Á Alþjóða-jarðeðlisfræðiárinu 1957-58 hófust
vísindamenn handa við að koma upp sérhæfðum myndavélum til að fylgjast með
norðurljósum. Fyrstu myndavélinni af þeim toga var komið fyrir á Rjúpnahæð árið
1957 fyrir tilstuðlan Veðurstofu Íslands. Árið 1965 var önnur myndavél sett upp
á Evindará við Egilsstaði á vegum Eðlisfræðistofnunar Háskóla Íslands. Frá þessu
er greint á öðrum stað (sjá
http://halo.internet.is/nordurlj.html). En sjónathuganir, þ.e. athuganir án
myndavéla, þar sem menn skráðu og tímasettu einkenni norðurljósa, voru hafnar
hérlendis fyrir þennan tíma og stóðu í mörg ár. Þessar athuganir voru gerðar í
samvinnu við norðurljósadeild Breska stjörnufræðifélagsins sem hafði miðstöð við
háskólann í Edinborg. Sú miðstöð fékk síðar heitið Balfour Stewart Auroral
Observatory. Forstöðumaður hennar var veðurfræðingurinn James Paton. Til að lýsa
norðurljósunum var upphaflega fylgt kerfi sem Alþjóðasamband landmælinga og
jarðeðilsfræði (IUGG) hafði lagt línur að í aðdraganda Alþjóða-heimskautaársins
1932-33. Þessu kerfi var lýst á myndrænan hátt í bókinni "Photographic Atlas of
Auroral Forms" sem út kom árið 1930 og aftur árið 1951. Það lýsingakerfi var
síðan endurbætt árið 1963 með útgáfu bókarinnar "International Auroral Atlas" á
vegum IUGG.
Sá sem þetta ritar hóf að skrá lýsingar á norðurljósum og senda til
Edinborgar í ágúst 1952. Hélt ég því áfram þar til í september 1954, að ég fór
til náms erlendis. Meðan á námstímanum stóð fékk ég Pétur Holm, sem búsettur var
í Hrísey, til að halda þessum athugunum áfram, en
hann var þá þegar byrjaður að fylgjast með norðurljósum að minni beiðni. Eftir
heimkomuna 1963 hófst ég fljótlega handa við að skipuleggja athuganir víðar á
landinu. Í þeim tilgangi samdi ég leiðarvísi, "Handbók um norðurljósaathuganir"
sem út kom árið 1964. Einnig lét ég prenta ýmiss konar eyðublöð til skýrslugerðar
(sjá dæmi). Margir ágætir menn tóku þátt í þessum athugunum, sem stóðu í
mörg ár. Mér þykir við hæfi að nöfn þessara manna séu skrásett, því að margir
þeirra lögðu á sig umtalsverða vinnu og dýrmætan tíma án nokkurs endurgjalds.
Ekki er víst að skráin sé tæmandi, en hún er gerð eftir útfylltum eyðublöðum sem
varðveitt hafa verið á Raunvísindastofnun Háskólans. Athuganir úr flugvélum voru
gerðar af flugmönnum.
Aðalsteinn Halldórsson, Egilsstöðum (1965,1966, 1967)
Flosi Hrafn Sigurðsson, veðurathugunarstöð á Hveravöllum (1968)
Garðar Olgeirsson, Hellisholtum (1964, 1965, 1966,1967,1968, 1969)
Garðar Stefánsson, Egilsstöðum (1964)
Guðmundur Jónsson, Kópsvatni (1964, 1965, 1966)
Halla Guðmundsdóttir, Hveravöllum (1973)
Haukur Ágústsson og Hilda Torfadóttir, Hveravöllum (1971, 1972)
Helgi Hallgrímsson, Víkurbakka, Eyjafirði (1971)
Hjörleifur Kristinsson, Gilsbakka (1965)
Jón Þórðarson, Pólgötu 5, Ísafirði (1965)
Kjartan Ólafsson, Hlaðhamri (1965)
Kristján K. Guðjónsson, í flugvél, 1965
Kristján Hjálmarsson og Hulda M. Hermóðsdóttir, Hveravöllum (1966,1967,
1968, 1970)
Magnús Ágústsson, í flugvél (1965)
Ólafur Einarsson, Hveravöllum (1967)
Ólafur Einarsson og Þ.K., Hveravöllum (1968)
Ómar Tómasson, í flugvél (1965)
Pétur Holm, Hrísey (1952-1962)
Pétur Jónsson, Reynihlíð (1964, 1965, 1966)
Ragnar Kvaran, í flugvél (1965)
Stefán Sæmundsson (1965)
Þorgerður Sigurgeirsdóttir, Kópavogi (1964, 1965, 1966)
Þ.S. 17.5. 2018. |