(Útvarpserindi, flutt 9. júlí 1973. Birt í Morgunblaðinu 20. júlí sama ár.)
EINS og kunnugt er, fylgir Morgunblaðið þeirri meginreglu að birta
ekki í heild efni, sem flutt hefur verið í ríkisútvarpinu, og þá síst
erindi, sem flutt hafa verið í þættinum um daginn og veginn. Að þessu
sinni er þó brugðið frá þessari reglu og birt erindi það, sem Þorsteinn
Sæmundsson, stjarnfræðingur, flutti í þættinum um daginn og veginn 9.
júlí s.l. Þar sem erindið hefur verið freklega rangfært og misfarið með
efni þess, telur Morgunblaðið ástæðu til að lesendum gefist kostur á að
kynna sér það í heild. Enda álítur Morgunblaðið, að þær skoðanir, sem
fram koma í erindinu, séu um margt hinar athyglisverðustu. Fyrirsögn og
millifyrirsagnir eru blaðsins. Dr. Þorsteinn Sæmundsson, stjarnfræðingur: Góðum málstað hæfa aðeins góðar baráttuaðferðir Watergatemálið Það mál sem hæst hefur borið í erlendum fréttum undanfarið er hneykslismál það í Bandaríkjunum sem kennt er við Watergate. Þótt mál þetta snerti okkur Íslendinga ekki beint, og við séum aðeins áhorfendur að því sjónarspili sem þarna fer fram, getur það vissulega verið okkur tilefni til nokkurrar íhugunar. Rannsókn Watergatemálsins er ekki lokið og því of snemmt að fullyrða að hve miklu leyti sjálfur forseti Bandaríkjanna er flæktur í hneykslið. En hver sem niðurstaðan verður um það atriði, hefur Watergatemálið fært okkur enn eina sönnun þess hve mikil nauðsyn það er að standa vörð um grundvallarhugsjónir lýðræðisins og berjast gegn spillingu og misbeitingu valds, jafnvel í grónum lýðræðisríkjum. Þáttur bandarískra dagblaða í því að fletta ofan af Watergatehneykslinu er lofs- verður og mjög til fyrirmyndar. Þótt málið í heild sé þungur álitshnekkir fyrir bandarísk stjórnvöld, ber það um leið vott um styrk bandarísks stjórnmálakerfis, því að það sannar að jafnvel valdamestu menn kerfisins geta hvenær sem er átt von á því að verða að standa skil gerða sinna gagnvart almenningi og hlutlausum dómstólum. Í þessu er fólgin mikil trygging sem nauðsynleg er hverju þjóðfélagi sem vill varðveita raunverulegt lýðræði. Mál eins og Watergatemálið gæti aldrei komið upp í ríkjum þar sem prentfrelsi og annað tjáningarfrelsi skortir. Að vísu ber það við í slíkum ríkjum að ráðamönnum er rutt úr vegi og alþýða manna fær þá að heyra ýmsar sögur af valdníðslu þeirra og spillingu, en hinir nýju valdhafar eru venjulega jafn óhultir fyrir gagnrýni og fyrirrennarar þeirra voru meðan þeir höfðu völdin. Hættan á spillingu og misbeitingu valdsins er hvað mest í þeim ríkjum þar sem allt vald er á einni hendi, stjórnvald, dómsvald og fjármálavald. Eins og breski sagnfræðingurinn Acton komst að orði: "Vald leiðir gjarnan til spillingar, og algjört vald leiðir til algjörrar spillingar." Þessi sannleikur vill oft gleymast þeim mönnum sem berjast fyrir meira miðstjórnarvaldi til þess að geta ráðið bót á meinum þjóðfélagsins. Sé meðalið of sterkt getur lækningin reynst hættulegri en meinsemdin sem útrýma skal. Aðhald dagblaða Fréttir af Watergatemálinu leiða hugann að því hvar við Íslendingar séum á vegi staddir um aðhald í opinberri stjórnsýslu. Því miður held ég að mikið skorti á að við séum nægilega vel vakandi í þeim efnum. Jafnvel almælt hneykslismál sem snerta opinbera embættismenn og embættisrekstur komast varla í fréttadálka dagblaða, og þó að þau geri það endrum og eins, er málunum sjaldnast fylgt eftir af neinni hörku. Sumir vilja skýra þetta þannig að bönd kunningsskapar og frændsemi ráði meiru hér í fámenninu en títt er með stærri þjóðum og verði til þess að menn sleppi fremur við hegningu. Einnig hef ég heyrt þá skýringu að íslensk dagblöð séu yfirleitt svo nátengd stjórnmálaflokkunum að hendur blaðamanna séu að miklu leyti bundnar. Þeir megi ekki ráðast á samherja blaðs síns í stjórnmálum, og ef þeir saki andstæðinga um misferli verði litið svo á að það sé gert í pólitískum tilgangi. Fleiri atriði koma að sjálfsögðu til greina, svo sem ótti við hugsanlegar hefndaraðgerðir gegn pólitískum aðstandendum blaðsins. Hvort sem þetta eru meginástæðurnar fyrir linkind dagblaðanna eða ekki, er ég viss um að það yrði til mikilla bóta ef íslensk dagblöð gætu orðið óháðari stjórnmálaflokkunum en nú er. Hugmyndin um öflugt íslenskt dagblað, óháð stjórmálaflokkum, er ekki ný, en því miður virðast vera takmörkuð skilyrði fyrir útgáfu slíks blaðs hér á landi. Að óbreyttum aðstæðum virðist mér full þörf á að hvetja íslenska blaðamenn til að halda vöku sinni og veita það aðhald, sem dagblöðin ein geta veitt í opinberri stjórnsýslu. Skoðanafrelsi Ekkert mál hefur tekið meira rúm í fréttum hérlendis að undanförnu en landhelgismálið. Er það að vonum þar sem um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir alla landsmenn. Flest bendir nú til þess að úrslit landhelgisdeilunnar muni verða Íslendingum í vil, og að þau málalok geti ekki verið mjög langt undan. Mun það verða landsmönnum mikið fagnaðarefni þegar þeim áfanga er náð. Ég tel víst að flestir ef ekki allir Íslendingar sem komnir eru til vits og ára hafi frá upphafi fylgst með framvindu landhelgismálsins og óskað þess að úrslitin yrðu þjóðinni hagstæð. Þar hafa tvinnast saman eiginhagsmunarsjónarmið og þjóðernistilfinning, en þessa tvo þætti getur verið erfitt að greina í sundur á stundum. Eðlilegt var að landsmenn væru frá öndverðu nokkurn veginn sammála um endanlegt markmið í landhelgismálinu. Hins vegar var ekki hægt að ætlast til að þeir yrðu jafn sammála um, hver væri besta leiðin að hinu setta marki. Þar var eðlilegt að skoðanir yrðu skiptar, ekki síður í þessu máli en öðrum. Krafan um órofa samstöðu landsmanna, ekki aðeins um markmið heldur einnig um leiðir í þessu máli, krafa sem sett var fram af fullkominni óbilgirni, var að mínu viti bæði heimskuleg og skaðleg. Hún leiddi fljótlega til þess að frjáls skoðanaskipti í málinu urðu illmöguleg; skoðanir sem féllu ekki alveg að hinni opinberu línu voru úthrópaðar þegar í stað og taldar jafnast á við landráð. Með þessum orðum er ég ekki að deila á neinn sérstakan stjórmálaflokk öðrum fremur, því að ég tel, að þeir beri hér allir nokkra sök. Hinn einhliða og stóryrti málflutningur, sem dunið hefur í eyrum Íslendinga í sambandi við landhelgismálið hefur haft þau áhrif að æsa upp til ofstækis jafnvel gæfustu og grandvörustu menn. Fjöldinn allur af mönnum talar nú eins og hann sé sannfærður um að málstaður Íslands sé heilagur og allar aðgerðir hljóti að réttlætast af því, en málstaður andstæðinganna hinn fyrirlitlegasti og þeir nánast ótíndir glæpamenn sem skömm og svívirða sé að semja við. Í augum þessara manna er landshelgisgæslan orðin að eins konar krossfaraliði sem engum líðst að gagnrýna; talsmenn gæslunnar eru álitnir óskeikulir í túlkun sinni á atburðum, og mönnum er jafnvel ráðlagt að hlusta ekki á frásagnir gagnaðila. Dæmi er um það að orð manna hafi verið vegin og metin eftir því hve mikið þeir hafi lagt í landhelgissjóð sem stofnaður var í þeim tilgangi að þjappa landsmönnum saman um málsstaðinn. Öfgarnar ganga svo langt að lesendur skrifa dagblöðum og heimta að lokað sé fyrir breskt sjónvarpsefni, en aðrir kvarta yfir því fullir vandlætingar að hljómurinn í klukkum Hallgrímskirkju sé óþjóðlegur og minni á sjálfan erkióvininn, Jón bola. Því miður eru þessi viðbrögð manna ekki öll þess eðlis að hægt sé að henda gaman að þeim. Nægir þar að minna á aðsúginn að breska sendiráðinu og þau skemmdarverk sem þar voru unnin. Ég vona að flestir hugsandi menn geti verið mér sammála um að ofstæki af því tagi, sem ég hef nú lýst sé Íslendingum einungis til vansæmdar. Vissulega eigum við að halda á málstað okkar með festu, en okkur ber jafnframt að gæta fyllsta heiðarleika í málflutningi og forðast ábyrgðarlausar aðgerðir og óþörf stóryrði. Samningsrofið Góðum málstað hæfa aðeins góðar baráttuaðferðir, en það er skoðun mín, að baráttuaðferðir Íslendinga í landhelgisdeilunni hafi í ýmsum atriðum verið ámælisverðar og til þess fallnar að skaða málstaðinn og álit þjóðarinnar út á við. Fyrstu mistökin voru að mínum dómi þau að Íslendingar skyldu ganga á gerðan samning við Breta um að skjóta landhelgisdeilunni til Alþjóðadómstólsins í Haag. Um þetta sagði svo í samningi Breta og Íslendinga frá 1961: "Ríkisstjórn Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstjórn Bretlands slíka útfærslu með sex mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til Alþjóðadómstólsins." Tilvitnun lokið. Rétt er að undirstrika, að samningurinn fól ekki í sér, að Íslendingar þyrftu að bíða með útfærslu þar til samþykki Alþjóðadómstólsins væri fengið, en þeir skuldbundu sig til þess að bera útfærsluna undir dómstólinn, væri þess óskað. Þetta heit var ekki efnt, og gengum við Íslendingar þannig á bak orða okkar. Ég segi "við Íslendingar", því að allir erum við á vissan hátt þátttakendur í gerðum hverrar réttkjörinnar ríkisstjórnar, ekki síst í samskiptum hennar við önnur ríki. Samningsrofið færði Bretum vopn í hendur. Það gaf átyllu til að ætla að við tryðum ekki nægilega á málstað okkar til að verja hann fyrir dómstóli; það lýsti virðingarleysi okkar á Alþjóðadómstólnum og Sameinuðu þjóðunum og hlaut að rýra álit okkar í augum þeirra manna sem einhvers mátu orðheldni og gerða samninga. Hvað sem landhelgismálinu líður er það alvörumál fyrir smáþjóð eins og Íslendinga ef hún ætlar að lítilsvirða samninga við önnur ríki. Með því fyrirgerir hún rétti sínum til gagnrýni ef aðrar þjóðir ætla að brjóta samninga á henni. Og Íslendingar munu áreiðanlega þurfa á því að halda í framtíðinni að geta treyst á samninga sem þeir gera við önnur ríki. Sú röksemd að við höfum ekki verið bundnir af samningnum frá 1961 af því að þetta hafi verið nauðungarsamningur, fær engan veginn staðist. Þeir forráðamenn sem samninginn gerðu fyrir okkar hönd voru annarrar skoðunar. Bjarni Benediktsson, þáverandi ráðherra og síðar forsætisráðherra, komst svo að orði árið 1970, níu árum eftir undirritun samningsins, að samningurinn 1961 væri einhver stærsti stjórnmálasigur sem Íslendingar hefðu fyrr og síðar unnið. Nauðungarsamningur var þetta ekki. Íslendingar voru í sókn í málinu, en Bretar í vörn þrátt fyrir öll herskipin sem þeir gátu teflt fram. Jafnvel þótt svo hefði ekki verið og við hefðum verið í lakari aðstöðu, hefði það eitt ekki nægt til að ómerkja samninginn. Það er sjaldnast að aðilar standi jafnt að vígi á allan hátt, þegar gengið er til samninga. Það gerir þetta mál enn verra, að erfitt er að sjá nokkra skynsamlega ástæðu fyrir því að brjóta umræddan samning. Aðstaða Íslendinga gat á engan hátt versnað við að leggja málið undir úrskurð Alþjóðadómstólsins eins og samið hafði verið um. Samningsrofið kemur ekki í veg fyrir, að dómstóllinn fjalli um málið og kveði upp sinn úrskurð. En með afstöðu sinni hafa Íslendingar lýst vantrausti á eigin málstað og vantrausti á Alþjóðadómstólinn eins og áður var sagt. Ég er þeirrar skoðunar, og styðst þar meðal annars við álit breskra aðila, að Íslendingar hefðu að öllum líkindum unnið mál sitt fyrir dómstólnum í Haag, ef þeir hefðu valið þann kostinn að flytja málið þar. En ef svo ólíklega hefði farið að við hefðum tapað málinu og úrskurðurinn hefði orðið okkur svo óhagstæður að forvígismenn þjoðarinnar hefðu talið útilokað að hlíta honum, stæðum við þó ekki verr en við gerum nú. Við hefðum að minnsta kosti sýnt vilja okkar til að standa við gerða samninga og sýnt að við bærum fyrirfram traust til Alþjóðadómstólsins í stað þess að hafna úrskurði hans að óreyndu. Röksemdir fyrir útfærslunni Ég sagði áðan að samningsbrotið hefði verið fyrstu mistökin af okkar hálfu í landhelgismálinu. Önnur mistökin voru þau að röksemdir Íslendinga fyrir útfærslu landhelginnar skyldu ekki vera settar fram á nægilega sannfærandi hátt. Röksemdirnar eru í eðli sínu tvær. Önnur höfðar til réttar hvers ríkis til að nýta fiskimið úti fyrir ströndum sínum. Í því sambandi er auðvelt að vísa til þróunar annars staðar í heiminum, bæði hvað snertir fiskveiðilögsögu og nýtingu auðlinda á hafsbotni. Slík rök hafa verið sett fram á fullnægjandi hátt af Íslands hálfu að ég hygg. Gallinn er bara sá að þeim má mæta með öðrum rökum sem vísa til hefðar í fiskveiðum og nauðsynjar þjóða til að nýta fjarlæg fiskimið til að fullnægja þörfum þegna sinna. Okkur kann til dæmis að þykja ósanngjarnt að Sovétríkin skuli senda stórflota til veiða á fjarlæg fiskimið. En skyldi þegnum Sovétríkjanna ekki þykja það jafn ósanngjarnt ef allt í einu ætti að fara að banna þeim að afla fæðu á þennan hátt? Afstaða Sovétríkjanna til útfærslu landhelginnar talar sínu máli um þetta. Á slíkum hagsmunaágreiningi verður engin lausn fundin með einfaldri tilvitnun í lýðræði eða réttlæti. Ef úrskurðurinn ætti að fara eftir höfðatölu eða þörf aðila fyrir betri lífskjör, stæðum við Íslendingar sennilega höllum fæti. Þá er komið að hinni röksemdinni fyrir útfærslu landhelginnar, en það er sú röksemd sem vitnar til nauðsynjar á verndun fiskistofnanna. Þetta er sú röksemd sem hlýtur að vera sterkust frá alþjóðlegu sjónarmiði, og henni verður ekki í móti mælt. Það hlýtur að vera í þágu allra þjóða, bæði Íslendinga og annarra, að fiskistofnarnir við landið séu verndaðir sem best má verða. Og engum dylst að því máli hlýtur að vera best borgið í höndum Íslendinga sjálfra af því að þeir eiga alla afkomu sína undir fiskveiðunum. Þess vegna hefðu Íslendingar, um leið og þeir færðu út landhelgina, átt að setja fram fastmótaðar áætlanir um, hvernig þeir ætluðu að vernda fiskimiðin, hvaða takmarkanir þeir ætluðu að gera á eigin afla á næstu árum, o.s. frv. Þetta var ekki gert og í samningaviðræðum við Breta hafa Íslendingar aldrei viljað ræða neinar takmarkanir á eigin afla. Þvert á móti var gert heyrinkunnugt að Íslendingar væru að semja um smíði 40 nýrra togara. Niðurstaða hinna erlendu viðmælenda okkar hlaut því að verða sú að verndunartalið væri markleysa og að Íslendingar sæktust aðeins eftir stærri sneið af þeirri köku er til skiptanna væri. Þessi veila í málflutningi Íslendinga er mjög alvarleg. Og það bætir ekki úr skák að það skuli fréttast að íslensk yfirvöld gangi nú í berhögg við ráðleggingar íslenskra fiskifræðinga þegar leyfi eru veitt til veiða innan gömlu landhelginnar. En þrátt fyrir það hvernig á þessum málum hefur verið haldið af okkar hálfu hefur málstaður Íslendinga fengið furðu góðan hljómgrunn erlendis, ekki síst í Bretlandi og Þýskalandi. Sá stuðningur, sem Íslandsvinir í þessum löndum hafa veitt okkur mun sennilega ráða miklu um endanleg úrslit landhelgismálsins, og megum við vissulega vera þakklátir fyrir. Landhelgismálið og NATO Inn í umræður manna um landhelgismálið hafa blandast umræður um annað mál sem er ekki síður mikilvægt fyrir Íslendinga, en það er spurningin um áframhaldandi aðild okkar að varnarsamstarfi vestrænna þjóða. Þeirri skoðun er nú mjög haldið á lofti að ágreiningurinn við Breta í landhelgismálinu hafi sannað að Atlantshafsbandalagið sé Íslendingum til lítils gagns, og að þeim beri að segja sig úr því og láta bandaríska herliðið á Keflavíkurflugvelli fara af landi brott. Hversu útbreidd þessi skoðun er, er erfitt að segja, en því verður varla á móti mælt að talsverður hópur manna hefur breytt afstöðu sinni til Atlantshafsbandalagsins vegna atburða landhelgismálsins. Ég tel að slík afstöðubreyting hljóti að vera á misskilningi byggð. Tilgangurinn með aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu hefur aldrei verið sá að setja niður deilur milli Íslands og annarra bandalagsríkja. Það er að vísu óæskilegt að slíkar deilur rísi, en gildi bandalagsins stendur óhaggað, svo og höfuðmarkmið þess, þótt bandalaginu mistakist að leysa innri deilur um óskyld málefni. Bandalagið skapar hins vegar vettvang fyrir umræður um deilumál einstakra ríkja og getur þannig stuðlað að því að slíkar deilur leysist. Að sjálfsögðu hefur það ávallt verið forsenda fyrir aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu að frelsi okkar og sjálfstæði stafi ekki hætta af þeim nágrannaþjóðum okkar sem með okkur eru í bandalaginu, heldur komi hættan úr annarri átt. Atburðarás landhelgismálsins hefur ekki gefið okkur neitt tilefni til að skipta um skoðun hvað þetta snertir. Því verður ekki haldið fram í alvöru að aðgerðir Breta á Íslandsmiðum séu ógnun við frelsi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Það breytir engu í þessu sambandi þótt menn úr öllum stjórnmálaflokkum hafi kosið að kalla þessar aðgerðir vopnaða innrás, hernaðarlegt ofbeldi og árás á Íslendinga. Slík stóryrði spretta fremur af tilfinningum en rökum. Hve lengi halda menn annars að íslenska landhelgisgæslan myndi standa af sér raunverulegar árásaraðgerðir af hálfu Breta? Allar aðgerðir íslenskra yfirvalda bera þess ljósan vott, að þau vita fullvel, að Bretar hafa ekkert slíkt í huga. Engin ábyrg ríkisstjórn myndi senda skipsmenn landhelgisgæslunnar út í opinn dauðann. Jafnvel ásökunin um ofbeldi, sem er tiltölulega hógvær, vekur vissar spurningar. Eru ekki tvær hliðar á því máli? Erum við Íslendingar ekki að hrekja Breta og aðra af svæðum sem þeir hafa stundað veiðar á um langan aldur, og beitum við ekki víraklippum og fallbyssum í þeirri viðleitni okkar? Að kalla annað lögregluaðgerðir en hitt ofbeldi sýnist mér óþarfur orðaleikur og málstað okkar til lítils ávinnings. Öryggi Íslands Krafan um að Íslendingar segi sig úr Atlantshafsbandalaginu er auðvitað miklu eldri en landhelgisdeilan. Vitað er að nokkur hópur Íslendinga hefur frá öndverðu verið andvígur öðru hvoru eða hvoru tveggja, aðild Íslendinga að Atlantshafsbandalaginu og herverndarsamningnum við Bandaríkin. Þetta fólk virðist í einlægni vera þeirrar skoðunar að það sé framtíð Íslendinga fyrir bestu, að land þeirra sé hlutlaust og umfram allt óvarið, að Íslendingum stafi engin hætta af yfirgangi annarra ríkja, nema þá helst þeirra nágrannaríkja, sem þeir eru í bandalagi við, og loks, að enginn geti verið sannur Íslendingur nema hann hafi þessa sömu skoðun. Þannig var því haldið fram í leiðara eins Reykjavíkurblaðsins nýverið, að spurningin um að velja NATO eða hafna NATO væri spurningin um að vera Íslendingur eða vera það ekki. Þó svo að ég sé hjartanlega ósammála þeim sem þannig hugsa, og telji að stefna þeirra sé hin háskalegasta fyrir þjóðina, ætla ég ekki að taka undir þá skoðun sem stundum er haldið fram að þetta séu landráðamenn. Þvert á móti er ég viss um að þetta fólk ann landi sínu og þjóð. En forsjá þess í utanríkismálum treysti ég ekki. Ég get ekki gleymt því að meðal hinna háværustu í þessum hópi eru þeir sömu menn sem sögðu mér og mínum skoðanabræðrum á sínum tíma að stjórnarfarið í Rússlandi væri það sem koma skyldi á Íslandi; að sögurnar um ofbeldisverk Stalíns og þær milljónir sem teknar voru af lífi í Ráðstjórnarríkjunum á hans dögum væru uppspuni einn og auðvaldslygi; að allar sögur um undirokun og kúgun Austur-Evrópuþjóða eins og Tékka og Ungverja væru illmælgin ein, og þannig mætti lengi telja. Slíkum skoðunum var haldið fram árum og áratugum saman þótt allar staðreyndir vitnuðu um hið gagnstæða fyrir sjáandi mönnum. Ég held ekki að neinn geti láð mér það þótt ég treysti ekki um of á skarpskyggni þeirra manna í utanríkismálum, sem svo berlega hafa látið blekkjast á liðinni tíð. Þegar þessir menn og aðrir yngri sem nú fylla þeirra flokk koma nú og segja mér að ég sé með Rússagrýluna á heilanum, að kalda stríðið tilheyri liðinni tíð; að innrásin í Tékkóslóvakíu hafi ekki sannað annað en það að það sé óráðlegt að vera í hernaðarbandalagi; að risaveldin séu búin að skipta heiminum í áhrifasvæði og hlutist aðeins til um málefni ríkja á eigin áhrifasvæði; að við eigum samleið með þjóðum þriðja heimsins fremur en nágrönnum okkar, og að með tilliti til alls þessa eigum við að segja okkur úr Atlantshafsbandalaginu og láta herinn fara, þá vona ég að mér leyfist að vera eilítið vantrúaður. Ef það er satt að kalda stríðið sé löngu liðið, hvers vegna halda stórveldin áfram vígbúnaðarkapphlaupinu og beina stöðugt skeytum hvort að öðru? Hvers vegna leggja bæði Frakkar og Vestur- Þjóðverjar svo ríka áherslu á áframhaldandi dvöl bandarískra hersveita í Þýskalandi? Ef áhrifasvæði stórveldanna eru skýrt mörkuð og engin hætta á ásælni annars á áhrifasvæði hins, hvernig á þá að skýra Kúbudeiluna sem nærri lá að orsakaði heimsstyrjöld? Ef óvopnað hlutleysi er besta vörnin, hvernig stendur þá á því að ríki eins og Svíþjóð og Sviss verja stórfúlgum til hervarna? Ef engin ástæða er til að óttast ásælni Sovétríkjanna, hvernig skyldi standa á því að Svíar, þessi hlutlausa bræðraþjóð okkar á Norðurlöndum, snúa öllum sínum hervörnum til austurs, en ekki í áttina til þeirra sem þeir gagnrýna hvað mest á alþjóðavettvangi? Ef það er rétt að við eigum mesta samleið með þjóðum þriðja heimsins, er þá ekki tími til kominn að tilgreina nánar hvaða þjóðir er verið að tala um og í hvaða efnum við eigum samleið með þessum þjóðum? Fáar munu þær vera sem við gætum tekið okkur til fyrirmyndar í stjórnarfarslegu tilliti. Og hvað öryggismál snertir, hefur engin þessara þjóða svo að ég viti, gert sér óvopnað hlutleysi að leiðarljósi. Þvert á móti verja þær flestar mjög háum upphæðum til hermála, hlutfallslega séð, og tryggja öryggi sitt með samningum við önnur ríki. Mannfjöldi á Íslandi Að lokum langar mig til að drepa á eitt mál, sem í rauninni snertir landhelgismálið óbeint þótt fæstir muni hafa hugleitt það í því samhengi. Á ég þar við fjölgun Íslendinga og spurninguna um hvað talist geti æskilegur fólksfjöldi á Íslandi í framtíðinni. Öllum hlýtur að vera ljóst, að jafnvel þótt við fáum með tímanum full umráð yfir öllu landgrunninu umverfis Ísland, verður aldrei mögulegt að veiða nema takmarkað magn af fiski hér við land. Eftir því sem þjóðin verður fjölmennari hlýtur að verða erfiðara að sjá henni farborða af fiskveiðum fyrst og fremst, og verður þá í vaxandi mæli að leita að öðrum leiðum. Þessi þróun er þegar hafin með aukinni fjölbreytni í atvinnuvegum, og er ekki nema gott eitt um það að segja. En sívaxandi fólksfjölda fylgir aukin sókn í hvers kyns auðlindir og hráefni sem ekki eru óþrjótandi, hvorki innanlands né utan. Hvað erlend hráefni snertir munum við fljótlega finna fyrir því að mörg þeirra verða ekki lengur til skiptanna. Eftir því sem áherslan innanlands færist yfir á atvinnugreinar iðnaðar, og þá sérstaklega stóriðju, munum við einnig rekast á ýmis vandamál svo sem mengunarvandamál sem erfitt er að finna lausn á. Spurningin er því sú hvort ekki sé tímabært að við Íslendingar förum að hugleiða annað svar við þeim vanda sem fyrirsjáanlegur er, það er að segja takmörkun fðlksfjöldans. Ég veit að mörgum mun finnast það hin mesta firra að Íslendingar þurfi að hugsa um fólksfjölgunarvandamál í svo strjálbýlu landi. Þvert á móti hafa menn oft leitt rök að því að fámennið skapi okkur ýmsa erfiðleika, og margs konar starfsemi yrði okkur ódýrari og hagkvæmari ef þjóðin væri fjölmennari. Þetta er vissulega rétt. En ef við hugleiðum málið nánar hljótum við líka að sjá að mörg af erfiðustu vandamálum okkar stafa af fjölgun fólks og þeirri útþenslu sem fjölguninni fylgir á öllum sviðum. Skipulagskraftar þjóðarinnar fara að mestu í að sinna útþenslunni, en fegrun og fullkomnun á einstökum sviðum verður að sitja á hakanum. Með hinum aukna fólksfjölda glötum við líka smám saman þeim verðmætum sem okkur eru kærust og aldrei verða metin til fjár, þeim verðmætum sem fólgin eru í frjálsu umhverfi og hinni ósnortnu náttúru sem fámennið hefur tryggt okkur hingað til. Mín skoðun er sú að Íslendingar ættu nú þegar að reyna að gera sér grein fyrir hvaða hámark þeir vilji setja íbúafjöldanum í landinu og taka síðan upp skipulega baráttu fyrir því að ekki verði farið yfir það hámark. Hér er það ekki aðeins fjölgun Íslendinga sjálfra sem máli skiptir, heldur einnig aðflutningur erlendra manna. Um hina æskilegu hámarkstölu íbúa má auðvitað lengi deila, og ég á ekki von á, að allir verði mér sammála þegar ég vil halda því fram að við séum þegar komnir mjög nærri þeirri tölu sem hæfilegt væri að miða við. Á undanförnum fimmtíu árum hefur fólksfjöldi á Íslandi tvöfaldst. Ef sú þróun heldur áfram, má búast við því að þeir sem nú eru á æskuskeiði eigi eftir að lifa það að fjöldi Íslendinga fari yfir 500 þúsund. Auðvitað getur þróunin orðið eitthvað hægari en þetta. En slíkt gæfi okkur aðeins örlítið lengri umhugsunarfrest. Vöxtur Reykjavíkur og byggðarinnar í kring er umræðuefni út af fyrir sig, því að sá vöxtur er miklu örari en sem svarar fjölgun landsmanna. Íbuafjöldinn á höfuðborgarsvæðinu hefur nú þegar náð því marki sem margir sérfræðingar telja hagkvæmast fyrir þéttbýliskjarna. Stærri borgum fylgja sérstök vandamál, bæði tæknileg og félagsleg, sem betra er að vera laus við. Þótt einhverjir kunni að hafa aðrar skoðanir á þessu máli eða öðrum sem ég hef minnst á hér í kvöld, leyfi ég mér að vona að orð mín hafi gefið þeim tilefni til frekari hugleiðinga um þessi efni.
Sett á vefinn 10. maí 2008. |