Faðir minn Inngangur Fyrir nokkrum árum tók ég mér fyrir hendur að rita minningar um föður minn. Ekki var ætlun mín að birta þær minningar, en hugsanlega sýna þær nánustu ættingjum. Þetta var áður en ég var beðinn um að halda erindi það um móður mína sem ég síðan birti á þessum vef. Í rauninni hefði ég fyrst átt að minnast hennar því að hún var mér alla tíð nátengdari. Svo mun um flesta, enda segir forn málsháttur: "Fár sem faðir, enginn sem móðir." Minningar af þessum toga snúast óhjákvæmlega líka um þann sem þær ritar, en við því er lítið að gera. Við myndaval hef ég kosið að halda mig að mestu við svarthvítar myndir þótt nóg sé af litmyndum frá síðari árum. Efninu er ekki skipulega raðað. Þegar ég byrjaði að skrifa þessar línur varð mér ljóst hve skammarlega lítið ég vissi um ævi pabba áður en ég fæddist. Það skýrði jafnframt fyrir mér hvers vegna hálfsystkin mín hafa ekki haft mikinn áhuga á að heyra um æviferil hans áður en þau komu til sögunnar. Öll höfum við fyrst og fremst áhuga á því sem að okkur sjálfum snýr. Það er ósköp eðlilegt. En með aldrinum breytist viðhorfið og maður fer að velta fyrir sér spurningum sem þá er kannski orðið of seint að leita svara við.
Pabbi ritaði endurminningar í bókaflokknum "Aldnir hafa orðið". Þær
birtust árið 1984. Fyrir mín orð tók hann saman æviatriði fyrir "Æviskrár
samtíðarmanna" sama ár. Auk þess á ég minningar sem hann ritaði árið
1993 eða þar um bil. Sá texti fylgir hér allra aftast. Sigríður
Thorlacius, systir
pabba, ritaði um Stefán föður þeirra í bókinni "Faðir minn
presturinn" sem út kom 1977. Einnig skráði hún lýsingu á Solveigu móður þeirra (hefti prentað sem handrit,
1985). Við
samantekt þá um afa og ömmu, sem hér fer á eftir, hef ég leitað
víðar fanga, svo sem í minningargreinar og uppflettirit.
Þegar ég fæddist, árið 1935, bjuggu foreldrar mínir að Sóleyjargötu 19 á
efri hæð. Þar byrjuðu þau sinn búskap. Húseigendur voru þau Pálmi
Loftsson og Thyra tannlæknir (kölluð Thyra tönn) sem alræmd var
fyrir hörku. Næsta ár fluttu pabbi og mamma í Þingholtsstræti 33,
þar sem Guðrún amma bjó, en síðar sama ár að Freyjugötu 38.
Engar minningar á ég frá Sóleyjargötunni, enda varla von. Pabbi
sagði sér minnisstætt óveður mikið á þessum tíma, þegar eldingu sló niður í
Loftskeytastöðina á Melunum. Hafi þau mamma þá haft nóg að gera að
róa mig. Sigga frænka sagði mér að
hún hefði leigt hjá foreldrum mínum ásamt Guðfinnu Þorvaldsdóttur
frá Hrísey (þremenning pabba, f. 1912) eitt herbergi, næst dyrum til
hægri þegar inn var komið, en annað herbergi hafi þeir leigt
bræðurnir Benedikt og Snorri Jónssynir frá Húsavík. Benedikt leigði
síðar hjá okkur á Freyjugötu 35. Snorra hitti ég seinna fyrir
norðan. Hann rak verslun á Húsavík. Snorri var krypplingur, en
síkátur. Elín Halldórsdóttir frá Brekku í Svarfaðardal var í vist hjá foreldrum mínum 1935-37
og aftur 1939-40 og gætti mín á þeim tíma. Ella dó í janúar 2008, þá
89 ára. Við héldum góðu sambandi við hana alla tíð. Hún bjó á Akureyri.
Æskuminningar mínar um pabba Ég veit ekki hverju ég man fyrst eftir í sambandi við pabba. Líklega er það leikfang sem hann kom með frá útlöndum þegar við vorum á Freyjugötu 38. Þetta var lítið skip úr járni og hét Queen Mary. Pabbi fór utan með Karlakór Reykjavíkur 1937, og sé þetta rétt munað, hef ég aðeins verið tveggja ára. Pabba minnti reyndar að þetta hefði verið 1938 og segir það bæði í "Aldnir hafa orðið" og í "Æviskrár samtíðarmanna", en gömul bréf frá honum til mömmu sýna annað, og sömuleiðis upplýsingar í Almanaki Þjóðvinafélagsins og í Öldinni okkar. Ferð kórsins var til Kaupmannahafnar, Berlínar, Leipzig, Prag og Vínar. Í "Aldnir hafa orðið" segir pabbi að hann hafi farið með kórnum aðra ferð, tveimur árum fyrr, og þá til Norðurlanda. Það kemur heim við frásögn í Almanaki Þjóðvinafélagsins. Í seinna skiptið var pabbi hættur í kórnum, en söngstjórinn bað hann að koma með. Í báðum ferðunum var Stefán Guðmundsson (Stefán Íslandi) einsöngvari.
Ég á minningar frá þeim tíma þegar við vorum á
Freyjugötu 38, en þaðan fluttum við að Freyjugötu 35 þegar ég var
fjögurra ára.
Þar man ég að pabbi
sat í stól með mig í setustofunni og hjálpaði mér að lesa. Mamma
sagði mér að ég hefði verið orðinn al-læs fimm ára, um það leyti
sem ég byrjaði að ganga í skóla í Grænuborg, en ég get ekki
fullyrt að hve miklu leyti það var pabba að þakka. Pabbi var
óþolinmóður að eðlisfari, og ég á svolítið erfitt með að trúa
því að hann hafi enst til að kenna mér. En þó var
það hann fremur en mamma sem gerði það. Mamma var í
fullri vinnu á skrifstofu Alþingis á þessum árum.
Pabbi fór snemma á fætur, um sjöleytið, og snemma að hátta,
upp úr klukkan tíu. Þegar pabbi fór á fætur, byrjaði hann á að raka
sig. Hann notaði lengst af rakvél með blaði, fékk sér ekki
rafmagnsrakvél fyrr en árið 1955 eða þar um bil þegar ég keypti
handa honum Remington vél. Hann bar alltaf
spíritus (spritt) í hárið áður en hann greiddi sér. Ekki man ég
hvaða ástæðu hann gaf fyrir því; held að það hafi verið til að
losna við flösu.
Á jóladag fórum við pabbi með jólagjafir út um allan bæ. Það voru
bæði pakkar frá okkur og ekki færri pakkar frá Guðrúnu ömmu (Guðrúnu
J.
Erlings) í
Þingholtsstræti. Bíllinn var fullur af pökkum, fannst mér. Við
lögðum af stað eftir hádegið og vorum í útkeyrslu fram í myrkur. Af
einhverri ástæðu man ég sérstaklega eftir ferðum til Friðriks
Magnússonar verslunarmanns á Vesturgötu og viðkomu hjá Hólmfríði saumakonu, vinkonu ömmu ("húlsaumur
og plissé" stóð utan á hurðinni hjá henni, en ég var engu nær!). Þá fórum við
á Ægissíðu til einhvers bankastjóra. Sá fékk
vindlakassa, og ég sá að þangað lá straumur bíla með aðrar gjafir.
Svo komum við auðvitað með gjafir til baka, þó ekki frá
bankastjóranum. Útlit
Pabbi þótti afar myndarlegur maður. Hann var dökkur yfirlitum og varð mjög brúnn í sól. Hárið var mikið og svart. Útlitið minnti á kvikmyndaleikara af rómönskum ættum. Ég er næsta viss um að einhver suðrænn náungi leynist meðal forfeðra okkar þótt enginn kannist við það. Ég bar þetta undir Siggu frænku og hún samsinnti mér, en átti enga skýringu. Í uppkasti að bréfi sem mamma skrifar fyrrum kennara sínum í París, frú Vicat, hinn 3. janúar 1932, segist hún ætla að gifta sig eftir 2-3 mánuði, ungum manni, 26 ára, sem sé góður, fallegur og greindur. Hann sé brúnn eins og Spánverji. Ég man að pabbi sagði mér sögu af því þegar hann fór eitt sinn til Spánar í verslunarerindum, líklega á sjötta áratugnum. Þegar flugvélin lenti í Madrid átti einhver að taka á móti pabba. Pabbi beið meðan flugstöðin tæmdist. Loks var aðeins einn maður eftir auk hans. Sá gekk til pabba hikandi, og kom þá í ljós að þetta var maðurinn sem átti að taka á móti pabba. Hann sagðist hafa haldið að pabbi væri Spánverji eftir útlitinu að dæma. Systkin pabba voru líka fremur dökk á hörund þegar að var gáð, þótt ekki væri það áberandi. ![]()
Framan af ævi voru þeir pabbi og Kristinn bróðir hans
nauðalíkir, en síðar var það Pétur bróðir þeirra sem líktist pabba mest. Mamma
sagði mér, að þegar hún kynntist pabba fyrst og þau gengu um
götur í Reykjavík, tók hún eftir því að ungir menn voru sífellt að
heilsa pabba, sem heilsaði þá á móti með því að lyfta hattinum eins
og þá var siður. Loks gat mamma ekki orða bundist og sagði það vera
með ólíkindum að pabbi, sem ekki var Reykvíkingur, skyldi þekkja
svona marga. "Uss, ég þekki ekkert af þessu fólki", sagði pabbi.
"Þetta eru nemendur hans Kristins bróður". Nú varð Kristinn ekki
kennari við Háskólann fyrr en 1937 samkvæmt mínum heimildum svo að
hann hefur þá kennt annars staðar á þessum árum, þegar hann var
kandidat. Mér fannst pabbi alltaf bera af öðrum mönnum þegar fleiri komu saman. Hann var ekki aðeins myndarlegur heldur hafði maður á tilfinningunni að hann væri yfirleitt fremstur í flokki, fremstur meðal jafningja eins og sagt er. Kjarkmaður var hann. Ég gleymi því ekki þegar hann bar mig á bakinu yfir djúpan streng í Norðurá, rétt ofan við fossinn, til að komast út í klett á fossbrúninni. Það mun hafa verið 1947 þegar ég var tólf ára. Þurfti mikla áræðni til. Öðru sinni vorum við á leið yfir Kaldadal. Þetta var haustið 1958. Ég ók á nýjum bíl sem ég átti, Ford Zodiac. Komið var kvöld og orðið dimmt þegar við komum að óbrúaðri á. Hún var vatnsmikil og ég var hikandi við að leggja í hana. Pabbi settist undir stýri og ók óhikað út í vatnsflauminn. Þetta hafðist, þótt ekki liti það vel út. En þetta var dæmigert fyrir pabba. Hann var líka harður af sér. Þegar ég var tíu ára slasaðist hann á fæti við það að þungur kassi féll á hann. Hann lét það ekki aftra sér frá vinnu, og þótti Guðrúnu ömmu minni það mikil karlmennska, að því er hún segir í bréfi til mömmu. Kristinn bróðir pabba, sem var læknir, bjó um fótinn.
Pabbi var alla tíð duglegur og framkvæmdasamur, en líka einkar laginn við
að fá menn til að framkvæma verk sem hann gat ekki séð um sjálfur.
Ekki var hann tæknilega sinnaður og hef ég stundum velt því fyrir
mér hvernig hann hafi bjargað sér á langferðum á þeim tíma þegar
bílar voru sífellt að bila. Skapgerð Sigga föðursystir mín sagði mér að pabbi og Bolla systir hans hafi verið glaðværustu krakkar sem hún hafi þekkt, og ég hygg að þau skapgerðareinkenni hafi fylgt báðum fram eftir aldri. Pabbi var afar stoltur og móðgaðist auðveldlega við menn. Ég skynjaði það aldrei svo, að hann liti stórt á sig, en ég vil þó ekki útiloka það. Hulda, fyrri eiginkona Erlings Þorsteinssonar móðurbróður míns, sagði mér einu sinni sögu sem gæti stutt þá skoðun. Sagan gerðist á þeim tíma þegar mamma og pabbi voru trúlofuð. Hulda var í bíl ásamt pabba og Guðrúnu ömmu minni. Þá á amma að hafa sagt eitthvað á þá leið að pabbi skyldi gera sér grein fyrir því að hann væri að kvænast stúlku af góðum ættum! Þá gat pabbi ekki orða bundist og sagðist halda að sínar ættir stæðu ekki skör lægra en ættir Svanhildar.Þótt pabbi væri hið mesta karlmenni var hann í eðli sínu afar viðkvæmur. Ég hygg að það hafi verið ástæða þess að hann fór aldrei í heimsóknir á spítala til vina sinna sem veiktust, og sjaldan í jarðarfarir. Hann fór ekki í jarðarför Guðrúnar ömmu þegar hún dó í maí 1960 og hafði þó samband þeirra verið með ágætum. Pabbi hafði þá ráðgert ferð til Hríseyjar og hélt sínu striki, þótt það þýddi að mest allt umstangið við jarðarförina lenti á mömmu. Daginn sem mamma dó, í desember 1966, kom pabbi heim í Bólstaðarhlíð þar sem við Stefán vorum staddir. Ég man að við stóðum saman í stofunni og pabbi viknaði. Var það í eina skiptið sem ég sá hann tárast. En hann var ekki við útför mömmu og heimsótti hana aldrei á spítalann þegar hún lá banaleguna. Hann sagði einhverju sinni við mig að ég væri kaldlyndari en hann sjálfur. Mér fannst þetta ósanngjarnt þá, en eftir að hafa lesið þau innilegu bréf sem pabbi skrifaði mömmu fyrstu árin sem þau voru saman verð ég að viðurkenna að eitthvað kunni að vera til í þessu. Þannig bréf gæti ég aldrei skrifað. Ég minnist þess ekki heldur að hafa viknað við fráfall nokkurs ættingja nema Guðrúnar ömmu, en lát hennar frétti ég með símskeyti þegar ég var við nám í London. En hvort maður tárast eða ekki segir reyndar lítið um það hvernig manni er innanbrjósts. Pabbi var afar sannsögull og ég man varla til þess að hann brygði fyrir sig skreytni. Ég tel sannsögli meðal helstu mannkosta. Þess vegna þótti mér einkar sárt þegar leiðindamál kom upp í fjölskyldunni árið 1987, að pabbi skyldi trúa öðrum betur en mér. Þessi ágreiningur okkar pabba leiddi til þess að mjög dró úr samskiptum okkar næstu ár á eftir.Pabbi var aldrei orðljótur; formælingar heyrðust ekki á okkar heimili og klámyrði aldrei. Matarsmekkur Ég minnist þess ekki að pabbi hafi verið matvandur, en að líkindum hefur mamma séð til þess að matarval væri honum að skapi. Hann var lítið fyrir grænmeti. Ég man að hann sagði einhverju sinni um tómata að þeir brögðuðust eins og gras. Ég held þó að þetta hafi breyst á efri árum hans. Hann borðaði súran hval af bestu lyst, var hrifinn af skötu, vildi gjarna fá kinnar og var yfirleitt mikið fyrir fisk. Hann fór oft í fiskbúð Hafliða við Hlemmtorg á morgnana þegar hann kom úr sundi og keypti fisk í matinn. Einu sinni fengum við að gjöf súrsuð svið, heilan kút. Hann var hafður í geymslunni í kjallaranum að Freyjugötu 35, og við pabbi fórum gjarna á kvöldin og fengum okkur bita saman. Þetta var hið mesta sælgæti.
Pabbi gaf lítið fyrir krækiber, en líkaði bláber betur. Hann
sagði alltaf að aðalbláber væru bestu berin. Þau þekkti ég ekki,
en hann hafði vanist þeim heima í Svarfaðardal. Eins og fyrr er sagt var pabbi heilsulítill sem ungur maður og gat ekki stundað nám í skóla heldur lærði heima. Síðar á ævinni kenndi hann stundum eftirstöðva fyrir brjósti og kallaði það "samgróninga". Annars var hann heilsuhraustur þar til á efri árum að hann fékk astma sem háði honum mjög. Mamma sagði mér að hann hefði einu sinni orðið alvarlega veikur eftir að þau gengu í hjónaband. Það var skarlatsótt, og pabbi fékk svo háan hita að hann var með óráði. En sem betur fer hafði hann ekki verra af.
Pabbi hafði það fyrir sið að leggja sig eftir hádegið í tuttugu
mínútur eða svo. Eftir að við fluttum í Bólstaðarhlíð lagði hann
sig í skrifstofu sem hann hafðí í kjallaranum. Hann stundaði
gönguferðir flesta daga, gekk mikið í Heiðmörk og úti á
Álftanesi. Stundum fór ég með honum og seinna Stefán og stöku
sinnum mamma. Ég man sérstaklega eftir ferðum í hraunið á
Álftanesi og að hraunskúta í Heiðmörk. Pabbi var alla ævi
duglegur við að ganga. Ég man eftir gönguferð með honum og Mána
syni mínum í Hrísey, árið 1990 að ég held. Þá hefur pabbi verið 85 ára, en
við Máni höfðum varla við honum á göngunni. Hins vegar var pabbi
lítið fyrir fjallgöngur, og þótt undarlegt megi virðast var hann
eilítið lofthræddur. Ég kalla það undarlegt, því að hann var
kjarkmaður eins og fyrr segir og lét fátt stöðva sig. Eitt sinn þegar ég var við nám í London kom pabbi þangað í viðskiptaerindum. Hann bjó þá á Hótel Normandí minnir mig, en annars bjó hann oftast á Hótel Strand. Kvöld eitt hringdi pabbi í mig og var þá veikur, illa kvalinn. Ég fór strax á hótelið og sá að þetta myndi vera eitthvað alvarlegt, því að pabbi kveinkaði sér ekki við smámuni. Ég fór því á stúfana til að útvega lækni og fékk loks lækni úr Harley Street til að koma og líta á hann. Læknirinn var fljótur að greina þetta sem nýrnasteinakast. Sagði að best væri að bíða og sjá hvort steinarnir skiluðu sér ekki niður. Þetta voru erfiðir klukkutímar hjá pabba, en svo leystist málið af sjálfu sér. Reikningurinn var afar hár eins og við var að búast frá lækni úr þessari götu. Ég man ekki upphæðina lengur, en hún var í gíneum eins og tíðkaðist hjá fína fólkinu í Bretlandi, en ekki sterlingspundum. Það sem mest háði pabba á efri árum var astminn. Það var eftir að hann skildi við mömmu og flutti í Kópavoginn, svo að ég varð ekki náið vitni að þeirri sorglegu breytingu. Stefán bróðir hafði það eftir pabba að ekkert hefði breytt lífi hans eins mikið og astminn. Stækkandi blöðruhálskirtill hafði áður valdið honum erfiðleikum, en hann fékk bót á því með aðgerð á sjúkrahúsi í Englandi árið 1970. Það var svo meinsemd í blöðruhálskirtlinum sem að lokum varð honum að aldurtila. Störf pabba á æskuárum mínum Eins og fyrr segir rak pabbi um skeið nýlenduvöruverslun sem hann gaf nafnið Glasgow á suðvesturhorni Freyjugötu og Njarðargötu. Ég var svo ungur á þeim tíma að minning mín um þetta er mjög óljós; ég man að vísu eftir búðinni, en það hefur líklega verið eftir að pabbi seldi hana. Pabbi sagði mér að hann hefði rekið þessa verslun frá 1935 til 1937. Birgir Thorlacius, eiginmaður Siggu föðursystur minnar, segir í endurminningum sínum að hún hafi unnið hjá pabba frá því í nóvember 1934 fram í febrúar 1935. Á öðrum stað segir Birgir að Sigga hafi unnið hjá pabba árið 1936 og verið verslunarstjóri, en það þykir mér nokkuð upphafin nafngift. Sigga sagði mér sjálf að liðið hefði eitt og hálft ár frá því að hún kom til starfa í Glasgow þar til verslunin var lögð niður. Í vinnu hjá pabba við verslunina voru þeir Sveinn Björnsson og Gunnar Ásgeirsson sem síðar urðu þekktir stórkaupmenn. Gunnar var í búðinni á sama tíma og Sigga. Ég hitti Gunnar einhvern tíma á áttunda áratugnum. Þá átti ég Renault bifreiðina R-12267. Gunnar sá bílinn og sagði strax: Þú hefur þá fengið gamla símanúmerið! Hann mundi enn að símanúmer pabba í gamla daga var 2267. Pabbi sagði að Gunnar hefði verið heldur latur til starfa, en Sveinn verið röskari. Pabbi hefur líklega kosið að kalla verslunina Glasgow vegna þess að hann hafði starfað í þeirri borg á yngri árum. Þá voru fyrir í Reykjavík verslunin Edinborg í Hafnarstræti og Hamborg við Klapparstíg, að mig minnir. Að tilvísan pabba heimsótti ég David Black & Co, gamla vinnustað pabba í Glasgow, fyrsta árið sem ég var við nám í Skotlandi (1954) og hitti þar menn sem mundu eftir honum. Mamma sagði mér að pabbi hefði verið atvinnulaus árið sem hann fór utan með Karlakór Reykjavíkur, en hvort það hefur verið þegar hann fór fyrri ferðina (1935) eða þá seinni (1937) veit ég ekki. Mamma sagði að skattayfirvöld hefðu áætlað pabba tekjur þetta ár vegna þess að hann hefði farið í utanlandsferð, en það hefði verið fullkomið óréttlæti. Ekki veit ég hvernig þau mamma komust af meðan pabbi var atvinnulaus, en líklega hafa tekjur mömmu orðið að nægja. Í "Aldnir hafa orðið" segir pabbi frá bankaláni sem hann hafi fengið til að greiða skuldir sínar. Þótt ártalið sé ekki tilgreint er ýmislegt sem bendir til þess að það hafi verið árið 1937.
Í æviágripi sem ég fékk pabba til að taka saman fyrir Æviskrár
samtíðarmanna 1984 segir að hann hafi unnið hjá
málningarverksmiðjunni Litir og lökk frá 1937 til 1940. Ég man að
pabbi var með málningu þaðan þegar hann málaði í sumarbústaðnum,
en bústaðinn keypti hann 1941. Í málningarverksmiðjunni kynntist
pabbi miklum ágætismanni, Jóhanni Þorsteinssyni efnafræðingi, og
héldust þau kynni meðan báðir lifðu þótt ekki hittust þeir ýkja
oft. Það var helst við laxveiðar held ég. Ég man eftir ferð
austur í sumarbústað þar sem við vorum þrír, pabbi, Jóhann og
ég. Í þeirri ferð sáu pabbi og Jóhann kind sem sat föst í dýi
við Sandlæk og björguðu henni. Jóhann var þrekvaxinn og rammur að
afli. Ég held að pabbi hafi einhverju sinni fengið hann með sér
austur til að hjálpa við að mála bústaðinn, innan sem utan.
Oft var málað í nokkuð sterkum litum, svörtu og rauðu. Enn má
sjá merki í bústaðnum um þennan litasmekk pabba, sem ég kann vel
að meta þótt ekki geri allir það. Það mun hafa verið skömmu eftir hernámið árið 1940 að pabbi fór að flytja inn og selja vefnaðarvörur frá Bretlandi. Fékk hann til liðs við sig ungan mann frá Aðalvík, Gunnar Friðriksson, og sá Gunnar um sölumennskuna. Þeir stofnuðu svo fyrirtækið Vélasöluna hf. árið 1941 og hafði pabbi forgöngu um það (sjá hér). Með þeim í upphafi voru tveir menn aðrir, en þeir heltust fljótlega úr lestinni. Pabbi sá um allar bréfaskriftir og pantanir, svo og bókhaldið, en Gunnar var sölumaður. Fór vel á með þeim í mörg ár. Gunnar varð síðar forseti Slysavarnafélagsins.
Í ársbyrjun 1942 stofnaði pabbi svo annað innflutningsfyrirtæki
með Gunnari og fleirum. Það var S. Stefánsson & Co., og var mamma skráður
stofnandi með þeim. Áður hafði pabbi stundað viðskipti með Pétri
bróður sínum undir nafninu P. Eggerz-Stefánsson og hafði þá
fengið umboð fyrir ýmis fyrirtæki í Bretlandi. Fyrsta umboðið
sem pabbi fékk var fyrir Yardley snyrtivörur, árið 1929. Síðar
fékk hann umboð fyrir Milwards Fishing Tackle Limited í Redditch
og bast vináttuböndum við eiganda þess fyrirtækis, Col. Milward, sem kom
hingað til laxveiða í boði pabba, fyrst 1947 og aftur 1965. Í
síðara skiptið veiddu þeir í Laxá í Aðaldal og var Ásgeir
Ásgeirsson forseti með í för. Pabbi seldi talsvert af
veiðistöngum og tilheyrandi frá Milward. Sem stjórnarmaður í
Stangveiðifélagi Reykjavíkur sá hann um að selja veiðileyfi
og átti góðan aðgang að veiðimönnum. Meðal umboða sem pabbi náði
síðar var Glassexport í Tékkóslóvakíu. Þaðan flutti pabbi inn
allar mjólkurflöskur sem notaðar voru á landinu meðan mjólk var
seld á flöskum. Ég held að Stefánsson & Co. hafi líka haft umboð
fyrir framleiðendur véla í skip og báta s.s. Albin í
Kristinehamn í Svíþjóð og Ruston & Hornsby í Englandi, en umboðið fyrir
Listervélar mun hafa verið á nafni Vélasölunnar. Var það gert
vegna þess að bresku fyrirtækin tvö voru þá orðin keppinautar.
Listervélar voru í mjög mörgum skipum og bátum, en einnig flutti
Vélasalan inn rafstöðvar sem notaðar voru á mörgum bæjum áður en
rafmagn var lagt til þeirra. Þekkt varð auglýsing Vélasölunnar
"Lister til sjávar og sveita".
Gunnar var afskaplega viðkunnanlegur maður, hvers manns hugljúfi. Við fórum í tvö ferðalög með honum og Unni konu hans árið 1952, í Þórsmörk og Kerlingarfjöll, og þriðja ferðalagið 1954 í Landmannalaugar. Þá lék allt í lyndi. Það sem varð þeim pabba til vinslita, smátt og smátt, voru í fyrsta lagi húsnæðismálin sem ég ræddi í bréfinu til Gunnars. Þeir voru til húsa í Hafnarhúsinu á efstu hæð, í herbergjum sem Leikskólar Reykjavíkur fengu síðar til umráða. Pabba líkaði það ágætlega. En Gunnar fór út í það að kaupa stórt hús við Garðastræti, á horni Garðastrætis og Túngötu, og vildi flytja starfsemina þangað af fjárhagsástæðum. Það varð úr að lokum, en pabbi var aldrei sáttur við þá ráðstöfun. Í öðru lagi taldi pabbi að Gunnar hefði komið óheiðarlega fram við sig seinni árin og sagðist hafa staðið hann að ósannindum og svikum. Þá var Gunnar orðinn umsvifamikill í fyrirtækjum sem þeir pabbi höfðu stofnað með öðrum, m.a. Eggert Kristjánssyni lögfræðingi. Þetta voru fyrirtækin Vélar og skip hf., Vélar hf. og Desa sf. sem fluttu inn skip frá Austur-Þýskalandi. Annað ágreiningsmál var það að Gunnar réði son sinn, Friðrik, í vinnu, en það var óráð að pabba dómi.
Vinir og vinslit
Það var þáttur í fari pabba að hann átti það til að slíta vináttu við menn og afskrifa þá þótt þeir hefðu verið meðal hans nánustu vina um
árabil. Í þessu sambandi minnist ég sérstaklega þeirra
Jakobs V. Hafstein og Ingólfs Ásmundssonar, skrifstofustjóra
hjá Eimskip. Þeir Jakob höfðu verið mjög góðir vinir, voru
saman í Karlakór Reykjavíkur, í veiðiskap saman í Laxá í
Aðaldal og hittust oft þess utan. Ég man t.d. að við
heimsóttum Jakob á Smáragötu rétt eftir brúðkaup hans og
Birnu Kjartansdóttur í apríl 1944, en þá var ég níu ára.
Birna var einhver fallegasta kona sem ég hafði séð. Ég man
eftir ferð með þeim norður þar sem stansað var í Vaglaskógi.
Hvað olli vinslitum veit ég ekki. Jakob málaði myndir og gaf pabba málverk
af uppáhaldsveiðistað pabba í Laxá, Núpabreiðunni. Sú mynd
hangir uppi á vegg í sumarbústaðnum í Núpstúni. Jakob gaf
mér í jólagjöf áritaða bók sem ég á enn (Tarzan sterki), svo
að fjölskyldurnar hafa skipst á jólagjöfum. Rödd Jakobs
heyrist líka á einni af fyrstu upptökum pabba á
grammófónlötur, en pabbi keypti upptökutæki árið 1944. Þeir pabbi og Erlingur móðurbróðir minn áttu talsvert saman að sælda eftir að Erlingur kom heim frá Danmörku í stríðslok. Þeir fóru oft í veiðiferðir saman, og ég man að þá var gjarna glatt á hjalla. En báðir voru fylgnir sér, og ég held að þeir hafi ekki átt skap saman þótt allt væri slétt og fellt á yfirborðinu. Eftir að pabbi dó spurði ég Erling einu sinni hvort hann ætlaði ekki að skrifa minningargrein um pabba, því að hann skrifaði oft slíkar greinar um menn sem hann hafði þekkt. En Erlingur sagði það af og frá að hann færi að skrifa eftirmæli um Sæmund Stefánsson. Í fyrsta lagi gæti hann ekki fyrirgefið framkomu hans við systur sína, Svanhildi. Í öðru lagi hefði hann frétt, að eitt sinn þegar til stóð að velja menn í stjórn veiðifélags, hefði pabbi sagt að hann aftæki með öllu að vera í stjórninni ef Erlingur væri þar líka. Svo fór að Erlingi var ekki boðin stjórnarsetan. Ég veit að þetta var satt, því að pabbi hafði sagt mér það sjálfur. En þetta gat Erlingur ekki fyrirgefið, þótt áratugir væru liðnir. Að þessu leyti var hann býsna líkur pabba. Ein besta vinkona mömmu var Guðný Jóhannesdóttir, síðar eiginkona Gils Guðmundssonar alþingismanns. Eitt sinn var Guðný með pabba og mömmu í samkvæmi. Þá sagði Guðný eitthvað við pabba sem hann móðgaðist svo af, að hann bannaði mömmu að hafa nokkur samskipti við Guðnýju eftir það. Guðný hafði áður verið tíður gestur hjá okkur á Freyjugötu 38, en eftir þetta neyddist mamma til að slíta sambandi við hana og þótti mömmu það mjög leitt. Ég man ekki lengur hvaða ummæli það voru sem höfðu þessi áhrif á pabba, en hann var afar stoltur maður og þurfti ekki mikið til að móðga hann. Tilviljun réði því svo að þau Gils og Guðný fluttu síðar að Freyjugötu 38, í sömu íbúð og við höfðum búið í. Pabba var uppsigað við ýmsa sem hann hafði kynnst í laxveiðunum. Sérlega var honum í nöp við þá Guðmund frá Miðdal og Ósvald Knudsen. Um Guðmund sagði hann þá sögu að hann hefði verið mikill Þjóðverjavinur. Pabbi hafði keypt nokkrar skemmtilegar myndir í Bretlandi og hengt þær upp í veiðihúsinu á Laxamýri. Næst þegar pabbi kom í húsið voru myndirnar horfnar. Hann spurðist fyrir og var þá sagt að Guðmundur frá Miðdal hefði tekið myndirnar niður af því að þær væru enskar. Aðra sögu sagði pabbi af Guðmundi. Hann hefði ævinlega skráð í veiðibækur að laxar sem hann veiddi hefðu fengist á flugu, og það þótt engum hefði tekist að fá lax á annað en maðk á sama tíma. Svo rammt hefði kveðið að þessu, að einn kunningi pabba hefði sagt, þegar hann var spurður um það, á hvað síðasti laxinn hans hefði veiðst: "Ég fékk hann á Miðdalsfluguna". Hvað pabbi hafði á móti Ósvaldi Knudsen veit ég ekki. Pabbi var langrækinn. Sem dæmi get ég nefnt að ég minntist einhverju sinni á Árna Kristjánsson píanóleikara í samtali við pabba. Árni hafði verið kennari minn í mörg ár, en var löngu látinn þegar hér var komið sögu. Ég heyrði strax á pabba að honum var ekki hlýtt til Árna og spurði hann hvernig á því stæði. "Hann vildi ekki taka þig inn í Tónlistarskólann á sínum tíma" sagði pabbi. Þessu var ég sjálfur búinn að steingleyma, og jafnframt ástæðunni. En endir þess máls hafði orðið sá að ég var í einkatímum hjá Árna, fyrst í Þrúðvangi en síðar í Þjóðleikhúsinu, og fór vel á með okkur. Að vísu man ég að Árna þótti ég slá slöku við æfingarnar um tíma og hann kvartaði yfir því við pabba. En svo hafði hann samband við pabba síðar og baðst afsökunar. Hafði þá séð það í dagblöðum að ég hefði staðið mig vel á svonefndu Landsprófi. Sagðist Árni þá skilja að ég hefði látið skólabækurnar sitja í fyrirrúmi. Í þessu sambandi rifjast það upp að pabbi gerði lítið af því að hrósa mér fyrir frammistöðu í námi, gagnstætt mömmu sem alltaf var uppörvandi og auk þess afar hjálpsöm þegar hún hafði þekkingu til, sérstaklega við frönskunámið, en einnig við enskunám. Mamma sagði mér reyndar að pabbi hefði verið stoltur af frammistöðu minni og látið það í ljósi við aðra, en hann orðaði það aldrei við mig. Þetta var bara hans háttur, og ég var alveg sáttur við það.
Stjórnmál Fisher Meðan á heimsstyrjöldinni stóð, kynntist pabbi bandarískum hermanni að nafni Richard Fisher sem var hér á árunum 1941-43. Eftir því sem Fisher sagði mér síðar, gerðist það með þeim hætti að pabbi var að leita eftir viðskiptum við herinn og var vísað á Fisher, sem var verkfræðingur og hafði umsjón með margvíslegum framkvæmdum s.s. hitaveitu Reykvíkinga og flugvallargerð í Keflavík. Ekkert varð úr viðskiptunum, en þeir Fisher urðu góðir vinir, og pabbi bauð honum stundum heim til okkar á Freyjugötu 35. Það varð þó að gerast með hálfgerðri leynd því að samskipti við hermenn voru ekki litin hýru auga af bæjarbúum almennt. Stundum kom Fisher með stúlku með sér, ekki alltaf þá sömu. Ég man sérstaklega eftir einni sem hét Rena Godwin. Ég á áritaða bók sem hún sendi mér frá Bandaríkjunum. Sem drengur man ég eftir því að Fisher var hjá okkur á aðfangadagskvöld og var að reyna að tala við mig með aðstoð orðabókar, en það gekk heldur illa. Fisher kom líka með okkur í sumarbústaðinn í a.m.k. tvö skipti. Einu sinni fór ég með pabba og Fisher upp á fjall og þeir fóru að skjóta í mark með skammbyssu. Það var að sjálfsögðu spennandi fyrir dreng á mínum aldri, 7 ára.
Pabbi, ég og Fisher við sumarbústaðinn Á þeim tíma voru hermenn í tjöldum vestan við Núpstún, niður við Gil sem kallað er. Fisher sagði pabba að til stæði að koma upp herskálum á Stekkjarbakka, einhverjum fallegasta stað í Núpstúnslandi. Ekki leist pabba á það, og fyrir hans orð fékk Fisher þessu afstýrt. Seinna meir lét Guðmundur bóndi landið af hendi undir svínabú og var staðurinn þar með eyðilagður að mér fannst. Eftir að Fisher fór frá Íslandi til Afríku árið 1943 hélt mamma uppi bréfasambandi við móður hans, Vergy, sem var foreldrum mínum alltaf þakklát fyrir að sýna syninum vinsemd. Ég hafði upp á Fisher í fyrstu ferð minni til Bandaríkjanna 1965, og hann kom hingað aftur sem gamall maður, en þá var pabbi dáinn, því miður. Innrömmuð mynd af Fisher var árum saman uppi við í stofunni hjá okkur, sem sýnir að hann var hátt skrifaður hjá foreldrum mínum. Við pabbi fórum einu sinni með Fisher á kvikmyndasýningu hjá hernum. Það var uppi við Geitháls, í stórum bragga sem þar var. Eftir að Fisher dó sendi ekkja hans mér myndir frá Íslandi sem verið höfðu í fórum hans. Veiðiferðir Pabbi hafði mikla ánægju af veiðiskap og fór venjulega margar veiðiferðir á hverju sumri. Oft fór ég með honum, einkum í Laxá í Aðaldal, Norðurá og Stóru-Laxá, alveg frá því að ég var smástrákur. Pabbi stofnaði ásamt öðrum Stangveiðifélag Reykjavíkur og var þrívegis kosinn formaður þess félags. Þá var hann fyrsti formaður Landssambands Stangveiðifélaga. Heiðursfélagi varð hann í báðum félögum. Elsta myndin sem ég á af honum í veiðiskap er hugsanlega tekin áður en ég fæddist. Mamma hefur tekið hana. Hér kemur hún:
Næsta mynd er hins vegar tekin árið 1942 við sumarbústaðinn þegar við erum að leggja í veiðiferð í Stóru-Laxá.
Minnisstæð er mér ferð sem við pabbi fórum til veiða í
Fossá, ofarlega í Hrunamannahreppi. Við tjölduðum skammt frá
ánni, þar sem sér niður að ármynninu þar sem Fossá rennur í
Hvítá, en önnur á, Dalsá, fellur í Hvítá á svipuðum stað.
Þetta er rétt við Brúarhlöð. Ég man að við sofnuðum við
fossniðinn.
Silungamergðin í ánni var
ótrúleg. Maður var varla búinn að kasta færi í ána þegar
silungur tók. Við gengum upp að allháum fossi, og þar var
svo krökkt af silungi að maður gat tekið hann með höndunum.
Ég hélt auðvitað að þetta væri alltaf svona á þessum stað,
en hef aldrei séð neitt viðlíka síðan. Ég giska á að ég hafi
verið 10 ára. Þetta var aðeins sólarhringsferð.
Þá man ég eftir veiðiferð í Norðurá 1947. Í þeirri ferð voru margir kunningjar og vinir pabba, þar á meðal Guðmundur Jóhannsson sem kallaður var faðir andanna og kattafjandanna! Hann var einn fyrsti laxveiðimaður íslenskur, ágætismaður en sérkennilegur mjög. Hann var guðfræðingur að mennt held ég. Safnaði hann meðal annars vasaljósum af öllum stærðum. Fékk ég að sjá safnið þegar við pabbi heimsóttum hann eitt sinn á Suðurgötunni. Pabbi kunni margar skemmtilegar sögur af Guðmundi. Sumar þeirra voru birtar í Veiðimanninum. Þeir Guðmundur höfðu oft veitt saman, einkanlega í Soginu og í Elliðaánum. Ein sagan af Guðmundi kemur fram í endurminningum Erlings frænda. Það er sagan af laxinum með "laxafransósinn". Erlingur lætur sem hann hafi verið viðstaddur, en það er misminni. Það var pabbi sem upplifði þetta og skrifaði um það í Veiðimanninn. Erlingur var ekki með í för. Ég benti Erlingi á þetta, en hann hefur áreiðanlega sagt söguna í góðri trú. Svona getur minni manna verið brigðult. Einu minnisstæðasta atvikinu úr veiðiferðum okkar pabba hefur pabbi lýst í bókinni "Aldnir hafa orðið". Lýsinguna hefur hann orðrétt eftir mér og má lesa hana hér. Þetta gerðist sumarið 1950, þegar ég var 15 ára. Ég hugsa að við pabbi höfum náð best saman þegar við vorum í veiðiferðum, oft einir saman í tjaldi. Þá sagði hann mér stundum gamansamar sögur af sjálfum sér og öðrum. Ég á margar góðar minningar úr þessum ferðum. Þegar pabbi var við veiðar fór hann nokkuð hratt yfir veiðistaðina og staldraði ekki lengi við á sama stað ef laxinn vildi ekki bíta. Ég var aftur á móti þaulsætnari, og það kom fyrir að þolinmæðin bar árangur. Pabbi skýrði það svo, að nýir laxar hefðu einfaldlega synt upp í veiðistaðinn meðan ég beið. Pabbi veiddi mikið á flugu, en stundum á spón eða minnow og einnig á maðk, þótt hann hefði minni ánægju af þeirri veiðiaðferð. Þeir voru fáir sem stóðu pabba á sporði við veiðarnar; hann kom venjulega með flesta og stærsta laxa heim að kvöldi. Ég giska á að pabbi hafi farið 3-4 veiðiferðir á hverju sumri, oftast í Laxá í Þingeyjarsýslu, svo og Norðurá, Langá, Stóru-Laxá, Sogið, Ytri Rangá, Laxá í Leirársveit, Svalbarðsá, Hofsá í Vopnafirði (í eitt skipti) og Elliðaárnar. Ég veiddi með pabba í Elliðaánum 1946, en fór aldrei með honum í Laxá í Leirársveit eða Sogið svo að ég muni. Í Ytri Rangá veiddi ég aldrei þótt ég væri með pabba í för. Í eitt skiptið beið ég hálfan daginn í bílnum hans í rigningu á Hellu. Í annað skipti komum við í nýlegt hús Páls Finnbogasonar, síðar prentsmiðjueiganda, sem var veiðifélagi pabba í þessari á og hafði þar einhver ítök. Í einni ferðinni var komið við í sumarbústaðnum í Núpstúni. Þar borðuðum við pylsur úr dós og fengum af því matareitrun. Vorum fárveikir á leiðinni heim. Þetta var haustið 1946. Þetta eru aðeins minnisglefsur úr veiðiferðum með pabba. Ég man að mamma kveið sumrinu þegar veiðiferðirnar hófust, bæði vegna þess að pabbi var þá langtímum fjarverandi, og einnig vegna þess að hún þurfti að búa hann út í ferðirnar.
Eftir að pabbi keypti land í Hrísey fórum við oft á handfæraveiðar og vorum þá stundum einir saman. Þá vorum við á litlum báti sem pabbi lét smíða í Hrísey. Báturinn var skírður Svanhildur, og ég man þegar verið var að mála á hann nafnið suður í þorpi. Ég held að þessi bátur hafi seinna gengið undir nafninu Kollan. Mér er sérlega minnisstætt atvik þegar við pabbi lágum við stjóra vestan við eyjuna. Þá tók að hvessa svo að bátinn fór að reka. Pabbi vildi þá þyngja stjórann, sem var ekki annað en steinhnullungur. Hann dró steininn upp, batt annan við til að þyngja stjórann og fleygði síðan báðum útbyrðis. Þá kom í ljós að hann hafði bundið í báða enda kaðalsins, og ekkert varð eftir í bátnum af "akkerisfestinni". Við fórum báðir að skellihlæja og rerum í land. Báturinn sökk í óveðri nokkrum árum síðar. Ég man að þá var hringt til pabba og honum sagt að hætta væri á ferðum. Þetta var að kvöldi til. Pabbi hringdi til Stefáns Björnssonar, forstjóra Sjóvár, sem hann þekkti vel, sagði honum hvernig ástatt væri, og spurði hvort mögulegt væri að tryggja bátinn. Stefán féllst á það þótt útlitið væri slæmt. Skömmu síðar var hringt og sagt að báturinn væri sokkinn. Seinna frétti ég að bátinn hefði að lokum rekið upp í fjöru og pabbi hefði þá gefið hann Hilmari Símonarsyni ferjumanni í Hrísey, en hann svo fengið smið, Júlíus Stefánsson, til að gera við hann.
Ég á í fórum mínum afrit af bréfi sem pabbi ritaði Orra Vigfússyni, þáverandi formanni Reykjavíkurdeildar Laxárfélagsins. Að beiðni Orra rifjar pabbi upp sögu Stangaveiðifélagsins Laxár sem var forveri Laxárfélagsins, stofnað um veiði í Laxá í Aðaldal. Upphaflega hugmyndin að félaginu varð til við heimsókn Péturs bróður pabba að Laxamýri árið 1937. Félagið var stofnað árið 1941 fyrir atbeina pabba og Kristins bróður hans, sem varð fyrsti formaður félagsins, en einnig komu að málinu þeir Stefán Árnason á Akureyri og bræðurnir Benedikt og Snorri Jónssynir á Húsavík. Kristinn var formaður allt til 1967, að hann lést. Nýlega fréttist að unnið væri að því að koma upp minjasafni í veiðikofa í Hrunakrók, við Stóru-Laxá. Þá heyrði ég í fyrsta sinn að pabbi hefði haft forgöngu um stofnun veiðifélags um ána. Félagið hét Fluga. Ég fann grein sem pabbi hafði skrifað um félagið í fyrsta árgangi tímaritsins Veiðimannsins árið 1940. Þar kemur fram að félagið var stofnað árið 1938. Pabbi hefur verið fyrsti formaður þess, en með honum í stjórn hafa verið þeir Runólfur Kjartansson og Guðmundur frá Miðdal. Heimild á vefnum getur um fleiri félagsmenn: Ósvald Knudsen, Pál Hallgrímsson, Kristin Hallgrímsson, Guðmund Jóhannsson, Skúla Thorarensen, Magnús Kjaran, Sigurliða Kristjánsson, Guðmund R. Oddsson, Egil Thorarensen, Hákon Guðmundsson og Einar Gíslason. Er þar komin skýring á kunningsskap pabba við ýmsa þessara manna. Ekki veit ég hvort pabbi kom nálægt byggingu kofans, sem venjulega er kenndur við Guðmund frá Miðdal; a.m.k. heyrði ég hann aldrei minnast á það. Pabbi stundaði aldrei veiðar svo ofarlega í ánni þegar ég vissi til. Í fyrsta tölublaði Veiðimannsins er
grein eftir pabba sem heitir Skemmtileg íþrótt. Önnur áhugamál pabba Þá hafði pabbi mikinn áhuga á málaralist
og þekkti kunna málara svo sem Kjarval, sem stundum
heimsótti okkur, og Svein Þórarinsson. Þar voru þau mamma
mjög samstíga. Mamma hafði þekkt Ásgrím Jónson frá æskuárum
og sömuleiðis Ólaf Túbals. Í bréfum kemur fram að pabbi
hafði milligöngu um sölu á málverkum eftir Ólaf. Pabbi hefur
í endurminningum sagt frá samskiptum sínum og Kjarvals (sjá
síðar). Á ferðum sínum til Bretlands kom hann stundum við
hjá listaverkasölum og keypti málverk og teikningar. Sumt af
þessu voru frummyndir, en annað eftirmyndir. Þessar myndir
hengdi hann ýmist upp heima eða austur í sumarbústað. ![]() Pabbi og Kjarval Pabbi hafði mikinn áhuga á skógrækt og gróðursetti fjölda trjáa við sumarbústaðinn í Núpstúni. Mest af því gerði hann sumarið 1958 þegar ég var við nám erlendis. Auk birkis gróðursetti hann reynitré, ösp, grenitré og furu. Pabbi var oft að klippa trén og hlúa að þeim. En hann hefur áreiðanlega ekki órað fyrir því hvað þessi tré áttu eftir að verða stór. Sem betur fer, verð ég að segja, drápust tugir þessara grenitrjáa í kuldakasti 10. apríl 1963 þegar hitinn fór úr +10° í 10° frost á skammri stund. Fyrstu árin í bústaðnum ákvað pabbi að brekkan ofan
við bústaðinn, innan girðingar, ætti að fá að vera ósnert
þannig að gróðurinn yxi þar eins og náttúran kysi. Hann
kallaði þetta "landið helga". Mamma sagði mér að Fisher
hefði gert góðlátlegt grín að þessu þegar hann kom í
bústaðinn og sagt að sér fyndist gróðurinn öllu ræktarlegri
utan girðingar en innan. Auðvitað var það bara sagt í
gamni. Kvikmyndatökuvél og sýningarvél keypti pabbi árið
1948, árið áður en ég fermdist. Hann kom óvænt heim með þessa
gripi einn daginn. Það hefur sjálfsagt verið á einhverju
tímaskeiði þegar hann hafði nægt fé milli handanna. Mér
fannst pabba aldrei skorta fé, en hann var ekki eyðslusamur.
Mamma sagði einhvern tíma að hann væri dálítið "misríkur" en
það hefur sjálfsagt farið eftir því hvernig gekk í
viðskiptunum. Hann var ekki sínkur á fé. Ef mig vantaði
peninga til einhvers var það alltaf auðsótt mál. Ég man að
pabbi gaf mér reiðhjól af Raleigh gerð þegar ég var níu
ára. Þegar ég útskrifaðist sem stúdent gaf hann mér dýra
myndavél (Rolleiflex) og aðra síðar meðan ég var við nám í
St. Andrews. Á námsárum mínum lagði hann reglulega inn
peninga á bankabók sem ég átti í Landsbankanum og taldi það
fram sem laun til mín á skattframtali. Þetta safnaðist
saman, og með öðru sparifé og tekjum af sumarvinnu nægði það
til þess að ég gat keypt Land Rover jeppa (R 15210) eftir að
ég kom heim, árið 1963. Þar kom líka til hagnaður af sölu
Ford Zodiac bifreiðar (UGO 487 - R 9119) sem pabbi
fjármagnaði og ég keypti í Bretlandi vorið 1958. Á þeim bíl
ferðuðumst við Ragnar Ingimarsson þegar við fórum í
tjaldferðalag vítt og breitt um Evrópu sumarið 1958. Bíllinn
fékkst án virðisaukaskatts í Bretlandi. Ég kom með hann heim
haustið 1958, og pabba tókst að koma honum gegnum toll sem
sendibíl með samningum við Unnstein Beck sem þá var
yfirmaður í tolli. Í ársbyrjun 1959, þegar ég fór til
frekara náms í London, seldi pabbi bílinn hér heima með
góðum hagnaði. Kaupandinn var Leifur Sveinsson, þekktur
maður úr þjóðlífinu. Pabbi fór einu sinni með mig á rjúpnaveiðar á Bláfjallasvæðinu og skaut fáeinar rjúpur. Þá hef ég líklega verið um fermingaraldur. Síðar gerðist hann frábitinn skotveiðum. Kristinn bróðir hans var hins vegar mikill skotveiðimaður alla tíð og gaf okkur iðulega rjúpur um jólin. Eftir að pabbi keypti land í Hrísey fórum við að skjóta máva þar til að verja varpið, og var pabbi kappsamur við það. Ekki gerði pabbi mikið af því að kasta fram vísum, en hann hefði sennilega getað komist lengra á þeirri braut. Ég heyrði aðeins eina vísu eftir hann (önnur er í bókinni Aldnir hafa orðið), en hún er svohljóðandi:
Tildrög vísunnar voru þau, að nýbúið var að leggja hitaveitu
í húsið þar sem við leigðum, að Freyjugötu 35. Áður hafði
verið kynt með kolum. En húseigandinn, Pétur Leifsson
ljósmyndari, var sparsamur og var tíðum niðri í kjallara að
stilla kranana við inntakið. Hversu sparsamur Pétur var má
ráða af eftirfarandi sögu. Við bjuggum á fyrstu hæð, en
Pétur og kona hans, Steinunn Bjartmars, á hæðinni fyrir
ofan. Ég var sendur mánaðarlega með peninga fyrir leigunni,
venjulega að kvöldlagi. Eitt sinn var mér vísað inn í stofu.
Þar sat Pétur og las, við ljósskímuna frá útvarpinu! Þeirri
sjón gleymi ég ekki. Pabbi átti marga bíla um ævina. Lengi vel voru það notaðir bílar. Þeir Erlingur frændi keyptu í sameiningu þrjá bíla frá Englandi og seldu tvo með hagnaði sem nægði til að greiða fyrir þann þriðja, sem var dökkblár Buick, árgerð 1934. Upplýsingar um bifreiðaskráningar á þessum árum hefur öllum verið fargað, en með eftirgrennslan og talsverðri fyrirhöfn hefur mér tekist að afla gagna um nokkra þeirra bíla sem pabbi átti.
Willysinn eyðilagðist í árekstri á Hafnarfjarðarvegi 1963, og var mildi að pabbi slasaðist ekki. Kókbíll ók aftan á hann á fullri ferð. Bílstjórinn hafði verið að stilla útvarpið og sá ekki að umferðin hafði stöðvast. Það ár keypti pabbi Land Rover jeppa, nýjan. Bað hann umboðið (Heklu) að panta nákvæmlega eins jeppa og ég hefði keypt fyrr á árinu, með hægra stýri. Bíllinn sá fékk fljótlega verkefni í Hrísey. Báðir þessir Land Rover bílar hafa verið gerðir upp og hafa varðveist til þessa dags (2013). Um seinni bílakaup pabba veit ég minna, en hann mun hafa átt annan Mercedes Benz bíl, Scout, Cherokee, Fiat, Saab, Sunbeam og Ford Escort. Satt að segja kunni ég aldrei við það að sjá pabba á litlum bíl; mér fannst það einhvern veginn ekki hæfa honum. Bílnúmerið R-1515 sem var á Dodge bílnum 1950, færði hann á Bensann, en eftirlét Stefáni bróður síðan númerið.
Pabbi átti svo marga bíla um ævina (a.m.k. 21) að augljóst
er að hann hefur verið áhugamaður um bíla, en ég myndi þó
ekki vilja kalla það bíladellu. Pabbi ferðaðist mikið og gat
þess vegna alls ekki verið án bíls. Ég efa ekki að honum
hafi þótt gaman að eiga bíl á þeim tíma þegar tiltölulega
fáir áttu slíka gripi, en hann varð aldrei svo upptekinn af
þeim að hann færi að sökkva sér niður í tæknileg atriði eins
og t.d. Viggó Jónsson vinur okkar gerði. Húsnæðismál Þegar ég fæddist og lengi eftir það bjuggum við í leiguhúsnæði, fyrst á Sóleyjargötu 19, síðan á Freyjugötu 38 og loks á Freyjugötu 35. Þar var húseigandi Pétur Leifsson ljósmyndari sem fyrr var nefndur. Hann var meinleysismaður, en kona hans, Steinunn Bjartmars, var mesta skass, að okkur fannst. Þau áttu son, Hauk, sem var verkfræðingur og bjó í Danmörku á stríðsárunum. Þegar styrjöldinni lauk ætlaði Haukur að koma heim, og þá vildu foreldrarnir að hann fengi íbúðina á miðhæðinni þar sem við bjuggum, en þau bjuggu sjálf á efri hæð. Pabbi þráaðist við, vildi að minnsta kosti fá tíma til að byggja yfir sig. Okkur var sagt upp húsnæðinu sumarið 1946, og pabbi hóf strax að byggja í Bólstaðarhlíð. Fékk til þess lán hjá Sjóvá. Deilt var um uppsagnarfrest. Pabbi skaut málinu til dómstóla, en fólkið á efri hæðinni gerði allt til að hrekja okkur út, skrúfaði fyrir heita vatnið, hafði uppi hávaða snemma á morgnana o.fl. Dómur féll í undirrétti í des. 1946 og Hæstarétti í mars 1947. Dómurinn féll okkur í óhag og við fluttum í útbygginguna hjá ömmu í Þingholtsstræti 33 þegar eftir dóminn, nema hvað við vorum með eitthvað í geymslu á Freyjugötunni fram í september. Í Þingholtsstræti höfðum við aðeins eitt herbergi auk svefnherbergis. Svo var flutt í Bólstaðarhlíð 1. október 1947 þótt ekki væri komin þar almennileg útihurð. Pabbi hafði í mörgu að snúast við húsbygginguna. Hann byggði í samvinnu við bræðurna Birgi og Kristján Thorlacius. Húsin tvö, nr. 14 og 16, voru svo til eins, en ég held að pabbi hafi ráðið mestu um skipulagið. Man ég eftir að hann sat yfir teikningunum. Mamma réð því að við völdum neðri hæð og kjallara, en efri hæð og risið fékk Áslaug Thorlacius, ekkja Sigurðar, bróður þeirra Birgis og Kristjáns, en þeir bræður studdu Áslaugu fjárhagslega. Pabbi hafði mikið fyrir því að fá efni í húsið. Á þessum árum var skortur á flestum hlutum. Pabbi útvegaði m.a. vatnsleiðslurnar frá Selfossi þar sem þær lágu á víðavangi. Ég man eftir því að við komum eitt sinn að iðnaðarmönnum sem voru að setja einangrunarplötur í veggina á stofunni. Þetta voru vikurplötur, því að betra var ekki í boði. Pabbi sá að mennirnir voru að setja rennblautar plötur í vegg og heimtaði að þeir tækju allt niður og þurrkuðu áður en þeir gengju frá veggnum. Pípulagnir annaðist maður að nafni Bergur, sem þeir Thorlaciusbræður útveguðu. Pabbi sagði að hann væri kolruglaður, og ég tel mig hafa fengið sönnur fyrir því síðar þegar ég setti Danfors hitakerfi í húsið. Þá kom ýmislegt furðulegt í ljós. Raflagnir annaðist Guðjón nokkur (Gauji), sem Hulda kona Erlings átti víst vingott við, en það er önnur saga.
Síðar verður minnst á sumarbústaðinn í Núpstúni og
endurbætur þar. Svo stóð pabbi fyrir framkvæmdum við
veiðihús, bæði við Norðurá og eins Laxá í Aðaldal. Þótt
fleiri kæmu þar við sögu hygg ég að dugnaður pabba hafi
skilað drjúgu. Þau voru mörg ferðalögin sem ég fór í með foreldrum mínum, auk ferða með pabba einum. Ekki get ég tímasett fyrstu ferðirnar, þegar ég var smásnáði, en ég man að ferðir norður í land voru farnar í tveimur áföngum, og við gistum á hóteli á Blönduósi, líklega húsmæðraskólanum. Í einni ferðinni var lagt upp með tvö varadekk í skottinu. Þetta var á stríðsárunum og erfitt að fá góð dekk. Menn notuðu gömlu dekkin svo lengi sem unnt var. Þegar við vorum komin upp í Hvalfjarðarbotn sprakk í þriðja sinn og þá þurfti að fara að bæta. Þarna var verkstæði, man ég, og við gátum fengið aðstoð. Öxnadalsheiðin var löngum erfið, sérstaklega "Giljareitirnir" sem svo kölluðust. Eilíflega var ekið upp á háls og niður í gil, yfir læk (sem stundum gat verið býsna djúpur) og svo sama sagan aftur. Lækirnir virtust óendanlega margir. Nú veit enginn maður af þessum vatnsföllum. Aðra ökuferð man ég, en þá var ég eldri, líklega 10-11 ára. Við vorum á leið upp Biskupstungur á mjóum vegi. Á þeim tíma voru merkt útskot til að mætast, og sá oftast á milli þeirra. Á móti okkur kom lítill bíll, líklega Austin, og ökumaðurinn var kona. Ekki var viðlit að mætast svo að pabbi fór út á vegarbrún, stöðvaði bílinn og skyggndist aftur fyrir sig til að sjá hvað langt væri í næsta útskot. En konan ók rakleiðis áfram og skemmdi bæði brettin á bíl pabba, sem var amerískur og breiðari en hennar bíll. Pabbi fór út og spurði konuna hvers vegna í ósköpunum hún hefði ekki stöðvað bílinn. "Ég ók bara á mínum vegarhelmingi og fór ekkert inn á þinn helming, svo að þetta er alfarið þín sök" sagði konan. Aldrei þessu vant varð pabbi orðlaus. Eftir að ég fékk bílpróf kom það oft fyrir að ég bæði pabba að lána mér bílinn, og stóð sjaldnast á því. Hygg ég að hann hafi verið greiðviknari að þessu leyti en ég var síðar við mína drengi. Á skólaárum mínum lánaði hann mér stundum Willysjeppa fyrirtækisins til ferðalaga. Gísli Bjarnason, starfsmaður Vélasölunnar, var allajafna með jeppann, en lét hann af hendi hvenær sem pabbi óskaði þess. Sem betur fer kom aldrei neitt fyrir bílana þegar ég var með þá. Ég man eftir fimm ferðum á jeppanum, og var Ragnar Ingimarsson með mér í þeim öllum ásamt fleirum.
Bílpróf miðaðist við 17 ára aldur, en talsvert fyrir
þann tíma, þegar ég var 15-16 ára, var pabbi farinn að
láta mig aka bíl sínum. Hann var þessa mjög hvetjandi,
fremur en að ég sæktist eftir því. Þetta var þó ekki
innanbæjar heldur í ferðum út á land. Fyrsta skiptið sem
ég man eftir var ferð okkar tveggja austur í sumarbústað
árið 1950, en þá fórum við Krýsuvíkurleiðina. Heiðin
hefur sennilega verið ófær vegna snjóa. Mamma sagði mér að fyrst eftir að þau pabbi gengu í hjónaband hefði pabbi haft áhyggjur af því að hún væri of mikið fyrir vín, en brátt snerist þetta við, og eftir því sem pabbi varð hneigðari fyrir vín varð mömmu verr við það, og hún dreypti sjaldan á víni eftir að ég komst til vits og ára. Pabbi drakk með spilafélögum sínum og veiðifélögum, einkanlega félögum í Frímúrarareglunni. Hann sótti fundi reglunnar í sama húsi og Reykjavíkurapótek, en gengið var inn frá Pósthússtræti. Eftir fundina tóku pabbi og nokkrir félagar hans sig saman og sátu að sumbli fram eftir nóttu. Seinna tóku þeir á leigu húsnæði við Vesturgötu til að hafa betri aðstöðu. Ég var stundum með pabba þegar hann fór í húsakynni frímúrara í Reykjavíkurapóteki. Þó mátti ég ekki stíga inn fyrir dyrnar. Einu sinni hleypti pabbi mér óvart inn með sér. Þá sá ég hvar sverð héngu uppi á vegg og spurði pabba hvernig á því stæði. Hann var fljótur að fara með mig út og sagði að ég hefði ekki mátt koma þarna inn. Sjálfur hef ég aldrei haft áhuga á þessum félagsskap; tel fráleitt að ganga í félag án þess að vita glöggt hvert eðli og tilgangur félagsins er. Hins vegar veit ég að margir mætir menn hafa verið í frímúrarareglunni, svo að eitthvað hafa þeir séð jákvætt við þennan félagsskap. Pabbi var í frímúrarastúku sem hét Edda. Helstu félagar pabba á þessum árum voru þeir Óli J. Ólason sem rak Skóbúð Reykjavíkur, Jóhannnes Jónsson gjaldkeri hjá Eimskip, Högni Halldórsson bóndi við Langholtsveg, og Hans Þórðarson forstjóri Electric við Túngötu, en ýmsir fleiri komu þar við sögu. Til dæmis man ég eftir því að Sigfús forstjóri Heklu var í boði hjá pabba í Bólstaðarhlíð og með honum Björn Bjarnason frá Steinnesi (Bjúsi enskukennari). Það mun hafa verið þá sem Björn sagði þessa frægu setningu: "Segið þér mér, Sigfús frá Rófu, sofið þér líka með þetta smíl?" En Sigfús var síbrosandi, og Bjúsi var kunnugur uppruna flestra og ætterni. Í vinahópi pabba var Víglundur Möller hjá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur. Hann var góður vinur móður minnar líka og mikill indælismaður, þótt hann ætti það til að fara yfir strikið þegar áfengi var annars vegar.
Þá minnist ég Jóns Bergssonar sem var spilafélagi
pabba og með elstu vinum hans, en ekki drykkjufélagi. Kona
Jóns hét Guðbjörg
Finnbogadóttir, kölluð Bagga. Pabbi
var ekki ofdrykkjumaður í þeim mæli að hann skaðaði
heilsu sína eða vanrækti vinnuna. En hann drakk meira en
góðu hófi gegndi og það kom niður á móður minni og öðrum
í fjölskyldunni.
Það kom fyrir að hann æki bíl undir áhrifum, og munaði
eitt sinn afar mjóu að illa færi.
Þannig man ég vísuna, en í vísnasafni Skagfirðinga á vefnum er hún öðru vísi, og sögð vera eftir Jóhann Sigurðsson, Skriðu.
Pabbi fór stundum í vínbindindi, jafnvel í heilt ár.
Í janúar 1960 sagði hann svo endanlega skilið við vínið.
Það var á
trúlofunardegi þeirra mömmu. Mamma skýrði mér frá þessu
í eftirminnilegu bréfi, en ég var þá við nám erlendis. Pabbi reykti vindlinga og pípu fyrst, en hætti fljótlega við vindlingana. Síðan hélt hann sig við pípuna en reykti stöku sinnum vindla. Þegar hann bauð spilafélögum heim sat vindlalyktin oft marga daga í herbergjum og húsgögnum. Ég hygg að pabbi hafi hætt að reykja á efri árum, líklega vegna astmans. Draumar og dularfull fyrirbæri Þótt ég sé hvorki trúaður á drauma né svokölluð yfirnáttúrleg fyrirbæri er skylt að segja frá því sem pabba snertir á þessu sviði. Ég hef það eftir frásögn mömmu því að pabbi hafði aldrei orð á því við mig. Ég minnti pabba á eftirfarandi sögu þegar hann var að rita endurminningar sínar í "Aldnir hafa orðið". Mömmu sagðist svo frá, að nótt eina hafi pabbi látið illa í svefni og vaknað eins og af martröð. Hann sagði mömmu að sig hefði dreymt ljótan draum. Hann þóttist vera á Akureyri, í anddyri Hótels Gullfoss, þar sem hann hafði oft gist á ferðum sínum sem sölumaður. Gegnt anddyrinu var stigi upp á næstu hæð og yfir stiganum gluggi. Pabbi þóttist líta upp og horfa á þennan glugga. Sér hann þá stóra, dimma loppu leggjast yfir gluggann. Við þessa óhugnanlegu sýn vaknaði hann. Um morguninn bárust þær fréttir að hótel Gullfoss hefði brunnið um nóttina. Samkvæmt blaðafregnum hefur þetta verið aðfaranótt 15. mars 1945, á tíu ára afmæli mínu, en mamma sagði mér þetta síðar. Ekki var pabbi alltaf jafn berdreyminn. Mamma sagði mér einhverju sinni að pabba hefði dreymt draum sem hefði sannfært hann um að hann næði ekki fimmtugsaldri. Sem betur fer rættist sá draumur ekki. Aðra sögu sagði mamma mér. Hún var á þá leið að pabbi hefði eitt sinn komið heim seint að nóttu, hreifur af víni en í góðu skapi. Hann sagðist hafa orðið samferða svo skemmtilegum manni á göngunni heim. Hver var það? spurði mamma. Hann Árni Pálsson, sagði pabbi. Láttu ekki svona maður, sagði mamma, þú veist að hann Árni er dáinn. Við það brá pabba mjög. Hann sagði ekki orð, heldur fór beint í háttinn. Utanferðir Ferðir til útlanda voru ekki algengar þegar ég var lítill. Ég hef áður minnst á ferðir pabba með kórnum, svo og dvöl hans í Glasgow áður en hann gekk að eiga mömmu. Fyrsta utanferðin okkar eftir stríð var farin 1948 þegar ég var þrettán ára. Þá fóru pabbi, mamma og ég í langa ferð til Danmerkur, Svíþjóðar, Bretlands og Frakklands. Stefán bróðir var hjá ömmu í Þingholtsstræti á meðan. Hann var bara tveggja ára, en man samt glöggt eftir þessu. Það gekk brösulega að fá leyfi fyrir ferðinni; til þess þurfti heimild yfirvalda á þessum árum vegna gjaldeyrisskorts, en þetta tókst að lokum. Við fórum með skipinu Dronning Alexandrine og pabbi hafði Oldsmobílinn með. Danskir hafnarverkamenn skemmdu þakið á bílnum við uppskipun; þeir voru drukknir. Í Kaupmannahöfn bjuggum við á fínu hóteli, Palads Hotel við Ráðhústorgið. Pabbi hitti þar mann sem hann hafði átt viðskipti við. Sá hét Sörensen og var hinn geðugasti maður. Seinna kom í ljós að hann hafði brotið lög í viðskiptum og það alvarlega, en ekki snerti það viðskiptin við pabba. Samt frétti pabbi að danska lögreglan hefði áhuga á að ræða við "Hr. Stefansson" vegna viðskipta hans við Sörensen, og í mörg ár var pabbi tregur til að fara til Danmerkur vegna þessa. Í Svíþjóð hitti pabbi líka menn sem hann hafði átt skipti við, hjá fyrirtækinu Albin í Kristinehamn. Einnig heimsóttum við gamla vini mömmu frá þeim tíma þegar hún dvaldist í Svíþjóð. Í London hittum við Pétur bróður pabba sem bjó í Weybridge með fjölskyldu sinni. Við bjuggum þar á mjög góðu hóteli, Oatlands Park Hotel. Í London var enn mikið af húsarústum eftir loftárásir Þjóðverja. Þar fór pabbi til viðræðna við menn hjá fyrirtæki sem hét Normanner, en það var illa statt og mun pabbi hafa tapað talsverðum fjármunum í viðskiptum við það. Pétur bróðir hans var líka í þeim viðskiptum.
Frá London fórum við með lest til Dover, með ferju til
Calais og svo lest til Parísar. Dvölin þar var mesta
ævintýri fyrir mig. Mamma var þar öllu kunnug og við
skoðuðum það helsta, en heimsóttum auk þess gamlan vin
mömmu,
prófessor Jolivet og konu hans. Síðar heimsótti
Jolivet okkur í Bólstaðarhlíð. Bíll pabba, Oldsmobile, vakti óskipta athygli í Bretlandi. Þar var lítið um ameríska bíla. Merkið IS var óþekkt, og einhverjir héldu að það merkti Ísrael. Ýmis viðskiptamál Þótt pabbi væri séður í viðskiptum og gengi yfirleitt ágætlega, gat komið fyrir að hann gerði glappaskot. Ég man eftir einu tilviki sem snerti sjálfan mig. Pabbi hafði keypt fyrir mig drjúgan hlut í Loftleiðum þegar það fyrirtæki fór af stað, en Óli J. Ólason vinur hans í Skóbúðinni sat í stjórn. Svo kom sá dagur að Óli féll úr stjórninni. Það hefur líklega verið árið 1953. Þá hvatti pabbi mig til að selja hlutabréfin, sem ég gerði. Ég man að þeir stjórnarmenn Loftleiða sem ég átti tal við voru hálfhissa á þessari ákvörðun. Enda áttu Loftleiðir blómaskeið framundan, og ég hefði sennilega orðið vellríkur hefði ég haldið hlutabréfunum. Öðru sinni gerði pabbi mistök þegar hann fór ásamt nokkrum góðvinum sínum út í það að stofna byggingarfélag. Það félag hét Mannvirki og átti að fara í miklar framkvæmdir. Allt fór þó á annan veg, og ég hygg að pabbi hafi tapað talsverðu fé á því ævintýri. Nú kann víst enginn þá sögu lengur. Þótt pabbi hagnaðist vel á vélasölu, hygg ég að önnur viðskipti hafi reynst honum fullt eins ábatasöm. Á ég þá sérstaklega við innflutning glervöru frá Tékkóslóvakíu, einkum mjólkurflöskurnar. Um skeið var mjólk seld í eins-lítra flöskum og ég hygg að pabbi hafi flutt allar flöskurnar inn. Í sambandi við þau viðskipti kynntist pabbi öðrum Fischer. Sá kom til Íslands oftar en einu sinni sem fulltrúi verksmiðjanna og pabbi bauð honum eitt sinn austur í sumarbústað með Bjarna klæðskera, vini okkar. Þetta var mikill ágætismaður, en stjórnarfarið í heimalandi hans lá þungt á honum. Bjarni sagði mér að þeir hefðu gengið saman upp á hnjúk ofan við bústaðinn og horft yfir landið. Þá hefði Fischer tárast og sagt: Þið Íslendingar vitið ekki hvað þið eruð gæfusamir að vera frjálsir.
Annað sem pabbi efnaðist á, en fór ekki hátt, voru umboð
sem hann hafði fyrir erlenda vínframleiðendur,
sérstaklega í Frakklandi. Þessi umboð urðu
Mánudagsblaðinu tilefni til árása á Kristin bróður
pabba, sem þá var forstjóri Lyfjaverslunar ríkisins.
Taldi blaðið að þarna væru hagsmunatengsl milli
Áfengisverslunar og lyfsölunnar, og að Kristinn hefði áhrif
á það hvaðan vín væru pöntuð. Þetta var afar
ósanngjarnt, ekki síst gagnvart Kristni, sem ekki mátti
vamm sitt vita. Það var fyrir mína áeggjan að við pabbi ásamt Viggó Jónssyni réðumst í að fá Zeiss umboðið árið 1959. Gamalt fyrirtæki pabba, Haukar, var endurlífgað í því skyni. Haukar hafði upphaflega verið stofnað til að framleiða dömubindi, þótt ekkert yrði úr þeim rekstri. Pabbi studdi framtakið dyggilega, en við Viggó sáum að mestu um reksturinn fyrstu árin. Í því sambandi efndum við til veglegrar Zeiss sýningar í Iðnskólanum árið 1960. Stefán Þorláksson frá Svalbarði aðstoðaði við það verk, en pabbi hafði fengið Stefán til að smíða sumarbústað fyrir sig í Hrísey árið áður. Freyja Ég hygg að Viggó hafi haft frumkvæðið og fengið pabba í lið með sér til að kaupa sælgætisverksmiðjuna Freyju árið 1959. Ég var með þeim í stjórn alla tíð, en Viggó var framkvæmdastjóri. Viggó var einn besti og skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst. Viggó dó fyrir aldur fram árið 1977, aðeins 59 ára gamall. Þá fórum við pabbi saman til Sigríðar ekkju hans og reyndum að telja hana á að selja fyrirtækið, en hún vildi það ekki. Við pabbi vorum ekki bjartsýnir á áframhaldandi rekstur og hættum þátttöku í honum. Ef til vill voru það mistök.
Meðan ég var í London tók ég stöku sinnum þátt í að afla viðskiptasambanda fyrir pabba. Eitt sinn var það franskur byssuframleiðandi sem ég man ekki lengur nafnið á, en það hófst á "Societé general....". Þaðan keyptum við riffil sem seinna var notaður í Hrísey en tapaðist þar - féll fyrir borð á báti. Ekki man ég til þess að meira yrði úr þeim viðskiptum. Þá hafði ég samband við skyrtuframleiðanda í Englandi, "Double Two", og stóð til að flytja inn skyrtur frá þeim, en ekkert varð úr því heldur. Þriðja fyrirtækið var Ilford sem framleiddi ljósmyndavörur. Haukar fengu umboð fyrir það og fluttu inn þó nokkuð af filmum og framköllunarvörum um skeið. Talsverð sala af ljósmyndavörum varð gegnum Fótóhúsið sem Trausti Thorberg, frændi Viggós, opnaði í Garðastrætishúsinu, en við seldum líka sýningarvélar til Hans Petersen. Loks má nefna bílakerti sem pabbi flutti inn frá japönskum framleiðanda (NGK) í talsverðum mæli.
Á stríðsárunum var talað um að senda börn til
dvalar utanbæjar af ótta við loftárásir á Reykjavík,
og fóru þá ýmsir að huga að því að koma sér upp
sumarbústöðum. Pabbi var stundum við veiðar í
Stóru-Laxá í Hreppum og kom þá auga á bústað við
bæinn Núpstún.
Hann spurðist fyrir um það hvort þessi bústaður væri til sölu. Þá
átti bústaðinn Ingveldur Jónsdóttir, sem verið hafði
ráðskona Tómasar Petersen. Sá hafði verið
vegavinnustjóri þarna fyrir austan, hafði leigt
Núpstún árið 1928, byggt þar bústaðinn 1929 og síðan nýtt
íbúðarhús 1934, en dáið svo sama ár. Ingveldur erfði
bústaðinn. Hún féllst á að selja pabba hann. Það var
í febrúar árið 1941. Ingveldur kom oft austur eftir
það og sá alltaf eftir því að hafa látið bústaðinn
af hendi. Söluverðið var 2600
krónur, sem þótti mikið á þeim tíma. Auk þess fannst
fólki þessi bústaður vera fáránlega langt frá
Reykjavík. En það viðhorf átti eftir að breytast.
Pabbi fékk stundum vini og kunningja með sér
austur í bústað til að hjálpa sér við að mála og
dytta að hinu og þessu. Ég hef áður minnst á Jóhann
Þorsteinsson í þessu sambandi, en Erlingur bróðir
mömmu var honum líka hjálplegur. Fleiri komu þar við
sögu þótt ég muni ekki öll nöfnin. Ekki hefur það
skaðað að pabbi var rausnarlegur við veitingar.
Fyrir kom að hann bauð mörgum í hóp til gleðskapar í
bústaðnum. Til vitnis um það er miði sem þar hefur
varðveist og geymir nöfn margra þekktra manna,
innansveitar sem utan.
Seinni bústaðurinn sem reistur var í Hrísey var öllu reisulegri, enda aðrir tímar. Smíðina þá annaðist Stefán Þorláksson ásamt smið á staðnum, og var það all söguleg framkvæmd ef marka má frásögn Stefáns. Ætla ég ekki að rekja hana hér. Svarfaðardalur og Hrísey
Æskuheimkynnin voru pabba alltaf ofarlega í huga.
Í Svarfaðardalnum hafði hann alist upp, og í Hrísey
höfðu forfeður hans búið, allt frá árinu 1778. Þegar ég var fimm ára
dvaldist ég um tíma á Völlum með mömmu, og er mér
minnisstætt ýmislegt sem þá bar fyrir augu. Talsvert
er til af myndum frá þeim tíma. Þarna kynntist ég
Stefáni afa og Sólveigu ömmu í fyrsta sinn. Eftir að
afi hætti prestskap, árið 1941, fluttu þau amma til
Hríseyjar og bjuggu syðst á eyjunni, í Hafnarvík.
Þar hélt Bolla (Ingibjörg) systir pabba heimili með
manni sínum Pétri Holm. Þangað fórum við árið 1949
þegar haldið var upp á gullbrúðkaup afa og ömmu og
dvöldumst nokkra daga í Hafnarvík. Ég man að við fórum
þá á handfæraveiðar með Stefáni afa, en
eftirminnilegri eru mér þó veiðar með Puta (Pétri)
og Stefáni, sonum Bollu. Við dorguðum af bryggjunni
í Hrísey og fylltum heilan handvagn af fiski á
skammri stund.
Landið var nagað af sauðfé alveg niður í rót. Pabbi fór strax að gera áætlanir um viðreisn, og eitt fyrsta verk hans var að láta leggja girðingu þvert yfir eyna. Svo var bústaðurinn reistur og æðarvarp undirbúið. Smíði bústaðarins hófst sumarið 1959. Til þess verks fékk pabbi Stefán Þorláksson frá Svalbarði í Þistilfirði, en honum hafði hann kynnst í veiðiferðum við Svalbarðsá.
Áhugi pabba á þessum framkvæmdum leyndi sér ekki
og það var gaman að fylgjast með framvindunni.
Eftir að bústaðurinn var risinn dvöldumst við
alllengi í Hrísey sumarið 1960. Þá var gróðurinn
kominn á gott skrið og fallegt um að litast. Pabbi
hafði samráð við Hákon skógræktarstjóra og fleiri og
fékk hópa til að aðstoða við að gróðursetja tré.
Eitt af því sem Hákon ráðlagði var lúpínurækt. Var
furðulegt að sjá hvað lúpínan gat vaxið víða,
jafnvel í bröttum skriðum. Eftir á að hyggja mun
þetta hafa verið mesta óráð, því að lúpínan er
illgresi sem kæfir annan gróður. Í kjölfar hennar
fylgdi önnur vandræðajurt, skógarkerfill, sem síðar
lagði undir sig túnið á Ystabæ þar sem áður var
kafgresi. Síðasta ferð okkar saman til
Hríseyjar var sumarið 1961. Þá aðstoðuðum við Stefán
pabba við að skjóta máva sem ógnuðu æðarvarpinu. Ég
á mikið af myndum frá þeirri ferð. Afmæli og veðurfar Pabbi hélt því fram, hvort sem það var nú í gamni eða alvöru, að hann fengi alltaf gott veður hvar sem hann væri staddur á afmælisdaginn sinn 16. ágúst. Þetta rættist býsna oft, og ég held að aðrir í fjölskyldunni hafi verið farnir að trúa þessu líka.
Hjónabandsmál
Fjölskyldan árið 1949
Skilnaður pabba og mömmu árið 1962 féll mér þungt, og ekki síður Stefáni
bróður, en mest var áfallið fyrir mömmu. Ég ætla
ekki að rekja þá sögu hér, en ýmsar
missagnir voru í gangi um þetta skilnaðarmál. ![]()
Myndin hér að ofan er tekin við sumarbústaðinn í
Núpstúni sumarið 1961, ári fyrir skilnað pabba og mömmu.
Á myndinni sjást, auk foreldra minna, Kristín
Sveinsdóttir, Úlla Knudsen og Stefán bróðir. Fjölskyldan ferðaðist mikið þetta síðasta sumar.
Farin var tjaldferð í Þjórsárdal, veiðiferð í
Norðurá, ferð í Öskju með viðkomu í Hrísey og loks
önnur ferð í Hrísey. Við Stefán vorum með í öllum
ferðunum og Úlla í þeirri síðustu. Kristín
Sveinsdóttir, sem sést fyrir miðri mynd, kom í vist
til okkar árið 1942 og var sem ein af fjölskyldunni
þar til hún lést árið 1965. ![]()
Textinn sem hér fer á eftir var geymdur í tölvuskrá hjá mér og dagsettur 1993. Þetta eru minningar pabba. Ég aðstoðaði hann við að ganga frá þessum texta, en man ekki til hvers hann var ætlaður eða hvort hann birtist einhvers staðar. "Það mun hafa verið árið 1925, þegar ég var tvítugur og vann við verslunarstörf á Akureyri, að þýsk kona, nokkuð við aldur, hélt þar sýningu á þýskum málverkum og teikningum. Þá voru erfiðir tímar í Þýskalandi, svo skömmu eftir fyrri heimstyrjöldina, og varð margur feginn, ef hann gat komið einhverjum eignum í verð, jafnvel þótt söluverðið væri langt undir raunverulegu verðmæti eignanna. Þessa gætti áreiðanlega við söluna á þeim listaverkum, sem á sýningunni voru, enda munu þau hafa selst fljótt. Voru þó mörg þeirra stór og fyrirferðarmikil. Ein þessara mynda kom í hlut foreldra minna sem gjöf frá Tryggva föðurbróður mínum. Ég sat mig ekki úr færi að skoða sýninguna aftur og aftur. Einhvern veginn fór það svo, að ég kynntist þarna hinni þýsku konu, þótt hún skildi ekki íslensku og ég ekki þýsku. Gaf hún mér skemmtilega teikningu af Schubert, sem nú er í eigu Sigvalda Kaldalóns yngri. Þakklætisvott reyndi ég að sýna með því að senda konunni síldartunnu til Hamborgar. Um svipað leyti komst ég í samband við þýskt fyrirtæki sem gerði ljósmyndir af þekktum málverkum. Keypti ég nokkrar myndir frá fyrirtæki þessu, og eru þrjár þeirra enn í Vallakirkju. Þá var ég milligöngumaður fyrir Árna Böðvarsson, ljósmyndara á Akranesi, um prentun a póstkortum, sem gerð voru eftir ljósmyndum hans. Ekki þekkti ég Árna þá, en kynntist honum persónulega síðar. Eftir að ég fluttist til Reykjavíkur fékk ég aðstöðu til að sjá helstu sýningar íslenskra málara. Ásgrímur var þá stóra nafnið á þeim vettvangi, en Kjarval var í uppsiglingu. Eftir eina af sýningum Kjarvals, sem mér þótti ógleymanleg, settist ég niður og skrifaði nokkrar hugleiðingar um sýninguna. Ég var þá orðinn málkunnugur Kjarval, og svo vildi til, að hann kom til mín daginn eftir þangað sem ég bjó og hafði jafnframt skrifstofu. Ég fór að ræða við Kjarval um sýninguna og fór ekki dult með hrifningu mína af sumum myndunum. Sýndi ég honum hvað ég hafði skrifað hjá mér. Kjarval spurði, hvort hann mætti fá þetta og tók blaðið með sér. Daginn eftir birtist klausan í Vísi með undirskriftinni "Gestur". Síðar meir, þegar Kjarval kynnti mig fyrir kunningjum sínum, tók hann oft fram, að ég hefði skrifað um sig. Sem betur fór var það ekki sagt í þeim tvíræða tón sem Kjarval brá svo oft fyrir sig. Ég eignaðist nokkrar smámyndir eftir Kjarval, og þær hefðu líklega orðið fleiri, ef hann hefði viljað taka við hæfilegri greiðslu. En oft vildi hann hreinlega gefa myndirnar. Ég kom oftsinnis heim til Kjarvals og fékk stundum að stansa hjá honum, þótt hann væri í önnum að mála. Eitt sinn var hann að mála stóra mynd frá Þingvöllum, og kom þá að því, að ég ákvað að eignast eitt stórt málverk eftir hann. Samdist með okkur að ég fengi myndina, þegar hún væri fullgerð, með því skilyrði frá minni hálfu, að hann tæki við fullri greiðslu á móti. En þegar ég kom til þess að sækja myndina, með peningana í vasanum, hafði Ásgeir Ásgeirsson (þáverandi forsætisráðherra) narrað hann til þess að láta hana af hendi til þess að ríkisstjórnin gæti gefið hana einhverjum útlendingi. Ég held að Kjarval hafi brugðið, þegar hann sá, hve mikið mér varð um þetta. Vildi hann þá bæta fyrir mistökin með því að bjóða mér annað málverk, en því hafnaði ég. Segist hann þá bara mála fyrir mig sams konar málverk og hið fyrra. Þetta tilboð kom mér mjög á óvart, ekki síst vegna þess, að ég minntist þess ekki að hafa séð hjá honum nokkurt uppkast eða fyrirmynd, þegar hann vann að málverkinu. En auðvitað samþykkti ég þetta tilboð. Þegar svo málverkið mitt var í smíðum og ég fylgdist með framvindu verksins, fannst mér ganga kraftaverki næst, hve allt var nákvæmlega eins og fyrr. Ekki veit ég hvað kom yfir mig, þegar ég spurði Kjarval eitt sinn, hvort honum fyndist ekki, að það mætti vera annar blær á himninum. Hann varð við bón minni og breytti málverkinu, þótt auðvitað hefði hann betur látið það ógert. En þetta sýnir vel hina frábæru nærgætni og góðvild Kjarvals, sem var svo djúpstæð í eðli hans, og margir urðu varir við, sem kynntust honum. Hvort hægt er að segja, að maður hafi kynnst Kjarval náið, veit ég ekki. Maðurinn var svo óútreiknanlegur og margslunginn persónuleiki, og hann var sjálfum sér nógur. Kynni mín af Sveini Þórarinssyni málara voru ekki síður eftirminnileg. Sveinn var að sínu leyti jafn sérkennilegur persónuleiki og Kjarval, þótt á annan hátt væri. Enginn efast um, að hann hafi verið einn af okkar albestu málurum. Hann var einstaklega kurteis og elskulegur í framkomu. Frásagnarhæfileika hafði hann sérstakan og gat verið bráðfyndinn, þegar hann vildi það við hafa. Þegar maður heimsótti Svein og konu hans voru móttökur slíkar, að líkast var, að þeim hefði verið gerður stór greiði. Ég og fjölskylda mín eigum nokkur ágætisverk eftir þau hjónin, en eins og allir vita er kona Sveins, Karen Agnete, einnig mjög þekktur málari. Á mínum yngri árum var ég eitt sinn staddur á Akureyri í söluferð. Hitti ég þá föður minn og var boðið með honum til Sigurðar skólameistara. Sigurður var ekki alls kostar hrifinn af verslunarstéttinni, og hafa sölumenn sennilega verið einna lægst skrifaðir hjá honum. Ég hafði ekki heldur gengið í skóla hjá Sigurði eins og systkini mín. Var því varla von til þess að hann hefði mikið við mig að tala. Aftur á móti var kona Sigurðar mjög alúðleg. Datt mér í hug að biðja hana að leyfa mér að skoða málverkin á "Sal", en það þótti allgott safn. Hún var fús til þess og fylgdi mér þangað. Fannst henni nokkuð til um það, að ég skyldi geta nefnt nafn hvers og eins málara, þótt ég stæði álengdar, og hafði hún orð á þessu við Sigurð þegar við hittum þá pabba aftur. En ég held, að glöggskyggni af þessu tagi sé skyld þeim hæfileika fjármannsins, að geta rakið ætt kinda eftir svip þeirra." -------------------
Hér lýkur frásögn pabba. Myndirnar hér fyrir neðan tók
ég á árunum 1957 og 1958.
(Síðast breytt 8. 4. 2023) | ||||||||||||||||||||||||||||||||||||||