Sjónvarpsþættir um Varnarliðið

   Í janúar 2018 sýndi Ríkissjónvarpið heimildarþætti um sögu Varnarliðsins á Íslandi. Þetta voru fjórir þættir, einn á hverjum sunnudegi mánaðarins. Sagt var að þættirnir væru byggðir á rannsóknum Friðþórs Eydal, en auk þess komu tveir menn aðrir að samningu handrits. Því skal ekki neitað, að ýmislegt fróðlegt kom fram í þessum þáttum. En því miður rýrði það gildi þeirra að frásögnin var lituð af pólitískri skoðun. Glöggt mátti skynja það álit höfunda, að Rússar hefðu verið að bregðast við ásækni Bandaríkjamanna en ekki öfugt. Tvívegis var lögð áhersla á það að rússneskar flugvélar hefðu ekki farið að sjást í grennd við Ísland fyrr en eftir að Bandaríkjamenn hófu eftirlitsflug frá Keflavík. Einnig var tekið fram að herliðið væri hér til að verja hagsmuni Bandaríkjanna, eins og einhver hefði haldið öðru fram, eða þeirra hagsmunir gætu ekki farið saman við hagsmuni Íslendinga. Sýnd voru viðtöl við þekkta herstöðvaandstæðinga, eins og þeir kölluðu sig á þessum tíma og Keflavíkurgöngum voru gerð mjög góð skil. Aðeins var minnst á undirskriftasöfnun Varins lands í 20 sekúndur, og látið að því liggja að hún hefði verið tilraun til að koma ríkisstjórninni frá! Ekkert var sagt frá þeim gríðarlegu undirtektum sem undirskriftasöfnunin fékk og sýndi glögglega að meirihluti landsmanna var fylgjandi veru Varnarliðsins. Ekki var rætt við neinn af forgöngumönnum Varins lands eða nokkurn sem talist gat túlka þeirra sjónarmið.

   Ríkisútvarpið hefur áður sent út þátt um sama efni. Það var árið 1994. Í þeim þætti var alls ekki minnst á Varið land, svo að þættirnir nú eru framför, þótt ekki sé hún mikil. Þættirnir eru augljós tilraun til að endurskrifa söguna, líkt og George Orwell lýsti í bók sinni 1984. Ekki hefði verið úr vegi að rifja upp sífelldar breytingar á nafni þess hóps sem hæst mótmælti veru Varnarliðsins. Fyrst hét þessi hópur Samtök hernámsandstæðinga. Það var meðan þátttakendur héldu því fram að Ísland væri hernumið. Þegar dagljóst varð, að svo var ekki, var nafninu breytt í Samtök herstöðvaandstæðinga. Hópurinn var áfram fullviss um að herinn ætlaði að vera hér til frambúðar, og sumir héldu því fram að til stæði að gera Ísland að fylki í Bandaríkjunum. Þegar herinn var svo kallaður burt, öllum að óvörum, varð að breyta nafninu á nýjan leik. Heitir hópurinn nú Samtök hernaðarandstæðinga. Það sem ekki hefur breyst við nafnbreytingarnar er óvild í garð Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra, andstaða við Atlantshafsbandalagið en hlýhugur í garð stórveldis í austri.

Þ.S. 16.3.2018 

Forsíða