Um stillingu klukkunnarEftir Þorstein Sæmundsson
Að undanförnu hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að seinka klukkunni. Því miður hefur þessi umræða verið nokkuð einhliða, og er hætt við því að margir hafi tekið afstöðu í málinu án þess að hafa kynnt sér það til hlítar. Núgildandi lög um tímareikning voru sett árið 1968 eftir skoðanakönnun meðal félagssamtaka, stofnana (þar á meðal skóla) og fyrirtækja. Á þeim tíma höfðu landsmenn reynslu af hvoru tveggja, flýttri klukku á sumrin og seinni klukku að vetri. Það var almenn krafa að hætta bæri hringlinu með klukkuna, eins og það var kallað, og taka upp fastan tíma allt árið. Könnunin leiddi í ljós að flestir vildu hafa flýtta klukku (svonefndan „sumartíma“) allt árið fremur en vetrarklukkuna. Rökin fyrir breytingunni voru fjórþætt: 1. Flýtt klukka („sumartími“) gilti þegar meira en helming ársins. 2. Flýtt klukka samsvaraði miðtíma Greenwich sem hafður er að viðmiði í margvíslegum alþjóðlegum viðskiptum, s.s. flugstjórn og veðurathugunum. 3. Breytingin færði Ísland nær símatíma í Evrópulöndum. 4. Dagsbirtan nýttist betur þar sem myrkurstundum á vökutíma fækkaði. Eftir setningu laganna 1968 ríkti friður um stöðuna í aldarfjórðung. Það var ekki fyrr en ný kynslóð var komin til sögunnar og farið var að fyrnast yfir fyrri reynslu, að upp komu raddir sem kröfðust breytinga. Árið 1994 var flutt þingsályktunartillaga um nýjan „sumartíma“, þ.e. að flýta klukkunni enn meir yfir sumarið. Frumvarp sama efnis var lagt fram 1995 og aftur árin 2000 og 2006. Árið 2010 var hins vegar lögð fram þingsályktunartillaga um að seinka klukkunni um eina klst. Þessi tillaga var endurflutt 2013 og aftur 2014. Öllum þessum tillögum hafnaði Alþingi eftir athugun. Það að tillögurnar skyldu ganga í gagnstæðar áttir sýnir glöggt að engin lagasetning getur sætt öll sjónarmið. Það fyrirkomulag sem nú gildir á Íslandi er ekkert einsdæmi. Fjöldi fólks í heiminum býr við klukku sem hefur verið flýtt miðað við tímabeltin frá 1883, sem miðast við sóltíma. Þetta sést glöggt á tímakorti eins og því sem birt er í Almanaki Háskólans. Áberandi er hve mörg svæði eru vinstra megin við þau belti sem merkt eru á jaðra kortsins efst og neðst. Þetta á til dæmis við um Frakkland, Spán, Alaska og víðáttumikil svæði í fyrrum Sovétríkjum. Að sumri til er svo klukkunni flýtt um klukkustund til viðbótar í mörgum löndum svo sem í Evrópusambandinu, Bretlandi, í Bandaríkjunum víðast hvar, og í Kanada. Þá eru Argentína og sum héruð í Kanada með flýtta klukku allt árið. Í Kína fylgja allar klukkur Pekingtíma. Af því leiðir að í vestasta hlutanum er klukkunni flýtt um þrjár stundir frá beltatíma. Nýlega bárust fréttir um að ríkisstjórn Bretlands hefði ákveðið að hverfa frá miðtíma Greenwich og taka upp flýtta klukku allt árið, óháð niðurstöðunni um Brexit. Þar vegur þungt sú reynsla Breta, að umferðarslys aukist verulega í hvert sinn sem klukkunni er seinkað að vetri. Þá hefur Evrópusambandið einnig ákveðið að hætta hringlinu með klukkuna, en ekki liggur fyrir hvert framhaldið verður þar. Norðausturfylki Bandaríkjanna hafa nýlega tekið þá stefnu að taka upp flýtta klukku allt árið, og eru þá meira en tuttugu fylki á þeirri braut. Endanleg ákvörðun liggur hjá þinginu í Washington. Seinkun klukkunnar hefði þau áhrif að bjartara yrði á morgnana þegar börn fara í skóla og fólk til vinnu. Þetta er tvímælalaust sterkasta röksemd þeirra sem vilja fara þessa leið. Á hinn bóginn eru bjartari morgnar keyptir því verði að fyrr dimmir síðdegis þegar umferð er meiri og börn á leið úr skóla. Menn getur greint á um það hvort þeir kjósi fremur bjartari morgna eða bjartara síðdegi. En umferðarþunginn bendir til þess að menn nýti almennt síðdegið fremur en morgnana til að sinna erindum sínum. Það virðist gilda að sumri til ekki síður en vetri og stjórnast því ekki af birtunni einni saman. Óumdeilt er, að flestir kjósa flýtta klukku á sumrin, því að lengri tími gefst þá til útivistar. Af þeim sökum myndi það sennilega vekja neikvæð viðbrögð margra ef klukkunni yrði seinkað um klukkustund. Þeir sem mæla með seinkun klukkunnar leggja áhersla á að það myndi hafa jákvæð heilsufarsleg áhrif, sérstaklega á ungmenni. Líkamsklukkan fari mjög eftir gangi sólar og það valdi togstreitu þegar staðarklukkan gangi ekki í takt við birtutímann. Megi jafnvel rekja skammdegisþunglyndi til þessa. Þarna er horft fram hjá þeirri staðreynd, sem menn hafa lengi þekkt, að raflýsing hefur áhrif á líkamsklukkuna og raskar hinni náttúrulegu sveiflu. Áhrifin eru mest af bláu ljósi. Gamaldags perur gefa frá sér nægilega mikið af bláum geislum til að rugla líkamsklukkuna, en nýrri perur, tölvuskjáir og nýjustu farsímar eru mun áhrifameiri. Í þjóðfélagi nútímans ræður sólarljósið því ekki stillingu líkamsklukkunnar nema að takmörkuðu leyti. Því ætti ekki að vekja mönnum falsvonir um að líðan þeirra muni batna til muna við það að seinka klukkunni. Rétt er að benda á, að svefnhöfgi unglinga að morgni til er þekkt vandamál í öðrum löndum, einnig þeim sem ekki búa við flýtta klukku. Það sýnir að stilling klukkunnar er ekki rót vandans. Sögu þessa máls, tillögur og greinargerðir, geta menn lesið á vef Almanaks Háskólans: http://www.almanak.hi.is/timreikn.html. Ég vil eindregið hvetja fólk til að kynna sér alla málavexti áður en það tekur endanlega afstöðu til þess hvort rétt sé að breyta stillingu klukkunnar.![]() Þ.S. 21. júní 2019 |