Varið land - athugasemdir við blaðagreinar

Landhelgismálið
    Í blaðagreinum um Varið land (sjá hér) var því einatt haldið fram að undirritaður hefði gerst sérlegur talsmaður Breta í landhelgisdeilunni og rofið þjóðareiningu í því máli. Rótin að þeim skrifum var erindi um daginn og veginn sem ég flutti árið 1973, árið fyrir undirskriftasöfnunina.  Erindið vakti talsverð viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. Nokkrir málsmetandi menn höfðu samband við mig, ýmist símleiðis eða skriflega til að þakka mér fyrir. Aðrir tóku erindinu afar illa. Dæmi um það er grein eftir Sverri Kristjánsson sagnfræðing og fyrrum kennara minn í gagnfræðaskóla sem menn geta lesið hér. Erindi mitt fjallaði um fleira en landhelgismálið, og mér er ekki grunlaust um að aðrir þættir erindisins, einkum þátturinn um öryggismál,  hafi ráðið nokkru um afstöðu sumra gagnrýnenda eins og til dæmis Sverris. Þeir sem vilja kynna sér erindið til að dæma um það hvort gagnrýnin hafi haft við rök að styðjast, geta gert það hér.

Hin óhefta listræna tjáning

    Þegar stofnun Málfrelsissjóðs var kynnt á blaðamannafundi í nóvember 1977 höfðu stofnendur hans eftirfarandi orð um tilganginn : "Undirritaðir telja nauðsynlegt að tryggt verði fyllsta frelsi til umræðu um málefni sem varða almannaheill, og til óheftrar listrænnar tjáningar."( Mbl. 16. nóv. 1977.) Til þess að lesendur átti sig á því hvað það var sem stofnendur Málfrelsissjóðs vildu fella undir þessa skilgreiningu, er ekki úr vegi að rifja upp nokkur af þeim ummælum sem birtust á prenti um forgöngumenn Varins lands:
Kanamellur, Bandaríkjasleikjur, amerískir Íslendingar, hundflatur skrælingjalýður, siðvilltur söfnuður, rottulegir karakterar, afturhaldsmangarar, rakkar Nixons, Votergeitmenn, óhreinustu börn Sjálfstæðisflokksins, bitlingameistarar, fífl, illræmdir braskarar, þjóðníðinganefnd, hernámssinnar, ófagnaðarlýður, auðnuleysingjar, vallarmangarar, tunglvillingar, menn sem geta ekki vakið annað en fyrirlitningu og ógeð hjá hverjum sæmilega siðuðum manni, örgustu úrhrök afturhalds og fasisma sem í landinu er yfirhöfuð hægt að drífa upp.

Hin óhefta listræna tjáning fékk líka að njóta sín í ljóðlist og myndlist. Lítum sem snöggvast á teikningu Sigrúnar Eldjárn sem birtist í Þjóðviljanum 29. des. 1976.

Hvernig skyldi nú frummyndin hafa verið? Hún leit svona út (Mbl. 16. jan. 1974):



Á þessari mynd, sem Sveinn Þormóðsson tók á blaðamannafundinum þegar tilkynnt var um undirskriftasöfnunina, sjást fimm af forvígismönnum Varins lands með hendur saman. Í túlkun Sigrúnar Eldjárn eru þeir orðnir þrettán sem þannig standa, og einn þessara þrettán er kominn með snuð. Þetta er auðvitað ekki fölsun, bara óheft listræn tjáning. Smekkur höfundanna skilar sér líka óheftur í textanum.

Stjórn Málfrelsissjóðs skipuðu eftirtaldir menn:
Jóhann S. Hannesson menntaskólakennari, fyrrum skólameistari Menntaskólans á Laugarvatni
Jónas Jónsson ritstjóri, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins
Páll Skúlason prófessor, síðar rektor Háskóla Íslands
Silja Aðalsteinsdóttir cand. mag.
Thor Vilhjálmsson rithöfundur

Ekki er vitað til þess að sjóður þessi hafi verið lagður niður.

Til gamans skal hér sýnd úrklippa úr Þjóðviljanum 27. janúar 1976. Skáldin og listamennirnir sem fjölluðu um myndina hér að ofan hefðu getað gert sér mat úr þessari:


Baráttan gegn hagsmunum stúdenta
    
Í skrifum Þjóðviljans og Stúdentablaðsins var því þrásinnis haldið fram að tveir af forvígismönnum Varins lands hefðu sýnt háskólastúdentum fjandskap og barist gegn hagsmunum þeirra. Skulu hér færðar nokkrar tilvitnanir:

."Þó er þess skemmst að minnast s.l. vor þegar meirihluti háskólaráðs ákvað fyrir frumkvæði Þorsteins Sæmundssonar stjarnfræðings og vl-manns að Stúdentaráð skyldi ekki fá neinn hluta skrásetningargjalda til sinna þarfa. Menntamálaráðherra ógilti þá ákvörðun og skar þannig á þann pólitíska hnút sem myndast hafði í samskiptum stúdenta við háskólayfirvöld." (Þjóðviljinn 26. júní 1974.)

"...það er athyglisvert að meðal þeirra fjögurra háskólakennara sem höfða mál á hendur núverandi og fyrrverandi ritstjóra (Stúdentablaðsins) eru þeir tveir menn sem alla tíð hafa sýnt sig í því að berjast á móti hagsmunum stúdenta. Í háskólaráði hafa það einmitt verið þeir Þorsteinn Sæmundsson og Jónatan Þórmundsson sem einir manna hafa snúist beint gegn hagsmunum stúdenta í skrásetningarmálinu svokallaða." (Úr viðtali við formann Stúdentaráðs í Þjóðviljanum 26. júní 1974).

:"Hlutur þessara manna sem við er átt, kemur stúdentum ekki á óvart. Þeir menn sem nú opinbera innræti sitt fyrir alþjóð með þessum hætti, hafa jafnan verið stækustu andstæðingar stúdenta innan Háskólans og beitt þar öllum tiltækum ráðum til að ráðast gegn hagsmunum þeirra, jafnt með persónulegum ofsóknum sem valdníðslu...." (Úr viðtali við Sigurð Tómasson í Þjóðviljanum 27. júní 1974.)

"Þegar hann [Þorsteinn Sæmundsson] gekk hvað harðast fram í því með hjálp annarra íhaldsmanna að setja SHÍ á hausinn". (Fyrirsögn í Stúdentablaðinu, 3. tbl. 2003.)

(Tilvitnunum lokið)

Þegar fjórir háskólastarfsmenn úr hópi forgöngumanna Varins lands stefndu ritstjóra Stúdentablaðsins vegna ítrekaðra svívirðinga í blaðinu, tók verjandi ritstjórans, Ingi R. Helgason, í sama streng og lagði eftirfarandi spurningu skriflega fyrir stefnendur:

"Var það í baráttu stefnenda á árinu 1973 fyrir því að fella niður fjárframlög af innritunargjaldi til starfsemi Stúdentaráðs Háskóla Íslands, að stefnendur tengdust þeim hugsjónaböndum sem leiddu til þess að þeir gerðust hvatamenn að undirskriftasöfnun Varins lands?"

Þessum furðulega málflutningi verður best svarað með því að birta í heild greinargerð þá sem undirritaður lagði fram í borgardómi (sjá hér). Greinargerðin skýrir jafnframt hvernig á því stóð að undirritaður tók þá ákvörðun að óska eftir skriflegum spurningum og veita einungis skrifleg svör fyrir dómi.

Þáttur alþingismanna
  
Í tilvitnuðum greinum í Þjóðviljanum er nokkrum sinnum vikið að því þegar forgöngumenn Varins lands reyndu að fá þinghelgi létt af þingmönnum til að geta lögsótt þá fyrir ummæli þeirra í ræðustóli Alþingis. Nöfn Ragnars Arnalds og Svövu Jakobsdóttur koma fyrir í þessu sambandi, en Lúðvík Jósepsson átti hér einnig hlut að máli. Þegar forsetar beggja þingdeilda höfnuðu beiðni forgöngumanna Varins lands var þessum þremur þingmönnum sent bréf þar sem skorað var á þá að endurtaka ummæli sín utan þings. Aðeins einn þeirra svaraði bréfinu. Var það Ragnar Arnalds, en svar hans var skilyrt og hann varð ekki við tilmælunum. Síðar viðhafði hann önnur meiðandi ummæli í útvarpsþætti og var stefnt fyrir þau.

Upprifjanir á seinni árum.
   
Fyrir kemur að minnst er á undirskriftasöfnun Varins lands á vefsíðum eða á prenti, í greinum eða bókum sem fjalla um sögu þessa tíma. Oft er þar hallað réttu máli, stundum viljandi, en oft óviljandi því að langt er um liðið og þeir sem skrifa þekkja ekki alltaf til mála. Það getur þó tæpast átt við beina þátttakendur eins og þá sem lögsóttir voru fyrir meiðyrði. Einn þeirra, Rúnar Ármann Arthursson, greinir frá reynslu sinni í viðtali við Stúdentablaðið árið 2004 (sjá Varið land II). Þar segist hann hafa verið dæmdur fyrir að nota orð á borð við "einlægir hernámssinnar" og þykir það hneykslanlegt. Ef Rúnar Ármann hefði ekki gengið lengra en þetta í skrifum sínum, hefði hann ekki verið lögsóttur, svo mikið er víst. Ef menn vilja kynna sér hvað það var sem olli því að honum var stefnt, skal þeim bent á mál nr. 4 í þessari greinargerð.
    Í grein í Lesbók Morgunblaðsins 14. mars 2010 fer Aðalsteinn Ingólfsson lofsamlegum orðum um málverk Tryggva Ólafssonar frá árinu 1977. Myndin hét Varið land, sem Aðalsteinn kallar umdeildan félagsskap (sjá Varið land II). Hér má sjá hvernig þessi merkilega mynd lítur út:



    Það þarf auðvitað lærðan listfræðing til að túlka þessa mikilfenglegu mynd. Ólærðir myndu vafalaust geta fundið á hana annað nafn, eins og til dæmis "íslenskt smekkleysi". Það er varla langsóttara en nafngiftin sem Aðalsteinn velur árangursríkustu undirskriftasöfnun sögunnar, sem hann kallar umdeildan félagsskap. Það er ekki að ástæðulausu að andstæðingum Varins lands er undirskriftasöfnunin enn svo minnisstæð, eftir 36 ár.

Fleiri atriði verða tekin fyrir síðar þegar tóm gefst til.

Þorsteinn Sæmundsson
 

Sett á vefsíðu 11. maí  2008. Síðasta viðbót  25. mars 2010

Forsíða