Þorsteinn Sæmundsson

Bandaríkjaferð 1965
 

Árið 1965 bauðst mér tveggja mánaða ferð til Bandaríkjanna til að kynna mér starfsemi bandarísku geimrannsóknastofnunarinnar (NASA) og þá sérstaklega Apolló tunglferðaáætlunina. Ferðin var í boði bandaríska utanríkisráðuneytisins. Á þessum tíma stóð kapphlaupið um tunglferðir sem hæst. Sovétmenn höfðu tvívegis komið manni á braut um jörðu árið 1961. Það sama ár tóku Bandaríkjamenn ákvörðun um Apolló áætlunina, og ári síðar sendu þeir fyrsta geimfara sinn á braut um jörðu. 

Vorið 1965 voru slíkar ferðir orðnar 13 talsins, þar af átta frá Sovétríkjunum og fimm frá Bandaríkjunum. Sovétmenn voru í fararbroddi, höfðu tvívegis sent upp geimfar með fleiri en einn mann  innanborðs og efnt til "geimgöngu" utan geimfars. Fyrsta bandaríska geimfarið sem bar tvo menn (Gemini) fór þrjá hringi um jörð í marsmánuði 1965.

Þannig stóðu leikar þegar mér barst hið ágæta boð um Bandaríkjaferð. Það bar að með þeim hætti að að ég var beðinn að koma til fundar við sendiherra Bandaríkjanna í sendiráðinu við Laufásveg. Sendiherrann, James Penfield, tjáði mér að Upplýsingaþjónusta Bandaríkjanna hefði í hyggju að efna til kynningar á geimferðaáætlun Bandaríkjamanna undir yfirskriftinni "Út í geiminn". Þess væri óskað að ég héldi erindi við það tilefni og lýsti því sem ég hefði orðið áskynja í ferðinni.

Ekki veit ég fyrir víst hvers vegna mér var boðið, en nokkrar ástæður hafa hugsanlega legið til þess. Í fyrsta lagi var ég annar af einungis tveimur íslenskum stjörnufræðingum á þessum tíma (hinn var prófessor Trausti Einarsson). Í öðru lagi hafði ég átt samskipti við franska leiðangursmenn sem skutu upp eldflaug frá Mýrdalssandi til norðurljósarannsókna árið áður (1964) og tekið beinan þátt í tilrauninni (sjá http://halo.internet.is/020864.jpg). Sama ár hafði ég fjallað um geimrannsóknir Bandaríkjamanna í blaðagrein (sjá http://halo.internet.is/170364.jpg). Hver svo sem ástæðan kann að hafa verið, var þetta boð sem ekki var unnt að hafna.

Ég hélt dagbók um þessa ferð mína og tók talsvert af ljósmyndum. Mun ég styðjast við þessi gögn í þeirri frásögn sem hér fer á eftir, sem er nokkurn veginn orðrétt eftir dagbókinni. Þegar ég færði þessa dagbók var alls ekki ætlun mín að birta hana opinberlega, enda hefur hún legið uppi í hillu öll þessi ár. En fyrir nokkru fékk ég bréf frá vini mínum Hjálmari Sveinssyni sem búsettur er vestra og er mikill áhugamaður um geimferðir. Hjálmar skrifaði meðal annars "geimannál" í Almanak Þjóðvinafélagsins á hverju ári frá 1968 til 1974 þegar ég var ritstjóri þess almanaks. Hjálmar hvatti mig til að birta endurminningar mínar frá Bandaríkjaferðinni 1965, og átti þá við það sem ég kynntist af geimrannsóknum vestra.

Þegar ég skoðaði dagbókina sá ég brátt að erfitt yrði að tína úr henni einstaka kafla. Ákvað ég því að birta hana í heild.  Margt hefur breyst, bæði hérlendis og erlendis, á þessari hálfu öld sem liðin er síðan þetta gerðist, og má vel vera að fleirum en mér þyki fróðlegt að rifja þetta upp. Allar myndir hér fyrir neðan eru teknar af mér eða á mína myndavél nema annað sé tekið fram. Hitastigstölum sem margar voru í Fahrenheitgráðum hef ég breytt í Celsius, og fetum hef ég víða breytt í metra.

Þriðjudagur 1. júní 1965.  Fyrsti dagur ferðar

Fyrir hádegi skrapp ég vestur á Eðlisfræðistofnun Háskólans þar sem ég starfaði á þessum tíma. Drakk ég þar kaffi og kvaddi samstarfsfólk. Eðlisfræðistofnunin var þá til húsa í gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu. Stofnunin var fyrirrennari Raunvísindastofnunar Háskólans sem þá var í byggingu og tók til starfa ári síðar. Um fimmleytið steig ég upp í áætlunarbíl við Hótel Sögu. Bíllinn var frá Guðmundi Jónassyni, merktur bandaríska flugfélaginu Pan American, en ég var með farmiða frá því félagi. Í flugstöðinni í Keflavík hitti ég Penfield sendiherra, sem einnig var á leið vestur, svo og vísindamenn sem höfðu setið ráðstefnu um Surtsey. Þar á meðal var prófessor Paul S. Bauer sem mjög hafði látið að sér kveða við Surtseyjarrannsóknir.



Flugvélin var þota af gerðinni DC-8 frá Pan American flugfélaginu. Ég hafði aldrei áður flogið með þotu, enda áttu Íslendingar engar slíkar á þessum tíma. Það var ekki fyrr en fimm árum síðar að Loftleiðir tóku þotur í notkun í millilandafluginu. Aðeins 78 farþegar voru um borð og vélin virtist hálftóm. Ég hafði þrjú sæti til umráða. Flogið var í 31000 feta hæð. Skyggni var lélegt, en hraðinn var áberandi meiri en í öðrum flugvélum sem ég hafði ferðast með. Eftir þriggja tíma flug sáust borgarísjakar, síðan þétt ísbreiða og loks land, snævi þakið með ísilögðum vötnum. Var þá tilkynnt að lent yrði í Goose Bay á Nýfundnalandi til að taka farþega úr bilaðri vél.

Hleypa þurfti miklu eldsneyti af geymum til að létta vélina fyrir lendingu. Voru farþegar beðnir að slökkva í vindlingum á meðan. Vélin var um það bil hálftíma að lækka flugið. Landið varð nú heldur álitlegra þótt kuldalegt væri, fyrst tré á stangli, síðan endalausar barrskógabreiður með vötnum á milli. Landið virtist algjörlega óbyggt.

Flugvöllurinn sem lent var á var herflugvöllur, og var farþegum ekki leyft að fara frá borði og myndatökur bannaðar. Hús virtust aðallega einlyft. Á vellinum stóð önnur Pan Am þota, alveg eins og okkar. Hafði hún verið á leið frá Shannon á Írlandi þegar einn hreyfillinn bilaði. Úr þeirri vél komu um 50 manns og var þá hvert sæti skipað. Við töfðumst þarna um eina klukkustund, en síðan var flogið áfram í 2 ½ stund til New York. Þegar þangað kom var orðið dimmt og gaman að sjá ljósadýrðina. Áberandi þótti mér hið reglulega skipulag á götunum, svo og umferðarhraðinn utan borgarinnar.

Á Kennedyflugvelli tók á móti mér maður að nafni McFarland frá utanríkisráðuneytinu (State Department). Hann aðstoðaði mig við að komast gegnum vegabréfaskoðun og tollskoðun, sem tók enga stund. Hins vegar kom babb í bátinn þegar hann vildi láta bólusetja mig, sem ég taldi óþarft, því að ég hafði verið bólusettur sem barn. Tók það mig nokkra stund að fá mína skoðun staðfesta hjá heilbrigðiseftirlitsmanni.

McFarland þessi var hinn alúðlegasti, en samt var ég lítt hrifinn af honum. Hann vildi breyta hótelpöntun minni og senda mig á annað hótel (Crossways) og lét ég það gott heita. Pantaði hann bíl frá hótelinu og kvaddi síðan. Bíllinn kom eftir góða stund, var lengi á leiðinni til hótelsins, kom við á tveimur stöðum og ók utan í strætisvagn. Þá var komið þrumuveður og hellirigning. Hótelið var ágætt, kostaði aðeins $10 á sérkjörum utanríkisráðuneytisins, en almennt verð var $14. Þarna var bað, sjónvarp og loftkæling. Þá var klukkan orðin hálffjögur eftir íslenskum sumartíma en hálftólf eftir sumartíma í New York. Ég fór strax að sofa og svaf sæmilega um nóttina.

Miðvikudagur 2. júní

Fór á fætur kl. 8. Eftir morgunverð lagði ég af stað út á flugvöll og var kominn þangað kl. 9:30. Um borð í flugvél frá National Airlines kl. 10:30 til Washington. Vélin var af gerðinni Lockeed Electra II, mjög þægileg, minnti mig á Viscount vélar sem voru í notkun á Íslandi, en var þó ekki eins snotur að mínu mati. Flugið tók um eina klukkustund og var komið til Washington rétt fyrir kl. 12. Úr lofti sá ég Pentagon bygginguna, Washington minnismerkið, Arlington kirkjugarðinn, Potomac ána, Jefferson minnismerkið og Lincoln minnismerkið.

Þegar ég steig út úr vélinni var hitinn svo mikill að ég hélt fyrst að ég væri í loftstreymi frá hreyflunum! Á að giska 30 stig. Þarna tók á móti mér mjög viðkunnanlegur maður að nafni Leblanche. Hann ók mér til hótelsins, Windsor Park Hotel við Connecticut Avenue. Eiginkona Leblanche var með honum. Sem betur fer var bíllinn með loftkælingu, nokkuð sem ég hafði ekki séð fyrr. Annars hefði verið ólíft með öllu. Leblanche þekkti hótelstjórann sem útvegaði mér herbergi á $7 fyrir nóttina. Það reyndist vera heil íbúð, stórt svefnherbergi með tveimur rúmum, setustofa með sjónvarpi og baðherbergi. Bæði svefnherbergið og setustofan voru með loftkælingu. Um tvöleytið sendi ég skeyti heim  og fór síðan niður í bæ til að kaupa bréfsefni og dagbók. Hitinn var óskaplegur. Var rennsveittur þegar ég kom aftur á hótelið. Bréfsefnin fengust að sjálfsögðu í "drugstore".

Um kvöldið borðaði ég á "Hot Shoppes" veitingastaðnum, skrifaði mömmu og póstlagði bréfið og horfði síðan á sjónvarp til kl. 23.

Fimmtudagur 3. júní

Ég var kominn á fætur fyrir klukkan 8 því að ég átti að hitta Robert Allen frá utanríkisráðuneytinu kl. 9:30 og vildi hafa tímann fyrir mér. En kl. 8 hringdi Allen og stakk upp á því að við frestuðum fundi okkar til þess að ég gæti horft á sjónvarpið og fylgst með Gemini 4 geimskotinu sem fram átti að fara kl 10. Þetta var fyrsta geimskotið sem menn um allan heim gátu fylgst með í sjónvarpi. Það sem gerði þetta mögulegt var bandaríska gervitunglið Early Bird sem endurvarpaði útsendingum. Geimskotið tafðist hins vegar til kl 11:30. Var mjög spennandi að fylgjast með því.

Kl. 14 talaði ég við Allen og við mæltum okkur mót hjá Paul Smith sem bar titilinn "program officer" hjá Governmental Affairs Institute, stofnun sem staðsett var á 1726 Massachusetts Avenue. Þar átti að skipuleggja ferð mína um Bandaríkin. Ég var kominn þangað kl. 14:45 og var þar til kl. 17:30.  Allen stóð ekki lengi við, en ég ræddi við Paul Smith og einkaritara hans, Roselyn (Roz) Lewis. Bæði voru þau mjög viðkunnanleg og vildu allt fyrir mig gera. Byrjað var á ferðaáætluninni í stórum dráttum.
 

 

Roselyn Lewis og Paul Smith

Um kvöldið tók Lewis og maður hennar mig með sér til Dan Mazur og konu hans í Silver Spring, Maryland. Þar hitti ég tvo "eldflaugamenn", fyrrverandi lærisveina James Van Allen sem uppgötvaði geislabeltin sem við hann eru kennd. Annar hét dr. Meredith, en nafn hins man ég ekki. Þarna var fleira fólk og fjörugar samræður, en veitingar heldur ólystugar. Þau Lewis hjón óku mér heim á hótel um kl. 24.

Föstudagur 4. júní

Byrjaði daginn á því að senda skeyti til Stefáns bróður. [Þetta var afmælisdagurinn hans]. Var kominn til Paul Smith kl. 9:30 og var þar í klukkustund, en ekki tókst að ljúka ferðaáætluninni. Síðdegis fór ég að skoða Smithson stofnunina, afar merkilegt safn, og gekk þar um í grennd. Sá þar m.a. flugskeyti af gerðunum Júpíter C , Vanguard, Polaris, Atlas, Allison hreyfil, geimfarið Freedom 7 sem Alan Shepard var í, Pioneer IV, risaeðlur, stærsta fíl allra tíma og bláhvalslíkan - ótrúlegustu hluti. Washington er mjög falleg borg, ótrúlega stórir garðar eða opin svæði í henni miðri.


 

Atlas eldflaug við Smithson safnið

Kl. 16 var ég aftur kominn til Paul Smith og var þar í klukkustund. Átti síðan símtal við Ingva Ingvarsson í íslenska sendiráðinu. Þess má geta að mjög margir hér virðast hafa þekkt Thor Thors sendiherra. Robert Allen var einnig kunnugur fyrirætlunum um íslenskt sjónvarp.  

Laugardagur 5. júní

Á fætur kl. 7:30. Snæddi morgunverð á hótelinu. Tók svo leigubíl (sem hér kallast "cab") upp í Washington International Center til að taka þátt í kynnisferð með leiðsögumanni. Þá ferð hafðí Paul Smith pantað fyrir mig. Lagt var af stað í tveimur langferðabílum kl. 9:15, nokkru á eftir áætlun. Flestir farþeganna voru Indverjar, ærið hávaðasamir. Fyrst var haldið að Lincoln minnismerkinu, síðan í Arlington kirkjugarðinn, fylgst með varðmannaskiptum þar, skoðuð gröf óþekkta hermannsins og gröf Kennedys forseta. Á þeirri síðastnefndu logar eldur sem Jacqueline Kenndedy kveikti við jarðarförina. Í þessum kirkjugarði liggja 120 þúsund grafnir. Hann mun fyllast um 1970.

Gröf Kennedys


 

Minnismerki Lincolns

 

   

Horft frá minnismerki Lincolns til minnismerkis Washingtons

Veður var gott, heiðskírt, sólskin, um 25 stig í skugganum. Fullheitt fyrir mig, en þó þolanlegt. Næst var ekið 18 mílna veg til Mt. Vernon, en það er búgarðurinn þar sem George Washingon bjó áður en hann varð forseti. Svo var ekið í bæinn aftur og komið þangað kl. 13:30. Ég fór úr vagninum við Smithsonian Institution - nýju bygginguna - og borðaði á mjög viðkunnanlegum veitingastað þar á neðstu hæð. Skoðaði síðan ýmislegt í safninu, s.s. klukkur margra alda, Foucoult pendúl, gervihnetti til samskipta o.fl. Á eftir gekk ég upp að Washington minnismerkinu og þaðan á hótelið. Undir kvöld skrapp ég niður í bæ og fékk mér að borða.

Sunnudagur 6. júní

Fyrir hádegi skrifaði ég nokkur bréf og póstkort. Heitt var í veðri. Seinna um daginn fór ég að kanna hvort ég gæti fundið heimilisfang manns að nafni Richard Fisher. [Fisher þessi hafði verið í bandaríska hernum á Íslandi á stríðsárunum og fjölskylda okkar kynnst honum. Það gerðist með þeim hætti að faðir minn var að leita eftir viðskiptum við herinn og var vísað á Fisher sem var verkfræðingur og hafði umsjón með margvíslegum framkvæmdum. Ekkert varð úr viðskiptunum, en þeir Fisher urðu góðir vinir, og pabbi bauð honum stundum heim til okkar á Freyjugötu 35. Það varð þó að gerast með hálfgerðri leynd því að samskipti við hermenn voru ekki litin hýru auga af bæjarbúum almennt. Eftir að Fisher fór frá Íslandi til Afríku árið 1943 hélt mamma uppi bréfasambandi við móður hans, Vergy, sem var foreldrum mínum alltaf þakklát fyrir að vinsemd okkar við soninn.]

Fljótlega uppgötvaði ég að nafn Fishers var í símaskránni fyrir Washington. Hann reyndist vera heima, þekkti mig strax og ég nefndi nafn föður míns og sagðist koma og sækja mig.
Um hálftíma síðar renndi hann í hlað á hvítum MG sportbíl. Mér fannst hann furðu lítið hafa breyst á þeim 22 árum sem liðin voru frá því að hann var á Íslandi. Þá var ég aðeins 8 ára og hefði varla munað greinilega eftir útliti hans ef ekki hefði verið innrömmuð mynd af honum heima í stofu. Fisher sagðist vera nýkominn frá Vietnam; hefði þurft að fara í aðgerð á hálsi en færi aftur eftir viku og yrði líklega fjarverandi næstu fimm eða sex ár. Vietnamstríðið var þá í algleymingi, hafði staðið í áratug og átti eftir að standa annað eins. Það var því einstök tilviljun að ég skyldi hitta á Fisher. Þáði ég kvöldverð heima hjá honum og konu hans ásamt dóttur og syni þeirra hjóna.


 

Fisher og fjölskylda

Fisher mundi ótrúlega vel eftir dvöl sinni á Íslandi og nöfnum þar, bæði staðarnöfnum og manna. Hann sagði að sér hefði líkað afskaplega vel við landið. Hann hefði ferðast um Ísland þvert og endilangt og komið að vegagerð með Geir Zoëga vegamálastjóra. Þá hefði hann stjórnað flugvallargerð í Keflavík og haft hönd í bagga með lagningu hitaveitu frá Álafossi. Hann sagðist vonast til þess að geta heimsótt Ísland einhvern tíma. [Honum varð að þeirri ósk sinni löngu síðar, árið 2001 þegar hann var orðinn 86 ára. Þá tók ég á móti honum og seinni konu hans, en faðir minn var látinn, því miður.]

Mánudagur 7. júní

Á fætur kl. 8. Eftir morgunverð hélt ég til Governmental Affairs skrifstofunnar á Massachusetts Avenue til fundar við Paul Smith. Hann fór með mig til einkalæknis síns og lét bólusetja mig (kúabólusetning). Þetta vildi hann endilega gera vegna þess að eitt tilfelli af bólusótt hafði nýlega komið upp í Washington og ég gat ekki sannað að ég hefði verið bólusettur sem barn.

Það sem eftir var dagsins vorum við að skipuleggja ferðaáætlun mína um Bandaríkin. Paul bauð mér í hádegismat á Dupont Circle Restaurant þar sem við snæddum samlokur. Hann sagði mér frá ævintýrum sem hann hefði lent í um dagana, og voru þau mörg og ótrúleg. Hafði hann átt kvikmyndaver í Kongó en misst allt og sloppið nauðulega undan Lumumba. [Patrice Lumumba var leiðtogi þjóðarflokks Kongó sem barðist fyrir sjálfstæði landsins.] Sprengdi upp heilan herflokk Lumumba með dýnamíti sagði hann. Var fangi í moldarkofa í þrjá mánuði og slapp rétt áður en átti að taka hann af lífi. Nauðlenti eitt sinn farþegaflugvél þegar flugmaðurinn fékk hjartaáfall. Ég komst að þeirri niðurstöðu að annað hvort væri maðurinn stórævintýramaður eða erkilygari.

Kominn heim kl.. 18 og skrifaði mömmu nokkrar línur. Hringdi í John Hargreaves og C.F. Sechrist. [Þetta voru menn sem ég hafði átt mikil samskipti við og séð um rekstur  mælitækja (svonefndra ríómæla) sem þeir settu upp á Íslandi, óháð hvor öðrum. Báðir höfðu birt margar vísindagreinar. Hargreaves var Englendingur en starfaði á þessum tíma í Colorado. Sechrist vann hjá fyrirtæki sem hét HRB Singer í Pennsylvaniu og tengdist varnarmálaráðuneytinu með einhverjum hætti.] Sechrist bauðst til að láta einkaflugvél sækja mig til Washington ef ég vildi, en ég þáði ekki það boð.

Horfði síðan á sjónvarp - undanfara heimstyrjaldarinnar, mjög fróðlegt. Gemini geimfararnir lentu heilu og höldnu í dag. Góð tíðindi.

Þriðjudagur 8. júní

Á fætur kl. hálfátta. Tók leigubíl og var kominn upp að þinghúsinu (Capitol) klukkan hálfníu, við innganginn sem merktur var fulltrúadeild (House of Representatives). Fór inn þar sem merkt var "No entry", leitaði uppi matsal fulltrúanna og spurðist fyrir um "Congressman Vivian" sem mér hafði verið sagt að hafa samband við. Hann fannst ekki í fyrstu og ég beið í stundarfjórðung þar til hann kom fram. Hann hafði þá verið inni allan tímann að drekka te og bíða eftir mér.
 

 

Þinghúsið í Washingon (Capitol)

Ég snæddi síðan morgunverð með þingmanninum og ræddi við hann um ýmislegt, aðallega framlög ríkisstjórna til vísindamála. Hann er um fertugt, hefur doktorspróf  (Ph.D.) í verkfræði, fyrsti maður með slíkt próf í raunvísindagrein á bandaríska þinginu. Mér fannst maðurinn kuldalegur og ekki sérlega viðfelldinn, og ekki mikið á samtalinu að græða. En hann var kurteis og sýndi mér þingsalinn áður en við kvöddumst. Hver þingmaður í fulltrúadeildinni (þeir eru um 300) hefur 410 þúsund kjósendur að baki sér. Í öldungadeildinni eru 100 manns.

Síðan fór ég upp á hótel, talaði við Paul Smith í síma og fékk staðfesta áætlun fyrir morgundaginn. Svo tók ég leigubíl niður í Association Building, 19th Street NW og var kominn þangað kl. 11:45 til fundar við dr. Edward Dyer í National Academy of Sciences.  Dr. Dyer reyndist vera ritari IQSY nefndarinnar hér [International Year of the Quiet Sun, IQSY], en ég var ritari íslensku nefndarinnar (sólkyrrðarársnefndar). Dyer var mjög alúðlegur. Sagðist hafa verið að skrifa bréf til dr. Minnis, aðalritara IQSY nefndarinnar þegar ég kom. Ég kannaðist við nafnið; hafði átt bréfaskipti við Minnis. Dyer bauð mér út að borða ásamt dr. Stanley Ruttenberg frá National Center for Atmospheric Research í Boulder, George Derbyshin, ritara Space Science Board og Peter Pearman, aðstoðarritara frá sömu stofnun. Ruttenberg ætlaði að sjá til þess að ég fengi góðar móttökur í Boulder. Bað mig um að láta sig vita fyrirfram áður en ég kæmi þangað.

Svo var ég áfram með Dyer til kl. 17. Hann er stjörnufræðingur að menntun, mjög alúðlegur, en talar full mikið. Hann hringdi fyrir mig í Naval Observatory, Naval Research Laboratory og U.S. Coast and Geodetic Survey til að panta viðtalstíma fyrir mig í þessari viku. Hann ráðlagði mér að koma við í Pasadena, sjá Mt. Wilson sjónaukann og tala við Horace Babcock, forstjóra Palomar stjörnustöðvarinnar. Loks fór Dyer með mig til Odishaw sem er yfirmaður hans, augsýnilega valdsmaður, dæmigerður "diplómat", en viðkunnanlegur, dálítið viðutan en gamansamur.

Í dag var afar heitt og rakt, líkt og í baðherbergi, á að giska 80-90% raki. Ég komst að þeirri niðurstöðu að fötin sem ég hafði haft með mér að heiman væru allt of hlý fyrir þetta veðurfar og að ég yrði að kaupa þynnri föt. Eftir að ég kvaddi  Dyer fór ég í fataverslun Bonds á 1335 F Street NW og keypti föt fyrir 50 dali. Fór svo með þau í "valet service" til að láta laga ermar og buxnavídd, tók síðan leigubíl til matsölustaðar og þaðan heim á hótel kl. 21. Kom mátulega til að sjá í sjónvarpinu fyrstu geimgöngu Bandaríkjamanna. Það var Edward White sem fór út úr geimfarinu Gemini 4 hinn 3. júní. Félagi hans, McDivitt, kvikmyndaði atvikið. Sovétmönnum hafði tekist þetta þremur mánuðum fyrr.

Skrifaði bréf um kvöldið, annað til Þorgerðar [Sigurgeirsdóttur, aðstoðarkonu minnar á Eðlisfræðistofnun], hitt til Ken Fea [ensks kunningja míns sem vann að gervitunglaathugunum]. Er dálítið aumur í handlegg eftir bólusetninguna.

Miðvikudagur 9. júní

Á fætur kl. 7. Eftir morgunmat tók ég leigubíl til NASA Goddard Space Flight Center í Greenbelt, Maryland. Þangað var 30-40 mínútna akstur og kostaði mig 7½ dal. Á þessum stað er enginn bær, aðeins byggingar GSFC sem standa mjög dreift. Þær eru 22 talsins og bætast um það bil fjórar nýjar byggingar við á hverju ári. Milli húsanna eru runnar og tré, en utan þeirra eru skógi vaxin svæði og akurlendi. Svæðið tilheyrði áður tilraunastöð akuryrkju.

Við hliðið voru varðmenn og var mér vísað í móttökuskýli. Þar fékk ég númer og beið þar til maður kom að taka á móti mér. Sá virtist vera einhvers konar leiðsögumaður, ók með mig um allt í ljósum stationbíl og lýsti byggingum og vinnubrögðum. Þetta er ein af fjórum aðalstöðvum geimferða í Bandaríkjunum. Hinar eru Manned Space Flight Center (MSFC) í Houston í Texas, Jet Propulson Laboratory í Kaliforníu og eitt sem ég man ekki nafnið á. GSFC sér um öll gervitungl sem eru nær jörðu en máninn, að undanskildum mönnuðum geimförum, sem MSFC sér um. Þó er hér fylgst með öllum staðsetningum ("tracking") og séð um talsambönd af öllu tagi.

Fylgdarmaðurinn sýndi mér fyrst sal þar sem komið hefur verið fyrir flestum ef ekki öllum tegundum tungla sem þarna hafa verið smíðuð: Explorer I, Vanguard I og II, OSO, Ariel, Alouette (sem Kanadamenn smíðuðu reyndar), Tiros, Nimbus, Echo II (mér var sýnd kvikmynd af því þegar belgurinn þandist út), Explorer X, Explorer XII o.fl. Af hverju tungli eru gerð þrjú eintök, ein sem forsmíð ("prototype"), eitt sem nota skal og eitt til vara. Þarna var sem sagt til sýnis eitthvert þessara þriggja eintaka.


 

Echo gervitungl, belgurinn samanbrotinn

Leiðsögumaðurinn sýndi mér nýjan sal þar sem fylgst er með gervitunglum á stórum skjá. Brautin kemur þar fram á korti í litum og staða gervitunglsins á nokkurra mínútna fresti. Þá fékk ég að sjá stóra sali þar sem tunglin eru prófuð, ekki þó af þeim sem hafa smíðað þau. Prófanirnar fara fram á hristiborðum og í risastórum geymum sem eru lofttæmdir niður í 10-9 mm þrýsting á einum sólarhring og kældir með fljótandi köfnunarefni. Þá er líkt eftir sólarljósinu eins og það er utan við lofthjúp jarðar. Einnig er útbúnaður þar sem miðflóttaafl er notað til að líkja eftir álaginu við flugtak. Hver prófun tekur marga daga, og sum tunglin eru búin að vera 2-3 ár í prófunum þegar þau eru send út í geiminn.

Eitt gervitunglanna sem þarna sást, Orbiting Astronomical Observatory (OAO), var mjög stórt, tvær mannhæðir, með stórum sjónauka. Gervitunglin eru flest úr þráðagleri, en húðuð með mismunandi efnum. Eitt var gullhúðað.
Ég sá líka tilsýndar sendistöð tímamerkja, WWV, sem þarna er, en hún truflar víst talsvert út frá sér.

Um hádegið tók dr. Meredith við mér og bauð mér að borða með sér í veitingasal þarna. Með okkur borðaði sá frægi maður, dr.Wilmot Hess eðlisfræðingur. Hann sagði okkur frá tilraun sem hann vill gera, að senda orkumiklar rafeindir niður eftir segulkraftínum jarðar og framkalla norðurljós. Hyggst prófa mismunandi stefnur og mismunandi orku rafeindanna. Telur að þetta verði mögulegt eftir þrjú ár eða svo.

Eftir hádegið fór Meredith með mig til J. P. Heppners sem ég hef átt skipti við út af segulmælingum. Heppner sagði að J. C. Cain, sem ég hef líka skipt við, væri ekki á staðnum, en vísaði mér á Svía sem reyndist hafa skrifað mér í sambandi við áhrif jarðskjálfta á segulsvið. Svíinn sýndi mér hvað gert væri við segullínuritin sem ég hef sent þeim úr Leirvogi. Þau eru færð á starfrænt form á 2,5 mínútna fresti með 0,8 mm nákvæmni. Þetta er reyndar framkvæmt í Tulsa í Oklahoma.

Þá hitti ég Sugiura, samverkamann Chapmans. Sugiura vinnur þarna og var að fást við útreikninga í sambandi við ytri mörk segulhvolfs jarðar og áhrif sólarljóssins á þau. Hann sagðist hafði mikinn áhuga á örsveiflum í segulsviðinu ("micropulsations") og vildi gjarna athuga möguleika á samstarfi við okkur, e.t.v. með japönsku stöðina Syowa í huga [sú stöð er á Suðurskautslandinu, andspænis segulmælingastöðinni í Leirvogi]. Sugiura var nemandi Nagata [Takeshi Nagata var kunnur vísindamaður. Hann hafði áður sýnt þessu áhuga og haft samband við Þorbjörn Sigurgeirsson um málið.] Sugiura taldi að hann gæti útvegað búnað fyrir okkur til að færa mælingarnar á stafrænt form.

Næst sýndi Heppner mér tæki sem dr. Neil Davis hefur smíðað, en Davis var fjarverandi. Tækið nemur sjónvarpsmyndir af norðurljósum, 35 myndir á sekúndu, og er mun næmara en mannsaugað. Það greinir stjörnur af 9. birtustigi. Hvert slíkt tæki kostar 60 þúsund dali.

Þá hitti ég mann að nafni Evans sem sýndi mér Nike-Apache eldflaug sem hann var að setja tæki í. Þetta var mælir til að nema hraðfara rafeindir (1-50 keV). Flaugina átti að senda upp í norðurljós. Ein tilraun hafði þegar verið gerð, en Evans taldi sig ekki hafa valið rétta augnablikið, og auk þess hefðu samanburðarmyndir úr norðurljósamyndavélum ekki verið nægilega margar á þeim stutta tíma (2 mínútum) sem flaugin var á heppilegum stað, í 180 km hæð. Næst myndu þeir nota sjónvarpstæknina. Ég reyndi að vekja áhuga þeirra á Íslandi fyrir eldflaugaskot og Heppner ætlaði að hugleiða þann möguleika.


 

Evans við eldflaugina

Þá skoðaði ég reiknideild GSFC. Þar voru alls 5 reiknivélar af gerðinni IBM 7094, auk minni véla.  [Orðið tölva hafði ekki verið fundið upp þegar þetta var ritað.]

Að lokum kvaddi ég Meredith, en hann útvegaði mér bílstjóra sem ók mér í bæinn, nánar tiltekið í aðalstöðvar NASA. Þaðan tók ég leigubíl og kom við í leiðinni til að sækja fötin sem átti að lagfæra. Af þeim voru tvennar buxur, en aðrar höfðu verið styttar allt of mikið og dæmdi ég þær ónýtar.

Þennan dag hafði að mestu verið skýjað, hiti 27-30°C, raki 85%.

Fimmtudagur 10. júní

Á fætur kl. 8. Tók leigubíl kl. 09:30 til U.S. Naval Observatory, Massachusetts Avenue. Það er ekki mjög langt frá hótelinu. Þarna er mjög fallegt um að litast, allstórt hringlaga skógivaxið svæði sem tilheyrir stjörnustöðinni. Á móti mér tók dr. Raynor Duncombe sem hefur umsjón með stjörnualmanakinu (Astronomical Ephemeris) sem útreikningar íslenska almanaksins hafa byggt á. Hann var strax fullur áhuga þegar ég sagði honum frá íslenska almanakinu og upplýsti mig um það að ég gæti fengið gögn á gataspjöldum eftir vild, þar á meðal stöðu tungls og myrkvaútreikninga fyrir tiltekna staði. Þá gæti ég fengið próförk af stjörnualmanakinu áður en það væri komið út. Ég lofaði að senda honum eintak af almanakinu okkar. [Það var engin tilviljun að í íslenska almanakinu 1966 birtust í fyrsta sinn tölvureiknaðar töflur um sólargang.]

Duncombe lét sýna mér þvergöngumæli (transit instrument), 26 þumlunga sjónauka, Markowitz tunglmyndavélina (Markowitz var fjarverandi) og svo tímamerkjaþjónustuna. Þeir nota rúbidín-atómklukku, en kristallsklukku til vara, fylgjast með tímamerkjum úr öllum áttum til leiðréttingar og gefa niðurstöðurnar út á þriggja mánaða fresti. Þeir hafa ekki beina stjórn á útsendingum stöðvarinnar WWV, en gera umsjónarmönnum viðvart ef munurinn verður of mikill. Til útreikninga nota þeir IBM 1410 og forrita í Autocode [sem var fyrsta forritunarmálið sem ég lærði í Bretlandi], en eru nú að fá IBM 360. Þeir nota spjaldstýrða ritvél og útkomurnar fara síðan á prentplötur.

Ég borðaði í mötuneyti þarna ("snack-bar") ásamt konu dr. Duncombe. Þarna vinna um 100 manns. Þau hjónin þekktu dr. Garstang sem ég hafði kynnst í stjörnustöð Lundúnaháskóla og báðu fyrir kveðju til hans ef ég skyldi hitta hann í Boulder, þar sem hann starfar nú.


 

Dr. Raynor Duncombe og kona hans

Að lokum ók Duncombe mér í Oldsmobile bifreið sinni niður í bæ, að byggingu National Science Foundation að 1800 G Street NW, en þar átti ég að hitta dr. Robert Fleischer, Program Director, Solar Terrestrial Research.

Fleischer reyndist vera ungur maður, fremur viðfelldinn, markviss í fasi. Hann er stjörnufræðingur að mennt. Við ræddum um fjáröflun til vísinda almennt. Hann taldi að hagkvæmast yrði fyrir okkur á Íslandi að tengjast háskóla hér í landi með samvinnuverkefni, skiptast á mönnum o.s.frv. Þá gæti National Science Foundation veitt fé til háskóla hérlendis og sá skóli síðan styrkt okkur. Fleischer taldi samvinnu við Alaska álitlega; hann er sjálfur nýkominn þaðan og mælti með því að ég færi þangað. Bauðst hann til að reyna að fá utanríkisþjónustuna til að greiða ferðakostnaðinn (um $300). Síðan hringdi hann í Neil Davis hjá GSFC. Davis hefur verið þar í eitt ár en er á förum aftur til Alaska til Geophysical Institute í College. Davis gat því miður ekki hitt mig hér en við ræddum um möguleika á samstarfi. Ég lofaði að senda honum heimilisfang mitt og hann ætlaði að senda mér ritgerðir sem hann er höfundur að.

Frá Fleischer fór ég kl.14. Kl. 15 hringdi ég í Roz Lewis og hún sagði að ég mætti koma og sækja ferðaáætlunina. Ég tók með mér bækur sem mér höfðu áskotnast hjá Goddard og í Naval Observatory því að Roz ætlaði að senda þær heim til Íslands og spara mér þannig fyrirhöfn. Hún lét mig svo fá farmiða og ferðaáætlunina. Paul Smith hafði verið skorinn upp daginn áður sagði hún. Ekki veit ég hvað amaði að honum en Roz sagði að honum heilsaðist vel. Hún sagði að Fleischer hefði hringt út af Alaskaferðinni. Ekki lægi fyrir hvort utanríkisþjónustan (State Department) gæti útvegað ferðapeninga, en ef ég væri ákveðinn ætluðu þeir að reyna. Ég sagðist myndu hugsa málið til morguns. Var orðinn fremur þreyttur Hitinn í dag var 33°, Washington var heitasti staður í Bandaríkjunum þennan dag. Afar rakt loft. Skrifaði Dan Mazur og Fisher þakkarbréf um kvöldið. 

Föstudagur 11. júní

Á fætur kl. 8. Roz Lewis hringdi kl. 8:50 og sagði að það væri komið bréf til mín. Ég borðaði morgunverð og tók síðan leigubíl til National Bureau of Standards við Connecticut Avenue. Ætlaði að ná í bíl sem átti að fara þaðan til U.S. Coast and Geodetic Survey í Rockville, Maryland, en missti af bílnum og varð að taka annan leigubíl. Þetta var nokkuð löng leið og ég náði ekki á áfangastað fyrr en kl. 10:15. Þarna voru nýtískuleg húsakynni og gosbrunnar umhverfis. James H. Nelson, yfirmaður segulmælinga hjá stofnuninni, kom auga á mig niðri í forsalnum og fór með mig upp. Hár og myndarlegur maður. Hann kynnti mig fyrir Kendall Svendsen sem er af dönskum ættum eins og nafnið bendir til. Svendsen og annar yngri maður ræddu við mig um segulmælingar og línuritin úr segulmælingastöðinni í Leirvogi. Ég lofaði að kanna hvort við gætum látið línurit hvers dags byrja á heilli klukkustund. Þeir báðu líka um að aflestrar af línuritunum í mm yrðu ljósmyndaðir og hafðir með á örfilmunum sem við sendum þeim. Þeir eru að smíða tæki til að stafgera línuritin, en sem stendur er það gert fyrir þá í Tulsa. Leirvogslínuritin berast fyrst allra frá erlendum stöðvum.

Ég sá mjög góðan Recordak ljósmyndabúnað þarna til að skrásetja á örfilmur, og viðbótarbúnað sem þeir hafa sjálfir smíðað. Recordak vélin kostar 2600 dali. Þeir geta líka tekið afrit á pappír samstundis í hvaða stærð sem er. Þeir nota IBM 1401 reiknivélar. Þeir sögðu mér að ég yrði að heimsækja segulmælingastöðina í Fredericksburg sem væri hér nærri. Hún væri sú stærsta í Bandaríkjunum. Nelson ætlaði að sjá til þess þegar ég kæmi þarna við í bakaleiðinni, í lok ferðar. Þeir sýndu mér litlar Helmholtz spólur sem þeir hafa hannað til að stefnumiða segulmæla.

Hádegismat snæddi ég með Svendsen, Herbert Meyers (næstæðsta yfirmanni stofnunarinnar) og William nokkrum Paulishak, sem var kyndugur náungi. Líkur benda til að Svendsen eigi eftir að koma til Íslands. Hann ferðast til segulmælingastöðva um allan heim. [Ég átti eftir að eiga mikil samskipti við hann.]

Á eftir ók Svendsen með mig til baka og kom við heima hjá sér í leiðinni. Þar hitti ég konu hans, sem var mjög geðug.


 

Kendall Svendsen og frú

Svo ók Kendall mér alla leið gegnum Washington og út að Naval Research Laboratory, sem er sunnan við borgina (4555 Overlook Avenue SW). Þar var strangur vörður við hlið og þurfti ég að skilja myndavélina mína eftir fyrir utan. Ég kom of seint (kl. 14:15 í stað 13:30 eins og mér var ætlað) og missti því af að hitta dr. Richard Tousey, frumkvöðul í sólrannsóknum með háloftaeldflaugum. Herbert Friedman var upptekinn, en ungur maður, dr. John Meekins, sýndi mér rannsóknastofurnar. Þar hitti ég líka dr. Talbot Chubb, en þeir vinna báðir við litrófsrannsóknir með eldflaugum. Þarna er hálfleiðinleg vinnuaðstaða sýndist mér, allt fullt af drasli og tækjum, minnti mig á enska háskóla. Þeir nota mikið af Ilford filmum (sama sögðu þeir hjá Goddard). Ég sá Aerobee eldflaug sem þeir voru að raða tækjum í. Þeir hafa náð litrófsmælingum niður í 200 Å bylgjulengd, síðan er eyða frá 200-100 Å, en svo ná þeir aftur mælingum niður í brot úr Ångström.

Chubb sagði mér að þeir hefðu fundið einar 10 rafaldsuppsprettur á himninum, allar nærri vetrarbrautinni og heldur í átt að miðju hennar. Þeir geta staðsett uppspretturnar með einnar gráðu nákvæmni en hafa samt ekki fundið samsvörun í sýnilegu ljósi, með einni undantekningu, en það er Krabbaþokan. Þeir eru þarna með fyrstu borð-rafeindareiknivélina sem ég hef séð.

Ég kvaddi kl. 17 og var kominn heim á hótel kl. 17:30. Þar frétti ég að dr. Dyer hefði reynt að ná í mig. Reyndi ég að hafa samband við hann en tókst ekki.
 

Meðan ég var í Naval Research Laboratory hringdi ég í Roz Lewis og sagði henni að ég vildi reyna við Alaskaferðina, en er satt að segja á báðum áttum. Borðaði kvöldmat á hótelinu í þetta sinn. Það kostaði 5 dali. Leigubíllinn í morgun kostaði $5 og í bíllinn kvöld $3.

Laugardagur 12. júní

Ég svaf mjög vel í nótt því að ég var ekki bundinn við neitt sérstakt í dag. Eftir morgunverð tók ég leigubíl niður á skrifstofu Governmental Affairs. Að vísu er lokað þar á laugardögum, en Roz var búin að segja mér að hún yrði við. Ég sagði henni að ég væri hættur við Alaskaferðina. Hún var búin að tala við Hessler í síma og hann vildi mjög ákveðið að ég kæmi, en hún ætlar að koma boðum til hans um það að ég sé hættur við þetta. Hessler þessi (V.P. Hessler) er þekktur fyrir myndir sem hann hefur tekið af norðurljósum í Alaska og bókina International Auroral Atlas sem hann og James Paton gáfu út fyrir tveimur árum. Hessler sagði Roz að hann hefði skrifað mér til Íslands - hvers vegna veit ég ekki, en ef til vill hefur Max Brewer, framkvæmdastjóri Naval Arctic Research Laboratory í Barrow, Alaska,  haft samband við hann eftir að Brewer var í Reykjavík á dögunum.

Svo kvaddi ég Roz. Ég hafði ætlað að komast í banka, en þeir eru lokaðir á laugardögum og ekki opnir nema frá kl 9 til 14 virka daga. Leitaði síðan uppi póshús - þau eru vandfundin hér. Keypti þar frímerki. Ekki tóku þeir við ferðatékkum. Hiti 27°, raki yfir 50%, ekki þægilegt. Borðaði á Hot Shoppe eins og venjulega. Seinni hluta dagsins þvoði ég þvott og skrifaði bréf til mömmu, Þorbjörns [Sigurgeirssonar], kort til Guðnýjar [Hjaltadóttur, sem ég gekk að eiga tveimur árum síðar], bréf til Gartleins, Bob Shobbrook [stjörnufræðings sem var samtímis mér við nám í St. Andrews] og Hargreaves. Það tók drjúgan tíma. Fór að sofa um miðnætti.

Sunnudagur13. júní

Á fætur kl. 7:30. Lauk við að pakka, borðaði morgunverð og borgaði hótelreikninginn (um $90). Tók svo leigubíl kl. 9:15 út á flugvöll. Hafði tímann fyrir mér, enda er það alltaf betra. Brottför var kl. 10:30 með Electra flugvél frá Eastern Airlines. Fyrst var lent í Tampa á Flórída eftir tæplega þriggja stunda flug. Eftir 45 mínútna viðdvöl var flogið áfram til Melbourne í Florida, hálftíma flug. Talsvert var um bólstraský en flugmanninum tókst furðanlega að sneiða hjá þeim. Úr lofti leit Flórída nákvæmlega eins út og ég hafði búist við: endalausir mýrarflákar með byggð á stöku stað, mest allt lítil hús, einlyft.

Á flugvellinum í Melbourne tók ég leigubíl á mótelið, Cape Colony Inn á Cocoa Beach. Það var lengri leið en mig grunaði og kostaði 9 dali. Hefði líklega átt að taka almenningsvagn. En hitasvækjan var óskapleg, og ef ég hefði ekki haft gustinn í bílnum hefði ég ekki þolað hana.

Hér er allt fullt af nöfnum eins og "Satellite Cafe" o.s.frv. eins og við er að búast. Mótelið er með sundlaug í miðju, allt einlyft og flestir ganga um á sundskýlum, enda ekki hægt að vera mikið klæddur. Ég byrjaði á að fara í stuttermaskyrtu. Inni er svalt og þægilegt. Hér eru flugur á stærð við lófa manns, en ekki hafa þær verið mér til ama enn sem komið er. Ég mun hafa komið á mótelið um kl 14:30: Tveimur tímum síðar kom þrumuveður, en ekki náði rigning hingað að ráði.


 

Mótelið Cape Colony Inn

Ég gleymdi að geta þess að þegar við vorum að leggja af stað frá Tampa voru tvær þotur í biðröð á undan okkur og ein á eftir. Brunuðu allar í halarófu út að flugbrautarendanum og fóru á loft með minna en mínútu millibili. Okkar vél fór þvert yfir aðra flugbraut sem vél var að lenda á, og bilið varla meira en 800 metrar milli vélanna. Sem sagt, talsverð umferð hér.

Ekki var ég sérlega hrifinn af kvöldmatnum, en hann var þó ætur. Hér segja menn halló við bláókunnugt fólk, allt mjög óformlegt. Las reyfara til kl. 21 og fór svo að sofa. Eiginlega finnst mér of heitt utan húss og full kalt innan húss þótt hitinn sé alltaf yfir 20°C.

Mánudagur 14. júní

Á fætur kl. 7. Borðaði morgunmat og var tilbúinn kl. 8:30. Þá kom maður frá NASA með bíl og bílstjóra. Maður þessi hét Johnson og átti að vera leiðsögumaður minn um Cape Kennedy (sem áður hét Cape Canaveral). Einnig var með í för tyrkneskur eðlisfræðingur að nafni Kursunoglu eða eitthvað í þá áttina. Ekki mátti taka myndir svo að ég skildi myndavélina eftir.

Frá mótelinu var um stundarfjórðungs akstur út á Cape. Fyrst skoðuðum við pallinn þar sem Alan Shepard var skotið á loft. Sá pallur er ekki notaður lengur. Þar á að reisa minnismerki og líkön af ýmsum eldflaugum. Svo skoðuðum við flaugina Thor, sem þeir kalla vinnuhest geimferða, því að  hún hefur borið á loft flest ómönnuð geimför til þessa. Næst komum við að Redstone flauginni sem bar Shepard á loft, þá Atlas sem bar þá Cooper, Grissom, Glenn og Scott Carpenter á braut, og loks Titan sem lyfti tvímenningunum í Gemini.

Þarna voru einnig Polaris eldflaug, Skybolt o.fl. Þarna er víðáttumikil flatneskja sem var svo til ónumið land fyrir tíu árum, en nú vinna þarna 30 þúsund manns, sumpart á vegum flughersins, sumpart NASA. Steyptir vegir um allt en óræktað land á milli, með runnagróðri.

Við fórum síðan í stjórnstöðina sem notuð var allt fram til síðasta Gemini skots, en þá fluttist stjórnin til Houston. Stöðin líktist því sem ég hafði séð í Godddard SFC. Á veggnum var heimskort þar sem sjá mátti þrjár umferðarbrautir í einu, staða geimfarsins og lendingarstaður á hverju augnabliki ef staðnæmst yrði. Útreikningar fóru fram í Goddard. Einnig mátti sjá yfirlit yfir allar stöðvar í kerfinu: Kano (í Nígeríu), Kanaríeyjar, Tanzaníu, Woomera og aðra til í Ástralíu, Canton eyju, Hawaii, Kaliforníu, Texas, Bahamaeyjar, Azoreyjar og einhverjar fleiri. Yfirlitið sýndi hvaða búnaður er á hverjum stað (fjarlægðarmæling, "capsule control", talsamband, ratsjá o.s.frv.) Græn og rauð ljós sýndu hvort þessi útbúnaður væri í lagi á hverjum stað. Ef allt var í lagi: grænn hringur. Smávegis bilun: gulur hringur. Alvarleg bilun: rauður hringur. Ofan við kortið sýndi klukka heimstíma upp á sekúndu, fjölda umferða geimskips um jörðu, tíma geimflugs og eitthvað fleira.
 

 

Stjórnstöð Gemini geimferða (Ljósmynd: NASA)

Á skjám sitt til hvorrar handar koma fram upplýsingar um eldsneyti, súrefnisbirgðir, líðan geimfara o.s.frv. Uppsetning í salnum er þannig að framan við heimskortið á veggnum eru þrjár raðir af borðum. Í fyrstu röð er varamaður geimfara sem hefur samskipti við geimfarana. Í annarri röð er flugstjórnandinn (Flight Director) og menn sem fylgjast með líðan hvors geimfara um sig (Medical officers). Í öftustu röð er yfirstjórnandi ferðarinnar (Mission Director) ásamt yfirmönnum úr sjóher og flugher. Þar fyrir aftan er glerveggur en bak við hann eru fáein sæti fyrir áhorfendur (fyrirmenni, VIP).

Yfirstjórnandinn gerir ekkert nema alvarlegt vandamál komi upp. Þá tekur hann ákvörðun um framhaldið. Annars stjórnar flugstjórnandinn. Hann einn talar við stöðvar víðs vegar um jörðina. Vara-geimfarinn er sá eini sem hefur talsamband við geimfarana. Johnson leiðsögumaður minn sagðist hafa verið þarna þegar John Glenn var skotið á loft. Sagðist hann hafa séð hjartalínurit Glenns á skjá, alveg fram að flugtaki. Ekki hefði borið á minnsta óróleika hjá Glenn, en allír þarna í salnum hefðu verið yfir sig spenntir og taugaóstyrkir!

Ástæða þess að stjórnstöðin var svo flutt til Houston virðist hafa verið eingöngu stjórnmálalegs eðlis. Lyndon Johnson og fleiri áhrifamenn eru frá Texas og þetta snýst um mikla peninga. En aðal-eldflaugaskotstöðin verður áfram hér á Kennedyhöfða.

Næst skoðuðum við stærstu eldflaug sem nú er í notkun í heiminum, Satúrnus flaugina. Hún hefur verið reynd níu sinnum og öll skotin heppnast. Flaug af þessari gerð stóð inni í hreyfigrindarturni, geysiháum, og við urðum að setja upp hjálma og fara upp í lyftu til að skoða hana. Þar uppi gengum við undir stéli eldflaugarinnar sem er á stærð við meðalherbergi að ummáli. Fullhlaðin vegur hún 1,2 milljón pund. Þar af vegur eldsneytið milljón pund. Þrýsingur flaugarinnar er 1,5 milljón pund. Neðan við flaugina er skotið inn á teinabrautum skáborðum úr stáli til að beina logum til hliðar við flugtak. Háþrýstivatni er dælt á borðin um leið. Fylgst er með flugtakinu úr byrgi í 300 m fjarlægð. Byrgið er býkúpulagað. Ofan á því er múr, 12 feta þykkur efst en 48 feta þykkur neðst. Byrgið er gluggalaust. Á því er rammleg hurð á teinum sem lokast fyrir flugtakið. Á toppnum er súlusjónauki (periscope). Í byrginu eru hringlaga herbergi á þremur hæðum þar sem hver deild vinnur út af fyrir sig og fylgist með eigin tækjum (Douglas, Chrysler o.s.frv.) auk starfsmanna NASA. Þarna kemur von Braun frá sinni NASA-bækistöð í Huntsville í Albama ásamt fleiri fyrirmönnum svo að mikilvægt er að byrgið sé öruggt þótt eldflaugin springi við flugtak. Að öðru leyti er allt kvikt fjarlægt upp í 3 km fjarlægð.

Að síðustu fórum við þangað sem Satúrnus V eldflaug er í smíðum. Hún verður reynd eftir tvö ár og á að koma mönnum til tunglsins fyrir árið 1970. Einstakir hlutar hennar hafa þegar verið reyndir. Þetta er svo mikið fyrirtæki að erfitt er að lýsa því. Eldflaugin er smíðuð í byggingu sem er svo stór að fullgerð verður hún stærsta bygging heims að rúmtaki. Við samsetninguna eru notaðir hreyfanlegir kranar á beltum. Þeir eru svo stórir að þeir minna á Eiffelturninn. Þyngdin er sögð 3000 tonn. Þarna voru einir 5 slíkir kranar. Þeim er ekið inn í bygginguna og eldflauginni komið fyrir. Síðan er ekið út að skotpallinum sem er þrjár mílur frá, og tekur það þrjár klukkustundir. Til að komast upp á skotpallinn þarf að fara upp 5° halla. Allt svæðið þarna - og það er stórt - var áður mjög lágt og blautt, svo að menn hækkuðu það upp um 4 fet. Stóra byggingin stendur á stálsúlum sem ná 200 fet niður og eru samanlagt 150 mílur á lengd.  Skotpallurinn sem við sáum var að miklu  leyti (70%) fullgerður, en tveir aðrir eru í smíðum.




 

Flaugabyggingin mikla og Satúrnus V flaug á beltapalli
(Ljósmyndir: NASA)

Efst í öllum grindum eru hús sem sett eru utan um geimför í bið til þess að viðhalda réttu rakastigi og koma í veg fyrir ryð. Hér á Cape Kennedy er lítið sem ekkert smíðað heldur eru gripirnir settir saman. Víða voru hlið og öryggisverðir, enda ekki furða. Grindin umhverfis Satúrnus flaugina, sú sem ég fór upp í, kvað vera stærsta hreyfanlega mannvirki í heimi, en nýju grindurnar sýnast enn stærri.

Ég kom aftur heim á mótel um kl. 13. Johnson lofaði að sjá mér fyrir bíl út á flugvöll á morgun. Hann fræddi mig á því að almennir verkfræðingar hér sem vinna hjá hinu opinbera, hefðu að meðaltali 13000 dali í árslaun, en gætu komist upp í $21000.

Síðdegis skrifaði ég sex bréf til vina og kunningja (Jóa frænda [Jóhanns Más Guðmundssonar], Viggós [Jónssonar], Stefáns bróður, Ragnars [Ingimarssonar], Erlings frænda [Þorsteinssonar] og Eðlisfræðistofnunar (kort). Flugvél kom yfir mótelsvæðið og dreifði skordýraeitri til að drepa mýflugur.

Það er eftirtakanlegt hve fólk hér um slóðir er frjálslegt og óformlegt í umgengni. Það kastar á mann kveðju með "Hi" í fyrsta sinn og talar eins og viðkomandi hafi þekkt mann lengi. Eiginlega má segja að það sé full langt gengið þegar þjónustustúlka í veitingasal gefur sig á tal við mig og segir mér hálfa ævisögu sína og vel það, en maður venst þessu fljótt, og þetta gerir manni auðveldara að ferðast einsamall. Hvergi vildi ég fremur vera einn á ferð en hér. Fólk hér er líka mjög frjálslegt í klæðaburði en hneigist til að vera gamaldags. Skór eru t.d. gamaldags á okkar mælikvarða. En hreinlæti í mat er frábært, og alls konar umbúðir (Corn flakes, sykur, mjólk, kókdósir) mjög sniðugar og taka fram öllu sem við eigum að venjast.

Þriðjudagur 15. júní

Vaknaði um áttaleytið eftir góðan svefn. Skúraveður, ekki svo afskaplega heitt. Hádegismaturinn var afleitur - viðbrenndur hamborgari. Sá litla eðlu skjótast út úr runna í morgun. Sendi pakka með bókum til Governmental Affairs.

Klukkan eitt kom bíll frá NASA og sótti mig. Skipti svo yfir í annan bíl sem flutti mig á flugvöllinn - hálftíma ferð. Sá bíll var ekki með loftkælingu og hitinn því illþolanlegur þótt regnskúrir kæmu yfir. Flugvélin fór kl. 14:45. Það var þota, DC-8 held ég. Hún var sneisafull. Fyrst var flogið til New Orleans og tók það 1 klst. og 20 mínútur. Vorum við mikið í skýjum og dálitlum hristingi. Maður sem sat við hliðina á mér sagðist fara þessa leið reglulega en hefði aldrei lent í svona slæmu. Viðdvölin í New Orleans var 30 mínútur eða svo. Á meðan skall á hið versta þrumuveður með látlausum eldingum. En við fórum af stað beint upp í þetta þótt varla sæi út úr augum. Ferðin til Houston tók 50 mínútur. Við flugum upp í 26 þúsund fet og svo aftur niður - aldrei lárétt flug.

Í Houston var hitinn  33°C og rakinn 75%. Ekki beint þægilegt. Ég náði í bíl merktan hótelinu - Wilbur Clark Crest. Hótelið er rétt hjá NASA MSC (Manned Spaceflight Center), alllangt frá flugvellinum, hálftíma akstur á 110 km hraða virtist mér. Hótelið er nýtískulegt, en ég er ekki hrifinn af því. Sundlaug er í því miðju og fólk þar á sundi. Borðaði kvöldmat fyrir $6, en hann var ekki góður. Matsalur með rauðum ljósum, fullt af þjónum, söngvarar og hljómsveit. 

Miðvikudagur 16. júní

Svaf vel. Sólskin og steikjandi hiti (32°C). Raki yfir 50%. Dögg sest á myndavélina mína þegar ég fer út með hana. Ég talaði í síma við Bob Shobbrook. Skrifaði mömmu nokkrar línur. Hafði samband við NASA. Kl. 13 sendu þeir bíl eftir mér. Þeir hafa aðsetur örskammt frá hótelinu. Svæðið sem þeir ráða yfir er á að giska 3x3 km. Þarna voru einungis gras og runnar fyrir þremur árum. Nú er þarna bygging við byggingu. Allar innréttingar eru mjög hentugar, með færanlegum skilrúmum, en þó gerðar af listfengi. Að utan eru forsteyptar súlur sem skrúfaðar eru saman.


 

Miðstöð mannaðara geimfara í Houston, Texas

Ég hitti fyrst Mr. Richard S. Tannery, "protocol officer". Hann sýndi mér kvikmynd sem tekin var af síðasta geimskoti, Gemini 4, þar á meðal mynd af White í geimgöngu. Var það býsna stórfenglegt að sjá. Tannery kynnti mig fyrir Mr. Purser, aðstoðarforstjóra.

 

Paul E. Purser útskýrir málin

Í þessari aðalstöð mannaðra geimferða eru geimfarar látnir framkvæma alls konar æfingar, prófanir gerðar á öllum útbúnaði, geimferðum stjórnað eftir geimskot,  heilsufarsáhætta af geislun metin með tilliti til sólvirkni o.fl. Sá sem tók við mér og var með mér mestallan daginn hét Peter W. Higgins frá deild sem kallast "Radiation and Fields Branch", en þar reyna menn að meta hættuna af hvers kyns geislun og undirbúa viðbrögð. Verið er að setja upp stöðvar víðs vegar í heiminum til að fylgjast með sólinni í vetnisljósi (H-alfa) og rafaldsbylgjum af cm-bylgjulengd. Reynt er að fá sem besta mynd af segulsviðinu milli sólar og jarðar til þess að geta spáð fyrir um áhrif umbrota á sólinni eftir því hvar á sólinni umbrotin kynnu að sjást.

Higgins sýndi mér stjórnsalinn sem nú er farið að nota og tekur við af stjórnstöðinni á Kennedyhöfða. Þessi salur er nokkru stærri en sá fyrri, en fyrirkomulagið mjög svipað. Þá sýndi Higgins mér rafreikniherbergið. Þar eru fimm vélar af gerðinni IBM 7094, auk margra smærri (Control Data 3600 o.fl.). Þrátt fyrir þessa reiknigetu þurfa þeir að leigja reiknitíma annars staðar.

Næst fórum við á skrifstofur geimfaranna þar sem vel þekkt nafn stóð á hverri hurð, en flestir virtust fjarverandi. Sá sem tók á móti mér var einn úr þessum merka hópi, Charles A. Bassett, ungur maður, einstaklega viðkunnanlegur í framkomu. Purser hafði haft samband við hann fyrir mig, því að hann sagðist vita að Bassett og fleiri færu bráðlega til æfinga á Íslandi. Svo mun og vera, og segir Bassett að þeir fari í júlí og verði eina viku til að kynnast landslagi sem líkustu því sem finnst á tunglinu.

Bassett fór um allt með mig og Higgins og útskýrði hvernig væntanlegir tunglfarar væru æfðir. Þeir hafa flestir B.Sc. í verkfræði, en einn hefur doktorsgráðu (Ph.D.) í þeirri grein. Sjálfur er Bassett rafmagnsverkfræðingur. Þeir læra flest sem geimfarinu viðkemur, en auk þess geysimargt bóklegt, brautarútreikninga, jarðfræði tunglsins, læknisfræðileg atriði og margt fleira. Svo fara þeir í þjálfun til að bjarga sér ("survival training") í frumskógum og eyðimörkum í allt að því tvo sólarhringa í senn.

Æfingarnar í geimfarinu sjálfu eru mjög viðamiklar. Þarna voru mörg líkön af geimförum. Þeim var hægt að snúa og hreyfa á ýmsan hátt, og útsýni úr gluggum var haft sem eðlilegast. Einnig sást í ratsjá sem notuð er þegar tvö geimför tengjast. Um borð eru rafeindareiknivélar sem reikna út hvað eigi að gera til að nálgast eða fjarlægjast markið í geimnum. Allt er þetta tengt við stöðvar um allan heim og æft nokkrum dögum fyrir flugið. Þá er gerfi-bilunum skotið inn til að æfa öll viðbrögð. Mynd af jörð og stjörnum er varpað á kúlu utan um geimfarið þannig að allt verði sem eðlilegast. Þetta er geysilegt fyrirferðar, allur þessi útbúnaður, kranar og hreyfitól. Meira að segja er hermt eftir hristingi og hávaða við flugtak. Þarna er unnið við Apolló áætlunina sem snýst um það að koma mönnum á tunglið árið 1969. Fimm menn verða í þeirri ferð. Í geimfarinu sjálfu verða þeir sæmilega varðir fyrir rafagnageislun, en í ferjunni sem lendir á tunglinu verður lítil sem engin geislavörn. Ekki man ég hve margir vinna við MSFC, en þeir eru eitthvað um 4000 að ég held.

Ég kvaddi Bassett með virktum og lofaði að greiða götu hans á Íslandi eftir föngum. [Ekkert varð reyndar af því. Ég hitti geimfarana ekki þegar þeir komu til Íslands seinna um sumarið.] Ég sagði við Bassett að vonandi yrði hann sá fyrsti til að stíga fæti á tunglið. Hann brosti og sagði "Man, you say such nice things". Higgins tók mynd af okkur Bassett saman.[Svo hörmulega vildi til að Bassett fórst í flugslysi ásamt félaga sínu Elliot See árið eftir. Þeir voru í æfingaflugi. See var við stýrið.]


 

Í fylgd með Bassett

Næst fór Higgins með mér í lofttæmingarhúsið þar sem tæki eru prófuð. Þar eru tveir geymar, lofttæmdir, sá minni fyrir geimbúninga en sá stærri fyrir heil geimskip. Hinn síðarnefndi er hvorki meira né minna en 125 fet á hæð og 65 fet í þvermál. Hurðin er á hæð við hús. Þetta gímald lofttæma þeir á 10 klst. niður í 1/100000 af staðalloftþyngd. Svo kæla þeir veggina með fljótandi köfnunarefni til að minnka geislatap út í geyminn en líkja eftir sólarljósi með feikilegum bogaljósum (400 ampera flóðljósum). Í minni geyminn geta þeir hleypt inn lofti og náð fullum þrýsingi á 30 sekúndum, en hávaðinn af því hefur reynst verstur viðureignar. Heill salur er þarna með tækjum til að fylgjast með líðan geiumfarans og sjúkraherbergi til reiðu.

Í öðru húsi var risastór snúningsvél (centrifuge) til að líkja eftir áhrifum mikillar hröðunar á mannslíkamann. Þar var stór sjúkradeild með skurðstofu til taks ef með þyrfti.

Loks fór Higgins með mig út á svæði þar sem gerð hefur verið eftirlíking af landslagi á tunglinu, með gígum, grjótmulningi og líkani af tunglfari. Ég varð nú fyrir hálfgerðum vonbrigðum með landslagið - fannst það tæplega nógu sannfærandi.


 

Mynd sem Higgins tók af mér við líkan af tunglferjunni

Að endingu sýndi Higgins mér turninn þar sem þeir eru að setja upp fyrsta "sólkíkinn" til að fylgjast með virkni sólar. Hann sýndi áhuga á því sem ég hafði verið að fást við í sambandi við segulstorma og við ræddum um að skiptast á niðurstöðum. Bíll ók mér á hótelið laust eftir kl. 17.

Hitinn var alveg drepandi, bara meðan maður gekk á milli húsa þarna. Ég hefði ekki þolað þetta lengi ef húsin sjálf hefðu ekki verið loftkæld. Að koma inn var líkt og að fara úr gufubaði í ísskáp, þótt hitinn á hótelinu væri um 27°C.

Purser og Higgins sögðu mér að Dessler [Alexander Dessler, frumkvöðull í nærgeimsrannsóknum] og O'Brien [Brien O'Brien, þekktur fyrir rannsóknir á loftljóma og norðurljósum] væru hér í grennd, við Rice háskólann, og ef ég hefði haft dag til viðbótar hefði ég auðvitað átt að hitta þá. En því verður ekki breytt úr þessu.

Ég gleymdi að geta um þyngdarleysisæfingar í fleygbogaflugi í sérstaklega styrktum flugvélum. Með þeim næst um 20 sekúndna þyngdarleysi. Einnig eru verðandi geimfarar látnir æfa fallhlífarstökk.

Hér á hótelinu er sundlaugin upplýst með ljósum sem eru niðri í lauginni og gestir synda eftir að dimmt er orðið, enda steikjandi hiti. Vaknaði við þrumuveður milli kl. 4 og 5 um nóttina.

Fimmtudagur 17. júní

Á fætur kl. 6. Snæddi morgunverð kl. 7. Af stað í bíl hótelsins kl. 7:15. Annar maður var farþegi í bílnum og ein engispretta. Ferðin á flugvöllinn tók um 25 mínútur. Flugvélin var af gerðinni Convair frá Trans Texas Airways. Þetta var tveggja hreyfla vél, líkust DC-3. Nokkur seinkun varð, og var ekki lagt af stað fyrr en 8:50. Vélin reyndist mjög hávaðasöm og flaug lágt. Bjartviðri og bólstraský. Hiti við brottför var 31°C og raki 75%. Flugfreyjan var í skringilegum búningi, með skrýtna rauða húfu og hálfönug í viðmóti.

Við lentum í Austin kl. 9:40. Bob (Robert) Shobbrook og kona hans, Lorraine tóku á móti mér á  flugvellinum. Þau óku mér í bíl Bobs (bláum Ford 1957), fyrst á hótelið en síðan í háskólann (University of Texas), stjörnufræðideildina. Um hádegið borðuðum við í matsal kennaranna. Síðan varð Lorraine eftir við vinnu, en við Bob fórum heim til þeirra. Þau búa í þægilegri íbúð, skammt frá háskólanum. Loftkælingin var gluggakerfi við einn glugga og tæpast nægileg svo að ég var sveittur mikinn hluta dags. Sóttum Lorraine aftur kl. 17. Borðaði ég hjá þeim kvöldverð og var hjá þeim til kl. 22:30.

Við Bob sögðum hvor öðrum hvað á dagana hefði drifið síðan við hittumst síðast í London 1960. Bob kvæntist Lorraine í Ástralíu í fyrra eftir stutta viðkynningu. Þau fara aftur þangað í haust. Eru ekki hrifin af Texasbúum, finnst þeir miklir með sig, oft ruddalegir í framkomu og ófróðir um allt utan Texasríkis. Þau segja að mikið sé um manndráp hér og glæpi, um það bil 3 morð á viku í Austin einni, 200 þúsund manna borg. Bob fær sem svarar 25000 kr. á mánuði í laun. Mun fá 20 þúsund í Ástralíu, en vinnan verður skemmtilegri. Hann sýndi mér myndir, bæði skyggnur og kvikmyndir.

Á hótelinu biðu mín tvö bréf frá Eðlisfræðistofnun. Austin er fremur gamaldags að sjá og hótelið líka (The Driskill), þótt það sé það fínasta í borginni. Mér er það minnisstætt að yfir handlauginni í baðherberginu voru þrír kranar, tveir venjulegir fyrir heitt og kalt vatn, en sá þriðji með ískalt vatn úr brunni hótelsins. Það vatn var það besta sem ég fékk í Bandaríkjunum, fyllilega sambærilegt við íslenskt Gvendarbrunnavatn.

Bob sagði mér að systur hans, Valerie og Jennifer, væru báðar í Bristol núna, Valerie líklega komin að því að giftast en Jennifer ekki.

Föstudagur 18. júní

Vaknaði kl. 8. Bob kom og sótti mig kl. 10 eins og umsamið var. Hann ók fyrst með mig upp í háskóla og sýndi mér reiknimiðstöðina sem er stór um sig og hýsir aðallega Control Data reiknivélar. Síðan fórum við aftur í stjörnufræðideildina og skoðuðum hana betur, þar á meðal 9 þumlunga sjónauka sem er efst á þakinu. Hiti var mikill úti, 32-35°C og rakt. Kl. 12 var Lorraine laus og við fórum að borða á steikhúsi (ég bauð). Síðan var ekið niður að á þar í grennd sem reyndist kolmórauð og ógeðsleg - ekki syndandi þar. Borðuðum ís og drukkum kók. Fórum svo upp í háskólaturninn sem hæst gnæfir í Austin, 27 hæðir, og tókum myndir þaðan.  [Ári síðar skaut fjöldamorðingi 16 manns til bana úr þessum turni og særði 30.]


 

Í háskólaturninum í Austin



 

Með Bob og Lorraine í Austin

Að endingu fórum við heim til þeirra hjóna og tókum myndir hvert af öðru. Drukkum ískalda drykki, en Bob varð að fara varlega í það því að hann var nýbúinn að fá kvef og gat varla talað. Við ræddum um ferðalög. Þau ætluðu að leggja af stað á bílnum sínum í sumarferðalag í fríi um helgina og við sáum það út að þau myndu geta hitt mig í Phoenix í Arizona á þriðjudag þegar ég kæmi frá Miklagljúfri (Grand Canyon), en þar hafði ég áætlað að koma við á vesturleið. Þaðan gætum þau ekið með mig til Palomar stjörnustöðvarinnar og e.t.v. Mt. Wilson.

Ég hringdi í starfsmann Governmental Affairs Institute í San Diego og þetta virtist geta fallið inn í áætlunina ef við kæmum til Palomar á miðvikudag. Bob og Lorraine ferðast með tjald, en nota stöku sinnum mótel. Um kvöldið bauð ég þeim út að borða. Fengum okkur Pizza Pie, sérkennilegan mat [þetta var í fyrsta sinn sem ég borðaði pizzu!] á sérkennilegum stað sem helst minnti á bjórsal í München. Ég er eiginlega lítið hrifinn af Austin sem borg og vildi ekki búa þar.

Eftir kvöldmat fórum við í bílabíó (drive-in cinema) og sáum tvær kúrekamyndir frá kl. 20 til kl. 23:30. Þetta var ærið nýstárlegt. Hitinn var svo mikill þótt dimmt væri orðið, að manni var fullheitt í stuttermaskyrtu með alla glugga opna í bílnum.

Ég kom heim á hótel um kl. 24, en þurfti ýmislegt að gera (skrifa mömmu kort o.fl.) og komst ekki í háttinn fyrr en kl. 1. Sá í sjónvarpi þegar Titan III-C flaug var skotið á loft.

Laugardagur 19. júní

Á fætur klukkan 7. Var rétt búinn að ljúka við morgunverð kl. 8:15 þegar Bob og Lorraine komu að sækja mig. Þau óku mér síðan á flugvöllinn. Við höfðum nægan tíma svo að þau fengu sér kaffi meðan við biðum. Vélin fór kl. 9:15. Það var Trans Texas vél af gerðinni Convair 240 eins og áður. Ferðin til Dallas var tilbreytingarlítil. Við vorum stundum í skýjum. Ferðin tók um 50 mínútur. Í Dallas varð ég að skipta um vél og bíða um klukkustund á milli. Notaði tímann til að skrifa Stefáni bróður kort. Fór svo um borð í American Airlines "Astrojet", þ.e. Boeing 707 fanjet. Er það mesta lúxusvél sem ég hef ferðast með. Sjónvarp var ofan við þriðja hvert sæti. Við flugtak og lendingu var sýnt niður og fram fyrir vélina, en kvikmyndir þess á milli. Farþegar höfðu heyrarntól sem stungið var í samband í stólbríkina. Hægt var að hlusta á tvenns konar stereóhljómlist ef maður vildi ekki fylgjast með sjónvarpinu.

Veður var gott á leiðinni. Flogið var beint til Phoenix í Arizona á tæpum tveimur tímum. Seinni hluta ferðarinnar flugum við yfir fjöll og eyðileg svæði.

Í Phoenix reyndist hitinn vera yfir 32°C (komst upp í 37°C síðdegis), en loftið var alveg þurrt, aðeins 15% raki. Var það því miklu þægilegra en í Austin eða Houston. Ég fór á Sheridan hótel sem er rétt við flugvöllinn. Hótelið hafði síma á flugvellinum og þeir sendu strax bíl að sækja mig. Ágætt hótel með stórri sundlaug og öllum þægindum. Ég reyndi að hringja í Eystein Tryggvason í Tulsa í Oklahoma, en náði ekki í hann. [Tíu árum fyrr hafði ég unnið í sumarvinnu hjá Eysteini á Veðurstofunni.]

Svo hringdi einhver prófessorsfrú að nafni Nielander. Hún hafði fengið boð frá umboðsmanni Governmental Affairs og vildi endilega sækja mig. Þau Nielander hjón komu svo bæði í Lincoln bíl kl. 15:30. William A. Nielander reyndist vera prófessor í markaðsfræði (marketing management) eða einhverju þess háttar. Þau hjónin óku mér upp á hæð sunnan við Phoenix. Mér þótti landslagið eyðilegt en viðkunnanlegt. Stóru kaktusarnir voru eftirtektarverðir; ég hafði aldrei séð þá fyrr nema á myndum.


 

Nielander hjónin

Phoenix er 800 þúsund manna borg. Háhýsi eru í miðbænum, annars allt á einni hæð svo að bærinn tekur yfir geysistórt svæði í dal umgirtum fjöllum. Pálmatré eru milli húsanna, sítrusviðarrunnar utan við. Nautgriparækt er þarna mikil. Þau hjónin fóru með mig heim til sín þar sem ég dvaldist fram að kvöldmat. Þetta var auðsjáanlega afar vel efnað fólk; þau áttu Benz 220S og Opel Rekord auk Lincolnsins. Nielander var með Contarex myndavél og allar linsur, en frúin var með Rolleiflex. Hann hafði verið í Bretlandi í stríðinu, unnið við skömmtun í Bandaríkjunum og þekkti breska ráðherrann Stafford Cripps náið. Hjónin höfðu dvalist nokkur ár í Indónesíu, en auk þess ferðast um flest lönd og safnað alls konar munum. Satt að segja var ég lítið hrifinn af þessu dóti, en þau höfðu afskaplega gaman af að segja frá - var greinilega alveg sama um mig og mína hagi!

Um kvöldið buðu hjónin mér ásamt dóttur sinni, sem er kennslukona, á geysifínan veitingastað sem hét Safari Hotel í Scottsdale. Þau búa í þeim bæ, rétt utan við Phoenix, mörkin þar á milli eru ekki skýr. Til matar var regnbogasilungur. Á eftir óku þau með mig upp á Camelback Mountain norðan við Phoenix til að skoða ljósadýrðina. Klukkan var um 22 þegar þau óku mér á hótelið. Það beið mín eitt bréf frá mömmu. Skrifaði á póstkort til Stefáns bróður.

Eitt sá ég hjá þeim athyglisvert, en það var glampalaust gler fyrir myndainnrömmun. Þessu efni má vefja upp í stranga. Ég þyrfti að ná mér í þetta í Macy's í New York.

Í Phoenix er sólskin flesta daga árið um kring. Rigningin kemur öll í einni dembu í október að mér skilst.

[
Á vefnum fann ég bréf dagsett 1943 ritað til Williams A. Nielander, Assistant Director, Food rationing division. Bréfið fjallar um skömmtun á sápu á styrjaldarárunum.]

Sunnudagur 20. júní

Á fætur kl. 5. Morgunmatur kl. 6. Af stað út á flugvöll kl. 6:20 í bíl hótelsins. Upp í Fokker Friendship skrúfuþotu frá Bonanza Airways kl. 7. Af stað í glampandi sól. Eftir 25 mínútna flug var lent í Prescott, stansað þar í fimm mínútur, síðan flogið áfram og lent í Grand Canyon 20 mínútum síðar. Reyndar var flugvöllurinn 28 mílur frá Grand Canyon (Miklagljúfri, sjá kort), en áætlunarbíll beið eftir okkur og ók hópnum til þorpsins sem telur um 800 íbúa. Ég átti að vera á hóteli sem hét El Tovar. en herbergið var ekki tilbúið svona snemma dags svo að ég varð að skilja töskurnar eftir í móttökusalnum.

Ég lagði svo strax af stað í kynnisferð með farþegavagni eftir suðurbarmi gljúfursins til vesturs. Farin var um 15 km leið að stað sem kallast "Hermit's rest" og aftur til baka. Ferðin tók um tvo tíma með viðkomu á nokkrum útsýnisstöðum. Gljúfrið er afar tilkomumikið. Brúnin sem við ókum eftir er í 2100 m hæð en gljúfurbotninn í 760 m. Þar rennur hið mikla Coloradofljót sem hefur grafið gljúfrið á 8 milljón árum eða svo. Neðst eru umbreytt jarðlög  (sandsteinn o.fl.) og innskotslög úr graníti, síðan setlög, bæði vatna- og sjávarlög (sandsteinn og leirsteinn). Neðstu lögin eru frá for-kambríum tíma, um 2000 milljón ára gömul. Þar er að finna elstu merki um líf. Lengd gljúfursins er 217 mílur, breiddin frá 4 í 14 mílur. Áin flytur fram 500 þúsund tonn af leir á dag. 

Á barmi gljúfursins og í næsta nágrenni er mikið um skóglendi, bæði furu en þó aðallega lerki sýndist mér. Vegna hæðarinnar er svalara þarna, og maður varð var við að loftið var þunnt. Niðri í gljúfrinu er miklu hlýrra, nánast hitabeltisloftslag að sögn, og fjölskrúðugt dýralíf. Indíánabyggð er þarna í grennd. Ferð niður í gljúfrið tekur heilan dag og er farin á ótrúlega fótvísum ösnum (burro).
 

 

Miklagljúfur

Í vagninum kynntist ég Austurríkismanni, dr. Michael Graff frá Vín, sem líka var á vegum Governmental Affairs Institute eins og ég. Hann var lögfræðingur, ritari Austurríkiskanslara. Við borðuðum saman hádegisverð og ræddum margt saman það sem eftir var dagsins. Eftir hádegi, kl. 13, komst ég loks að í herberginu sem ég átti að dveljast í. Kl. 13:30 var lagt upp í aðra og lengri ferð austur eftir gilbarminum, eina 40 km út að Watchtower Desert View.


 
Stansað var á mörgum stöðum og vorum við Graff orðnir mjög þreyttir þegar ferðinni lauk kl. 17:15. Hafði ég þá tekið margar myndir. Þá kvaddi Graff og lagði af stað til Phoenix, en ég varð eftir á El Tovar, fór í bað, borðaði kvöldmat og þvoði stórþvott. Um kl. 22 um kvöldið fór ég út og horfði niður í myrkt gljúfrið. Sá þar ljós í tjöldum. Himinninn var stórfenglegur - hef aldrei séð aðra eins stjörnumergð. Svo margar daufar stjörnur sáust að sum helstu stjörnumerki urðu illgreinanleg. Vetrarbrautin var ótrúlega skýr. En ég fann greinilega til óþæginda af því að loftið er svo þunnt í þessari hæð.

Mánudagur 21. júní

Á fætur kl. 8. Eftir morgunverð tók ég myndir af gljúfrinu, leit í minjagripaverslanir og skrifaði Þorbirni, Trausta [Einarssyni] og Þorgerði. Einnig kort til mömmu. Borðaði hádegisverð kl. 12 - matsalurinn var ekki opnaður fyrr. Varð að hlaupa frá matnum til að ná í vagninn niður á flugvöll. Hann lagði af stað kl. 12:30 með aðeins tvo farþega innanborðs. Kom á flugvöllinn laust eftir kl. 13. Þaðan sást vel til Humpfreyfjalls sem er það hæsta í Arizona,  3800 m,  með talsverðum snjó í hlíðum. Flugvélin kom kl. 13:30. Hún þurfti langa braut til flugtaks vegna loftþynningar. Mikill óróleiki var í lofti vegna hitauppstreymis frá eyðimörkinni. Flugið til Prescott tók 20 mínútur. Síðan var haldið áfram til Phoenix og komið þangað um kl 14:30. Þar var þá skýjað og hafði verið úrhellisrigning í hálftíma.
 

 

Eftir lendingu í Phoenix. Bob Shobbrook tók myndina

Bob og Lorraine biðu á vellinum. Það var samkvæmt hugmynd sem við höfðum rætt í Austin, að við myndum fara saman til vesturstrandarinnar í bíl þeirra. En það kostaði að ég yrði að breyta þeirri ferðaáætlun sem gerð hafði verið hjá Governmental Affairs, því að þar var reiknað með flugi til San Diego. Ég sendi því skeyti til að kunngera breytinguna og bað um að hótelið í San Diego yrði afpantað. Svo kom ég við á Skyriders Hotel í Phoenix, afpantaði herbergið þar og sagði upp flugmiðanum til San Diego. Svo lögðum við þrjú af stað í  38° hitasvækju. Ókum fremur stutta leið til Buckeye og komum þangað um kl. 16:30. Fórum þar inn á lítið mótel og létum það verða okkar fyrsta verk að fara í sundlaugina. Horfðum svo á sjónvarp og héldum síðan á veitingastað í nágrenninu til að borða kvöldmat. Ég fór að hátta kl. 21 en sofnaði seint vegna hitans og hávaðans í loftkælingunni. Hitastigið inni var 29° og kælingin léleg. Vaknaði um þrjúleytið. Þá var hitinn enn um  24°.

Þriðjudagur 22. júní

Á fætur kl. 4. Við urðum að ýta bíl Bobs í gang. Lögðum af stað kl. 4:45 til að forðast mesta hitann því að engin loftkæling var í bílnum. Þá var rétt farið að birta. Leiðin lá yfir eyðimerkur Arizona. Nágrenni Phoenix er land hinna sérkennilegu Saguaro (frb. Savaro) kaktusa. Þeir hurfu smám saman þegar vestar dró. Við ókum reyndar fyrst til suðurs til Gila Bend, síðan til vesturs til Yuma og borðuðum þar morgunverð um kl. 8. Þá var talsvert farið að hitna, enda sól komin hátt á loft. Hitinn var um  32°.


Í Arizona á vesturleið. Lorraine og Bob Shobbrook

Síðan ókum við um El Centro, sem er 50 fet undir sjávarmáli, og þaðan upp í fjöllin, upp í  1400 m hæð. Þá fór að verða svalara. Handan við fjöllin var mistur. Við beygðum út af aðalveginum og fengum okkur hádegismat í Julian, en ókum svo áfram til strandar. Sáum Kyrrahafið um kl. 15. Þá var skýjað, sem mun vera óvanalegt hér, og hitinn um 18°. Við komum niður að ströndinni um 11 mílum norðan við San Diego, fórum hliðarveg um skóglendi og ókum síðan til Carlsbad. Leið okkar hafði legið sem hér segir frá El Centro: Jacumba, Pine Valley, Julian, Ramona, Escondito, Rancho Santa Fe, Solana Beach, og loks Carlsbad (sjá kort). Þar fengum við inni á fínu móteli með sjónvarpi, kæliskáp og eldhúsáhöldum, allt fyrir 7 dali.

Ég hringdi í William Loerke í San Diego og fékk upplýsingar um áætlunina sem hann hafði gert um dvöl mína í San Diego. Kom þá upp úr dúrnum að sú áætlun hafði gert ráð fyrir viðtali við þann fræga Nóbelsverðlaunahafa Harold Urey á morgun. Ég verð víst að fara í það viðtal, en sleppi öðrum viðburðum.

Á ströndinni sáum við brimbrettamenn sem láta öldurnar fleyta sér með miklum hraða á löngu bretti (surfboard). 
Við fórum út að borða, en fengum lélegan mat. Horfðum á sjónvarp. Að sofa kl. 22.

Miðvikudagur 23. júní

Á fætur kl. 7. Lorraine bjó til handa okkur mjög rausnarlegan morgunverð. Síðan ókum við af stað til San Diego. Við leituðum uppi háskólann og reyndist hann vera til húsa í mjög nýlegum byggingum. Kaliforníu háskóli er dreifður á eina átta staði. San Diego hlutinn tók til starfa fyrir aðeins tveimur árum.

Ég leitaði uppi Mr. Cy Greaves, almannasamskiptaforstjóra (Public Relations Director) eins og mér hafði verið sagt að gera. Bob og Lorraine fylgdust með. Bob ætlaði að reyna að hitta stjörnufræðingana Margaret og Geoffrey Burbidge, en þau reyndust þá vera í Pasadena þennan dag. Bob og Lorraine fóru þá til La Jolla (frb. hoja), en Greaves fór með mig til dr. Carl McIlwain, nemanda og síðar samstarfsmanns James Van Allen. McIlwain er þarna yfirmaður geimrannsóknahóps og átti tæki í Relay gervitunglunum. Hann sagði mér álit sitt á helstu vandamálum í sambandi við Van Allen geislabeltin. Taldi hraðaukningu rafagnanna sem valda norðurljósum stafa frá rafsviði en ekki segulsviði, en það væri enn ósannað. Hann sýndi mér enn fremur vinnustofurnar. Þeir eru með Control Data 366 rafreikna sem skila þeim afar fullkomnum línuritum.

Kl. 12 kvaddi ég McIlwain. Þá fór Greaves með okkur þrjú niður í Scripps Institute of Oceanography sem tilheyrir háskólanum og bauð okkur upp á hádegismat undir beru lofti. Á eftir skoðuðum við fiskabúr.

Við ókum síðan til Carlsbad. Á leiðinni hringdi ég til San Diego, náði ekki í Loerke, en bað aðstoðarmann hans um að afpanta flugferðina til San Francisco.

Það sem eftir var dags horfðum við mikið á sjónvarp. Loft var skýjað og súld, hiti um 21° sem kvað vera líkt desemberveðri hér, því að venjulega er sól og hlýrra í veðri.

[
Dagbókin getur þess ekki hvað varð um fyrirhugaðan fund með Harold Urey.]

Fimmtudagur 24. júní

Á fætur kl. 7. Borðuðum morgunverð sem Lorraine matbjó. Ég sendi tvær filmur í framköllun og tvö póstkort. Lögðum svo af stað frá Carlsbad kl. 8:40. Ferðin til Palomarfjalls tók tvo tíma. Vegurinn reyndist vera 50 mílur og lá upp í 1700 m hæð. Við ókum út úr mistrinu við Kyrrahafið og komum upp í sólskinið á fjöllunum, sem öll eru skógi vaxin. Á Palomar hittum við umsjónarmann stjörnuturnsins, Mr. Hill, sem var gamansamur og sagði að sér væri illa við stjörnufræðinga. Þarna var líka mættur prófessor Howard og kona hans frá San Diego, en þau höfðu upphaflega átt að aka mér þarna upp eftir.



Við skoðuðum síðan stóra sjónaukann [200 þumlunga spegilsjónauka, þann stærsta í heimi á þessum tíma] og 48-þumlunga Schmidt sjónaukann. Mér fannst sá síðarnefndi skemmtilegri viðfangs. Við fengum að sjá ljósmyndaplötur sem höfðu verið teknar með honum. Þarna dvöldumst við til kl. 12:30 en kvöddum þá. Borðuðum hamborgara í litlum veitingaskúr á leiðinni niður fjallið. Vegurinn er góður, en býsna hlykkjóttur sem vonlegt er.

Við ókum alla leið niður að Oceanside á ströndinni og þaðan eftir hraðbraut ("freeway") til Los Angeles. Eftir tvær klukkustundir vorum við komin í útjaðar borgarinnar, sem er afar víðáttumikil. Ókum þá inn í hinn alræmda reyk ("smog") borgarinnar. Í nágrenni við Disneyland reyndum við að fá mótelgistingu en verðið var hátt ($28 fyrir eitt stórt fjölskylduherbergi). Ókum suður fyrir borgina til Costa Mesa þar sem við komust að á dágóðu móteli, Bel Congo. Þá var klukkan að verða 17. Ég hringdi á skrifstofu Olmsted (Center for International Visitors) og lét vita af breyttri ferðaáætlun.

Kl. 18 fórum við og borðuðum í nágrenninu, héldum síðan út í Disneyland og skemmtum okkur þar til kl. 23. Við fórum í einteinung (monorail railway), í kafbát, í tunglferð, sáum Circarama (kvikmynd allt í kring, stórkostlegt), skoðuðum heimili framtíðarinnar, sáum hvaða aðferðir eru notaðar við gerð teiknimynda (kvikmynda), sáum svifnökkva (hovercraft), "fljúgandi diska", fórum inn í ævintýraland Lísu í Undralandi o.fl. Keyptum Walt Disney myndir fyrir tvo dali stykkið, og ég keypti alla hljómlistina í myndinni Fantasíu fyrir $10.

Fórum að sofa um kl. 24. Veður var skýjað og þægilegur hiti, um 20°.

Föstudagur 25. júní

Á fætur um níuleytið. Eftir morgunverð tókum við saman pjönkur okkar og ókum aftur til Disneylands. Skýjað var og þægilega svalt, miklu tærara loft en í gær. Vorum í Disneyland frá kl. 10:30 til 13:30. Borðuðum þar hádegismat. Sáum aftur Fantasyland, svo Frontierland með indíánaþorpi, Missisippi-fljótabát, seglskipi o.fl. Tók nokkrar myndir.


 

Í Disneyland

Við ókum síðan út á Highway 101 og af stað til Los Angeles. Þegar nær dró miðborginni breikkaði vegurinn í fjórar akreinar í hvora átt. Ökuhraðinn var 90-100 km/klst. og bil milli bíla 10-20 m. Með aðstoð korts tókst okkur að finna hótelið mitt, Chapman Park Hotel við Alexandria Avenue, og kom ég mér þar fyrir með mitt hafurtask. Þar beið mín bréf að heiman, dags. 17. júní, svo og bréf frá konsúlnum hér og skilaboð frá Center for International Visitors, sem ég hafði síðan samband við. Fékk þá að vita að ég væri orðinn of seinn í kynnisferð um Hollywood og Beverly Hills, en það gerði nú minnst til. Að beiðni konsúlsins hringdi ég í frú Guðnýju Þórðarson sem reyndist vera áttræð kona og þekkja Ríkharð Jónsson og Nínu Sæmundsson.

Ég fór síðan á kaffihús með Bob og Lorraine og við fengum okkur hressingu. Kvöddumst svo með virktum. Ætlum að reyna að hittast aftur í Yellowstone Park eða Denver.

Klukkan 7 var ég sóttur á hótelið af Sveini Þórðarsyni  (5622 Richmond Avenue, Garden Grove) og konu hans. Þau eru í Íslendingafélaginu hér, og mér skildist að þau hefðu frétt af komu minni hjá konsúlnum. Þau vissu allt um mig og mínar ættir. Þau eru á að giska 35 ára, töluðu með svolitlum hreim, hafa verið hér í 15 ár. Sveinn vinnur við flugvélasmíði, er verkfræðingur við "stress analysis" hjá Northrop Corporation. Hann er sonur Þórðar á Sæbóli. Þau hjónin fóru fyrst með mig á dýran veitingastað til að borða, en síðan á samkomu mér til heiðurs heima hjá Gunnari Matthíassyni (Jochumssonar skálds). Hann býr á 720 East Parkway, Inglewood. Gunnar er um áttrætt, mjög viðkunnanlegur maður. Hann fór að heiman fyrir 50 árum en er samt laus við allan hreim. Talaði við mig um ættfræði o.fl. Þekkti Þorstein afa vel og líka Guðrúnu ömmu. Kona hans, fædd í Kanada, talaði líka ljómandi íslensku.

Gestir voru um 25 talsins. Þar á meðal var Johannes S. Newton, 10358 Riverside Drive, North Hollywood. Faðir hans er skoskur. Hann þekkti Þorbjörn Sigurgeirsson og Brodda Jóhannesson og bað að heilsa þeim báðum. Þekkti líka Steingrím Hermannsson. Eins og Sveinn er hann verkfræðingur sem vinnur að flugvélasmíði. Honum hafði boðist formannsstaðan í Rannsóknaráði ríkisins en afþakkaði hana. Þorbjörn tók þá við stöðunni. Hafði mikinn áhuga á Leif Eiriksson Foundation í Universal City í Kaliforníu; hafði verið aðalhvatamaður þess að halda minningu Leifs á lofti.

Þarna var einnig Árni Thor Viking sem er í ætt við Svein Víking og býr í Seattle. Þá var þarna fyrrverandi skólabróðir minn úr Gaggó Vest, Peter Ronson og kona hans. Peter býr í Redondo Beach og vinnur hjá Lincoln National Insurance Co. Hann bað að heilsa Jóni Sigurðssyni skólabróður og Bergljótu konu hans. Gamall maður, Skúli Bjarnason, var þarna. Sá hafði búið hér í 55 ár. Bráðminnugur. Kona ein var þarna í heimsókn frá Íslandi, María Óladóttir. Hún reyndist vera góð vinkona Huldu, konu Erlings frænda, þekkti mig strax og bað að heilsa mömmu. Í fylgd með henni var Dóra Andersen sem er gift sænskum manni hér.

Ég kom heim á hótel kl 12:45. Mér fannst mjög eftirtakanlegt hve sterkur félagsandi er ríkjandi hjá Íslendingum hér og áhugi á Íslandi. Fjöldi Íslendinga og manna af íslenskum ættum í Los Angeles er áætlaður 2-300 manns. Einnig eru margir í San Francisco og Seattle. Flest af þessu fólki hefur fest hér rætur og hyggur ekki á heimferð, nema þá í fríi. Skúli sagði mér frá því, að þegar hann var síðast á Íslandi, fyrir tveim árum eða svo, hitti hann leigubílstjóra sem hafði við orð að það ætti að drepa alla Ameríkana. Var Skúli mjög hneykslaður sem von var.

Mér virðist að Íslendingar heima mættu leggja meiri rækt við að halda sambandi við landa sína hér. Newton sagði mér ömurlega sögu um áhugaleysi Íslendinga (þar á meðal Thors Thors) á Leifs Eiríkssonar-félaginu. 

Laugardagur 26. júní

Newton var búinn að segja mér að það myndi hafa verið misráðið af mér að ákveða að fara með lest til San Francisco. Eftir á að hyggja verð ég að fallast á það.

Ég fór á fætur kl. 7:45. Var sóttur í bíl kl. 9:15. Gerði það ungur maður frá Visitors' Center, ekki sérlega geðfelldur né greiðvikinn. Við vorum komnir á lestarstöðina kl. 9:45. Ég kom töskunum í kerru og marséraði að lestinni. Þetta var Pullman með 14 vögnum, og var ég í þeim aftasta. Vagnarnir voru sæmilegir, að vísu of stórir (fjölmenningsvagnar) miðað við þá bresku. Einn vagnanna var útsýnisvagn. Gluggar voru góðir.  Lestin silaðist ekki af stað fyrr en um kl. 10:30 og ætlaði aldrei að auka ferðina. Svona drattaðist hún út fyrir Pasadena.

Los Angeles er ekki falleg borg, afar stór, dreifð, sæmilega hrein, en byggingar ekki fallegar. Ég sá Wilson fjall greinilega, skömmu eftir að komið var út fyrir borgina. Þar er sögufrægður stjörnusjónauki. [Átti eftir að heimsækja hann tuttugu árum síðar.]

Lestin var afskaplega hægfara. Hefur áreiðanlega ekki farið hraðar en 60 km/klst. þegar best lét, enda var hún 11 klukkustundir að komast til San Francisco, sem er þó ekki nema 470 mílur frá Los Angeles. Landslagið var heldur óásjálegt fannst mér, trjágróður við og við en víða sandur og merki um þurrk. Hús voru, eins og annars staðar sem ég hef séð í Suður-Kaliforníu, lítil og óásjáleg, mikið um gamla timburhjalla, og ruslahaugar um allt.

Í vagninum var á ferð hópur ungmenna, úr kirkjufélagi Presbytera skildist mér, sem sungu fallega söngva og spiluðu á gítar og munnhörpu. Þetta voru bæði svartir menn og hvítir, og allt þar á milli. Yfir hádegismatnum ræddi ég við pilt sem átt hafði heima í Panama. Annars var þetta einhver drepleiðinlegasti dagur sem ég hef lifað. Allur búnaður sem tengdist járnbrautinni var minni um sig og lítilmótlegri en í Bretlandi, að mér fannst.

Það var orðið dimmt þegar lestin kom til San Francisco. Ég náði í leigubíl sem fór með mig upp á San Francisco Hilton, þar sem búið var að panta pláss fyrir mig. Lenti í herbergi nr. 1902 á 19. hæð. Hótelið er geysistórt og glæsilegt, með sex lyftum. Þarna biðu mín þrjú bréf að heiman.


 

Útsýnið úr herberginu á Hilton hótelinu

Matur hér vestra er yfirleitt sæmilegur, mikið um salatrétti (allir byrja á þeim nema ég). Svo eru hamborgarar sem borðaðir eru með fingrunum. Það vakti athygli mína að þarna var ísvatnskrani yfir handlauginni, alveg eins og á Driskill hótelinu í Austin. Allar umbúðir mjög snjallar (sykurpokar, kornflögur fyrir 1 mann, mjólkurfernur). Bréfpokar voru utan um öll glös á hótelinu.

Sunnudagur 27. júní

Vaknaði klukkan hálf níu eftir 8½ tíma svefn, en samt ekki úthvíldur. Pantaði morgunverð upp á herbergi. Klukkan 9:30 pantaði ég símtal heim og tók varla meira en 2 mínútur að fá það. [Á þessum árum tók óratíma að fá samband við útlönd þegar hringt var að heiman.] Ég talaði við mömmu og Stefán bróður í a.m.k. sex mínútur. Sambandið var eins og best verður á kosið. Borðaði hádegismat á hótelinu. Kl. 14 kom frú Melinda Hubbard í bíl til að sækja mig og sýna mér bæinn. Hún tók í bílinn Egypta nokkurn frá Kairó sem var í næsta nágrenni.

Veðrið var ljómandi fagurt, Melinda ók með okkur um borgina fram til kl. 17. Borgarstæðið er afar fagurt og fjölbreytilegt. Víða eru furðulega brattar götur. Melinda sýndi okkur kínverska hverfið, Telegraph Hill, höfnina með skútunum og öllum fiskrétta-veitingastöðunum. Við fórum yfir Golden Gate brúna og sáum í fjarska hina brúna, Oakland Bay Bridge, sem er sú lengsta í heimi.

 

Melinda Hubbard og Egyptinn. Oakland Bay brúin í baksýn

Síðan lá leið okkar í garðinn í suðurhluta borgarinnar. Hann er allur skógi vaxinn með vötnum. Þar var áður sandurinn einn. Fórum svo til Twin Peaks sem er hæsti staður borgarinnar.


 

Horft yfir borgina

Eftir að búið var að skila Egyptanum borðaði Melinda með mér kvöldverð á hótelinu og kvaddi svo. Þá var klukkan 19. Melinda var geðug, en kannski ekki of viljug í þessari sjálfboðavinnu. Hún vinnur í sykurverksmiðju, í auglýsingadeildinni, en maðurinn hennar er arkitekt.

Hilton hótelið hér er ekki ársgamalt. Á neðstu sjö hæðunum er hægt að aka bíl upp og leggja við herbergið! Um kvöldið þvoði ég skyrtur og fór að sofa um miðnætti.

Hér er þægilega svalt í veðri, líkt og heima, en æði þokusamt, að mér skilst.

Mánudagur 28. júní

Á fætur kl. 8:30. Lét klippa mig hér á hótelinu fyrir hádegi. Í hádeginu hringdi Lorraine eins og umsamið var, en ég sagði henni að ég myndi ekki komast upp í Yellowstone Park. Vonast til að hitta þau í Denver.

Kl. 12:45 var ég kominn í International Hospitality Center, 55 Grant Street, samkvæmt fyrirmælum State Department. Þar tók við mér maður að nafni Samuel Polland og ók mér og konu frá Gana yfir Golden Gate brúna norður í Muir Wood, rauðviðarskóg þar sem ég skoðaði hin geysiháu, teinréttu rauðviðartré sem eru allt að 2000 ára gömul. Þetta er trjátegundin Sequoia sempervirens, ekki gigantea sem verður ennþá stærri. Rauðviðurinn brennur illa, fúnar aldrei.  Flísar úr honum eru eitraðar og skorkvikindi vinna ekki á honum.

 

Golden Gate brúin

Þarna var ákaflega friðsælt og viðkunnanlegt. Annars var hlýtt í dag, yfir 27°C, sem San Fransiscobúum þykir mjög heitt, en mér fannst þetta nú bara þægilegt miðað við það sem á undan var gengið.

Ég var kominn heim um kl. 16. Kl. 21 um kvöldið hringdi ég norður til Corvallis í Oregon til Gunnars Böðvarssonar. Hann varð hissa að heyra í mér, en sagði annars lítið um sínar fyrirætlanir. Vildi endilega að ég heimsækti sig og gat ekki skilið að það væri ómögulegt. Þrár að venju!

Þriðjudagur 29. júní

Vaknaði kl. 8:30 eftir ónógan svefn. Kl. 11 hringdi ég til Washington og talaði stutta stund við Roz Lewis og Paul Smith. Þá var ég orðinn svo seinn að ég varð að taka leigubíl til Berkeley yfir Oakland Bay brúna. Hún er ótrúlega löng, á tveimur hæðum. fjórar akreinar í hvora átt. Efri brautin liggur til San Francisco.  Ég var hálftíma á leiðinni yfir brúna. Það kostaði 9 dali. Samt var ég 15 mínútum of seinn. Á móti mér tók prófessor Stanley Ward hjá Space Science Laboratory. Hann bauð mér að borða í Men's Faculty Club. "Faculty" merkir hér það sama og "staff" við breska háskóla.

Ward var mjög almennilegur, en þó ekki sérlega viðfelldinn. Hann sýndi mér vinnustofur sínar. Hann er með um það bil 15 stúdenta í framhaldsnámi við vinnuna. Þeir eru aðallega að rannsaka örsveiflur í segulsviði jarðar og nota við það rúbidíum segulmæla með nákvæmni upp á 1-3 nanotesla. Mælarnir eru stefnumiðaðir með spólum. Þeir eru í 80 mílna fjarlægð, en merkin berast með símalínum og eru tekin upp á segulbönd en koma jafnframt fram sem línurit í þremur þáttum. Segulspólukerfið kostar 10-20 þúsund dali. Þeir hafa farið með mæla norður í norðurljósabeltið. Nota einnig spanspólur með 30000 vindinga og mæla eftir tveimur stefnum lárétt. Þeir hafa áhuga á skautun sveiflnanna. Hafa tekið eftir sveiflum sem byrja við SC (Sudden Commencement) og koma svo í 2-3 púlsum með klukkustundar millibili.Ward hefur áhuga á upplýsingum úr Leirvogi sem gætu nýst við þessar rannsóknir. Ég bauð honum upp á samvinnu ef hann vildi.

Kl. 13:30 skildum við og leiðsögukona fór með mér og tveimur Finnum (annar þeirra var rithöfundur) og sýndi okkur háskólasvæðið.


 

Háskólabyggingar í Berkeley

Þarna eru 27500 nemendur þegar mest er. Allt er umhverfið aðlaðandi og vinalegt. Háskólinn er með hraðal (cyclotron) uppi á hæðinni ofan við bæinn. Bókasafnið er mjög fullkomið og lestrarsalir einstaklega viðkunnanlegir. Ég kom við í stjörnufræðideildinni. Hún er í tengslum við Lick stjörnustöðina sem er í tveggja stunda akstursfjarlægð. Þarna er reiknivél af gerðinni IBM 7094, samnýtt af öðrum deildum. Enginn er þarna við sólrannsóknir, en í eðlisfræðideildinni er Kingsley-Anderson sem rannsakar fargas og sólstuðulinn. Hann var ekki við þennan dag.

Kl. 15:30 kvaddi ég og tók strætisvagn í bæinn, að endastöð handan við brúna. Þaðan tók ég svo leigubíl. Kostnaður $1.50. Þegar á hótelið kom pakkaði ég skjölum og hljómplötum í böggul og setti í póst til Washington. Ætlaði að athuga um föt í fataverslun (Bond) en þá var búið að loka þar, aðeins opið frá 9:30 til 17:30. Borðaði kvöldmat kl. 18, horfði á sjónvarp til kl. 20. Skrifaði svo Þorgerði, Stefáni bróður, Alan Mercer [sem var samtímis mér við stjörnufræðinám í St. Andrews] og Ken Fea. Sofnaði seint.

Þennan dag var þoka sem náði niður á hæstu byggingar. Hún kom yfir borgina eftir hádegi. Þetta mun vera algengt hér. Hitinn var 13°C og stinningskaldi!

Miðvikudagur 30. júní

Á fætur kl. 9. Ákvað að hætta við að heimsækja Stanford háskólann í Palo Alto. Hringdi í utanríkisþjónustuna (Dept. of State) og bað þá um að afturkalla heimsóknina á þeirri forsendu að ég væri hálflasinn (var sannarlega þreyttur). Eftir morgunverð fór ég út í verslanir. Suddi var úti, hitinn 13°C. Fór í frakka í fyrsta sinn í Bandaríkjunum. Póstlagði filmu í póstdeild í stórverslun Macy's. Fór síðan í Bond í leit að fötum og líka í aðra búð, en fann ekkert sem mér líkaði. [Bond var á þessum tíma stærsta fatabúðakeðja í Bandaríkjunum. Henni var lokað 1977.] Borðaði í Macy's. Keypti veski fyrir $16! Skrifaði alls 14 bréf og kort til ýmissa viðtakenda innanlands og utan (Bjarna Bjarnasonar klæðskera, Jóa frænda, Gunnars Runólfssonar, Guðnýjar, Ragnars, Rand McMally & Co, Science Associates Inc., Farquar Transparent Globes, Viggós, mömmu, próf. Nielanders í Arizona, Sveins Þórðarsonar og Gunnars Matthíassonar í Los Angeles og Siggu frænku [Sigríðar Thorlacius].

Athugasemdir.
Því meira sem ég kynnist matnum hér, því minna finnst mér til um hann. Þær matartegundir sem líka eru framleiddar í Englandi virðast undantekningarlítið verri hér. Meira að segja hamborgarar eru slæmir hér. Það eina sem er verulega gott er beikon. Besta beikonið er kanadískt, skilst mér.

Götunöfn eru greypt í gangstéttir á hornum hér í San Francisco. Í Hilton hótelinu eru allar herbergisdyr tvöfaldar. Óhreint tau er sett inn í  hurðina en síðan losað utan frá. Skóáburður er fljótandi vökvi í púða sem notaður er til að bera á skóna. Áburðurinn verður gljáandi þegar hann þornar. Fátt er um pósthús hér. Bílar í Kaliforníu eru að meðaltali miklu eldri en í Washington. Umferð er með meiri menningarbrag.

Hilton hótelið er 19 hæðir. Ekið er allt upp á 7. hæð. Sundlaug er á 16. hæð. Bílageymsla er  í kjallara.

Fimmtudagur 1. júlí

Á fætur kl. 8:30. Tók strætisvagn út á SF International Airport kl. 11:30. Lagði af stað með Boeing 720 þotu frá Western Airlines kl. 12:35. Ferðin til Denver tók aðeins tvær stundir. Ég sá lítið út þar sem ég sat ekki við glugga, en ræddi við sessunaut minn, unga stúlku sem hafði afskaplega gaman af að fljúga og hafði ferðast um allt, bæði í lofti og á sæ. Vélin lenti kl. 15:30 eftir staðartíma í Denver.

Á flugvellinum tók á móti mér dr. John Hargreaves sem fyrr var nefndur og nú starfar við National Bureau of Standards í Boulder. Þar voru þau líka komin, Bob og Lorraine. John sagði að búið væri að breyta áætlun minni þannig að ég ætti að koma beint til Boulder og búa þar á hóteli en ekki fara á Denver Hilton eins og fyrri áætlun gerði ráð fyrir. Bob og Lorraine höfðu ætlað að vera með mér til kvölds í Denver, en voru nú á báðum áttum og voru helst á því að halda áfram sinni ferð. En síðan ákváðu þau að fylgja okkur eftir til Boulder og vera þar um nóttina. Ég fór í bíl frá National Bureau of Standards með John, og tók það um þrjá stundarfjórðunga.

Boulder er miklu nær fjöllunum en Denver og á fallegri stað. John fór með mig til hótelsins - mótelsins Travelodge - og skildi þar við mig. Bob og Lorraine komu skömmu síðar. Þeim fannst þetta mótel of dýrt ($12 fyrir þau bæði), og ég fór með þeim til að leita að öðru, og við fundum það ($8). Síðan skruppum við í bílferð upp á fjallið vestan Boulder og nutum útsýnisins. Veður var hálfskýjað. Við sáum dádýr sem Bob tók myndir af. Þegar við komum niður aftur bauð ég þeim að borða á ítölskum veitingastað. Kl. 21 fórum við í bíó saman og sáum myndina "The Yellow Rolls Royce". Síðan héldum við aftur niður í Travelodge og spjölluðum saman til kl. 1. Við áttum hálferfitt með að skilja, því að ekkert útlit virðist fyrir það að við munum hittast næstu árin. Þau hjónin fara til Ástralíu í októberlok. Á endanum kvöddumst við. Mér þótti afar leitt að þurfa að kveðja þau.

Boulder er í 1700 m hæð, og maður finnur greinilega fyrir hinu þunna lofti. John hafði sagst ætla að sækja mig kl. 8, og vitneskjan um það hélt fyrir mér vöku til kl. 2, að minnsta kosti. Svaf illa.

Föstudagur 2. júlí

Á fætur kl. 7. Borðaði morgunmat á nálægum veitingastað kl. hálfátta. John kom kl. 9 og fór með mig upp á skrifstofu sína í National Bureau of Standards. Við ræddum lítið eitt um ríómæla. Svo hringdi ég í International Education í Denver. Þeir höfðu ráðgert að ég færi til NORAD  í Colorado Springs á þriðjudagsmorgun kl. 8. Til þess hefði ég þurft að vera kominn til Colorado Springs á mánudagskvöld. En þar sem ég hef aðeins daginn í dag og svo þriðjudaginn til að hitta menn (laugardagur, sunnudagur og mánudagurinn 4. júlí eru frídagar) leist mér ekki á að einn dagur (dagurinn í dag) nægði mér í Boulder. Bað því um að NORAD heimsókninni yrði sleppt en herbergi pantað fyrir mig á Hilton á þriðjudagskvöld. Þar bíður mín víst talsverður póstur.

Kl. 10:30 fékk ég viðtal við R.W. Knecht (frb. Kenecht) sem er deildarstjóri hjá NBS. Sá minnir mig mjög á kvikmyndastjörnu í öllu látbragði, er mjög lipur maður. Hann hefur verið fimm sinnum í Reykjavík, aðallega í sambandi við fareindahvolfsstöðina (jónosferustöðina) sem þeir reka þar í samvinnu við Símann. Hann hafði hitt þá Gunnlaug Briem, póst- og símamálastjóra og Sigurð Þorkelsson. Fyrirhugað er að leggja stöðina niður, en Knecht sagði að ef við þyrftum á henni að halda, myndu þeir reiðubúnir til að taka málið upp á ný. Hann hefur reyndar þetta mál ekki lengur með höndum, að mér skilst.

Knecht spurði margs um rannsóknastarfsemi okkar og sagði mér frá skipulaginu í Boulder. Það er býsna flókið, og vafasamt að ég muni það allt. NBS skiptist í nokkrar yfirdeildir sem flestar eru að einhverju leyti í Boulder. Þar á meðal eru þær deildir sem fást við staðla um mál og vog. RSL (Radio Standards Laboratory) er í Boulder og sömuleiðis CEL (Cryogenic Engineering Laboratory). Ein deildanna er CRPL (Central Radio Propagation Division). Af öðrum má nefna Ionospheric Telecommunication Division, Tropospheric Telecommunication Division, Aeronomy Division og Space Environment Forecasting Division (þar sem Knecht er deildarstjóri). Undirdeildir í þeirri síðastnefndu eru High Latitude Ionospheric Physics (yfirmaður G.C. Reid), og Solar Activity (C.S. Warwick), Boulder Magnetic Observatory (Bilik) og Space Environment Forecasting Services (J.V. Lincoln). En Knecht sagði mér að nú væri fyrirhugað að sameina ýmsa undirflokka viðskiptaráðuneytisins (Dept. of Commerce) í eina heild. CRPL, Veðurstofan og Coast and Geodetic Survey myndu þá sameinast undir heitinu Environmental Science Services Administration (ESSA). Þetta verður að líkindum mjög bráðlega.

Knecht sagði mér líka frá rannsóknum á fareindahvolfinu með endurvarpi ofan frá (topside ionosphberic soundings) sem nú er unnið að með gervitunglunum Alouette og Explorer 20. Alouette notar tíðnisveipun frá ½ upp í 10 Mc/s en flyst til um 100 km fyrir hverja sveipun. Explorer 20 notar fasta tíðni í hverri mælingu, en tíðninni er breytt svo ört að farið er yfir allt sviðið meðan gervitunglið færist 800 metra. Bæði þessi tungl eru í 1000 km hæð. Góð mynd fæst af röfun í háloftunum, og hafa fundist röfuð lög sem fylgja segulkraftlínunum og koma heim við athuganir frá jörðu niðri í norðurljósabeltinu og sunnan þess. Einn af undirmönnum Knechts, W. Calvert, ungur maður, sagði mér síðar nánar frá þessu með myndskýringum.

Næst talaði ég við Constance Warwick, sem ég kannaðist við í sambandi við vinnu mína að doktorsverkefninu í London. Hún áttaði sig fljótlega á nafninu. Þetta er laglegasta kona, en ekki fannst mér hún geðfelld. Ég ræddi um M-svæði sólar við hana en hafði lítið upp úr því, nema hvað við vorum sammála um það að lítið væri að græða á framlagi Rússans Mustels til þeirra fræða. Warwick er núna að vinna að flokkun sólblossa. Hún talaði mikið um uppgötvun Ness á tengilínum í segulsviði milli jarðar og sólar (óbirt enn). Þetta var reyndar eftir hádegi. Ég borðaði hádegismat með Hargreaves og Sylviu konu hans á snotrum veitingastað (þau buðu). Matur virðist hér um 50% ódýrari en annars staðar þar sem ég hef verið.

Síðast talaði ég við Gadsten, sem hefur fengist við norðurljósarannsóknir og einnig rannsóknir á suðurljósum með aðstoð annarra. Í ljós kom að hann hafði oft komið til St. Andrews meðan ég var þar og unnið með kennara mínum, dr. Jarrett, þótt við hefðum ekki hist. Gadsten er Englendingur.

Þegar ég talaði aftur við Knecht var hann búinn að hafa samband við Stan Ruttenberg sem ég hafði hitt í Washington. Hann var þá með boð frá jarðvísindastofnuninni í College í Alaska, að ég kæmi til þeirra, og myndu þeir kosta bæði ferðir og uppihald. Þótt þetta væri vissulega gott boð, taldi ég ekki gerlegt að taka þennan krók. Búið var að panta viðtöl fyrir mig við Sydney Chapman (á þriðjudag), svo og við Keith Cole, Matsushita, og að líkindum W.O. Roberts. Erfitt yrði að koma þessu heim og saman.

Seinna um daginn fékk ég tíma til að tala við John Hargreaves í smástund. Hann sýndi mér hvernig þeir reikna út sveiflu rólegs dags fyrir ríómælana.

Ég hafði haft samband við dr. Garstang símleiðis um morguninn. Garstang var mér vel kunnugur frá þeim tíma sem ég var við stjörnuturninn í London, þar sem hann hafði aðsetur. Talaðist okkur svo til að ég kæmi til fundar við hann eftir kl. 15. John ók mér til hans á vinnustað kl. 16. Þetta var á stofnun sem kallast JILA (Joint Institute for Laboratory Astrophysics).

Garstang var málþyrstur að venju og talaði um sjálfan sig í hálfan annan tíma áður en honum datt í hug að spyrja mig nokkurs! Hann er nú prófessor í stjarneðlisfræði við Coloradoháskóla, en gegnir auk þess stöðu í JILA ("Professor adjoint") sem er samstarfsvettvangur NBS og NCAR (National Center for Atmospheric Research). NCAR var byggt upp af W.O. Roberts og hann hefur stjórnað þeirri stofnun, en hún heyrir undir National Science Foundation. Háskólinn rekur svonefnt High Altitude Observatory (HAO) með athugunarstöðvum í Boulder og Climax, en stjarneðisfræði er stunduð bæði við NBS og NCAR, að mér skilst.

Garstang bauð mér heim til sín á sunnudag. Á mánudag er ég boðinn til Hargreaves.

Kranavatnið hér í Boulder er kalt, sem er óvenjulegt í Bandaríkjunum að mér sýnist. En í því er mikið klór, og er það því ekki eins gott og vatnið í San Francisco. Loftið hér er of þunnt fyrir minn smekk; ég verð greinlega var við það. Í Boulder búa aðeins 40 þúsund manns.
 
Þegar ég kom heim á hótel var klukkan orðin 18:30. Eftir að hafa matast fór ég að horfa á sjónvarp til kl. 22. Sofnaði um kl. 23.

Laugardagur 3. júlí

Svaf vel. Fór á fætur kl. 9. Gekk úti frá 11 til 13. Hvíldi mig það sem eftir var dagsins, las í bók, horfði á sjónvarp, þvoði skyrtur, skrifaði á kort til mömmu og Þorbjörns. Sólskin úti og hiti 29°. Farinn að venjast um 26° hita inni, en loftið er full þunnt hér.

Samkvæmt útreikningi er ég búinn að eyða $797 í ferðinni, og er það $67 fram yfir það sem ég fæ frá hinum bandarísku gestgjöfum mínum. Þetta má teljast gott þegar til þess er tekið að símtalið heim kostaði $26.40. Og svo eru það fötin.

Sunnudagur 4. júlí

Vaknaði um hálfátta. Á fætur um kl. 9. Eftir morgunverð gekk ég heim til dr. Garstang á 830 8th Street. Var það um 25 mínútna gangur, allt heldur á fótinn, og svo heitt (29° hugsa ég) að mér leið ekki alls kostar vel um það bil sem ég kom á leiðarenda. Þau hjónin tóku vel á móti mér og fóru út að aka með mig í bílnum sínum sem var Ford Comet (compact), dökkgrænn. Litla barnið þeirra, Jennifer, 15 mánaða, var með í ferðinni.


 

Dr. Garstang og fjölskylda

Við ókum norður og austur upp í gljúfur í fjöllunum, um Estes Park inn í Rocky Mountain National Park. Borðuðum lautarsnæðing (picnic) um kl. 14 við Glacier Basin. Fórum síðan upp að Bear Lake og gengum umhverfis vatnið, sem er í 2700 metra hæð og við snjólínu. Sums staðar voru skaflar og víða rennandi leysingavatn. Mjög fallegur staður.


 

Við Bjarnarvatn



 

Ég hnoða snjóbolta við Bjarnarvatn

 

Dr. Garstang og Klettafjöllin

Við ókum síðan upp í Fall River Pass sem er hæsti vegur ("through road") í Bandaríkjunum, 3713 m. Þar var orðið þó nokkuð svalt og loftið þunnt. Ókum síðan nyrðri leið til baka til Boulder. Jennifer litla grét mikið á heimleiðinni. Við komum heim kl. 20. Ég þáði kvöldmat hjá þeim. Hringdi til Roberts og mælti mér mót við hann á þriðjudag kl. 10:30. Garstang ók mér heim kl. 22 eftir mjög ánægjulegan dag.

Í Colorado er ekki haldið upp á þjóðhátíðardaginn fyrr en á morgun, vegna þess að í dag er sunnudagur.

Frú Garstang hefur alltaf jafn tilgerðarlegan enskuframburð. Húsið þeirra er rúmgott og skemmtilegt. Ég spurði Garstang um laun manna með Ph.D. gráðu. Hann sagði byrjunarlaun vera um $10000 á ári. Sumarfrí er aðeins 2 vikur.

Mánudagur 5. júlí

Á fætur kl. 9 eftir góðan svefn. John Hargreaves kom og sótti mig kl. 11. Með honum var ungur piltur, Graham að nafni, líka frá Huddersfield í Yorkshire. Sá ætlar að nema eðlisfræði og hefur fengið sumarvinnu við háskólann hér fyrir tilstuðlan Johns. Hann er rétt nýkominn hingað.

John ók okkur í jeppanum upp fjallið og nokkuð yfir til vesturs, um hálftíma akstur. Þar uppi í 2400 m hæð var húsið hans, fallegt timburhús, eins og A í þverskurð með mjög fallegu útsýni yfir fjöllin. Skógur allt í kring. Kona Johns, Sylvia, var þarna og foreldrar Johns. Þau höfðu komið í vor og verða fram á haust. Þarna stóð nýr Rover 2000, sex strokka, sem þau höfðu komið með frá Kanada, en John á bílinn. Sól var og steikjandi hiti (27-29° í skugga).
 

 

Hús þeirra Hargreaves hjóna í Klettafjöllunum

Við borðuðum fyrirtaks máltíð, en síðan var farið í báðum bílum um 30 km leið eftir hlykkjóttum malarvegum upp að tindi sem hét Sugar Loaf. Ég ók jeppanum síðasta spölinn upp að tindinum, en það var erfiður vegur. Við gengum upp og lituðumst um, en héldum svo heim aftur. Þrumuský héngu yfir um skeið, en við sluppum. Síðan var borðað ("high tea") og loks um kl. 19:30 var lagt af stað niður til Boulder.


 

John og Sylvia Hargreaves

Kl. 20 áttu hátíðahöldin að hefjast. Við fórum inn á leikvanginn, sem líklega hefur rúmað 40 þúsund manns og var nærri fullskipaður.  Fyrst lék lúðrasveit, en kl. 21:30 var orðið dimmt og þá hófst flugeldasýning sem stóð til 22:10 og var mjög falleg. Heiðskírt var og logn. Venus var áberandi á vesturhimni. Eitt atriðið var skemmtilegt. Það var þegar allir voru látnir kveikja á eldspýtu.

Við vorum lengi að koma bílnum út úr þvögunni. Stönsuðum á besta hóteli bæjarins til að fá kaffisopa. Heim kom ég laust fyrir kl. 24.

Þriðjudagur 6. júlí

Á fætur kl. 8. Borðaði morgunverð og tók saman föggur mínar. Greiddi reikninginn, skildi töskurnar eftir í vörslu mótelstjórans og tók leigubíl fyrir $1 til High Altitude Observatory. Þar hitti ég Walter Orr Roberts sem er, eins og fyrr er sagt, framkvæmdastjóri NCAR. Sú stofnun er mun meira fyrirtæki en ég hafði gert mér í hugarlund, með á að giska 100 manna starfslið.


 

Dr. Walter Orr Roberts

Þarna talaði ég sem snöggvast við þann fræga mann, Sydney Chapman, sem þarna hefur skrifstofu þegar hann er í Boulder og er í miklum metum þar. Hann syndir daglega og gengur á fjöll þótt hann sé orðinn 77 ára. Hann spurði hvort ég hefði tekið við af Tryggvasyni [Eysteini]. Robert spurði hins vegar hvort ég þekkti Bergþórsson [Pál]. Páll hafði víst komið þarna á ráðstefnu um veðurfar fyrri alda.

Robert hefur mikinn áhuga á M-svæðum sólar og spurði hvort ég ætlaði að sinna rannsóknum á þeim áfram. Hann sagðist ekkert skilja í NBS að taka þetta ekki til athugunar; vill sjálfur setja það á oddinn í einhverri deild hjá NCAR eftir 1-2 ár. Hann spurði hvort ég væri ekki til í að koma til Boulder um tíma.

Annars ræddi hann mest um eigið starf. Hann virðist hafa fundið samband milli tungls í jarðnánd í sólbraut (bestu flóðskilyrða) og örrar úrkomu í Ástralíu. Einnig tengsl við jafnvægi og ójafnvægi loftstrauma yfir Aleúteyjum. Hann hefur trú á sambandi milli veðurs og norðurljósa á vissan hátt; virðist hafa fundið merki um það. Hann heldur að rafagnageislun hafi áhrif á klósigamyndun í háloftunum, sem aftur hafi geysimikil áhrif á endurvarp sólarljóss og hitastig. Telur hann að mest sé um þetta nyrst yfir Kyrrahafi, en ef til vill líka við Ísland. Vill sjá meiri athuganir á klósigum (cirrus), sem hann segir að skorti frá bandarísku veðurstofunni.

Ég sagðist skyldu athuga hvort hægt væri að bæta við tækjum í háloftabelgi íslensku veðurstofunnar til að mæla innrauða geislun upp á við og niður á við til að ákvarða umfang klósiga. Einnig væri mögulegt að mæla ljósdreifingu nærri sól. Roberts var með góða, litla Xerox afritunarvél (Xerox X813) og tók afrit fyrir mig af sérprentun greinar um þetta efni.

Síðan bauð Roberts mér út að borða. Eftir matinn var mér ekið upp í NBS og þar var ég með John til kl. 16:30. John sýndi mér ýmislegt sem hann er að fást við. Ég sá hjá honum vél (frá Benson-Lehner Corporation, Omaha) sem les af línuritum og færir inn á gataspjöld. Einnig vél   (frá Electro Instruments Inc, San Diego) sem tekur við gataspjöldum og teiknar línurit (punktarit). John ætlar að koma við á Íslandi á leið sinni frá Englandi 3. ágúst með Flugfélagi Íslands kl. 21:30. Fer aftur sömu nótt til Bandaríkjanna með Loftleiðum kl. 02:30.  

Við litum á ríómælalínurit úr Leirvogi. Síðustu línuritin eru ekki góð. Ég þarf að skrifa Vilhjálmi [Kjartansyni, aðstoðarmanni mínum] um það. Kl. 16:30 kvaddi ég John, tók leigubíl á mótelið þar sem ég sótti töskurnar og fór síðan á rútubílstöðina. Þar heyrði ég talað um Icelandic Airlines; hér virðast allir þekkja Loftleiðir. Vagninn til Denver lagði af stað kl. 17:15 og var klukkustund á leiðinni. Tók svo aftur leigubíl til Hilton hótelsins, sem er álíka stórt og í San Francisco, en með enn fleiri verslanir á neðstu hæð. Sól og hiti 29°C. Borðaði kl. 7. Fékk bréf frá Þorgerði, Einari Júlíussyni, Roz Lewis og mömmu og skrifaði þremur á Eðlisfræðistofnun (Þorgerði, Einari Júlíussyni og Vilhjálmi Þór [Kjartanssyni].  Lét pressa buxurnar mínar á hótelinu um kvöldið. Fékk þær aftur eftir hálftíma.

Denver virðist ekkert sérstök borg á einn eða annan máta, nema hvað hún hefur viðurnefnið "Mile high city" vegna legu sinnar.

Fór að sofa kl. 24.

Miðvikudagur 7. júlí

Á fætur kl. hálfníu. Tók "limousine" frá hótelinu til flugvallarins kl. 10:15. Það var 20 mínútna ferð og kostaði $1.25. Vélin var Boeing 727 þota frá United Airlines. Lagt af stað um kl. 12 og flogið beint til Omaha í Nebraska. Ég talaði við námaverkfræðing frá Salt Lake City á leiðinni. Ferðin tók nálægt klukkutíma. Í Omaha varð ég að bíða til kl. 16 eftir vél. Hún átti að fara kl. 15:25 en fór kl. 16. Þetta var Douglas DC6B frá United Airlines. Hef ekki flogið í þeirri tegund flugvéla áður. Vélin var hávaðasöm þótti mér, enda þótt ég sæti aftast. Eftir hálftíma lenti hún í Des Moines í Iowa þar sem stansað var í tíu mínútur en síðan flogið áfram til Cedar Rapids. Komum þangað kl. 18:30 að staðartíma, hálftíma á eftir áætlun.

Á vellinum tók á móti mér dr. Keith Kafer (frb. Keifer) og kona hans og óku þau mér í Oldsmobíl sínum til Iowa City. Tók það um þrjá stundarfjórðunga. Þau hjónin fóru með mig á fínan veitingastað þar sem við borðuðum kvöldverð, en síðan óku þau mér um og sýndu mér bæinn. Þau skiluðu mér svo á hótelið kl. 21.

Iowa City er um 40 þúsund manna bær, ákaflega aðlaðandi á flestan hátt. Mikill trjágróður alls staðar og hús snotur. Háskólinn er miðdepill bæjarlífsins, stúdentar yfir 13 þúsund. Auk hins nafntogaða Van Allen er læknaskólinn þekktastur.

Ég sá furðu lítið af búðum í miðbænum, og Jefferson hótelið, sem sjálfsagt er það helsta, er frekar gamaldags. Ekki sjónvarp eða ísvatn í krana. En gott er að vera kominn hingað heilu og höldnu eftir þrjár flugferðir í dag. Var ekki vel góður maganum í dag.

Ég sendi Stefáni bróður kort frá Omaha. Flugferðirnar á þessu ferðalagi eru nú orðnar 17 talsins. A.m.k. 6 eftir. Nú hef ég eytt $843, og er það aðeins $13 umfram framlag gestgjafanna.

Fimmtudagur 8. júlí

Á fætur kl. hálfátta. Kl. 8:45 kom Mr. Kafer á hótelið, ók mér í háskólann rétt hjá, og vísaði mér til dr. Van Allen. Van Allen reyndist allra viðkunnanlegasti maður. Hann ræddi lengi við mig og útskýrði það sem hann og félagar eru að vinna að núna. Í fyrsta lagi ræddi hann um lögun segulhvolfsins. Hann segir það teygjast aftur fyrir jörð, séð frá sól, en óvíst sé hvernig halinn sé eða hve langt hann nái. Hann segir að Ness vilji halda því fram að halinn nái margar stjarnfræðieiningar út í geiminn, en sjálfur telur hann líklegast að lengdin sé 50-100 jarðgeislar. Næst sól eru segulhvörfin (magnetopause), síðan umskiptabelti að 15 jarðgeisla fjarlægð. Til hliðar séu segulhvörfin við 15 jarðgeisla en umskipti út í 23 jarðgeisla. Van Allen er með tæki í Mariner 4 geimflauginni, en samkvæmt þeim nær halinn út í 3300 jarðgeisla fjarlægð. Mariner 4 á að fara framhjá Mars að kvöldi 14. þessa mánaðar og fer þá gegnum geislabelti þar, ef eitthvert er, á 2-3 klukkutímum.

Um morguninn talaði ég einnig við Leinbach sem átti mikinn þátt í þróun ríómæla. Annar maður sýndi mér rannsóknastofuna. Þeir flytja brátt í annað og betra húsnæði. Um 30 nýjar háskólabyggingar eru fyrirhugaðar. Ég sá reiknivélina sem þeir nota. Það mun vera Univac 728.

Í hádeginu fór dr. Van Allen með mér og fleirum á hótel Jefferson  og við borðuðum þar. Í þeim hópi var japanskur stjörnufræðingur.


 

Van Allen (t.h.) ræðir við samstarfsmenn eftir hádegismatinn

Van Allen ráðlagði mér að flytja af Jefferson yfir í Iowa House Hotel í Iowa Memorial Union, nýtt gistihús sem háskólinn var að opna. Gerði ég það, en gekk illa að fá leigubíl í þessum litla bæ. Var kominn aftur upp á eðlisfræðideildina kl. 14:30, hálftíma of seinn í viðtal við dr. Honer. Sá sagði mér margt um fræðilega útreikninga sína og líkanatilraunir í sambandi við geislabeltin. Fékk ég eintök af ritgerðum hans um þetta efni.

Næst fór ég með ungum pilti, Gurney að nafni, í aðra deild (Satellite Environment) þar sem hann sýndi mér stafla og hillur af gögnum úr gervitunglinu Injun 3. Einnig sýndi hann mér hvernig þeir höfðu með gervitunglum uppgötvað róteindaflautara (whistlers) til viðbótar við rafeindaflautara og hvernig hægt væri að nota þessa flautara til að mæla hlufall róteinda og rafeinda, segulsvið, hitastig og fleira með ótrúlegustu nákvæmni.

Á eftir fór ég á hótelið, sem er hið vistlegasta, fór í sturtubað og beið síðan eftir Van Allen sem kom að sækja mig rétt fyrir klukkan 19. Úti var hitasvækja, 30°C, of heitt en þó ekki óbærilegt. Van Allen ók með mig heim til sín í útjaðar bæjarins, til kvöldverðar. Þar voru saman komin auk konu hans (sem mér fannst leiðinleg), Gurney og hans kona (lagleg, en  kuldaleg), einhver Rogers, Englendingur frá Ródesíu (talaði með hreim), og dr. Venkatesan og kona hans, bæði viðkunnanleg. Við borðuðum úti á svölum. Þar sá ég margar eldflugur (fireflies) sem ég hafði ekki áður séð. Gurney ók mér heim kl. 24. Ég hafði takmarkaða skemmtun af þessu kvöldi. Mér fannst eiginkona Van Allens áberandi illa gefin.


 

Í kvöldboði hjá Van Allen

Van Allen og Rogers sögðu okkur frá örlítilli handreiknivél sem framleidd væri í Lichtenstein en fengist einhvers staðar hér.

Hér í Iowa Memorial Union eru gosdrykkjasjálfsalar sem ég hef ekki séð áður (kassar á gólfinu), ískassar á göngunum, sjónvarp, vekjaraklukka á veggnum með útvarpi o.fl.

Föstudagur 9. júlí

Vaknaði við þrumuveður í nótt. Á fætur fyrir kl. 8 eftir sex tíma svefn. Kafer ætlaði að koma kl. 9, en kl. 9:10 sendi hann skilaboð um að hann kæmi ekki fyrr en 9:30. Reyndar kom hann ekki fyrr en 9:50 og þá var mér farin að leiðast biðin. Skrifaði mömmu á meðan. Kafer sagði mér af bréfi sem hefði komið á Jefferson hótelið. Reyndist það vera bréf að heiman. Síðan ók Kafer með mig og sýndi mér verksmiðju Procter & Gamble sem framleiðir 20% af öllu tannkremi í Bandaríkjunum (aðallega Crest en líka Gleem) auk hárþvottaefnis (Head and Shoulders og Prell), sápu (Camay, Zest, Ivory), o.fl. o.fl. Crest er mest selda tannkremið í Bandaríkjunum sem stendur. Okkur var sýnd verksmiðjan að innan og var það mjög fróðlegt. Þeir eru með eigin lækningastofu.

Þessi kynningarferð tók klukkutíma. Á eftir ók Kafer með mig út fyrir bæinn og sýndi mér flugvöllinn (fjórar ferðir til og frá bænum á dag) og bóndabýli. Allmargir bændur eru með eigin flugvélar þótt vegirnir hér í Iowa séu sérlega góðir.

Kl. 12:15 fórum við á Jefferson  og borðuðum. Hittum þar Van Allen og félaga. Þeir höfðu þá hist, dr. Honer og Gurney, og var Honer mjög ánægður með niðurstöður Gurneys því að þær virðast styðja skoðanir hans. Honer hefur gert fræðilega rannsókn á hreyfingu sólvindsins í nágrenni jarðar og komist að þeirri niðurstöðu að jarðsnúningurinn ráði þar miklu. Taldi hann tvær iður myndast með andstæðri hreyfingu. Van Allen hlustaði með athygli á viðræður þeirra. Á eftir fór Gurney með mig og fékk annan mann til að sýna mér reiknimiðstöðina. Þar eru þeir með IBM 4060 með seguldiskum, segulböndum, hraðlesurum og prenturum sem skila 600 línum á mínútu.

Síðan fór ég aftur í eðlisfræðideildina. Þar tóku þeir við mér Leinbach og Neff, sem er stjörnufræðingur, og óku með mig út í stjörnuturn um 15 mílur í burtu. Þar eru bæði 24 þumlunga Cassegrain sjónauki, splunkunýr, rafaldsmóttökutæki og diskur til að fylgjast með Injun 4 gervitunglinu og taka við merkjum frá því. Þarna var kominn aftur John E. Rogers sem á að verða yfirmaður rafaldsdeildarinnar skilst mér. Tók ég mynd af honum. Hann bað mig að senda sér myndina.


 

John E. Rogers

Heim komst ég kl. 17:30. Fékk mér þá brauðsneið. Kl. 19:15 hringdi Kafer og bauð mér í leikhús. Kom hann svo kl. 19:30 og sótti mig. Kona hans var með honum. Við biðum uns við fengum ósótt sæti. Leikhúsið er fremur gamalt skilst mér, þótt það líti ekki út fyrir að vera það. Sæti eru mjög þægileg, en tónburður afleitur. Gestir voru mjög sundurleitir hvað klæðaburð snerti. Leikritið var Under Milkwood, eftir Dylan Thomas, líklega síðasta leikritið sem hann samdi. Í því er einstaka góður punktur, en almennt er það ruglingslegt, kjánalegt og gróft að mínu áliti. Níu ára gömul dóttir Kafers kom þar fram, en þau eiga börn á aldrinum 12, 9, 6 og 2 ára minnir mig.

Á eftir buðu þau mér heim með tveimur kunningjahjónum. Önnur hjónin voru bæði greind og skemmtileg. Kona Kafers er fremur lagleg en ekki sérlega vel gefin - viðkunnanleg þó. Kafer minnir svolítið í útliti á Schalhorn [deildarstjóra hjá Carl Zeiss].Van Allen minnir hins vegar á leikarann góðkunna,  Fernandel!
 
Ég komst ekki heim fyrr en undir kl. 1. Hiti í dag var um 31° , samt ekki óþægilegur.

Laugardagur 10. júlí

Vaknaði fyrst kl. 8, sofnaði aftur og vaknaði kl. 10. Eftir morgunmat gekk ég upp í háskóla. Sólskin var, en svalara í veðri. Dr. Van Allen var upptekinn, en við mæltum okkur mót á Jefferson kl. 12. Þar borðaði ég með honum og fjórum öðrum. Umræðurnar snerust mest um 200 BeV hraðal sem allir eru að reyna að fá til sín, og möguleika á fjartengingu við reiknivélar (line computer service). Kostnaður við slíkt er víst tiltölulega lítill, 2-300 dalir á mánuði.

Eftir mat var ég hjá Van Allen til kl. 14:40. Hann dró upp fyrir mér mynd af geislabeltunum eins og þau eru nú talin líta út. Enn er þar margt í óvissu. En helst er svo að sjá að róteindir í innra beltinu, með orkuna 100-400 MeV, sem líklega stafa af sundrun nifteinda, séu óverulegur hluti af heildinni. Það er miklu meira af orkuminni róteindum (sívaxandi eftir því sem nær dregur jörðu) og þær geta alls ekki stafað frá nifteindum. Sama er að segja um rafeindirnar. Van Allen telur að rafagnirnar komist inn í kraftlínur segulsviðsins við segulhvörfin og fái svo hröðun með einhverjum hætti. Að öllum líkindum sjáum við aðeins orkumestu agnirnar; sennilega sé meira neðan við 10 keV, og þær orsaki norðurljós o.fl. Þess vegna er verið að undirbúa tæki fyrir Injun 5 til að mæla agnir niður í 100 eV. Einhvers staðar hljóti að vera hámark í rafagnafjölda, því að takmörk séu fyrir því hve mikla orku segulsvið jarðar geti varðveitt.

Þegar ég kvaddi Van Allen lét hann mig fá til aflestrar ritgerðir Bandaríkjamannsins Forrest Mozers [sem vann við eldflaugaskotin á Mýrdalssandi]. Hann hafði fengið þær til umsagnar fyrir Journal of Geophysical Research og vildi fá mitt álit. Ætlar að biðja Kafer fyrir þær aftur á morgun.


 

Eldflaug Frakka á Mýrdalssandi. Dr. Forrest Mozer er lengst til vinstri, en næst honum er leiðangursstjórinn, próf. Jacques Blamont

Ég þvoði skyrtur og sokka. Las síðan greinar Mozers og fór og skilaði þeim til Van Allens. Borðaði á Jefferson. Horfði á sjónvarp og sá Secret Agent, breskan þátt, ágætan.

Iowa City minnir mig á St. Andrews á margan hátt - stíllinn á elstu háskólabyggingunum, vafningsviðurinn, trén og smábæjarbragurinn, þótt Iowa City sé stærri bær en St. Andrews.

Fór að sofa kl. 24 eftir þvott. Olíu- eða tjörudropar voru í heita vatninu og skemmdu stuttermaskyrtuna mína.


 

Háskólabyggingar í Iowa City

Athugasemdir

Hótelþjónusta hérlendis er sú besta sem ég hef nokkru sinni kynnst. Matur í smábæ eins og Iowa City er a.m.k. 50% ódýrari en annars staðar. Morgunverður kostar aðeins 70 sent og máltíð frá $1 upp í $1.50. Bandaríkjamenn eru hvorki tískulegir eða smekklegir í klæðaburði. Hreinlæti er framúrskarandi, a.m.k. á yfirborðinu. Lorraine hafði aðra sögu að segja af persónulegum kynnum við Bandaríkjamenn. Sjónvarp er upp og ofan hvað styrkleika snertir. Háskólinn hér í Iowa City starfrækir eigin útvarpsstöð og útvarpar klassískri tónlist.

Allmörg amerísk orð og orðtæki eru frábrugðin enskum. Hér koma nokkrar skýringar hérlendra orða:
   (Ameríska - enska)
   glue = gum
   gum = chewing gum
   you bet (you are welcome = don't mention it)
   faculty = staff
   bellman = hotel porter
   brunch = breakfast/lunch
   apartment = flat
   elevator = lift
   crib = cot
   hood = bonnet
   boot = trunk
   automobile = car
   movies = pictures
   pavement = street surface
   sidewalk = pavement

   Nokkur orð eru borin öðru vísi fram en Englendingar gera.
   Laboratory fær áherslu á fyrsta atkvæði í stað annars
   Simultaneous er borið fram "sæmulteineous" í stað "simulteineous" Advertisement verður "adver'tæsment"

Sjálfsagt eru dæmin miklu fleiri. Þetta er bara það sem ég hef rekið mig á.

Sunnudagur 11. júlí

Á fætur um níuleytið. Borðaði morgunverð á Jefferson. Skrifaði Garstang, Hargreaves og dr. C. [?], University of Alaska Geophysical Institute. Tók myndir af háskólanum. Veður fagurt, ekki allt of heitt, líklega um 24°C. Reyndi enn að hringja til Eysteins Tryggvasonar í Tulsa, en enginn svaraði. Eftir hádegismat fór ég í bað, horfði á sjónvarp og pakkaði saman dótinu.

Kl. 15:40 kom Kafer með bróður sínum, Austin, og sótti mig. Báðir voru á stuttbuxum og í stuttermaskyrtum. Kafer ók mér til flugvallarins í Cedar Rapids sem er 100 þúsund manna bær. Komum við þangað kl. 16:15. Vélin átti að fara kl.16:47 en hún kom ekki fyrr en 16:50. Þetta var vél af gerðinni Fairchild F27 (eins og Fokker Friendship vélarnar heima). Flugfélagið var Ozark Airlines. Vélin lagði af stað aftur kl. 17:00. Hún fór fyrst til Waterloo (20 mín. flug), síðan til Rochester (25 mín.) og loks Minneapolis - St. Paul (The Twin Cities). Þangað komum við sem næst á áætlun, kl. 18:35.
 

Þar tók á móti mér sjálfur Valdimar Björnsson, á stuttermaskyrtu, og talaði góða íslensku. [Valdimar var góður vinur foreldra minna. Hann var á þessum tíma fjármálaráðherra Minnesotafylkis.] Valdimar ók mér heim til sín í bíl bróður síns, Jóns. Það hafði sprungið á bíl Valdimars og hann hafði ekkert varadekk! Á leiðinni fór bíllinn að hita sig og hætti að hlaða rafgeyminn. Ég giskaði á að viftureimin væri farin. Valdimar vissi auðsjáanlega lítið um bíla og ók áfram þrátt fyrir hitalykt eina 3-4 km að bensínstöð, rétt hjá heimili hans. Auðvitað var viftureimin í sundur.

Vilhjálmur kynnti mig fyrir konu sinni og dóttur, Helgu, sem er 19 ára og skilur nokkurn veginn íslensku en vill helst ekki tala hana. Hún er fædd á Íslandi og var þar í þrjá mánuði á síðasta ári. Konan talar íslensku fullkomlega en ensku ekki alveg 100%. Við töluðum til skiptis á ensku og íslensku. Þá kom bróðir Valdimars og hans kona, lagleg. Sú hafði unnið hjá Nielsi Dungal. Mér var boðið íste, en ekki aðrar veitingar. Í gestabók Valdimars voru nöfn pabba, mömmu og ömmu. Helga var mjög viðfelldin stúlka. Ég sá líka yngri systur hennar, 11 ára, og dreng.

Kl. 21:15 ók Valdimar með mig (og Helgu) og sýndi mér háskólann í rökkrinu. Fór svo með mig á hótel - Curtis Hotel, 3rd Avenue, næstum í miðjum bænum. Bíll Valdimars er gamall og var grútskítugur. Í borgunum báðum með útborgum búa um milljón manns. Margar byggingar þarna eru gamaldags, en nýtískulegar byggingar inni í milli. Curtis hótelið er beggja blands, mjög stórt, herbergin gamaldags. Hjá Valdimar biðu mín bréf að heiman og frá Englandi. Valdimar hafði fengið tilkynningu um komu mína ásamt æviágripi um miðjan júní! Þarna var mjög þægilegt veður. Ég sá undarlega ljósrák skáhallt upp frá sól eftir sólsetur.

Flugferðir mínar í þessari Bandaríkjaför eru nú orðnar 20 talsins. Að minnsta kosti 6 eru eftir samkvæmt síðustu áætlun.

Ég borðaði kvölmat á hótelinu kl. 22:30. Maturinn var dýr og ekki sérstaklega góður. (Nú eru útgjöldin $15 undir áætlun.)

Mánudagur 12. júlí

Fór seint að sofa í gærkvöldi. Var að horfa á sjónvarp til klukkan 1. Var svo vakinn með símhringingu kl. 8. Það var dr. Howard Johnshoy frá International Relations Department, University of Minnesota. Sagðist hann koma að sækja mig kl 9:30. Meðan ég beið skrifaði ég á kort til Stefáns bróður.

Dr. Johnshoy kom á tilsettum tíma og ók mér fyrst á skrifstofu sína í háskólanum. Hann er af norskum ættum; afi hans bjó til nafnið Johnshoy (hoy=hæð). Hann sagði mér margt um háskólann. Þarna eru 38000 stúdentar á fjórum háskólasvæðum (campus). Háskólabyggingarnar eru margar og þéttar, of nálægt umferðaræðum, ekki sérlega vistlegar. Flestar eru í klassiskum stíl (redbrick), sumar með grískum súlum. Eftirminnnilegastur er geysistór áheyrnarsalur með súlnainngangi og garði fyrir framan, þó ekki aðlaðandi.

Það gekk illa að panta viðtal við dr. Winkler; hann virðist hafa of mikið að gera til að tala við nokkurn mann. Mér fannst einhver stórmennskubragur á þeim boðum sem komu frá honum. Kellogg var ekki við, en prófessor E.P. Ney, samverkamaður Winklers, veitti mér viðtal kl. 11. Við ræddum saman í klukkustund. Ney var hinn alúðlegasti og sagði mér frá gervitunglaathugunum sínum. Viðfangsefni hans er loftljómi (airglow) og sverðbjarminn (zodiacal light). Hann sýndi mér stórfallegar myndir (panorama) af loftljóma og norðurljósabogum teknar úr loftbelg. Filman var Super Anscochrome. Myndavélin snerist hægt í hring og filman færðist um leið. Ekki er fullljóst hvað veldur loftljómasamfellu sem er í 80-100 km hæð og sést greinilega úr geimförum í sýnilegu ljósi.

Ney fékk mér einnig áhald, "surface brightness calculator", sem hann hafði útbúið og bað mig að yfirfara.

Um hádegið gekk ég yfir í stúdentamiðstöðina (Union) þar sem ég hafði mælt mér mót við Johnshoy í kennaraklúbbnum á 4. hæð. Yfir matnum sagði Johnshoy mér margt um skólamál. Honum er illa við það hve stúdentar klæðast óformlega hér og sagði að í nýstofnuðum háskóla í Tampa á Flórída, þar sem hann var deildarforseti, hefði sér tekist að innleiða almennilegan klæðaburð frá byrjun. Sagði hann að eitt aðalverkefni háskóla væri að innræta mönnum háttvísi í framkomu ("gracious living").

Í Minnesota eru meðal annars 3M (Minnesota Mining and Manufacturing Co.) og höfuðstöðvar Control Data.

Kl. 13:15 kvaddi ég Johnshoy og gekk aftur yfir í eðlisfræðibygginguna. Þá var farið að rigna. Ég átti pantað viðtal við prófessor Willem Luyten, frægan stjörnufræðing. Hann reyndist afar viðkunnanlegur maður. Hann hafði þekkt prófessor Freundlich [kennara minn í St. Andrews] Nú vinnur hann að mælingum á eiginhreyfingum stjarna með 48 þumlunga Schmidt sjónaukanum á Palomar. Hann sýndi mér bliksmásjá (blink microscope), Schmidt ljósmyndaplötur af vetrarbrautinni (ótrúleg stjarnamergð) og dulstirnið fræga 3C 9 (nær ósýnilegan depil á plötunni). Luyten kannaðist við Tao Kiang, samstarfmann minn við stjörnuturninn í London. Hafði honum líkað vel ummæli Kiangs um bók Luytens, "Properties of double stars". Var lítt hrifinn af Hoyle og öllum hans ótrúlegu kenningum, sagði hann.

Ég fór aftur til Ney. Ætlaði að hitta Karl Pfitser, en hann fannst ekki. Beið í hálftíma og fékk þá óvænt tækifæri til að tala við "mikilmennið" Winkler, sem er leiðbeinandi Pfitsers í doktorsnámi. Winkler sagði mér frá nokkrum niðurstöðum geimgeislamælinga úr loftbelgjum. Þær mælingar ná yfir heilt sólblettaskeið og sýna tímatöf sem ekki virðist koma heim við segulstorma, en Winkler hefur ekki athugað það nánar. Hann hefur enn áhuga á Pocibo verkefninu (Polar Circling Balloon Observatory) sem strandaði, bæði af tæknilegum ástæðum og stjórnmálalegum. Ég benti á þann möguleika að senda upp belgi frá Íslandi. Hann taldi staðsetninguna mjög góða en sagðist búast við pólitískum mótbárum. Sagði að Norðmenn þyrðu ekki að bjóða upp á Norður-Noreg í þessu skyni. Ég lofaði að kanna undirtektir og láta hann vita.

Winkler vissi allt um Mozer og Blamont, sem unnu að eldflaugaskotunum á Mýrdalssandi. Var hann með greinar Mozers og sagði eitthvað á þá leið að þær væru fullar af smáatriðum eins og títt væri um byrjendaverk, en annars ágætar (Winkler er merkilegur með sig). Ég var svo hálftíma með Pfitser sem sýndi mér gögn frá OGO (Orbiting Geophysical Satellite) gervitunglinu. Þar sjást róteindir og rafeindir yfir 50 keV. Í háorkurafeindunum koma fram mjög skörp skil milli innra og ytra geislabeltis, en skilin eru ekki eins glögg við lægri orku. Í segulstormum virðist ytra beltið færast nær jörðu og fylla bilið að nokkru leyti.

Þarna var Frieden 150 borðreiknivél (rafeindareiknivél) sem kostar $2000. Þeir láta mjög vel af henni. Nefndu aðra gerð sem þeir þekktu til (Monroe),

Winckler ók mér heim á hótel. Billinn hans var með mjög lélegar, ískrandi bremsur. Ekki þótti mér hann sérlega viðfelldur, of mikill með sig, þótt hann reyndi að vera almennlegur. Hann sagðist þekkja Valdimar Björnsson (eða Val Björnsson, eins og hann kallaði hann).

Valdimar hringdi og sagði að betra væri að ég heimsækti Helgu og son hennar annað kvöld, ef ske kynni að þá yrði heiðskírt. Sonurinn, Eric Brogger, hefur mikinn áhuga á stjörnufræði, að mér skilst. Í kvöld var allhvasst, vel heitt, en hætt að rigna.

Að beiðni Valdimars hringdi ég í Helgu og talaði lengi við Eric. Hann spurði um allt milli himins og jarðar sem tengdist stjörnufræði, eins og títt er um áhugamenn.

Kl. 23:30 ætlaði ég að fara að sofa, en þá skall á þrumuveður allmikið, og ég gat ekki stillt mig um að fylgjast með því úr glugganum. Sá margar eldingar, auk leiftranna sem komu afar títt. Engin eldinganna var þó mjög nærri. Fór að sofa kl. 00:30, giska ég á.

Þriðjudagur 13. júlí

Vaknaði klukkan 8. Skýjað var fyrir hádegi, en sól og heiðskírt seinnipartinn. Hiti 27-29°C, raki líklega um 70%. Full heitt og rakt fyrir mig. En loftkælingin í hótelherberginu virkar fullkomlega, og það er meira en hægt er að segja um sum fínni hótel og nýtískulegri sem ég hef dvalið á, þar sem hitastillirinn virðist vera "upp á punt". Hér er líka ómengað vatn, beint úr brunni hótelsins sjálfs. Annars fá menn vatn hér úr Missisippifljótinu.

Ég skrifaði mömmu, Guðnýju og Þorgerði. Fór síðan í búðir, bæði fyrir og eftir hádegi, og keypti m.a. aðra stuttermaskyrtu á 5 dali. Helsta verslunargatan hér heitir Nicollet; hér er mikið um frönsk götunöfn sýnist mér. Borgin minnir annars svolítið á London, sumt fallegt, annað ljótt.

Kl. 20:30 kom Valdimar í bíl með syni mágs síns og við ókum heim til mágsins, sem heitir Arne Brogger og er giftur Helgu, systur Valdimars. Arne er norskur. Hann er lamaður, varð fyrir slysi í fallhlífarstökki. Þau eiga þrjá syni. Sá elsti var sá sem bílnum ók, nýkominn af spítala þar sem hann var að dauða kominn af magasári. Það hafði gerst nokkuð snögglega.

Yngsti sonurinn, Eric, talaði mikið við mig um stjörnufræði og spurði margs, en allt voru það einfaldar spurningar. Eftir að dimma tók sýndi hann mér sitt af hverju í 4-þumlunga kíki sem hann á. Að skilnaði gaf hann mér bók. Valdimar og kona hans fóru heim um kl. 22:20, en ég fór kl. 22:50. Eric og bróðir hans óku mér á hótelið. Mjög viðkunnanlegt fólk. Í símaskránni sá ég að heimilsfang Arne Brogger er 4800 Folwell Drive, Minneapolis.


 

Valdimar Björnsson með Arne Brogger og fjölskyldu

Miðvikudagur 14. júlí

Á fætur kl. 6:45 eftir aðeins sex tíma svefn. Af stað með "limousine" frá hótelinu kl. 8:10. (Kostaði $1.50 minnir mig.)Komum á flugvöllinn kl. 8:35. Flugvélin lagði af stað kl. 9:30. Þetta var Caravelle þota frá United Airlines, mjög falleg, en ég sat nærri hreyflinum vinstra megin og hávaðinn var of mikill. Varð að halda fyrir vinstra eyra. Sá vel yfir Michiganvatn. Við flugum í góðu veðri í 25 þúsund feta hæð til Chicago á einni klukkustund. Þegar Caravelle þotan var komin niður að brautinni, hóf hún sig skyndilega upp aftur vegna umferðar og lenti á annarri braut. Þetta var afar óvænt; við vorum aðeins fáeina metra yfir brautinni.

Ég sendi Stefáni bróður kort frá Chicago meðan ég beið eftir annarri vél. Var það Viscount frá United Airlines. Flugið með henni var heldur óskemmtilegt, bölvaður titringur í vélinni, og seinni hluta leiðarinnar vorum við í skýjum.

Viscountinn lenti í Buffalo kl. 13:20, þ.e. kl. 14:20  eftir staðartíma. Þar var hvassviðri og rigning og erfitt að lenda. Frá Buffalo var farið kl. 14:45 og lent í Rochester kl. 15:05 (sjá kort).
Þar var ekki rigning heldur hitamóða, dropar og mjög rakt. Enginn var til að taka á móti mér svo að ég tók "limousine" á hótelið. Hringdi þaðan í Rochester Association for the United Nations. Þeir virtust ekki hafa fengið bréfið frá Governmental Affairs, svo að ég verð líklega að tala sjálfur við Kodak á morgun. Fór út kl. 17 og fékk mér hamborgara ("cheeseburger").

Rochester minnir mig mjög á enska borg, hótelið líka. Það er Sheraton Hotel og Motor Inn, 111 East Avenue. Það fyrsta sem ég gerði á hótelinu var að fara í sturtubað. Nú eru flugferðirnar orðnar 23. Líklega eru fjórar eftir.

Geimflaugin Mariner IV fór fram hjá Mars í kvöld. Adlai Stevenson lést í London í morgun.

Ég varð var við tvö mýflugnabit í dag, annað á vinstri hendi, hitt á vinstra fæti. Kona Valdimars Björnssonar hafði verið að tala um mýflugnaplágu í Minneapolis og að hún undraðist að ég hefði sloppið. Ég sá mýflugur í kvöld - hef líklega ekki sloppið við þær eftir allt.

Meðan ég man, ég hef komist að raun um að Bandaríkjamenn leifa yfirleitt ekki af mat þótt mikið sé á diskunum. Vatnið á hótelinu hér í Rochester er allgott, ekki klórbragð af því, en hótelið er ekki sérlega nýtískulegt. Loftkælingin í herberginu er ekki nógu öflug. Hitinn úti er ekki mikill sem betur fer, á að giska 27°, en raki um 80%.

Fimmtudagur 15. júlí

Vaknaði við hávaða og umgang kl. 8. Eftir morgunverð (sem kostaði $2) hringdi ég í Mr. Silvio Tovar hjá Eastman Kodak, International Division. Hann kallast "Visitors' Coordinator" hjá Export Sales Division. Tovar varð steinhissa, hélt að ég hefði ætlað að koma til Rochester í dag en ekki í gær. Hann baðst mikillega afsökunar á því að hafa ekki komið út á flugvöll til að taka á móti mér. Sagðist koma rakleitt að sækja mig. Kom hann svo í bíl kl. 9:30 og ók með mig upp á skrifstofu sína hjá Eastman Kodak.

Tovar er frá Brasilíu og talar ensku með sterkum hreim. Móðurmál hans er portúgalska. Hann hefur fyllt skrifstofu sína af alls konar munum frá ýmsum löndum. Ég sagðist skyldu senda honum minjagrip frá Íslandi.


 

Sylvio Tovar


Maðurinn, sem hann hafði pantað fyrir mig viðtal hjá, hafði stungið af í sumarfrí svo að hann varð að ná í annan. Sá hét Robert D. Anwyl í "Special Applications Product Planning". Þetta var ágætis maður, en nokkuð málgefinn og langorður. Við ræddum um ljósnæmar filmur og hann ráðlagði mér að prófa tvær nýjar fyrir norðurljósatökur: Recording film og 4-X. Einnig hélt hann að þeir hefðu framkallara líkan Acufine.

Kona Anwyls var með okkur í hádegismat í veitingasal þar í byggingunni. Mjög vel er búið að öllum starfsmönnum þarna hvað þægindi snertir. Um hádegið er 20-mínútna framhalds-kvikmyndasýning sem hjálpar til við að draga úr ösinni í matsalnum og dreifa henni yfir lengri tíma. Hjá Kodak í Rochester vinna um 30 þúsund manns. Tiltölulega fáir starfsmenn Kodak eru utan Rochester.

Eftir hádegið náði Tovar í Warren A. Cole, Manager, Recordak Products, International Sales Division. Þetta var mjög geðugur maður sem sýndi mér Recordak tæki, útbúnað til að taka upp á 35 mm og 16 mm filmur, alveg sjálfvirkt. Aðeins þarf að hlaða skjölunum inn eins hratt og auðið er. Þarna sá ég áhald sem áreiðanlega væri hentugt til að skoða 16 mm filmur. Þarf að athuga hvað sjónhornið er við mismunandi stækkun og fá gráa plötu í staðinn fyrir græna. Cole lofaði að senda allar upplýsingar til mín. Þurrkara framleiða þeir ekki. Það gerir fyrirtækið "Pako". Ég fékk heimilsfang þess. Sylvio gaf mér tvær Kodachrome X filmur.

Klukkan 15:15 var heimsókninni lokið og Sylvio ók mér (með erfiðismunum, vegna gatnagerðar o.fl.) til Eastman Museum of Photography og skildi mig þar eftir. Þetta er merkilegt safn, margt fallegra málverka, ljósmynda, gamalla og nýrra myndavéla og tæknilegra útskýringa. Þarna var eina myndin sem Daguerre hafði áritað (sjálfsmynd), og Kodak myndavél nr. 1. Safnið var í stóru húsi með fallegum garði; hafði augsýnilega verið óðalssetur áður fyrr. Mér fannst Zeiss ekki nógu áberandi í safninu.

Kl. 16:15 hafði ég fengið nóg og hélt heimleiðis norðvestur East Avenue. Þetta var talsvert löng ganga, og vinstri fóturinn allbólginn vegna mýbitsins. Hitinn var um 26°, sólskin og raki um 30%.

Rochester er líkust breskri borg af öllum sem ég hef komið í hér vestra, og ég sá það enn betur á þessari göngu. Undarlegt hve lítið er um "drugstores" hér; ég sá alls enga slíka. Þegar ég kom á hótelið fór ég í sturtubað en síðan út að borða á ódýrum stað (hamborgara og ís). Svo aftur út að kaupa þessa dagbók [framhaldshefti] sem ég fann eftir nokkra leit í Woolworths. Þvoði skyrtur og sokka og horfði á sjónvarp í kvöld. Sá m. a. minningarþátt um Adlai Stevenson. Fór að sofa um miðnætti.

Hér í Rochester eru, auk Kodak, bæði Bausch og Lomb og Xerox. Polaroid fyrirtækið er ekki hér, en Kodak framleiðir megnið af filmunum fyrir þá.

Föstudagur 16. júlí

Vaknaði kl. 7:40, ekki nógu vel sofinn. Vinstri fóturinn á mér er enn talsvert bólginn, svo að mér leist ekki á að fara í kynnisferð um Kodak verksmiðjurnar eins og áætlað hafði verið. Ég sagði Sylvio frá þessu þegar hann kom kl. 9 og hann bauðst þá þegar til að fara með mig til eins af læknum Kodak (þeir eru með 17 lækna í fullri vinnu). Beið ég svo á skrifstofu Sylvio til kl. 11, en þá komst ég að. Læknirinn áleit enga hættu á ferðum, en lét mig fá ofnæmistöflur.

Hjá Sylvio var Arabi, Sýrlendingur að nafni Ahmed Y. Hassan, frá háskólanum í Aleppo. Sá reyndist vera með Ph.D. gráðu í vélaverkfræði frá University College í London; hafði verið þar á sama tíma og ég. Hann ferðaðist einnig á vegum utanríkisráðuneytisins (State Department) og bjóst við að dveljast á Waldorf Astoria í New York frá 27. til 31. júlí. Sagðist hann endilega vilja hitta mig þar. Var síhlæjandi og fremur leiðinlegur að mér fannst. Við borðuðum báðir með Sylvio um hádegið.

Kl. 13:30 fór Sylvio með mig í aðalverksmiðju Kodak og skildi mig eftir þar. Fór ég þar í kynnisferð með hópi manna frá kl. 13:30 til 15:00. Gengið var um, og einnig ekið í vagni. Nú fékk ég ýmsar nákvæmari upplýsingar um fyrirtækið. Hjá Kodak í Rochester vinna 34 þúsund manns. Í Bandaríkjunum öllum eru starfsmennirnir 50 þúsund, og ef allt er talið í veröldinni eru þeir 82 þúsund. Um það bil þriðjungur af framleiðslu Kodak er í greinum óskyldum ljósmyndun s.s. fataframleiðslu, vítamíngerð o.fl. Þeir nota þúsund tonn af silfri árlega í framleiðsluna, þar af eru 10% endurunnin  úr úrgangsefnum. Fyrirtækið rekur 4 aflstöðvar (orkuver) og notar 27 milljón gallon af vatni á dag.

Við fórum um verksmiðjuna þar sem filmurnar eru framleiddar (Kodak Park Works). Ein filma af hverjum 50 fer í prófanir (eftirlit). Þeir framleiða plastið og allt þess háttar sjálfir. Eru meira að segja með eigin rjómaísgerð. Mér fannst verksmiðjurnar stórar (þær ná yfir 1300 ekrur) en ekki sérlega nýtískulegar, og sums staðar er allt of hávaðasamt. Geysilegrar varfærni er gætt til að útiloka geislavirkt ryk og til halda loftinu inni tæru er yfirþrýstingur inni. Bannað er að fara inn með eldspýtur eða myndavélar. Á annað hundrað bygginga er á svæðinu. Ég hafði ekki áhuga á að skoða myndavéla- eða linsuframleiðsluna.

Kl. 15:30 kom Sylvio Tovar að sækja mig; hann sýndi mér þá nýjan áhorfendasal, sem var afar fallegur og rúmar um 2000 í sæti. Sylvio hjálpaði mér að leysa út 300 dala ávísun frá Governmental Affairs í Kodak banka á staðnum. Sylvio þekkir hvern kjaft þarna, enda hefur hann verið hér í 18 ár. Talsvert er  hann utan við sig, karlinn. Hann ók mér síðan heim. [Ekki hefði mann grunað að þetta risastóra fyrirtæki, Kodak,  ætti eftir að verða gjaldþrota, en það gerðist árið 2012.]

Ég fór í sturtu, gekk svo niður í miðbæinn og skoðaði frægasta verslunarstaðinn, Midtown Plaza, sem er byggður eins og vítt Hafnarhús með glerhimni, allglæsilegt, en ég var þó ekkert yfir mig hrifinn. Fékk mér pylsu þarna ("hot dog"). Hún var í meðallagi góð, ekki eins góð og heima.

Fóturinn var farinn að angra mig svo að ég gekk heim á hótel og fór að horfa á sjónvarp. Ég skrifaði mömmu, Keith Kafer, Van Allen, Valdimar Björnssyni og Arne Brogger. Fór svo út kl. 22:15 og fékk mér ostborgara og kók fyrir 65 sent. Að sofa um miðnætti.

Mér finnst þjónustan á þessu hóteli ekkert sérstök þótt nafnið sé þekkt. Til dæmis gátu þeir ekki pressað buxurnar mínar og skilað þeim aftur í kvöld.  

Laugardagur 17. júlí

Á fætur kl. 8. Svo til batnað í fætinum. Pakkaði inn bókinni sem Eric gaf mér og sendi sjálfum mér hana til Washington í pósti. Kl. 9:30 tók ég leigubíl niður á endastöð Greyhound rútubíla við Andrews Street, ekki langt frá hótelinu. Þaðan lagði ég svo af stað með vagni kl. 10. Miðinn kostaði $3.10. Veður var heldur þungbúið, þó ekki rigning. Kælingin í bílnum var í góðu lagi - full góðu, svo að ég varð að troða Time blaði fyrir gustrifurnar undir glugganum til að forðast ofkælingu öðrum megin. Vagninn var með salerni, og hef ég ekki séð það áður.

Leiðin til Ithaca hefur líklega verið um 120 km og tók aksturinn tvo tíma og 20 mínútur. Við ókum gegnum Canadaquoq, Geneve, Interlaken og fleiri staði. Landið var frjósamt og skóglent víða. Þegar nær dró Íþöku sáust hæðir og allstórt vatn. Íþaka reyndist vera í dalverpi á fallegum stað. Á stöðinni tók Gartlein sjálfur á móti mér, en ekki Mr. Sprague eins og ég hafði búist við. Gartlein var með nafnskilti framan á sér. Hann er líklega nálægt sjötugu, afar vingjarnlegur og viðkunnanlegur. Ók hann með mig í Oldsmobílnum sínum um bæinn og háskólann, sem minnir talsvert á breskan háskóla - mér fannst ég eins og heima hjá mér. Bærinn telur um 40 þúsund íbúa, þar af 13 þúsund stúdenta.

Við borðuðum hádegismat á sjálfsafgreiðslustað við vatnsuppistöðu ("dam"). Síðan fór Gartlein með mig á hótelið sem reyndist vera stúdentagarður, Willard Straight Hall, allur í enskum stíl. Þar kvaddi ég Gartlein í bili og rogaðist með töskurnar upp á 2. hæð í herbergi nr. 29. Mér fannst númerið lítt gæfulegt (hef alltaf haft undarlega óbeit á þessari tölu), enda reyndist herbergið eins og dæmigert herbergi í Hamilton Hall [stúdentagarði í St. Andrews], ekkert baðherbergi og vifta í stað loftkælingar. Úti var mjög mollulegt, hiti 29° og rakt mjög. Mér leið alls ekki of vel í þessum hita, og sturtubaðið í næsta nágrenni var ekkert of glæsilegt. Ekkert sjónvarp.

Þegar ég hafði lokið við að lesa bréf að heiman, sem Gartlein hafði fært mér, hringdi ég í prófessorinn og bað um vistarveruskipti á þeim forsendum að ég myndi aldrei geta sofið í slíkum hita. Hann skildi það og útvegaði mér þegar í stað pláss á móteli skammt frá - College Town Motor Lodge. Ég tók bíl og var kominn þangað kl. 16. Þar var allt með öðrum brag, hið nýtískulegasta, og ég fékk mér sturtubað undir eins.

Kl. 17:30 kom Gartlein og sótti mig og ók mér heim til sín. Hann býr mjög utarlega í bænum. Húsið er hálfgerður bóndabær, og hann er þar með alhvolfsmyndavél (all-sky camera)
til að mynda norðurljós. Einnig er hann með sjónvarps-myndnema (image orthicon). Þar voru fyrir kona Gartleins og Mr. Sprague, sem var miklu eldri en ég hafði búist við og fótfatlaður, að því er mér virtist. Þarna var ég allt kvöldið til kl. 22. Til drykkjar var gin & tonic, sem ég drakk ekki (eftir fyrsta sopann, takk!) og rauðvín, en ég fékk loks vatn að drekka. Maturinn var ágætur, en saltlaus. Við ræddum um alla heima og geima. Gartlein og Sprague vissu báðir mikið um Ísland og sögu þess. Sögðust hafa lesið sér til. Kona Gartleins hafi lesið Pecheur d'Islande eftir Pierre Loti. [Þá bók notaði mamma þegar hún kenndi frönsku á sínum tíma.] Hér mun vera gott safn íslenskra bóka við háskólann, og íslenskur bókavörður. Við ræddum um uppruna ýmissa orða o.fl. Gartlein sagði frá eldingum sem oft slær niður í húsið. Þrumuveður skall á, meðan ég var þarna.

Kl. rúmlega tíu um kvöldið ók Sprague mér heim í bíl sínum, Ford Thunderbird, mjög góðum bíl sem kostar $4800 hér. Á eftir skrapp ég út og keypti mér súkkulaði og fékk mér kók í sjálfsalanum á mótelinu.  Eyðslan nú er 8 dölum réttu megin við strikið.

 

Carl W. Gartlein, Helen kona hans og Gale Sprague

Ég gleymdi að geta þess að Gartlein kom við á skrifstofu sinni í Hollister Hall í dag og sýndi mér hana. Það er einn stór salur, heldur óhentugur að því er mér virtist. Þeir flytja bráðum í annað húsnæði en vilja hafa það eitthvað svipað. Gartlein er mjög áhugasamur um norðurljósaathuganir. Hann er ekki samþykkur alþjóðlega athugunarkerfinu og hefur ekki fylgt því í Bandaríkjunum eða Kanada. Þurfum að ræða það nánar. Hann og kona hans virðast mjög trúuð; bæði þau og Spratt báðu borðbæn á undan máltíðinni. Kirkju sækja þau reglulega. Ég er að hugsa um að fara með þeim í kirkju á morgun til fróðleiks.

Því miður missti ég af breska þættinum "Secret agent" í sjónvarpinu í kvöld.

Gartlein er með þrjá ketti í húsinu, en tveir þeirra eru víst aðkomukettir. Sonur Gartleins og fjölskylda búa á efri hæð hússins.Að sumu leyti minna aðstæðurnar á hús Patons [góðs vinar míns, forstöðumanns norðurljósadeildar breska stjörnufræðifélagsins] í Abernethy, en það síðarnefnda er þó mun reisulegra.

Sofnaði of seint (eftir miðnætti).

Sunnudagur 18. júlí

Á fætur kl. 8. Allt of syfjaður, leið hreint ekki vel. Borðaði morgunverð á nálægum veitingastað. Kl 9:45 komu Gartlein og Helen kona hans og fóru með mig í kirkju. Veður var fagurt, ekki of heitt. Kirkjan var St. John's Episcopal Church.

Guðsþjónustan var  mjög viðfelldin, þótt hún væri að ýmsu leyti ólík þeirri lúthersku, aðallega að því leyti að prestur og sóknarbörn "syngjast á". Mikið er um að fólk falli á hné og biðjist fyrir, og staðið er upp a.m.k. sex sinnum. Ekki er tónað. Ræða prédikarans (ungs, gestkomandi prests) var ósköp þunn. Á eftir tóku allir í höndina á prestinum og töluðust við í smáhóp framan við kirkjuna. Samskot voru sett í smáumslög, lokuð, sem hver maður afhenti í lok guðsþjónustu.

Klukkan var um 11:30 þegar ég kom heim á mótel. Ég þáði ekki matarboð hjá Gartlein og frú, heldur fór út að borða. Kl. 13:30 kom Gartlein og sótti mig og fór með mig í mjög langa ökuferð, a.m.k. 120 km til norðausturs. Á leiðinni sá ég fjöldamarga bóndabæi í gömlum stíl. Lítið sást af fólki en mikið af bílum. Hveitiakrarnir voru gullnir til að sjá, maísinn dökkgrænn. Landið var hæðótt, jökuljaðar ísaldarinnar. Við vorum eina þrjá tíma að dóla til Hamilton - gamli maðurinn ók gætilega; hann er allhrumur í hreyfingum, en þó hress, og vissulega góður ökumaður.

Í Hamilton heimsóttum við prófessor Donald K. Berkey við Colgate háskólann þarna í Hamilton. Berkey hefur fengist við ljósmyndatökur - hliðrunarmyndir af norðurljósum í samvinnu við Gartlein. Önnur myndavélin er 200 km fyrir norðan Hamilton. Berkey sýndi okkur háskólann (College, ekki University) sem er lítill og sambland af gömlu og nýju. Þetta er eingöngu skóli fyrir pilta. Berkey hefur sýnilega mikinn áhuga á norðurljósum; hefur tekið bæði myndir og litróf með ágætum litrófsrita sem Gartlein útvegaði honum.

Klukkan var langt gengin í sex þegar við kvöddum Berkey og héldum vestur á bóginn gegnum Auburn og suður með Cayugavatni. Stönsuðum í Aurora kl. 19:55 til að snæða kvöldverð. Heim til Íþöku komum við um kl. 22, og ég var sofnaður kl. 23. Hafði verið hræðilega syfjaður allan daginn. 

Mánudagur 19. júlí

Vaknaði kl. 8, mjög sæmilega sofinn. Eftir morgunverð gekk ég upp í Hollister Hall og hitti Gartlein og Sprague.  Gartlein fór síðan með mér beint í fyrirlestur um bylgjur í eðlisfræði. Þetta var aðallega sýningarfyrirlestur með margvíslegri tækni s.s. rafknúinni töflu og fjarstýrðum gluggatjöldum. Fyrirlesarinn notaði 3-cm bylgjur til að útskýra Michelson víxlunarmælinn. Á eftir sýndi Gartlein mér mjög stóran en gamlan fyrirlestrasal.

Þaðan fórum við svo í nýrri byggingu, mjög nýtískulega. Þar hittum við hinn kunna stjarneðlisfræðing Thomas Gold á skrifstofu sinni og tók hann alúðlega á móti okkur. Þetta er ungur, geðslegur maður með örlítinn þýskan hreim. Hann sagði að þeir ynnu að því að rannsaka yfirborð tunglsins á allan hátt, m.a. með ratsjá. Einnig sagði hann mér frá hugmyndum sínum  um rafaldsútgeislun dulstirna og afbrigðilegra vetrarbrauta. Telur hann að þróun stjarnþyrpinga leiði oft til þéttari þyrpinga sem leiði að lokum til fjöldaárekstra stjarna og útrás gífurlegrar orku. Gartlein sagði að Gold vildi sjaldan tala svona lengi við gesti eins og hann gerði við mig. Skyldi hann vera Austurríkismaður? [Hann var það.]

Við Gartlein borðuðum í matsal stúdenta þarna og hann sýndi mér síðan meira af háskólasvæðinu, sem er mjög viðkunnanlegt. Við heimsóttum náunga sem vinna að rannsókn á yfirborði tunglsins og geisla alls konar grjót eftir að það hefur verið mulið í duft. Síðan eru ljóseiginleikar þess bornir saman við eiginleika tunglsins. Dunít (basalt), sem geislað hefur verið með 1 keV róteindum, dökknar og fær mjög svipað útlit og yfirborð tunglsins. Útfjólublátt ljós og gammageislar hafa lítil sem engin áhrif. Rafgas (plasma) virðist geta stuðlað að því að korn fari að hreyfast til á yfirborðinu (fljóta).

Við skoðuðum kapelluna þarna. Hún er afar falleg, sérstaklega gluggarnir.

Þegar við komum í vinnustofu Gartleins
biðu mín þar tvö bréf að heiman. Við töluðum um stund um bilanir í norðurljósamyndavélinni okkar [vél sem Gartlein útvegaði og ég setti upp á Eyvindará við Egilsstaði]. Þeir voru þá búnir að reka sig á eitthvað svipað vandamál. Nýr smelluútbúnaður er í bígerð. Ég lofaði að senda honum mynd af beltisútbúnaði okkar. Þarna sá ég fyrsta flokks jarðlíkan. Einnig gamlar, danskar teikningar af norðurljósum á Akureyri. Þá sá ég ágætan filmuskoðara, ennþá betri en þann sem Kodak framleiðir.

Gartlein og Sprague sögðust vita að Herlofson [norskur eðlisfræðingur, fékkst m.a. við norðurljósarannsóknir] væri erfiður viðfangs. Hann hefði ekki alltaf sent gögn áfram til annarra. Þeir töldu möguleika á því að við gætum látið afrita okkar filmur hér í Cornell, eða þá í Alaska og borga fyrir það.

Kl 17:30 skrapp ég heim á hótel, en síðan sótti Sprague mig og ók mér í kvöldverðarboð til Gartleins. Þar ræddum við um norðurljósaathuganir þar til dimma tók, en þá sýndu þeir mér hvernig sjónvarpsútbúnaðurinn til myndatöku norðurljósa virkaði. Þeir gátu fengið fram græna og rauða línu norðurljósanna (þ.e. frá himninum, sem var dimmur, en alls engin norðurljós) með því að safna ljósi í 15 sekúndur. Þetta gekk best í norðurátt; sást líka beint uppi yfir, en daufara. Við skoðuðum líka himininn beint í sýnilegu ljósi. Tækið er greinilega mjög næmt; við sáum aragrúa stjarna sem ekki sáust með berum augum.

Það hefur verið svalt í dag, líkt íslensku loftslagi, (á heitum sumardegi þó), og í kvöld þarna úti við kofann með tækjunum var bara þó nokkuð svalt. Þeir voru að lóna þarna frá kl. 22 til miðnættis. Gartlein gangsetti upptöku á litrófsplötu; hann hefur tekið litróf af himninum á hverri nóttu síðan 1939! Sprague ók mér svo heim á hótelið kl. 00:15.

Meðal þess sem ég sá í dag var læst lyfta. Í stað hnappa var notaður smekkláslykill sem snúið var í skránni. Gartlein hafði einn slíkan lykil.

Þriðjudagur 20. júlí

Vaknaði kl. 9 eftir sæmilegan svefn. Mættur uppi í Hollister Hall hjá Gartlein og Sprague kl. 10:15. Kona Gartleins, Helen, vinnur líka við yfirlitskort norðurljósa, og auk hennar eru tvær skrifstofustúlkur. Þeir Gartlein og Sprague byrjuðu á því að sýna mér kortagerðina og önnur gögn frá Alþjóða-jarðeðlisfræðiárinu (IGY). Tók það langan tíma. Mestu norðurljósin höfðu verið í febrúar 1958.

Svo fórum við Gartlein og borðuðum hádegismat á nýjum matsölustað í háskólanum. Hittum þar Nýsjálending sem var nýkominn frá Íslandi. Eftir matinn fékk ég m.a. að skoða framköllunarbúnað háskólans fyrir 16 mm filmur. Þeir nota stálhjól og tanka, en mér sýnist þurrkskápurinn mesta fyrirtækið. Tæki til að taka afrit af 16 mm filmum er það dýrasta af þessum búnaði. Kostaði það $3000 segja þeir. Næst fórum við á háskólabókasafnið og þar beint í íslensku deildina. Þar var fyrir Vilhjálmur Bjarnar, sem hefur verið hér síðan 1960 og kennir íslensku. Ég skoðaði þar m.a. gamla almanakið frá 1837. Þarna eru 27 þúsund bindi íslenskra bóka.

Aftur fórum við í Hollister Hall og ræddum um norðurljós. Athyglisverð er sú niðurstaða þeirra, að norðurljós virðist alltaf mest beint fyrir ofan athugandann og rugli það alls konar "statistík". Þarna sá ég enn betri 16 mm filmuskoðara, þann albesta, framleiddan í Hollywood. Þyrfti að fá slíkt tæki. Það kostar um $1500.

Kl. 17 fór ég heim á hótel. Hringdi til vonar og vara til Mohawk Airlines til að staðfesta flugpöntunina á morgun kl. 11:20 til Buffalo. Það var þá allt breytt - þessi ferð ekki lengur á dagskránni heldur önnur kl. 13 með viðkomu í Elmira og tveggja tíma bið þar. Fer líklega með Greyhoundvagni kl. 11:30 til Buffalo í staðinn. Það tekur 4 tíma.

Kl. 19:30 kom Gartlein og sótti mig og við fórum heim til hans. Sprague kom þangað líka. Við ræddum um norðurljós og reyndum aftur að greina þau með sjónvarpsbúnaðinum. Sáum litrófslínurnar að vísu, en ekkert umfram það. Heim á hótel kom ég kl. 23:30. Sprague ók mér þangað. Þeir Gartlein og Sprague eru nú að velta fyrir sér Íslandsferð.

Miðvikudagur 21. júlí

Á fætur kl. 8. Aldrei nægur svefn. Þetta er nú orðið býsna þreytandi upp á síðkastið. Ég skrifaði mömmu stutt bréf og ætlaði að skrifa á kort til Stefáns bróður, en þá hringdi Gartlein með skilaboð frá Vilhjálmi Bjarnar. Ég hringdi til hans. Hann ætlaði þá að segja mér frá því að gamla almanakið hefði um tíma komið út bæði í Kaupmannahöfn og Reykjavík (tvær útgáfur, en líkar). Þegar ég losaði úr símanum var klukkan orðin 10:30 svo að ég varð að hraða mér upp í Hollister Hall. Þar  kvaddi ég Sprague. Kona Gartleins, Helen, var því miður ekki viðstödd. Gartlein ók mér síðan á hótelið að sækja töskurnar, og svo niður á bifreiðastöðina (Greyhound). Fyrst ók hann mér upp í hlíðina norðan megin við bæinn til að ég gæti tekið mynd af bænum. Ég gerði það, þótt hvergi væri hægt að fá almennilega yfirsýn.

Vagninn kom nokkurn veginn á réttum tíma (11:30). Ég kvaddi Gartlein með virktum. Þetta er mesti heiðurskarl, þótt skringilegur sé við fyrstu sýn. Hann er fær tækjasmiður og ötull, og ern þótt ellin sæki á hann. [Á vefnum sé ég að Gartlein hefur aðeins verið 62 ára þegar ég heimsótti hann. Ég hélt að hann væri mun eldri.] Gartlein fékk snert af slagi fyrir skömmu. Hann sagði mér frá þessu þegar hann fór með mig í ökuferðina á sunnudag og greindi jafnframt frá því að læknarnir segðu að hann mætti eiga von á öðru áfalli hvenær sem væri. Satt að segja varð mér ekki um sel þarna í bílnum hjá honum. [Ótti minn var ekki ástæðulaus. Gartlein varð bráðkvaddur í desember 1965, aðeins fimm mánuðum eftir samtal okkar.]

Ekki má gleyma að geta þess að Gartlein gaf mér fallega gjöf, viðarkubb eða samfellu sem svo mætti kalla, samsetta úr smærri kubbum margra viðartegunda. Þessu verður best lýst með myndum:





Viðartegundirnar voru nafngreindar á jaðri kubbsins. Þær voru þessar: álmur, rauðhlynur, valhnota, kirsuberjaviður, vetrareik, birki, rauðeik, mahóní, fuglatré, sykurhlynur og hvíteski.
 
Ég las vísindaskáldsögu á leiðinni til Rochester til að stytta tímann. Bíllinn kom þangað kl. 14:05. Þar varð ég að skipta um vagn; sá átti að fara kl 14:30 en fór kl. 14:45. Ég missti sjónar af farangrinum - mér var sagt að hann færi sjálfkrafa með, en ég var nokkuð viss um að hann hefði ekki farið í vagninum sem ég fór með og hafði talsverðar áhyggjur af þessu. Þegar komið var til Buffalo (16:30) kom í ljós að töskurnar voru í öðrum vagni sem hafði farið samtímis sömu leið.

Loftkælingin í mínum vagni hafði bilað. Eina bótin var, að hitinn úti var mjög skikkanlegur þótt sólskin væri. Farmiðinn frá Íþöku til Buffalo kostaði 5 dali.

Ég tók leigubíl upp á hótelið - Statler Hilton - og fékk þar herbergi nr. 1226. Hótelið er stórt, en ekki nýtt, og engin loftkæling. (Ég gleymdi að minnast á að það var slökkt á loftkælingunni í College Town Motorlodge í Íþöku í gær vegna þess að gestir kvörtuðu um kulda, svo að hita varð upp í staðinn. Ég kvartaði um hita, og allir voru steinhissa!)

Á hótelinu beið mín bréf frá Buffalo World Hospitality Association þar sem lögð var fram sundurliðuð dagskrá fyrir dvöl mína hér - hver mínúta skipulögð frá og með kl. 13:30 í dag (þeir héldu að ég kæmi kl. 12), og var ferð til Niagara fyrst á dagskrá. Ég hringdi í konuna (frú G. Poss?) sem átti að fara með mig til Niagara og útskýrði málið. Hún sagðist halda að frú Whittlemore, sem ætlaði að bjóða mér til kvöldverðar, myndi þá fara með mig til Niagara líka. Ég fór í bað og ætlaði að bíða með að hringja til frú Whittlemore, en hún hringdi þá kl. 17:30 og sagðist koma að sækja mig kl. 18:00, hvað hún og gerði, í grænum Chevrolet og ók mér fyrst heim til sín, að 270 Middlesex Road.

Frú Whittlemore mun vera ekkja, lærður landafræðingur, og hefur skrifað kennslubók í landafræði og kennt tungumál (ensku) víða, m.a. í Japan. Hún er dálítið mikil með sig, að mér finnst, en almennileg. Hún vildi strax fara með mig til Niagara. Vinahjón hennar voru komin í heimsókn, Edward Lindberg og frú frá Bowmansville, N.Y. Edward starfar við Cornell Aeronautical Laboratory í Buffalo. Þau hjón eru komin yfir miðjan aldur. Lindberg ók okkur svo í sínum bíl í átt til Niagara.  

Buffalo er stór borg með a.m.k. 500 þúsund íbúa. Þetta er iðnaðarborg, svipuð enskum borgum, mikið af gömlum húsum. Stáliðnaður mikill. Ekki fallegur bær. Niagara er hálftíma akstur frá Buffalo til norðurs. Við fórum fyrst út á Grand Island sem aðskilur álana tvo (Kanadaálinn og þann bandaríska). Gengum þar að eystri barmi Kanadafossins og skoðuðum hann. Fórum síðan að Bandaríkjafossinum sem er hærri og mjórri. Mér fannst fossarnir fallegir, en tæplega eins stórkostlegir og ég hafði búist við. Fallhæðin er 50 metrar, skilst mér. Talsvert er af nærliggjandi byggingum og útsýnisturnum. Sólin var lágt í vestri og sneri illa við myndatöku, enda erfitt að finna góðan stað til þess Bandaríkjamegin.


 

Niagarafossar

Við ókum síðan yfir til Kanada, skoðuðum fossana þeim megin frá og borðuðum uppi í fínum matsal í helsta útsýnisturninum. Þaðan var afar fagurt útsýni yfir fossana. Eftir að dimmt var orðið voru fossarnir flóðlýstir, fyrst með hvítu ljósi, en síðan var smátt og smátt breytt yfir í aðra liti. Þetta var afar fagurt til að sjá. Þarna fékk ég besta rjómaís sem ég hef fengið til þessa í Vesturheimi, enda í landi hennar hátignar. Ég sendi Stefáni bróður póstkort frá Kanada áður en við ókum til baka. Örtröð var af ferðamönnum, bílar fylltu öll stræti Kanadamegin. Mest Bandaríkjabílar. Borgin við fossana Bandaríkjamegin, Niagara Falls, telur 100 þúsund íbúa.

Við skiluðum frú Whittmore heim til sín.  Hún hafði borgað allan kostnað í ferðinni. Síðan óku Lindberg hjónin mér heim á hótel. Þá var klukkan farin að ganga 1. Þess má geta, að frá kl. 9 í morgun til 21 í kvöld hafði ég ekki tíma til að smakka matarbita, og syfjaður var ég orðinn í meira lagi. Lindberg er maður fróður, bæði um stjörnufræði (hafði smíðað með öðrum 12 þumlunga sjónauka), ljósmyndun (vann með flughernum við loftmyndatökur og prófanir í Thailandi) og esperanto. Hann er mikill áhugamaður um esperanto. Kona hans er afar viðkunnanleg. Hún hefur farið umhverfis hnöttinn og séð sitt af hverju. 

Fimmtudagur 22. júlí

Svaf sæmilega. Vaknaði kl. 8. Kl. 9 hringdi ég í  Ronald C. Clippinger í Getzville, N.Y., sem er formaður Buffalo Astronomical Society, og bað hann að fresta komu sinni til 11:30 í stað 9:30. Þar með sleppti ég ferð í Buffalo Museum of Science. Ég skrifaði á kort til Stefáns bróður og hvíldi mig svo þar til Clippinger kom. Hann kom upp á herbergi til mín, reyndist vera fremur ungur maður, heldur fálátur. Hann hefur mikinn áhuga á sögulegri stjörnufræði. Hann ók mér fyrst langa leið út í úthverfi Buffalo (Kenmore) til heimilis manns að nafni Walter Semerau. Semerau og kona hans, Rebecca, tóku vel á móti mér. Hann er af þýskum ættum, vélvirki og geysilega snjall í höndunum. Sýndi hann mér forláta sólarathugunarstöð sem hann hefur smíðað. Hann notar himinhald (coelostat) til að senda geislann niður í kjallara, þar sem vinnustofa hans er. Þar hefur hann ljóssíur, einlitara (monochromator), róflínurita (spectrograph) o.fl. o.fl. Allt er þetta sjálfvirkt - hann ýtir bara á hnappa til að setja í gang.

Semerau er hreinasti galdramaður í höndunum. Hann hefur greinilega gaman af að sýna fólki þessi áhöld sín. Hvort hann gerir nokkuð með þeim að gagni veit ég ekki, en efast um það. Veður var skýjað, því miður; ég hefði viljað skoða sólstróka hjá Semerau.


 

Walter Semerau (t.v.) sýnir sólsjónauka sinn

Þarna voru líka saman komnir fleiri menn: Ernst E. Both, sem vinnur við Kellogg stjörnuturninn í Buffalo og  mun vera framkvæmdastjóri Buffalo Museum of Science. Hann er líka af þýskum ættum. Foreldrar hans voru búsettir í Rúmeníu. Kona Boths, Billie, er af sænskum ættum, mjög skandínavísk að sjá. Hitti hana seinna um daginn. Þau eiga litla dóttur, Ingrid.


 

Ernst Both og fjölskylda

Við borðuðum hádegismat hjá Semerau, brauð og álegg. Borðbæn var lesin. Ókum síðan út fyrir bæinn að Cornell Radiophysics Laboratory. Með í ferðinni var Paul Redding frá Buffalo. Rannsóknastofan skartar tveimur fleygbogaloftnetum, talsvert stórum. Myndatökur voru bannaðar, en ég tók nú samt mynd frá hliðinu. Á móti okkur tók Mr. Ford, sem var ákvaflega fyrirmannlegur, minnti á enskan heldrimann. Hann hefur komið til Íslands og sagðist þekkja Hauk Clausen á Langholtsvegi og bað mig að skila kveðju til hans. Fátt merkilegt sá ég þarna nema fjóra "klystrona" sem eru orkugjafar. Á eftir skoðuðum við lítinn stjörnuturn sem var þarna á lóðinni og tilheyrði áhugamannafélagsinu í Buffalo (Buffalo Astronmomical Association, BAA)

Að þessu loknu skruppum við aftur heim til Semerau en héldum síðan kl. 17 í kvöldverðarboð til hjóna að nafni Geiger. Frúin, Edith Geiger, er varaforseti BAA og býr í Eggertsville, N.Y. Þarna hitti ég eiginkonur Boths og Reddings, báðar fremur fríðar, einnig dr. Fred Price sem fæst við krabbameinsrannsóknir, ekta Lundúnabúi (cockney), býsna gamansamur. Ég tók myndir þarna og lofaði Price að senda honum eintök.


 

Í boðinu hjá Geiger hjónunum

Kl. 20:45 baðst ég afsökunar og fékk Clippinger til að aka mér heim á hótel. Vildi fara snemma að sofa einu sinni, enda útkeyrður. Maturinn í kvöld var afbragð. Þegar ég fór heim var komin hellirigning, þrumur við og við. Sofnaði rétt fyrir kl. 23. Gaf mér ekki tíma til að þvo hárið, láta pressa buxur, þvo sokka, horfa á sjónvarp eða nokkurn skapaðan hlut. Þetta hefur verið allt of mikill þeytingur síðustu dagana. Hitinn er nú 27° á hótelinu og afar rakt. Svaf með lak yfir mér og var það meira en nóg.

Gleymdi að geta þess að í Buffalo eru víst stærstu kornmyllur í heimi. Þær vinna í samstarfi við Minneapolis.

Föstudagur 23. júlí

Á fætur kl. 7:45 eftir mjög skikkanlegan svefn. Ætlaði að taka "limousine" frá hótelinu kl. 9:15 en hann fór ekki fyrr en 9:40. Ég hafði samt meira en nógan tíma. Bíllinn kostaði $1.40. Var kominn út á flugvöll kl. 10 og beið þar til kl 10:50. Lagði þá af stað með Viscount vél, Flight 640 frá United Airlines. Fyrst var flogið til Rochester (20 mín.) svo til Baltimore (45 mín.) og beðið þar í hálftíma, síðan til Washington (15 mín. flug eða svo). Við lentum alveg á áætlun, kl. 13:36. Tók limousine ($1.70) upp á Windsor Park hótelið. Var kominn þangað kl. 14:40. Hitasvækja var (32°C) og rakt. Í þetta sinn fékk ég herbergi í aðalbyggingunni á 7. hæð, á hljóðlátari stað. 

Mitt fyrsta verk var að hringja í Governmental Affairs. Náði ég sambandi við Roz Lewis. Hún bað mig að koma kl. 16:30 og gerði ég það. Tók leigubíl niður eftir vegna hitans. Var þá búinn að fara í sturtubað. Paul og Roz tóku mér með kostum og kynjum og ég ræddi lengi við þau, bæði um ferðina og eins ferðaáætlunina til New York borgar. Nú kom upp úr kafinu að Pan Am flýgur aðeins til Íslands á þriðjudagskvöldum, og mér líst illa á að geta lokið mínum erindum hér og í New York fyrir næsta þriðjudag (27.). Verð því líklega að bíða fram til 3. ágúst. Þarna biðu mín fimm bréf frá Íslandi.

Paul er allur að hressast, en læknarnir vilja samt að hann flytji sig í annað loftslag, svo að hann ætlar að segja starfi sínu lausu eftir mánð, fara til Arizona og taka á ný til  starfa við einkafyrirtæki sitt í kvikmyndagerð. Hann er mjög upptekinn af eigin áætlunum og feginn að hitta einhvern sem vill hlusta á hann. Eftir vinnu kl. 19 (hann þurfti að vinna fram eftir) fórum við saman á krá. Hann fékk sér öl og ég kók, og ég borgaði. Borðaði á eftir í Hot Shoppes, horfði á sjónvarp og þvoði þvott.

Laugardagur 24. júlí

Hvíldardagur. Fór á fætur um níuleytið eftir góðan svefn, þó ekki alveg úthvíldur. Ætlaði að láta pressa buxurnar mínar og hringdi í "valet service", en svo voru þær ekki sóttar. Hringdi aftur eftir klukkan 12, en þá höfðu þeir engin tök á að gera þetta. Þjónustan hér er ekki sérlega góð og hótelið ekki í hæsta flokki. Til dæmis vantar Kleenex á baðherberginu og loftkælingin er ekki nógu góð.

Ég borðaði morgunmat á hótelinu. Skrifaði mömmu, pabba, Viggó og Þorgerði. Lagði mig og blundaði aðeins frá kl. 16 til 17. Borðaði á Hot Shoppes Restaurant kl. 13:30 og aftur kl. 19:30. Horfði á sjónvarp til kl. 23.

Hér var heitt í dag, mest 35°, raki 55%. Ekki þægilegt að vera úti. Í herberginu er svo heitt að ég verð að sofa undir einu laki og er fullheitt samt. Hitti Jomo Kenyatta [forsætisráðherra Kenía] eða tvífara hans í skinnklæðum á hótelganginum í dag og hann sagði halló! Hvað næst?

Skrapp inn á Washington Hilton í dag og fékk frímerki þar - nenni ekki að láta sjálfsalann hér græða á mér lengur. Hef nú eytt $1037 og er $43 réttu megin við strikið.

Sunnnudagur 25. júlí

Svaf vel. Á fætur kl. 9. Borðaði morgunverð á Hot Shoppes í fyrsta skipti. Skrifaði Bob Shobbrook og Gartlein. Keypti sunnudagsblað New York Times og þar með lestrarefni til nokkurra daga fyrir 50 sent. Alltaf 25°C inni, fullheitt. Hitinn úti fór upp í 36° í dag, sem er nærri því met (náði 38° sama dag 1930). Raki 50%, vægast sagt óþægilega heitt. Lét mig samt hafa það að ganga út Connecticut Avenue til norðurs um fimmleytið. Uppgötvaði þá að þeim megin við hótelið er stór og mikill trjágarður. Fann opinn stórmarkað (Safeways Supermarket) og fékk mér "ice cream soda"; það var handan við stóra brú yfir garðinn. Þvoði skyrtur, fór í bað, horfði á sjónvarp. Sá kröfugöngu nokkurra svertingja neðar í götunni.

Lyftan varð hringavitlaus í dag, fór alltaf milli kjallara og 8. hæðar! Reyndi að fá loftkælinguna bætta, en starfsfólkið gat það ekki. Viðgerðarmaðurinn sagði að asnar hefðu útbúið þetta og fleira hér.

Í dag rakst ég á Sýrlendinginn sem ég hafði hitt hjá Kodak. Hann býr líka hér á Windsor Park.

Um kvöldið sá ég í sjónvarpi fegurðarkeppnina Miss Universe á Miami Beach. Þar kom fram Bára, fyrrum vinkona Stefáns bróður, en hún heltist úr lestinni í fyrstu umferð.

 Mánudagur 26. júlí

Tíminn er fljótur að líða hér þótt dagarnir séu náðugri núna. Svaf vel. Á fætur um níuleytið. Borðaði morgunverð á Hot Shoppes. Hringdi síðan í Nelson hjá U.S. Coast & Geodetic Survey. Hann var í fríi en var samt staddur á skrifstofunni vegna þess að Svendsen var að koma úr 30 daga fríi. Ég minnti Nelson á hvað hann hefði sagt í júní, og endirinn varð sá að Svendsen ætlar að fara með mig til Fredricksburg á morgun.

Í dag var svalara. Herbergishitinn aðeins 22° í morgun, en síðar um 24°. Úti var hitinn 32° en raki aðeins 30%. Ég leitaði að bókabúðum í morgun og gekk í 1½ tíma um bæinn, mest nálægt Hvíta húsinu, en fann ekkert. Kl. 15 fór ég til Governmental Affairs og ræddi við Roz og Paul í klukkutíma um ýmis atriði sem þarfnast úrlausnar. Paul sagði mér frá óveðri miklu hér í Washington meðan ég var í burtu - eldingar ógurlegar, vindur 85 mílur/klst. og hagl á stærð við tennisbolta. Tré brotnuðu og bílar voru í rústum. Ég sá leifar af tveimur trjám fyrir utan skrifstofuna.

Þegar ég kom aftur á hótelið skrifaði ég bréf til Clippinger, Whittlemore, Geiger og Semerau. Lofaði Geiger hjónunum að senda eftirmyndir af litmyndunum sem ég tók hjá þeim, ef þær kæmu vel út. Vegna hitans varð ég að fara í sturtubað í dag eftir alla gönguna - ekki um annað að ræða.

Hvíta húsið er lokað á mánudögum, annars hefði ég litið þar inn í morgun.

Nú fékk ég endurgreitt $69 fyrir ferðakostnaði svo að fjárhagurinn stendur sæmilega.

Þriðjudagur 27. júlí

Vaknaði kl. 7. Skýjað og hafði rignt í nótt. Hiti um 27°, rakastig 88%! Eftir morgunverð á hótelinu beið ég eftir Svendsen sem kom í bláa Buick Special bílnum sinum kl. 8:35. Hann ók mér síðan 70 km leið til Fredericksburg segulmælingastöðvarinnar í Corbin, Virginíu. Loftkælingin í bílnum var svo góð að mér varð of kalt á leiðinni, en meðan ég var í segulmælingastöðinni var ég hreint að stikna í sólskininu. Á móti okkur tók maður að nafni Kuberry, sem er yfirmaður þarna, að ég held. Hann sýndi mér staðinn.


 

Svendsen og Kuberry í Fredericksburg

Fredericksburg stöðinni var komið upp árið 1956. Var þá stöð í Cheltenham lögð niður. Þetta er helsta segulmælingastöð Bandaríkjanna. Þarna starfa 14 manns sem vinna úr öllum mælingum stöðvarinnar og hafa auk þess eftirlit með hinum 15 stöðvunum víðs vegar um Bandaríkin. Þarna eru a.m.k. 15 byggingar, einlyftar, auk íbúðarhúsa.


 

Fredericksburg segulmælingastöðin

Tvær eða þrjár bygginganna eru sæmilega stórar en hitt eru mælingakofar ýmiss konar. Notaðir eru staðlaðir fráviksmælar (variometers) með ljósnema og straumspólum sem núllstilla stöðugt. Einnig er þarna róteindasegulmælir, stefnuvirktur, svo og rúbidíum mælir, líka stefnuvirktur.


 

Einn af mörgum segulmælum í stöðinni

Rúbidíummælirinn er notaður við hátíðnimælingar frá 1 upp í 1000 sekúndna sveiflutíma. Mælingarnar eru heildaðar svo að útkoman gefur frávikið ΔF, ekki  ΔF/dt. Notaðar eru pendúlklukkur, kvarðaðar eftir tímamerkjum, en accutron klukkur eru notaðar við mælingar á stöðum utan stöðvarinnar.  Í róteindamælinum er hugsanlegur skekkjuvaldur segulmögnun í spólu, sem erfitt er að mæla ef hún hjaðnar fljótt eftir að straumurinn er rofinn. Samt eru allir sammála um yfirburði róteindamælanna.

Kuberry kannaðist við frönsku hugmyndina um samfellda mælingu með róteindamæli. Hafði heyrt kvartanir í sambandi við tæki frá dönsku segulmælingastöðinni í Rude Skov. Þeir í Fredricksburg höfðu uppgötvað segulmögnun í hyrni (theodolit) QHM tækjanna - í gormi í láréttu fínstillingunni og í augnglerinu. Höfðu sett millistykki milli QHM og hyrnisins.

Í sambandi við stefnuvirkingu róteindamælisins er þess að geta að lóðrétti ásinn á að vera frjáls að ofan og platan þar hreyfanleg, en keilulaga lega að neðanverðu. Þeir mæla eftir mörgum stefnum og snúa 180° á milli. Hafa uppgötvað nýjan pappír sem er betri en Kodak recording paper sem þeir hafa notað til þessa við skráningu segulsviðs. Þetta er Dupont Type B recording paper frá Dupont de Nemour & Co. Inc.Wynnewood, Pennsylvania. Þessi pappír virðist ekki eins næmur fyrir fingraförum og gefur auk þess skarpari andstæður (contrast).

Þarna sá ég geimgeislamæli, þann elsta í veröldinni sögðu þeir, smíðaðan af Forbush. [Ekki er ég viss um að þetta sé rétt.]


 

Geimgeislamælirinn sögulegi

Húsið sem hýsir fráviksmælana er mjög illa einangrað, líklega af sparnaðarástæðum halda þeir. Fjárveiting til þeirra var skorin niður úr 1,5 milljónum dala í 0,75 milljónir á ári. Húsið er upphitað og hitanum haldið stöðugum með hitastilli.

Við borðuðum hádegismat heima hjá Kuberry og konu hans (samlokur, eða samviskur, eins og Vestur-Íslendingarnir í Los Angeles kalla þær). Kl. 14:30 kvöddum við og lögðum af stað. Skoðuðum hús systur Washingtons í Fredricksburg. Húsið var byggt árið 1752. Þar er öllu upprunalegu haldið til haga. Á heimleiðinni sagði Svendsen mér margar sögur af reynslu sinni af negravandamálinu. Hann er að hugsa um Evrópuferð næsta ár ásamt konu sinni og dætrum, sem verða þá 8 og 12 ára. Þarf að fá upplýsingar um fargjöld Loftleiða og ég lofaði að senda honum þær. Einnig lofaði ég að senda honum eitthvað af íslenskum frímerkjum.

Heima á hóteli biðu mín skilaboð frá Paul Smith um að kona hans væri veik og hann yrði því að aflýsa kvöldverðarboðinu  (hann hafði sagst ætla að sækja mig kl. 19:30). Veit ekki hvað hæft er í því. Ég gekk niður á Washington Hilton og lét klippa mig. Það kostaði tvo dali. Borðaði svo á Hot Shoppes. Þar var biðröð út að dyrum. Horfði svo á sjónvarp í kvöld. Innihiti kominn niður í 22°. Fékk mér kók á barnum.

Mánudagur 28. júlí

Vaknaði kl. 8 eftir sæmilegan svefn, þó hálfsyfjaður. Gekk niður í Hot Shoppes og fékk mér morgunverð; hélt síðan niður til Governmental Affairs. Þar gekk ég frá því sem ólokið var (farmiðum og þess háttar) og kvaddi Roz, en Paul fór með mér í banka og hjálpaði mér að innleysa síðustu ávísunina frá þeim. Paul hefur verið ósköp gleyminn á það sem ég hef beðið hann að gera fyrir mig. Hann er dálítið skrýtinn náungi, reikull myndi ég segja, en ári heimsmannslegur í framkomu. Við kvöddumst með virktum, og ég gekk áfram niður að Hvíta húsinu, en biðröðin þar var svo geysilega löng og hitinn svo mikill að mér leist ekki á blikuna og hætti við að fara inn. Tók leigubíl upp til dr. Jaquet, læknis Pauls, til að fá bólusetningarvottorð sem ég er búinn að vera að biðja um alveg síðan snemma í júní. Vottorðið kostaði 5 dali.

Ég tók svo aftur leigubíl niður á Windsor Park. Fyrri bílstjórinn var gift kona, átti þrjú börn sagði hún. Maðurinn búinn að vera ár í Kóreu og var nýkominn heim þegar hann var sendur til Viet-Nam, þar sem hann verður í 13 mánuði. Konan vinnur sem bílstjóri allan daginn, sér um börnin og hefur tíma afgangs til félagsstarfsemi. En henni fannst illa farið með þau af hálfu herstjórnarinnar.

Kl. 11:30 hringdi ég í Ingva Ingvarsson í íslenska sendiráðinu. Hann vildi þá endilega bjóða mér að borða. Kom kl. 12:10 í splunkunýjum Plymouth og ók mér á veitingastað, ekki allfjarri. Maturinn var góður en afgreiðslan léleg, í fyrsta sinn sem ég rekst á það hér á landi. Ingvi var í Bretlandi rétt eftir stríð, við nám í Glasgow og eitt ár í London School of Economics. Síðan í ráðuneyti heima, svo í Moskvu og loks hér s.l. 4 ár held ég. Kemur kannski heim næsta ár. Viðfelldinn maður, mjög hár vexti. Hann þekkir Eggert Kristjánsson lögfræðing.

Eftir að við skildum tók ég saman föggur mínar og fór af hótelinu kl. 16. Tók leigubíl út á flugvöll. Þá var farið að rigna. Windsor Park hótelið tók 9 dali fyrir nóttina, sem mér fannst mikið miðað við gæði hótelsins.


 

Windsor Park hótelið

Flugvélin sem ég ætlaði með var af gerðinni Electra II frá American Airlines. Hún átti að fara kl.17:15 en fór 15 mínútum of seint vegna mikillar umferðar (tafðist í biðröð).  Við lentum í skýjum á leiðinni og flugmaðurinn fór heilan hring meðan hann var að hækka sig upp fyrir skýin. Kl. 18:15 komum við yfir New York, en vegna umferðar urðum við að hringsóla og hætta við eina lendingu þótt hjólin væru komin niður. Úr lofti kom ég auga á heimssýninguna norðaustan við Manhattan. Mistur var yfir borginni, en skýjakljúfar Manhattan sáust þó vel. Lentum loks kl. 18:35 á La Guardia flugvellinum.

Ég tók leigubíl inn í bæ til hótels Waldorf Astoria sem tilheyrir Hilton samstæðunni. Hótel þetta er fjarskalega stórt, 47 hæðir. Ég fékk herbergi á 16. hæð, mjög þokkalegt. Hringdi í herbergisþjón og fékk buxurnar mínar pressaðar á stundarfjórðungi. Fór síðan í næstu götu á lítinn veitingastað og borðaði góðan hamborgara. Fékk hraðbréf frá mömmu. Skrifaði Stefáni bróður línu. Búinn að eyða $1124.

[Á vefnum fann ég þær upplýsingar að Waldorf Astoria væri 190 m hátt. Það hefði verið hæsta hótel heims frá 1931 þar til 1963, að Rússar reistu annað 7 m hærra í Moskvu. Árið 2014 keyptu svo Kínverjar þetta fræga hótel fyrir 2 milljarða dala.]

Fimmtudagur 29. júlí

Fór á fætur kl. 21 eftir væran svefn. Borðaði morgunverð á hótelinu. Fékk upplýsingar um hótelið. Þetta er einn hæsti skýjakljúfur í New York, yfir 200 metra hár með 200 herbergjum.

 

Útsýni úr glugganum mínum á Waldorf. Chrysler byggingin blasir við

Eftir morgunverð tók ég leigubíl upp að Empire State byggingunni og fór þar upp í lyftu. Fyrsta lyftan fór upp á 60. hæð, sú næsta upp á 86. hæð. Þar var útsýnispallurinn, líklega 20 metrar á hvorn veg. Mikilfenglegt útsýni var þar yfir Manhattan eyjuna. Sólin skein, en nokkur reykmökkur lokaði útsýn í fjarska. Pan American byggingin og Chrysler byggingin voru hvað mest áberandi. Bygging Sameinuðu þjóðanna var ekki sérlega áberandi, skýjakljúfarnir syðst á eyjunni allfjarri og Frelsisstyttan sýndist þar lítil í fjarska.


 

Útsýni úr Empire State


 

Útsýni úr Empire State. Pan Am og Chrysler byggingarnar sjást

Svo fór ég upp á 102. hæð, en þar er lokað með gleri og ekki eins gaman að horfa út. Veður var ágætt, svali og ekki of heitt. Ég var þarna frá kl. 10:45 til 11:30, fór svo niður aftur eftir að hafa tekið allmargar myndir. Lyfturnar fóru um það bil tvær hæðir á sekúndu. Ég tók leigubíl aftur til Waldorf, skrifaði mömmu og Stefáni bróður og borðaði "Great American Sandwich" á hótelinu. Þá var klukkan orðin 13:45.

Eftir matinn gekk ég frá hótelinu til byggingar Sameinuðu þjóðanna og fór þar í hóp með leiðsögumanni, sem var kona frá Perú. Það var mjög fróðlegt, og einhvern veginn varð ég mjög snortinn af að koma þarna. Byggingin er mjög glæsileg, kostaði 67 milljónir dala. Bandaríkin lánuðu féð vaxtalaust, en afborganir nema 2-3 milljónum á ári. Í lóðréttu byggingunni eru aðallega skrifstofur. Í hinni er aðalsalurinn (General Assembly) sem er afar smekklegur og tilkomumikill. Salur öryggisráðsins, skreyttur af Norðmönnum, finnst mér mun síðri.


 

Bygging Sameinuðu þjóðanna

Ferðin þarna um tók líklega klukkustund. Að henni lokinni fékk ég mér kók og gekk svo heim inn á milli glerkastalanna sem hvarvetna gnæfa við himin. Þar fyrir utan minnir ys og þys borgarinnar mest á London. Hliðargötur eru ekki sérlega þrifalegar, enda mikið um iðju og starfsemi alls konar. Hitinn var 26° og raki 30%. Fór í sturtubað. Fékk mér síðan kjúkling á veitingastað í 3. götu. Matur virðist með besta og ódýrasta móti hér í New York, betri en í Washington finnst mér. Rakst á betlara hér sem bað mig um 10 sent og ég gaf honum peninginn. Hef rekist á betlara tvisvar áður, í Washington minnir mig. Horfði á sjónvarp í kvöld.

Gleymdi að geta þess að á flugvellinum í Washington í gær sá ég sjálfvirkni á hástigi; afgreiðslustúlkan var með selectric ritvél í sambandi við rafreikni. Þegar ég sagðist hafa pantað far skrifaði hún nafn mitt á ritvélina. Vélin svaraði fyrst neitandi (stúlkan hafði skrifað inn skírnarnafnið!) en síðan játandi.

Hér á Waldorf eru þeir sýnilega búnir átta sig á því að það er hrein vitleysa að láta gesti skila lyklum í hvert sinn sem þeir fara út. Hér er ekkert fest við lykilinn, en gesturinn beðinn um að varðveita hann sjálfur.
  
Föstudagur 30. júlí

Vaknaði kl. 7 eftir aðeins of lítinn svefn. Í fyrstu var hálfskýjað, en svo rofaði til og ég ákvað að fara bátsferð umhverfis Manhattan. Eftir morgunverð keypti ég filmur, tók svo leigubíl niður á vesturenda 42. götu og var kominn þangað kl. 9:30. Var lengi á leiðinni vegna umferðar og missti því af bát sem fór kl. 9:30. Varð að bíða hálftíma eftir næsta bát. Hann var ekki fullsetinn, en þó munu farþegar hafa verið um 200, hugsa ég. Aðgangur kostaði $2.75. Ferðin tók 3 tíma og var hin skemmtilegasta, einkum fyrri helmingurinn. Veður var frekar svalt, 21°C og gola, gárur á vatninu. Siglt var rangsælis um Manhattan, fyrst niður Hudson fljót að Frelsisstyttunni, svo var beygt fyrir skýjakljúfana í "downtown Manhattan" og haldið upp East River og síðan upp Harlem river og loks aftur út í Hudson og niður að "midtown Manhattan". Við fórum undir margar brýr. Ég tók fjöldann allan af myndum.





Kl. 13 var lagt aftur að bryggju og ég tók leigubíl upp á hótel, borðaði "chili-burger" og varð eiginlega ekkert gott af, hvíldi mig til kl. 16:30, gekk þá út á 5. breiðgötu (avenue) og  næstum því upp að Empire State. Horfði í búðarglugga, gekk síðan fram hjá PanAm byggingunni þar sem Grand Central Terminal er, og svo eftir Lexington Avenue að hótelinu. Borðaði kvöldmat í kaffihúsi í 3. götu.

Það er tæplega hægt að villast hér í New York; skýjakljúfarnir eru svo auðþekktir, sumir a.m.k., og Empire State byggingin gnæfir upp úr öllu saman.

Sá fyrstu Marsmyndirnar frá Mariner 4 í dagblaði (N.Y. Times) í dag. Furðulegt.

Laugardagur 31. júlí

Vaknaði rétt fyrir kl. 9 eftir væran svefn. Veður skýjað með köflum, hiti 21-27°. Eftir morgunmat á hótelinu skrifaði ég á póstkort til mömmu og sendi það ásamt filmu til Kodak í Rochester. Gekk svo út á Fifth Avenue og þar fyrst til norðurs út að Central Park, en síðan aftur til suðurs. Fór inn á Rockefeller Center og dáðist að byggingu RCA og torginu fyrir framan (Rockefeller Plaza). Þar hjá var skrifstofa Loftleiða, en ég fór ekki inn. Rockefeller Plaza er glæsilegasti staður sem ég hef séð hér.

Svo fór ég inn í Brentano´s Bookstore [þekkt fyrirtæki með margar verslanir. Varð gjaldþrota 2011 að því er segir á vefnum] við 4. götu og litaðist um. Allsæmileg bókabúð, en ekkert á við bókabúðir í London. Gekk svo upp á hótel aftur. Fór og fékk mér pylsu ("frankfurter") með karftöflusalati og rjómaís á eftir, við 3. götu. Eftir mat fór ég aftur upp á hótel. Þá var búið að smeygja bréfi að heiman undir hurðina.

Eftir hádegi fór ég út á 5. breiðgötu (Fifth Avenue) og gekk nú til suðurs, alla leið að Empire State byggingunni. Þar er mikið um verslanir. Fór inn í Macy´s sem auglýsir sig sem stærstu verslun veraldar. Litaðist um á átta hæðum en sá ekkert sem mig langaði að kaupa nema Farmer's Almanac, sem ég hefði getað keypt víða annars staðar. Gekk svo áfram út að Sears Roebuck við 9. breiðgötu og 31. stræti, en þar var aðeins vöruútsendingarmiðstöð sýndist mér. Þar var strax fátæklegra allt umhverfi og óviðkunnanlegra - minnti á East End í London, og ég tók leigubíl til baka. Hef þá verið búinn að ganga um 3 km. Fékk mér steypibað, horfði á sjónvarp, fór út í 3. breiðgötu til að fá mér snarl í kvöldmat og horfði svo á sjónvarp það sem eftir var kvölds.

Sunnudagur 1. ágúst

Varð fyrir talsverðu ónæði í gærkveldi og morgun vegna hávaðasamra nábúa. Heyrðist slagurinn vera út af því að skráin væri í ólagi á næstu hurð. Fór á fætur á tíunda tímanum, pantaði morgunverð upp á herbergi til tilbreytingar (kostaði $3.50!). Fór svo út kl. 10:30 og var tvo tíma að skoða Rockefeller Center. Fór þar upp á þak og tók myndir af útsýninu. Skýjað en gott skyggni eftir því sem gerist hér. Það sást mjög vel yfir Central Park úr þessari byggingu. Aðalbyggingin er mjög flott að innan, frábærir sýningargluggar á neðstu hæð og í kjallara. Allt mjög glæsilegt.


 

Horft upp eftir RCA byggingunni við Rockefeller Plaza

Horft yfir Central Park

Hin fræga dómkirkja heilags Patreks sést hér ofan frá

Hvergi er betra útsýni til Empire State byggingarinnar

Ég fékk mér pylsu ("hot dog") í hádegismat í Lexington Avenue, horfði svo á sjónvarp, þvoði þvott, fór í  bað o.s.frv. það sem eftir var dags. Fór út að borða kl. 18 í Coffee Cup á 3. breiðgötu. Tveir betlarar (báðir sæmilega klæddir) báðu mig um aur, en ég neitaði. Hef hvergi annars staðar orðið fyrir slíkri ásókn betlara.

Í kvöld horfði ég enn á sjónvarp. Um níuleytið hringdi ég til Tulsa í þriðja sinn og náði nú loks í Eystein Tryggvason. Hann var búinn að fá greinilegan hreim í röddina. Hann kemur ef til vill heim í júní næsta ár á styrk héðan til jarðskjálftamælinga (mælinga á hreyfingu jarðskorpunnar). Hefur áhuga á að koma aftur heim ef kjörin batna. Sagðist hafa sent Steingrími Hermannssyni skýrslu nýlega. Ég þyrfti að fá að sjá hana.

Eysteinn staðfesti að hann hefði sent fyrstu norðurljósafilmurnar til Stoffregens. Hann minnti að hann hefði átt bréfaskipti við Sucksdorf. Þegar filmurnar komu aftur, sendi hann þær til College í Alaska.

Eitt er nýstárlegt hér á Waldorf. Það er dyrabjalla við hvert herbergi. Þá er hnappur utan á lásnum sem segir til um hvort dyrnar eru læstar að innanverðu, án þess að tekið sé í handfangið.

Mér leið ekki sem best í maganum í dag.

Mánudagur 2. ágúst

Á fætur um kl. 9. Eftir morgunmat fór ég í Rockefeller Center að gera innkaup og var þar til hádegis. Borðaði hádegismat í 3. götu. Ekki góður í maganum.

Kl. 15 tók ég leigubíl upp í Hayden Planetarium sem er vestan megin við Central Park. Sýningin hófst kl. 15:30 og stóð í klukkustund. Var hún býsna skemmtileg. Annar fyrirlesaranna sýndi líkön af helstu eldflaugum og geimskipum, svo og sólarsellu sem tengd var við magnara. Einnig þrjú líkön sem sýndu hvernig einingar úr rafeindaheilum hafa smækkað undanfarin ár. Ýmislegt annað var þarna fróðlegt s.s. eftirlíking af Óríon í þrívídd, gerð hjá IBM. Stjörnuhiminninn kom mjög vel fram.

Tók leigubíl til baka um fimmleytið. Nennti ekki að skoða American Museum of Natural History sem er áfast við stjörnuverið. Þrátt fyrir veðurspána hefur ekki rignt hér í dag eða gær, en í nótt mun eitthvað hafa rignt, Hiti er 20-25°, loft rakt.

Í kvöld var ég svo slæmur í maganm að ég ætlaði ekki að hafa mig upp í að borða kvöldmat. Dreif mig þó niður á Coffee Cup og borðaði "sirloin" steik og franskar kartöflur + vatnsglas. Líklega í fyrsta skipti í ferðinni sem ég hafna ískaldri kók.

Waldorf er eitt af fáum hótelum sem ég hef búið á hér vestra þar sem sérstaklega er búið um rúmið að kveldi til (ábreiðan tekin af, o.s.frv.). Vatnið hér er bara gott, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að vatnsskortur er feikilegur núna. Vatnsbólin eru hálftóm eftir mestu þurrka síðan átján hundruð og eitthvað.

Þriðjudagur 3. ágúst

Á fætur um níuleytið. Eftir morgunmat gekk ég inn í fatabúð í hótelinu, sá þar frakka með skinnfóðri sem mér líkaði og keypti hann fyrir $75. Síðan fór ég út í Rockefeller Center og keypti ýmislegt smávegis, þar á meðal litla tösku, og leit svo í búðir á Fifth Avenue. Hiti um 20°, gott veður. Betri í maganum.

Eftir hádegismat á Coffee Cup fór ég inn í aðra fataverslun rétt hjá hótelinu og keypti þar hvorki meira né minna en tvenn föt og einn frakka sem kostuðu um 75 dali stykkið. Keypti skó í næstu verslun á $14. Síðan fór ég upp á hótel, pakkaði niður draslinu og rétt lauk því um kl. 16. Hafði þá haft fataskipti fyrir ferðina. Lét hótelið geyma töskurnar niðri hjá dyraverði (doorman) við bílainnganginn. Beið svo og las blöð til kl. 18, tók þá "limousine" frá hótelinu út á J. F. Kennedyflugvöll. Sú ferð tók um 50 mínútur og kostaði $3.

Í Pan American móttökunni var gríðarlegur fóksfjöldi og varla hægt að komast að neins staðar. Klukkan var orðin 19:40 þegar ég var búinn að koma töskunum í gegn og afgreiða yfirvigtina (var með 57 lbs (26 kg) heimild að heiman, útgefna af Helgason & Melsted). Þá ætlaði ég að fá mér að borða, var orðinn glorhungraður, en Coffee Shop veitingastaðurinn þarna var allt of lítill og ég fékk ekki borð fyrr en kl. 19:55. Maturinn kom ekki fyrr en kl. 20:15 svo að ég varð að hætta í hálfu kafi til að hlaupa út að hliði nr. 8 þar sem allir áttu að mæta kl. 20:30 fyrir flug nr. 76. Eftir 15 mínútna bið í röðinni var svo tilkynnt að vélin færi ekki fyrr en kl. 22!

Kl. 21:20 fór ég um borð í vélina, sem lagði af stað í svartamyrkri kl. 22:05. Mér leið ekki vel fremur en venjulega í flugvél. [Þess skal getið til skýringar að ég var mjög flughræddur á þessum tíma. Ég læknaðist ekki af flughræðslunni fyrr en þremur árum síðar, að ég ákvað að læra sjálfur að fljúga og tók einkaflugmannspróf.] Þetta var DC-8 þota, full af fólki. Ég sat aftarlega hægra megin (sæti 8-D) við hliðina á tveimur skoskum konum. Klukkan um 23:30 var tilkynnt að norðurljós sæjust. Skömmu síðar fór að votta fyrir dagsskímu.

Kvöldverður var framreiddur í vélinni um kl. 23. Kom það mér alveg á óvart. Hafði auðvitað enga lyst á honum. Smám saman birti, og kl. 1:40 fórum við yfir suðurodda Grænlands. Ég hafði ekki séð Grænland áður. Þar var ekkert nema snæviþakin fjöll að sjá. Nokkru áður höfðum við lent í óstöðugu lofti í skýjum í 30 þúsund feta hæð og flugmennirnir höfðu lækkað flugið nokkuð.

Klukkan 3 (kl. 7 eftir íslenskum tíma) fórum við yfir Garðskagann í sólskini og léttskýjuðu og lentum í Keflavík eftir 5 tíma flug. Tollskoðun var fljótleg og síðan tók ég (hægfara) rútu til Reykjavíkur. Kl. 5 (= 9) var staðnæmst við Hótel Sögu. Þar var Stefán bróðir með Landroverinn ásamt móður minni og var ekið heim í Bólstaðarhlíð. Þannig lauk þessari löngu og viðburðaríku ferð. Mér taldist svo til að flugferðirnar á þessum tveimur mánuðum hefðu verið 28 alls, ef taldar eru allar lendingar.

Eftir lendingu í Keflavík

Leiðin

Arizona (kort)
Suður-Kalifornía (kort)
New York fylki (kort)

Kortin eru fengin af vefnum


Þ.S. 19.7. 2017. Síðasta viðbót 31.5. 2018
 

Forsíða