Þorsteinn Sæmundsson

Tilviljanir

Erindi flutt á bekkjarsamkomu 25. nóvember 2011


Ágætu bekkjarsystkin.

Flest ykkar hafa áreiðanlega reynslu af sérkennilegum tilviljunum, einhverju sem gerðist án þess að það ætti sér beinan aðdraganda, einhverju sem kom verulega á óvart. Tilviljanir geta í sumum tilvikum skipt verulegu máli, bæði í lífi einstaklinga og í sögu heilla þjóða. Stundum virðast þær svo furðulegar að menn eiga erfitt með að trúa því að atburðirnir hafi gerst fyrir hendingu heldur búi þar að baki einhverjir ókunnir eiginleikar manna eða náttúrunnar. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma, en nefna nokkur dæmi um skemmtilegar tilviljanir sem engum myndi detta í hug að tengja við yfirskilvitleg fyrirbæri.

Fyrst ætla ég að segja sögu sem bróðir minn, Stefán, sagði mér nýverið. Í síðasta mánuði vildi svo til að Stefán átti erindi til Hornafjarðar og var að ferðbúast heima hjá sér á Álftanesi. Kona Stefáns, Valborg, á íbúð í Hafnarfirði og hafði auglýst hana til leigu. Þegar Stefán er á leið út úr dyrunum hringir síminn, og þar sem Valborg var ekki heima, svaraði Stefán í símann. Sá sem hringdi kynnti sig, sagðist heita Magnús og vinna hjá Vodafone. Hann hefði séð auglýsinguna og hefði áhuga á íbúðinni. Stefán veitti honum allar nauðsynlegar upplýsingar, en fór síðan út í bíl og áleiðis til Hafnar í Hornafirði. Þegar hann náði á áfangastað var komið kvöld. Hann fékk inni á gistiheimili þar á staðnum. Síðar um kvöldið var Stefán staddur í móttöku gistiheimilisins. Þar var fátt um manninn, enginn nema Stefán þá stundina, því að afgreiðslustúlkan hafði brugðið sér frá. Þá hringir síminn. Hann hringir og hringir, en enginn er til að svara. Það verður úr að Stefán fer inn fyrir afgreiðsluborðið og tekur upp símann. Í símanum er rödd sem segir: "Þetta er Magnús hjá Vodafone". "Komdu blessaður Magnús," segir Stefán, "Þetta er Stefán Sæmundsson, við vorum að ræðast við fyrr í dag". "Ha, hvað, hef ég hringt í vitlaust númer?" spyr Magnús undrandi. Hann ætlaði ekki að trúa því að þarna væri kominn sami maðurinn og hann hafði talað við fyrr um daginn á öðru landshorni og í allt öðrum erindagerðum.

Næst ætla ég að segja ykkur sögu sem kunningi minn, Ágúst Valfells verkfræðingur, sagði mér fyrir mörgum árum. Ágúst stundaði nám í Bandaríkjunum og lauk doktorsprófi frá Iowa State háskólanum árið 1962. Um tíma starfaði hann samtímis mér á Raunvísindastofnun Háskólans.  Eitt sinn að loknum starfsdegi, þegar Ágúst var á leið heim til sín í Kópavog, urðu á vegi hans tveir piltar sem báðu um far. Þetta reyndust vera Bandaríkjamenn af Keflavíkurvelli, óeinkennisklæddir. Ágúst bauð þeim að vera með sér áleiðis. Hann spurði þá hvaðan þeir væru. Annar sagðist vera frá Brooklyn, sem Ágústi þótti ekki sérlega áhugavert. Hinn sagðist vera frá litlum bæ í Michigan, sem hann nafngreindi ekki, en sagði að fáir þekktu. Nú vildi svo til, að þegar Ágúst var við nám í Iowa hafði hann kynnst manni að nafni Tom Ellis. Ellis þessi var yfirmaður kjarnorkudeildar háskólans í Michigan, en sú deild var staðsett í smábæ á útkjálka nálægt stóru vötnunum. Ágúst mundi nafnið á bænum; það var eini bærinn sem hann kunni nafn á í Michigan, svo að hann segir: Þú ert kannski frá Houghton? Pilturinn varð mjög undrandi, og sagði svo vera. Hann spyr hvernig standi á því að Ágúst þekki Houghton. Þekkja ekki allir Houghton? segir Ágúst. Síðan bætir hann við: Hvernig líður vini mínum Tom Ellis? Nú verður piltur fyrst hissa, og hann segir: Hvernig þekkir þú Tom Ellis? Þekkja ekki allir hann Tom Ellis? spurði Ágúst á móti. Í ljós kom, að Ellis var faðir besta vinar piltsins. Með þetta skildu þeir, en Ágúst sá hvar piltur stóð eftir við Hafnarfjarðarveginn og hristi höfuðið, algjörlega gáttaður.

Önnur saga tengist sameiginlegum vini okkar Ágústs, Hjálmari Sveinssyni verkfræðingi. Eitt sinn vorum við Ágúst boðnir heim til Hjálmars og foreldra hans. Faðir Hjálmars, Sveinn Ólafsson, sagði okkur þá eftirfarandi sögu. Sveinn starfaði í mörg ár sem deildarstjóri á skrifstofu Eimskipafélags Íslands. Eitt sinn datt honum í hug að það gæti verið gaman að taka sér frí og fá far með einu af skipum félagsins. Utanfarir voru ekki tíðar á þessum árum og Sveinn hafði lítið ferðast út fyrir landsteinana. Sveinn lét verða af skipsferðinni, og segir ekki af ferðum hans fyrr en skipið kemur til hafnar í Póllandi. Það mun hafa verið í Gdynia. Meðan skipið stóð þar við ákvað Sveinn að fara í land og ganga inn í borgina. Á göngunni um götur borgarinnar fór hann að velta því fyrir sér hvort hann hefði nokkurn tíma kynnst Pólverja. Á þessum árum voru þeir sjaldséðir á Íslandi. En það rifjaðist upp fyrir Sveini að, jú, það hafði einu sinni komið Pólverji inn á skrifstofu Eimskips og þeir höfðu ræðst við í góða stund. Hvað hét hann nú aftur þessi maður? Ekki gat Sveinn munað það. Í þeim svifum gengur hann fyrir horn og rekst þá á mann sem kemur úr gagnstæðri átt. Báðir verða jafn undrandi.  Þetta var þá maðurinn sem Sveinn var að reyna að muna nafnið á, eini maðurinn í öllu Póllandi sem Sveinn kannaðist við.

Það er ekki auðvelt að reikna út líkindin í þessum dæmum sem ég hef nú lýst. En eina sögu kann ég þar sem unnt er að meta líkurnar að nokkru leyti. Aðalstarf mitt í áratugi fólst í því að sjá um rekstur segulmælingastöðvar Háskólans. Sú stöð er í Leirvogi í Mosfellssveit. Í janúar 1991 gerðist sá óvenjulegi atburður að jarðskjálfti skók stöðina og truflaði mælitækin.  Í kjölfarið sló svo niður tveimur eldingum við stöðina. Aðeins leið stutt stund milli þessara atburða, sem báðir trufluðu mælitækin, svo að segja mátti að truflanirnar rynnu saman. Mér var sagt síðar frá hjónum í Mosfellsbæ, sem deildu um það hvað gerst hefði. Konan sagði: Þetta var jarðskjálfti, en maðurinn sagði: Nei, nei, þetta var elding. Eins og allir vita eru hvor tveggja, jarðskjálftar og eldingar, sjaldgæfir atburðir hér um slóðir. Á sínum tíma gerði ég tilraun til að reikna út líkurnar á því að þessir atburðir færu saman með svo skömmu millibili. Útkoman var 1 á móti 500 þúsund eða þar um bil. Þótt ekki megi taka niðurstöðuna bókstaflega, gefur hún þó hugmynd um líkurnar.

En þar með er sagan ekki sögð, því að fleiri tilviljanir fléttast þarna inn í. Þennan dag, í janúar 1991, vildi svo til að ég var á leið í segulmælingastöðina með gest, danska konu sem búsett var á Íslandi, nánar tiltekið í Biskupstungum. Ég hafði fyrir tilviljun rekist á nafn hennar í símaskránni nokkru áður og nafnið hafði vakið forvitni mína. Konan hét Marie la Cour. Nafnið la Cour var mér vel kunnugt; Dan la Cour var þekktur vísindamaður, sem um aldamótin 1900 hafði komið til Íslands með leiðangri til norðurljósarannsókna en varð síðar forstjóri dönsku veðurstofunnar. Hann hannaði hugvitsamleg tæki til segulmælinga sem lengi voru notuð í segulmælingastöðvum um allan heim, þar á meðal í Leirvogi.

Af forvitni tók ég upp símann, náði sambandi við Maríu þessa og spurði hana hvort hún væri nokkuð skyld þeim fræga Dan la Cour. Jú, hún hélt það nú, "Hann var afi minn" sagði hún. Í ljós kom að Marie var alls ófróð um mælitækin sem afi hennar hafði hannað og ég spurði þá hvort hefði ekki áhuga á að að sjá þessi tæki næst þegar hún ætti leið til Reykjavíkur. Marie þáði boðið, og nokkrum vikum seinna tilkynnti hún komu sína. Þannig vildi það til að hún slóst í för með mér upp í segulmælingastöð. Af tilviljun var þetta einmitt sama dag og jarðskjálftinn og eldingarnar riðu yfir. Um þetta leyti voru ný segulmælingatæki  að ryðja sér til rúms, stafræn og tölvustýrð. Ég hafði nýlega sett upp slík tæki í Leirvogi og ætlaði að láta þau ganga samhliða gömlu tækjunum um skeið til að fá samanburð á útkomunum. Þegar ég kom með Marie í segulmælingastöðina voru öll nýju tækin óvirk. Þetta voru viðkvæm rafeindatæki sem þoldu ekki þær snöggu spennubreytingar sem eldingarnar ollu í rafkerfinu. Ég mun seint gleyma bilanavælinu sem mætti okkur þegar dyrnar að stjórnhýsinu voru opnaðar.. En gömlu La Cour tækin gengu eins og ekkert hefði í skorist. Þau tæki byggðust á segulnálum með áföstum speglum, sem ýmist héngu í kvartsþráðum eða vógu salt á agatbrúnum, og skráningin var á ljósmyndapappír en ekki á tölvur. Ég sagði í gamni við Marie að þarna hefði afi hennar viljað sýna henni hvað gömlu tækin hans væru miklu betri en þetta nýmóðins dót.  Ekki ætla ég að reyna að meta líkurnar á því að Marie la Cour skyldi koma í heimsókn nákvæmlega þennan dag. En óneitanlega var það skemmtileg tilviljun.

Að endingu langar mig til að segja ykkur frá atviki sem ég las um í nýútkominni enskri bók. Þar segir frá ungum Englendingi, John Scott-Ellis. Foreldrar þessa pilts voru efnað fólk sem átti landeignir í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar. Þegar hann var 18 ára ákváðu foreldrarnir að senda hann til Þýskalands til að læra erlent tungumál. Honum var komið fyrir hjá kunningjafjölskyldu í München. Fjölskyldufaðirinn var sextugur maður að nafni Pappenheim. Þetta var á árunum milli heimstyrjaldanna, nánar tiltekið árið 1931. Scott-Ellis hafði ekki verið lengi í München þegar hann ákvað að kaupa sér bíl, rauðan Fíat. Hann fær Pappenheim til að koma með sér í ökuferð því að sjálfur er hann ókunnugur í borginni. Bíllinn lætur vel að stjórn og Scott-Ellis gefur í. Hann ekur eftir götu sem heitir Luitpoldstrasse, síðan Ludwigstrasse og beygir inn Briennerstrasse. Þá gerist óhappið. Maður á fertugsaldri stígur út á götuna, beint í veg fyrir bílinn. Scott- Ellis hemlar og nær að stöðva, en maðurinn hrasar þó og fellur á annað hnéð. Sem betur fer stendur hann upp og virðist ómeiddur. Scott-Ellis opnar gluggann, en kann ekki orð í þýsku svo að Pappenheim tekur að sér að tala við manninn. Sá burstar af sér rykið, segir nokkur orð við Pappenheim og tekur í hönd þeirra beggja í kveðjuskyni. Scott-Ellis ekur á brott, en Pappenheim segir: Ég geri ekki ráð fyrir að þú hafir þekkt þennan mann? Nei, það gerði ég ekki, segir Scott-Ellis. Þetta er stjórnmálamaður, segir Pappenheim. Hann fer fyrir eigin flokki og talar mikið. Hann heitir Adolf Hitler.

Mörgum árum síðar, þegar Scott Ellis rifjar upp þessa sögu, veltir hann því fyrir sér, hvað gerst hefði ef hann hefði ekki verið nógu snöggur að stíga á bremsuna. Hefði saga Evrópu og jafnvel alls heimsins orðið önnur en reyndin varð? Þetta er dæmi um það hvernig mikil örlög geta ráðist af lítilli tilviljun.


Þ.S. 27.5. 2018.

 Forsíða