Þorsteinn Sæmundsson |
Núpstún
Sumarið 1940 var Sæmundur faðir minn við veiðar í Stóru-Laxá í Hrunamannahreppi. Heimstyrjöldin var í algleymingi, og fólki í Reykjavík hafði verið ráðlagt að finna konum og börnum aðstöðu utan Reykjavíkur af ótta við loftárásir á bæinn. Faðir minn átti leið um Núpstún, sem á land að Stóru-Laxá, og kom auga á sumarbústað þar uppi í brekku. Hann grennslaðist fyrir um það hvort vera kynni að bústaður þessi væri til sölu. Svo reyndist vera, og fékk faðir minn hann keyptan í febrúar 1941 fyrir 2600 krónur, sem þótti hátt verð á þeim tíma. Bústaðurinn var skráð eign móður minnar, Svanhildar. Seljandinn var Ingveldur Jónsdóttir. Hafði hún erft bústaðinn eftir Tómas Petersen vegaverkstjóra, en Ingveldur hafði verið ráðskona hjá Tómasi. Ingveldur kom oft austur eftir þetta, gisti hjá heimilisfólki í Núpstúni og heimsótti okkur í bústaðnum. Hún sagðist alltaf sjá eftir því að hafa selt bústaðinn. Í Núpstúni bjuggu þá hjónin Guðmundur Guðmundsson (1893-1982) og Sigríður Guðmundsdóttir (1897-1980). Svo vildi til, að Sigríður var náskyld móður minni, Svanhildi. Móðir Sigríðar, Guðríður Erlingsdóttir, var systir Þorsteins Erlingssonar móðurafa míns. Sigríður átti tvo syni, Brynjólf, sem var ári yngri en ég, og Jóhann Má, sem var fjórum árum eldri. Þessir frændur mínir, Binni og Jói, áttu eftir að verða góðir vinir mínir og leikfélagar. Bústaðurinn sem faðir minn keypti var ekki stór, ein lítil stofa og enn minna svefnherbergi og gangur á milli. Pabbi lét bæta eldhúsi við og fékk smið bústaðarins, Guðjón Helgason í Gröf, til verksins. Árni Ögmundsson, bóndi í Galtafelli, mun hafa aðstoðað við smíðina. Ekki man ég hvernig eldað var áður en eldhúsið kom, en líkast til hefur lítil kolaeldavél verið í ganginum þótt þröngur væri. Myndir af bakhlið hússins sýna rör sem gengur út úr húsveggnum og inn í stromp sem stendur utan við húsið. Enn fremur sést kassi í brekkunni. Í þeim kassa voru áreiðanlega kol. Einangrun var nánast engin í eldri hluta bústaðarins, og lét pabbi fljótlega klæða stofuna og svefnherbergið með ljósum asbestplötum. Rafmagn kom ekki í Núpstún fyrr en 1960. Fram að þeim tíma var notast við kolaleldavél í bústaðnum og olíulampar hafðir til lýsingar. Frá eldavélinni lá lögn að ofni í stofunni. Áður en raflínan kom var um skeið vindrafstöð í Núpstúni. Spaðinn stóð ofan við bæjarhúsið, en rafgeymar voru í risinu á bænum. Ekki fékk þó bústaðurinn rafmagn frá þessari rafstöð. Til þess að geta hlustað á útvarp þurfti rafgeymi, og var farið með hann að Galtafelli í hleðslu. Skömmu eftir að pabbi keypti bústaðinn lét hann smíða pall framan við hann með steyptu gólfi og grindverki umhverfis. Þetta grindverk lét ég endurnýja 1964. Árið 1980 var stéttin brotin upp, grindverkið fjarlægt, trépallur smíðaður og hellur lagðar. Nýtt grindverk var sett við pallinn árið 1989. Bæði pallur og grindverk voru endurnýjuð árið 2020. Upphaflega var kamar spölkorn ofan við bústaðinn. Þurfti þá að bera fötu þaðan niður í haughús á bænum. Síðar var kamarinn fluttur að bústaðnum og geymsluskúr bætt við. Eftir breytingarnar var bústaðurinn 37 fermetrar að stærð. Fyrstu árin var notast við vatn úr uppsprettu sem var í brekkunni ofan við bústaðinn. Tómas Petersen, sá sem lét smíða bústaðinn (sjá neðar), hafði látið leggja leiðslu úr uppsprettunni niður að bóndabænum, en hliðargrein úr þeirri leiðslu þjónaði bústaðnum. Með tímanum jókst vatnsþörfin á bænum, svo að lindin nægði ekki. Var þá um tíma leitað í gamla lind við Ingunnarhól, austan við Núpstúnsnípu. Þaðan mun vatni hafa verið veitt að bænum fyrr á tíð, og rann þá lækur framan við bæjarhúsin og hvarf ofan í túnið. Árið 1958 var vatnslögn í lambhúsið norðan bústaðar framlengd í bústaðinn og vatnssalerni kom í stað kamarsins. Árið 1985 var lögð vatnsleiðsla að Núpstúni úr Stekkjargili, á mörkunum við Galtafellsland. Fékk bústaðurinn þá einnig vatn úr þeirri lögn. Eldri lögnin neðan frá Núpstúnsbæ var farin var að leka og var frátengd 2015. Þegar rafmagn kom í Núpstún var það í loftlínu. Frá bænum var lagður strengur á staurum upp að sumarbústað. Pabba þótti svo mikill sjónarspillir að staurunum að hann vildi hætta við allt saman. En þá sagði mamma stopp! Rafmagnið vildi hún fá, hvað sem öðru liði. Löngu seinna (1995) var raflínan upp að bústað lögð í jörð. Sími var í Núpstúni þegar við komum þangað. Þetta var handvirkur sveitasími eins og þá tíðkaðist. Hringing í Núpstún var "þrjár stuttar" og allir á sömu "línu" í sveitinni gátu hlustað á samtölin. Símstöðin var í Galtafelli, og sá Jóna, systir Árna bónda, um afgreiðsluna. Hringing í Galtafell var "stutt-löng". Það var ekki fyrr en 1994 að ég fékk farsíma (NMT, man nokkur eftir þeim stóru hlunkum?) og gat hringt beint úr bústaðnum. Þegar ég kom fyrst í Núpstún, sumarið, 1941, var ég sex ára. Ég minnist þess að okkur var boðið í kaffi í stássstofunni í Núpstúni. Ég hélt þá að ferðinni væri heitið lengra, en svo reyndist ekki vera. Ég man eftir að hafa hlaupið um túnið og upp í brekku. Ég átti lítinn leikfangaboga og skaut víst örvum í allar áttir. Jói frændi minn sagði mér síðar, að þeir bræður hefðu talið mig snarvitlausan. Ég kom í Núpstún á hverju sumri eftir þetta, í lengri eða skemmri tíma, oftast til að vera í bústaðnum með foreldrum mínum, en tvívegis í sumarvinnu, og dvaldi þá á bænum. Ég minnist þess að hafa verið þar þegar fyrsta dráttarvélin var keypt, árið 1949. Hún var af Ferguson gerð, en algengasta tegundin á þeim árum var Farmall. Áður en Fergusoninn kom hafði ég lært að slá með sláttuvél sem dregin var af tveimur hestum. Til þess þurfti talsverða lagni, en með Ferguson varð slátturinn stórum auðveldari og fljótlegri.
Lítil, girt lóð
fylgdi bústaðnum þegar hann var keyptur. Árið 1955 keypti pabbi
stærri spildu, 30x40 m, girti með hárri
girðingu og tók að gróðursetja margs konar tré. Mest var gróðursett
sumarið 1958. Þá var líka
vatnslögnin endurbætt, eins og fyrr er sagt, og rotþró grafin. Ég var erlendis þetta
sumar og fylgdist því ekki með þessum framkvæmdum, en Páll
Guðmundssson í Dalbæ mun hafa stjórnað þeim, m.a. uppsetningu
girðingarinnar. Í henni voru steyptir staurar sem fengnir voru frá
Landgræðslu ríkisins. Með árunum fór ég að fá áhuga á sögu bústaðarins og Núpstúns. Þau Guðmundur og Sigríður fræddu mig um margt sem að henni laut. Viðbætur fékk ég síðar úr ýmsum áttum, meðal annars frá syni þeirra hjóna og frænda mínum, Jóhanni Má. Bústaðurinn hafði verið reistur árið 1929. Guðmundur valdi staðinn fyrir eigandann, Tómas Petersen, en smíðina annaðist Guðjón bóndi í Gröf sem fyrr var nefndur. Tómas var vegaverkstjóri og sá m.a. um lagningu þjóðvegarins þar sem hann er nú, svo og gerð brúar á Stóru-Laxá árið 1929. Eftir að áin var brúuð hefur verið auðveldara um öll aðföng til bústaðarins. Einar Jónsson myndhöggvari hafði látið reisa bústað við næsta bæ, Galtafell, nokkrum árum fyrr (1923) og greinir í endurminningum sínum frá þeim erfiðleikum sem það olli, að ekki var komin brú á ána. Árið 1928 hafði Tómas keypt jörðina Núpstún af Jóni Andréssyni. Jón var fæddur og uppalinn í Núpstúni. Móðir hans hét Kristín Stefánsdóttir, líka fædd og uppalin í Núpstúni. Jón auglýsti jörðina til sölu og seldi Tómasi á 10 þúsund krónur. Þá kemur Guðmundur að Núpstúni sem leiguliði, en hann hafði áður verið skammt frá, í Hólakoti (var fæddur þar).Tómas reisti sumarbústaðinn 1929 eins og fyrr er sagt og nýtt íbúðarhús árið 1934, en dó sama ár. Smiður að íbúðarhúsinu var Guðmundur Einarsson frá Eyrarbakka.
Ástæða þess að
Tómas keypti Núpstúnið mun hafa verið sú, að hann vantaði athvarf
fyrir hesta sína, en hann átti þá marga.
Það vakti athygli þeirra sem komu að Núpstúni, að íbúðarhúsið sneri
ekki eins og þau hús sem fyrir voru og virtist skakkt miðað við
brekkuna fyrir ofan. Tómas á að hafa gert þetta til að fá morgunsólina
fyrr inn um glugga á morgnana. Sagt er, að þegar húsið var risið hafi hann áttað
sig á mistökunum.
Eftir lát Tómasar
erfði Stefán uppeldissonur hans og bróðursonur jörðina, en Ingveldur ráðskona
Tómasar fékk
bústaðinn með lóð og umferðarrétti.
Þegar Guðmundur kaupir af ríkinu er tekið fram í samningnum að námuréttindi fylgi ekki með í kaupunum. Því var það eitt sinn þegar Brynjólfur hafði brugðið sér af bæ, að menn frá Vegagerðinni komu með bíla og gröfu og hófu malartekju í hlíðinni austan við Núpstúnsnípu. Þegar Brynjólfur kom heim brást hann hart við og hótaði að fara af jörðinni ef þeir hættu ekki malartekjunni. Vegagerðarmenn urðu við óskum hans, þótt rétturinn hafi líklega verið þeirra megin. Greinileg verksummerki sjást enn í hlíðinni. Þau Guðmundur og Sigríður gengu í hjónaband árið 1930. Þá kemur Sigríður að Núpstúni, en Guðmundur hafði þá búið þar í tvö ár. Sigríður var frá Fjalli á Skeiðum. Þau hjónin bjuggu fjögur ár í gamla bænum sagði Sigríður mér. Jóhann Már fæddist þar 1931 en Brynjólfur 1936, fyrsta árið í nýja húsinu sagði Sigríður, en líklega hefur hún átt við fyrsta veturinn (1935-36). Eftir að Guðmundur hóf búskap í Núpstúni átti hann í landamæraþrætu við Jón bónda Sigurðsson í Hrepphólum. Sú deila stóð í sex ár og lauk með dómsmáli. Fékk Núpstún þá drjúgan skika af því landi sem Hrepphólamenn höfðu eignað sér. Ég hygg að faðir minn hafi útvegað lögfræðing til að annast málsóknina fyrir Guðmund. Hólar tveir eru í mýrinni vestan við Núpstún. Báðir eru kallaðir Grímhólar, annar Núpstúns-Grímhóll (Vestri Grímhóll eða Stóri Grímhóll) en hinn Hóla-Grímhóll (Eystri Grímhóll eða Litli Grímhóll). Sá síðarnefndi átti að tilheyra Núpstúnslandi samkvæmt dómsúrskurði, en Guðmundur varð við ósk Jóns í Hrepphólum um að hann fengi hólinn til skjóls fyrir hesta sína. Þetta kemur fram í samtali sem Jóhann Már átti við Sigríði móður sína og skráð er á segulband.
Árið 1947 var reistur braggi milli gömlu torfbæjarhúsanna og fjóssins.
Braggi þessi var notaður sem hlaða. Í honum var jafnframt súrheysgryfja.
Um 1950 var torfhlaðan við hlið gamla íbúðarhússins rifin.
Sú hlaða hafði gengið undir nafninu kúahlaðan, enda næst fjósinu.
Árið 1978 var byrjað að grafa fyrir nýju íbúðarhúsi í Núpstúni. Árið 1985 var eldra íbúðarhúsið selt og flutt að Birtingaholti. Þaðan fór það að Myrkholti (1998). Árið 1995 byrjar Páll Jóhannsson frá Dalbæ að grafa fyrir íbúðarhúsi sunnan við gamla torfbæjarstæðið í Núpstúni. Hann flutti svo í húsið í desember 1996 ásamt konu sinni, Margréti Larsen. Páll var náfrændi Brynjólfs í föðurætt. Hann tók við búinu af Brynjólfi smám saman, en formlegt afsal er dagsett 2001. Brynjólfur lést 2017 og Ingilaug kona hans árið eftir. Hús þeirra gekk í arf til Páls og Margrétar. Páll hafði þá ráðist í byggingu nýs fjóss í malargryfju niður við þjóðveginn. Í bókinni Hrunamenn (útg. 1999) eru þessir ábúendur taldir í Núpstúni: -1703- Einar Bjarnason
-1709-1729- Jón Erlendsson 1763-1772 Hafliði Bergsveinsson 1772-1812 Einar Magnússon 1812-1814 Magnús Einarsson 1814-1819 Jón Björnsson 1819-1843 Vigfús Þórðarson 1843-1851 Andrés Magnússon 1851-1854 Sveinn Magnússon 1854-1855 Helga Ketilsdóttir, ekkja Sveins 1855-1868 Bjarni Loftsson 1868-1895 Stefán Þórðarson 1895-1897 Katrín Ólafsdóttir, ekkja Stefáns 1897-1921 Andrés Jónsson 1922-1925 Jón Andrésson 1925-1927 Jón Bjarnason 1927-1928 Filippus Jónsson 1928-1965 Guðmundur Guðmundsson 1965-(1996) Brynjólfur Guðmundsson (1996)- Páll Jóhannson Athuga ber að ábúendur voru ekki alltaf eigendur að jörðinni. Því eru Tómas Petersen og Stefán Petersen ekki á þessum lista. Nokkur óvissa ríkir um elstu ártölin. Síðustu ártölin eru í sviga þar sem Brynjólfur og Páll sinntu búinu í sameiningu um tíma. Brynjólfur slasaðist árið 1993 og náði sér aldrei fyllilega eftir það slys. Jóhann Már segir að Jón Andrésson hafi ráðið því að Guðmundur kom að Núpstúni. Þá hafi fjölskylda Filippusar flutt af jörðinni, nauðug mjög. Kristín, ekkja Andrésar, sem dvalið hafði í Núpstúni frá því að maður hennar lést, hafði að sögn lesið bölbænir yfir Guðmundi vegna flutninganna. Guðmundi hafi verið illa við þau áhrínsorð. Jóhann segir að þegar Andrés gamli lá banaleguna hafi Guðmundur ásamt öðrum dregið hann á sleða langleiðina á sjúkrahús.
Á gömlum myndum
af Núpstúni sést torfbær með tveimur burstum við hlaðið. Undir
vestari burstinni var kúahlaðan, sem fyrr var nefnd. Undir eystri
burstinni hafði íbúðarhúsið verið og var það seinna kallað Gamli
bærinn og var haft fyrir heyhlöðu.
Það hús hafði verið tvílyft, neðri hæðin niðurgrafin. Mun hjónaherbergið hafa verið inn af efri
hæðinni, hlíðarmegin. Á móti
hjónaherberginu segir Jóhann Már að hafi verið eldhús (var
hestakofi þegar ég var í sveit), en innar af göngunum var búrið (kindakofi í
minni tíð).
Vestan við þessi hús var smiðja, en austan við þau annar hestakofi
og svonefndur fiskkofi,
þar sem saltfiskur og saltað kjöt voru geymd. Jóhann
telur líklegt að kofinn sá hafi fyrrum verið kindakofi. Austan við
Gamla bæinn, við
hlaðvarpann, var hænsnakofi. Hann mun áður hafa hýst ýmist
hesta eða kindur, og enn fyrr verið íveruhús vinnufólks. Seinna var
hróflað upp hænsnakofa í túnjaðrinum ofan
við kúahlöðuna, þar sem lítið hesthús var fyrir. Eggin voru sumpart til heimaneyslu en talsvert
var selt, líklega til kaupfélagsins. Einnig var algengt að húsfreyjan í Galtafelli
keypti egg frá Núpstúni.
Þar á bæ var ekki unnt að halda hænsni því að Einar Jónsson
myndhöggvari, sem oft dvaldi í bústað sínum í Galtafelli, þoldi ekki hanagal i morgunsárið. Bróðir
Einars, Bjarni, kenndur við Nýja bíó, átti jörðina, svo að Árni bóndi hlaut að verða við
óskum Einars. Nokkru vestan við bæjarhúsin í Núpstúni, á svonefndum Sandvelli, stóð gripahús og hlaða. Hvort tveggja var rifið 1975, en var þá fyrir löngu orðið ónýtt. Stóð þá eftir braggi sem hafði verið reistur nokkru vestar, líklega um 1950, og gegndi sama hlutverki. Var þar rými fyrir 200 fjár. Á stríðsárunum, 1942 eða 1943, komu hermenn og tjölduðu skammt vestan við Núpstún, niður við svonefnt Gil (Miðfellsgil). Til stóð að þeir kæmu upp herskálum á Stekkjarbakka, einhverjum fallegasta stað í Núpstúnslandi. Ekki leist foreldrum mínum á það. Svo vildi til að faðir minn hafði kynnst verkfræðingi í hernum, Richard Fisher að nafni. Varð hann góður vinur foreldra minna og kom nokkrum sinnum í sumarbústaðinn. Fyrir beiðni pabba fékk Fisher þessu herskálabrölti afstýrt. Seinna meir lét Guðmundur bóndi þennan fallega reit af hendi undir svínabú. Jóhann Már sonur hans og frændi minn sagði mér að Guðmundi hafi verið þetta þvert um geð, en Sigríður kona hans hafi ráðið þessu.
Árið 1986 tók frændi minn
Jóhann Már saman lista yfir örnefni í Núpstúnslandi og afhenti
Örnefnastofnun til varðveislu. Brynjólfur bróðir hans fór yfir
listann og gerði ýmsar viðbætur, þar á meðal
uppdrátt sem sýnir staðsetningu helstu
örnefnanna. Um þetta er fjallað í greinargerð Jónínu Hafsteinsdóttur á Örnefnastofnun. Jóhann sendi síðar
viðbót við listann. Á
stofnuninni er geymt annað plagg með
uppdráttum af hluta Núpstúnslands, einnig teiknað af Brynjólfi.
Þriðja teikningin sem varðveitt er á
Örnefnastofnun er með ólíkri hönd og stafsetningu, en ekki kemur
fram hver hefur teiknað hana.
Til er eldri örnefnalisti sem Þorsteinn Bjarnason fræðimaður frá Háholti
tók saman. Þar birtast örnefni sem fallið höfðu í gleymsku. Má þar sérstaklega nefna "Sniðin" og "Eystri snið" sem nöfn á auðveldustu gönguleiðum upp á
Núpstúnsnípu. Árið 1987 gerði Jón Sigurðsson, bóndi í Hrepphólum
símleiðis athugasemdir við ofangreinda
örnefnalista. Þess má einnig geta, að árið 2008 sendi ég Örnefnastofnun smávægilegar
ábendingar varðandi örnefni í
Núpstúnslandi.
Myndir
~1929. Þetta er elsta myndin af Núpstúni sem ég hef fundið. Hún birtist í bókinni Hrunamenn. Íbúðarhúsið sem byggt var 1934 sést ekki, svo að myndin er eldri. Haughúsið sést. Tómas lét gera það strax og hann kom að Núpstúni, 1928. Athygli vekur að traðirnar eru mun austar en síðar varð og stefna milli fjóss og hlöðu ("kúahlöðu") í átt að litlu hesthúsi í túnjaðrinum. Í brekkunni sést móta fyrir stóru jarðfalli sem enn er sýnilegt þegar þetta er ritað.
~1929 Þessi mynd birtist líka í bókinni Hrunamenn og er sögð sýna
Núpstún fyrir 1930. Hún gæti verið frá sama tíma og fyrri myndin.
Þarna sést lækurinn sem veitt var fram fyrir bæinn. ~1929. Hér kemur þriðja myndin frá sama tíma. Jóhann Már átti eintak af þessari. Þarna sést bæjarlækurinn vel og virðist furðu vatnsmikill. Ekki er hús í beinu framhaldi austur af Gamla bænum eins og fyrrum hafði verið að sögn Jóhanns.
1941. Sumarbústaðurinn skiptir um eigendur. Við bústaðinn standa, talið frá vinstri: Sæmundur Stefánsson, Svanhildur Þorsteinsdóttir, Elín Halldórsdóttir og Ingveldur Jónsdóttir. Snáðinn með bogann er sá sem þetta ritar. Elín var húshjálp hjá foreldrum mínum.
1942. Þessi mynd af bústaðnum er líklega frá sumrinu 1942, áður er
viðbygging hófst. Kominn er pallur framan við. Stúlkan á pallinum
hét
Inga Guðbrandsdóttir. Hún var í vist hjá móður minni um skeið. 1942. Mynd frá sama tíma. Bæjarhús eru öll eins og ég man fyrst eftir þeim. Sunnarlega á túninu er kofi sem kallaður var Hestarétt. Lengst til hægri er Lambhúsið og Lambahlaðan.
1949.
Bæjarhúsin séð austan frá. Undir burstunum, talið frá
vinstri: smiðjan, hesthús, lambhús, annað hesthús, "fiskkofi".
Handan við sjást þökin á Gamla bænum, kúahlöðunni og fjósinu.
1950. Á horninu austan við Gamla bæinn sést hænsnakofi, og í brekkunni má sjá annan hænsnakofa þar sem áður var hesthús.
1950.
Horft að Núpstúni af veginum við Hrepphóla.
1953. Þarna er kúahlaðan horfin og ný hlaða risin.
1960. Vindmyllan horfin. Rafmagn er komið í Núpstún. 1960. Rafmagn komið í bústaðinn.
1964. Búið að rífa Gamla bæinn. Braggi kominn á Sandvöll norðan við gömlu húsin þar (hesthús og hlöðu).
1966. Bragginn og gamla fjósið rifið.
1981. Nýtt íbúðarhús risið í Núpstúni. Mynd úr flugvél. (Kristján Sturlaugsson tók.)
2000.
Trjágróður í vexti.
2006. Nípan sem Núpstún dregur nafn sitt af. Í útlínum klettsins má greina andlitsmynd sem oft var nefnd "Nípukarlinn". Einar Jónsson myndhöggvari sagði andlitið líkjast Viktoríu drottningu. Þegar þarna er komið sögu hefur birki sáð sér í hlíðina úr trjágarði sem komið var upp ofan bæjarins kringum 1945 og síðar stækkaður.
2011. Vatnsbólið í Stekkjargili.
2018
2018. Vert er að bera þessa mynd saman við myndina frá árinu
2000.
Útsýni er fallegt frá Núpstúni. Sjá myndir
|
Sett á vefsíðu 22.8. 2018. Síðast breytt 20.7. 2021 |