Skýrsla Þorsteins Sæmundssonar

lögð fram í borgardómi 10. 2. 1976
 

Í upphafi máls tel ég rétt að gera grein fyrir þeirri ákvörðun minni að óska eftir skriflegum spurningum og veita skrifleg svör í þessu máli og öðrum hliðstæðum málum sem risið hafa vegna svívirðingaherferðar gegn mér og öðrum þeim sem stóðu að undirskriftasöfnun Varins lands.

Ákvörðun mín er byggð á þeirri reynslu sem þegar er fengin af rekstri þessara mála fyrir borgardómi. Strax í fyrsta málinu beitti lögmaður varnaraðila þeirri aðferð að fá sem allra flesta af stefnendum fyrir dóm til að svara miklum fjölda spurninga sem margar hverjar snertu málið lítið eða ekkert að mínum dómi, en virtust fremur vera leit að einhverju sem gæti haft áróðursgildi á öðrum vettvangi. Mest af þessum umræðum var skráð á segulband sem síðan mun hafa verið afritað af starfsmanni dómsins. Hygg ég að í þessu fyrsta máli einu nemi afritin nær 200 vélrituðum síðum. Næsta stig málsins er það að dagblaðið Þjóðviljinn gerir það að lið í sífelldri ófrægingarherferð sinni á hendur mér og öðrum stefnendum að birta valda útdrætti úr þessum mikla bálki og kallar orðrétta frásögn. Þar sem lítið var að finna efnislegt í þessum framburði, sem Þjóðviljanum gæti orðið til framdráttar, voru kaflarnir valdir þannig að þeir lýstu sem óskýrastri framsetningu, endurtekningum og öðru slíku sem óhjákvæmilega gætir meira í mæltu máli en rituðu. Þetta var síðan túlkað þannig að við værum ekki færir um að tjá hugsun okkar á móðurmálinu svo skammlaust væri. Í sumum tilvikum voru kaflar valdir þannig að þeir gáfu efnislega ranga mynd af svarinu í heild og veigamiklum atriðum sleppt. En umfram allt gáfu allar þessar spurningar og meðferð Þjóðviljans á þeim þá mynd að við, stefnendur málsins, værum sakborningarnir og yrðum nú að standa skil á gerðum okkar fyrir réttvísinni.

Ég lít á það sem mjög mikilvægan þátt í réttarfari að almenningur fái rétta mynd af gangi dómsmála. Tilraunir fjölmiðla til að afbaka eða rangfæra það sem fram hefur komið fyrir dómi eru ekkert hégómamál, heldur snerta þær kjarna réttarfarsins. Mér skilst að slíkt athæfi varði við lög, þótt þeim hafi ekki verið beitt í þessu tilviki. Sumar af rangfærslum Þjóðviljans höfum við stefnendur leiðrétt opinberlega, en ef leiðrétta ætti allt, þyrfti meiri tíma og mannafla en við höfum til umráða. Til þess þyrfti nánast sérstakt málgagn. Slíkt málgagn höfum við ekki, og Þjóðviljinn er eina blaðið sem reglubundið hefur skýrt frá gangi þessara mála. Sú mynd sem almenningur fær, hlýtur því mjög verulega að mótast af frásögn Þjóðviljans.

Ég sé ekki ástæðu til að leggja Þjóðviljanum lið í áframhaldandi viðleitni til að ófrægja mig og aðra stefnendur. Því tel ég rétt að taka upp önnur vinnubrögð við rekstur þeirra mála sem borgardómur á eftir að fjalla um. Með því að óska eftir skriflegum spurningum og svara þeim skriflega er hægt að afgreiða á skjótan hátt spurningar sem lítið eða ekkert koma málinu við og svara hinum í sem stystu máli. Þá er einnig hægt að komast hjá villum sem óhjákvæmilega verða við eftirritun af segulböndum, villur sem ekki skipta máli efnislega, en geta gefið brenglaða mynd af framsetningu íslensks máls. Á ég þar t.d. við annarlega greinarmerkjasetningu, afbökun orða vegna misheyrnar o.s.frv. Næg dæmi eru um slíkt í þeim afritum segulbanda sem fyrir liggja.

Ég vil einnig benda á það atriði að hinn mikli blaðsíðufjöldi afrita af segulbandsupptökum veldur óhjákvæmilega auknum kostnaði og fyrirhöfn við frekari meðferð mála. Við málsskot okkar til hæstaréttar hefur komið í ljós, að skila þarf ljósriti í 15 eintökum af viðkomandi skjölum. Öllum ætti því að vera hagur í að takmarka gögnin við það sem máli skiptir.

Að þessum inngangi loknum sný ég mér að þeim spurningum sem fram hafa verið lagðar. Snerta þær fyrst og fremst sjóðamál háskólans og innritunargjöld. Ég átti sæti í háskólaráði á árunum 1973 og 1974 þegar þessi mál voru þar til umræðu. Var ég þar fulltrúi Félags háskólakennara. Afstaða mín til lána úr prófgjaldasjóði til prófessora við háskólann ætti að vera stúdentum vel kunn, þar sem ég mun hafa orðið fyrstur til að gera athugasemdir við skipulag þeirra mála, fyrst munnlega, en síðan með bréfi og tillögum til rektors snemma í júnímánuði 1973. Jafnframt mun ég hafa orðið fyrstur til að benda þáverandi formanni stúdentaráðs á málið. Hitt er rétt og skylt að taka fram, að skoðanir í háskólaráði  voru skiptar um þetta mál, og álít ég að aðfarir stúdenta hafi gert mun erfiðara að ná þar æskilegri lausn.

Um innritunargjaldamálið er það skemmst að segja, að fulltrúar stúdenta í háskólaráði höfnuðu málamiðlunartillögu sem ég lagði fram og gerði ráð fyrir 76 prósent hækkun til stúdentaráðs. Dró ég þá tillöguna til baka og lagði fram varatillögu sem gerði ráð fyrir skipan svipaðri því sem tíðkast hafði fram til 1968, en þá voru framlög til stúdentaráðs frjáls, en ekki skylduð sem hluti af innritunargjöldum. Tillaga þessi var samþykkt í háskólaráði, en stúdentar undu ekki þeirri skipan heldur leituðu til ráðherra, sem varð við óskum þeirra. Til nánari skýringar legg ég hér með sem fylgiskjal greinargerð þá um skiptingu  innritunargjalda sem fylgdi tillögu minni til háskólaráðs. Þá legg ég með ljósrit úr fundargerðum háskólaráðs þar sem greint er frá umræðum um þessi mál, bæði innritunargjaldamálið og lánamálin. Tel ég að þessi ljósrit sýni best hversu fráleitar eru ásakanir í minn garð vegna afskipta af þessum málum.

Aðrar spurningar tel ég dómsmáli þessu óviðkomandi og mun ekki svara þeim nema dómari úrskurði að þess gerist þörf.

                                                              Reykjavík 10. febrúar 1976,

                                                                Þorsteinn Sæmundsson
 


Fylgiskjal:

Innritunargjöld við Háskóla Íslands
(Greinargerð dagsett 13. júní 1973, lögð fyrir Háskólaráð)

Á meðfylgjandi blaði er gerður samanburður á þeim tillögum sem fram hafa komið um upphæð og skiptingu innritunargjalda við Háskóla Íslands. Einnig er þar sett fram ný tillaga um þetta efni. Sú tilllaga grundvallast á eftirfarandi sjónarmiðum:

    1. Gengið er út frá því að hækkun innritunargjalda verði í samræmi við tillögu stúdentaráðs, þannig að gjöldin hækki úr 1500 kr. í 2200 kr., enda hefur háskólaráð þegar gert formlega samþykkt þess efnis. Þessi hækkkun, um 47%, er nokkurn veginn í samræmi við verðlagsþróun á þeim tíma sem liðinn er síðan innritunargjöld voru síðast endurskoðuð. Þar sem svo örar breytingar verða á verðlagi, virðist óheppilegt að upphæð innritunargjalda sé fest í reglugerð, og væri athugandi hvort ekki ætti að breyta þessu þannig að nægilegt væri að ráðherra staðfesti tillögur háskólaráðs um breytingar.
 
    2. Til einföldunar er lagt til að öllum innritunargjöldum verði skipt á sama hátt, hvort sem um fruminnritun eða endurinnritun er að ræða.

    3. Meginstefna tillögunnar er að hlutur Félagsstofnunar stúdenta verði óbreyttur, þ.e. um 60% af innritunargjöldunum. Fjárþörf félagsstofnunarinnar er óneitanlega mikil, ekki síst meðan stofnunin er að greiða upp byggingarkostnað félagsheimilis sem fór 9 milljónir fram úr áætlun, svo og vegna kostnaðar við að koma upp barnaheimili stúdenta. Það fé sem félagsstofnun hefur fengið af innritunargjöldum hefur fram til þessa verið bundið að nokkru leyti með reglugerð, þannig að um helmingur fjárins hefur átt að renna til byggingar stúdentaheimilisins. Hin nýja tillaga um skiptingu innritunargjalda er sett fram með það í huga að félagsstofnun verði framvegis sjálfráð um ráðstöfun þeirra tekna sem hún hefur af innritunargjöldum. Er það stefnumörkun sem háskólaráð verður að taka afstöðu til sérstaklega.

    4. Í tillögunni er gert ráð fyrir að þau 40% innritunargjalda, sem eftir verða, skiptist jafnt milli þriggja aðila, prófgjaldasjóðs, stúdentaskiptasjóðs og stúdentaráðs. Miðað við núgildandi skiptingu innritunargjalda er þarna verið að taka frá prófgjaldasjóði og skipta nokkurn veginn að jöfnu milli stúdentaskiptasjóðs og stúdentaráðs. Þessari skiptingu verða nú gerð nánari skil.

Prófgjaldasjóður.   Niðurskurður á hlut prófgjaldasjóðs virðist réttlætanlegur ef gengið er út frá því að félagsstofnunin taaki nú í reynd við því hlutverki sem prófgjaldasjóður hefur gegnt um styrkveitingar til félagsstarfssemi stúdenta. Slíkt fyrirkomulag átti reyndar að koma til framkvæmda strax á árinu 1970 þegar félagsstofnun fékk til ráðstöfunar þann hluta endurinnritunargjalda sem áður rann í prófgjaldasjóð. Þegar þessari byrði hefur verið létt af prófgjaldasjóði virðist óhætt að skera af tekjum hans, a.m.k. meðan hann hefur ekki fengið ný og fjárfrek verkefni.

Stúdentaskiptasjóður.  Tillagan felur í sér verulega hækkun til stúdentaskiptasjóðs, þannig að hlutur hans af innritunargjöldum verður svipaður og í tillögu rektors. Ríkisframlag til sjóðsins er nú 300 þús. kr. Félagsstofnun hefur sótt um hækkun í 600 þúsund kr. Jafnvel þótt sú hækkun fengist til viðbótar hækkuninni frá innritunargjöldum, myndu tekjur sjóðsins varla nema helmingi þess fjár sem sótt var um síðast (2,8 millj.). Stúdentaráð ráðstafar fé sjóðsins þótt hann sé í vörslu félagsstofnunar.

Stúdentaráð. Í tillögunni er gert ráð fyrir talsverðri hækkun á því fé sem rennur til stúdentaráðs. Hlutur stúdentaráðs af innritunargjöldum hefur ekki verið tilgreindur í reglugerð fram til þessa, heldur hefur orðið samkomulag um að stúdemtaráð fengi ákveðinn hluta af því fé sem félagsstofnun er ætlað í reglugerð. Eðlilegt virðist að hlutur stúdentaráðs verði tilgreindur í reglugerð úr því að föst venja hefur skapast í framkvæmd.

Varatillaga. Önnur leið, sem fastlega kemur til greina, er að aðskilja gjald til stúdentaráðs frá innritunargjaldi. Þessi leið hefði þann kost í för með sér fyrir stúdentaráð, að það gæti hagað upphæð gjaldsins eftir eigin reglum, og breytingar þyrftu ekki að koma fyrir háskólaráð. Skrifstofa háskólans gæti veitt gjöldunum móttöku um leið og innritunargjöldum, og væri sennilega auðveldast að prenta tvær upphæðir á hverja kvittun, þannig að fljótlegt væri að merkja við, hvort greitt hefði verið innritunargjaldið eitt eða hvort tveggja, innritunargjald og gjald til stúdentaráðs. Greiðsla til stúdentaráðs mætti þá jafnframt vera skilyrði þess að stúdent fengi afhent ársskírteini sem veitir rétt til sérstakra viðskiptakjara, því að slík hlunnindi munu hafa fengist fyrir atbeina stúdentaráðs.
    Ef þessi leið yrði valin, að aðskilja gjald til stúdentaráðs frá innritunargjaldi, ætti innritunargjaldið að lækka í 1900 kr. samkvæmt áðurnefndri tillögu, en skipting þess að vera óbreytt að öðru leyti. Sjálfsagt er að sýna skiptingu innritunargjalds á kvittunareyðublaði til upplýsingar fyrir stúdenta.
 


Fylgiblað: Samanburður á tillögum um breytt innritunargjöld.

Áætlaður fjöldi skrásetninga (fruminnritana): 950
Áætlaður fjöldi skráninga (endurinnritana):  1250
 
Núgildandi skipting: kr. kr. Hluti Hækkun
Prófgjaldasjóður 667×950 = 634 þús. 19%  
Stúdentaskiptasjóður 333×950 = 316 þús. 10%  
Félagsstofnun 500×950 + 1200×1250 = 1975 þús. 60%  
Stúdentaráð 300×1250 = 375 þús. 11%  
Samtals 1500×950 + 1500×1250 = 3300 þús. 100%  
         
Tillaga rektors:        
Prófgjaldasjóður 1000×950 + 600×1250 = 1700 þús. 31% 168%
Stúdentaskiptasjóður 500×950 + 300×1250 = 850 þús. 15% 168%
Félagsstofnun 1000×950 + 1000×1250 = 2200 þús. 40% 11%
Stúdentaráð 600×1250 = 750 þús. 14% 100%
Samtals 2500×950 + 2500×1250 = 5500 þús. 100% 67%
         
1. tillaga stúdentaráðs Aukið ríkisframlag til Stúdsksj.      
Prófgjaldasjóður 667×950 = 634 þús. 13% 0%
Stúdentaskiptasjóður 433×950 + 100×1250 = 536 þús. 11% 70%
Félagsstofnun 500×950 + 1200×1250 = 1975 þús. 41% 0%
Stúdentaráð 600×950 + 900×1250 = 1695 þús. 35% 352%
Samtals 2200×950 + 2200×1250 = 4840 þús. 100% 47%
         
2. tillaga stúdentaráðs Engin aukning á ríkisframlagi      
Prófgjaldasjóður 667×950 = 634 þús. 13% 0%
Stúdentaskiptasjóður 333×950 = 316 þús. 7% 0%
Félagsstofnun 550×950 + 1250×1250 = 2085 þús. 43% 6%
Stúdentaráð 650×950 + 950×1250 = 1805 þús. 37% 381%
Samtals 2200×950 + 2200×1250 = 4840 þús. 100%

47%

         
Ný tillaga        
Prófgjaldasjóður 300×2200 = 660 þús. 14% 4%
Stúdentaskiptasjóður 300×2200 = 660 þús. 14% 109%
Félagsstofnun 1300×2200 = 2860 þús. 59% 45%
Stúdentaráð 300×2200 = 660 þús. 14% 76%
Samtals 2200×2200 = 4840 þús. 100% 47%

Í síðustu tillögunni er gert ráð fyrir að sama regla verði látin gilda um skiptingu allra innritunargjalda (ekki gerður greinarmunur á fruminnritun og endurinnritun). Heildarfjöldi innritana er áætlaður 2200.