson lækni sem talar um "samblástur nokkurra auðnuleysingja" sem "færi nú fram sem ákafast bænaskrár sínar fyrir varanlegum herstöðvum."

Þjóðviljinn 30. jan. 1974. "Meinlokur". Grein eftir Árna Björnsson þar sem hann vísar til "hinnar smánarlegu undirskriftasöfnunar" sem byggist á sjúklegri hræðslu við Rússagrýlu og Finnlandiseringu. Talað er um ábekinga Votergeitvíxilsins sem séu kaghýddir langt fram í ætt.

Þjóðviljinn 31. jan. 1974.

1) Sagt er frá fundi sem félag ungra jafnaðarmanna hafi boðað til um herstöðvamálið. Forgöngumenn Varins lands hafi neitað að senda fulltrúa á fundinn en vísað á Varðberg eða Samtök um vestræna samvinnu. Síðan segir að Magnús Þórðarson, starfsmaður NATO á Íslandi hafi verið á fundinum og svarað fyrirspurnum. Svavar Gestsson hafi og tekið til máls og bent á að maður á launaskrá hjá NATO ætti ekki að gerast talsmaður íslenskra samtaka á slíkum umræðufundum. "Einnig var á það bent að þar sem Varið land vísaði á fulltrúa þennan í sinn stað væru augljós tengsl milli undirskriftasöfnunar VL-13 og NATO. Þeir sem eitthvað þekktu til vinnubragða bandarísku leyniþjónustunnar gætu sagt sér sjálfir hvernig slíkt er skipulagt á hennar vegum."

2) "Amerískir íslendingar". Viðtal við Helga Sæmundsson, miðstjórnarmann í Alþýðuflokknum. Helgi er ósammála afstöðu þingflokks Alþýðuflokksins sem hafði lýst yfir stuðningi við stefnu Varins lands.

3) "Þorðu ekki að ræða við blaðamann". Sagt frá því að "tveir erindrekar hernámssinna", þeir Þór Vilhjálmsson og Jónatan Þórmundsson, hefðu verið á ganginum fyrir utan Mímisbar á Hótel Sögu. Þeir hefðu neitað blaðamanni Þjóðviljans um viðtal, og að sögn hefði enginn komið til að skrifa undir lista.

4) "Mogginn lýgur og ekki í fyrsta sinn". Guðmundur Magnússon fjallar um frásögn Mbl. af fundi Varins lands á Hótel Sögu.

5) "Nöfn aldraðra véluð inn á Votergeitvíxilinn". Sagt frá því að kona hátt á áttræðisaldri hafi verið blekkt til að rita nafn sitt á víxilinn. "Fjölmörg nöfn á Votergeitvíxlinum eru véluð á hann á fölskum forsendum eins og þetta dæmi sýnir. Algengt er að menn skrái nöfn annarra á víxilinn og má ljóst vera að slík nafnasöfnun er markleysa."

Nýtt land 31. jan. 1974.

1) "Leyfi til að berjast hér frítt". Aðsent bréf frá Benjamín V. Ólafssyni. "Það er sagt að þeir sem fá gullæði tapi dómgreind sinni. Ætli það sé ekki svipað með þá sem fá dollaraæði.... Ísland hefur aldrei átt óvini nema þá Íslendinga sem eru og hafa verið illa við föðurlandið. Mig dreymdi nýlega að ég sæi í sjónvarpinu nokkra menn og mér var sagt að þeir væru úr fylgdarliði morðingjans og föðurlandssvikarans Gissurs Þorvaldsonar jarls..."

2) "Það er reginmunur á þjóðaratkvæðagreiðslu og skoðanakönnun". Þátturinn "Í vikulokin". "Allir tilburðir til að hafa áhrif á þingmenn með því að standa fyrir undirskriftasöfnun eru hrein áróðursstarfsemi..."

3) "Það gerist aldrei hér? Tékkóslóvakía 1968 - Ísland 1974". Frétt. "Það er athyglisvert að það virðist vera sami hópur manna sem prédikaði málstað Breta meðan við áttum í landhelgisstríði við þá, og sem í dag vill með betliplaggi grátbiðja Bandaríkjastjórn um að hafa amerískan her hér á landi. Samnefnari þessara manna er máske Þorsteinn Sæmundsson sem í fyrra ritaði greinar í Morgunblaðið þar sem hann hvatti til undanlátssemi við Breta og gaf í skyn að okkar málsstaður væri ekki svo sterkur sem við töldum og því um líkt. Nú ritar hann greinar og stendur fyrir undirskriftasöfnun sem á sér enga hliðstæðu aðra en þá ef vera skyldi að ef kvislingar Rússa í Tékkóslóvakíu tækju sig til og hæfu undirskriftasöfnun með beiðni til Sovétríkjanna um að hafa áfram her þar í landi....."

4) "Varið land neitar að ræða málin - málefnið virðist ekki þola dagsljósið segja Samtök herstöðvaandstæðinga." Fréttatilkynning frá Samtökum herstöðvaandstæðinga.

5) "Óþjóðholl starfsemi". Tilkynning á forsíðu: "Framkv.stj. Frjálslynda flokksins samþ. á fundi sínum 29. jan. '74 að fordæma undirskriftasöfnun þá er gengur undir nafninu "Varið land" og lítur á hana sem óþjóðholla starfsemi, ósamboðna fullvalda þjóð."

6) "Mengun hugarfarsins". Ritstjórnargrein um undirskriftasöfnun Varins lands. Þar stendur m.a. "Nú segist enginn vilja hafa her hér á landi um aldur og ævi. En þeir sem vilja ríghalda í herinn verða þá að gera sér grein fyrir því hvaða aðstæður þurfi að ríkja í heiminum til þess að unnt sé að losna við herinn. Er það ætlun þeirra að til þess þurfi rússneski kommúnisminn að líða undir lok? Hvenær skyldi þá herinn fara?"

7) "Við erum ekki til viðræðu um áframhaldandi dvöl hers í landinu". Kaflar úr ræðu Ingu Birnu Jónsdóttur á baráttufundi Samtaka herstöðvaandstæðinga í Háskólabíói á sunnudaginn. Þessu fylgir baráttukveðja til fundarins frá sex af sjö manna framkvæmdastjórn Frjálslynda flokksins (Inga Birna meðtalin), en fyrirsögnin er þaðan tekin.

Alþýðublaðið 29. jan. (?) 1974. "Herstöðvarmálið", eftir Helga Sæmundsson, "ræða flutt á fundi herstöðvarandstæðinga í Háskólabíói sl. sunnudag".

Þjóðviljinn 2. febr. 1974.

1) "Atvinnurekendavaldið afhjúpað". Afar illyrt grein eftir "dþ"

2) "Náttúrufræðinemar við HI: "Herinn fari án undanbragða". "Við fordæmum herferð hernámssinna sem í raun er aumkunarleg bón um ævarandi hersetu bandarísks hers á Íslandi.

3) "Varið land: Litlar undirtektir". "Einhver útsendari samtakanna Varins lands eða Seljum landið kom til álversins í Straumsvík til að safna undirskriftum fyrir áframhaldandi hersetu í nútíð og framtíð. Þarna vinna um 600 manns, en starfsmaður sem hafði samband við blaðið sagði að 40 manns hefðu skrifað undir og viðkomandi snati fór sneyptur á braut."

Þjóðviljinn 3. febr. 1974.

1) "Af frelsishetjum". "úþ" ritar um undirskriftasöfnunina og að blaðamönnum Þjóðviljans hafi ekki verið boðið á fyrstu kynninguna: "Þetta er hið nýja lýðræði, peningalýðræði, hið nýja frelsi, frelsi auðhyggjumannsins og skoðanakúgarans til þess að fara sínu fram í krafti valdsins." Einnig fjallað um Samtök um vestræna samvinnu.

2) "Að villast á samherjum og andstæðingum". Ritstjórnargrein þar sm hneykslast er á ritstjórnarnargrein Tímans þar sem það sé talin sönnum um skoðanafrelsi að 170 framsóknarmenn hafi lýst stuðningi við "undirskriftasmölun" Varins lands þótt það brjóti á bága við fyrirheit Framsóknar flokksins.

3) "Skjaldsveinar Golíats". Ræða Thors Vilhjálmssonar flutt á fundi herstöðvaandstæðinga í Háskólabíói 27. jan. 1974. Þar er Þorsteinn Sæmundsson kallaður "riddari ömurleikans", .."og muna margir þegar hann tók sig út úr þjóðareiningu til að tala máli Breta á öldum ljósvakans gegn sinni eigin þjóð."

Þjóðviljinn 5. febrúar 1974. "Tillaga til þingsályktunar um ævarandi og aukið hernám". Ritstjórnargrein þar sem spurt er hvers vegna slík tillaga sé ekki komin fram. "Og ekki er minnsti vafi á því að undirskriftir á Votergeit-víxla yrðu notaðar sem fróm ósk Íslendinga um sívaxandi hernaðarumsvif Bandaríkjamanna hér á landi ef Geir Hallgrímsson settist í stjórnarráðið."

Þjóðviljinn 8. febrúar 1974. "NATO-skilgreinir öryggi Íslands og Noregs". Guðmundur Sæmundsson skrifar frá Osló. "Einn tónn í skaðræðisöskri íhaldsins þessa dagana hljóðar svo: "Með brottflutningi hersins veikjum við stórlega öryggi vina- og bræðraþjóðar okkar, Norðmanna." .... "Eflaust eru Varðberg, Vörður og ábyrgðarmenn Votergeit-víxilsins þó hvenær sem er reiðubúnir til að semja með hershöfðingjanum af Miðnesheiði áætlanir um að lemja til óbóta nokkra "kommúníska æsingamenn" til að tryggja "öryggi" Íslands"

Þjóðviljinn 9. febr. 1974.

1) "Stúdentar segja í ályktun: Herstöðin hér hlekkur í hernaðarkerfi stórvelda. Þjóðviljinn birtir ályktun sem samþykkt var á almennum fundi sem stúdentar héldu 25. janúar". Í ályktunni segir m.a. "Meðan herstöðvaandstæðingar heyja baráttu sína við lítil efni en einlægan baráttuvilja, er ekkert til sparað við undirskriftasöfnun hinna sjálfskipuðu landvætta sem hins vegar treysta sér ekki til kappræðna um málstað sinn. Þó víla atvinnurekendur þeir og stjórnendur sem aðallega standa að baki "landvættunum" það ekki fyrir sér að beita við söfnun undirskrifta aðferðum sem jaðra við atvinnukúgun."

2: "Yfirvaldið með Votergeitvíxil". Þjóðviljinn segir að sýslumaður Strandamanna hafi gengið um og falað undirskriftir. " ...hefur atvinnurekendavaldið verið það afl sem fyrst og fremst hefur verið beitt til þess að afla uppáskrifta á landráðavíxil borgarastéttarinnar..." "Aldrei fyrr í Íslandssögunni hefur stéttarofbeldi verið beitt jafn opinskátt undir yfirskyni "lýðræðis".

Þjóðviljinn 12. febr. 1974.

1) "Aldrei framar friðartímar". Ritstjórnargrein. Þar segir m.a. "Undirskriftasöfnunin á vegum "Varins lands" er háð á þeim grundvelli að fyrirvarinn um að hér skuli aldrei vera her á friðartímum sé úr gildi fallinn. Þess vegna er hver einasta undirskrift undir Votergeit-víxilinn krafa um ævarandi hersetu."

2) "Blettur á sögu íslenskrar þjóðar". Þjóðfélagsfræðinemar álykta um undirskriftasöfnun. "Þá harmar fundurinn það óorð sem nokkrir kennarar Háskólans hafa komið á skólann með því að gangast fyrir undirskriftum um ævarandi hersetið land. Telur fundurinn að aldrei fyrr í sögu landsins hafi verið lotið svo lágt fyrir erlendu valdi, og að bænarskjölin um áframhaldandi hersetu muni verða svartasti bletturinn í sögu íslensku þjóðarinnar er fram líða stundir."

Þjóðviljinn 13. febr. 1974.

1) "Starri í Garði hringdi. "...Undirskriftasöfnunin væri eins konar skoðanakönnun af hálfu hernámssinna á því hversu margir Íslendingar hefðu orðið hernámi hugarfarsins að bráð. Þó að margur maðurinn sé vélaður á Votergeitlistann, getur enginn Íslendingur afsakað slíka undirskrift."

2) "Safna undirskriftum í Ríkinu". "Jón Múli Árnason sagðist hafa komið inn í Ríkið við Snorrabraut á dögunum. Þar hefði mannvesalingur verið að safna undirskriftum undir Votergeitvíxlilinn... Sagðist Jón Múli aldrei mundu fara í Snorrabrautarríkið aftur meðan svona áróðursstarfsemi væri látin viðgangast þar innan dyra."

Þjóðviljinn 14. febrúar 1974. "Herstöðvavíxill og undirbúningur þjóðhátíðar". Vitnað er í blaðið Austurland sem segi frá því að Jónas Pétursson, formaður Þjóðhátíðarnefndar Austurlands, hafi gengið erinda herstöðvasinna eystra og gerst "sendisveinn þeirra manna er túlka viðhorf í sjálfstæðismálum þjóðarinnar sem meginþorri Austfirðinga er andstæður og hefur hina megnustu skömm á".

Nýtt land 14. febr. 1974. "Hvað fær menn til að skrifa undir hernámsbónarplaggið". Alllöng, harðorð grein, ómerkt. "Þessi söfnun nafna er að litlu hafandi enda slíkar aðgerðir ólýðræðislegar í fyllsta máta." ... "Sérkennilegur söfnuður stendur fyrir þessu verki, m.a. doktorinn sem gerðist sérlegur talsmaður Breta í landhelgisdeilunni."

Þjóðviljinn 16. febr. 1974.

1) "Tengsl við bandarísku leyniþjónustuna - CIA?" Ritstjórnargrein. "Launaður starfsmaður NATO er aðaltalsmaður þeirra aðila sem hafa skipulagt undirskriftasöfnunina "Varið land" ..."slík undirskriftasöfnun felur í sér víðtækustu pólitísku persónunjósnir sem um getur á Íslandi..." "...Ýmislegt bendir til að bein eða óbein tengsl séu á milli undirskriftasöfnunar þessarar og bandarísku leyniþjónustunnar."

2) "Mestu persónunjósnir sem tíðkast hafa hérlendis: Landsmenn flokkaðir með tölvu af Vörðu landi." Vitnað er í "Sjálfstæðismann" sem hafi sagt blaðinu að "flokksagent" Sjálfstæðisflokksins hafi hringt í sig og spurt hvers vegna hann og kona hans hafi ekki skrifað undir. Skýringin: "Landvarnarmenn hefðu fengið lánaða spjaldskrá Sjálfstæðis-, Alþýðu- og brot af spjaldskrá Framsóknarflokksins. Þessum spjaldskrám hefði verið raðað í tölvu sem ynni þannig að jafnóðum og uppáskrifaðir víxlar bærust miðstöð landvarnarliðsins væri þeim stungið í tölvuna og hún spýtti þá úr sér þeim spjöldum sem á stæðu nöfn ábekinga víxilsins. Það sem eftir stæði eftir hvern dag væri svo vandlega yfirfarið og samband haft við örugga flokksmenn þessara þriggja flokka og þeir áminntir um að láta ekki sitt eftir liggja heldur undirskrifa tafarlaust víxilinn þegar þeir kæmust í færi við hann, að öðrum kosti... Fullyrti Sjálfstæðismaðurinn að á vegum landvarnarmanna færu nú fram víðtækustu persónunjósnir sem fram hefðu farið hérlendis, og væri með ólíkindum að Íslendingar einir ættu hugmyndina að slíkum og þvílíkum vinnubrögðum, heldur hlytu hér fagmenn frá Watergate að eiga sinn hlut að."

Þjóðviljinn 19. febr. 1974. "Sýslumaður ríður húsum". Magnús Guðmundsson sjómaður, Patreksfirði skrifar og lýsir því hvernig sýslumaður Barðastrandarsýslu hafi "leyft sér að fara með nefndan lista milli húsa og knúið fólk til að skrifa nöfn sín á hann." Magnús vitnar í 14. kafla refsilaganna þar sem segi að misnoti opinber starfsmaður stöðu sína til að neyða mann til að gera eitthvað skuli hann sæta varðhaldi eða fangelsi allt að 3 árum. Einnig vísar Magnús í 10. kafla refsilaganna um "LANDRÁÐ", þar sem viðurlög séu ekki skemmri en fangelsi í 4 ár eða ævilangt.

Þjóðviljinn 20. febrúar 1974. "Föðurlandsofstæki". Ritstjórnargrein þar sem vitnað er í frásögn Morgunblaðsins þar sem þetta orð er haft eftir fyrrverandi utanríkisráðherra Dana um ræðu Magnúsar Kjartanssonar á þingi Norðurlandaráðs. Segir m.a. "Einu sinni var talað um danska Íslendinga, en nú eru komnir fram amerískir Íslendingar" sagði Alþýðuflokksmaðurinn Helgi Sæmundsson á fjöldafundi fyrir stuttu, og þótti vel mælt".

Þjóðviljinn 26. febr. 1974.

1) "Í minningu víxils". Ritstjórnargrein. "Undirskriftasöfnun á lágkúrulegasta plaggi Íslandssögunnar mun nú vera lokið". Taldar eru ástæður þess að söfnunin sé ómarktæk. Í fyrsta lagi stórfelldar falsanir undirskrifta. Í öðru lagi atvinnukúgun. Í þriðja lagi mjög alvarlegir tæknilegir gallar þar sem ekki var getið um nafnnúmer eða fæðingardag viðkomandi. "Í fjórða lagi var þessi undirskriftasöfnun tengd - beint eða óbeint - erlendum aðila, bandarísku leyniþjónustunni, - sem hafði hag af því að sem allra flestir skrifuðu undir.

2) "Athyglisverð afstaða". Önnur ritstjórnargrein, aðallega um afstöðu Framsóknar til verðhækkana á landbúnaðarvörum. En fyrst er vikið að undirskriftasöfnun Varins lands. " má hverju mannsbarni ljóst vera að Votergeitvíxillinn og undirskriftirnar undir hann eru markleysan helber. Allt bramboltið mun að vísu í minni haft, forvígismönnum, sem ekki þorðu einu sinni að koma á fundi, til margfaldrar skammar. En sem pólitískur vitnisburður er víxillinn horfinn í ruslakörfuna enda einskis virði."

3) "Undirskriftasöfnunin notuð í njósnaskyni". "Gerð tölvuskrá yfir alla undirskrifendur VL. Fyrsta pólitíska tölvuskráin á Íslandi. Pukrið í kringum skrána kemur upp um skuggaleg áform. Gerð skrárinnar er glæpsamlegt trúnaðarbrot og heyrir undir grófustu njósnastarfsemi um persónulega hagi fólks. Og það hættulegasta í málinu er það að tölvuskrá þessi gangi beint til bandarískra sendimanna á Íslandi..."

4) "Stórkostleg misnotkun "Varins lands" á almannatrúnaði: Pólitísk tölvuskrá er gerð eftir undirskriftalistunum". Grein undirrituð "hj".

5) "Gagnrýnin athugun á viðtali við Ragnar Ingimarsson í Morgunblaðinu á sunnudaginn sýnir: Tölvuvinnslan þjónar markmiðum sem VL-menn vilja leyna." Óundirrituð grein.

Þjóðviljinn 27. febrúar 1974.

1)"Rísið upp yfir þá öskustó". Harðorð grein um undirskriftasöfnunina eftir Gunnar Stefánsson bónda, Vatnskarðshólum.

2) "Þröngt fyrir dyrum". Grein eftir Játvarð Jökul Júlíusson sem lýkur með þessari vísu: "Glötuð æra, glúpnuð sál/glöpin dæmin sanna/"Varið land" er vél og tál/Votergeitingjanna".

3) "Votergeitspólur í Reykjavík". Ritstjórnargrein um tölvuvinnslu Varins lands. Þannig eru nöfn tuga þúsunda Íslendinga komin á Votergeit- spólur...Þegar atvinnurekendur ráða fólk í vinnu framvegis geta þeir sem jafnframt eru í Sjálfstæðisflokknum óðara kannað eyrnamarkið á Votergeitspólum Varins lands. Hér er mjög alvarlegt mál á ferðinni þar sem vegið er heiftarlega að friðhelgi einkalífs manna...."

4) "Njósnaskráin rædd". Sagt frá ummælum Ragnars Arnalds og Svövu Jakobsdóttur á Alþingi.

5) "Pater noster syngi hver sem kann." Fréttapistill frá Súgandafirði þar sem vikið er að Vörðu landi: "Landráðavíxillinn Varið land hefur verið hér í umferð að undanförnu, og er víst enn, þó lítið beri nú á honum...Margir telja nú að íhaldið sem svo er kallað muni tapa fylgi með þessu brölti sínu, og væri það vel." Undirritað "Gísli".

Þjóðviljinn 28. febrúar 1974. "Til athugunar fyrir lagaprófessorana í forystu "Varins lands". Að sænskum lögum væru þeir fangelsismatur." Grein undirrituð "hj".

Þjóðviljinn 1. mars 1974. "Tölvuskrá "Varins lands". Afhjúpa sig með leyndinni". Grein undirrituð "hj".

Þjóðviljinn 2. mars 1974. "VL-menn illa séðir í Bandaríkjunum? Þar þætti tölvuskrá VL hneyksli". "Þeir sem ábyrgir eru fyrir tölvuskrá VL um skoðanir Íslendinga á pólitísku deilumáli væru í Bandaríkjunum taldir hættulegir menn. Aðferðir þeirra væru taldar stofna lýðræði og einstaklingsfrelsi í voða..". Grein undirrituð "hj".

Þjóðviljinn 3. mars 1974.

1) "Skrifaði Butraldi Brúsason undir?" Löng forystugrein þar sem tölvuvinnsla Varins lands er sögð tortryggileg og vítaverð. "Getur það staðist sem VL-menn halda fram að þeir sjóði 50.000 Íslendinga niður á spólur með tölvutækni í þeim fróma tilgangi einum að tryggja að allt sé nú í sómanum með undirskriftirnar? Slíkt er með öllu útilokað."

2) "Bréf um bænaskrá o.fl." Grein eftir Friðrik Þórðarson, háskólakennara í Ósló. "Hvernig er innrætið í mönnum sem knékrjúpa útlenskum ofbeldismönnum með bænaskrár í hendi og beiða þá að taka sig og niðja sína herskildi? Er yfirleitt nokkur vegur fyrir vanalegt ráðvant fólk að samneyta þessum bænaskrármönnum? Hvernig eigum við að fara að því að aka með þeim í strætisvögnum, sitja samtímis þeim í leikhúsum eða á gildaskálum, ganga um sömu stræti, jafnvel vera með þeim í samsætum ef einhver okkar er svo óheppinn að eiga venslamenn í þeirra hópi?".

Þjóðviljinn 5. mars 1974. "Goldwater - varið land. Athugasemdir vegna prentvillu." Rammagrein sem lýkur þannig: "Ætla VL-menn að hafa Goldwater Vietnamstríðsins fyrir sinn spámann en afneita Goldwater löggjafarinnar."

Þjóðviljinn 9. mars 1974. "Herlaust Ísland". Dreifirit herstöðvaandstæðinga á Vesturlandi. Fjallað er um "hersetumenn" og segir m.a. "Jafnframt átelur fundurinn harðlega undirskriftasöfnun þá sem herstöðvarsinnar viðhafa um þessar mundir, sem er í hæsta máta óþjóðlegt athæfi nú á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar, enda hafa fáir forustumenn í stjórnmálum viljað leggja nafn sitt við þessa starfsemi."

Þjóðviljinn 13. mars 1974.

1) Þröstur Ólafsson: "Verði fyrirheitin ekki uppfyllt á stjórnin að fara frá". Grein um herstöðvamálið.

2) "Undirskriftasöfnun VL er hliðstæð opinberri atkvæðagreiðslu". Heilopnu frásögn af fundi sem Stúdentaráð efndi til um herstöðvamálið á Hótel Sögu 10. mars 1974. Framsögumenn voru Einar Ágústsson, Geir Hallgrímsson og Magnús Kjartansson. Rakið er hvað eftirtaldir hafi sagt, auk frummælenda: Elías Kristjánsson, Aðalsteinn Gunnarsson, Arnór Karlsson, Margrét Guðnadóttir, Ragnar Stefánsson (sem sagði að Geir og hans nótar væru landsöluþý), Hannes Jónsson, Halldór Karlsson, Halldór Blöndal, Þröstur Ólafsson, Ingólfur Þorkelsson, Sigurður Tómasson, Einar Karl Haraldsson, Karl Valgarð Matthíasson, Birna Þórðardóttir og Þorsteinn Matthíasson. Ekki eru gerð skil ræðum þeirra sem voru á öndverðri skoðun. Í ramma, undir fyrirsögninni "Bragð er að..." er vitnað í Hannes Hólmstein á fundi á Hótel Sögu: "Það er engin ástæða til að draga dul á það að mikill hluti þeirra sem skrifuðu undir "varið land" gerðu það á hæpnum forsendum. Aðallega þremur: Í fyrsta lagi vildu ýmsir láta halda áfram útsendingum Keflavíkursjónvarpsins. Í öðru lagi vildu ýmsir halda áfram að græða á hernum.Í þriðja lagi héldu ýmsir að Rússarnir myndu koma strax og síðasti kanadátinn færi. Það er ekkert leyndarmál að mikill hluti þeirra sem skrifuðu undir í undirskriftasöfnuninni á þessum forsendum sem eru ómarktækar með öllu og ber að vísa á bug. (Hannes Gissurarson, einn af forustumönnum ungra Sjálfstæðismanna á fundinum á Hótel Sögu)". (Orðalag virðist brenglað.)

Þjóðviljinn 14. mars 1974. "Auðhyggja og hernám". Grein eftir Þröst Ólafsson. "En íslenskir auðborgarar eru of miklar heybrækur til að ganga hreint til verks - það gera þeir aldrei. Fíflunum skal á foraðið etja. Íslenskir háskólamenn sem hafa öðlast bæði félagsleg og menningarleg forréttindi undir verndarvæng auðborgaranna launa þjóð sinni ókeypis skólavist og frjálsan aðgang að auðæfum vísindanna með því að taka að sér aðalhlutverkið við að grafa undan sjálfstæðisvitund þjóðarinnar - fremstir í flokki varins lands."

Þjóðviljinn 20. mars 1974.

1) "Ef Íslendingar reyndu að bjarga sér sjálfir". Ritstjórnargrein þar sem vitnað er í orð Sigurðar Líndals, þ.á.m.: "hafa ekki ábata- og þægindasjónarmiðin: hermangið, hjálparstarfið, hermannasjónvarpið og veisluboðin hreinlega hlaðið undir skeytingarleysi og léttúð, þannig að undirskriftaáhuginn sé ekki annað en vitnisburður um hvatir, sem varla er hægt að hafa í hámælum af velsæmisástæðum, og umhyggjan fyrir öryggi lands og þjóðar yfirvarp eitt." Annars staðar segir: "Forsenda fyrir þátttöku Alþýðubandalagsins í núverandi ríkisstjórn var í upphafi sú að ákveðið yrði að hér yrði ekki erlendur her né erlend herstöð. Um þetta var gefið skýlaust fyrirheit, og nú er það forsenda fyrir frekari þátttöku í ríkisstjórninni af hálfu Alþýðubandalagsins að við þetta fyrirheit verði staðið."

2) "Watergatevíxlararnir (svo!) enn þá í rannsókn! Óvíst hvenær þeir verða afhentir." Símtal Þjóðviljans við Þorstein Sæmundsson þar sem spurt er um orsakir tafar á afhendingu undirskriftalistanna.

3) "Varnarmál og þjóðarvilji". Vitnað er í greinar Sigurðar Líndals í Vísi undir þessari fyrirsögn. "Sigurður bendir á hvað undirskriftirnar segi lítið um raunverulegan þjóðarvilja um umhyggju fyrir öryggi lands og þjóðar, og hvað þær segi mikið um andlegt og siðferðilegt ásigkomulag undirskrifendanna."

Morgunblaðið 22. mars 1974. "Áskorun Varins lands afhent: 55.522 Íslendingar skrifuðu undir". Sagt frá afhendingu undirskriftanna í Alþingishúsinu 21. mars.

Þjóðviljinn 23. mars. 1974. "Tillaga handa þjóðhátíðarnefnd." Grein eftir Sverri Kristjánsson með langri lýsingu á mynd sem fylgir, þar sem Þorsteinn Sæmundsson afhendir undirskriftirnar Ólafi Jóhannessyni og Eysteini Jónssyni. Undir myndinni stendur: "Ljósmyndin úr Tímanum:"Í svip þeirra má greina kalda meðaumkun"". Tillaga Sverris er "Að þjóðhátíðarnefnd birti myndina af valdhöfum Íslands og Þorsteini stjarnfræðingi á bréfspjaldi sem ekki má vera undir milljón eintaka... Í annan stað skulum vér kaupa þvottasnúrur og festa þær upp frá Sólheimasandi til Siglufjarðar. Skulu þar á festar undirskriftir hinna fimmtíu og fimm þúsund Íslendinga..."

Nýtt land 27. mars 1974. "Undirlægjur allra tíma við erlent vald." Grein eftir Skjöld Eiríksson þar sem tilefnið er "hin ógeðslega undirskriftasöfnun "Varið land" og "hin ofsafengna undirskriftasöfnun þeirra, þar sem yfir 55 þúsundir manna, frá ystu nesjum til innstu dala hafa verið, í verulegum mæli, ginntir til að skrifa nöfn sín undir plagg þetta..."

Stúdentablaðið 8. apríl 1974. Ábyrgðarmaður Gestur Guðmundsson. "Rekum alla, alla! Nú fyrir skemmstu sendu "landvættirnir" Þorsteinn Sæmundsson, Þór Vilhjálmsson, Jónatan Þórmundsson og Ragnar Ingimarsson Háskólaráði bréf og fóru fram á að fráfarandi ritstjóra Stúdentablaðsins, Rúnari Á. Arthurssyni, yrði veitt áminning eða hann víttur vegna skrifa um þá landvætti. Í fúlustu alvöru: Er ekki kominn tími til að stúdentar krefjist þess að ofangreindum mönnum verði vikið frá Háskólanum vegna síendurtekinna tilrauna þeirra til að beita stúdenta fasískri skoðanakúgun."

Þjóðviljinn 17. maí 1974. "...svona blóðug svívirðing særir góðan Íslending". Grein undirrituð "dþ" þar sem fjallað er um frétt Alþýðublaðsins af bandarískum auglýsingum til stuðnings NATO í Keflavíkurútvarpinu. "...hvaða ályktanir eiga þeir fyrir westan að draga af þeim dæmalausa undirlægjuhætti, því andlega volæði sem fimmtíu þúsund Íslendingar sýndu er þeir skrifuðu undir áskorun um að hafa yfir sér bandarískan her um aldur og ævi!"

Þjóðviljinn 29. maí 1974. "Tékkóslóvakía 1968 - Ísland 1974. Grein eftir Daníel Daníelsson lækni á Neskaupsstað. "Þegar þeir atburðir gerðust, sumarið 1968, að herir Varsjárbandalagsins héldu inn í Tékkóslóvakíu, voru þær aðgerðir réttlættar með því, að þær væru gerðar samkvæmt óskum tékknesku þjóðarinnar.... Fáir Íslendingar mundu á þessum tíma hafa lagt trúnað á þá hrakspá, að ekki myndu líða nema örfá ár, þar til hliðstæðir atburðir tækju að gerast á Íslandi...með þeim eindæmum íslenskrar sögu að hópur manna, sumir með háa lærdómstitla, gekk fram fyrir skjöldu um myndun samtaka til söfnunar undirskrifta við bænaskrá um ævarandi hernám Íslands. Hér var líkingin við atburðina í Tékkóslóvakíu fullkomnuð." Á eftir greininni fylgir viðbót Þjóðviljans þar sem segir að greinin hafi beðið birtingar um tíma, en eigi ekki síður erindi "nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið kosningasigur, með því meðal annars að nota sér undirskriftasöfnun Varins lands."

Nýtt land 30. maí 1974. "Kosningaúrslitin". "...þessar kosningar...eru sögulegar fyrir þá sök fyrst og fremst að fyrir þær var leikinn forleikur sem er einsdæmi og er fullkomið pólitískt siðleysi...Nokkrir nytsamir sakleysingjar, sem ekkert höfðu fengist við pólitík, voru "bakkaðir upp" með ótakmörkuðu fjármagni, og undirskriftasöfnun hófst, og þarf ekki að lýsa þeim ófögnuði."

Þjóðviljinn 30. maí 1974. "Á afmæli Einars Andréssonar". Grein eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson. "...er mér sú ósk efst í huga að hann megi eignast sporgöngumenn, jafnoka sína að áhuga og ötulleika, sem dreifi á ókomnum árum sáðkorni ættjarðarástar og þjóðarmetnaðar, svo að tilræði vallarmangara þeirra og tunglvillinga sem nú krefjast þess með lokkan og þrúgan að erlendur her darki hér áfram, leiði ekki af sér annað og verra en háðung og smán."

Stúdentablaðið 5. júní 1974.

1) "Áminntur áminnir. Rúnar Ármann ritar rektor bréf". Bréf Rúnars Ármanns Arthurssonar til rektors Háskóla Íslands. Ummæli sem stefnt var fyrir. Einnig birt í grein Rúnars í Þjóðviljanum 25. júní 1974.

2) "Háskólaráð átelur Stúdentablaðið að kröfu "landvættanna"". "Akademískur rembingur, sem telur háskólaborgara æðri venjulegu fólki, er nefnilega í fullu samræmi við undirlægjuhátt gagnvart herstyrk og fjármunum bandarískra heimsvaldasinna. Þeir menn sem hafa tekið að sér hlutverk rakkans gagnvart ofbeldinu hafa peninga, völd og menntun að æðstu gildum, og sú menntun felst aðallega í ytri siðfágun. Eða skyldu stjörnuglópurinn og félagar hans telja þá hegðun ósamboðna háskólaborgara sem hinir menntuðu ráðamenn Bandaríkjanna hafa orðið uppvísir að í Vietnam og Votergeit?" Endurbirt teikningin frá 25. janúar af fjórmenningunum í líki landvætta.

Þjóðviljinn 7. júní 1974. "Friðhelgi einstaklingsins fótumtroðin?". Heyrst hefur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 26. maí notað undirskriftargögn "Varins lands" óspart sem eins konar spjaldskrá til kosningasmölunar, a.m.k. í Reykjavík. Það fylgdi sögunni að nú væri verið að senda gögnin út á land til þess að ekkert kjördæmi færi varhluta af þessum vinnubrögðum í baráttunni fyrir alþingiskosningarnar...."

Þjóðviljinn 7. júní 1974. Ragnar Arnalds: "Hvar eru tölvugögnin?" Forsíðufrétt um bréf sem Ragnar hafi skrifað forustumönnum samtakanna Varið land. Í blaðinu er svo nánari greinargerð frá Ragnari. Þar segir að forustumenn VL hafi farið þess á leit við forseta alþingis að veitt yrði málshöfðunarleyfi á hendur sér vegna ummæla á alþingi 26. febrúar. Þessu hafi verið synjað. Þá hafi forvígsmenn VL farið þess á leit að hann endurtæki ummælin utan þings. Ragnar gerir það ekki heldur varpar fram fimm spurningum til forvígismanna VL.

Þjóðviljinn 14. júní 1974. "Að fara huldu höfði". Ritstjórnargrein. "Allt frá því að hinir "merku" þrettánmenningar gengu með járnkistuna frægu inn í Alþingi og kistulögðu þar undirskriftirnar undir Varið land, en hófu síðan að nota tölvuspólurnar í þágu Sjálfstæðisflokksins, hafa þessir menn farið huldu höfði. Þeir hafa hvergi fengist til að standa fyrir máli sínu...Þess í stað hafa þessir menn skýlt sér bak við dómstóla, og ef einhver hefur andmælt skoðunum þeirra, þá siga þeir dómstólunum á andstæðinga sína eins og skoðanabræður þrettánmenninganna hafa um áratuga skeið gert á Spáni, Grikklandi og Portúgal..."

Þjóðviljinn 15. júní 1974. "Tölvuskráin sem VL-menn vildu leyna: Nýtist íhaldinu í kosningum. VL-menn þola illa sannleikann og hóta málshöfðun gegn þeim sem tala - sjálfir kjósa þeir þögnina." Forsíðufrétt. Þar segir um tölvuskrána: "Hún var notuð í sveitarstjórnarkosningunum 26. maí sl., og það er verið að beita henni í þessum mánuði. Tölvuskráin er í vörslu hundtryggra sjálfstæðismanna eins og Þórs Vilhjálmssonar, Ragnars Ingimarssonar, Þorsteins Sæmundssonar, Þorvaldar Búasonar og Harðar Einarssonar, og þeir hafa afhent kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins útskriftir og aðra vélunna lista upp úr henni. Í gegnum starfsmann NATOs á Íslandi, Magnús Þórðarson, - öðru nafni "húsmóðirin" í Velvakandadálkunum - hefur bandaríska sendiráðið og upplýsingaþjónusta þess aðgang að tölvuskránni...".."Á mann eins og Þór Vilhjálmsson má öllu trúa..." Undirritað "hj".

Þjóðviljinn 16. júní 1974. "Hin æðri stétt. Landvarnarmenn tala ekki við hvern sem er." Frásögn af tilraunum Þjóðviljans til að fá Þorstein Sæmundsson og Þorvald Búason til að svara spurningum í síma, en hvorugur vildi ræða við blaðamann Þjóðviljans.

Þjóðviljinn 21. júní 1974.

1) "Refsivert að hafa skoðanir." "Rakin nokkur atriði úr stefnum VL-manna." Lýsing á stefnum á Svavar Gestsson, Dag Þorleifsson, Úlfar Þormóðsson, Árna Björnsson, Rúnar Ármann Arthursson og Hjalta Kristgeirsson fyrir Borgardómi.

2) "Umfangsmesta meiðyrðamál á Íslandi. Eru víðtækar réttarofsóknir að hefjast?" Forsíðufrétt. "Sex milljóna króna krafist af Þjóðviljanum fyrir að segja sannleikann um Varið land og undirskriftasöfnunina."

3) Skopmynd sem sýnir þrjá menn vafða sjúkraumbúðum. "Hvað er að þessum vesalingum?" "Þetta eru ærumeiddir prófessorar."

4) "Er þetta það sem koma skal?" Forystugrein. "Aldrei áður hefur sést grilla í aðrar eins réttarofsóknir og þær sem eru að hefjast. Ekki er minnsti vafi á því að Sjálfstæðisflokkurinn telur að hér sé um að ræða gott innlegg í kosningabaráttu sína. Það er engin tilviljun að loks nú, fáeinum dögum fyrir kosningar, er stefnt fyrir ummæli sem skrifuð voru í blaðið fyrir mörgum mánuðum..."

Þjóðviljinn 22. júní 1974.

1) "VL-maður sendur til Caracas fyrir $jálfstæðisflokkinn." Frétt undirrituð "úþ". "Og það að lagaprófessorinn Þór Vilhjálmsson skuli sendur til að gæta lagalegra hagsmuna Íslendinga í landhelgismálum eru afglöp sem ef til vill verður ekki hægt að bæta fyrir í náinni framtíð..."

2) Ný árás Sjálfstæðisflokksins á skoðanafrelsið. Fólki skipað að merkja íhaldinu eigur sínar." Forsíðufrétt í tilefni þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefði dreift límmiðum með mynd af Íslandi með keðju umhverfis og orðunum Varið land, 30. júní. "Þetta er beint framhald af hinni endemislegu undirskriftasöfnun Varins lands sem notuð var til skipulagðrar skoðanakúgunar af Sjálfstæðisflokknum og skósveinum hans."

3) "Efaðist einhver um tilganginn?" Pistill undirritaður "vh". "Var einhver sem efaðist um hvaða flokkur stæði að baki Votergeitvíxli VL-leppanna? Var einhver sem efaðist um að tölvuskrána ætti að nota við kosningasmölun? ... Þeim skal bent á grein í Morgunblaðinu eftir einn frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, Áslaugu Ragnars, sl. fimmtudag, sama dag og VL-víxlarnir (svo) hófu árásir á rit- og tjáningarfrelsi manna og opinberuðu fasistískt hugarfar sitt." Ummælin í Morgunblaðsgreininni sem vitnað er til eru tilfærð: "Því hlýtur val þeirra sem vilja hafa hér varið land að vera einfalt. - Þeir veita Sjálfstæðisflokknum brautargengi í kosningunum 30. júní nk."

Þjóðviljinn 23. júní 1974.

1) "Listar - Landhelgi - Ljót stjörnufræði". Grein eftir Ólaf Jensson. ..."Það kom einnig berlega fram að þeir sem höfðu viljað efla íslenskar landhelgisvarnir vildu ekki ljá nöfn sín á VL-listann. Þeir hafa að öllum líkindum verið minnugir þess að einn af aðalverkstjórum í Vl- vinnunni gekk fram fyrir skjöldu við að verja Breta í útvarpi og Morgunblaðinu á þeim tíma sem þeir gengu harðast fram við að reyna að sigla niður íslensk varðskip. Ekki duga þessum manni þær stjörnur sem hann sér á himnum. Hann vill líka geta fundið til sérstakrar lífsfyllingar og öryggis með því að geta um ókomin ár horft á stjörnur Bandaríkjafána blaktandi yfir íslenskri grund. Það er ljóta stjörnufræðin."

2) "Við höldum áfram að segja sannleikann". Forsíðufyrirsögn með teikningu af peningaseðli upp á 6 milljónir með mynd af Þór Vilhjálmssyni. "Sex milljónir króna vilja erindrekar Sjálfstæðisflokksins hirða af Þjóðviljanum og starfsmönnum hans."..."Þjóðviljinn áfrýjar þessu máli þegar til þjóðarinnar og biður hana að svara fyrir sig 30. júní á sunnudaginn kemur."

Þjóðviljinn 25. júní 1974.

1) "Upphaf stúdentaofsókna á Íslandi? Fyrrverandi ritstjóri Stúdentablaðsins mætir fyrir rétti í dag". Forsíðufrétt.

2) "Varið land ákærir Nýtt land". Frétt um að Garðari Viborg hafi verið stefnt.

3) "Um hundflatan skrælingjalýð2. Jón Thor Haraldsson leiðréttir tilvitnun Þjóðviljans í kvæði Þorsteins Erlingssonar. Í stað "bumbult" átti að standa "flökurt".

4) "Tilræði við tjáningarfrelsi". Ummæli Vilborgar Dagbjartsdóttur og Sigurðar A. Magnússonar um stefnurnar. Sigurður kemst m.a. svo að orði: "Hér er um að ræða alvarlegustu atlögu við tjáningarfrelsi sem mér er kunnugt um hérlendis.."..."Þeir þýlyndu og þjóðvilltu tólfmenningar, sem þykjast vera að vernda æru, sem þeir hafa að dómi þjóðhollra Íslendinga týnt, eru hér að fara inn á braut, sem gæti ekki ekki einungis reynst hættuleg tjáningarfrelsi landsmanna, heldur sjálfu lýðræðinu í landinu." ... "Þessir kumpánar þykjast hafa að baki sér hinn svokallaða þögla meirihluta, en mættu gjarna minnast þess, að Adolf Hitler og hans nótar fóru sínu fram í sömu bliundu trú, og allir vita hvað af þeirri trú leiddi." ... "Mig brestur satt að segja orð til að lýsa fyrirlitningu minni á heigulshætti og valdbeitingartrú þeirra tólf nýstéttarmanna, sem standa að þessu tilræði við tjáningarfrelsi Íslendinga, og mun skömm þeirra uppi meðan nokkur ærleg hugsun bærist með þjóðinni."

5) "Opið bréf til próf. Jónatans Þórmundssonar frá Inga R. Helgasyni hrl". Þar er m. a.vitnað í Sigurbjörn Einarsson, síðar biskup.

6) "Kærumál og tjáningarfrelsi." Einar Bragi biður um álit Rithöfundasambandsins.

7) "Til dómstóls þjóðarinnar". Ritstjórnargrein. Sagt m.a. að verið sé að stefna heilli stjórnmálahreyfingu á Íslandi, öllum hernámsandstæðingum á Íslandi.

8) "Vilja þeir láta íslenska stúdenta sæta sömu meðferð og gríska stúdenta?" Grein eftir Rúnar Ármann Arthúrsson, fyrrverandi ritstjóra Stúdentablaðsins í tilefni meiðyrðamáls. Greininni fylgir háðsmynd af háskólamönnum í VL hópi, í mynd landvætta. Rúnar rifjar upp að hann hafi birt grein í Stúdentablaðinu 25. janúar um undirskriftasöfnunina. Síðan hafi hann fengið ályktun Háskólaráðs frá 2. maí (ekki áminningu). Þá hafi hann sent háskólaráðsmönnum bréf 27. maí. Það bréf hafi verið birt í Stúdentablaðinu 5. júní. Í bréfinu hafi m.a. staðið þetta, um fyrri grein hans: "Ef eitthvað má að grein minni finna, þá er það helst að hún var ekki nógu stórorð. Sá glæpur sem framinn er gagnvart íslensku þjóðinni í nafni "varins lands" verður aldrei nægilega útmálaður í krafti orða. Orð eins og þjóðníðingur eða landráðamaður falla dauð niður á pappírinn hjá þeirri smán sem upphafsmenn slíkra aðgerða hafa gert sjálfstæðum vilja íslensku þjóðarinnar og þeim stofnunum sem hún stendur fyrir, þ.á.m. Háskóla Íslands."

9) "43 á móti 57". Grein eftir Pál Bergþórsson þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að 43% þjóðarinnar vilji að herinn sé áfram en 57% séu á móti. Hann lýsir vafasömum aðferðum sem beitt hafi verið við undirskriftasöfnunina og segir að á kjörskrá séu 130 þúsund. Nærri 75 þúsundir hafi neitað að skrifa undir eða þá að vonlaust hafi verið talið að fá þá til þess.

10) "Stórkostleg misnotkun "Varins lands" á almannatrúnaði. Undirskriftasöfnunin notuð í njósnaskyni. Pólitísk tölvuskrá er gerð eftir undirskriftalistunum." Grein eftir Hjalta Kristgeirsson. Sagt að efni hennar hafi áður birst í Þjóðviljanum.

11) "Þórbergur Þórðarson um forsvarsmenn Varins lands: "Eru ekki með öllum mjalla"". Frétt á baksíðu.

Þjóðviljinn 26. júní 1974.

1) "Sjálfstæðisflokkurinn á bak við "Varið land". Eflir flokksvélina og kyndir undir ofstækinu". Forsíðugrein með mynd af fjórum háskólamönnum VL í líki hunda í bandi SS-hermanna sem merktir eru $$ í stað SS. "Sjálfstæðisflokkurinn eignar sér alla undirskrifendur VL enda hefur hann fullan aðgang að nafnaskrám yfir þá."... "Þúsundir, tugþúsundir Íslendinga voru því beinlínis gabbaðir til fylgis við málstað öfgasinna sem þeir vildu ekki í raun veita brautargengi."

2) "Opið bréf til oddvita "Varins lands"". Grein eftir Helga J. Halldórsson. Hefst með orðunum "Kæri Þorsteinn Sæmundsson."... "Nú er ég svo illa upplýstur að mér er fyrirmunað að skilja hvað veldur því að þegnar þjóðar sem í upphafi var hernumin skuli stofna til undirskrifta bænarskjals þess eðlis að slíkt hernám skuli áfram varanlegt." Í greininni er rætt um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga, varað við bandarísku hervaldi og því sjónarmiði að Íslendingar eigi að hafa erlendan her í landi sínu til að halda hagstæðum viðskiptum. Þessu fylgir opið bréf til utanríkisráðherra.

3) "Út af hverju kæra hinir vammlausu?". Grein eftir Úlfar Þormóðsson blaðamann um stefnurnar, "mestu réttarfarsofsóknir gegn málfrelsi og skoðanafrelsi sem nokkru sinni hefur verið hafin (svo!) á Íslandi.."

4) "Lýsi fyrirlitningu minni og andstöðu á þessu framferði." Hilmar Jónsson bókavörður og rithöfundur í Keflavík segist hafa skrifað undir áskorun Varins lands, en þetta sé "ekki barátta fyrir lýðræði heldur fasismi eða Sovét- kommúnismi."

5) "Stefnivargar". Grein eftir Árna Björnsson um stefnurnar.

6) "Verður ærunni bjargað". Grein eftir Gunnar Karlsson. "Eftir því sem mér skilst fara þeir fram á að níu menn verði sviftir frelsi og lokaðir bak við lás og slá í tvö ár hver.."

7) "Gissur ríður góðum fáki". Freyr Þórarinsson jafnar VL-mönnum við Gissur Þorvaldsson sem hafi fengið nafnbætur eins og þjóðníðingur, landsölumaður og útlendingadindill."

8) "Þagnarsinnum ógnað". Þorgeir Þorgeirsson skrifar að "postularnir sem nú eru að stefna blaðamönnum Þjóðviljans fyrir það eitt að hafa stundað sína vinnu og haft uppi þrætubók við þá um umdeild pólitísk mál telji sig boðbera nýrra trúarbragða sem kennd eru við "þöglan meirihluta"".

9) "Helgi Sæm. lögsóttur". Viðtal við Helga Sæmundsson. "Þetta eru tilraunir til auðgunar á kostnað okkar sem höfum gagnrýnt forgöngumenn "Varins lands" á pólitískum forsendum". ... "Ég tel að þetta lýsi hugsunarhætti mcartyismans og beri keim af stjórnarfari fasistalandanna eða eins og af því er sagt í Sovétríkjunum og annars staðar þar sem stjórnarfar þykir nú verst í heiminum."

10) "Gegn skoðanakúgun. xG".

11)"Farið fram á hækkun skrásetningargjalda við Háskóla Íslands". Frétt undirrituð "ráa". Þar segir m.a. "Það er greinilegt að slagurinn stendur enn um útgáfu Stúdentablaðsins, en hægri menn í Stúdentaráði komu með tillögu um að skera stórlega niður útgáfu þess, enda í góðu samræmi við viðhorf eldri íhaldsmanna til tjáningarfrelsis í landinu, sbr. málshöfðanir forgöngumanna "varins lands" gegn Stúdentablaðinu og fleirum þessa dagana."...."Þó er þess skemmst að minnast s.l. vor þegar meirihluti háskólaráðs ákvað fyrir frumkvæði Þorsteins Sæmundssonar stjarnfræðings og vl-manns að Stúdentaráð skyldi ekki fá neinn hluta skrásetningargjalda til sinna þarfa. Menntamálaráðherra ógilti þá ákvörðun og skar þannig á þann pólitíska hnút sem myndast hafði í samskiptum stúdenta við háskólayfirvöld."

12) "Atlaga gegn skoðanafrelsi og málfrelsi". Viðtal við Karl Sigurbergsson. "...grímulausar starfsaðferðir afturhaldsins..."

13) "Allir sem einn risu gegn talsmönnum "Varins lands". Frétt. "Á almennum frambjóðendafundi að Logalandi í Borgarfirði í fyrrakvöld fékk íhaldið slíka rassskellingu vegna Votergeitvíxilsins svonefnda að menn trúðu ekki sínum eigin augum...Það fór reiðialda um salinn þegar þeir ætluðu að fara að reyna að verja undirskriftafólkið og nota víxilinn í tengslum við frelsisbaráttu þjóðarinnar."

14) "Reitt til höggs gegn mannréttindum". "...Undirskriftir VL gáfu íhaldinu hug til að hefja réttarfarsofsóknir....Fólk með ólíkar stjórnmálaskoðanir þarf nú að leggjast á eitt til að koma í veg fyrir valdarán ofstækismanna í Sjálfstæðisflokknum."

15) "Stúdentasamtök mótmæla réttarofsóknum". "Félagsfundur Verðandi, félags róttækra í HÍ...lýsir andúð sinni á tilraunum VL-manna til að hefta tjáningarfrelsið í landinu með fáránlegum skaðabótakröfum, m.a. á hendur ritstjórum Stúdentablaðsins fyrir að lýsa skoðunum sínum á framferði 14- menninganna. Jafnframt lætur fundurinn í ljós þá skoðun að fátt geti talist ofmælt í gagnrýni á athæfi þeirra manna sem takast á hendur að skipuleggja hreyfingu meðal landa sinna um áframhaldandi hersetu erlends stórveldis á Íslandi." "Stjórn Sambands íslenskra námsmanna erlendis fordæmir harðlega þær réttarofsóknir og málshöfðanir sem "aðstandendur Varins lands" hafa hafið gegn tjáningarfrelsi andstæðinga hersetu á Íslandi..."..."Þessar viðamiklu meiðyrðastefnur afhjúpa hægra ofstæki og peningahyggju þeirra hrokafullu embættismanna er stóðu fyrir undirskriftasöfnuninni í vetur."...Fréttinni fylgir viðtal við Arnlíni Óladóttur, formann Stúdentaráðs H.Í. sem segir m.a..."það er athyglisvert að meðal þeirra fjögurra háskólakennara sem höfða mál á hendur núverandi og fyrrverandi ritstjóra (Stúdentablaðsins) eru þeir tveir menn sem alla tíð hafa sýnt sig í því að berjast á móti hagsmunum stúdenta. Í háskólaráði hafa það einmitt verið þeir Þorsteinn Sæmundsson og Jónatan Þórmundsson sem einir manna hafa snúist beint gegn hagsmunum stúdenta í skrásetningarmálinu svokallaða."

Morgunblaðið 26. júní 1974. "Baráttan gegn fólkinu". Grein eftir Þór Vilhjálmsson prófessor þar sem fjallað er um aðdraganda, framkvæmd og árangur undirskriftasöfnunar Varins lands og gagnrýni á undirskriftasöfnunina svarað.

Nýtt land 27. júní 1974.

1) "Á að innleiða nýjar leikreglur í stjórnmálum?" Forsíðufrétt um stefnur á hendur Garðari Viborg ábyrgðarmanni blaðsins, ábyrgðarmanni Stúdentablaðsins og nokkrum blaðamönnum við Þjóðviljann fyrir meiðyrði. "Það sem er athyglisvert og vekur mönnum óhugnað er að nú eigi að þrengja svo kosti málfrelsis og prentfrelsis í skjóli afglapa vissra lögfræðinga við samningu meiðyrðalöggjafarinnar...."

2) "Einar Bragi ætlar að verja sitt mál". Sagt frá málshöfðun gegn Einari Braga rithöfundi.

Þjóðviljinn 27. júní 1974.

1) "Stúdentar eru eins og annað ungt fólk."Viðtal við Sigurð Tómasson stúdent sem er á framboðslista Alþýðubandalagsins. Þar segir m.a. "Við höfum líka séð síðustu mánuði að afturhaldsöflin liggja ekki á liði sínu við að villa almenningi sýn í hernámsmálinu. Ofstækismennirnir sem stóðu að undirskriftaherferðinni eru nú að reka endahnútinn á aðgerðirnar með málshöfðunum á hendur andstæðingum sínum.Er þar um að ræða svívirðilega árás á tjáningarfrelsi landsmanna. Þessir menn hafa aldrei fengist til að ræða málstað sinn opinberlega, en reyna nú þess í stað að klekkja á andstæðingum sínum í skjóli gallaðrar löggjafar. Þar ætla þessir ofstækismenn að slá tvær flugur í einu höggi: Græða á flekkaðri æru sinni og svala hefndarþorstanum með því að senda sem flesta andófsmenn sína í tugthús." Viðmælandinn spyr: "Þáttur háskólamanna í þessari aðför hefur vakið athygli. Hvað viltu segja um það?" Svar: "Hlutur þessara manna sem við er átt, kemur stúdentum ekki á óvart. Þeir menn sem nú opinbera innræti sitt fyrir alþjóð með þessum hætti, hafa jafnan verið stækustu andstæðingar stúdenta innan Háskólans og beitt þar öllum tiltækum ráðum til að ráðast gegn hagsmunum þeirra, jafnt með persónulegum ofsóknum sem valdníðslu...."

2) "Þagnarmúrinn rofinn." Grein eftir Thor Vilhjálmsson um meiðyrðamálin. "Stefnendur virðast telja það refsivert að tortryggja þá. Hverjir eru þeir? Hversvegna ættum við að trúa þeim?...Ekki ómerkari menn en skáldið fræga Stephen Spender ritstjóri tímaritsins Encounter og hið kunna franska skáld Pierre Emanuel ritstjóri tímaritsins Preuves urðu fyrir miklum álitshnekki þegar þeir urðu uppvísir að því að hafa þegið fé frá CIA handa tímaritum sínum. Hvernig geta ekki merkari menn en stefnendur krafist þess að allir trúi fullyrðingum þeirra eða öllu heldur þögn þeirra án nokkurra grunsemda þegar á allt er litið?"

3) "Íslensk alþýða þarf að átta sig í tíma". Grein eftir Einar Olgeirsson um varnarmál og landhelgismál. Þar segir m.a. "Ýmsir menn sem enn telja sig Íslendinga biðja nú um að þessi blóði drifni árásarher megi dvelja til frambúðar á landi voru. Svo djúp er niðurlægingin, svo langt er komið því "hernámi hugar og hjarta" sem Sósíalistaflokkurinn varaði þjóðina eindregnast við í ávarpi sínu 8. maí 1951 eftir innrás ameríska hersins..." "Ísland væri nú bundið á herklafa Bandaríkjanna til ársins 2044, Hvalfjörður, Skerjafjörður og Keflavíkurvöllur amerísk yfirráðasvæði sem Íslendingar fengju ekki að fara um, ef Sósíalistaflokkurinn hefði ekki unnið sinn mikla kosningasigur 1942..."

4) "Ég er áreiðanlega á réttum stað". Rætt við Svövu Jakobsdóttur rithöfund. "...Nú, eins og allir vita voru réttarhöld tíð yfir mönnum á McCarthytímanum í Bandaríkjunum. Nú virðist fyrirbæri svipaðs eðlis risið upp hér, er forvígismenn Varins lands, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur opinberlega viðurkennt sem talsmenn sína í herstöðvamálinu, beita dómstólunum til framdráttar pólitísku baráttumáli sínu."

5) "Rætt við ungt fólk". "Karl Sighvatsson tónlistarmaður: "...Undirskriftasöfnun Varins lands brýtur í bága við þjóðernistilfinningu meirihluta ungs fólks og málaferli þessara kappa eru alveg fáránleg."

Vísir 27. júní 1974.

1) "Stefnum þeim til að sanna sakleysi okkar". Viðtal við Jónatan Þórmundsson. "Allt of mörg gífuryrði látin óátalin". Hugmyndin að gefa velferðarstofnunum það fé sem þeim yrði dæmt.

2) "Ofsóknir". SVH skrifar í "Lesendur hafa orðið" og hneykslast á Þjóðviljanum.

3) "Yrðu 300 þús. á hvert tölublað". "Árás á prentfrelsi." segir Svavar Gestsson, ritstjóri Þjóðviljans. Viðtal um meiðyrðamálin.

4) "Nennum ekki að ræða við marklausa menn." Viðtal við Óttar Yngvason sem ásamt Herði Einarsyni vildi ekki stefna.

Alþýðubl. 27. júní 1974. "Stefna Alþýðuflokksins mótast af tilliti til öryggis og þjóðernis." Viðtal við Jónatan Þórmundsson um varnarmál o.fl.

Morgunblaðið 27. júní 1974 (kosningadag).

1) Á forsíðu: "Til 55.522 Íslendinga og allra sem sama sinnis eru".

2) "Sænsk lög og íslensk lög". Grein eftir Þór Vilhjálmsson prófessor.

"Þjóðmál" 28. júní 1974. Grein eftir Björn Teitsson "sem bolað var burt úr Framsóknarflokknum á síðastliðnu hausti" segir í yfirskrift. Björn segir að undirskriftasöfnunin, sem hafi verið rekin af mikilli ósvífni, hafi komið eins og af himnum ofan fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem hafi notað sér tölvuspjöldin fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, a.m.k. í Reykjavík og á Akureyri.

Þjóðviljinn 28. júní 1974.

1) "Hvað kostar þetta". Stóryrt yfirlýsing 152 manna gegn málshöfðunum forvígismanna Varins lands.

2) "VL-menn afturkalli stefnur", áskorun stjórnar Félags járniðnaðarmanna.

3) "Æruvarið land. Æruþjófa alla í tugthús", eftir Jón Hjartarson.

4) "Það er buddunnar lífæð sem í brjóstinu slær". Ræða Vilborgar Harðardóttur á baráttufundi G-listans í Laugardalshöll. Þar er lýst óprúttnum aðferðum við að fá undirskriftir, en drjúgur hluti fólks hafi léð nafn sitt í grandaleysi. "...Sjálfstæðisflokkurinn telur sig eiga Votergeitmönnunum mikið að þakka vegna þessara undirskrifta og tölvuvinnslunnar úr þeim, og þeir mundu fá ríkulega umbun ef Sjálfstæðisflokkurinn ynni nýjan sigur."

5) Tölvuskrá VL-manna notuð í kosningunun. "Tölvuskrá "Varins lands" var notuð til kosningasmölunar fyrir Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík 26. maí og ef til vill víðar um land. Í Reykjavík var aðgerðunum hagað þannig að í veitingahúsinu Glæsibæ voru 20 manns með jafnmarga síma og spjaldskrá vl-manna. Þessari starfsemi mun Hreggviður Jónsson hafa stjórnað, en hann var starfsmaður "aðstandendanna" frægu við undirskriftasöfnunina. Þegar leið á kjördagskvöldið var hringt í hina ýmsu undirskrifendur watergate- víxilsins og sagt eitthvað á þessa leið: Þú skrifaðir undir áskorun Varins lands". Í dag er verið að kjósa um áhugamál þitt. Ætlar þú ekki að kjósa strax? Það er engin vitleysa þegar Þjóðviljinn heldur því fram að tölvuskrá vl-manna sé notuð í þágu Sjálfstæðisflokksins.....Þjóðviljinn hefur frétt að unnið hafi verið að vl-smöluninni í lokuðum sal í Glæsibæ, en þar var Sjálfstæðisflokkurinn með kosningaskrifstofu. Inn í þennan lokaða sal fékk enginn að fara nema með sérstöku leyfi frá Vl."

6)  "Til 71.664 Íslendinga og allra sem sama sinnis eru (stórfyrirsögn)". "Þessar línur eru sérstaklega skrifaðar til 71664 Íslendinga sem flestir neituðu að skrifa undir áskorun um ævarandi hersetu Íslands." (Hálfrar síðu áskorun vegna kosninganna)

7) "Höfum teflt við lélega skákmenn". Viðtal við Sigurð Björgvinsson, Neistastöðum um kosningafund í Selfossbíói. "...Var þá aðallega rætt um Watergate-víxilprógrammið, ofsóknirnar og málshöfðanirnar gegn heilum stjórnmálahreyfingum..."

8) "Stefna þeir 152 andmælendum?". Ritstjórnargrein þar sem vitnað er í yfirlýsingu 152 manna sem birt er í sama blaði.

9) "Hrós um stjórnarhæfileika sjálfstæðismanna napurt háð." Grein eftir Játvarð Jökul Júlíusson. ...Þeir hælast ekki svo lítið um yfir því að hafa kistulagt þjóðarmetnað fimmtíu og fimm þúsund fimm hundruð tuttugu og tveggja Íslendinga... ...sem áttu á bak að sjá þjóðarmetnaði sjálfstæðra þegna íslensks ríkis í ættlerakistuna frægu..."

10) "Hvað væru þessir menn kallaðir er óska áframhaldandi hersetu?". Grein eftir Guðnýju Jónsdóttur. "...þeim tilburðum sem nokkrir af þeim mönnum sem kalla sig aðstandendur "Varins lands" hafa haft í frammi til kúgunar á tjáningar og prentfrelsi í landinu."

11) "Kosningarnar eru hólmganga milli Sjálfstæðisflokksins og Alþýðubandalagsins". Rammagrein, óundirrituð. "...fulltrúi hægra ofstækisins, Þór Vilhjálmsson, gerir sér ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú í "baráttu gegn fólkinu", því vinnandi fólki er fylkir sér um Alþýðubandalagið gegn þeim kjararánsöflum sem sækjast eftir valdaaðstöðu í skjóli "Varins lands" og hefur hafið réttarfarsofsóknir gegn málfrelsi fólksins sem er í andstöðu við "ærumeidda prófessora"".

Morgunblaðið 28. júní 1974. "Málsókn vegna meiðyrða". Grein eftir Þór Vilhjálmsson. Orð andstæðinga rifjuð upp.

Morgunblaðið 28. júní 1974. Staksteinar: "Réttarofsóknir?" Skrif Þjóðviljans um forystumenn VL í tilefni af málshöfðun fordæmd og dæmi tekin.

Þjóðviljinn 29. júní 1974.

1) "Dæmisögur um notagildi tölvuskrár". Rammagrein á baksíðu, undirrituð "rl". "Á einum vinnustað hér í borginni þar sem tugir manna vinna var gengið um með "Watergate"-víxilinn á sínum tíma. Aðeins þrír af starfsmönnunum fengust til að skrifa á víxilinn. Þegar límmiðarnir frægu, sem íhaldið lét gera, fóru í dreifingu, ÞÁ FENGU AÐEINS ÞESSIR ÞRÍR STARFSMENN MIÐANA SENDA HEIM. Hin sagan er á þá leið að stúlka ein sótti um vegabréfsáritun til Bandaríkjanna fyrir nokkru og sótti um hana hjá bandaríska sendiráðinu....Hvernig sem á því stendur þá fékk hún UPPHRINGINGU TVEIM DÖGUM SÍÐAR FRÁ KOSNINGASKRIFSTOFU SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS, og var hún spurð hvort hún ætlaði ekki að kjósa áður en hún færi út!"

2) "Enn berast mótmæli: Gegn fjöldastefnum". Sagt frá "baráttukveðju" sem Þjóðviljanum hafi borist frá Alþýðubandalaginu í Skagafirði. "Til ritstjóra og blaðamanna Þjóviljans og annarra þeirra er eiga yfir höfði sér réttarfarsofsóknir VL-klíkunnar... ...Niður með fasismann".

3) "Nefnd metur kærumál VL". Frétt um að Rithöfundasamband Ísland hafi orðið við ósk Einars Braga og skipað 12 manna nefnd til að leggja mat á hvort kærumál og fjárkröfur VL-manna séu árás á tjáningarfrelsið".

4) "Skoðanakúgun mótmælt". "Undirritaðir fordæma það hugarfar gagnvart skoðana- og málfrelsi sem birtist í fjöldastefnum forystumanna Varins lands á hendur gagnrýnendum sínum þar sem krafist er fangelsisdóma og þungra fjársekta í stað skoðanaskipta og málefnalegrar rökræðu. Undirritaðir telja slíkt hugarfar og téðar aðgerðir af því sprottnar tilræði við lýðræðið og alvarlega ógnun við hin helgustu mannréttindi þess." Undir þetta rita Jón Samsonarson handritafræðingur, Gísli Gestsson safnvörður, Sverrir Bergmann læknir, Jónas Kristjánsson forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, Tryggvi Gíslason skólameistari, Kristján Árnason menntaskólakennari, Hannes Pétursson skáld, Björn Bjarman rithöfundur, Sigurður Baldursson hrl. og Andri Ísaksson prófessor.

5) "Gróft tilræði við eðlilega skoðanamyndun." Grein eftir Margréti Guðnadóttur um málaferli VL. Þar koma fyrir orð eins og "hernámspostular" og "réttarofsóknir", "opin atkvæðagreiðsla um herstöðvamálið framkvæmd af þessum og hinum misjafnlega heiðarlegum einstaklingum". "...standa svo landsbúar eftir með þá alvarlegu staðreynd að kippt hefur verið gersamlega grundvellinum undan því að á næstu áratugum geti farið fram heiðarleg og óháð þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta viðkvæma deilumál."

6) "Áttu þögnina eina dyggða?" Opið bréf til Jónatans Þórmundssonar frá Örnólfi Árnasyni. "Kæri Jónatan. Mikil skapraun var mér að sjá mynd þína og nafn (hvorttveggja þögult að vísu) í þeim rúmlega postulahópi sem komst upp með það að svíkjast eldhúsdyramegin inní íslensku þjóðina og forfæra hana á svipaðan hátt og maður (náttúrlega þó ekki ég né þú) leggur drukkna konu..."

7) "Þegar haldreipið verður hengingaról". Grein eftir Björn Bjarnason þar sem sagt er frá því að hann hafi frétt að á einum vinnustað kvenna hafi verkstjóri hótað fullorðnum konum uppsögn ef þær skrifuðu ekki undir lista, en sumar yngri konur hafi skrifað undir af því að þær vildu ekki missa Kanasjónvarpið. Ólíklegt verði þó að teljast að þetta fólk verðlauni íhaldið með því að gefa því atkvæði sitt á kjördegi.

8) "Morgunblaðið heimtar Olgu Guðrúnu á geðveikrahæli". "...Það vekur óhjákvæmilega athygli að pistill eins og þessi skuli birtast í Mogganum einmitt í sama mund og hafnar eru víðtækar réttarofsóknir á hendur íslenskum hernámsandstæðingum undir yfirskini sérstaklega teygjanlegrar meiðyrðalöggjafar..."

9) "Seljendur ákæra". Grein eftir Albert Einarsson með teiknimynd þar sem þeir fjórir háskólamenn sem fóru í meiðyrðamál er sýndir sem hermenn á skriðdreka. "Þau pólitísku málaferli sem nú eru í uppsiglingu eru þær mestu pólitísku ofsóknir sem íslensk alþýða hefur orðið vitni að."



10) "Lýðræðisöflin". Grein um málaferlin eftir Hauk Brynjólfsson, Sauðárkróki". "...Þeirra aðferð er að beita réttarofsóknum gegn andstæðingum sínum, og um leið hyggjast þeir drýgja tekjur sínar verulega, sem munu þó nokkrar fyrir, enda, eins og áður er sagt, ekki um almúgamenn að ræða."

11) "Andstæðingar VL-ofsókna geta ekki kosið íhaldið." Viðtal við Jón Þór Jóhannesson. "Það fólk sem hefur viðurstyggð á málshöfðunum Hreggviðs og félaga á hendur andstæðingum sínum, kýs ekki íhaldið. Alþýðubandalagið hefur sennilega sjaldan fengið sterkara kosningavopn.."

12) "Ísland úr NATO, herinn burt, er númer eitt". Grein eftir Þóri Steingrímsson. "...Stefnurnar eru út af fyrir sig hneykslanlegar og svívirðileg árás á tjáningarfrelsið í landinu, en það sem hneykslar mig samt mest er að þessum mönnum skuli líðast að hafa hér í frammi jafn stórfelldar persónunjósnir og um er að ræða."

13) "VL-frambjóðandi píndur til sagna: Tölvugögnin notuð við kjörskrármerkingar!" Rammagrein á forsíðu. Lagt út af ummælum Unnars Stefánssonar á kosningafundi í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið 29. júní 1974.

1) "Þrjú bótamál" Grein eftir Þór Vilhjálmsson prófessor um mál Þorgeirs Þorgeirssonar, mál Sigurðar A. Magnússonar og mál hátíðarnefndar stúdenta 1971, allt gömul meiðyrðamál.

2) "Vituð ér enn eða hvat?". Grein eftir Jónatan Þórmundsson um undirskriftasöfnunina, lögmæti, sænsk lög, ófrægingarherferð o.fl.

3) "Um tjáningarfrelsi og sorpblaðamennsku": Grein eftir Baldur Hermannsson.

4) "Yfirlýsing" undirrituð af Jónatan Þórmundssyni, Ragnari Ingimarssyni, Þór Vilhjálmssyni og Þorsteini Sæmundssyni vegna yfirlýsingar 152 manna sem birtist í Þjóðviljanum 28. júní 1974.

Þjóðviljinn 30. júní 1974. (Alþingiskosningar).

1) "Æruféð afhent til velgjörðarmála." Mynd af Þorsteini Sæmundssyni við afhendingu undirskriftanna þar sem Nixon og Kissinger hafa verið skeyttir inn í stað Ólafs Jóhannessonar og Eysteins Jónssonar. Í texta segir: Einn forsvarsmanna VL hefur lýst því yfir á opinberum vettvangi að fé það sem þeir tólfmenningarnir komi til með að hafa af blaðamönnum Þjóðviljans og fleirum, muni verða notað til einhverskonar velgerðarstarfsemi eða líknarsjóða. Mun þá væntanlega verða tekin mynd við þá hátíðlegu athöfn þegar "æðstipresturinn" afhendir fjárupphæðina.

2) "Vl-prófessor Þór Vilhjálmsson snýst gegn eðlilegri réttarþróun. Hvers konar lög mundu vl-menn setja ef þeir væru löggjafar?" Grein um það að víða um lönd sé unnið að löggjöf um verndun einstaklingsins vegna misnotkunar á upplýsingum um hann í persónubundnum tölvuskrám. Þór Vilhjálmsson sýni með orðum og gerðum, þar á meðal greinum í Mbl. að hann vilji ekki laga réttarreglur eftir þeim breytingum sem orðið hafi í þjóðfélaginu. Hann vilji beita meiðyrðalöggjöfinni, "leita skjóls í úreltum lagaákvæðum og misnota þau." Síðan segir um tölvuskrárnar og réttarvernd í því sambandi: "En prófessor Þór vill ekkert af slíkum rétti vita og beitir sér beinlínis fyrir því að hann sé brotinn niður. Það gerir hann í þeirri andrá sem hann tekur að afrita undirskriftalista VL, merkja undirskrifendur inn á aðrar skrár, búa til sjálfstæða tölvuskrá úr undirskrifendum, vinna upplýsingar úr þeirri skrá og veita færi á hagnýtingu hennar á óskyldum vettvangi."

3) "Dr. Hvöt og frú Þóra". Háðgrein með teiknimynd af "Þóru Vilhjálmsdóttur og Þorsteinu Sæmundsdóttur" í þjóðbúningum.

4) "Af ýmsu tilefni". Heilsíða með vísum um Varið land, merkt ýmsum fangamörkum. "Amerískt-íslenskt hjarta í okkar brjósti slær..."

Þjóðviljinn 2. júlí 1974. "Herstöðvaandstæðingar mótmæla skoðanakúgun." Framkvæmdastjórn Samtaka herstöðvaandstæðinga mótmælir tilraun til skoðanakúgunar og tilburði til dómsofsókna.

Þjóðviljinn 3. júlí 1974.

1) "Heilræðavísur". Birt er ljósmynd af 13 af forgöngumönnum Varins lands, og fylgja vísur Kristins Einarssonar og Þórarins Eldjárns. Yfirskriftin er þessi: Vísur ortar fyrir alllöngu útfrá meðf. mynd: rifjuðust upp fyrir okkur nýlega. (Teikning Sigrúnar Eldjárn fylgir ekki þarna).

2) "Bréf til frelsishetju". Þorgeir Þorgeirsson sendir VL mönnum tóninn vegna meiðyrðamáls. Stílað til "Hr. prófessor Þór Vilhjálmsson, c/o Ríkisútvarpið, Háskólinn, Bæjarþing Reykjavíkur o.fl.st."

Vísir 6. júlí 1974. "Alveg án mannasiða". Leiðari Jónasar Kristjánssonar um orðfæri Þjóðviljans gegn forgöngumönnum Varins lands.

Morgunblaðið 7. júlí 1974. "Meiðyrðamálið". Velvakandagrein undirritað "Ein af 55.522".

Þjóðviljinn 10. júlí 1974.

1) "Hvað kostar það". Innrammað ljóð eftir O.G. sem hefst þannig: "Talirðu illa um tölvu mína/tek ég íbúðina þína...."

2) "Um sofandahátt íslenskrar verkalýðsstéttar". Bréf til blaðsins eftir Hall Pál. "...En eitthvert gleggsta dæmið um innrætingu borgaralegs þankagangs er bænaskrá þeirra andlegu vesalmenna sem kallaðir hafa verið 14-menningarnir. Sú staðreynd að tæplega helmingur íslenskra kjósenda reit nafn sitt undir þessa lágkúru segir mikið um ofangreindan heilaþvott og andlegt ásigkomulag þjóðarinnar..."

Þjóðviljinn 11. júlí 1974. "Þannig forðar þú þér frá frekari vansæmd". Grein eftir Stefán Karlsson félagsfræðinema þar sem andmælt er grein Baldurs Hermannssonar í Mbl. 29.júní (Um tjáningarfrelsi og sorpblaðamennsku). "...En út yfir tekur þó þegar maður þessi skorar á Einar Braga - mann sem hefur stolt fyrir land sitt og þjóð - að knékrjúpa fyrir hinni ömurlegu lágkúru vl- manna sem hafa biðlað um ævarandi hersetu þjóð sinni til handa..."

Þjóðviljinn 14. júlí 1974. "12 manna nefnd Rithöfundasambands Íslands: Slík kærumál eru árás á tjáningarfrelsi". Sagt er frá áliti nefndar sem sett var til að meta málshöfðun á hendur Einari Braga, að beiðni hans.

Stúdentablaðið 14. júlí 1974. "Málsókn gegn ritstjórum stúdentablaðsins! af hálfu hernámstrúboða". Grein undirrituð "gg". "Þeir hugprúðu riddarar sem hófu hugsjón erlendrar hersetu á Íslandi í nýtt veldi með því að standa fyrir undirritun bænarskjals um áframhaldandi þjónkun Íslendinga við heimsvaldasinna, þeir herramenn verða seint slyppir af háleitum hugsjónum..." "...stúdentar virðast almennt fordæma athæfi þeirra, þó einkum tilraunir nokkurra starfsmanna Háskólans til að hefta tjáningarfrelsi stúdenta, þar sem reynt er að beita bæði Háskólaráði og dómstólum landsins..."

Þjóðviljinn 14. júlí 1974. "Landvörnum fylgi æruvarnir". Ritstjórnargrein um álitsgerð nefndar Rithöfundasambands Íslands um málsóknina gegn Einari Braga. Sagt er að krafist sé hárra fébóta og auk þess skuli Einar Bragi sæta árs fangelsi (segir Þjóðviljinn).

Þjóðviljinn 17. júlí 1974. "Þessir listar voru notaðir í kosningabaráttunni." Sagt er frá frétt í danska blaðinu Politiken um undirskriftasöfnun Varins lands. Frásögnin er í öllum atriðum samkvæmt forskrift Þjóðviljans hvað varðar vinnubrögð við söfnun undirskrifta, tölvuskráningu og misnotkun gagna í pólitískum tilgangi. Sagt er að hópur blaðamanna og stjórnmálamanna hafi mótmælt opinberlega þessu máli sem þeir kalli "Watergate-mál" Íslands.

Morgunblaðið 20. júlí 1974.

1) "Um tjáningarfrelsi og Einar Braga". Grein eftir Þorvald Búason.

2) "Opið bréf til 5 kennara í Háskóla Íslands". Grein eftir Markús Möller, formann Vöku, þar sem fjallað er um skrif Þjóðviljans 25. júní, "Upphaf stúdentaofsókna á Íslandi".

Þjóðviljinn 21. júlí 1974. "Það vekur líka furðu hve smásmugulegir þið eruð". Vitnað er í bréf Markúsar K. Möller, formanns Vöku, sem hann hefur sent dagblöðum. Bréfið er opið bréf til fimm háskólakennara sem stóðu að undirskriftasöfnun Varins lands. Markús er ánægður með undirskriftasöfnunina, en Þjóðviljinn tíundar ekki ummæli hans þar að lútandi. Hins vegar gerir blaðið fulla grein fyrir þeim hluta bréfsins þar sem málsóknir forystumanna Varins lands eru gagnrýndar.

Þjóðviljinn 22. júlí 1974. "Skáld fái þyngri dóm en aðrir. Er Varið land að segja dómstólum fyrir verkum?" Grein eftir Svövu Jakobsdóttur. Greinin er svar við grein Þorvalds Búasonar "Um tjáningarfrelsi og Einar Braga (Mbl. 20. júlí). "...Atferli forvígismanna Varins lands hefur allt frá upphafi verið tilræði við lýðræði í landinu..."

Þjóðviljinn 24. júlí 1974. "Postular óttans". Ólafur Haukur Símonarson skrifar um málsóknir forvígismanna úr hópi Varins lands: "Óttinn við dóm sögunnar hefur nú tryllt VL-mennina....Það er eðlilegt að pólitískir klifurkettir og grámyglulegar strengjabrúður óttist skáld og rithöfunda...Það er skiljanlegt og gott að magamiklir hægindastólamenn sem otað er út í baráttu fyrir vondan málstað skuli finna sig heltekna slíkum ótta af orðum skálds...

Morgunblaðið 27. júlí 1974. "Svar til Svövu". Grein eftir Þorvald Búason, svar við grein Svövu Jakobsdóttur í Þjóðviljanum 23. júlí.

Stúdentablaðið 28. júlí 1974. Viðtal við Björn Þorsteinsson. "...Þessi þjóðernisvitund er skilgetið afkvæmi þeirrar auðmenningar sem hér hefur dafnað í skjóli stríðsgróða og hersetu. Hún er jafnframt jarðvegurinn sem illgresi á borð við Varið land á vaxtarmöguleika í...Menn vilja oft loka augunum fyrir samtímanum. Við getum tekið sem dæmi þegar ýmsir menn, þ.á.m. prófessorar hér við háskólann ganga fram fyrir skjöldu, að mínu áliti sem ginningarfífl fyrir CIA eða þá af því að þeir eru almennt truflaðir, til að safna undirskriftum um áframhaldandi herstöðvar hér á landi, á sama tíma sem herstöðvar skapa tortímingarhættu en ekki vernd."

Þjóðviljinn 1. ágúst 1974. "Reisn ærunnar og reisn málstaðarins." Ritstjórnargrein þar sem tilfærð eru ummæli í grein Sigurðar A. Magnússonar í Mbl. 31. júlí. Tilefnið er úrskurður nefndar Rithöfundasambands Íslands í máli Vl-manna gegn Einari Braga og viðbrögð Vl-manna í Morgunblaðinu. Meiðyrðalöggjöfin íslenska sé gölluð. Sama gildi um þau lög sem beitt hafi verið erlendis til að ofsækja rithöfunda eins og Soltsénitsín.

Þjóðviljinn 2. ágúst 1974. "Hátíð Varins lands. Frétt um það að Jóni frá Pálmholti og fleirum hafi verið meinað af lögreglu að halda uppi borða með áletruninni "Ísland úr Nato - herinn burt" á þjóðhátíð á Þingvöllum. Það hafi verið samkvæmt fyrirskipun framkvæmdastjóra þjóðhátíðarinnar. "Það kom svo í ljós að tilskipanir framkvæmdastjórans miðuðust aðeins við hagsmuni þess fyrirtækis sem kallar sig Varið land."

Þjóðviljinn 3. ágúst 1974. "Stúdentaráð fordæmir Varið land". "Stúdentaráð fordæmir tilraunir tólf forgöngumanna "Varins lands" til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum sínum með því að höfða meiðyrðamál gegn þeim....Stúdentaráð telur ástæðu til að vekja sérstaka athygli á málshöfðunum fjögurra starfsmanna við háskólann gegn tveim nemendum skólans, ritstjórum Stúdentablaðsins...Málshöfðanirnar hljóta því að skoðast sem tilraun til þess að hrekja þessa stúdenta frá námi...."

Þjóðviljinn 8. ágúst 1974. "Hin ærulausu ræskni." Guðmundur Sæmundsson skrifar frá Osló um "réttarofsóknir Votergeitmanna gegn tjáningarfrelsinu á Íslandi."..."Í vetur sendum við íslenskir námsmenn í Osló áskorun nokkra til landráðamannanna...". "Með svívirðilegum áróðri ykkar hafið þið glatað öllum þeim einkennum er hljóta að prýða hvern þann er teljast vill Íslendingur en ekki vesturheimskaður landráðamaður. Þið hafið með aðferðum múgæsingamanna og nasista ginnt stóran hlut af hinni íslensku þjóð til að undrrita tortímingu sína. Þið eigið ekki lengur skilið að kallast Íslendingar." ... "Eins og allir vita höfða landráðamennirnir mál sín gegn prentfrelsinu á Íslandi á grundvelli úreltra laga um meiðyrði. Í rauninni er það algjör svívirða að þessi lög skuli enn vera til.".."Þeir munu lifa í Íslandssögunni á sama hátt og hr. Quisling ætíð mun lifa í Noregssögunni."

Morgunblaðið 20. ágúst 1974. "Tjáningarfrelsi og götustrákamál". Grein eftir Þorvald Búason, svar við grein Sigurðar A. Magnússonar í Mbl. 31. júlí "Um rithöfunda og tjáningarfrelsi".

Þjóðviljinn 22. ágúst 1974. "Nokkur orð til Indriða G." Grein eftir "Starra í Garði"..."Á þessu þjóðhátíðarári...gerðust þau tíðindi er sanna það áþreifanlega að þjóðin er andlega hernumin svo við sturlun liggur hjá stórum hluta landsmanna...Fimmtíu og fimm þúsund og fimm hundruð Íslendingar hlýddu kalli þrettánmenninganna og kröfðust með undirskrift sinni áframhaldandi hernáms, eða réttara sagt ævarandi hernáms..."..."æru sína fá þeir aldrei endurheimta fyrir peninga eftir að hafa fargað henni á þann hátt sem þeir gerðu í vetur."

Þjóðviljinn 11. september 1974. "Geislinn í heiðinni. Eftirmæli? um kanasjónvarpið" eftir Játvarð Jökul Júlíusson. "... "Hópur furðulegra innrættra og grunsamlega virkra liðsmanna tók allt í einu kipp: "Vörðu landi" skaut upp úr gruggugu kjölvatni hersetunnar. Mörgu var á þann veg skipað sem verstan grun mátti vekja um framandi íhlutun.."

Þjóðviljinn 19. sept. 1974. "Framsóknarflokkurinn er bundinn af samkomulaginu frá 21. mars". Viðtal við Einar Ágústsson utanríkisráðherra um straumhvörf í varnarmálunum. Í lokin segir: "Er ekki dálítið erfitt fyrir þig sem stjórnmálamann að eiga þátt í svona snöggum breytingum á svo skömmum tíma?" Svar: "Já, ég hef nú mikið hugleitt þetta, og að sjálfsögðu hugleiddi ég það áður en ég tók að mér að verða utanríkisráðherra í þessari stjórn sem nú situr. Ég álít fyrir mitt leyti að menn verði að hofast í augu við staðreyndir. Nú er ekki lengur þingmeirihluti fyrir því að segja varnarsamningnum upp og losna við herinn á tilteknu tímabili. Þess vegna finnst mér það vel réttlætanlegt frá minni hálfu að taka að mér að reyna að vinna þessu máli það gagn sem ég get í núverandi stjórnarsamstarfi og það mun ég reyna."

Þjóðviljinn 27. sept. 1974. "Eftir hálft ár rönkuðu vl-ingar við sér. Ragnari Arnalds stefnt." Sagt frá því að Ragnari hafi verið stefnt fyrir meiðandi ummæli í útvarpsþætti í febrúar, eftir að þeir hefðu árangurslaust reynt að fá þinghelgi svipt fyrir ummæli utan dagskrár á alþingi.

Þjóðviljinn 29. sept. 1974. "Um mállausa embættismenn og aðra aumingja". Grein eftir Guðstein Þengilsson. Þar segir m.a. "Meiðyrðalöggjöfin er bara fyrir mállausa embættismenn og aðra aumingja sagði "snjallasti lögfræðingur landsins" við Hilmar bókavörð í Keflavík hér á dögunum. Að vísu voru þau ummæli viðhöfð áður en umræddar málssóknir hófust. Þau sýna þó hve hér var spámannlega mælt."

Tíminn 10. október 1974. "Hreggviður Jónsson gegn Jóni Hreggviðssyni." Grein eftir Jón Óskar. Viðbrögð við grein Hreggviðs í Mbl. 18. september. "Margir telja að með þessum málsóknum sé hafin svæsnasta herferð gegn tjáningarfrelsi sem um getur í sögu íslensku þjóðarinnar.." ..."Nú á tímum eru svipaðar aðferðir viðhafðar, t.d. í Austur-Evrópu, þar sem sífellt er verið að dæma menn í fangelsi fyrir meiðandi eða óviðurkvæmileg ummæli um háttsetta menn og stofnanir."

Þjóðviljinn 11. okt. 1974. "Hreggviður Jónsson: Gefum ekkert upp". Rætt við Hreggvið um undirskriftasöfnun vegna Keflavíkursjónvarpsins. Fréttinni fylgir teiknuð mynd sem ungur piltur, GK, er sagður hafa sent Þjóðviljanum. Þar sést Hreggviður við skrifborð, en á hurðinni stendur: "Hreggviður, undirskriftasafnari fyrir CIA."

Þjóðviljinn 22. okt. 1974.

1) "Vl-málin aftur af stað": Rammafrétt. "Í dag skilar verjandi stúdentsins, sem prófessorar vildu tugta til hlýðni, greinargerðum, og síðar í vikunni koma greinargerðir í málinu gegn Þjóðviljanum og málum nokkurra blaðamanna hans...."

2) "VL-draugur í dagsljósið. Ritstjórnargrein. Sagt frá upphafi málaferla í meiðyrðamálunum og málin talin upp."Það er VL-deild Sjálfstæðisflokksins og þar með Sjálfstæðisflokkurinn sjálfur sem ber ábyrgð á þessu málaofstæki."..."Sá málarekstur sem í þessari viku hefst fyrir borgardómi Reykjavíkur mun taka langan tíma. Þar munu koma fram ýmsar upplýsingar sem vekja munu mikla athygli, og þar munu "aðstandendur" VL verða til sýnis um nokkurra mánaða skeið. Þeir menn sem ekki þorðu að tala fyrir máli sínu á liðnum vetri munu verða að standa fyrir máli sínu í réttarsölunum...Það kemur nú í hlut stefndra að draga VL-draugana fram í dagsbirtuna."

Þjóðviljinn 23. október 1974.

1) "VL-menn að gugna (svo!). Bjóða sumum sættir sem hefur verið hafnað." Forsíðufrétt.

2) "Lögmenn stefndra krefjast frávísunar." Sagt frá málflutningi 22. okt. í þremur málum fyrir borgardómi. Nánar grein frá sáttatilboði til Garðars Viborg og Helga Sæmundsonar þess efnis að fallið yrði frá málatilbúnaði ef þeir gæfu yfirlýsingu um að þeir teldu hin umstefndu ummæli ómakleg. Í ræðu Inga R. Helgasonar koma fram efttir farandi ummæli. "Sýkna ber því umbjóðanda minn á þeim grundvelli að honum er heimilt og rétt að berjast gegn áformum og aðgerðum hersetumanna, vara við þeim og útlista þær á allan hátt. Á bak við þetta pólitíska frelsi eru svo ríkir almannahagsmunir að smásmuguleg vernd ærunnar verður að víkja."

Þjóðviljinn 24. okt. 1974. "Tilraun til að flytja pólitíkina inn í dómsali". Úr greinargerð verjanda, Ragnars Aðalsteinssonar, í máli Garðars Viborg. Rætt er um yfirlýsinguna sem fjórtánmenningarnir hafi samið og almenningi boðið að skrifa undir. "Í yfirlýsingunni er því fólgin ásökun á hendur andstæðingum hersetu á Íslandi um landráð í skilningi X. kafla almennra hegningarlaga."

Þjóðviljinn 25. október 1974.

1) "Fyrirhuguð rækjuvinnsla á Blönduósi Í EIGU VL-BRASKARA. Þeirra Harðar Einarssonar og Óttars Yngvasonar."

2) "Þeir greiði 10 aura í táknlega sekt." "Lagðar voru fram 9 greinargerðir í VL-málum í gær.VL-menn biðja um sættir". Einar Bragi krefst þess að stefnendur verði dæmdir til að greiða...10 aura í táknræna sekt til ríkissjóðs í smánarskyni fyrir ósæmilega aðför að tjáningarfrelsi manna og ástæðulausa málsýfingu." Sagt er að Árna Björnssyni og Guðsteini Þengilssyni hafi verið boðnar sættir. Í sáttatilboði var þess farið á leit að stefndur lýsti ummæli sín ómakleg. Ingi R. Helgason bauð fram sátt á þeim grundvelli að stafurinn "ó" yrði felldur niður.

Þjóðviljinn 26.október 1974. "Eins og hrínandi krakkar á kontór að klaga." Greinargerð Einars Braga í meiðyrðamáli. Mynd af því þegar kistan var borin í alþingishúsið og önnur af Þorsteini Sæmundssyni að opna hana. Einar talar um "ósvífnustu aðför að tjáningarfrelsi íslendinga sem sögur fara af hér á landi."

Þjóðviljinn 30. okt. 1974. "Í þoku leynist hinn pólitíski galdur". Sagt frá máli VL-manna gegn Þjóðviljanum og greinargerð lögmanns Þjóðviljans, Inga R. Helgasonar. "Eflaust verður erfiðara að sýna fram á í máli þessu með óyggjandi sönnunum að tengsl hafi verið milli stefnenda og leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA. Opinber staðreynd er þó að þessi stofnun Bandaríkjastjórnar styður með peningaframlögum og á þann hátt pólitíska undirróðursstarfsemi í þágu Bandaríkjanna í fjölmörgum löndum heims og hlutast þannig til um innanríkismálefni þeirra. Því miður sýna dæmin að opinberar afneitanir um tengsl við CIA eru marklausar, sbr. bílstjóraverkfallið í Chile, en þar með er auðvitað ekki sannað að tengsl hafi verið milli VARINS LANDS og CIA..."

Nýtt land, nóv. 1974. "Málshöfðun Vl-manna gegn ábm. Nýs lands". Greinargerð Ragnars Aðalsteinssonar, verjanda Garðars Viborg. Birt er innrammað sáttatilboð þar sem stefnendur bjóðast til að falla frá kröfum sínum ef stefndi lýsi því yfir að hann telji hin umstefndu ummæli ómerk.

Þjóðviljinn 7. nóv. 1974. "Að deila um skoðanir af festu og einurð er góð barátta og nauðsynleg. Greinargerð verjenda í tölvuskrármálinu". Sagt er frá málflutningi í máli gegn Hjalta Kristgeirssyni, en lögfræðingur hans var Ragnar Aðalsteinsson.

Þjóðviljinn 1. des. 1974. "Ferð án fyrirheits". "Garún, Garún - come here you fat old bitch." Teiknimynd á allri forsíðu þar sem djákninn á Myrká reiðir konu sem merkt er CIA. Konan heldur á skjóðu merktri "VL - frjáls menning".

Þjóðviljinn 13. des. 1974. ""Riddarar ömurleikans": Sendu út stefnur í gær." Sagt er frá stefnum gegn Einari Braga og Svavari Gestssyni.

Þjóðviljinn 15. desember 1974. "Fréttabréf um þjóðhátíð". Ræða Svavars Gestssonar á fullveldissamkomu námsmanna í Kaupmannahöfn. Mikið fjallað um undirskriftasöfnunina og málshöfðanir. Segir að menn hafi verið neyddir til að skrifa undir (atvinnukúgun). Nú eigi að "útrýma sannleikanum með dómsorðum". "..sá sem segir sannleikann skal lögsóttur fyrir meiðyrði".

Þjóðviljinn 19. des. 1974. "Hvað er sannleikur". Grein eftir Guðmund Jóhannesson. Þar segir m.a. "...Það sannaðist meðal annars áþreifanlega á síðastliðnum vetri þegar vinstri stjórnin sat þó enn að völdum, hversu þar var allt óheilt innbyrðis með þátttöku fjölmargra framsóknarmanna í starfsemi vl- inga, einhverri þeirri óþjóðlegustu og lágkúrlegustu starfsemi er um getur í sögu íslendinga allt frá fyrstu tíð."

Þjóðviljinn 22. des. 1974. "Þjóðviljinn". Ritstjórnargrein þar sem m.a. segir: "Það stafar ekki einasta af því að afturhaldsöflin hafi sýnt meiri viðleitni til skoðanakúgunar en oft áður, samanber réttarofsóknir VL-manna."

Þjóðviljinn 28. des. 1974.

1) "VL-menn ekki hættir enn. Stefna Sigurði A." Frétt þar sem rakin eru þau ummæli sem stefnt er fyrir.

2) "Litið yfir þjóðhátíðarár". Útvarpserindi um daginn og veginn eftir Hlöðver Sigurðsson þar sem hann m.a. dregur í efa að undirskriftasöfnun Varins lands hafi verið marktæk.

Þjóðviljinn 27. febrúar 1975. "Verði skömm þeirra ekki uppi er ærleg hugsun horfin af Íslandi. " Greinargerð Sigurðar A. Magnússonar í meiðyrðamáli VL.

Þjóðviljinn 24. apríl 1975. "Gleðilegt sumar". Ritstjórnargrein þar sem minnst er á "..réttarofsóknirnar sem hafnar voru af þeim erindrekum erlends valds sem kenna sig við "varið land"....

Þjóðviljinn 26. apríl. "Þorsteinn Sæmundsson og félagar í Vl fyrir rétti í gær. Merktu á kjörskrá frá Sjálfstæðisflokknum." Forsíðufrétt.

Morgunblaðið 29. apríl 1975. Aðilar gefa skýrslur í fyrsta Þjóðviljamálinu. Heilsíðufrásögn.

Þjóðviljinn 30. apríl 1975. "Vl-menn yfirheyrðir. Hvar eru spólurnar og tölvuútskriftin?" "Sjálfstæðisflokkurinn lánaði kjörskrána í upphafi. Hvað fékk hann í staðinn".

Morgunblaðið 1. maí 1975. "Ranghermi Þjóðviljans leiðrétt". Athugasemd við frétt Þjóðviljans 26. apríl undir fyrirsögninni "Merktu á kjörskrá frá Sjálfstæðisflokknum". Undirritað af Birni Stefánssyni, Ragnari Ingimarssyni, Þorsteini Sæmundssyni og Þorvaldi Búasyni.

Þjóðviljinn 6. maí 1975.

1) "Ég lofa því hátíðlega". Aðilaskýrsla Úlfars Þormóðssonar vegna vl-réttarhalda.

2) "Eftir 30 ár." Ritstjórnargrein sem hefst þannig: "Þessa daga eru liðnir réttir þrír áratugir síðan herir nasista biðu endanlegan ósigur í einu Evrópuríkinu af öðru. Eftir hörmungar heimsstyrjaldarinnar var almenningur gagntekinn sigurgleði og fögnuði, allir nema VL-menn þeir sem gerst höfðu handgengnir menn fasista í öllum löndum heims."

Þjóðviljinn 24. maí 1975. "VL-menn svarafáir. Af hverju var þagað um tölvuvinnsluna". Frásögn af yfirheyrslum í meiðyrðamáli gegn Úlfari Þormóðssyni. Þar segir m.a.: "Fram kom að tölvuvinnslan hófst 4. febrúar 1974 og að Þorsteinn Sæmundsson fyrirskipaði þeim sem hana önnuðust að fara með hana eins og mannsmorð." Greinin undirrituð "ÞH".

Þjóðviljinn 3. júní 1975. Viðtal við Thor Vilhjálmsson. Einn kaflinn fjallar um málshöfðanir Varins lands undir fyrirsögninni "Um málfrelsi".

Morgunblaðið 6. júní 1975. "Allar upplýsingar voru látnar í té um tölvuvinnsluna". "Aðila- og vitnayfirheyrslum haldið áfram í fyrsta Þjóðviljamálinu." Frásögn af málflutningi gegn Úlfari Þormóðssyni á bæjarþingi Reykjavíkur 20. maí. Ýtarleg lýsing á tölvuvinnslunni.

Þjóðviljinn 7. júní 1975. "180 þús. og þyngstu refsingu heimta VL-menn vegna ummæla Guðsteins Þengilssonar um þá". Frétt um að Guðsteinn hafi komið fyrir borgardóm og málflutningi lýst.

Þjóðviljinn 10. júní 1975. "Framburður stangast á". Frásögn af framburði Þórs Vilhjálmssonar fyrir borgardómi 23. maí í máli gegn Úlfari Þormóðssyni.

Þjóðviljinn 11. júní 1975. "...gegnum Sjálfstæðisflokkinn...""Sannleikurinn um tengsl Vl-hópsins við Sjálfstæðisflokkinn togaður út úr Þorvaldi Búasyni - og vitnað í Hreggvið í leiðinni." Frásögn af framburði Þorvalds Búasonar og Hreggviðs Jónssonar fyrir dómi 25. apríl í máli gegn Úlfari Þormóðssyni.

Þjóðviljinn 12. júní 1975. "...hættir að heilsa mér". Frásögn af framburði Jónatans Þórmundssonar 23. maí í máli gegn Úlfari Þormóðssyni.

Þjóðviljinn 13. júní 1975. "Skortur á virðingarstöðum". Frásögn af framburði Ragnars Ingimarssonar fyrir dómi 25. apríl í máli gegn Úlfari Þormóðssyni.

Þjóðviljinn 14. júní 1975. "...mikið áfall fyrir mig". Um framburð Þorsteins Sæmundssonar á bæjarþingi í máli Úlfars Þormóðssonar. "Vl-horn" Þjóðviljans.

Þjóðviljinn 17. júní 1975. "Frambjóðendur með kjörskrár í huga". Frásögn af framburði Unnars Stefánssonar 23. maí í máli gegn Úlfari Þormóðssyni.

Þjóðviljinn 19. júní 1975. "Það verður ekki gefið upp". Frásögn af framburði Björns Stefánssonar 25. apríl í máli gegn Úlfari Þormóðssyni.

Þjóðviljinn 20. júní 1975. "Hreysikötturinn og bjarndýrið". Lýsing á málflutningi fyrir borgardómi. "Hreysikötturinn" er lögmaður stefnenda, Gunnar Guðmundsson, en "bjarndýrið" lögmaður verjenda, Ingi R. Helgason. Gunnar er sagður hafa neflæga rödd, og vera skrækróma, en annars virðist blaðamanni (GG) heldur hlýtt til hans. Lýst er málsaðilum: "Þorsteinn innfallinn og þrautalegur í framan eins og maður með vonda magapínu. Ragnar með flæðandi ístru eins og væri hún eini líkamshlutinn þess virði að um hann væri hugsað.... Afskaplega ólíkir menn. Og líka svo afskaplega ólíkir flestu fólki. Eða Þorvaldur Búason sem allan tímann situr við hlið "hreysikattarins", hlær að öllu, flissar daginn langan eins og smápía, slær á enni sér, greinilega sveittur, greinilega afskaplega heitfengur, veltir sér til í stólnum, strýkur þriflega vömbina og hefur hvíta, freknótta húð sem í minni sveit var kölluð hafragrautshúð..." "Vl-fólk er einhvern veginn öðru vísi fólk, fólk sem hlær aðeins rosalega, fólk sem hefur ekki kímnigáfu, fólk sem hefur af einhverjum, sennilega uppeldislegum ástæðum orðið útundan..."

Þjóðviljinn 21. júní 1975. "Þjóðviljinn sóttur til saka". Birt er upphaf varnarræðu Inga R. Helgasonar í málinu gegn Úlfari Þormóðssyni á bæjarþingi. Í yfirskrift segir: "Í hinum langa málflutningi fyrir bæjarþingi Reykjavíkur í máli Vl gegn Úlfari, kom greinilega fram, að málatilbúnaðurinn er atlaga hersetumannanna gegn Þjóðviljanum og tjáningarfrelsinu í landinu.

Þjóðviljinn 24. júní 1975. "Vl fór ólöglega með tölvugögnin". Kafli úr varnarræðu Inga R. Helgasonar í málinu gegn Úlfari Þormóðssyni. Í yfirskrift stendur: "Vl-menn eiga í fórum sínum tölvuspólu með nöfnum allra undirskrifenda sem þeir neita að eyðileggja eða afhenda opinberum aðilum."

Morgunblaðið 28. júní 1975. Reykjavíkurbréf. "Tjáningarfrelsi". Stuðningur við forystumenn VL.

Þjóðviljinn 5. júlí 1975. "Dómsorðin". Heilsíðufregn með myndum í tilefni af dómi gegn Úlfari Þormóðssyni og Guðsteini Þengilssyni. Þjóðviljinn fagnar því að þeir skuli hafa sloppið við sektir, þótt mörg ummæli hafi verið lýst dauð og ómerk og þeim gert að greiða málskostnað. Fyrirsagnir eru: "Dæmt ómerkt að nota orðið "mannvitsbrekka" um VL-hópinn." "Fráleitum refsi- og miskabótum hrundið", "Æran ekki skóbótarvirði", "Málatilbúnaðurinn hrundi til grunna."

Stúdentablaðið, 4. tbl. 1975.

1) "Þeir segi af sér". Sagt að dómar séu fallnir í tveim ærumeiðingarmálum, en málsækjendur hafi ekki haft erindi sem erfiði. "Hefur þeim kannski komið til hugar það sem hverjum manni með ómeidda og óspillta æru hlyti að gera: að segja af sér."

2) "hættir að heilsa mér". "Að undanförnu hafa staðið yfir vitnaleiðslur í máli VL-manna á hendur Úlfari Þormóðssyni. Hafa margar ómetanlega perlur hrokkið úr hvofti félaganna fjórtán. Jónatan kvað jafnvel svo að orði að margir samstarfsmenn sínir væru hættir að heilsa sér"

Þjóðviljinn 5. júlí 1975. Í dálkinum Klippt og skorið er krafist rannsóknar á starfsemi CIA á Íslandi, þ.á.m. "hvernig tengsl CIA og Vl manna voru".

Þjóðviljinn 7. júlí 1975. "Í stað VL komi 3 fyrstu stafirnir". Grein eftir Sig. Guttormsson þar sem hann fer fram á að Þjóðviljinn nefni forvígismenn Varins lands framvegis "VAR-menni".

Þjóðviljinn 8. júlí 1975.

1) Í þættinum Klippt og skorið er birt samsett mynd þar sem Þorsteinn Sæmundsson. sést opna kistilinn með undirskriftunum í Alþingishúsinu, en bak við stendur Nixon fagnandi og tekur á móti. Undir stendur: "Dæmt ómerkt að nota orðið "mannvitsbrekka" um Vl-hópinn er stóð að skipulagningunni." Síðan er sagt frá því að Úlfar Þormóðsson og Guðsteinn Þengilsson hafi fengið heillaóskaskeyti víðs vegar að eftir dóminn gegn þeim félögum, en stefnt sé að stofnun sjóðs til að greiða málskostnað sem allur féll á stefndu.

2) "Hagsmunatengsl hernámssinna í fullu gildi". Ritstjórnargrein sem endar á orðunum: "Allt tal um "öryggi" er aðeins yfirvarp, hagsmunatengslin skína í gegnum yfirbreiðsluna." Vitnað er í grein Guðsteins Þengilssonar í Þjv. sem stefnt var fyrir.

Þjóðviljinn 10. júlí 1975. "Örstuttur eftirmáli vegna vl-réttarhalda. Nú hafa 12 menn fengið löggildingu fávisku sinnar." Grein eftir Úlfar Þormóðsson blaðamann. Þar segir m.a. "..veit ég ekki til annars en að þetta sé fyrsti hópur mann sem fær dómsúrskurð, vel að merkja að eigin ósk, fyrir því...að þeir séu vitleysingjar, löggiltir og dómsúrskurðaðir vitleysingar." "Eins og lesendur muna af birtingu þessara kafla (af framburði fyrir rétti) þá var aðaleinkenni þeirra allra það að þessir menn eru algjörlega ófærir um að tjá sig á móðurmálinu. Hugsun þeirra er þokukennd, órökvís og samhengislaus. Þetta eru þó menn sem taka laun fyrir að tala, eru atvinnukjaftaskar, eins og til dæmis prófessorarnir þrír."

Þjóðviljinn 15. júlí 1975. "Gömul þingvísa". Jón Thor Haraldsson skrifar: Þörf er sú athygli sem "Þjóðviljinn" hefur undanfarið vakið á málfari þeirra "aðstandenda" Varins lands. Þetta eru málhaltir vesalingar sem best er lýst með því að jafnvel forsætisráðherrann er skárri. En meiðyrðalöggjöfin er kafli út af fyrir sig, og í þessum dæmalausu málaferlum rifjaðist upp fyrir mér gömul þingvísa: Þótt maður brigsli manni/um magnað svínarí/og allar sakir sanni/- hann sektast fyrir því!

Þjóðviljinn 17. sept. 1975. "Orðfæri ærukærra". Viðbrögð við grein Þorvalds Búasonar í Mbl. og hneykslun á því að hann skuli sjálfur hafa notað eftirfarandi orð: "....eru umtalsillir í dagfari..." ...óhróðursmönnum.." ..."áróðurssóðum".

Morgunblaðið 24. september 1975. "Talsmenn Varins lands senda Norræna rithöfundasambandinu greinargerð." Greinargerðin birt.

Þjóðviljinn 26. sept. 1975.

1) "Stendur rithöfundum næst að rísa til varnar". "Í tilefni af frásögn Morgunblaðsins í gær af vl-málinu á ársfundi norrænna rithöfunda og æsiskrifa blaðsins í garð Sigurðar A. Magnússonar sem reifaði málið ytra, svo og vegna ummæla ýmissa íslenskra höfunda í Morgunblaðinu sem stefnt virðist vera gegn einingu rithöfunda og samtökum þeirra, sneri Þjóðviljinn sér til Thors Vilhjálmssonar rithöfundar og spurði hann álits á því að formaður Rithöfundasambands Íslands reifaði stefnur þeirra vl-manna á fundi með starfsbræðrum sínum". Undirritað "hj".

2) Þátturinn "Klippt og skorið" er helgaður sama málefni. Undirfyrirsagnir eru m.a. þessar: "Árásir á Sigurð A. Magnússon", "Steinhissa", "Ögrun við tjáningarfrelsið", "Flestum fannst rangt", "Sprengjukast". Í síðustu klausunni er veist að Guðmundi Daníelssyni sem var einn þeirra rithöfunda sem gagnrýndu Sigurð A. Magnússon í Mbl. 25. sept.

3) "Hver er Lembourn? Öldruð belja eða hvað?" "Hver er hann danski rithöfundurinn Lembourn sem Morgunblaðið fékk stuðning hjá í gær í viðleitni sinni til að níða niður Sigurð A. Magnússon og rjúfa einingu rithöfunda um málfrelsi?....." Vitnað í umsögn Thors Vilhjálmssonar.

Þjóðviljinn 30. sept, 1975.

1) "Skeytið frá "Vörðu landi" kallaði á ályktanir." "Tölvunotkun VL vakti hneykslan á tölvuþingi." Viðtal við Sigurð A. Magnússon um þing norrænna rithöfundaráðsins.

2) "Fundarboð Staparáðstefnunnar". Birt bréf sem sent hafi verið til fólks um allt land, undirritað af 54 mönnum. "Vegna hinna breyttu aðstæðna í herstöðvamálinu höfum við undirrituð ákveðið að boða til ráðstefnu í félagsheimilinu Stapa dagana 11. og 12. október n.k......" "Upplýsingar veita Einar Bragi, Elías Snæland Jónsson, Gils Guðmundsson og Finnur Torfi Hjörleifsson."

Þjóðviljinn 1. okt. 1975. "Seinheppni VL-manna og Mogga". Í dálkinum Klippt og skorið segir "ekh" frá ferð Sigurðar A. Magnússonar, formanns Rithöfundasambands Íslands, á þing Norræna rithöfundaráðsins, þar sem hann gerði grein fyrir VL- málum. Síðan hafi skeyti VL-manna gert norrænum rithöfundum ljóst að þeir VL- menn stefndu að því að draga úr skoðanaskiptum og auka þögnina. Morgunblaðið hafi síðan tekið upp hanskann fyrir VL-menn.

Þjóðviljinn 2. okt. 1975.

1) "Stjórn Norska rithöfundasambandsins: LÝSA FURÐU SINNI Á TILTÆKI VL". Forsíðufrétt.

2) "Árás á tjáningarfrelsið". Ádeila á Indriða G. Þorsteinsson fyrir grein í Mbl. 1. október þar sem hann hafi haldið því fram að Sigurður A. Magnússon hafi brotið lög Rithöfundasambands Íslands með því að ræða VL-mál á fundi Norræna rithöfundaráðsins.

Þjóðviljinn 3. október 1975. "Dómstólameðferð eykur þögnina". Sagt frá samþykkt norska rithöfundasambandsins vegna málaferla gegn Sigurði A. Magnússyni og Einari Braga. Fram kemur að forgöngumenn Varins lands hafi sent 755 orða símskeyti til Norska rithöfundaráðsins. Í samþykktinni segir m.a.: "Við erum þeirrar skoðunar að allar lýðræðislegar stjórnmálaumræður bíði tjón af því ef leitað er til dómstóla til þess að skera úr um orðaval og tónfall. Sérhver sakfelling í slíku máli felur í sér skerðingu á skoðaskiptum og eykur þögnina."

Þjóðviljinn 11. okt. 1975. "Framhald vl-réttarhalda hófst í gær." Forsíðufrétt um málaferlin gegn Árna Björnssyni og Degi Þorleifssyni.

Þjóðviljinn 11. október 1975. "Þeir biðja um það erlenda vald sem kaghýddi forfeður þeirra." Varnarskjal Árna Björnssonar í VL-málaferlunum. Þar tekur hann sér fyrir hendur að rekja ættir Þorsteins Sæmundssonar til ógæfumanna, þar á meðal manns sem dæmdur var til Brimarhólmsvistar. Greininni fylgir ljósmynd af 13 af forystumönnum Varins lands og háðvísa Kristins Einarssonar og Þórarins Eldjárns.

Þjóðviljinn 12. okt. 1975. "Varið land". Innrammað ljóð eftir Gunnar B. Kvaran.

Þjóðviljinn 4. nóv. 1975.

1) "Leyniþjónustugögn frá VL?" "Í greinaflokki sem hefst í blaðinu í dag er fjallað um þá hættu sem lýðfrelsi stafar af persónuskýrslum í höndum óhlutvandra aðila...Enginn þarf að efast um það hvar upplýsingar úr VL-skránni lenda - svo nákvæmar lýsingar berast nú vestan úr Ameríku um starfsaðferðir bandarískra stjórnvalda og leyniþjónustu þeirra. Hér skiptir engu þótt einstakir VL-ingar eða þeir allir kunni að vera í góðri trú...."

2) "Prófessorar í Reykjavík og prófessorar í París." "Sagt frá tölvutækniráðstefnu á vegum OECD sem haldin var í þann mund sem vl- ákærurnar dundu yfir hér heima." Grein undirrituð "hj". Rammayfirskrift: "Persónuleynd og tölvutækni".

Þjóðviljinn 5. nóv. 1975. "Þannig jafnast vl á við Watergate". "Af þessari grein verður ljóst að framferði vl-inganna hér heima gengur þvert á það sem telst almennt siðgæði í Bandaríkjunum." Rammayfirskrift: "Persónuleynd og tölvutækni 2"

Þjóðviljinn 6. nóv. 1975. "Hvarvetna unnið að nýrri lagasetningu. Getur Ísland til frambúðar talist réttarríki ef ekki verður hirt um að setja skýr lög til verndar mannréttindum gegn yfirgangi tölvuóðra vl-inga?". Grein undirrituð "hj".
Rammayfirskrift: "Persónuleynd og tölvutækni 3"

Þjóðviljinn 7. nóv. 1975.

1) "Málssóknin er einsdæmi í íslenskri réttarsögu". Greinargerð Jóns E. Ragnarssonar í VL-máli gegn Sigurði A. Magnússyni rithöfundi.

2) "Að vernda einstaklinginn, réttindi hans og velferð." Rætt við Sigurð A. Magnússon um samnorræna ráðstefnu um persónuleynd sem hann sótti í Osló.
Rammayfirskrift: "Persónuleynd og tölvutækni 4"

Þjóðviljinn 8. nóv. 1975. (Dálkurinn "Klippt og skorið"). "Vaskur maður. Þór Heimir Vilhjálmsson er maður sem þjóðin þekkir nú aðallega vegna forgöngu hans um undirskriftasöfnun "Varins lands". Á því sviði munu dáðir hans seint fyrnast og ber tvennt til. Annarsvegar eru kviðlingar ágætir sem þjóðin hefur ort í tilefni af framtaki hans og lifa munu í geymd hennar um ókomin ár. Hitt er tölvuskrá sú sem hann beitti sér fyrir að gerð yrði um undirskrifendur og skoðanir þeirra á viðkvæmasta deilumáli meðal íslendinga fyrr og síðar. Sú tölvuskrá mun varðveitt verða í söfnum bandarísku leyniþjónustunnar svo lengi sem veldi hennar stendur...". Einnig er fjallað um ráðstefnu um persónuleynd og tölvutækni í Osló.

Þjóðviljinn 6. des. 1975. "Þrír vl-dómar til viðréttingar æru." Sagt frá dómum undirréttar í málum Árna Björnssonar, Dags Þorleifssonar og Garðars Viborg.

Þjóðviljinn 3. janúar 1976. "VL-menn stefnuglaðir. 4. stefnan gegn ritstjóra Þjóðviljans." Frétt um stefnu gegn Svavari Gestssyni. Einnig minnst á aðrar stefnur og dóma.

Þjóðviljinn 10. janúar 1976. Í dálkinum "Klippt og skorið" er lýst grófri íhlutun CIA í innanríkismál ríkja. Þar segir m.a. "...Fjáröflun Varins lands er enn óútskýrð svo ekki sé talað um þrálátan orðróm um persónunjósnir bandaríska sendiráðsins í röðum vinstri manna." Undir þetta rita "ekh-K".

Þjóðviljinn 14. janúar 1976. "Nú hefur þú fjöregg þjóðar þinnar milli handa. Krafan er: Alls enga samninga við breta". Opið bréf frá Hermóði Guðmundssyni í Árnesi, til Einars Ágústssonar utanríkisráðherra vegna landhelgisdeilunnar við Breta. Þar segir m.a. "Varst það ekki þú, sem varst búinn að heita því, að koma þessum erlenda her burt úr landinu okkar... Varst það ekki líka þú, sem brást þér vestur um haf í allt öðrum erindum vegna undirskrifta "Varins lands..."... Þetta er vilji "Varins lands" segja menn. Aldrei í sögu þjóðarinnar hefur meiri niðurlæging verið sett á opinbert leiksvið en undirskriftasvindl "Varins lands". Væri ekki full ástæða til að láta rannsaka það mál og hugsanlega þátttöku erlendra aðila í því?"

Þjóðviljinn 16. janúar 1976. "Hvar eru VL-ingar?". Ritstjórnargrein um landhelgisdeiluna við Breta. Þar segir m.a.: "Hvar eru þeir VL-ingar sem forðum óðu um allt land og inn í hvert hús eins og grenjandi ljón til þess að fá undirskriftirnar? Þessir VL-menn hafa haft hljótt um sig að undanförnu, enda vex skömm þeirrra í réttu hlutfalli við ofbeldisverk breta hér innan íslenskrar fiskveiðiðlandhelgi."

Þjóðviljinn 6. febrúar 1976. "Hindra verður að tölvutækni sé beitt til persónunjósna." Rammagrein með mynd af Ragnari Arnalds. Sagt er frá þingsályktunartillögu um tölvutækni við söfnun upplýsinga um skoðanir manna og persónulega hagi. Sagt er að sama tillaga hafi verið flutt á þingi fyrir tæpum tveimur árum [vegna undirskritfasöfnunar Varins lands] en ekki hlotið afgreiðslu þá. Auk Ragnars stóðu að tillögunni að þessu sinni Steingrímur Hermannsson, Benedikt Gröndal, Sigurlaug Bjarnadóttir og Magnús Torfi Ólafsson. Í texta segir: "Að sjálfsögðu er hér ekki aðeins um að ræða pólitískar tölvuskrár..."

Þjóðviljinn 3. febrúar 1976. "2 VL mál í borgardómi - 2 í hæstarétti". Frétt um það að mál gegn Rúnari Ármanni Arthúrssyni og Gesti Guðmundssyni hafi verið tekin fyrir í Borgardómi. Þá hafi verið tekin fyrir í Hæstarétti málin gegn Guðsteini Þengilssyni og Úlfari Þormóðssyni.

Þjóðviljinn 10. febr. 1976. "VL-ingar fyrir rétti. Herinn ekki til að vernda landsmenn fyrir árás breta. Þorsteinn Sæmundsson neitar að mæta fyrir dóminn." Sagt frá framhaldi málaferla gegn Rúnari Ármanni Arthurssyni.

Þjóðviljinn 11. febrúar 1976. "Ringulreið hjá VL-ingum". Frásögn af réttarhaldi í máli Rúnars Ármanns Arthurssonar. Birt er bréf Rúnars Ármanns Arthúrssonar til háskólarektors: "Áminntur áminnir".

Þjóðviljinn 12. febrúar 1976. "Einlægir hernámssinnar og mömmudrengir íhalds. Aðilaskýrslur Rúnars Á. Arthurssonar í málum VL-12 og VL-prófessora á hendur honum vegna skrifa hans í Stúdentablaðið o.fl."

Þjóðviljinn 2. mars 1976. "Varið land í Hæstarétti." Klausa í dálkinum Klippt og Skorið þar sem fjallað er um þá frétt að Þór Vilhjálmsson hafi verið skipaður Hæstaréttardómari og birt háðvísa af því tilefni, fengin úr tímaritinu Vinnunni.

Þjóðviljinn 3. mars 1976. "Umdeild veiting dómaraembættis". Frétt undirrituð "hj" þar sem gagnrýnd er skipan Þórs Vilhjálmssonar í hæstarétt. "Má undarlegt heita að formaður Framsóknarflokksins skuli sjá ástæðu til að heiðra forgöngumann "Varins lands" og segir það sitt um afstöðu formannsins til þessarar herferðar sem ætlað var að veikja vinstri stjórnina og gerði það."

Þjóðviljinn 9. mars 1976. "Kaldhæðni örlaganna". Smágrein í Bæjarpósti Þjóðviljans, undirrituð "Hernámsandstæðingur". Greininni fylgja myndir af Þorsteini Sæmundssyni og Þór Vilhjálmssyni. Undir myndunum er þessi texti: "Hvar eru Þorsteinn og Þór? Standa þeir í hliðunum eða eru þeir úti á Velli að semja? Eru þeir kannski að burðast þangað með undirskriftakisturnar núna?"  

Þjóðviljinn 11. mars. 1976. "Að skapa traust á réttarfarinu í landinu." Gagnrýnt að Ólafur Jóhannesson dómsmálaráðherra skuli skipa "ærusóttarsjúklinginn Þór Heimi Vilhjálmsson", "algjörlega óhæfan mann", "nátttröll kalda stríðsins" í embætti hæstaréttardómara. Dylgjað um það að VL hafi fengið fé frá lítt geðslegum erlendum aðilum. Undirritað "úþ".
 

Þjóðviljinn 26. mars 1976. "Þrjú vl-mál tekin til dóms í gær". Rammafrétt á baksíðu um málflutning fyrir borgardómi í málum gegn Rúnari Ármanni Arthúrssyni og Gesti Guðmundssyni.

Þjóðviljinn 27. mars 1976.
"Ráðherra hefur sett Hæstarétt úr leik í VL-málum". Grein eftir Einar Karl Haraldsson þar sem skipun Þórs Vilhjálmssonar í embætti hæstaréttardómara er gagnrýnd.

Þjóðviljinn 7. apríl 1976. "Verndun einstaklingsins gegn nútíma tölvutækni". Framsöguræða Ragnars Arnalds um þingsályktunartillögu um tölvuækni. Að tillögunni stóðu, auk Ragnars, Steingrímur Hermannsson, Benedikt Gröndal, Sigurlaug Bjarnadóttir og Magnús Torfi Ólafsson. Greininni fylgja myndir og ber ein þeirra eftirfarandi texta: "Undirskriftasöfnun Varins lands vakti menn til umhugsunar um hættuna af tölvuvinnslu skoðana. Hér sést Þorsteinn Sæmundsson, æðsti prestur VL, afhenda þáverandi forsætisráðherra og forseta sameinaðs þings skrínið með undirskriftalistunum, en tölvuspólurnar fylgdu ekki með."

Þjóðviljinn 18. maí 1976. "Vl-málin gegn Þjóðviljanum á dagskrá borgardóms í gær". Sagt frá réttarhöldum í máli gegn Svavari Gestssyni, ritstjóra Þjóðviljans. Þar segir m.a.: "Flutti Svavar aðilaskýrslu þar sem hann rökstuddi öll ummælin og lagði fram ýmis gögn, meðal annars yfirlit yfir 16 CIA menn sem starfað hafa á Íslandi."

Þjóðviljinn 22. júní 1976. "Svartasti bletturinn á sögu þjóðarinnar er fram líða stundir". Fyrri hluti aðilaskýrslu Svarvars Gestssonar ritstjóra fyrir dómi.

Þjóðviljinn 8. október 1976. "Lögmaður VL-inga Gunnar M. Guðmundsson féll frá ummælum sínum um falsanir nafnbirtinga." Frásögn af réttarhöldum í máli gegn ritstjóra Þjóðviljans fyrir bæjarþingi Reykjavíkur. Sagt frá því að í máli gegn Garðari Viborg [1974-1975] hafi Bjarni Guðnason komið fyrir dóminn og ekki munað hvort hann hefði skrifað undir "fordæmingarskjal" 152-menninganna. Lögmaðurinn hefði þá sagt að hann teldi undirskriftirnar meira og minna falsaðar ef ekki yrðu lögð fram frumgögn sem sönnuðu þær. Nú hafi komið í réttinn þeir Ólafur Jóhann, Njörður P. Njarðvík og Óskar Halldórsson, en þessir þrír hefðu, ásamt Sveini Skorra Höskuldssyni beitt sér fyrir undirskriftasöfnun þessari. Þá segir að Ólafur Jóhann Sigurðsson hafi skýrt frá því fyrir rétti í júnímánuði að hann væri höfundur fordæmingarskjalsins að meginefni til.

Þjóðviljinn 4. nóvember 1976. "Varnarskjal Árna Björnssonar sérprentað, VL til stríðs og storkunar. Út er komið í sérprenti varnarskjal Árna Björnssonar við VL-réttarhöldin, myundskreytt, tölusett og áritað í 200 eintökum." "Pésinn kostar 500 kr. og mun fást á afgreiðslu Þjóðviljans, Síðumúla 6 og Skólavörðustíg 19 og e.t.v. víðar." Sagt er að tilefnið sé að húseign Árna hafi verið auglýst til uppboðs fyrir vangreidda skuld vegna málaferlanna.    

Þjóðviljinn 3. des. 1976. "Æra VL-manna metin á 2.500 kr." Frétt eftir "ekh" um dóma í málum gegn Þjóðviljanum.

Þjóðviljinn 29. des. 1976.

1) "VL-ingum var neitað um ómerkingu þessara ummæla". "Orðið "bandaríkjaleppar" ekki ómerkt". Nokkur ummæli talin upp.

2) "Refsað fyrir tilvitnun í þjóðskáldið." Hér var um að ræða tilvitnun í kvæði Þorsteins Erlingssonar, heimfært upp á VL: "..þér hefði orðið bumbult (svo!) að horfa þar á svo hundflatan skrælingjalýð". Síðan talin upp fleiri ummæli sem álitin voru refsiverð.

3) Mynd Sigrúnar Eldjárns yfir þvera síðu ásamt háðvísum Kristins Einarssonar og Þórarins Eldjárns.

4) "Dómsorð og almenn niðurstaða."

5) "Kröfur VL-manna: Fangelsi og varðhald allt að tveimur árum".

6) "Dæmt dautt og ómerkt: Nokkrir leiðarar - og frétt af stefnu VL-manna!"

Alþýðublaðið 12. janúar 1977. Sagt frá því að Garðar Viborg ætli að verja mál sitt sjálfur fyrir hæstarétti og kæruatriði rakin.

Þjóðviljinn 18. janúar 1977. "Dómurinn hafnaaði kröfum VL-inga um miskabætur og refsingar og málskostnaður var felldur niður." Sagt frá úrskurði undirréttar 28. okt. 1976 í málinu gegn Helga Sæmundssyni ritstjóra.

Þjóðviljinn 12. febrúar 1977. "Lárus Jóhannesson fór úr réttinum til að geta stefnt. Andstætt grundvallarreglum að samdómendur Þórs Vilhjálmssonar í hæstarétti dæmi í málum hans." Viðtal við Inga R. Helgason þar sem hann telur að allir dómarar Hæstaréttar muni af sjálfsdáðum víkja þegar mál Varins lands verði tekin fyrir.

Þjóðviljinn 15. febrúar 1977. "Liðlega 1000 kr. á hvern VL-mann." Sagt frá dómi í bæjarþingi Reykjavíkur 27. des. 1976 í málinu gegn Einari Braga Sigurðssyni rithöfundi. "Niðurstaða hans er sú að nokkur ummælanna eru ómerkt og skal stefndi greiða 15.000 kr. sekt fyrir ein ummælin."

Þjóðviljinn 17. febrúar 1977. "Að draga úr virðingu Hæstaréttar". Forystugrein þar sem deilt er á Ólaf Jóhannesson dómsmálaráðherra fyrir að skipa Þór Vilhjálmsson, "annan af lögfræðilegum leiðtogum VL-inga" í Hæstarétt.

Þjóðviljinn 3. mars 1977. "Allir hæstaréttardómarar víkja. Nýir dómarar þegar settir. Ástæða: Aðild Þórs Heimis Vilhjálmssonar að VL-málunum". Forsíðufrétt með myndum þar sem greint er frá því að hinir nýju dómarar séu þeir Halldór Þorbjörnsson yfirsakadómari í Reykjavík, Unnsteinn Beck borgarfógeti, Þorsteinn Thorarensen borgarfógeti, Guðmundur Yngvi Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Jón Finnsson hæstaréttarlögmaður.

Þjóðviljinn 23. mars 1977. "Fyrsta VL-málið í Hæstarétti". Forsíðufrétt. "Hið fyrsta af hinum fjölmörgu meiðyrðamálum sem hinir endemisfrægu VL-ingar höfðuðu gegn blaðamönnum Þjóðviljans og ýmsum fleiri herstöðvaandstæðingum var tekið fyrir í nýskipuðum Hæstarétti í gær. Var það málið VL-ingar gegn Úlfari Þormóðssyni blaðamanni."..."Aðeins hafa VL-ingar þó slakað á tugthúskröfu sinni þar sem fyrir Borgardómi var rætt um þyngstu refsingu, en nú er rætt um "hæfilega refsingu" samkvæmt þeim greinum laganna sem heimila tugthúsvist fyrir raunveruleg meiðyrði."

Morgunblaðið 24. mars 1977.
"Hæstiréttur: Málflutningi lokið í meiðyrðamáli 12 manna gegn Þjóðviljamönnum". Sagt frá málflutningi í meiðyrðamáli 12 einstaklinga gegn Úlfari Þormóðssyni og Svavari Gestssyni, ritstjóra Þjóðviljans.

Þjóðviljinn 6. apríl 2007. "Forsendur, dómur og sératkvæði birt í heild: Hæstiréttur dæmir í fyrsta VL-málinu". Lýst er dómi í málinu gegn Úlfari Þormóðssyni en til vara Svavari Gestssyni.

Þjóðviljinn 13. apríl 2007.
"Dómstólar verða að gæta þess að þrengja ekki að lýðræðislegri umræðu. Úr dómi Steingríms Gauts Kristjánssonar í máli VL-inga gegn Einari Braga Sigurðssyni." Frásögn á heilli opnu í samræmi við dómsúrskurð.

Morgunblaðið 28. apríl 1977. "Annarlegar hvatir stýrðu penna Dags Þorleifssonar" sagði Gunnar M. Guðmundsson lögmaður 12 aðstandenda Varins lands við málflutning í Hæstarétti. Ýtarleg lýsing á málflutningi.

Morgunblaðið 14. júní 1977. "Í hinum umstefndu ummælum felst harkaleg árás á æru áfrýjenda." Dómur Hæstaréttar yfir Degi Þorleifssyni.

Morgunblaðið 17. júní 1977. Fimm rithöfundar, Indriði G. Þorsteinsson, Jón Björnsson, Jóhannes Helgi, Ingimar Erlendur Sigurðsson og Jenna Jónsdóttir deila á Sigurð A. Magnússon vegna framgöngu hans á þingi Norræna rithöfundaráðsins.

Morgunblaðið 23. júní 1977. "Málfrelsissjóðurinn" og Rithöfundasambandið. Svargrein Sigurðar A. Magnússonar við ádeilu fimm rithöfunda í Mbl. 17. júní þar sem Sigurður var gagnrýndur fyrir framgöngu á fundi Norræna rithöfundaráðsins.

Morgunblaðið 28. júní 1977. "Hverjir eru leigupennar". Jóhannes Helgi svarar Svavari Gestssyni, ritstjóra Þjóðviljans. Greinin hefst með þessum orðum: "Svavar Gestsson fjallar í síðasta helgarblaði Þjóðviljans allsvakalega um okkur fimmmenningana sem fyrir skömmu fordæmdum hér í blaðinu hugmynd nýafstaðins norræns rithöfundaþings um fjárstreymi frá Norðurlöndum í væntanlegan "málfrelsissjóð", öðru nafni fúkyrðasjóð, sem ætlað er það að greiða meiðyrðasektir skítkastara í íslenskum blöðum."

Morgunblaðið 16. nóv. 1977. Sjóður stofnaður til verndar málfrelsi á Íslandi. Mynd og nafnalisti.

Vísir 22. nóv. 1977. "Sjötíu og átta borgarar hvetja til lögbrota". Grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson um stofnun Málfrelsissjóðs, þar sem þátttaka Sigurðar Líndals er sérstaklega gagnrýnd.

Alþýðublaðið 7. des. 1977. Grjótkast úr glerhúsi, grein eftir Ólaf Ingólfsson þar sem minnst er á stofnun Málfrelsissjóðs.

Vísir 14. des. 1977. "Árita bækur til stuðnings Málfrelsissjóði". Frétt um að Tryggvi Emilsson áriti bók sína "Baráttuna um brauðið" í Bókabúð Máls og Menningar þennan dag, en fleiri rithöfundar muni gera slíkt fram að jólum.

Vísir 16. des. 1977. "Frjálshyggjumaður gegn félagafrelsi". Sigurður Líndal svarar gagnrýni Jóns Steinars Gunnlaugssonar.

Vísir 17. des, 1977. "Trúin á lögmálið". Önnur svargrein Sigurðar Líndals við gagnrýni Jóns Steinars.

Vísir 19. des. 1977. "Frelsi skoðana eða frelsi fjármagns". Þriðja svargrein Sigurðar Líndals við gagnrýni Jóns Steinars.

Vísir 20. des. 1977. "Trúin á lögmálið". Önnur svargrein Sigurðar Líndals, endurbirt vegna mistaka 17. des.

Vísir 27.des. 1977. "Staðfest er að Málfrelsissjóður hvetur til refsiverðrar háttsemi". Grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson. Innrömmuð tilvitnun: "Í hópi þessa ófagnaðarlýðs eru landvættir sem eru svo illræmdar fyrir brask og skúmaskotamakk, að þær hafa engu að tapa hvað álit snertir, ásamt með nokkrum sem lengi hafa aðallega haft það hlutverk að vera til athlægis í flokkum þeim og samtökum sem þeir hafa verið að puða í...." "Mannvalið í þjóðníðinganefnd þessari er einnig athyglisvert af þeirri ástæðu að hér er safnað saman örgustu úrhrökum afturhalds og fasisma sem á landinu er yfirhöfuð hægt að drífa upp."

Vísir 29. des. 1977. "Að löghelga skoðanakúgun". Svargrein Sigurðar Líndals við grein Jóns Steinars 27. des.

Þjóðviljinn 17. febrúar 1978.

1) Fyrsta greiðsla úr Málfrelsissjóði. Frétt á forsíðu og baksíðu með myndum. Guðsteini Þengilssyni veitt fé til að standa straum af VL-málaferlum.

2) 2 milljónir hafa safnast í Málfrelsissjóð. Frétt á baksíðu.

3) Ísland - 51. stjarnan. Mynd sem Stefán Geir gerði í tilefni fundar til stuðnings Málfrelsissjóði. "Samkoman til stuðnings Málfrelsissjóði á sunnudag. Háskólabíó klukkan tvö sunnudaginn 19. febrúar." Dagskrá.

Þjóðviljinn 5. mars 1978. Óttin og þögnin. Ræða Sigurðar A. Magnússonar á fundi til eflingar Málfrelsissjóði sunnudaginn 19. febrúar.

Morgunblaðið 9. sept. 1978. "Rannsóknastofnun eða róttæklingahreiður?". 1. grein Hannesar Hólmsteins um Háskóla Íslands. Hann ræðir þar sérstaklega um Pál Skúlason og aðild hans að Málfrelsissjóði. Minnt á orðbragðið: hundflatur skrælingjalýður, illræmdir braskarar, kanamellur, örgustu úrhrök afturhalds og fasisma, trúir rakkar.

Morgunblaðið 12. sept. 1978. "Rannsóknastofnun eða róttæklingahreiður?". 2. grein Hannesar Hólmsteins um Háskóla Íslands. Hann ræðir þar sérstaklega um Hjalta Kristgeirsson.

Morgunblaðið 23. sept. 1978. Athugasemd frá Jóhanni S. Hannessyni við skrif Hannesar Gissurarsonar.

Morgunblaðið 26. sept. 1978. "Níðfrelsi hinna útvöldu." Grein eftir Þorstein Sæmundsson í tilefni af viðbrögðum við greinum Hannesar Hólmsteins um Háskólann.

Morgunblaðið 27.sept. 1978. "Svar við spurningu Þorsteins Sæmundssonar". Jóhann S. Hannesson svarar grein Þorsteins Sæmundssonar..

Dagblaðið 4. júlí 1979. Síðasti VL-dómurinn yfir Ragnari Arnalds. "Spólan í öruggri vörslu VL-manns". Verður eyðilögð, segir Unnar Stefánsson. "Það hafði verið gengið út frá því að þetta yrði allt saman eyðilagt", sagði Unnar Stefánsson, einn þrettánmenninganna í samtökunum Varið land, þegar hann var inntur eftir því hvort tölvuspóla sú sem hefur að geyma nöfn þátttakenda í undirskriftasöfnuninni Varið land yrði eyðilögð eða eitthvað annað gert við hana. ... Kvaðst hann ekki vita betur en að spólan væri enn til í traustum höndum eins þrettánmenninganna."

Morgunblaðið 15. maí 1980. "Nokkur orð til Þorsteins Sæmundssonar." Grein eftir Helga Hálfdanarson þar sem fjallað er um 152 manna listann og undirskriftasöfnunina og afsakar m.a. orðfærið "Bandaríkjasleikja" og "hundflatan skrælingjalýð".

Morgunblaðið 5. mars 1988. "Undirskriftasöfnun!". Grein eftir Áslaugu Ragnars. Greinin fjallar um undirskriftasöfnun til að mótmæla byggingu ráðhúss á Tjarnarbakkanum. Síðan er vísað í undirskriftasöfnun VL: "Raunar telja margir að undiskriftasöfnun Varins lands sé einn merkasti stjórnmálaviðburður hér á landi fyrr og síðar....."

Morgunblaðið 9. mars 1988. "Að skrifa eða skrifa ekki". Grein eftir Helga Hálfdanarson þar sem hann gerir að umtalsefni grein Áslaugar Ragnars í Mbl. 5. mars. Þar var komið inn á undirskriftasöfnun VL. Helgi segir: "En hitt vitum við líka að sú aðgerð er af ýmsum öðrum talin eitt skelfilegasta hneyksli Íslandssögunnar. Þar á ég þó ekki við þann málstað sem um var deilt; hér er hann ekki til umræðu. Ég á einmitt við þá aðgerð að safna undirskriftum svo sem þá var gert." Helgi segist vita dæmi þess að menn hafi skrifað undir vegna þess að þeir töldu að afkomu sinni og fjölskyldu sinnar væri teflt í tvísýnu ef þeir neituðu að skrifa undir.

Morgunblaðið 24. febrúar 2000. "Tvær undirskriftasafnanir". Grein eftir Ragnar Ingimarsson, Þorvald Búason og Þorstein Sæmundsson þar sem leiðréttar eru missagnir í samanburði á undirskriftasöfnun "Umhverfisvina" vegna Fljótsdalsvirkjunar og undirskriftasöfnun Varins lands. Jafnframt eru leiðréttar rangfærslur um síðarnefndu undirskriftasöfnunina.

Morgunblaðið 25. júní 2003.
"Þurfum öflugri varnir". Viðtal við Þorstein Sæmundsson þremur áratugum eftir "Varið land".

Stúdentablaðið, 3. tbl. 2003. Aðalfyrirsögn: "Þegar hann [Þorsteinn Sæmundsson] gekk hvað harðast fram í því með hjálp annarra íhaldsmanna að setja SHÍ á hausinn". Undirfyrirsögn: "Frásögn af því þegar prófessorar fóru í mál við háskólastúdenta. " Grein eftir Eggert Þór Aðalsteinsson ritstjóra Stúdentablaðsins. Aðalfyrirsögnin er tilvitnun í skrif fyrrum ritstjóra blaðsins,  Rúnars Ármanns Arthurssonar, ein af mörgum ummælum Rúnars sem stefnt var fyrir.

Stúdentablaðið, 6. tbl. 2004. "Blaðið þótti róttækt og ögrandi." Viðtal við Rúnar Ármann Arthursson rithöfund, fyrrverandi ritstjóra Stúdentablaðsins. Þar segir frá því að Rúnari hafi verið stefnt vegna ummæla um forgöngumenn Varins lands í Stúdentablaðinu. Héraðsdómur hafi sýknað Rúnar, en "Hæstiréttur fór ekki jafn mildum höndum um okkur sakborningana, enda skipaður körlum á svipuðu reki og þeir sem stefnt höfðu í málinu". Forgöngumenn Varins lands hafi kosið að beita fyrir sig "umdeilanlegri og úreltri meiðyrðalöggjöf".  "Óvíst er hvort auðvelt yrði að fá menn dæmda seka í dag fyrir að nota orð á borð við "einlægir hernámssinnar" til að lýsa pólitískum andstæðingum líkt og henti mig fyrir þremur áratugum".     

Tímaritið Ský, 2. tbl. 2006. "Margt er það í Miðnesheiði ...". Upprifjun í tilefni af brottför bandaríska hersins eftir 55 ára veru á Íslandi. Grein eftir Sigurð Boga Sævarsson þar sem rakin er saga ágreinings um varnarliðið. Í greininni er mynd af frétt Morgunblaðsins um áskorun 60 manna til Alþingis vegna Keflavíkursjónvarpsins árið 1964 og meðfylgjandi mynd af afhendingu undirskrifta Varins lands árið 1974.


 
Lesbók Morgunblaðsins 14. mars 2010. "Varið land". Hugleiðingar um myndlist Tryggva Ólafssonar eftir Aðalstein Ingólfsson. Í greininni segir: "Snemma á ferli sínum málaði Tryggvi mynd sem hann nefndi Varið land, með augljósri tilvísan til umdeilds félagsskapar með sama nafni. Árið 1977 hefur eflaust verið litið á þessa mynd sem innlegg í áróðursherferð íslenskra herstöðvaandstæðinga, en í dag, í ljósi þess sögulega yfirlits sem sýning Tryggva í Listasafninu á Akureyri myndar, öðlast það aðra og víðtækari merkingu."

Þ.S. 11. maí 2008. Síðasta viðbót 25, mars 2010

 

Forsíða