Nöfn frumefnanna

eftir Þorstein Sæmundsson

Formáli

Eftirfarandi texti er í meginatriðum samhljóða grein sem birtist í Almanaki Þjóðvinafélagsins fyrir árið 1969. Á þeim tíma sem síðan er liðinn hafa a.m.k. ellefu frumefni bæst við þau 103 sem fyrir voru. Upplýsingar um þessi nýjustu efni voru sóttar á Veraldarvefinn, aðallega Wikipediu, sem geymir margvíslegan gagnlegan fróðleik um frumefnin þótt ósamræmis gæti á stöku stað. Einnig hefur verið stuðst við fréttir í tímaritinu New Scientist. Nokkrar breytingar voru gerðar á fyrri texta, m.a. vegna breyttra reglna um íslenska stafsetningu. 

Inngangur

Frumefni nefnast þau grundvallarefni sem heimurinn er samsettur úr. Með efnafræðilegum rannsóknum hafa menn komist að raun um að langflest þeirra efna sem í náttúrunni finnast eru samsett úr fleiri en einu frumefni. Samsettu efnin eru svo mörg að ekki verður tölu á komið. Frumefnin eru hins vegar tiltölulega fá, um hundrað talsins. Aðeins níu þeirra geta talist algeng á yfirborði jarðar (yfir ½ % af heildarmassa jarðskorpunnar), og alheimurinn í heild virðist svo til eingöngu samsettur úr tveimur frumefnum, vetni og helíni.

Öll efni eru gerð úr örsmáum frumeindum. Í hverri frumeind er kjarni sem geymir mestallt efnismagnið. Kjarninn hefur jákvæða rafhleðslu. Hversu mikil sú rafhleðsla er, fer eftir fjölda tiltekinna öreinda, svonefndra róteinda, í kjarnanum. Allar róteindir bera jafnmikla, jákvæða hleðslu.

Í frumefni eru allar frumeindirnar eins að því leyti að kjarnahleðsla þeirra (þ.e. fjöldi róteinda í hverjum kjarna) er sú sama. Segja má að eiginleikar efnisins ráðist að verulegu leyti af kjarnahleðslunni. Venja er að tölusetja frumefnin eftir kjarnahleðslu þeirra, þannig að frumefni nr. l (vetni) hefur eina róteind í hverjum kjarna, frumefni nr. 2 (helín) tvær róteindir í kjarna o.s.frv. Í náttúrunni hafa fundist frumefni frá nr. 1 (vetni) til nr. 92 (úrans). Sum þessara efna eru sjaldgæf fyrir þá sök að þau eru óstöðug og hafa tilhneigingu til að breytast í önnur stöðugri. Þetta gerist á þann hátt að kjarnar frumeindanna geisla frá sér rafhlöðnum ögnum svo að kjarnahleðslan breytist. Hin óstöðugu efni eru því jafnframt geislavirk. Frumefni nr. 43, 61, 84, 85, 86, 87, 89 og 91 eru öll óstöðug (geislavirk), en hafa þó fundist í náttúrunni í smáum stíl. Frumefni nr. 43 og 61 reyndust vandfundin og voru fyrst búin til í rannsóknarstofum með kjarnfræðilegum aðferðum. Á síðari árum hefur eðlisfræðingum tekist að fá fram frumefni handan við nr. 92 í frumefnaröðinni. Hafa nokkur slík frumefni verið búin til með ærinni fyrirhöfn, en þó aðeins örlítið af hverju, stundum aðeins fáeinar frumeindir í einu. Öll þessi nýju frumefni hafa reynst óstöðug og því ekki varanleg.

Nútímahugmyndir um frumefnin má rekja til enska efnafræðingsins Róberts Boyles sem uppi var á 17. öld. Hugmyndir þessar festu þó ekki fyllilega rætur fyrr en Frakkinn Antoine Lavoisier gerði þeim betri skil meira en öld síðar. Lavoisier varð fyrstur til að birta lista yfir frumefni í nútímaskilningi (1789). Þótt sá listi væri ekki villulaus, voru þar talin 23 eiginleg frumefni.

Af þeim efnum sem þekkt voru í fornöld eru 9 frumefni: kolefni, brennisteinn, járn, kopar, silfur, tin, gull, kvikasilfur og blý. Líklegt er að eitt frumefni enn, platína, hafi verið þekkt meðal Indíána í Suður-Ameríku. Þegar kom fram á 17. öld höfðu bæst í hópinn 5 efni, sem síðar sannaðist að voru frumefni: arsenik, antímon, sink, bismút og fosfór. Á 18. öld, þegar hugmyndir manna um frumefnin tóku að skýrast, hófst kerfisbundin leit að þeim. Fyrir aldamótin 1800 höfðu 15 ný frumefni fundist, en á 19. öldinni fundust hvorki meira né minna en 52 til viðbótar. Eftir síðustu aldamót komu 6 þau síðustu í leitirnar, auk þeirra sem búin hafa verið til á rannsóknarstofum eða greinst hafa í leifum eftir vetnissprengju.

Þeir sem fundið hafa ný frumefni hafa yfirleitt ráðið mestu um það hvað efnin yrðu látin heita. Nú á tímum er nafngiftin þó borin undir alþjóðlega nefnd til staðfestingar. Hin alþjóðlegu nöfn hafa latneska mynd, en í hverju landi eru þó notuð þjóðleg nöfn eða afbrigði, einkum um algengustu efnin.

Í fyrstu skránni, sem hér fer á eftir, hef ég tekið saman stuttar skýringar á frumefnaheitunum. Hef ég þar stuðst við eftirtalin rit: Kemi for Gymnasiet eftir Peter Schiøler, The Chemical Elements eftir Helen Miles Davis, The Oxford Dictionary of English Etymology, The Shorter Oxford English Dictionary, The Concise Oxford Dictionary, Van Nostrands Scientific Encyclopedia, Webster's Third New International Dictionary, Handbook of Chemistry and Physics (46. útgáfa) og Chemie Lexikon eftir Römpp. Samanburður heimilda reyndist nauðsynlegur þar sem skýringum bar ekki ætíð saman.

Í skránni er jafnframt getið um íslensk heiti frumefnanna með nokkrum skýringum. Íslensku heitin eru síðan rakin í annarri skrá í stafrófsröð, en síðan í þriðju skránni eftir frumefnatáknum. Um íslensku heitin hef ég haft samráð við þá Braga Árnason efnafræðing, Pál Theodórsson eðlisfræðing, Steingrím Baldursson prófessor, Trausta Einarsson prófessor, Þorbjörn Sigurgeirsson prófessor og Örnólf Thorlacius menntaskólakennara. Kann ég þeim öllum þakkir fyrir góðar ábendingar, þótt ekki reyndust þær samrýmanlegar að öllu leyti. Frá hefðbundnum íslenskum nöfnum hefur ekki verið vikið að öðru leyti en því, að orðið ildi kemur í stað súrefnis og nitur í stað köfnunarefnis. Bæði heitin, ildi og nitur, hafa áður komið fram, og mun það síðara runnið frá dr. Guðmundi Finnbogasyni. Orðmyndin flúr (í stað flúors) hefur einnig verið notuð áður, sbr. Tækniorðasafn Sigurðar Guðmundssonar, enda er hún einkar hentug í samsetningum (flúrspat, flúrsýra, flúrljóm). Í stað latnesku endingarinnar -ium, sem algeng er í frumefnaheitum, hefur sú leið verið valin að nota endinguna -ín, sem er þjálli í íslensku máli, eða fella endinguna niður með öllu, hafi það verið unnt með góðu móti.

Þess má geta, að kveikjan að þessari samantekt mun hafa verið ábending frá Þorsteini Halldórssyni eðlisfræðingi, sem starfaði samtíma mér á Raunvísindastofnun, að verulega skorti nothæfar íslenskar þýðingar á nöfnum frumefnanna.

Um hin íslensku frumefnaheiti mætti rita lengra mál, en þetta mun þó látið nægja að sinni.
 

I. Alþjóðleg frumefnaheiti eftir númeraröð
 

1 H
 
Hydrogenium, dregið af grísku orðunum hydor = vatn, og gennan = að mynda, þ.e. efni sem myndar vatn. Ísl. vetni. Fannst á 18. öld.
2 He
 
Helium, eftir gríska orðinu helios = sólin, af því að efnisins varð fyrst vart í sólinni (með litrófsrannsóknum). Ísl. helín. Fannst á 19. öld.
3 Li
 
Lithium, eftir gríska orðinu lithos = steinn. Svo nefnt vegna þess að það var fyrsti alkalímálmur sem fannst í steinaríkinu. Ísl. liþín. Fannst á 19. öld.
4 Be
 
Beryllium, eftir gimsteinategundinni beryl sem efnið fannst í. Ísl. beryllín. Fannst á 18. öld.
5 B Boron, eftir efninu bórax sem inniheldur þetta frumefni. Ísl. bór. Fannst á 19. öld.
6 C Carbon, gamalt latneskt nafn. Ísl. kolefni. Þekkt þegar sögur hófust.
7 N

 

Nitrogenium, eftir grísku orðunum nitron = saltpétur, og gennan = að mynda, þ.e. efni sem myndar saltpétur. Ísl. nitur, beygist eins og eitur. Einnig nefnt köfnunarefni. Fannst á 18. öld.

8 O

 

Oxygenium, eftir grísku orðunum oxys = súr, og gennan = að mynda, þ.e. efni sem myndar sýrur. Ísl. ildi, dregið af eldur, vegna þess að efnið er skilyrði fyrir bruna. Einnig nefnt súrefni. Fannst á 18.öld.

9 F

 

Fluor, eftir latnesku sögninni fluere = að renna. Efni sem innihalda þetta frumefni hafa frá fornu fari verið notuð til að auðvelda málmbræðslu og fá málminn til að "renna". Ísl. flúr. Fannst á 19. öld.

10 Ne Neon, eftir gríska orðinu neos = nýr, þ.e. nýtt frumefni. Ísl. neon. Fannst á 19. öld.
11 Na

 

Natrium, eftir arabíska orðinu natrun og gríska orðinu nitron sem bæði merkja saltpétur, en frumefnið finnst í saltpétri. Enskumælandi þjóðir nota heitið sodium, dregið af latneska orðinu soda = sódi, þar sem frumefnið finnst líka í sóda. Ísl. natrín. Fannst á 19. öld.

12 Mg
 

Magnesium, eftir efninu magnesia (MgO) sem aftur heitir eftir samnefndri borg í Litlu-Asíu. Ísl. magnesín.  Fannst á 19. öld.

13 Al
 

Aluminium, eftir latneska heitinu alumen = álún, en það efni inniheldur frumefnið. Ísl. ál. Fannst á 19. öld.

14 Si


 

Silicium, eftir latneska orðinu silex = harður steinn eða tinnusteinn, en þetta frumefni er eitt aðalefnið í flestum steinum. Enskumælandi þjóðir nota nafnið silicon. Ísl. kísill, dregið af þýska orðinu Kiesel sem var hið upphaflega nafn á frumefninu og samsvaraði merkingu sama latneska orðsins (silex). Fannst á 19. öld.

15 P
 

Phosphorus, eftir gríska orðinu phosphoros = ljósberi, vegna sjálflýsandi eiginleika efnisins. Ísl. fosfór. Fannst á 17. öld.

16 S
 
Sulphur, gamalt latneskt nafn. Ísl. brennisteinn, steinn sem brennur. Þekkt þegar sögur hófust.
17 Cl
 
Chlor, eftir gríska orðinu khloros = grænn. Nafnið vísar til litar lofttegundarinnar. Ísl. klór. Fannst á 18. öld.
18 Ar
 

Argon, eftir gríska orðinu argos = óvirkur, því að lofttegund þessi tekur sjaldan þátt í efnabreytingum. Ísl. argon. Fannst á 19. öld.

19 K


 

Kalium, eftir arabíska heitinu al-kali = plöntuaska, en slík aska inniheldur efnið. Enskumælandi þjóðir nota heitið potassium, dregið af  hollenska orðinu potasschen = pottaska, vegna aðferðar sem beitt var til að ná einu efnasambandi þessa frumefnis (K2CO3) úr viðarösku. Ísl. kalín. Fannst á 19. öld.

20 Ca
 
Calcium, eftir latneska heitinu calx = kalk, vegna þess að efnið er í kalki. Ísl. kalsín. Fannst á 19. öld.
21 Sc
 
Scandium, dregið af heitinu Skandinavía. Svíinn Lars Fredrik Nilson fann efnið í steinefnum í Skandinavíu. Ísl. skandín. Fannst á 19. öld.
22 Ti
 

Titanium, dregið af nafninu Titan sem var risi og sólguð í grískri goðafræði. Nafnið mun þó ekki hafa verið valið vegna eiginleika efnisins. Ísl. títan. Fannst á 18. öld.

23 V
 
Vanadium, dregið af Vanadís (= Freyja). Efnið fannst í Svíþjóð. Ísl. vanadín. Fannst á 19. öld.
24 Cr
 
Chromium, eftir gríska orðinu khroma = litur, vegna litríkra sambanda þessa efnis við ildi. Ísl. króm. Fannst á 18. öld.
25 Mn

 
Manganium. Nafnið hefur á óskýrðan hátt þróast úr heitinu magnesia, sem frumefni nr. 12, magnesium, er einnig kennt við. Heitið magnesium var fyrst notað um þetta frumefni, sem nú er kallað manganium. Ísl. mangan. Fannst á 18. öld.
26 Fe
 
Ferrum, gamalt latneskt nafn. Ísl. járn, álitið vera tökuorð úr keltnesku. Þekkt þegar sögur hófust.
27 Co
 
Cobaltum, dregið af þýska orðinu Kobolt, en svo nefndu námamenn bergálfa, sem þeir trúðu á. Ísl. kóbalt. Fannst á 18. öld.
28 Ni

 

Niccolum, stytting úr þýska orðinu Kupfernickel = steinefni sem þetta frumefni var fyrst unnið úr. Kupfer = kopar, og nickel = púki, ári, svo nefnt vegna þess að steintegundin innihélt ekki kopar þótt hún væri svipuð á að líta. Ísl. nikull. Fannst á 18. öld.

29 Cu
 

Cuprum, eftir latneska heitinu "æs Cyprium" = málmur frá Kípur. Ísl. kopar. Þekkt þegar sögur hófust.

30 Zn
 
Zincum, dregið af þýska heitinu Zink, en uppruni þess er óviss. Ísl. sink. Fannst á 16. öld.
31 Ga
 

Gallium, eftir latneska nafninu Gallia = Frakkland, en það var föðurland þess sem efnið fann (Lecoc de Boisbaudran). Ísl. gallín. Fannst á 19.öld.

32 Ge
 
Germanium, eftir latneska nafninu Germania = Þýskaland. Þjóðverjinn Clemens Winkler uppgötvaði efnið. Ísl. german. Fannst á 19. öld.
33 As

 
Arsenicum, dregið af arabíska heitinu az-zernikh, en zernikh er komið frá persneska orðinu zar = gull, sem vísar til gula litarins í einu efnasambandi frumefnisins (litarefninu arsen-þrísúlfíð) sem finnst í náttúrunni. Ísl. arsen. Fannst á 13. öld.
34 Se

 

Selenium, eftir gríska orðinu selene = tunglið. Nafnið er myndað sem hliðstæða við nafn frumefnis nr. 52 (tellurium) vegna svipaðra eiginleika efnanna. Ísl. selen. Fannst á 19. öld.

35 Br
 

Brom, dregið af gríska orðinu bromos = fýla, vegna þess hve daunillur vökvinn er. Ísl. bróm. Fannst á 19. öld.

36 Kr
 

Krypton, eftir gríska orðinu kryptos = falinn, sem vísar til þess að örlítið af þessari lofttegund leynist í andrúmsloftinu. Ísl. krypton. Fannst á 19. öld.

37 Rb
 
Rubidium, eftir latneska orðinu rubidus = rauður. Nafnið vísar til rauðra litrófslína frá frumefninu. Ísl. rúbidín. Fannst á 19. öld.
38 Sr
 

Strontium, kennt við staðarnafnið Strontian í Skotlandi, en þar finnast steinefni sem innihalda þetta frumefni. Ísl. strontín. Fannst á 19. öld.

39 Y
 

Yttrium, kennt við bæinn Ytterby í Svíþjóð, en í steinefnum þaðan fundust þetta og fleiri sjaldgæf frumefni (sbr. frumefni nr. 65, 68 og 70). Ísl. yttrín. Fannst á 19. öld.
40 Zr
 
Zirconium, dregið af nafni steintegundarinnar zircon (á arabísku zarqun, nafnskýring óviss). Ísl. sirkon. Fannst á 18. öld.
41 Nb

 
Niobium, dregið af nafni Niobe sem var grísk gyðja, dóttir Tantalusar, en frumefni þetta finnst oft með frumefni nr. 73 (tantalum) í náttúrunni. Áður kallað columbium. Ísl. nióbín. Fannst á 19. öld.
42 Mo
 

Molybdænium, eftir gríska orðinu molybdos = blý, því að efnið fannst í blýsamböndum. Ísl. mólybden. Fannst á 18. öld.

43 Tc

 

Technetium, myndað af sama orðstofni og nýyrðið tækni (sbr. gríska orðið tekhne = list). Nafnið vísar til þess að efnið var búið til á tæknilegan hátt, með því að skjóta nifteindum á frumefnið mólýbden. Fyrsta manngerða frumefnið. Ísl. teknetín. Búið til árið 1937, en fannst síðar í örlitlu magni í náttúrunni..

44 Ru
 

Ruthenium, eftir latneska nafninu Ruthenia = Rússland, en frumefnið fannst í platínugrýti í Úralfjöllum. Ísl. rúþen. Fannst á 19. öld.

45 Rh
 

Rhodium, dregið af gríska orðinu rhodon =  rós, því að mörg af efnasamböndum þessa frumefnis eru rósrauð. Ísl. ródín. Fannst á 19. öld.

46 Pd
 
Palladium, eftir smástirninu Pallas (= grískt gyðjunafn) sem fannst skömmu áður en frumefnið var uppgötvað. Ísl. palladín. Fannst á 19. öld.
47 Ag Argentum, fornt latneskt nafn. Ísl. silfur. Þekkt þegar sögur hófust.
48 Cd
 

Cadmium, dregið af gríska nafninu kadmeia sem var heiti á sinkauðugri leirtegund, en frumefni þetta finnst helst innan um sinkgrýti. Ísl. kadmín. Fannst á 19. öld.

49 In
 
Indium, dregið af indígóblárri litrófslínu sem einkennir þetta frumefni. Ísl. indín. Fannst á 19. öld.
50 Sn Stannum, gamalt latneskt heiti. Ísl. tin, nafnskýring óviss. Þekkt þegar sögur hófust.
51 Sb 

Stibium, dregið af gríska orðinu stibium, en svo hét steintegund (nú stibnít eða antímonít) sem inniheldur stibium og notað var til að dekkja augabrúnir að fornu. Ísl. antímon, dregið af nafni frumefnisins eins og það er á flestum tungumálum. Það nafn hefur ekki tekist að skýra, en vera kann að það sé afbökun úr hinu nafninu í einhverri mynd þess. Fannst á 15. öld.
52 Te Tellurium, eftir latneska orðinu tellus = jörð, en ekki er hægt að benda á knýjandi ástæðu fyrir þeirri nafngift. Ísl. tellúr. Fannst á 18. öld.
53 I
 

Iod, eftir gríska orðinu iodes = fjólublár, sem vísar til litar efnisins. Ísl. joð. Fannst á 19. öld.

54 Xe Xenon, dregið af gríska orðinu xenos = framandi. Ísl xenon. Fannst á 19. öld.
55 Cs
 

Cæsium, eftir latneska orðinu cæsius = blágrár, sem vísar til litrófslínu frá frumefninu. Ísl. sesín. Fannst á 19. öld.

56 Ba

 

Barium, dregið af gríska orðinu barys = þungur, en frumefnið fannst í efninu baryta, sem dregur nafn af steintegundinni barít = þungspat, svo nefnt vegna mikillar eðlisþyngdar. Ísl. barín. Fannst á 19. öld.

57 La
 

Lanthanum, eftir grísku sögninni lanthanein = að leynast. Nafnið vísar til þess að efnið leyndist í serínsambandi. Ísl. lanþan. Fannst á 19. öld.

58 Ce
 

Cerium, kennt við smástirnið Ceres (= rómverskt gyðjunafn) sem var nýfundið þegar frumefnið var uppgötvað. Ísl. serín. Fannst á 19. öld.

59 Pr

 

Praseodymium, dregið af grísku orðunum prasios = laukgrænn, sem vísar til litar efnasambanda þessa frumefnis, og didymos = tvíburi, sbr. frumefni nr. 60. Ísl. praseódým. Fannst á 19. öld.

60 Nd


 

Neodymium, dregið af grísku orðunum neos = nýr, og didymos = tvíburi. Þetta frumefni og hið næsta á undan (praseódým) voru í fyrstu álitin eitt frumefni sem gekk það undir nafninu didymium af því að fundur þess var tengdur fundi annars efnis (lanþans). Ísl. neódým. Fannst á 19. öld.

61 Pm

 

Promethium, kennt við Prometheus, goðsögulega hetju sem stal eldinum frá guðunum. Efnið var myndað í kjarnaofni, og nafnið mun vísa til þess að með beislun kjarnorkunnar hafi menn stolið eldinum frá guðunum í annað sinn. Ísl. prómeþín. Búið til árið 1945.

62 Sm
 

Samarium, eftir steintegundinni samarskít sem efnið fannst fyrst í, en sú steintegund var kennd við Rússann Samarski. Ísl. samarín. Fannst á 19. öld.

63 Eu Europium, kennt við álfuna Evrópu. Ísl. evrópín. Fannst árið 1901.
64 Gd
 

Gadolinium, til heiðurs finnska efnafræðingnum Gadolin (það var þó ekki hann sem efnið fann). Ísl. gadólín. Fannst á 19. öld.

65 Tb
 

Terbium, eftir bænum Ytterby í grennd við Stokkhólm (sbr. frumefni nr. 39, 68 og 70). Ísl. terbín. Fannst á 19. öld.

66 Dy
 

Dysprosium, eftir gríska orðinu dysprositos = vandfenginn. Ísl. dysprósín. Fannst á 19. öld.

67 Ho
 

Holmium, eftir latneska nafninu Holmia = Stokkhólmur, en efnasambönd með þessu frumefni finnast í nágrenni borgarinnar. Ísl. holmín. Fannst á 19. öld.

68 Er
 

Erbium, eftir bænum Ytterby í Svíþjóð, sbr. frumefni nr. 39, 65 og 70. Ísl. erbín. Fannst á 19. öld.

69 Tm

 

Thulium, dregið af latneska landsheitinu Thule. Frakkinn P.T. Cleve, sem fann frumefnið í steinefnum frá Svíþjóð, taldi Thule hafa verið elsta nafnið á Skandinavíu. Ísl. túlín. Fannst á 19. öld.

70 Yb
 

Ytterbium, eftir bænum Ytterby í Sviþjóð, sbr. frumefni nr. 39, 65 og 68. Ísl. ytterbín. Fannst á 19. öld.

71 Lu

 

Lutetium, dregið af nafninu Lutetia sem var gamalt latneskt nafn á París. Frakkinn Georges Urbain, annar tveggja sem frumefnið fundu, gaf því þetta nafn. Ísl. lútesín. Fannst árið 1907.

72 Hf
 

Hafnium, eftir latneska nafninu Hafnia = Kaupmannahöfn, en þar fóru fram frumrannsóknir á efninu. Ísl. hafnín. Fannst árið 1923.

73 Ta 

Tantalum, dregið af nafninu Tantalus, en svo hét goðsögulegur konungur sem dæmdur var til að standa upp að höku í vatni sem lækkaði í hvert sinn sem hann laut til að drekka. Samlíkingin er runnin af því að tantaloxíð, sem upphaflega var kallað tantal, leysist ekki upp í sýrum eins og önnur málmoxíð, þ.e. meðtekur ekki sýruna þótt nóg sé af henni. Ísl. tantal. Fannst á 19. öld.

74 W


 

Wolframium, dregið af Wolfram, en svo nefndu þýskir námamenn sambönd af þessu efni. Wolf = úlfur, en að öðru leyti er nafnskýringin óviss. Þetta frumefni gengur einnig  undir hinu sænska nafni tungsten (þungsteinn),  ekki þó í Svíþjóð. Ísl. volfram. Fannst á 18. öld.

75 Re

 

Rhenium, eftir latneska nafninu Rhenus = Rín (fljótið). Nafnið völdu Þjóðverjarnir Walter Noddack, Ida Tacke og Otto Berg, sem fundu efnið. Ísl. renín. Fannst árið 1925.

76 Os
 

Osmium, dregið af gríska orðinu osme = lykt, þefur, vegna lyktarinnar af efnasambandinu osmín-tetroxíð (OsO4). Ísl. osmín. Fannst á 19. öld.

77 Ir
 

Iridium, eftir gríska orðinu iris = regnbogi, vegna litríkra efnasambanda. Ísl. iridín. Fannst á 19. öld.

78 Pt
 
Platinum, dregið af spænska orðinu platina = silfurlíki (plata = silfur). Ísl. platína. Óvíst er hvenær efnið fannst fyrst.
79 Au

Aurum, gamalt latneskt nafn. Ísl. gull. Þekkt þegar sögur hófust.

80 Hg


 

Hydrargyrum, dregið af gríska heitinu hydrargyros sem myndað er úr orðunum hydor = vatn, og argyros = silfur, þ.e. fljótandi silfur. Enskumælandi þjóðir nota heitið mercury eftir Merkúríusi, hinum fráa sendiboða guðanna í goðsögum Rómverja. Ísl. kvikasilfur. Þekkt þegar sögur hófust.

81 Tl
 
Thallium, dregið af gríska orðinu thallos = grænn kvistur, vegna sterkgrænnar litrófslínu þessa frumefnis. Ísl. þallín. Fannst á 19. öld.
82 Pb

Plumbum. Gamalt latneskt nafn. Ísl. blý, uppruni óviss. Þekkt þegar sögur hófust.

83 Bi
 
Bismuthum, eftir fornþýsku heiti efnisins (Bismut). Nafnskýring óviss. Ísl. bismút. Fannst á 16. öld.
84 Po
 

Polonium, kennt við Pólland, föðurland Marie Curie, sem ásamt manni sínum uppgötvaði efnið. Ísl. pólon. Fannst á 19. öld.

85 At
 

Astat, eftir gríska orðinu astatos = óstöðugur, vegna þess að efnið er óstöðugt (geislavirkt). Ísl. astat. Búið til 1940 en fannst síðar í náttúrunni.

86 Rn

 

Radon, eftir frumefninu radín (radium) vegna þess að efnið verður til við ummyndun radíns, og einnig eftir frumefninu argon vegna skyldleika við það frumefni. Ísl. radon. Fannst árið 1900.

87 Fr
 

Francium, kennt við Frakkland. Franska konan M. Perey fann efnið. Ísl. fransín. Fannst árið 1939. Síðasta frumefnið sem fannst í náttúrunni.

88 Ra
 

Radium, dregið af latneska orðinu radius = geisli, vegna geislavirkni efnisins. Ísl.radín. Fannst á 19. öld.

89 Ac
 

Actinium, dregið af gríska orðinu aktis = geisli, vegna geislavirkni efnisins. Ísl. aktín. Fannst á 19. öld.

90 Th
 

Thorium, kennt við guðinn Þór. Svíinn Berselius fann það í steinefnum frá Noregi. Ísl. þórín. Fannst á 19. öld.

91 Pa

 

Protactinium, dregið af gríska orðinu protos = fyrstur, og actinium = frumefni nr. 89, m.ö.o. for-aktín, vegna þess að það ummyndast í aktín. Ísl. prótaktín. Fannst árið 1917.

92 U
 

Uranium, kennt við reikistjörnuna Úranus sem fannst um svipað leyti og var látin heita eftir grísk-rómverska himinguðnum. Ísl. úran. Fannst á 18.öld.

93 Np

 

Neptunium, eftir reikistjörnunni Neptúnusi sem er næsta reikistjarna við Úranus, talið frá sólu. Reikistjarnan var kennd við samnefndan sjávarguð. Ísl. neptún. Fyrst búið til á rannsóknarstofu í Bandaríkjunum árið 1940.

94 Pu

 

Plutonium, eftir Plútó, sem löngum taldist vera reikistjarna, sú ysta í sólkerfinu. Reikistjarnan var kennd við guð undirheimanna. Ísl. plúton. Búið til á rannsóknarstofu í Bandaríkjunum árið 1941.

95 Am

 

Americium, kennt við Ameríku, en þar var efnið fyrst framleitt. Í frumefnaröðinni stendur þetta efni hliðstætt við nr. 63 sem kennt var við Evrópu. Ísl. amerikín. Búið til á rannsóknarstofu í Bandaríkjunum árið 1944.

96 Cm

 

Curium, til heiðurs hjónunum Marie og Pierre Curie (ekki þó svo að skilja að þau hafi fundið þetta frumefni, en þau fundu önnur, s.s. radín og pólon). Ísl. kúrín. Búið til á rannsóknarstofu í Bandaríkjunum árið 1944.

97 Bk
 

Berkelium, kennt við háskólann í Berkeley í Kaliforníu, þar sem efnið var fyrst búið til árið 1949. Ísl. berkelín.  

98 Cf
 

Californium, kennt við Kaliforníu af því að efnið var fyrst búið til þar (í Berkeley) árið 1950. Ísl. kalifornín.

99 Es

 
Einsteinium, til heiðurs eðlisfræðingnum Albert Einstein. Fannst árið 1952 í geislavirkum efnum eftir fyrstu vetnissprengjuna og var síðar búið til á rannsóknarstofu. Ísl. einsteinín.
100 Fm

 

Fermium, til heiðurs ítalska eðlisfræðingnum Enrico Fermi. Fannst árið 1952 í geislavirkum efnum eftir fyrstu vetnissprengjuna og var síðar búið til á rannsóknarstofu. Ísl. fermín.

101 Md

 

Mendelevium, til heiðurs rússneska efnafræðingnum Dmitri Ivanovich Mendeleev sem skipaði frumefnunum í kerfi. Ísl. mendelevín. Búið til á rannsóknarstofu í Bandaríkjunum árið 1955.

102 No


 

Nobelium, til heiðurs Svíanum Alfred Nobel. Álitið var að þessa frumefnis hefði fyrst orðið vart við tilraunir á Nóbelsstofnuninni í Svíþjóð árið 1957. Sá fundur er nú dreginn í efa. Árið 1958 tókst að búa efnið til í Bandaríkjunum, en ákveðið var að halda nafninu óbreyttu. Ísl. nóbelín.

103 Lr


 

Lawrentium, til heiðurs bandaríska eðlisfræðingnum Ernest O. Lawrence sem fann upp cyclotron-hraðalinn og átti þátt í sköpun fyrsta frumefnisins af manna höndum (teknetíns). Ísl. lárensín. Upphafleg skammstöfun þessa frumefnis var Lw. Búið til í bandarískri rannsóknarstofu árið 1961.

104 Rf
 
Rutherfordium, til heiðurs nýsjálenska eðlisfræðingnum Ernest Rutherford. Ísl. rúterfordín. Fyrst búið til í rannsóknarstöð í Sovétríkjunum árið 1964.
105 Db


 
Dubnium, eftir borginni Dubna, miðstöð rússneskra kjarnarannsókna. Lengi vel stóðu deilur um nafnið þar sem bandarískum eðlisfræðingum tókst ekki að staðfesta fund rússneskra vísindamanna, sem þeir höfðu kynnt árið 1967. Bandaríkjamenn framkölluðu efnið með öðrum aðferðum árið 1970. Ísl. dúbnín.
106 Sg


 
Seaborgium, til heiðurs bandaríska efnafræðingnum Glenn Seaborg sem átti þátt í að framkalla og greina fjölda nýrra frumefna. Um skeið stóðu deilur um nafngiftina þar sem rússneskir og bandarískir vísindamenn tilkynntu um fund efnisins á svipuðum tíma (1974). Ísl. seborgín.
107 Bh
 
Bohrium, til heiðurs danska eðlisfræðingnum Niels Bohr. Fyrst búið til í Sovétríkjunum árið 1976. Ísl. bórín.
108 Hs
 
Hassium, dregið af nafni þýska ríkisins Hessen, en efnið var búið til á rannsóknarstofu þar (í Darmstadt) árið 1984. Ísl. hassín.
109 Mt
 
Meitnerium, til heiðurs austurríska eðlisfræðingnum Lísu Meitner. Efnið var fyrst búið til á rannsóknarstofu í Darmstadt í Þýskalandi árið 1982. Ísl. meitnerín.
110 Ds
 
Darmstadtium, dregið af nafni þýsku borgarinnar Darmstadt þar sem efnið var fyrst búið til árið 1994. Ísl. darmstatín.
111 Rg
 
Röntgenium, til heiðurs þýska eðlisfræðingnum Wilhelm Röntgen. Efnið var fyrst búið til á rannsóknarstofu í Darmstadt í Þýskalandi árið 1994. Ísl. röntgenín.
112 Cn
 
Copernicium, bráðabirgðaheiti frumefnis sem fyrst var búið til á rannsóknarstofu í Darmstadt í Þýskalandi árið 1996. Ísl. kópernikín.
113 Nh
 
Nihonium, frumefni sem japanskir vísindamenn urðu fyrstir til að framkalla árið 2004. Ísl. níhon.
114 Fl
 
Flerovium, frumefni sem fyrst var búið til í Flerov rannsóknarstöðinni í Rússlandi árið 1998. Ísl. fleróvín.
115 Mc
 
Moscovium, frumefni sem fyrst var  búið til í Rússlandi og Bandaríkjunum árið 2003. Ísl. moskóvín.
116 Lv
 
Livermorium, frumefni sem búið var til í samvinnu vísindamanna við Lawrence Livermore rannsóknarstöðina í Bandaríkjunum og Flerov rannsóknarstöðina í Rússlandi árið 2000. Ísl. livermorín.

117
Ts

Tennessine, bráðabirgðaheiti frumefnis sem framkallað var í samvinnu bandarískra og rússneskra vísindamanna árið 2010. Ísl. tennessín.
118
Og
Organesson, frumefni sem framkallað var í samvinnu rússneskra og bandarískra vísindamanna á árunum 2002-2005. Ís. organesson.

 

II. Íslensk frumefnaheiti í stafrófsröð

  89 Ac Aktín
  95 Am Amerikín
  51 Sb Antímon
  18 Ar Argon
  33 As Arsen
  85 At Astat
  13 Al Ál
  56 Ba Barín
  97 Bk Berkelín
    4 Be Beryllín
  83 Bi Bismút
  82 Pb Blý
    5 B Bór
107 Bh Bórín
  16 S Brennisteinn
  35 Br Bróm
110 Ds Darmstatín
105 Db Dúbnín
  66 Dy Dysprósín
  99 Es Einsteinín
  68 Er Erbín
  63 Eu Evrópín
100 Fm Fermín
114
Fl
Fleróvín
    9 F Flúr
  15 P Fosfór
  87 Fr Fransín
  64 Gd Gadólín
  31 Ga Gallín
  32 Ge German
  79 Au Gull
  72 Hf Hafnín
 108 Hs Hassín
    2 He Helín
  67 Ho Holmín
    8 O Ildi (súrefni)
  49 In Indín
  77 Ir Iridín
  26 Fe Járn
  53 I Joð
  48 Cd Kadmín
  98 Cf Kalifornín
  19 K Kalín
  20 Ca Kalsín
  14 Si Kísill
  17 Cl Klór
    6 C Kolefni
  29 Cu Kopar
  27 Co Kóbalt
112
Cn
Kópernikín
  24 Cr Króm
  36 Kr Krypton
  96 Cm Kúrín
  80 Hg Kvikasilfur
  57 La Lanþan
103 Lr Lárensín
116
Lv
Livermorín
    3 Li Liþín
  71 Lu Lútesín
  12 Mg Magnesín
  25 Mn Mangan
101 Md Mendelevín
109 Mt Meitnerín
115
Mc
Moskóvín
  42 Mo Mólýbden
  11 Na Natrín
  10 Ne Neon
  60 Nd Neódým
  93 Np Neptún
  28 Ni Nikull
    7 N Nitur (köfnunarefni)
113
Nh
Níhon
  41 Nb Níóbín
102 No Nóbelín
118
Og
Organesson
  76 Os Osmín
  46 Pd Palladín
  78 Pt Platína
  94 Pu Plúton
  84 Po Pólon
  59 Pr Praseódým
  61 Pm Prómeþín
  91 Pa Prótaktín
  88 Ra Radín
  86 Rn Radon
  75 Re Renín
  45 Rh Ródín
  37 Rb Rúbidín
104 Rf Rúterfordín
  44 Ru Rúþen
111 Rg Röntgenín
  62 Sm Samarín
106 Sg Seborgín
  34 Se Selen
  58 Ce Serín
  55 Cs Sesín
  47 Ag Silfur
  30 Zn Sink
  40 Zr Sirkon
  21 Sc Skandín
  38 Sr Strontín
  73 Ta Tantal
  43 Tc Teknetín
  52 Te Tellúr
117
Ts
Tennessín
  65 Tb Terbín
  50 Sn Tin
  22 Ti Títan
  69 Tm Túlín
  92 U Úran
  23 V Vanadín
    1 H Vetni
  74 W Volfram
  54 Xe Xenon
  70 Yb Ytterbín
  39 Y Yttrín
  81 Tl Þallín
  90 Th Þórín

 

III. Íslensk frumefnaheiti eftir táknaröð

  89 Ac Aktín
  47 Ag Silfur
  13 Al Ál
  95 Am Amerikín
  18 Ar Argon
  33 As Arsen
  85 At Astat
  79 Au Gull
    5 B Bór
  56 Ba Barín
    4 Be Beryllín
107 Bh Bórín
  83 Bi Bismút
  97 Bk Berkelín
  35 Br Bróm
    6 C Kolefni
  20 Ca Kalsín
  48 Cd Kadmín
  58 Ce Serín
  98 Cf Kalifornín
  17 Cl Klór
  96 Cm Kúrín
112
Cn
Kópernikín
  27 Co Kóbalt
  24 Cr Króm
  55 Cs Sesín
  29 Cu Kopar
105 Db Dúbnín
110 Ds Darmstatín
  66 Dy Dysprósín
  68 Er Erbín
  99 Es Einsteinín
  63 Eu Evrópín
    9 F Flúr
114
Fl
Fleróvín
  26 Fe Járn
100 Fm Fermín
  87 Fr Fransín
  31 Ga Gallín
  64 Gd Gadólín
  32 Ge German
    1 H Vetni
    2 He Helín
  72 Hf Hafnín
  80 Hg Kvikasilfur
  67 Ho Holmín
108 Hs Hassín
  55 I Joð
  49 In Indín
  77 Ir Iridín
  19 K Kalín
  36 Kr Krypton
  57 La Lanþan
  3 Li Liþín
  71 Lu Lútesín
103 Lr Lárensín
116
Lv
Livermorín
115
Mc
Moskóvín
101 Md Mendelevín
  12 Mg Magnesín
  25 Mn Mangan
  42 Mo Mólýbden
109 Mt Meitnerín
    7 N Nitur (köfnunarefni)
  11 Na Natrín
  41 Nb Níóbín
  60 Nd Neódým
  10 Ne Neon
113
Nh
Níhon
  28 Ni Nikull
102 No Nóbelín
  93 Np Neptún
    8 O Ildi (súrefni)
118
Og
Organesson
  76 Os Osmín
  15 P Fosfór
  91 Pa Prótaktín
  82 Pb Blý
  46 Pd Palladín
  61 Pm Prómeþín
  84 Po Pólon
  59 Pr Praseódým
  78 Pt Platína
  94 Pu Plúton
  88 Ra Radín
  37 Rb Rúbidín
  75 Re Renín
104 Rf Rúterfordín
111 Rg Röntgenín
  45 Rh Ródín
  86 Rn Radon
  44 Ru Rúþen
  16 S Brennisteinn
  51 Sb Antímón
  21 Sc Skandín
  34 Se Selen
106 Sg Seborgín
  14 Si Kíslill
  62 Sm Samarín
  50 Sn Tin
  38 Sr Strontín
  73 Ta Tantal
  65 Tb Terbín
  43 Tc Teknetín
  52 Te Tellúr
  90 Th Þórín
  22 Ti Títan
  81 Tl Þallín
  69 Tm Túlín
117
Ts
Tennessín
  92 U Úran
  23 V Vanadín
  74 W Volfram
  54 Xe Xenon
  39 Y Yttrín
  70 Yb Ytterbín
  30 Zn Sink
  40 Zr Sirkon

 

Þ.S. 4.1. 2007. Síðast breytt 9.2. 2019

Forsíða