Vélasalan - leiðrétting

Á vefsíðu Vélasölunnar ehf. segir:

"Vélasalan ehf  var stofnuð 1. júní 1940 af Gunnari Friðrikssyni og var fyrirtækið rekið af honum og hans fjölskyldu til ársins 2005 eða í 65 ár."

Hér er hallað réttu máli, því miður. Vélasalan hf. var ekki stofnuð í júní 1940 heldur 1. október 1941, sbr. meðfylgjandi grein í Frjálsri verslun. Þetta kemur einnig fram í Lögbirtingablaðinu 24. október sama ár samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskjalasafni. Faðir minn, Sæmundur Stefánsson, hafði forgöngu um stofnun fyrirtækisins, sem þá hét Vélasalan hf. Með honum voru þeir Guðmundur Gíslason, Gunnar Friðriksson og Erlingur Þorkelsson. Þeir Guðmundur og Erlingur heltust fjótlega úr lestinni en Sæmundur og Gunnar ráku fyrirtækið saman fram til 1965, að Sæmundur hætti. Tók Gunnar þá við rekstrinum. Samvinna föður míns og Gunnars var með ágætum lengst af. Faðir minn sá um pantanir og bókhald en Gunnar annaðist söluna. Þeir stofnuðu síðar fleiri fyrirtæki, en það er önnur saga.  Samkvæmt frásögn í Viðskiptablaðinu keypti R. Sigmundsson ehf. Vélasöluna árið 2005, en það kemur ekki fram á vefsíðu Vélasölunnar ehf.

Ég læt fylgja mynd af þeim Sæmundi og Gunnari á skrifstofu Vélasölunnar í Hafnarhúsinu. Gunnar er til hægri á myndinni.


 

Viðbót

Á YouTube er að finna viðtal sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson átti við Gunnar Friðriksson árið 1999 eða þar um bil. Frásögn Gunnars af sögu fyrirtækisins er villandi, svo að ekki sé meira sagt. Hann segir að Vélasalan hafi verið stofnuð árið 1939 og lætur sem hann einn hafi rekið fyrirtækið frá upphafi. Hvorugt er rétt.

Í Íslendingabók segir um Gunnar: Stofnandi, framkvæmdastjóri Vélasölunnar hf og forseti Slysavarnarfélags Íslands um 22 ára skeið...

Þetta er mjög svo villandi. Gunnar var aðeins meðstofnandi Vélasölunnar og gat ekki kallast framkvæmdastjóri fyrr en mörgum árum eftir stofnun fyrirtækisins. Þetta kemur m.a. fram í símaskrám frá þessum tíma.   


Sett á vefsíðu 15.6. 2017. Síðasta viðbót 14..8. 2019

Forsíða