Um vikur ársins, almanök og orðið "tölva"

(Úr tímaritinu Tölvumál, júní 1982)

    Í síðasta hefti Tölvumála er grein sem ber yfirskriftina "Varið ykkur á íslensku almanökunum". Er þar fjallað um rugling sem gætt hefur í viknatalningu í mörgum almanökum og réttilega bent á nauðsyn þess að samræma slíka talningu. Fyrir meira en áratug, þegar byrjað var að tölusetja vikur í erlendum almanökum, var þeirri hugmynd hreyft að koma á samræmdum staðli um viknatalningu á Norðurlöndum. Minnist ég þess að við Trausti Einarsson prófessor fengum málið til umsagnar, en við sáum þá í sameiningu um útgáfu Almanaks Háskólans. Við Trausti tókum hugmyndinni heldur fálega, og bar þrennt til þess. Í fyrsta lagi hlutum við að benda á, að viknatalning af öðru tagi hefði tíðkast á Íslandi frá fornu fari (talning á vikum sumars og vetrar eftir íslenska misseristalinu). Í öðru lagi myndi það ganga þvert á forna hefð og íslensk daganöfn að láta vikur ársins hefjast á mánudegi. Í þriðja lagi myndi ávallt nokkur hætta á ruglingi vegna skiptingar vikna á áramótum, hvað sem öllum reglum og stöðlum liði.

    Þessi afstaða okkar Trausta hefur ef til vill haft einhver áhrif í þá átt að letja ráðamenn til að setja íslenskan staðal um þetta efni á sínum tíma. En vitanlega réðum við engu um þróun málsins erlendis, þar sem alþjóðleg nefnd var sett til að fjalla um málið. Nefndin skilaði áliti árið 1970 og á grundvelli þess var gefinn út sá alþjóðlegi staðall (ISO/R 2015) sem vitnað er til í fyrrnefndu hefti af Tölvumálum. Þessi staðall náði fljótlega útbreiðslu í nokkrum löndum, t.d. í Þýskalandi og á Norðurlöndum, þar sem samhljóða staðlar voru settir þegar á árunum 1972-1973. Árið 1975 var þróunin komin svo langt að ég sá ástæðu til að gera grein fyrir staðalreglunum í Almanaki Háskólans. Í þeirri greinargerð voru umræddar vikur nefndar "viðskiptavikur" til aðgreiningar frá öðrum vikum. Þegar talning á þessum viðskiptavikum ársins var tekin upp í almanakinu (árið 1977) var hinum alþjóðlega staðli að sjálfsögðu fylgt, þótt annmarkar hans væru mér jafnljósir og fyrr.

    Því miður hefur sannast aftur og aftur hvílík hætta er á ruglingi við slíka viknatalningu, þótt útgefendur annarra almanaka hafi haft Almanak Háskólans til hliðsjónar og reynt hafi verið að kynna reglurnar sem fylgja beri. Rétt er að benda á, að það þarf ekki að vera sök útgefendanna þótt einhver mistök verði; þeir sem eitthvað hafa komið nærri útgáfustarfsemi vita að prentsmiðjan hefur ávallt síðasta orðið. Ég veit a.m.k. eitt dæmi þess að útgefandi hafi fylgt réttri reglu í handriti, en prentsmiðjan þóttist vita betur og "leiðrétti" handritið (Handbók bænda 1982)!

    Það er ekki einungis á Íslandi sem ruglingur hefur átt sér stað; nýlega fékk ég í hendur þýskt dagatal sem ekki fylgir staðlinum um viknatalninguna. Þessu dagatali mun hafa verið dreift eitthvað hérlendis og varð m.a. til þess að deilur komu upp um vikunúmerin hjá starfsfólki Sjónvarpsins.

    Þá langar mig til að koma á framfæri leiðréttingu, þótt óskyld sé að efni til. Í þeirri grein Tölvumála sem varð tilefni þessa pistils, er minnst á Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags 1982 og sagt að undirritaður hafi búið það til prentunar. Hér er um dálítinn misskilning að ræða, sem mér hefur gengið erfiðlega að uppræta. Það almanak sem ég hef haft umsjón með allt frá árinu 1963 (upphaflega í samvinnu við próf. Trausta Einarsson), er Almanak Háskólans, öðru nafni Íslandsalmanakið. Þetta almanak hefur komið út samfellt frá 1837, var fyrst gefið út í Kaupmannahöfn, en síðan (frá 1923) í Reykjavík. Einkaleyfi til útgáfunnar var í fyrstu í höndum Hafnarháskóla (sem þá var háskóli Íslendinga) en með lögum frá 1921 tók Háskóli Íslands við þessu einkaleyfi.

    Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags er annað rit, sem fyrst kom út árið 1875. Það sem misskilningi veldur er sú staðreynd að Þjóðvinafélagið fékk í öndverðu heimild til að nota Almanak Háskólans sem uppistöðu í almanaki sínu, en bætti síðan við öðrum fróðleik s.s. Árbók Íslands og greinum um ýmis efni. Þessi heimild var þó ekki notuð árin 1914-1918, og á þeim árum eru ritin tvö algjörlega frábrugðin í útliti.

    Það varð einnig til að ýta undir misskilning, að frá 1923 til 1973 sá Þjóðvinafélagið einnig um útgáfu á Almanaki Háskólans samkvæmt sérstöku umboði. Hvað sjálfan mig snertir kann það enn fremur að hafa valdið ruglingi, að ég var ritstjóri Almanaks Þjóðvinafélagsins í 12 ár (frá 1967 til 1978). Ritstjóri þess almanaks nú er dr. Finnbogi Guðmundsson landsbókavörður. Vona ég að þessi útskýring geri eitthvert gagn, en verði ekki til að rugla menn enn frekar í ríminu!

    Úr því að ég er farinn að ræða um almanökin tvö, Almanak Háskólans og Almanak Þjóðvinafélagsins, er ekki úr vegi að rifja upp, að það var í þessum ritum sem orðið "tölva" komst fyrst á prent, að því er ég best veit. Í einu tölublaði Tölvumála, sem út kom á síðasta ári, var fjallað um uppruna og beygingu orðsins tölva, og segir þar m.a.: "Dr. Sigurður heitinn Nordal mun vera upphafsmaður að orðinu tölva, sem er lifandi dæmi um það hvernig nýyrði getur náð fótfestu, svo að segja viðstöðulaust, þegar vel tekst til" (tilvitnun lýkur). Ekki myndi ég nú segja að þetta hafi gengið viðstöðulaust, og langar mig til að rekja nokkuð sögu þessa máls, ef einhver skyldi hafa áhuga á. Þar sem langt er nú um liðið síðan þetta var á döfinni, kann að vera að mig misminni um einhver atriði, og mun ég þá fúslega taka við leiðréttingum frá lesendum sem betur þykjast muna.

    Það er rétt, sem segir í Tölvumálum, að Sigurður Nordal hafi átt hugmyndina að orðinu tölva. Það var árið 1965 að Sigurður skaut þessu fram, í viðtali við Magnús Magnússon prófessor, forstöðumann nýstofnaðrar Reiknistofnunar Háskólans. Magnúsi þótti orðið athyglisvert, en var þó á báðum áttum um, hvort það væri heppilegt. Sjálfur hafði Magnús notað orðið rafeindareiknir, og það höfðu fleiri gert, þar á meðal ég sjálfur, en af öðrum tilbrigðum má nefna heitin rafeindareiknivél,  rafreiknir og reikniheili. Öll þessi orð er að finna í Tímariti Verkfræðingafélagsins 1964 þar sem ýmsir menn rituðu greinar í tilefni þess að sú fræga vél IBM 1620 var komin til landsins.

    Þegar Magnús sagði mér frá þessu nýja orði sem Sigurður Nordal hefði smíðað, leist mér strax mjög vel á það. Næst þegar fundum okkar Sigurðar bar saman notaði ég tækifærið til að ræða við hann um myndun orðsins og beygingu þess. Sigurður kvað orðið dregið af orðunum tala og völva og ætti að beygjast eins og það síðarnefnda. Ég spurði Sigurð sérstaklega um eignarfall fleirtölu af orðinu, og taldi hann að það ætti að vera "tölna". Ekki hafa þó íslenskumenn orðið sammála um þetta atriði, og í reynd hefur orðið verið beygt á annan hátt ("tölva" í ef. ft.).

    Eftir viðtalið við Sigurð fór ég að reka harðan áróður fyrir orðinu tölva. Í fyrstu varð mér lítið ágengt, a.m.k.  meðal þeirra sem unnu við hin nýju tæki. Almenningur reyndist hins vegar mun móttækilegri. Ég setti orðið fyrst á prent í Almanaki Háskólans, þar sem ég greindi frá því að tölva hefði verið notuð í fyrsta sinn við útreikninga almanaksins fyrir 1966. Til öryggis var þó orðið rafeindareiknir haft í sviga. Í grein sem Páll Theodórsson ritaði að minni beiðni í Almanak Þjóðvinafélagsins 1967 var orðið einnig notað jafnhliða orðinu rafeindareiknir. Í Almanaki Þjóðvinafélagsins 1968 birtist svo löng grein um tölvur eftir Magnús Magnússon prófcessor, og þar er einvörðungu notað orðið tölva. Minnir mig þó, að Magnús hafi í fyrsta handriti að greininni notað orðið rafeindareiknir, en breytt því síðar fyrir mín tilmæli.

    Ekki fer á milli mála, að sú virðing sem Sigurður Nordal naut, átti drjúgan þátt í að fá menn til að taka upp þetta nýyrði, enda skal ég játa, að ég beitti nafni Sigurðar óspart  fyrir mig þegar ég var að hvetja til þess að hið nýja heiti væri tekið upp. Viðtökur almennings voru betri en ég hafði þorað að vona, og í rauninni betri en ég ætlaðist til, þannig að nýtt og óvænt vandamál hefur komið upp af þeim sökum. Hugmyndin var, að orðið tölva yrði einungis notað um það sem á enskunni heitir "computer", þ.e. stórvirka vél sem  sérstaklega væri hæf til að framkvæma umfangsmikla fræðilega útreikninga án beinna afskipta þess sem vélinni stjórnaði. En reyndin varð sú, að almenningur tók að nota orðið tölva yfir hvers kyns reiknivélar, líka þær sem á ensku nefnast "calculators", þannig að orðið reiknivél, sem áður var mikið notað, má nú heita horfið úr íslensku máli. Einnig hefur tölvunafnið verið yfirfært á búnað sem á lítið sameiginlegt með tölvum annað en að vera rafeindabúnaður. Má þar t.d. nefna svonefnd "tölvuúr", sem alls ekki eiga það nafn skilið (sum þessara úra mætti kalla "töluúr" eða "rafeindaúr"). Mér sýnist tími til kominn að sporna við fótum þannig að orðið tölva verði ekki svo ofnotað, að það hætti að hafa nokkra glögga merkingu. Ef mönnum finnst gamla orðið reiknivél ekki nógu fínt heiti á einföldustu vélum sem notaðar eru í skólum eða á skrifstofum, þarf ef til vill að finna nýtt heiti sem almenningur getur fellt sig við.

    Þess má geta að einn aðili hér á landi gerir skýran greinarmun á tölvum og óæðri reiknivélum, en það eru íslensk tollyfirvöld. Tölvur eru nefnilega í lægri tollflokki en hinar óæðri vélar og þurfa því að uppfylla strangar kröfur til að komast í gegnum nálarauga tollsins. Eftir því sem ég best veit munu aðeins tvær vélar af þeim aragrúa sem í daglegu tali nefnast "vasatölvur" uppfylla þau skilyrði að vera tölvur í augum tollyfirvalda, en báðar þessar vélar nota háþróað forritunarmál (Basic).

                                                                                        12. mars 1982
                                                                                   Þorsteinn Sæmundsson
 

Til baka