Fullveldisöldin

   Hinn 7. október 2018 sýndi Ríkissjónvarpið þátt úr þáttaröð með þessu nafni. Áberandi vinstri slagsíða var á þættinum eins og oft vill verða hjá RÚV. Rifjað var upp og undirstrikað, að með sambandslögunum frá 1918 hefði verið lýst yfir ævarandi hlutleysi Íslands. Birt var mynd af forsíðu Morgunblaðsins þegar Ísland var hernumið af Bretum árið 1940. Þar stóð stórum stöfum að Bretar hefðu lýst því yfir að her yrði ekki á landinu stundinni lengur en stríðsnauðsyn krefði. Eftir á að hyggja virðist áherslan á þetta hvort tveggja, ævarandi hlutleysi og loforð um brottför hersins átt að réttlæta óeirðirnar við Alþingishúsið síðar. Þegar sagt var frá lokum heimstyrjaldarinnar var birt mynd af forsíðu Þjóðviljans þar sem stóð með stóru letri að fasistaríkin hefðu verið sigruð. Hins var ekki getið hverju Þjóðviljinn hefði slegið upp meðan vináttusamningur Stalíns og Hitlers var í gildi, þegar Bretar sáu ástæðu til að handtaka ritstjórann, Einar Olgeirsson, og færa í fangelsi í Bretlandi.

Sýnt var frá óeirðunum á Austurvelli 1949, þegar innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið var til umræðu á Alþingi, og látið að því liggja að þátttakendur hefðu verið að undirstrika kröfuna um hlutleysi Íslands og sjálfstæði. Mjög fáir hefðu verið stuðningsmenn Sovétríkjanna (!!). Flutt var brot úr ræðu Bjarna Benediktssonar við inngöngu Íslands í
bandalagið, með áherslu á ummæli hans um "afvegaleiddan mannfjöldann" á Austurvelli. Í þessu samhengi hljómuðu orðin eins og Bjarni hefði verið að svívirða sanna ættjarðarvini. Síðan var sýnt rækilega frá Keflavíkurgöngum og birt gamalt viðtal við Gunnar M. Magnúss rithöfund sem talaði hróðugur um stofnun Samtaka herstöðvaandstæðinga (upphaflega nafnið var Samtök hernámsandstæðinga, en Gunnar hefur kosið að gleyma því). Engin umfjöllun var um þann atburð þegar vinstri stjórnin ætlaði að segja upp varnarsamningnum árið 1974. Ekki stakt orð um undirskriftasöfnun Varins lands það ár, sem staðfesti raunverulegan hug almennings til veru bandaríska varnarliðsins.

Öll var þessi frásögn í takt við fyrri umfjöllun RÚV um varnarliðið (sjá http://halo.internet.is/varnar.html).

Hvað Þjóðviljann varðar, gekk lengi sá orðrómur, að útgáfa hans væri studd fjárhagslega af kommúnistaflokki Sovétríkjanna. Eftir 56 ára útgáfusögu lagði blaðið upp laupana árið 1992. Það var árið eftir að Sovétríkin hrundu.
 

Þ.S. 9.10.2018 

Forsíða