Þorgerður Sigurgeirsdóttir - eftirmæli
Morgunblaðið 16. mars 2015
Ég kynntist Þorgerði Sigurgeirsdóttur árið 1963. Þá var ég nýkominn frá námi og hafði fengið starf á Eðlisfræðistofnun sem var forveri Raunvísindastofnunar Háskólans. Vann ég þar við rekstur segulmælingastöðvar og norðurljósarannsóknir. Fljótlega kom í ljós að ég myndi þurfa aðstoðarmann. Páll Theodórsson eðlisfræðingur sem starfaði við sömu stofnun mælti með Þorgerði og var hún ráðin til starfans. Skemmst er frá því að segja að Þorgerður reyndist frábærlega atorkusöm við allt sem henni var falið að gera, og það þótt hún væri heilsuveil. Meðal verkefna hennar var að framkalla segullínurit og lesa af þeim og framkalla kvikmyndafilmur af norðurljósum. Um þetta leyti var fyrsta tölva Háskólans tekin í notkun og lá beint við að nota tölvuna við úrvinnslu mælinga. Á þeim árum voru tölvur mataðar á gataspjöldum. Til þess þurfti sérstakar götunarvélar og tók Þorgerður að sér götunarvinnuna. Þegar Háskólinn tók við útgáfu eigin almanaks sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins hafði áður annast, fól ég sem ritstjóri Þorgerði að hafa umsjón með dreifingu almanaksins til bóksala og bókhald þar að lútandi. Var það talsvert starf. Vinna hennar við götun tölvuspjalda leiddi til þess að hún stofnaði eigið fyrirtæki sem tók að sér götunarvinnu fyrir ýmsa aðila. Þegar hafist var handa við undirskriftasöfnun Varins lands, fór ég þess á leit við Þorgerði að fyrirtæki hennar sæi um götun nafna og heimilisfanga á undirskriftalistunum svo að unnt væri að vinna úr gögnunum í tölvu. Þorgerður féllst á það þótt hún væri á öndverðum meiði í varnarmálunum. Hún sá ekkert athugavert við undirskriftasöfnunina þótt andstæðingarnir leituðust við að gera hana tortryggilega, og þá sérstaklega tölvuvinnsluna. Veit ég að Þorgerður varð fyrir aðkasti fyrir að veita þessa aðstoð. Aldrei láku neinar upplýsingar frá götunarstofu hennar um undirskriftirnar þótt sumar þeirra hefðu líklega þótt fréttnæmar. Árið 1974 gekk Þorgerður að eiga eftirlifandi mann sinn, Stefán Friðbjarnarson, og var eftir það í hlutastarfi á Raunvísindastofnun. Hjónaband þeirra Stefáns var afar farsælt. Ég og eiginkona mín nutum gestrisni þeirra hjóna og áttum með þeim góðar stundir bæði á þeirra heimili og okkar. Þorgerður var létt í lund þótt oft blési á móti vegna heilsubrests. Hún var afar vinsæl og ég varð þess var að ýmsir leituðu til hennar á stofnuninni með vandamál sín. Árið 1991 varð hún fyrir miklu áfalli þegar Hörður sonur hennar frá fyrra hjónabandi féll frá tæplega fertugur. Síðustu árin hrakaði heilsu hennar mjög. Þá naut hún ómetanlegs stuðnings frá eiginmanni sínum. Ég mat vináttu Þorgerðar
mikils og tel það lán að hafa kynnst henni. Guðný kona mín
hafði á orði þegar hún frétti lát Þorgerðar, að það væri
sjónarsviptir að slíkri konu. Er það vissulega sannmæli. Við hjónin
samhryggjumst einlæglega aðstandendum Þorgerðar sem nú eiga um sárt
að binda.
|
|