Þorsteinn Sæmundsson

Bandaríkjaferð 1985

Þetta var ferð sem við Guðný fórum í félagi við vini okkar Ragnar Ingimarsson og konu hans, Halldóru Bjarnadóttur. Þetta var önnur ferð mín vestur um haf en fyrsta ferð Guðnýjar. Ferðin stóð frá 7. ágúst til 7. september, þ.e. réttan mánuð. Daginn áður en við lögðum af stað flaug ég á TF-FET til Hríseyjar með Guðnýju og Mána til að kveðja Svönu. Svana hafði verið í Hrísey frá 2. ágúst hjá pabba og Úllu og var þar til 21. ágúst, að Úlla fór með hana suður og Birgir Halldórsson flaug með hana að Núpstúni. Svana dvaldist í Núpstúni hjá Binna frænda og Ingu þangað til við komum aftur. Svana var þá 7 ára. Hákon og Máni voru heima meðan við vorum í ferðinni. Hákon var 18 ára en Máni 15.

Aldrei þessu vant fórum við á eigin bíl til Keflavíkur og skildum hann eftir þar. Þegar við komum suður eftir kom í ljós að Ívar, 10 ára sonur Ragnars og Dóru, var með í för. Reyndist hann ágætur ferðafélagi. Brottför frá Keflavík var kl. 16:30. Flugtími til Chicago var 6 klst. Þar gistum við á Best Western O'Hare hóteli hjá flugvellinum.

Fimmtudaginn 8. ágúst var flogið áfram til Los Angeles. Þar leigðum við bíl og ókum til Best Western Pasadena Inn og gistum þar. Þar skildu leiðir í bili; við Guðný fórum í eina átt og Ragnar og fjölskylda annað.

Föstudaginn 9. ágúst heimsótti ég Jet Propulsion Laboratory sem rekið er af NASA og er miðstöð geimrannsókna.


Við Jet Propulsion Laboratory

Síðan lá leiðin á skrifstofur Mt. Wilson stjörnuturnsins og þaðan upp á Wilson fjall að skoða sjónaukann fræga.






Við Mt. Wilson stjörnuturninn



Mt. Wilson sólsjónaukinn. Turninn er 45 m á hæð

Laugardag 10. ágúst hringdum við til Hríseyjar og töluðum við Svönu. Síðan skildu leiðir og við Guðný leigðum bíl og ókum til Krúsu (Kristjönu Jónsdóttur) vinkonu Guðnýjar í Oceanside. Með henni fórum við til San Diego að sjá Sea World.

Með Krúsu og dóttur hennar

 

Í Sea World



Sunnudag 11. ágúst skoðuðum við ströndina með Krúsu. Gistum í Space Age Inn í Anaheim í Disneyland.  Daginn eftir fórum við í Disneyland.



Í Disneyland

Þriðjudaginn 13. ágúst fórum við til Los Angeles og höfðum þar upp á lækni þar sem Guðný þjáðist af kláða. Gistum á Quality Inn LAX Airport.

Miðvikudag 14. ágúst flugum við til San Francisco og hittum aftur Ragnar og Dóru. Gistum þar á Hotel Stewart.

Fimmtudag 15. ágúst fórum við á bílaleigubíl til Lockheed í Sunnyvale til að sjá Hubble sjónaukann sem var í smíðum. Um kvöldið fórum við með strengvagni (cable car) til veitingastaðar við höfnina.

Föstudag 16. ágúst flugum við til Honolulu. Á leiðinni bilaði annar hreyfill vélarinnar. Ég tók strax eftir því, en það var ekki fyrr en nokkru síðar að flugstjórinn tilkynnti seinkun af þessu tilefnni. Í Honolulu hittum við son Ragnars, Ingimar, sem hafði ákveðið að slást í förina. Gistum á Queen Kapiolani hótelinu. Þetta var afmælisdagur pabba og ég hringdi til hans af hótelinu um kvöldið. Reyndar var kominn 17. ágúst heima vegna 10 klst. tímamunar.

Laugardaginn 17. ágúst skoðuðum við Pearl Harbor og hið sokkna orrustuskip Arizona sem þar er til sýningar. Ókum síðan sem næst í kringum eyna (O'ahu) sem er sú þriðja stærsta í klasanum.



Sunnudaginn 18. ágúst flugum við til eyjarinnar Maui og gistum þar á Stouffer Wailea Beach Resort. Þar fórum við í sjóbað. Kristín Hallvarðsdóttir bekkjarsystir okkar hafði pantað herbergi fyrir okkur. Hún bjó á Hawaii en var fjarverandi þessa dagana.


 


 




Mánudaginn 19. ágúst horfði ég á mynd í sjónvarpi ("Guess who is coming to dinner") en síðan fór ég á ströndina með hinum.



Þriðjudag 20. ágúst var enn farið á ströndina, en síðan flogið til Hilo á stærstu eyjunni ("Hawaii") og gist þar á Hilo Hawaiian. 

  
Miðvikudag 21. ágúst leigðum við jeppa og fórum upp á Mauna Kea sem er 4200 metra hátt. Skammt frá fjallsrótum er bygging sem hýsir stjörnufræðinga og starfsmenn við stjörnusjónuka sem eru hátt á fjallinu. Loft er þar svo þunnt að menn kjósa heldur að búa neðar en skreppa upp þegar þörf krefur. Við heilsuðum upp á menn sem við hittum þarna, en fengum á tilfinninguna að gestir væru ekki sérlega velkomnir. Á leiðinni upp fórum við gegnum skýjabelti.

 


 




Guðný og Ragnar á hæsta tindi Mauna Kea

Meðan við vorum þarna uppi kom jeppi með nokkrum hermönnum upp fjallið. Þeir stukku út og hlupu að vörðunni efst á fjallinu. Þegar þeir komu til baka voru þeir að lotum komnir vegna loftleysis. Maður fann mjög greinilega fyrir súrefnisskortinum.



Þarna uppi var rokhvasst. Í baksýn er fjallið Mauna Loa, sem er aðeins 40 m lægra en Mauna Kea og talið stærsta eldfjall jarðar

Þegar við komum niður af Mauna Kea ókum við nokkurn spöl meðfram ströndinni norðanmegin.

Fimmtudag 22. ágúst fórum við að skoða Volcanoes National Park á sömu eyju (Hawaii). Þar er eldfjallið Kilauea sem stöðugt gýs.



Við eldfjallið Kilauea. Eftir að hafa skoðað það ókum við eftir norðurströnd eyjarinnar til myrkurs







23. ágúst. Ásthildur Erlingsdóttir frænka mín hringdi til okkar, þá stödd í Honolulu! Við flugum þennan dag um Maui og Honolulu til Los Angeles þar sem við gistum á Quality Inn.

24. ágúst. Flugum til Dallas og þaðan til Denver þar sem vinur minn Kendall Svendsen og kona hans tóku á móti okkur á vellinum. Gistum á Best Western í Longmont.

25. ágúst fórum við til Fort Colling og Casper. Gistum á Day's Inn.

26. ágúst. Ókum til Cody. Sáum Hell's Half Acre og Buffalo Bill Museum. Gistum á Holiday Inn.





Leikinn byssubardagi í Cody

Þriðjudag 27. ágúst ókum við til Yellowstone Park. Þar sáum við vísunda o.fl. Gistum í Lake Lodge kofa. Vísundar komu stundum svo nærri kofanum að við þorðum ekki út. 







Mig minnir að þarna höfum við verið að bíða eftir gosi úr geysinum "Old Faithful".


Yellowstone svæðið skoðað







28. ágúst. Skoðuðum Yellowstone. Leigðum bát.



Ókum til Jackson. Fengum óvenju stórgert haglviðri. Gistum í The Inn at Jackson Hole í Teton þorpi.

29. ágúst. Skoðuðum Grand Teton. Fórum hátt í lyftu.







Teton fjallgarður í baksýn. Sagt er að franskir ferðamenn snemma á öldum hafi kallað fjöllin "tétons", þ.e. brjóst á frönsku.



Áfram til Rock Spring þar sem við gistum í American Family Inn.



30. ágúst. Skoðuðum Dinosaur Monument og Flaming Gorge stífluna. Áfram til Grand Junction. Gistum í American Family Lodge. Fórum þar í sundlaug.









31. ágúst. Ókum og skoðuðum Black Canyon. Síðan áfram til Salida og gistum þar í Western Holiday Motor Hotel.

1. september hringdum við í Núpstún til að fá fréttir af Svönu og tala við hana. Síðan ókum við til Royal Canyon og Colorado Springs. Sáum þar dýrasafn. Þaðan til Denver og gistum á Royal 8 Inn.

2. september. Ókum til Boulder og fengum herbergi á  Best Western Golden Buff. Svendsen kom til okkar og bauð okkur í ökuferð upp í Klettafjöllin. Á leiðinni var víða bratt, og hengiflug á aðra hönd, svo að okkur varð ekki um sel þegar Svendsen fór að segja okkur af heilsufari sínu; sagðist vera tæpur fyrir hjarta og geta hrokkið upp af hvenær sem væri! Eftir ökuferðina fórum við heim til Svendsen og þáðum ágætis kvöldverð hjá frúnni.




Kendall Svendsen



Guðný og Marine Svendsen







Kendall og Marine Svendsen

3. sept. fór ég með Svendsen í gagnamiðstöð í Boulder.



4. sept. fór ég með Svendsen í segulmælingastöð í Boulder. Síðan í Geological Survey í Denver. Áfram var haldið til Detroit og Ann Arbor þar sem við gistum á Red Roof Inn. Hittum þar aftur Ragnar og Dóru.

5. sept. Fórum til Detroit og vorum með Ragnari og Dóru í Arborland eftir hádegi til að versla. 

6. sept. Þennan dag var þrumuveður. Við fórum í Briarwood til að versla, en síðan út á flugvöll til heimferðar. Flugtak var kl. 20:30.

7. sept. Guðný ók okkur heim af vellinum. Eftir 2 klst. svefn fórum við austur í Núpstún að sækja Svönu.


6.4. 2021