Sorgarsaga litla mannsins |
Fundum okkar bar saman á A.B.C.- veitingahúsi nálægt Marmaraboganum.
Hann sat þar við borð úti í horni og var fjarska raunamæddur á svip.
Þetta var lítill maður vexti með stórt yfirvararskegg og fremur illa til
fara. Hann minnti einna helst á týndan sauð.
Ég settist við borðið andspænis honum, rétt í þann mund er
þjónustustúlkan kom til að taka diskinn sem hann hafði lokið við að
borða af.
"Var það nokkuð fleira?" spurði hún.
"Ég --- ég held að ég fái mér steikt egg".
"Eitt steikt egg", sagði þjónustustúlkan og sneri sér að mér. Þegar
hún hafði tekið mína pöntun og svifið á brott, leit litli maðurinn á mig
og spurði kurteislega:
"Afsakið, en gætuð þér sagt mér hvort þessi klukka þarna er rétt?"
Ég leit á úrið mtt. "Jú, hún er það."
"Þetta var ég hræddur um," sagði litli maðurinn. "Þakka yður fyrir."
Það var eins og hann ætlaði að segja eitthvað meira. en þá kom
þjónustustúlkan aftur og setti disk með eggi á borðið fyrir framan hann.
"Þetta er hræðilegt," sagði hann.
"Hvað er hræðilegt?" spurði ég.
Litli maðurinn ýtti egginu frá sér og hallaði sér fram.
"Þér lítið út fyrir að vera besti maður;" sagði hann. "Ég held að ég
biðji yður um að liðsinna mér. --- Þannig er mál með vexti, að ég er að
bíða eftir konunni minni."
"Nú, já," sagði ég, "og hún er auðvitað of sein. Hvers vegna ekki að
bíða dálítið lengur? Þér vitið hvernig kvenfólk er."
"Já, en ég er búinn að bíða í næstum því fjóra tíma."
"Fjóra tíma?" endurtók ég.
"Já, í fjóra tíma. Við mæltum okkur mót hér klukkan hálf tvö, og ég
hef beðið hér allan tímann síðan."
Mér varð orðfall. Sjálfur er ég kvæntur, en ég hafði aldrei heyrt
getið um nokkurn mann, sem myndi bíða í fjórar klukkustundir eftir
konunni sinni.
Litli maðurinn hlýtur að hafa séð aumkunarsvipinn í augum mér, því að
hann flýtti sér að bæta við:
"Það er nú ekki vanalegt, að ég þurfi að bíða svona lengi. Ég hef
aldrei beðið lengur en í hálftíma eftir henni, en í þetta skipti, sjáið
þér til, beið ég fyrst í hálftíma, en pantaði svo hádegisverðinn minn.
--- Þegar ég hafði lokið snæðingi og konan mín var enn ókomin, hugsaði
ég sem svo, að best væri fyrir mig að halda heimleiðis. En þá uppgötvaði
ég, að ég komst ekki heim, því að konan mín hafði gleymt að láta mig fá
... ég hafði gleymt að taka með mér peninga, á ég við. Þar af leiðandi
gat ég ekki borgað reikninginn."
"Hvílík vandræði," sagði ég, "en ..."
"Svo að ég hugsaði með mér, að það væri best að fá sér meira að
borða. Þjónustustúlkurnar kæra sig ekki um að fólk sitji hér án þess að
panta neitt. Svo að ég bað um pylsur og kartöflur. Ég fór mér hægt við
að borða, en samt var klukkan ekki nema þrjú þegar ég var búinn. Þá
pantaði ég eitthvað í viðbót --- og í stuttu máli sagt hef ég verið að
borða allan tímann. Ég er búinn að fá soðin egg, steikt egg, kaffi,
tómatsúpu og ost, bjór og gosdrykki, samlokur og tvo eða þrjá bolla af
tei. En nú er svo komið, eins og þér skiljið, að ég á mjög erfitt með að
komast undan. Brátt verður veitingahúsinu lokað, og þegar upp kemst, að
ég get ekki borgað, verður sent eftir lögreglunni. "Hann fól andlitið í
höndum sér. "Þetta skal vera í síðasta sinn sem ég mæli mér mót við
konuna mína á Lyons-veitingahúsi."
"Lyons?" sagði ég. "Þetta er ekki Lyons. Þetta er A.B.C."
Litli maðurinn spratt á fætur.
"Hvað segið þér? A.B.C.?" hrópaði hann. "Ó, ég hef beðið á röngu
veitingahúsi. Hvað á ég nú að gera?"
Hann virtist gráti næst.
"Reynið að jafna yður," sagði ég. "Ég skal borga reikninginn yðar."
Gleðisvipur kom á andlit litla mannsins. Hann greip í hönd mína og
þrýsti hana.
"Ó, þakka yður fyrir. En hve þér
eruð góður. Þér verðið að láta mig fá heimilisfangið yðar. --- Fröken!"
kallaði hann. "Reikninginn minn, reikninginn minn."
Þjónustustúlkan kom að borðinu og rétti honum reikninginn.
"Átta skildingar og níu pence," sagði hann.
"Verra gat það verið," sagði ég.
Áður en fimm mínútur voru liðnar, hafði hann borgað reikninginn,
stungið nafnspjaldi mínu í vasann og var þotinn á braut.
____________________________________
Hálfum mánuði síðar kom ég
inn á Lyons-veitingahús í grennd við Marmarabogann. Um leið og ég fékk
mér sæti, tók ég eftir góðlegum manni, sem sat við næsta borð. Andspænis
honum sat lágvaxinn maður og sneri að mér baki.
Allt í einu heyrði ég þann lágvaxna segja: "Þér lítið út fyrir að
vera besti maður. Ég held að ég biðji yður um að liðsinna mér. Þannig er
mál með vexti, að ég er að bíða eftir konunni minni ... "
Þ.S. 11. júlí 2022. Birt í Almanaki Þjóðvinafélagsins 1972. |