Dómar í málum "Varins lands"
Hér verða raktar stefnur og dómar í málum sem nokkrir af
forgöngumönnum Varins lands höfðuðu vegna ummæla sem þeir töldu ærumeiðandi
fyrir sig. Málin voru þrettán talsins. Í níu tilvikum var
áfrýjað til Hæstaréttar. Textarnir sem
hér fara á eftir eru að nokkru leyti fengnir með því að skanna prentaðar
heimildir. Erfitt er að útiloka ritvillur þegar svo er gert, og er því
hugsanlegt að einhverjar villur leynist í textanum.
Fyrir kemur að stefnt er út af blaðagrein í heild án þess að
textinn komi fram í stefnu. Er lesandanum þá bent á að fletta upp í
viðkomandi dagblaði á vefnum (sjá
hér). Þetta getur líka
verið gagnlegt til að sjá í hvaða samhengi þau ummæli standa sem stefnt er
fyrir.
Flytjandi í öllum málum stefnenda var Gunnar M. Guðmundsson hrl., en
málflytjandi stefndu í flestum málanna var Ingi R. Helgason hrl. Garðar
Viborg flutti mál sitt sjálfur, og Hrafnkell Ásgeirsson hrl. flutti málið fyrir Helga
Sæmundsson.
Ragnar Aðalsteinsson flutti málið fyrir Hjalta Kristgeirsson.
Hæstiréttur var skipaður varadómurum. Þeir voru hinir sömu í málunum öllum: Halldór Þorbjörnsson yfirsakadómari,
Guðmundur Ingvi Sigurðsson hæstaréttarlögmaður, Jón Finnsson
hæstaréttarlögmaður, Unnsteinn Beck borgarfógeti og Þorsteinn Thorarensen
borgarfógeti.
Málin verða rakin í þeirri röð sem tímasetning dómanna segir til
um. Greint er frá dómsorði, en ekki rökstuðningi málflytjenda eða dómara nema þess gerist
þörf til að skýra dómsorðið.
1.
Mál
gegn Úlfari Þormóðssyni og Svavari Gestssyni til vara
Þetta mál var höfðað
með stefnu fyrir bæjarþingi Reykjavíkur 20. júní 1974. Dómari var Hrafn
Bragason. Hann kvað upp dóm 4. júlí 1975. Dóminum var áfrýjað til
Hæstaréttar 2. september 1975.
Dómur Hæstaréttar féll 1. apríl 1977.
Stefnendur voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Í
stefnu eru rakin ummæli þau í Þjóðviljanum, sem stefnt var út af. Þau voru
þessi:
I
Í
15. tbl., er út kom 19. janúar 1974. Grein á bls. 5, er ber yfirskriftina:
"Horn í síðu" og undirfyrirsögnina: "Sjálfboðaliðar til sköffunar á
aðhlátursefni". Greinin er undirrituð -úþ.
1. "
... fallkandidatar, . . . . . . bitlingameistarar ..."
2.
"... þessi hópur mannvitsbrekkna ..."
3.
"... Ætlunarverkið er sum sé það að safna meðal íslenskra borgara
undirskriftum undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að hrófla ekki við
hernum í Miðnesheiði og sjá reyndar til þess að hann verði þar um aldur og
æfi (sic) ..."
II.
Í
17. tbl., er út kom 22. janúar 1974. Grein á bls. 3, er ber fyrirsögnina:
"Lengi getur vont versnað". Greinin er undirrituð -úþ.
1.
"... sú niðurlæging nóg fyrir íslenskt fólk að standa fyrir
undirskriftasöfnun um ævarandi hersetu í landinu, þó ekki bættist önnur
niðurlæging við hjá þeim sem fyrir þessu standa ..."
2.
"... hafi næsta ómálga börn verið send með Watergatevíxilinn milli íbúða,
og væri sú svívirða öllu meiri að etja börnum út í slíkt og meiri
niðurlæging en sjálf hin niðurlægjandi söfnun .... "
3.
"... gengið um meðal sjúklinga og beðið um uppáskrift á víxilinn ... "
4.
"... þykir fólki athafnasemi "landvarnarmanna" með eindæmum".
III.
Í
39. tbl., er út kom 16. febrúar 1974. Grein á bls. 5, er ber yfirskriftina:
"Mestu persónunjósnir sem tíðkast hafa hérlendis" og undirfyrirsögnina:
"Landsmenn flokkaðir með tölvu af Vörðu landi". Greinin er undirrituð -úþ.
1.
Aðalfyrirsögn greinarinnar: "Mestu persónunjósnir sem tíðkast hafa
hérlendis".
2.
Undirfyrirsögnin "Landsmenn flokkaðir með tölvu af Vörðu landi".
3. "
... nota tölvu til að skilja líklega uppáskrifendur frá ólíklegum ... "
4.
"... Watergate-víxillinn ..."
5.
"... Landvarnarmenn hefðu fengið .......... að öðrum kosti ... "
6.
"... á vegum landvarnarmanna færu nú fram víðtækustu persónunjósnir sem
fram hefðu farið hérlendis, og væri með ólíkindum að Íslendingar einir ættu
hugmyndina að slíkum vinnubrögðum, heldur hlytu hér fagmenn frá Watergate að
eiga sinn hlut að..."
7. "... halda uppi njósnum um íslenska ríkisborgara, skoðanir þeirra og
athafnir ..."
Stefnendur gera þessar dómkröfur:
1. að ummæli þau, sem stefnt er út af, verði dæmd dauð og ómerk,
2. að dæmd verði hæfileg refsing fyrir ummælin,
3. að hverjum áfrýjenda verði dæmdar úr hendi stefnda 100.000 kr. í
miskabætur með 9 % ársvöxtum frá 16. febrúar 1974 til greiðsludags,
4. að áfrýjendum verði sameiginlega dæmdar 25.000 kr. til að kosta birtingu
forsendna og dómsorð væntanlegs dóms í máli þessu í opinberum blöðum,
5. að birtar verði forsendur væntanlegs dóms og dómsorð í 1. eða 2.
tölublaði dagblaðsins Þjóðviljans, er út kemur eftir birtingu dómsins,
6. að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjendum sameiginlega hæfilegan
málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð
Hæstaréttar:
Aðalstefndi, Úlfar Þormóðsson, skal vera sýkn af kröfum áfrýjenda í máli
þessu. Málskostnaður að því er hann varðar falli niður.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ummæla skulu óröskuð.*)
Varastefndi, Svavar Gestsson, greiði 20.000 króna sekt til ríkissjóðs.
Varastefndi skal vera sýkn af kröfum áfrýjenda um miskabætur.
Varastefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 25.000 kr. til þess að kosta
birtingu forsendna og dómsorð dóms þessa í opinberum blöðum.
Varastefndi skal birta dóm þennan í 1. eða 2. tölublaði Þjóðviljans, sem út
kemur eftir birtingu dómsins.
Varastefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 200.000 kr. í málskostnað í
héraði og fyrir Hæstarétti. Dóminum ber að fullnægja að viðlagðri aðför að
lögum.
Sératkvæði
Þeir Halldór Þorbjörnsson og Guðmundur Ingvi
Sigurðsson skiluðu sératkvæði og töldu áfrýjendur eiga rétt á fégjaldi úr
hendi varastefnda, Svavars Gestssonar.
*) Dómsorð undirréttar um ómerkingu ummæla var svohljóðandi:
"Ummæli stefnda, Úlfars Þormóðssonar, sem birtust í 15.,17.
og 39. tbl. Þjóðviljans 1974 og upp eru talin í stefnu undir liðum I. 1 og
2, II. 2, 3 og 4 og III. 1, 4, 5, 6 og 7, skulu vera dauð og ómerk."
2. Mál gegn Guðsteini Þengilssyni
Þetta mál var höfðað
með stefnu fyrir bæjarþingi 13. júní 1974. Dómari var Hrafn Bragason. Hann
kvað upp dóm 4. júlí 1975. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar 2.
september 1975. Dómur Hæstaréttar féll 20. apríl 1977.
Stefnendur voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Í stefnu eru rakin ummæli þau, sem stefnt er út af. Ummælin þessi eru:
1. " ... hópur manna, sem hefur það fyrir aðaláhugamál sitt, að Ísland
verði hersetið áfram..."
2. " ...
Erfitt er að leiða getur að því, hvaða hvatir liggi að áhuga þessa fólks
á því, að hafa Ísland hersetið . . . Margt bendir til þess, að þær séu undir
niðri reistar á rökum, sem betur fer á að halda sem varlegast á lofti, t. d.
það, að mál þetta er flutt af grunsamlega miklum ákafa. Varla getur farið
hjá því, að gamalgróin herseta svo sem hér er, hafi skapað hagsmunatengsl,
sem því erfiðara er að rjúfa þeim mun lengur sem líður ... "
3. " ... geigvænlegu smekkleysi ... "
4. " ... samblástur nokkurra auðnuleysingja ... "
5. " ... Þeir færi nú fram sem ákafast bænaskrár sínar fyrir
varanlegum herstöðvum ... "
Áfrýjendur gera þessar dómkröfur:
1. að ummæli þau, sem stefnt er út af, verði dæmd dauð og ómerk,
2. að dæmd verði hæfileg refsing fyrir ummælin,
3. að hverjum áfrýjenda verði dæmdar úr hendi stefnda 30.000 kr. í
miskabætur með 9% ársvöxtum frá 29. janúar 1974 til greiðsludags,
4. að áfrýjendum verði sameiginlega dæmdar 20.000 kr. úr hendi stefnda til
að kosta birtingu forsendna og dómsorðs dóms í máli þessu í opinberum
blöðum,
5. að birtar verði forsendur og dómsorð dóms í máli þessu í 1. eða 2.
tölublaði Þjóðviljans, er út kemur eftir birtingu dómsins,
6. að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjendum sameiginlega hæfilegan
málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð
Hæstaréttar
Ummæli, sem
greinir í liðum 2 a og b, 4 og 5 hér að framan, skulu ómerk.
*)
Stefndi, Guðsteinn Þengilsson, greiði 10.000 kr. sekt til
ríkissjóðs, og komi varðhald 2 daga í stað sektar, verði hún eigi greidd
innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa.
Stefndi skal vera sýkn af kröfum áfrýjenda um miskabætur.
Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 20.000 kr. til þess
að kosta birtingu forsendna og dómsorðs dóms þessa í opinberum blöðum.
Birta skal dóm þennan í 1. eða 2. tölublaði Þjóðviljans,
sem út kemur eftir birtingu dómsins.
Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 140.000 kr. í
málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dóminum ber að fullnægja að
viðlagðri aðför að lögum.
Sératkvæði
Þeir Halldór Þorbjörnsson og Guðmundur Ingvi Sigurðsson skiluðu sératkvæði
og töldu áfrýjendur eiga rétt á nokkru fégjaldi úr hendi stefnda.
*) Liðir a og b eru ekki auðkenndir.
3. Mál gegn Degi Þorleifssyni og Svavari Gestssyni til vara
Mál þetta
var höfðað fyrir bæjarþingi Reykjavíkur með stefnu, birtri 20. júní 1974.
Dómari var Hrafn Bragason. Hann kvað upp dóm sinn 26. nóvember 1975. Málinu
var áfrýjað til Hæstaréttar 24. febrúar 1976.
Dómur Hæstaréttar féll 2. maí
1977.
Stefnendur voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Ummæli þau, sem stefna lýtur að, birtust í tveimur greinum í dagblaðinu
Þjóðviljanum, hin fyrri í 16. tölublaði, er út kom 20. janúar 1974, en hin
síðari í 27. tölublaði, er út kom 2. febrúar s. á. Ummælin
voru þessi:
I.
16.
tbl. Grein á bls. 6, er ber yfirskriftina: "Fíflum att á forað". Undirrituð
DÞ.
1.
Fyrirsögn greinarinnar: "Fíflum att á forað".
2. " ... illræmdir braskarar og "athafnamenn" eða persónur sem nátengdar
eru slíkum aðilum gegnum ættarleg eða pólitísk sambönd. Raunar er alger
óþarfi að skilgreina þessar kanamellur stéttarlega; svipmótið á fésunum á
myndinni sem birtist í Morgunblaðinu á miðvikudag ætti að segja næga sögu um
það, hvers konar tegund er hér á ferð.
Mannvalið í þjóðníðinganefnd þessari er að vísu athyglisvert af fleiri
ástæðum. Það sýnir að hernámssinnar borgarastéttarinnar eru raunverulega
farnir að óttast að þeir missi úr landinu óskabarn sitt, bandaríska herinn,
að málsstaðurinn sé tapaður. Þess vegna hefur við valið í nefndina verið
viðhöfð gamla og góða reglan: fíflinu skal á foraðið etja. Það hefur ekki
þótt þorandi með tilliti til framtíðarinnar, að setja í þetta skítverk aðrar
persónur en þær, sem þegar eru svo illræmdar fyrir brask og skúmaskotamakk
að þær hafa engu að tapa hvað álit snertir, ásamt með nokkrum sem lengi hafa
aðallega haft það hlutverk að vera til athlægis í flokkum þeim og samtökum,
sem þeir hafa verið að puða í ..."
3.
... örgustu úrhrök afturhalds og fasisma, sem í landinu er yfirhöfuð hægt að
drífa upp. Myndin aftan á Mogganum 16. jan. er enn ein staðfesting þeirra
örlaga ..."
4. ... góðborgarar óðfúsir að hlaupa í skarðið og þjóna sínum erlendu
herrum og gerast stjórnmálamenn og gleðikonur í senn."
II.
27.
tbl. Grein á bls. 9, er ber yfirskriftina: "Atvinnurekendavaldið afhjúpað".
Framhald greinarinnar er á bls. 14. Hún er undirrituð DÞ.
1. "
... sérstöku einstaklinga, sem sigað var fram til þess að sníkja
undirskriftir undir landráðavíxilinn, er almennt er nú kenndur við
Watergate, sem vel fer á, táknrænt séð ... "
2. " ... Hér er sem sagt um að ræða þess konar "athafnamenn", að varla er
grundvöllur fyrir því að gera ráð fyrir að þeir hafi nokkurn tíma nennt eða
séð ástæðu til að hugleiða svoleiðis mál í nokkurri alvöru. "Varnarástríða"
þessara manna mótast fyrst og fremst af efnahagslegum hlunnindum, sem þeir
eða aðilar þeim á einhvern hátt tengdir hafa af hérvist hersins og eru nú
beinlínis að ærast ..."
3. " ... Innan um þennan siðvillta söfnuð sniglast svo tveir
tragikómískir persónuleikar, einmanalegir menntamenn, sem maður freistast
til að halda að svo lengi hafi starað á stjörnurnar eða grúft sig niður í
skræður að þeir séu hættir að taka að nokkru ráði eftir því, sem gerist á
jörðinni í kringum þá. Þeir verðskulda líklega fyrst og fremst vorkunnsemi
og í svæsnasta lagi góðlátlegt grín; kumpánar þeirra geta hins vegar ekki
vakið annað en fyrirlitningu og ógeð hjá hverjum sæmilega siðuðum manni."
4. "
... pólitísku siðleysi fundarboðenda ..."
5. " ... öllum brögðum beitt" (millifyrirsögn) og ummælin "Aðferðir þær, .
. . . . öll þrjú eintökin."
6. " ... Téðar aðferðir til undirskriftaöflunar eru þó langt í frá
alvarlegasta atriðið í málinu. Hitt er alvarlegra að við umrædda söfnun
hefur fyrst og fremst verið beitt ákveðnu valdi, stéttarvaldi
borgarastéttarinnar, atvinnurekendavaldinu ... "
Áfrýjendur gera þær dómkröfur:
1. að ummæli þau, sem stefnt er út
af, verði dæmd dauð og ómerk,
2. að dæmd verði þyngsta refsing fyrir ummælin,
3. að hverjum áfrýjenda verði dæmdar 100.000 kr. í miskabætur auk 9%
ársvaxta frá 2. febrúar 1974 til greiðsludags,
4. að áfrýjendum sameiginlega verði dæmdar 25.000 kr. til að kosta birtingu
forsendna og dómsorðs væntanlegs dóms í opinberum blöðum,
5. að þeim, sem dæmdur verður í málinu, verði gert að sjá um, að birtar
verði forsendur og dómsorð væntanlegs dóms í 1. eða 2. tölublaði dagblaðsins
Þjóðviljans, er út kemur eftir birtingu dómsins,
6. að stefnda verði gert að greiða áfrýjendum sameiginlega hæfilegan
málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð Hæstaréttar
Aðalstefndi, Dagur Þorleifsson, skal vera sýkn af kröfum áfrýjenda í máli
þessu. Málskostnaður að því er hann varðar falli niður.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ummæla skulu óröskuð. *)
Varastefndi, Svavar Gestsson, greiði 30.000 króna sekt til ríkissjóðs.
Varastefndi greiði áfrýjendum, Bjarna Helgasyni, Birni Stefánssyni,
Hreggviði Jónssyni, Jónatan Þórmundssyni, Ólafi Ingólfssyni, Stefáni
Skarphéðinssyni, Unnari Stefánssyni, Þorsteini Sæmundssyni, Þorvaldi
Búasyni, Þór Vilhjálmssyni, Ragnari Ingimarssyni og Valdimar J. Magnússyni
hverjum um sig 25.000 króna fégjald ásamt 9 % ársvöxtum frá 2. febrúar 1974
til greiðsludags.
Varastefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 25.000 kr. til þess að kosta
birtingu forsendna og dómsorðs dóms þessa í opinberum blöðum.
Varastefndi skal birta dóm þennan í fyrsta eða öðru tölublaði Þjóðviljans,
sem út kemur eftir birtingu dómsins.
Varastefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 160.000 kr. í málskostnað í
héraði og fyrir Hæstarétti. Dóminum ber að fullnægja að viðlagðri aðför að
lögum.
*) Öll ummælin voru ómerkt.
4. Mál gegn Rúnari Ármanni Arthursyni
Mál þetta var höfðað
fyrir bæjarþingi Reykjavíkur með stefnu, birtri 20. júní 1974. Dómur féll
14. apríl 1976. Auður Þorbergsdóttir kvað upp dóminn.
Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar 9. júlí 1976. Dómur féll þar 5. maí 1977.
Stefnendur voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Í
stefnu eru rakin ummæli þau, sem stefnt er út af. Þau birtust í
óundirritaðri grein í 1. tbl. 50. árgangs Stúdentablaðsins, er út kom 25.
janúar 1974, en stefndi var ritstjóri og ábyrgðarmaður blaðsins á þeim tíma.
Ummælin
voru þessi:
1.
Yfirskrift: "Ameríkanasleikjur . . ."
2. " ... fíflin kunna yfirleitt ekki að skammast sín. Þetta sýndi sig berlega í
síðustu viku þegar fjórtán "þjóðkunnir menn" riðu á vaðið með
undirskriftasöfnun fyrir eins konar bænarskjal til bjargar hernámsliði
Bandaríkjanna á Íslandi ..."
3.
"Ameríkanasleikjurnar ..."
4. "
... ekkert hafa komist áfram innan sinna eigin samtaka, vegna þess hvað
þeir þykja leiðinlegir ..."
5. " ... vonlausu framagosar íhaldsaflanna ..."
6.
"Í hópi þessa ófagnaðarlýðs ..."
7.
"Þessir einlægu hernámssinnar ..."
8. "
... þessi hópur . . . íhaldskurfa, sem hefur rottað sig saman til að slá
skjaldborg um hernámið ... "
9. "
... Fyrir utan þá örvæntingarfullu framahagsmuni sem áður er drepið á,
koma til annars konar hagsmunir. Hafi menn þegið styrk frá NATO til að
mennta sig í Bandaríkjunum er ekki nema sjálfsögð kurteisi að þakka fyrir
sig á þennan hátt og ef ættingjar manns eiga hagsmuna að gæta af því að
leigja könum húsnæði fyrir okurprís, því skyldi maður þá ekki vera
reiðubúinn að fórna sér fyrir "frelsi og öryggi" ættjarðarinnar."
Dómkröfur
stefnenda eru:
1.
að ummæli þau, sem stefnt er út af, verði dæmd dauð og ómerk,
2.
að dæmd verði þyngsta refsing fyrir ummælin,
3.
að hverjum áfrýjenda verði dæmdar úr hendi stefnda 50.000 krónur í
miskabætur með 9% ársvöxtum frá 25. janúar 1974 til greiðsludags,
4.
að áfrýjendum verði sameiginlega dæmdar 25.000 krónur úr hendi stefnda til
að kosta birtingu forsendna og dómsorðs í máli þessu í opinberum blöðum,
5.
að stefndi verði dæmdur til að sjá um, að dómur í máli þessu, forsendur og
dómsorð, verði birtur í 1. eða 2. tölublaði Stúdentablaðsins, er út kemur
eftir birtingu dómsins, sbr. 22. gr. laga nr. 57/1956,
6.
að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjendum sameiginlega málskostnað í
héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð Hæstaréttar
Hin
átöldu ummæli skulu ómerk.
Stefndi, Rúnar Ármann Arthúrsson, greiði 25.000 króna sekt til ríkissjóðs,
og komi varðhald 5 daga í stað sektar, verði hún eigi greidd innan 4 vikna
frá birtingu dóms þessa.
Stefndi greiði áfrýjendum, Bjarna Helgasyni, Birni Stefánssyni, Hreggviði
Jónssyni, Jónatan Þórmundssyni, Ólafi Ingólfssyni, Stefáni Skarphéðinssyni,
Unnari Stefánssyni, Þorsteini Sæmundssyni, Þorvaldi Búasyni, Þór
Vilhjálmssyni, Ragnari Ingimarssyni og Valdimar J. Magnússyni, hverjum um
sig, fégjald, 15.000 krónur ásamt 9% ársvöxtum frá 25. janúar 1974 til
greiðsludags.
Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 25.000 krónur til þess að kosta
birtingu forsendna og dómsorðs dóms þessa i opinberum blöðum.
Birta skal dóm þenna í fyrsta eða öðru tölublaði Stúdentablaðsins, sem út
kemur eftir birtingu dómsins. Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 100.000
krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dóminum ber að
fullnæg,ja að viðlagðri aðför að lögum.
5. Mál fjögurra háskólamanna gegn Rúnari Ármanni Arthurssyni
Mál þetta var höfðað fyrir
bæjarþingi Reykjavíkur með stefnu birtri 20. júní 1974. Dómur féll 14. apríl
1976. Auður
Þorbergsdóttir kvað upp dóminn. Dóminum var áfrýjað til
Hæstaréttar 9. júlí 1976. Þar féll dómur 13. maí 1977.
Stefnendur
voru:
Jónatan Þórmundsson, Þorsteinn Sæmundsson, Þór Vilhjálmsson og Ragnar Ingimarsson.
Ummæli þau, sem stefnendur töldu ærumeiðandi fyrir sig og stefnt var út af,
voru:
I
Stúdentablaðið, 1. tbl., er út kom 25. janúar 1974,
er Rúnar Ármann Arthursson var ritstjóri blaðsins. Óundirrituð grein, sem
hefst á öftustu bls. og heldur áfram á 4. bls. Greinin ber yfirskriftina:
"Ameríkanasleikjur komnar á stjá".
1.
Undirfyrirsögnin: "Fjórir kennarar við Háskóla Íslands afhjúpa sig".
2. "
... Þegar hann gekk hvað harðast fram í því með hjálp annarra íhaldsmanna
að reyna að setja SHÍ á hausinn ... "
3. "
... afhjúpa sig sem mömmudreng íhaldsins ..."
4. "
... árásir hans á stúdenta í skrifum í Mogganum í haust ..."
5. "
... Framagosann ... "
6. "
... vonlaust brölt vildarsveina ..."
II
Stúdentablaðið, 4. tbl., er út kom 5. júní 1974. Grein (bréf) á bls. 2,
undirrituð af stefnda fullu nafni. Greinin ber fyrirsögnina: "Áminntur
áminnir".
1.
"Krafa fjórmenninganna er að mínu áliti, fram komin af pólitískum ástæðum
fyrst og fremst ... "
2.
"Menn sem skipuleggja hreyfingu meðal landa sinna, um að óska eftir
áframhaldandi hersetu erlends stórveldis á Íslandi, geta að mínu mati ekki
kallað sig Íslendinga ..."
3. "
... Sá glæpur sem framinn er gagnvart íslensku þjóðinni, í nafni "varins
lands", verður aldrei nægilega útmálaður í krafti orða. Orð, eins og
þjóðníðingur eða landráðamaður falla dauð niður á pappírinn, hjá þeirri smán
sem upphafsmenn slíkra aðgerða hafa gert sjálfstæðum vilja íslensku
þjóðarinnar ..."
III
Bréf stefnda til Háskólaráðs, dags. 27. maí 1974, sem lagt var fram á fundi
ráðsins.
Efni
þessa bréfs er nákvæmlega samhljóða blaðagrein þeirri, er ræðir um undir II
hér að framan, enda er greinin orðrétt birting bréfsins. Stefnendur vísa um
ærumeiðingar í bréfinu til II hér að framan.
Dómkröfur stefnenda eru þessar:
a.
Sérkröfur.
1.
Áfrýjandi Jónatan Þórmundsson krefst þess, að ummæli, sem getur í I, 3 og
4 í héraðsstefnu, verði dæmd dauð og ómerk og
stefnda gerð refsing fyrir þau.
2. Áfrýjandi Þorsteinn Sæmundsson krefst þess, að ummæli, sem greinir í I, 2
í héraðsstefnu, verði dæmd dauð og ómerk og stefndi dæmdur í refsingu fyrir
þau.
3.
Áfrýjandi Þór Vilhjálmsson krefst þess, að ummæli, sem greind eru í I, 5 og
6 í héraðsstefnu, verði dæmd dauð og ómerk og stefndi látinn sæta refsingu
fyrir þau.
b.
Sameiginlegar kröfur.
1. Að önnur ummæli, sem stefnt er út af, verði dæmd dauð og ómerk.
2. Að stefndi verði dæmdur í refsingu fyrir ummælin.
3. Að hverjum áfrýjenda verði dæmdar úr hendi stefnda 50.000 krónur í
miskabætur með 9% ársvöxtum frá 5. júní 1974 til greiðsludags.
4.
Að áfrýjendum verði sameiginlega dæmdar 25.000 krónur úr hendi stefnda til
að kosta birtingu forsendna og niðurstöður dóms í máli þessu í opinberum
blöðum.
5.
Að dómur í máli þessu verði birtur í heild í fyrsta eða öðru tölublaði
Stúdentablaðsins, er út kemur eftir birtingu dómsins.
6.
Að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjendum sameiginlega málskostnað.
Dómsorð Hæstaréttar
Ummæli, sem greinir í liðum I,2, 3, 5 og 6, II,3 og III,3 hér að framan,
skulu ómerk.
Refsing stefnda, Rúnars Ármanns Arthúrssonar, fellur niður.
Stefndi er sýkn af kröfu um miskabætur.
Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 25.000 kr. til að kosta birtingu
forsendna og dómsorðs dóms þessa í opinberum blöðum.
Birta skal forsendur og dómsorð dóms þessa í fyrsta eða öðru tölublaði
Stúdentahlaðsins, sem út kemur eftir birtingu dómsins.
Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 75.000 kr. í málskostnað í héraði og
fyrir Hæstarétti.
Dóminum ber að fullnægja að viðlagðri aðför að lögum.
6. Mál gegn Garðari Viborg
Mál þetta var höfðað með stefnu, birtri 20. júní 1974, fyrir bæjarþingi
Reykjavíkur gegn Garðari Viborg, ábyrgðarmanni blaðsins "Nýs lands" vegna
ummæla, sem birtust í blaðinu. Dómari var Hrafn
Bragason. Hann felldi dóm í málinu 4. desember 1975. Stefndi, Garðar Viborg,
áfrýjaði málinu til Hæstaréttar 1. júní 1976 og stefnendur (gagnáfrýjendur)
sömuleiðis 10. júní. Dómur féll í Hæstarétti 25. nóvember 1977.
Stefnendur voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Ummæli þau sem stefnt
var út af, voru þessi:
I
Í 3. tölublaði
"Nýs lands", er út kom 24. janúar 1974. Ummæli, er birtust í grein
(leiðara) á bls. 3, en fyrirsögn greinarinnar er "Varnarmálin". Ummælin eru
þessi: " ... Er ágengi þessara manna og smekkleysi slíkt, að þeir
leita jafnvel eftir stuðningsmönnum sínum með því að fara inn í barnaskóla
landsins, opinberar stofnanir og sjúkrahús. Mun sjálfstæðisbarátta af þessu
tagi vera eindæmi í sögu þjóðarinnar."
II
Í 4. tölublaði, er út kom 31. janúar 1974. Hér er um að ræða þrjár
greinari:
A.
Fréttagrein á forsíðu, er ber fyrirsögnina "Óþjóðholl starfsemi".
1.
Fyrirsögnin "Óþjóðholl starfsemi".
2. "
... "óþjóðholla starfsemi, ósamboðna fullvalda þjóð."
B.
Grein á bls. 3 (leiðari), er ber fyrirsögnina: "Mengun hugarfarsins".
1.
Fyrirsögnin "Mengun hugarfarsins".
2. "
... sumir þeirra, sem standa nú fyrir samtökunum Varið land, létu
einnig heyra til sín í sambandi við landhelgisdeiluna við Breta og vildu
þar ganga lengst til samninga við þá og gera lítið úr baráttu Íslendinga
fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Það virðist vera meginsjónarmið
þessara manna, að sjálfstæði Íslands og öryggi sé best borgið með því að
sýna í hvívetna auðmýkt gagnvart hinum engilsaxnesku stórveldum og
undirlægjuhátturinn sé helsta haldreipi Íslendinga til að halda reisn sinni
sem sjálfstæð þjóð."
C.
Kafli úr ræðu á bls. 5, sem ber yfirskriftina: "Við erum ekki til viðræðu um
áframhaldandi dvöl hers í landinu".
" ... Það hefur a. m. k. aldrei
gerst fyrr svo að ég viti, að fólk betli skriflega yfir sig erlendan her.
Þeir, sem nú biðja þjóðina að skrifa undir betliskjalið verða án mikils vafa
dæmdir af blöðum sögunnar sem landssölumenn ..."
Stefnendur (gagnáfrýjendur) gera svofelldar dómkröfur:
1. að ummæli þau, sem stefnt er út af, verði dæmd dauð og ómerk,
2. að aðaláfrýjandi verði dæmdur í hæfilega refsingu fyrir ummælin,
3.
að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða hverjum gagnáfrýjanda 50.000 kr.
í miskabætur auk 9% ársvaxta frá 31. jan. 1974 til greiðsludags,
4.
að aðalafrýjandi verði dæmdur til að greiða gagnáfrýjendum sameiginlega
25.000 kr. til að kosta birtingu væntanlegs dóms í opinberum blöðum,
5.
að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að sjá um birtingu dóms þessa í heild í
fyrsta eða öðru tölublaði Nýs lands, sem út kemur eftir birtingu dómsins,
6. að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða gagnáfrýjendum sameiginlega
hæfilegan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð Hæstaréttar:
Framangreind ummæli skulu ómerk.
Birta skal dóm þennan í fyrsta eða öðru tölublaði Nýs lands, sem út kemur
eftir birtingu dóms þessa.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjendum sameiginlega 60.000 kr. í
málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
7. Mál gegn Helga Sæmundssyni
Mál þetta var höfðað með stefnu fyrir
bæjarþingi Reykjavíkur 21. júní 1974. Dómur gekk 28. október 1976. Steingrímur Gautur
Kristjánsson kvað upp dóminn. Stefnendur áfrýjuðu
dóminum til Hæstaréttar 17. desember 1976 og féll dómur þar 22. desember
1977.
Stefnendur
voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Tilefni málshöfðunarinnar voru ummæli, sem birtust í grein á bls. 5 í 24.
tbl. Alþýðublaðsins, er út kom 30. janúar 1974. Grein þessi bar
fyrirsögnina: "Þjóðaratkvæði um herstöðvarmálið". Stefndi var nafngreindur
sem höfundur greinarinnar.
Stefnendur telja eftirtalin ummæli í greininni meiðandi fyrir
sig:
1. " ... fundarsköpum siðaðra manna ... "
2. "Málfar á plaggi þessu er áróðurskennt og orðalagið óíslenskulegt en
kemur upp um eðli og tilgang samtakanna ... "
3. " ... Hér virðast því mun fremur hafðir í huga erlendir hagsmunir
en þrifnaður ættjarðarinnar."
4. "Eru þetta umskiptingar?"
5. "Myndi hyggilegt að fela þessum mönnum að ráða málum þjóðarinnar og
stjórna landinu?
Nei, nei. Þá yrði manni raun að því að vera Íslendingur. Gera þessir menn
sér ljóst hvað þeir eru að aðhafast og hverjum þeir þjóna með
undirskriftasöfnun sinni?
Já, já. Fyrirgefum þeim ekki því þeir vita hvað þeir gera."
6. "Nú er komin til sögu á Íslandi ný manngerð sem gæti kallast amrískir
Íslendingar. Þeir vilja vera miklu amrískari en fjöldinn allur af
frjálslyndu, skynsömu og óspilltu fólki í Bandaríkjunum.
Þvílíkt og annað eins."
Stefnendur gera þær dómkröfur
1. að ummæli þau, sem stefnt er út af í málinu, verði dæmd
dauð og ómerk,
2. að stefndi verði dæmdur í hæfilega refsingu fyrir
ummælin,
3. að stefndi verði dæmdur til að greiða hverjum áfrýjenda
miskabætur að fjárhæð 50.000 krónur með 9% ársvöxtum: frá 1. febrúar 1974 til
greiðsludags,
4. að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjendum
sameiginlega 25.000 krónur í kostnað við birtingu væntanlegs dóms í
opinberum blöðum,
5. að stefndi verði dæmdur til að sjá um birtingu væntanlegs
dóms í 1. eða 2. tölublaði Alþýðublaðsins, er út kemur eftir birtingu
dómsins,
6. að stefndi verði dæmdur til að greiða áfrýjendum
sameiginlega hæfilegan málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð Hæstaréttar
Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður. *)
Birta skal dóm þennan í fyrsta eða öðru tölublaði
Alþýðublaðsins, sem út kemur eftir birtingu hans. Málskostnaður fyrir
Hæstarétti falli niður.
*) Dómur undirréttar, sem Hæstiréttur staðfesti, hljóðaði svo:
"Eftirtalin ummæli stefnda, Helga Sæmundssonar, sem birtust í 24. tbl.
Alþýðublaðsins 1974, skulu dauð og ómerk: "Eru þetta umskiptingar?" og "Nú
er komin til sögunnar á Íslandi ný manngerð, sem gæti kallast amrískir
Íslendingar. Þeir vilja vera miklu amrískari en fjöldinn allur af
frjálslyndu, skynsömu og óspilltu fólki í Bandaríkjunum. Þvílíkt og annað
eins."
Birta ber úr dómi þessum upphaf hans aftur að 2.4 og dómsorðin í 1. eða 2.
tbl. Alþýðublaðsins, sem út kemur eftir lögbirtingu dómsins.
Kröfur stefnenda á hendur stefnda eru að öðru leyti ekki teknar til greina.
Málskostnaður fellur niður."
8. Mál gegn Svavari Gestssyni
Mál þetta
var höfðað fyrir bæjarþingi Reykjavíkur með stefnu, birtri 20. júní 1974.
Dómur féll 22. nóvember 1976. Garðar Gíslason kvað upp dóminn. Stefnendur
áfrýjuðu dóminum til Hæstaréttar 11. febrúar 1977. Stefndi (gagnáfrýjandi)
áfrýjaði einnig. Dómur féll í Hæstarétti
2. febrúar 1978.
Stefnendur voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Tilefni stefnunnar voru eftirfarandi ummæli í dagblaðinu Þjóðviljanum, en
stefndi var ritstjóri blaðsins:
I.
Í 12. tbl., er út kom 16. janúar
1974. Hér er um að ræða tvær greinar, sem báðar eru birtar á bls. 3,
óundirritaðar.
A. Grein, sem ber yfirskriftina:
"Bandaríkjalepparnir á stjá:"
1. Fyrirsögn greinarinnar: "Bandaríkjalepparnir á stjá:"
2. Undirfyrirsögn: Krefjast
varanlegs hernáms . . . . ."
3. "Bandaríkjalepparnir á Íslandi
hafa nú hafið undirskriftasöfnun þar sem krafist er ævarandi hersetu á Íslandi .
. . . ."
4. " ... kröfu um varanlegt
hernám landsins ... "
5. " .... lítill sómi að
slíkum vinnubrögðum og skömmin er þeirra sem fyrir slíkri söfnun standa."
B. Grein, sem ber yfirskriftina:
"Stundar pólitískt heimatrúboð á elliheimili".
" ... Nú er safnað
undirskriftum undir kröfuna um ævarandi hernám Bandaríkjamanna á Íslandi ..."
II.
Í 13.
tbl., er út kom 17. janúar 1974. Hér er um að ræða:
A. Grein á forsíðu, óundirritaða, og B.
tilvitnun í kvæði, sem prentað er undir ljósmynd af forgöngumönnum "VARINS
LANDS".
A.
1. Fyrirsögn greinarinnar:
"Víxillinn frá Watergate".
2. " ... þrettán menn
tilkynntu að einmitt nú vildu þeir sverja forseta Bandaríkjanna, hugsjónum hans
og hernaðarvél ævarandi trú og hollustu. Yrði hinn mikli forseti dæmdur í
tugthús færu þeir í tugthúsið með honum, eins og trúir rakkar fylgja húsbændum
sínum í dauðann."
3. "Þeir kváðust reiðubúnir til að
ganga fyrir hvers manns dyr úti á Íslandi með víxilinn frá Watergate og biðja
menn að skrifa uppá hann með illu eða góðu ..."
4. " ... 13 liðþjálfum sínum
á Íslandi."
5. "Verður víxillinn frá Watergate
samþykktur eða ekki? ... "
B.
Eftirfarandi tilvitnun úr kvæði, sem
prentað er undir ljósmynd af forgöngumönnum "VARINS LANDS": " ... Þér
hefði orðið bumbult að horfa þar á svo hundflatan skrælingjalýð."
III.
Í 14. tbl., er út kom 18. janúar
1974. Ummæli í ritstjórnargrein á bls. 6. Greinin er óundirrituð.
"Þess vegna etja forráðamenn
Sjálfstæðisflokksins nú á foraðið sínum óhreinustu börnum, - Votergeitdeildinni,
mönnum, sem hylla Nixon af þeim mun meiri ákafa sem "verndara lýðræðisins, og
hins frjálsa heims" því berari sem innbyggjar Hvíta hússins verða að saurugum
myrkraverum (sic) gegn veikburða lýðræðisþáttum bandarísks stjórnkerfis."
IV.
Í 15. tbl., er út kom 19, janúar
1974. Ummæli í ritstjórnargrein á bls. 6, er bera fyrirsögnina "Atvinnukúgun".
Greinin er óundirrituð..
1. Fyrirsögnin: "Atvinnukúgun".
2. "Við undirskriftasöfnun
13-menninganna í Sjálfstæðisflokknum hefur verið beitt aðferðum sem hafa ekki
þekkst á Íslandi áður um margra áratugaskeið. Þessar aðferðir eru kallaðar
atvinnukúgun einu nafni, þar sem forstjóravaldi hefur verið beitt til þess að fá
fólk til þess að skrifa upp á Votergeit-víxilinn. Þjóðviljinn varar fólk við
þessum vinnubrögðum 13-menninganna."
V.
Í 17. tbl., er út kom 22. janúar
1974. A. grein á bls. 4 og B. ritstjórnargrein á bls. 6. Báðar greinar
óundirritaðar.
A. Grein á bls. 4, sem ber fyrirsögnina:
;,Sameinaðir stöndum við - sundraðir föllum við".
" ... Votergeitdeild
Sjálfstæðisflokksins keppst við að safna undirskriftum undir kröfu um ævarandi
hersetu Bandaríkjamanna á Íslandi ..."
B. Ritstjórnargrein á bls. 6, sem ber
fyrirsögnina: "Þannig eru "rök" herstöðvasinna."
1. "Samþykkjendur
Votergeitvíxilsins hafa farið hamförum undanfarna daga. Hefur alls konar
þvingunum og fortölum verið beitt til þess að fá fólk til að skrifa undir
endemisplagg þetta."
2. " ... Votergeitvíxillinn
...."
3. " ... Votergeitmenn á
Íslandi ..."
VI.
Í 20. tbl., er út kom 25. janúar
1974. Grein á bls. 3, sem ber undirfyrirsögnina: "Seljendur Votergeitvíxilsins
lögðu ekki í kappræðuna". Greinin er undirrituð - ÞH.
1. Undirfyrirsögnin: "Seljendur
Votergeitvíxilsins".
2." ... Samtakanna Seljum
landið ..."
VII.
Í 25. tbl., er út kom 31. janúar
1974. Hér er um að ræða tvær greinar á bls. 3, báðar óundirritaðar.
A. Grein, sem ber fyrirsögnina:
"Varið land neitar að láta ræða málin" og undirfyrirsögnina " - málefnið virðist
ekki þola dagsljósið, segja Samtök herstöðvaandstæðinga".
1. Úr fyrirsögninni: " - málefnið
virðist ekki þola dagsljósið..."
2. " ... kjósa að fara með
mál sín í skúmaskotum ..."
3. " ... lítt traustvekjandi
málstaður, sem ekki þolir dagsljósið."
B. Grein, sem ber fyrirsögnina:
"Amerískir Íslendingar".
1. Fyrirsögnin: "Amerískir
Íslendingar".
2. " ... Votergeitdeild
Sjálfstæðisflokksins ..."
3. " ... amerískir
Íslendingar ..."
4. "Eru þetta umskiptingar?"
5. "Myndi hyggilegt að fela
þessum mönnum að ráða málum þjóðarinnar og stjórna landinu? Nei, nei. Þá yrði
manni raun að því að vera Íslendingur. Gera þessir menn sér ljóst hvað þeir eru
að aðhafast og hverjum þeir þjóna með undirskriftasöfnun sinni? Já, já.
Fyrirgefum þeim ekki því að þeir vita hvað þeir gera ..."
6. "Nú er komin til sögu á
Íslandi ný manngerð, sem gæti kallast amerískir Íslendingar. Þeir vilja vera
miklu amerískari en fjöldinn allur af frjálslyndu, skynsömu og óspilltu fólki í
Bandaríkjunum."
7. " ... amerísku
Íslendingum ..."
VIII.
Í 35.
tbl., er út kom 12. febrúar 1974. Fréttatilkynning á bls. 5 neðst, er ber
yfirskriftina: "Þjóðfélagsfræðinemar um undirskriftasöfnun" og fyrirsögnina:
"Blettur á sögu
íslenskrar þjóðar". Greinin er óundirrituð.
1. Fyrirsögnin: "Blettur á sögu
íslenskrar þjóðar".
2. " ... gangast fyrir
undirskriftum um ævarandi hersetið land."
3. "Telur fundurinn, að aldrei fyrr í
sögu landsins hafi verið lotið svo lágt fyrir erlendu valdi og að bænarskjölin
um áframhaldandi hersetu muni verða svartasti bletturinn í sögu íslensku
þjóðarinnar er fram líða stundir."
IX.
Í 39. tbl., er út kom 16. febrúar
1974. Ritstjórnargrein á bls. 6, er ber yfirskriftina: "Tengsl við bandarísku
leyniþjónustuna CIA?". Greinin er óundirrituð.
1. Fyrirsögnin: "Tengsl við
bandarísku leyniþjónustuna CIA?"
2. "Launaður starfsmaður NATO er
aðaltalsmaður þeirra aðila sem hafa skipulagt undirskriftasöfnunina "Varið
land". Þannig eru augljós hagsmunatengsl milli NATO og
undirskriftasöfnunarinnar. Ennfremur liggur ljóst fyrir, að slík
undirskriftasöfnun felur í sér víðtækustu pólitískar persónunjósnir sem um getur
á Íslandi, bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og jafnvel Bandaríkin. Ýmislegt bendir
til að bein eða óbein tengsl séu á milli undirskriftasöfnunar þessarar og
bandarísku leyniþjónustunnar ..."
3. "Menn sem iðka þann ljóta leik að
fá samlanda sína til þess að skrifa upp á slíkt plagg ..."
X.
Í 45.
tbl., er út kom 23. febrúar 1974. Ritstjórnargrein á bls. 6, er ber
yfirskriftina: "Í minningu víxils".
Greinin er óundirrituð.
Öll greinin undir nefndri
fyrirsögn frá "Undirskriftasöfnun á lágkúrulegasta plaggi . . . . . sem hafði
hag af því að sem allra flestir skrifuðu undir."
XI.
Í 47. tbl., er út kom 26. febrúar
1974. A. grein á forsíðu, er ber yfirskriftina: ,,Undirskriftasöfnunin notuð í
njósnaskyni". B. Grein á bls. 4, er ber yfirskriftina: "Tölvuvinnslan þjónar
markmiðum sem VL-menn vilja leyna". Báðar greinarnar eru óundirritaðar.
A.
1. Fyrirsögnin: "Undirskriftasöfnunin
notuð í njósnaskyni".
2. Úr undirfyrirsögn: "Fyrsta
pólitíska tölvuskráin á Íslandi".
3. Úr undirfyrirsögn: "Pukrið í
kringum skrána kemur upp um skuggaleg áform".
4. "Gerð skrárinnar er glæpsamlegt
trúnaðarbrot og heyrir undir grófustu njósnastarfsemi um persónulega hagi fólks.
Og það hættulegasta í málinu er það, að tölvuskrá þessi gangi beint til bandarískra sendimanna á Íslandi
..."
5. "VL-menn höfðu beitt ýmsum ráðum
til að hindra það að upplýsingar um tölvuvinnsluna kæmust á vitorð
almennings ..."
6. " ... tölvuvinnslan er miklu
víðtækari en VL-menn vilja vera láta. Það er verið að gera fullkomna skrá yfir
undirskrifendur ..."
7. "... gera af henni ótal
eintök á örskotsstundu og afhenda hverjum þeim sem VL þóknast. Þannig getur t. d.
Sjálfstæðisflokkurinn fengið fullkomna skrá yfir áhangendur sína, svo og yfir
það fólk, sem flokkurinn hefur mestar vonir um að geta unnið til fylgis við sig.
Við næstu kosningar geta frambjóðendur og kosningasmalar hans flett upp í
VL-skránni eins og í símaskrá."
B.
1. Fyrirsögnin: "Tölvuvinnslan þjónar
markmiðum sem VL-menn vilja leyna."
2. " ... er rökrétt að draga þá
ályktun að fleiri atriði séu "leiðrétt" ..."
3. " ... Tölvuvinnslan á hluta
undirskriftanna hlýtur því að vera gerð í einhverjum öðrum tilgangi en þeim að
finna tvíritanir."
4. " ... Tölvuvinnslan var því m.
a. gerð til að auðvelda sjálfa framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar . . . . ."
5. "VL-menn töldu sér ekki henta að
skýra frá tölvuvinnslunni meðan undirskriftasöfnunin var í gangi. Þeir hafa
óttast að vitneskjan um hana mundi fæla fólk frá undirskriftum. Þeir voru þá
ekki og virðast ekki enn tilbúnir að leggja spilin á borðið og skýra frá því,
hvers eðlis tölvuvinnslan er."
XII.
Í 48. tbl., er út kom 27. febrúar
1974. Ritstjórnargrein á bls. 6, er ber yfirskriftina: "Votergeitspólur í
Reykjavík". Greinin er óundirrituð.
Greinin í heild að meðtalinni
fyrirsögn, þ. e. frá: "Viltu að einn stjórnmálaflokkur ... né stofn að
slíkri skrá."
XIII.
Í 49.
tbl., er út kom 28. febrúar 1974. Forsíðugrein, er ber yfirskriftina: "Tölvuskrá
"Varins lands"." Greinin er
óundirrituð.
1. " ... á að varðveita skrána
og láta hana í té vildarvinum VL, hjá Sjálfstæðisflokknum og bandaríska
sendiráðinu, eða á að eyðileggja hana? ..."
2. " ... Nóg er hættan samt,
því hver veit hvað gerð hafa verið mörg eintök af tölvuspólunni?"
3. " .... Ef þeir hafa engin undirmál í huga ..."
XIV.
Í 52. tbl., er út kom 3. mars
1974. Ritstjórnargrein á bls. 6, er ber yfirskriftina: "Skrifaði Butraldi
Brúsason undir?" Greinin er óundirrituð.
1. " ... tölvunotkun
VL-samtakanna til að koma upp fullkomnum, varanlegum spjaldskrám yfir alla
Íslendinga, svo að þeir sem þessi gögn hafa undir höndum geti hvenær sem er á
komandi árum flett upp á einhverju nafni eins og í símaskrá og séð hvort
viðkomandi hefur vottað Nixon hernum á Keflavíkurflugvelli hollustu sína eða
ekki."
2. "Getur það staðist, sem VL menn
halda fram, að þeir sjóði 50000 Íslendinga niður á spólur með tölvutækni í þeim
fróma tilgangi einum að tryggja að allt sé nú í sómanum með undirskriftirnar?
Slíkt er með öllu útilokað ..."
3. "Enginn heilvita maður mundi kosta
til milljón í tölvuvinnslu ef þetta væri eini tilgangurinn."
4. "Mergurinn málsins er sá, að ef
VL-menn hefðu verið jafn saklausir og skipulagslitlir og þeir reyndu að sýnast
frammi fyrir þjóðinni, og ætlað sér að skila opinberum aðilum öllum gögnum
varðandi söfnun þessa, svo sem fullyrt var í upphafi, þá hefði sú tölvunotkun,
sem upplýst er að átt hefur sér stað, undir engum kringumstæðum getað komið til
greina."
5. " ... verið að afla gagna
til pólitískra afnota síðar fyrir ákveðið stjórnmálaafl ... "
6. "Það athæfi að beita tölvutækni
með undirskriftasöfnun til að flokka heila þjóð í tvo andstæða skoðanahópa á
spjaldskrám, sem hægt er að fletta upp eins og símaskrá, er saknæmt að lögum í
mörgum nágrannalöndum ..."
7. "Það er engin afsökun fyrir
VL-mennina 13 og þá sem þeim stjórna, að íslensk lög hafa hingað til ekki gert
ráð fyrir slíku athæfi. Það hann að vísu að bjarga þeim frá tukthúsi, en
myrkraverkin þola ekki betur dagsljósið þótt skort hafi framsýni við lagagerð. Við segjum myrkraverk, eða hvers
vegna hvíldi slík ógnarleynd yfir tölvunotkuninni meðan söfnun undirskrifanna
(sic) stóð enn yfir?"
XV.
Í 97. tbl., er út kom föstudaginn
14. júní 1974. Ummælin eru í ritstjórnargrein á bls. 6, sem ber fyrirsögnina:
"Að fara huldu höfði". Greinin er óundirrituð.
1. " ...
"merku"
..."
2. " ... en hófu síðan að nota
tölvuspólurnar í þágu Sjálfstæðisflokksins, hafa þessir menn farið huldu höfði.
Þeir hafa hvergi fengist til að standa fyrir máli sínu í almennum umræðum,
hvergi þorað að fylgja leikreglum lýðræðisins og ræða við landsmenn um svonefnd
öryggismál Íslands ..."
3. " ... og ef einhver hefur
andmælt skoðunum þeirra, þá siga þeir dómstólunum á andstæðinga sína eins og
skoðanabræður þrettánmenninganna hafa um áratuga skeið gert á Spáni, Grikklandi
og Portúgal ... "
XVI.
Í 103.. tbl., er út kom
föstudaginn 21. júní 1974.
A. Í ritstjórnargrein á bls. 6, sem
ber fyrirsögnina: "Er þetta það sem koma skal?" Greinin er óundirrituð.
1. " ... Aldrei áður hefur
sést grilla í aðrar eins réttarofsóknir og þær, sem eru að hefjast ... "
2. " .... þeir, sem vilja setja
pólitíska andstæðinga sína í tugthús, eiga sér samherja víða um heim. Til dæmis
er ekki minnsti vafi á því, að slíkir kumpánar væru í góðum félagsskap í
Grikkandi eða innan Kremlarmúranna. Hér er semsé um að ræða augljósar
tilhneigingar þessara forstokkuðu afturhaldsafla á Íslandi til þess, að koma
pólitískum andstæðingum í tugthúsið, um leið og þeir sjálfir þegja þunnu hljóði
..."
B. Ummæli á bls. 13 í framhaldi
greinar af forsíðu, sem ber yfirfyrirsögnina: "Umfangsmesta meiðyrðamál á
Íslandi til þessa". Greinin er óundirrituð.
1. Undir millifyrirsögninni:
"Það sem
koma skal". "Þær réttarofsóknir sem VL-menn eru nú að hefja gegn Þjóðviljanum
eiga sér vissulega margar hliðstæður erlendis, en engar hérlendis, nema ef vera
kynnu galdraofsóknirnar á hinum myrku öldum Íslandssögunnar ..."
2. " ... í skjóli úreltrar
meiðyrðalöggjafar, þar sem ummæli eru talin refsiverð, þó sönnuð séu, ætla þessu
menn sér að gera árás á frumstæðustu mannréttindi, prentfrelsi,
tjáningarfrelsi."
XVII.
Í 148.
tbl. 1975, er út kom laugardaginn 5. júlí 1975. Ummæli í grein neðan við miðju
bls. 4, sem nefnd er "Klippt og skorið". Í greininni er kafli, sem ber yfirskriftina "Krafist
rannsóknar". Ummælin, sem stefnt er út af, eru í niðurlagi og hér
undirstrikuð:
"Krafist rannsóknar
En í tilefni þessara upplýsinga
Þórarins Þórarinssonar er nauðsynlegt að krefjast þess í fyllstu alvöru að
Þórarinn Þórarinsson beiti sér fyrir því sem formaður utanríkismálanefndar og
nánasti samverkamaður utanríkisráðherra að tafarlaus rannsókn fari fram á
starfsemi CIA.á Íslandi. Í þeirri rannsókn þarf að athuga hverjir Íslendingar
starfa fyrir CIA, hversu þeir fá greitt fyrir njósnastörf sín, hvernig háttað er
tengslum CIA við vissa fjölmiðla hér á landi, einkum Morgunblaðið, og hvernig
tengsl CIA og VL-manna voru"
----------
Aðaláfrýjendur hafa gert þær
dómkröfur:
1. Að ummæli þau, sem stefnt var
út af , verði dæmd dauð og ómerk.
2. Að gagnáfrýjandi verði dæmdur
til refsingar.
3. Að gagnáfrýjandi verði dæmdur
til þess að greiða hverjum aðaláfrýjenda 150.000 kr. í miskabætur auk 9%
ársvaxta frá 3. mars 1974 til greiðsludags.
4. Að gagnáfrýjandi verði dæmdur
til að greiða aðaláfrýjendum sameiginlega 100.000 kr. til þess að kosta birtingu
væntanlegs dóms í opinberum blöðum.
5. Að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að
sjá um, að væntanlegur dómur í máli þessu verði birtur í 1. eða 2. tbl.
dagblaðsins Þjóðviljans, sem út kemur eftir birtingu dómsins.
6. Að gagnáfrýjandi verði dæmdur
til að greiða aðaláfrýjendum sameiginlega málskostnað í héraði og fyrir
Hæstarétti.
Dómsorð Hæstaréttar
Gagnáfrýjandi, Svavar Gestsson, greiði
34.000 króna sekt til ríkissjóðs.
Ummæli, .sem rakin eru í forsendum
(I.A.1. og 3., II., III., IV., V., VI., VII.B.1., 2., 3., 6. og 7., IX.1.-2.,
X., XI.A.1. og 4., XII., XII.1., XIV.1., 5. og 7., XV., XVI. og XVII), skulu
ómerk.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjendum
sameiginlega 40.000 kr. til þess að kosta birtingu dóms þessa í opinberum
blöðum.
Birta skal dóm þennan í fyrsta eða öðru
tölublaði dagblaðsins Þjóðviljans, sem út kemur eftir birtingu dómsins.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjendum
sameiginlega 200.000 kr. í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Dóminum ber
að fullnægja að viðlagðri aðför að lögum.
Sératkvæði
Halldór Þorbjörnsson og Guðmundur Ingvi
Sigurðsson skiluðu sératkvæði og töldu að aðaláfrýjendur ættu rétt á fégjaldi úr
hendi gagnáfrýjanda sbr. 3. lið kröfugerðar.
9.
Mál þriggja prófessora gegn Svavari Gestssyni
Þetta mál var höfðað fyrir
bæjarþingi Reykjavíkur 20. júní 1974. Dómur féll 22. nóvemnber 1976. Garðar
Gíslason kvað upp dóminn. Stefnendur áfrýjuðu til Hæstaréttar 11. febrúar 1977
og stefndi (gagnáfrýjandi) einnig. Dómur féll í Hæstarétti 3. mars 1978.
Stefnendur voru: Jónatan Þórmundsson, Þór Vilhjálmsson og Ragnar
Ingimarsson
Stefnt var vegna
ærumeiðandi ummæla, sem birtust í ritstjórnargrein á bls. 6 í 68. tbl.
Þjóðviljans, er út kom 22. mars 1974. Greinin sé óundirrituð og ritstjóranum því
stefnt til ábyrgðar samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956.
Ummælin voru þessi:
".... prófessora, sem nú sitja
sveittir við að mata tölvurnar á nöfnum hinna "nytsömu sakleysingja", sem
undirrituðu Watergatevílilinn (sic), og við að koma öllu í kerfi, svo að
flokksvél Sjálfstæðisflokksins eigi sem auðveldast með að þekkja "sína" þegar
til almennra kosninga kemur að vori."
Dómkröfur voru þessar:
1. Að ummæli, sem út af er stefnt, verði
dæmd dauð og ómerk.
2. Að gagnáfrýjandi verði dæmdur í refsingu.
3. Að gagnáfrýjandi verði dæmdur til þess að greiða hverjum aðaláfrýjanda 50.000
kr. í miskabætur.
4. Að gagnáfrýjandi verði dæmdur til þess að greiða aðaláfrýjendum sameiginlega
25.000 krónur til þess að kosta birtingu væntanlegs dóms í opinberum blöðum.
5. Að gagnáfrýjanda verði dæmt skylt að sjá um, að væntanlegur dómur verði
birtur í heild í 1. eða 2. tölublaði Þjóðviljans, er út kemur eftir birtingu
dómsins.
6. Að gagnáfrýjandi verði dæmdur til þess að greiða aðaláfrýjendum sameiginlegan
málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð Hæstaréttar
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um ómerkingu
ummæla og um málskostnað skulu vera óröskuð.
Birta skal dóm þennan í fyrsta eða öðru
tölublaði Þjóðviljans, sem út kemur eftir birtingu dómsins.
Málskostnaður fyrir
Hæstarétti falli niður.
[Þar sem dómsorðið skýrir sig ekki að
öllu leyti sjálft, skal hér tilfærður kafli úr rökstuðningi dómsins:
"...Ummælin þykja ótilhlýðileg, og ber
skv. 1. mgr. 241. gr. alm. hegningarlaga að ómerkja þau. Hins vegar þykja þau
hvorki geyma refsiverðar móðganir né aðdróttanir í garð aðaláfrýjenda.
Þar sem niðurstaðan er sú, að
gagnáfrýjandi hafi eigi gerst sekur um refsiverðar ærumeiðingar gagnvart
aðaláfrýjendum, verður krafa þeirra um miskabætur ekki tekin til greina né
heldur krafa um greiðslu til þess að kosta birtingu dómsins...
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um, að
gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjendum 50.000 kr. í málskostnað í héraði...]
10. Mál gegn Einari Braga Sigurðssyni
Mál þetta var höfðað fyrir
bæjarþingi Reykjavíkur 20. júní 1974, og með framhaldsstefnu 12. desember
1974. Garðar Gíslason kvað upp dóm í málinu 22. nóvember 1976. Stefnendur
áfrýjuðu til Hæstaréttar 11. febrúar 1977 og stefndi (gagnáfrýjandi) einnig.
Dómur féll í Hæstarétti 3. mars 1978.
Stefnendur voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Tilefni málshöfðunarinnar eru ummæli, sem birtust í grein á bls. 6 í 14.
tbl. dagblaðsins "Þjóðviljans", er út kom 18. janúar 1974. Grein þessi ber
fyrirsögnina "Votergeit-víxillinn". Stefndi er nafngreindur sem höfundur
greinarinnar. Þann 23. júní 1974 birtist á 6. bls. dagblaðsins "Þjóðviljans"
grein eftir stefnda með ummælum, sem stefnendur telja ærumeiðandi fyrir sig.
Höfðuðu þeir framhaldssök út af grein þessari með stefnu, birtri 12.
desember 1974.
Stefnendur telja,
að eftirgreind orð og ummæli í fyrri grein stefnda ærumeiðandi fyrir
sig:
1. Fyrirsögn greinarinnar: "Votergeit-víxillinn":
2. Eftirfarandi ummæli í greininni: "Upp er risinn hópur hugprúðra dáta,
sem grátbiðja þjóðina að hefja minningaár ellefu alda búsetu í landinu á
því að undirrita beiðni um erlenda hersetu á Íslandi . ...."
Stefnendur gera eftirfarandi dómkröfur í frumsök:
að fyrirsögn greinarinnar og ummælin, sem stefnt er út
af, verði dæmd dauð og ómerk.
að stefndi verði dæmdur í þyngstu refsingu, sem á getur
reynt samkvæmt 234 og 235. gr. laga nr. 19/1940 fyrir birtingu
umstefndrar fyrirsagnar og ummæla.
að stefndi verði dæmdur til að greiða hverjum stefnenda
fyrir sig kr. 50.000 í miskabætur skv. 1. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940
með 9% ársvöxtum frá 18. janúar 1974 til greiðsludags.
að stefndi verði dæmdur samkvæmt 2. mgr. 241, gr. laga
nr. 19/1940 til að greiða stefnendum sameiginlega kr. 26.000 í kostnað
við að birta forsendur og dómsorð væntanlegs dóms í opinberum blöðum.
að stefndi verði dæmdur samkvæmt 22. gr. laga nr.
57/1956 til að sjá um, að birt verði forsendur og dómsorð væntanlegs
dóms í máli þessu í fyrsta eða öðru tölublaði dagblaðsins "Þjóðviljans",
er út kemur eftir birtingu dómsins.
að
stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum sameiginlega hæfilegan
málskostnað að mati dómara.
Í framhaldssök er
þess krafist af hálfu stefnenda, að eftirtalin ummæli í grein, sem
birtist í Þjóðviljanum 23. júní 1974, ásamt fyrirsögn greinarinnar verði
dæmd dauð og ómerk.
1. Fyrirsögnin "Fasistatilburðir".
2. Eftirfarandi ummæli:
a) " ... Þar sem slík dusilmenni hafa komist í valdaaðstöðu, hefur
andlegt frelsi verið kæft, menn dregnir fyrir dómstóla og dæmdir til
tugthúsvistar, innilokunar á geðveikrahælum, útlegðar eða stórra
fjárútláta í þeim tilgangi að hræða aðra frá að notfæra sér það
tjáningarfrelsi, sem hverjum ber að guðs og manna lögum."
b) " ... riddurum ömurleikans ...."
c) " ... ósvífnustu árás á tjáningarfrelsi landsmanna, sem ég þekki dæmi
um. Fyrir þeim kumpánum vakir að kveða niður málefnalega umræðu um
heitasta deilumál, sem uppi hefur verið með þjóðinni í þriðjung aldar
... "
Stefnendur krefjast þess, að stefndi verði dæmdur til að
sjá um, að birt verði forsendur og dómsorð væntanlegs dóms. í máli þessu
í 1. eða 2. tbl. dagblaðsins Þjóðviljans, er út kemur eftir birtingu
dómsins, og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum
sameiginlega hæfilegan málskostnað í framhaldssök að mati dómara og að
stefndi verði dæmdur til þyngstu refsingar, sem á getur reynt samkvæmt
234., 235. og 236. gr. laga nr. 19,/1940.
Dómsorð
Hæstaréttar
Öll hin átöldu ummæli skulu vera ómerk.
Stefndi, Einar Bragi Sigurðsson, greiði 15.000 króna
sekt í ríkissjóð, og komi í stað sektarinnar 2 daga varðhald, verði hún
ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa.
Stefndi skal vera sýkn af kröfu áfrýjenda um miskabætur.
Stefndi greiði áfrýjendum sameiginlega 20.000 krónur til
að kosta birtingu dómsorðs og forsendna dóms þessa í opinberum blöðum.
Birta skal dóm þenna, dómsorð og forsendur, í 1. eða 2.
tölublaði dagblaðsins Þjóðviljans, sem kemur út eftir birtingu hans.
Stefndi greiði áfrýjendum 150.000 krónur í málskostnað í
héraði og fyrir Hæstarétti.
Dóminum ber að fullnægja að viðlagðri aðför að lögum.
Sératkvæði
Halldór Þorbjörnsson og Guðmundur Ingvi Sigurðsson
skiluðu sératkvæði og töldu að taka bæri til greina kröfu um miskabætur
úr hendi stefnda.
11. Mál gegn Árna Björnssyni
Mál þetta var höfðað fyrir bæjarþingi Reykjavíkur með stefnu birtri 20.
júní 1974. Hrafn Bragason kvað upp dóm í málinu 26. nóvember 1975.
Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Stefnendur voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Tilefni málshöfðunarinnar voru ummæli sem birtust í 24. og
25. tbl. dagblaðsins Þjóðviljans 1974. Stefndi var höfundur þessara blaðagreina. Í
stefnu eru rakin ummæli þau sem stefnt er út af. Ummælin eru þessi:
I Í 24. tbl., er út kom 30 janúar 1974, í grein á bls.
6, sem ber yfirskriftina "MEINLOKUR".
1. "... landsíhaldið greip til hinnar
smánarlegu undirskriftasöfnunar í þágu erlendrar hersetu..."
2. "... sjúkleg hræðsla..."
3. "...kaghýddir langt fram í ætt
eins og ábekingar Votergeitvíxilsins..."
4. "...afturhaldsmangarar á borð við
íslensku kauðana..." II
Í 25. tbl., er út kom 31. janúar 1974, í grein á bls. 6, sem ber
yfirskriftina "Ásaþór og alþýðan".
"... úr drafinu reis ógæfusamlegur
hópur álfa úr hól, sem vildi telja fólk á að undirrita bænarskjal til
landsföður þess efnis, að herinn mætti vera sem lengst á
fósturjarðarströndum..."
Stefnendur gera svofelldar dómkröfur:
að framangreind ummæli verði öll dæmd dauð og ómerk samkvæmt
1. mgr. 241. gr. laga nr.
19/1940.
að stefndi verði dæmdur í þyngstu refsingu samkvæmt 234. og
235 gr. laga mr 19/1940.
að stefndi verði dæmdur til að greiða hverjum stefnanda fyrir
sig kr. 50.000 í miskabætur samkvæmt 1. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940, auk
ársvaxta frá 1. febrúar 1974 til greiðsludags.
að stefndi verði dæmdur samkvæmt 2. mgr. 241. gr. laga nr
19/1940 til að greiða kr. 25.000 í kostnað við að birta forsendur og dómsorð
væntanlegs dóms í opinberum blöðum.
að stefndi verði dæmdur samkvæmt 22. gr. laga nr. 57/1956 til
að sjá um að birtar verði forsendur og dómsorð væntanlegs dóms í máli þessu
í fyrsta eða öðru tölublaði dagblaðsins "Þjóðviljinn", er út kemur eftir
birtingu dómsins.
að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum sameiginlega
hæfilegan málskostnað að mati dómara.
Dómsorð borgardóms
Ummæli stefnda, Árna Björnssonar, sem birtust í 24. tbl. og
25. tbl. Þjóðviljans 1974 og talin eru í stefnu undir I. 1, 2, 3 og 4 og II. skulu
dauð og ómerk.
Stefnda,
Árna Björnssyni, skal skylt að sjá um að forsendur og niðurlag dóms þessa sé
birt í 1. eða 2. tbl. Þjóðviljans, sem út kemur eftir lögbirtingu dóms
þessa. Stefndi, Árni Björnsson, skal greiða stefnendum [nafngreindum] óskipt kr. 25.000 í
málskostnað - allt innan 15 daga frá lögbirtingu dóms þessa að telja að
viðlagðri aðför að lögum.
12. Mál gegn Hjalta Kristgeirssyni og Svavari Gestssyni til vara
Mál þetta var höfðað fyrir bæjarþingi Reykjavíkur með stefnu birtri 20.
júní 1974.Valgarður Kristjánsson borgardómari yfirborgardómari, sem fékk
málið til meðferðar hinn 17. janúar 1975, sagði sig frá málinu 9. október
sama ár, þar eð hann hefði haft slík afskipti af tilgreindri
undirskriftasöfnun að hann teldi rétt að hann viki sæti. Hinn 18. desember
1975 úrskurðaði Björn Ingvarsson yfirborgardómari að skipa skyldi setudómara
í málinu. Kom það í hlut Steingríms Gauts Kristjánssonar héraðsdómara að
dæma í málinu. Var það tekið fyrir í október 1976, en dómur var ekki kveðinn
upp fyrr en 14. apríl 1978. Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Stefnendur voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Tilefni málshöfðunarinnar voru ummæli sem birtust í greinum í
Þjóðviljanum 26. febrúar til 2. mars 1974. Fyrsta
greinin er í 47. tbl., sem út kom 26. febrúar 1974 og nefnist: "Stórkostleg
misnotkun "Varins lands" á almannatrúnaði." Önnur greinin birtist í
49. tbl., er út kom 28. febrúar 1974 og ber fyrirsögnina:
"Til
athugunar fyrir
lagaprófessorana í forystu "Varins lands."
Þriðja greinin birtist í 50. tbl. er út kom 1. mars 1974 og ber
yfirskriftina: "Tölvuskrá "Varins lands", og fyrirsögnina: "Afhjúpa sig
með leyndinni." Fjórða greinin birtist í 51. tbl. er út kom 2. mars 1974 og
ber yfirskriftina: "Þeir ætla að taka Goldwater sér til fyrirmyndar."
Undir greinum þessum standa stafirnir hjj.
Aðalstefndi, sem var blaðamaður við Þjóðviljann, þegar greinarnar
voru skrifaðar, hefur gengist við að hafa ritað greinarnar.
Ummæli þau, sem stefnt er út af, eru þessi:
I
47. tbl. er út
kom 26. febrúar 1974, grein á bls. 4, er ber fyrirsagnirnar: "Stórkostleg
misnotkun "Varins lands" á almannatrúnaði" og 'Pólitísk tölvuskrá er gerð
eftir undirskrifta-listunum."
1. Báðar
framangreindar fyrirsagnir.
2. "... Skránni sjálfri og efni úr henni er því mjög auðvelt
að ráðstafa til annarra aðila sem VL-menn vilja gera greiða..."
3. "... VL-skrána má auðveldlega tengja öðrum skrám sem
geyma persónulegar upplýsingar (þjóðskrá, skattskrá, skrár yfir
viðskiptavini, launaskrár), og yrði þá til þéttriðið net
persónunjósna sem umlykur hvert mannsbarn í landinu..."
4. "... VL-skráin er fyrsta pólitíska skráin...getur orðið stofn að öðrum slíkum
skrám, t.d. hjá Sjálfstæðisflokknum, og einnig
að öðru leyti gefið afar hættulegt fordæmi."
5. "Tölvuskrá VL skiptir þjóðinni í
tvennt: Þá sem Bandaríkjamenn og umboðsmenn
þeirra geta treyst, og alla hina. Það eitt að
slík skrá er til og getur komist í hendur manna
er einskis svífast, skapar mikla hættu fyrir
lýðræðið. Þeir menn, sem slíkri skrá koma upp,
eru í reynd hinir örgustu fjandmenn
lýðræðisins."
6. "Fólk skrifaði undir plagg hjá VL
sem farið var með sem trúnaðarmál... VL-menn hafa
svikið þennan trúnað með því að gera
tölvuskrána."
7. "... hverjir hafa fengið í hendur
vélunna lista og aðra útskrift úr tölvunni.
Hverjir hafa haft segulbandsspólur, tölvuspólur, undir
höndum? Hefur óviðkomandi aðilum er (sic)
afhent segul-spóla? Hefur slíkum aðilum verið
gefið tækifæri til að endurgera spólu?"
8. "Sú hætta að bandaríska
sendiráðið fái eða hafi þegar fengið VL -skrána í hendur er
yfirgnæfandi..."
9. "Milligöngumaður milli VL-manna
og sendiráðsins. . ."
10. "Það er fyllilega rökrétt að
óttast það að VL-menn láti Bandaríkjamönnum í té afrit af
tölvuskrá sinni...hví skyldu þeir ekki treysta þeim fyrir skrá yfir það fólk
sem þeim er hliðhollt?"
11. "Tölvunum á Keflavíkurflugvelli yrði ekki skotaskuld úr því að
hagnýta sér segulbandsspólur úr Reykjavík..."
12. "...þeir skulu vera tilbúnir til að leggja eið út á það, að
þarna séu öll gögnin komin og ekkert hafi farið til óhlutvandra aðila. Meðan
þeir gera þetta ekki, mega þeir siðferðilega séð heita sannir að sök. En
jafnvel þótt þeir gerðu þetta, eru þeir grunsamlegir. Aðferðir þeirra koma
upp um þá."
II
49. tbl., er út
kom 28. febrúar 1974. Grein á bls. 4, ber fyrirsögnina: "Til athugunar
fyrir lagaprófessorana í forystu "Varins lands"."
1. "...Þeir sem í Svíþjóð gerðu skrá á borð við þá sem
VL-menn hafa gert hér yrðu dæmdir í fangelsi og þeir yrðu skaðabótaskyldir
gagnvart því fólki sem þeir hafa misgert við."
2. Fyrirsögnin: "Að sænskum lögum væru þeir
fangelsismatur."
III
50. tbl., er út
kom 1. mars 1974, grein á bls. 3, er ber yfirskriftina: "Tölvuskrá "Varins
lands", og fyrirsögnina "Afhjúpa sig með leyndinni."
1. Fyrirsögnin:
"Afhjúpa sig með leyndinni."
2. "Leyndin og pukrið heldur áfram í kringum tölvuskrá VL..."
3. "Leyndin og samsærisbragurinn í kringum tölvuvinnsluna
sýnir að þeir VL-menn hafa slæma samvisku. Réttilega telja þeir sig hafa
ýmislegt að fela."
4. "Hverjir hafa svikið trúnað? Það skyldi nú ekki vera að
þeir VL-menn hafi svikið trúnað fleiri en þeirra sem skrifuðu undir
skjalið?" Ef svo er, þá þarf ef til vill ekki að bíða eftir nýrri
lagasetningu til þess að beitt verði réttarfarsaðgerðum vegna tölvuvinnslu
VL."
5. Niðurlag ummæla, sem eru undir mynd af tölvuspjaldi, þar
sem segir: "Tölvuspjald (hluti) á borð við það sem VL-menn hafa látið gata,
eitt fyrir hvern undirskrifanda. Er allt með felldu í sambandi við þá
vinnu?"
IV
51. tbl., er út
kom 2. mars 1974; grein á bls. 6, er ber yfirskriftina: "Þeir ætla (sic) að
taka Goldwater sér til fyrirmyndar."
1. Fyrirsögnin:
"VL-menn illa séðir í Bandaríkjunum?"
2. Undirfyrirsögnin: "Þar þætti tölvuskrá VL hneyksli."
3. "Þeir sem ábyrgir eru fyrir tölvuskrá VL um skoðanir
Íslendinga á pólitísku deilumáli væru í Bandaríkjunum taldir hættulegir
menn. Aðferðir þeirra væru taldar stofna lýðræði og einstaklingsfrelsi í
voða."
4. "Ekki mega vera til nein leynileg kerfi til skrásetningar
á einkahögum manna (hvernig samrýmist það pukrinu í kringum tölvuskrá VL?)."
5. "... (hvernig væri ef VL-menn skýrðu satt og rétt frá því,
hvernig þeir ætla að hagnýta. ..?)."
Stefnendur telja ummæli þessi meiðandi fyrir sig og varða við
234.- 236. gr. alm. hegningarlaga nr. 19 frá 1940.
Stefnendur gera eftirfarandi
dómkröfur:
að framangreind
ummæli og tilgreindar fyrirsagnir verði dæmd dauð og ómerk samkvæmt 1. mgr.
241. gr. laga nr. 19/1940.
að dæmd verði þyngsta refsing fyrir ummælin og fyrirsagnirnar
samkvæmt 234., 235., og 236. gr. laga nr. 19/1940.
að stefnendum verði dæmdar kr. 100.000 hverjum fyrir sig í
miskabætur samkvæmt 1. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940, auk 9% ársvaxta frá
2. mars 1974 til greiðsludags.
að stefnendum verði dæmdar kr. 30.000 samkvæmt 2. mgr. 241.
gr. laga nr. 19/1940 til að kosta birtingu forsendna og dómsorðs væntanlegs
dóms í máli þessu í opinberum blöðum.
að stefnendum verði dæmdur sameiginlega málskostnaður að
skaðlausu eftir mati dómara.
að þeim, sem dæmdur verður í málinu, verði gert að sjá um að
birt verði forsendur og dómsorð væntanlegs dóms í málinu í 1. eða 2.
tölublaði dagblaðsins "Þjóðviljinn", er út kemur eftir birtingu dómsins,
samkvæmt 22. gr. laga nr. 57/1956.
Dómsorð Borgardóms
Aðalstefndi, Hjalti Kristgeirsson,
skal vera sýkn af öllum kröfum stefnenda.
Málskostnaður milli þeirra fellur
niður.
Varastefndi, Svavar Gestsson, greiði
10.000 króna sekt til ríkissjóðs.
Framangreind ummæli skulu ómerk.*)
Varastefndi greiði stefnendum 30.000
krónur til að kosta birtingu dóms þessa í
opinberum blöðum.
Birta skal dóm þennan í fyrsta eða
öðru tölublaði Þjóðviljans, sem út kemur
eftir lögbirtingu hans.
Varastefndi greiði stefnendum
sameiginlega 60.000 krónur í málskostnað.
Allar greiðslur fari fram innan 15
daga frá lögbirtingu dómsins að viðlagðri
aðför að lögum.
----------------
*) Í áliti dómsins kemur fram að hér er átt við öll ummæli sem stefnt var
fyrir, nema þessi:
1. "Pólitísk tölvuskrá er gerð eftir undirskriftalistunum
(I-1, hluti).
2. "VL skráin er fyrsta pólitíska tölvuskráin..." (I-4,
hluti).
3. "... og einnig að öðru leyti gefið afar hættulegt fordæmi"
(I-4, hluti).
4. "Tölvuskrá VL skipti þjóðinni í tvennt: Þá sem
Bandaríkjamenn og umboðsmenn þeirra geta treyst og alla hina. Það eitt að
slík skrá er til og getur komist í hendur manna, sem einskis svífast, skapar
mikla hættu fyrir lýðræðið." (I-5, nema niðurlagið, sem ómerkist).
5."Leyndin og pukrið heldur áfram í kringum tölvuskrá VL..."
(III-2).
13. Mál gegn Sigurði A. Magnússyni
Mál þetta var höfðað fyrir bæjarþingi Reykjavíkur með stefnu birtri 27.
desember 1974. Tilefnið var ummæli sem birtust í Þjóðviljanum 25. júní 1974. Bjarni K. Bjarnason borgardómari fékk málið til meðferðar.
Hinn 27. febrúar 1975 birtist greinargerð stefnda í málinu í Þjóðviljanum með
stóryrtum fyrirsögnum. Vegna birtingar þessarar greinargerðar höfðuðu stefnendur
framhaldssök með stefnu sem birt var 25. júlí 1975. Hinn 10. september 1975
sagði Bjarni K. Bjarnason dómari sig frá málinu vegna afskipta af
undirskriftasöfnuninni. Hinn 18. desember 1975 kvað yfirborgardómari,
Björn Ingvarsson, upp þann úrskurð að skipa skyldi setudómara. Kom þá í hlut Steingríms Gauts Kristjánssonar héraðsdómara að
dæma í málinu. Var það tekið fyrir 14. janúar 1977, en endurupptekið til
gagnaöflunar með úrskurði 7. febrúar. Dómur
var kveðinn upp 29. júlí 1977. Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar.
Stefnendur voru:
Bjarni
Helgason, Björn Stefánsson, Hreggviður Jónsson, Jónatan Þórmundsson, Ólafur
Ingólfsson, Stefán Skarphéðinsson, Unnar Stefánsson, Þorsteinn Sæmundsson,
Þorvaldur Búason, Þór Vilhjálmsson, Ragnar Ingimarsson og Valdimar J.
Magnússon.
Ummælin sem stefnt er út af eru þessi:
1. "Hér er um að ræða alvarlegustu atlögu við tjáningarfrelsi sem
mér er kunnugt um hérlendis...
2. "´Þeir þýlyndu og þjóðvilltu tólfmenningar, sem þykjast vera að verja
æru, sem þeir hafa að dómi þjóðhollra Íslendinga týnt, eru hér að fara inn á
braut, sem gæti ekki einungis reynst hættuleg tjáningarfrelsi landsmanna, heldur
sjálfu lýðræðinu í landinu..."
3. "...hrokafullu þjóðvillingar..."
4. "...Þessir kumpánar þykjast hafa að baki sér hinn svokallaða
þögla meirihluta, en mættu gjarna minnast þess, að Adolf Hitler og
hans nótar fóru sínu fram í sömu blindu trú, og allir vita hvað af þeirri trú
leiddi..."
5. "...heigulshætti og valdbeitingartrú þeirra tólf
nýstéttarmanna, sem standa að þessu tilræði við tjáningarfrelsi Íslendinga, og
mun skömm þeirra uppi meðan nokkur ærleg hugsun bærist með þjóðinni."
Í framhaldssök er stefnt út af eftirfarandi ummælum:
A. Öllum sömu ummælum og í frumsök.
B. Eftirfarandi ummælum:
1. Kaflafyrirsögn á bls. 7: "Atferli tólf óhappamanna".
2. "...tólf óhappamanna..."
3. "kærurnar eru tilræði við tjáningarfrelsið..."
4. "...afstaða þeirra til hins erlenda "varnarliðs"...
ber vitni undirlægjuhætti og þrælsótta við húsbændurna í vestri. Það er að mínu
mati þýlyndi af verstu tegund að vilja stofna þjóð sinni í bráða
tortímingarhættu til að þóknast vesturheimskum ráðamönnum, jafnvel þótt
fjárhagsleg umbun komi fyrir - eða öllu heldur: þýlindið verður að því skapi
fyrirlitlegra sem það á dýpri rætur í ábatavoninni..."
5. "...tólfmenningarnir hafi týnt æru sinni með málshöfðunum
sínum og öllu umstangi í sambandi við hina illræmdu undirskriftasöfnun og
tölvuvinnslu..."
6. "...heigulshætti og valdbeitingartrú nýstéttarmannanna
tólf. Ég tel það vera í senn gikkshátt og heigulshátt...valdbeitingartrú..."
Stefnendur gera þær dómkröfur í frumsök og framhaldssök eftir
sameiningu þeirra:
Að öll framangreind ummæli verði dæmd dauð og ómerk samkvæmt
1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940.
Að stefndi verði dæmdur til refsingar að mati dómara fyrir
brot á 234., 235. og 236. gr. laga nr. 19/1940 vegna framangreindra ummæla.
Að stefndi verði dæmdur til að greiða hverjum stefnanda fyri
sig kr. 50.000 í miskabætur skv. 1. mgr. 264. gr. laga nr. 19/1940 með 9%
ársvöxtum frá 25. júní 1974 til 15. júlí s.á., en 13% ársvöxtum frá þeim degi
til greiðsludags.
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum
sameiginlega kr. 30.000 í kostnað skv. 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 til að
kosta birtingu forsendna og dómsorðs væntanlegs dóms í máli þessu í opinberum
blöðum.
Að stefndi verði dæmdur skv. 22. gr. laga nr. 57/1956 til að
sjá um að birt verði forsendur og dómsorð væntanlegs dóms í máli þessu í 1. eða
2. tbl. dagblaðsins "Þjóðviljans", er út kemur eftir birtingu dómsins.
Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum
sameiginlega hæfilegan kostnað (málskostnað) í frumsök og framhaldssök að mati
dómara.
Dómsorð Borgardóms
Framangreind ummæli stefnda, Sigurðar A. Magnússonar, sem birtust í
106. tbl. Þjóðviljans 1974 og 40. tbl. Þjóðviljans 1975, skulu vera dauð og
ómerk.
Stefndi skal vera sýkn af refsikröfu stefnenda í frumsök.
Stefndi greiði
20.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Varðhald í fjóra daga komi í stað
sektarinnar verði hún ekki greidd innan aðfararfrests.
Stefndi greiði
stefnendum, hverjum um sig, 25.000 króna fégjald ásamt 9% ársvöxtum frá 25. júní
til 15. júlí 1974 en 13% ársvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði
stefnendum sameiginlega 25.000 krónur til að kosta birtingu forsendna og
dómsorðs dóms þessa í opinberum blöðum.
Stefndi skal
sjá uim að forsendurog niðurlag dóms þessa verði birt í 1. eða 2. tbl.
Þjóðviljans, sem út kemur eftir lögbirtingu dómsins.
Stefndi greiði
stefnendum sameiginlega 50.000 krónur í málskostnað.
Allar
greiðslur fari fram innan fimmtán daga frá lögbirtingu dóms þessa, að viðlagðri
aðför að lögum.
Sett á vefsíðu 24. október 2008.
Síðasta viðbót
9. apríl 2010. |