Nokkur orð um sólstöðurnar

    Hinn 21. júní s.l. birtist í Morgunblaðinu stutt frétt um sólstöðurnar. Það mætti æra óstöðugan að gera athugasemdir við allar villur og ónákvæmni í dagblöðum, en umræddur pistill var svo skrautlegur að ég get ekki orða bundist. Mér telst svo til að í þeim tuttugu línum sem pistillinn spannar, séu sex dæmi um ónákvæmni eða villur. Sumt af þessu eru smámunir, en margt smátt gerir eitt stórt eins og sagt er.

    1. Fyrirsögnin: "Hæst á lofti kl. 11.28". Þetta var að vísu sólstöðutíminn, en það merkir ekki að sól hafi verið hæst á lofti á þeirri stundu. Hvergi á Íslandi er hádegi á þessum tíma.

    2. "Sumarsólstöður eru þegar sól er hæst á lofti á norðurhveli jarðar". Þetta er villandi orðalag því að hið sama gildir um norðurhvel og suðurhvel, að sól er hæst á lofti á sumarsólstöðum.

    3. "Á sólstöðum stefnir ofanvarp snúningsáss jarðar á braut jarðar beint á miðju sólar." Þetta er svo frumleg lýsing á sólstöðunum að ég efast um að hinn almenni lesandi átti sig á henni. Þessi lýsing myndi gilda jafnt um vetrarsólstöður sem sumarsólstöður. Gallinn er sá að hún er ekki fullkomlega rétt því að miðja sólar liggur sjaldnast nákvæmlega í fleti jarðbrautarinnar. Frávikið er misjafnlega mikið, en í þetta sinn skakkaði rúmlega 300 km að umrætt ofanvarp lægi um miðju sólarinnar á sólstöðum. Miðað við stærð sólarinnar er þetta er auðvitað sáralítill munur, en munur er það samt.

    4. "Í Reykjavík sest sólin kl. fimm mínútur yfir miðnætti og rís aftur þegar klukkuna vantar sex mínútur í fjögur". Í fyrri tímasetningunni er mínútuvilla sem litlu skiptir, en í seinni tölunni skakkar klukkustund: sólin kom upp kl. 02:54, þ.e. þegar klukkuna vantaði sex mínútur í þrjú.

   5.-6. "Þegar tekið er tillit til ljósbrots og þess að sólarupprás og sólarlag eru miðuð við síðustu geisla sólar, þá sest sólin ekki um sumarsólstöður við nær alla norðurströnd Íslands, eða á stöðum norðan við 65° 50´ N." Ummælin um síðustu geisla sólar eiga augljóslega við sólarlagið, en ekki sólarupprásina. Svo er breiddin ekki rétt reiknuð. Með þeirri nákvæmni sem þarna er viðhöfð (10´) væri nær að segja 65° 40´ N. Mörkin miðast við að athugandinn sé við sjávarmál, en úr meiri hæð sést miðnætursól sunnar en þetta, þ.e. á lægri breiddargráðu. Í gömlu almanaki (Almanaki Háskólans 1970) segir svo: "Á sumarsólstöðum sést miðnætursól frá stöðum sem eru norðar en 65° 43’. Á þeim stöðum landsins þar sem opið haf er til norðurs þarf hvergi að fara hærra en 350 metra yfir sjávarmál til að sjá miðnætursól á sumarsólstöðum." Þarna er miðað við að ljósbrot í andrúmsloftinu sé 35 bogamínútur, sem er það meðalgildi sem oftast er notað. Í reynd er ljósbrotið breytilegt, en það réttlætir ekki að landfræðileg mörk miðnætursólar séu sett eins norðarlega og gert var í fréttinni.

    Í framhaldi af þessu er rétt að fara nokkrum orðum um það hvernig sólstöður eru ákvarðaðar. Orðið sjálft gefur til kynna hvað við er átt: á sólstöðum stendur sólin kyrr í þeim skilningi að hún hættir að hækka (eða lækka) á lofti og fer að lækka (eða hækka) aftur. Þegar sólstöðutíminn er tilgreindur með nákvæmni er venjulega sagt að þetta sé sú stund þegar sól er lengst til norðurs eða suðurs á himinhvelfingunni, þ.e. lengst frá miðbaug himins. Þetta mætti kalla "réttnefndan" sólstöðutíma. Af hagkvæmnisástæðum nota stjörnufræðingar aðra skilgreiningu og miða við sýndarstöðu sólar í stjörnulengd sem reiknast frá svonefndum vorpunkti himins. Þegar stjörnulengd sólar er 0° eða 180° teljast vera jafndægur, en þegar hún er 90° eða 270° teljast vera sólstöður. Samkvæmt þessari skilgreiningu voru sólstöðurnar 21. júní s.l. kl. 11:28. Þá var stjörnulengd sólar 90°. Munurinn á "réttnefndum" sólstöðutíma og þeim tíma sem stjörnufræðileg almanök sýna getur numið nokkrum mínútum. Að þessu sinni var munurinn um það bil ein mínúta.

                                                                                   Þorsteinn Sæmundsson
 


Frétt Morgunblaðsins 21. júní 2010 sem varð tilefni greinarinnar hér að ofan: