Að undanförnu hafa birst myndir í blöðum og sjónvarpi af kröfugöngum barna, bæði hérlendis og erlendis. Börnin krefjast þess að hinir fullorðnu geri átak í umhverfismálum því að framtíð unga fólksins sé í veði. Óskin er almenns eðlis fremur en að tilteknar aðgerðir séu nefndar. Þessu framtaki barnanna hefur yfirleitt verið vel tekið, þótt örlað hafi á þeirri skoðun að börnin líti á þetta sem tækifæri til að losna við nokkrar stundir af skólasetu. Ástæðulaust er að taka undir þær grunsemdir. Á hinn bóginn mætti benda börnunum á að þau geti sjálf sett sér markmið. Þau gætu til dæmis farið að fordæmi sænsku stúlkunnar Gretu Thunberg, sem var upphafsmaður þessara aðgerða.
(Mynd: Wikipedia) Greta hafnaði því að vera viðstödd ráðstefnu í Reykjavík um sjálfbæran lífsstíl, því að hún vildi ekki ferðast með flugvél vegna mengunarinnar sem af því hlytist. Hér á landi tala menn um að draga úr akstri bifreiða til að minnka mengun. Ef hugur fylgdi máli myndi fólk draga stórlega úr flugferðum og jafnvel setja háa skatta á flugfargjöld, því að flugið er margfalt meiri mengunarvaldur en annar ferðamáti. En slíkt verður seint gert – fólk vill ekki neita sér um það frelsi sem ódýrt flug veitir, að ekki sé minnst á tekjurnar af ferðamönnum. Þær aðgerðir í umhverfismálum sem menn hafa rætt um í alvöru eru góðra gjalda verðar. Þær munu þó ekki ná tilgangi sínum ef ekki er tekist á við rót vandans sem við er að glíma, en það er fólksfjölgunin í heiminum. Mannfjöldi á jörðinni er nú sagður 7,7 milljarðar og hefur þrefaldast á síðustu 70 árum. Það þarf engan speking til að sjá að í óefni stefnir. Eina þjóðin sem reynt hefur að stemma stigu við fólksfjöldanum eru Kínverjar, sem gáfu út tilskipun þess efnis árið 1980 að fjölskyldur mættu aðeins eiga eitt barn. En jafnvel í því mikla stjórnvaldsríki sem Kína er, reyndist þetta illframkvæmanlegt, og hafði reyndar þær ófyrirséðu afleiðingar að drengjum fjölgaði mjög umfram stúlkur. Frá árinu 2015 hefur hjónum í Kína verið heimilt að eiga tvö börn. Er því spáð að öllum hömlunum á barneignum verði senn aflétt, því að stjórnvöld hafi þungar áhyggjur af fjárhagslegum afleiðingum þess að ungu starfandi fólki fækki hlutfallslega meðan öldruðum fjölgi. Kona nokkur í Þýskalandi, Verena
Brunschweiger, menntaskólakennari á fertugsaldri, hefur vakið talsverða
athygli og nokkurn úlfaþyt með bók sem hún gaf út nýlega þar sem hún
hvetur fólk til að draga úr barneignum og segist sjálf ætla að neita sér
um að eiga barn. Bendir hún á tölur sem sýni að slík stefna yrði miklu
áhrifameiri en að draga úr flugferðum eða selja bílinn. Ólíklegt verður
að þó teljast að Verena fái miklu breytt. Meðfædd hvöt fólks til
barneigna er sterkari en svo að fortölur sem þessar hafi veruleg áhrif.
(Myndir: Sunday Times) Ef ekki tekst að stöðva fjölgun mannkyns og snúa þróuninni við, missa allar aðrar aðgerðir í umhverfismálum marks. Þá verða menn að sætta sig við orðinn hlut og búa sig sem best undir það sem koma skal: breytt veðurfar, bráðnun jökla, hækkandi sjávarstöðu, sívaxandi flóttamannastraum, þverrandi auðlindir og alls kyns mengun sem óhjákvæmilega leiðir af fjölgun fólks. Menn ættu ekki að láta blekkjast af þeirri tálsýn að sársaukalitlar aðgerðir muni leysa þann stórfellda vanda sem við okkur blasir. Þ.S. 4. maí 2019. |