Skáldað um ævi Þorsteins Erlingssonar
Nýlega kom út bókin "Þegar Gestur fór" eftir Helga Ingólfsson menntaskólakennara. Á titilsíðu segir að bókin sé skáldsaga, en höfundurinn gerir ýmsa þjóðþekkta menn að persónum í frásögn sinni. Ég vissi ekki af þessari bók fyrr en kunningi minn, Brynjólfur Magnússon, sagði mér af henni og hvatti mig til að lesa hana, því að þar væri fjallað um afa minn, Þorstein Erlingsson, á mjög svo neikvæðan hátt. Þegar Brynjólfur hafði vakið máls á þessu nokkrum sinnum lét ég verða af því að kanna málið. Ég skal játa að mér brá í brún við lesturinn, því að í bókinni er dregin upp ófögur mynd af afa mínum. Mér var ljóst að ýmsir kynnu að líta á þetta sem sanna frásögn þótt bókin ætti að heita skáldsaga.
Einkum voru það þrjú atriði sem urðu mér ásteytingsefni. Hið fyrsta sem ég rak augun í var sú frásögn höfundar að Þorsteinn Erlingsson hefði talað með rangæskum framburði. Hann nefnir dæmi um þennan framburð sem varla getur talist fallegur og segir: "...hann bar fram "hvernig" sem hvegdnig. "Horn" varð hogdn, "gjarna" varð gjagdna og "einhvern" einhvegdn."
Það vill svo til að við höfum heimild um framburð Þorsteins. Í ævisögu dr. Jóns Stefánssonar, sem var samtíma Þorsteini í Kaupmannahöfn, segir að sá mikli málamaður, William Craigie, hafi hænst mjög að Þorsteini Erlingssyni, sem hann sagði að bæri íslensku fram með meiri ágætum en nokkur annar maður sem hann hefði kynnst. Aðspurður hefur Helgi Ingólfsson viðurkennt að frásögnin af framburði Þorsteins sé skáldskapur einn.
Annað atriðið eru ástamál Þorsteins. Í bók sinni lætur Helgi fjóra Íslendinga heimsækja Þorstein í Kaupmannahöfn. Fremstur í flokki er Valtýr Guðmundsson, aldavinur Þorsteins. Valtýr er látinn segja: "Er til verri rekaviður í hafsjó freistinganna en hann Steini? ... Heitbundinn einni, býr með annarri og skiptist á ástarbréfum við þá þriðju."
Þarna gengur höfundur lengra en efni standa til. Þótt ýmsir hafi gagnrýnt Þorstein vegna ástamála hans á yngri árum er fráleitt að Valtýr hefði notað slíkt orðalag. Nægir þar að vísa til eftirmæla hans um Þorstein í Eimreiðinni 1915, þar sem vikið er að þessum þætti í lífi Þorsteins. Að auki er sagan um ástarbréfin ýkjur einar. Þar er átt við bréfaskipti Þorsteins og Ólafar frá Hlöðum sem urðu tilefni tveggja bóka sem út komu árið 2000. Svo vill til að afrit af fyrstu bréfum Þorsteins til Ólafar eru í mínum fórum, óbirt. Óhætt er að fullyrða eftir lestur þeirra bréfa, svo og hinna sem gefin hafa verið út, að ekki var um ástarsamband að ræða heldur náið trúnaðarsamband. Um það hafa fleiri fjallað og komist að sömu niðurstöðu.
Í þriðja lagi er einn af fjórmenningunum sem heimsóttu Þorstein samkvæmt sögunni, Bogi Th. Melsted, látinn halda því fram að Þorsteinn hafi þegið fúlgur fjár - heilt jarðarverð - frá unnustu sinni, Jarþrúði Jónsdóttur, meðan hann var í Kaupmannahöfn, en hann hafi á sama tíma þóst vera févana og þegið ölmusur af samstúdentum sínum. Þetta er alvarleg aðdróttun og því nauðsynlegt að líta á hana nánar. Heimild Helga Ingólfssonar fyrir þessu er bókin "Vaskir menn" eftir Þorstein Thorarensen sem út kom árið 1971. Þorsteinn hafði áður ritað ævisögu Þ.E. í bókinni "Eldur í æðum" og er kaflinn í Vöskum mönnum eins konar viðbót við þá frásögn. Vitnað er í bréf frá Boga Melsted til Þorleifs Jónssonar, ritstjóra Þjóðólfs, og sagt að Þorsteinn hafi orðið ber að "dæmalausum ódrengskap og falsræði" eins og það er orðað. Í bréfnu segir Bogi: "Við héldum allir, að hann hefði enga peninga, nema það sem hann ynni sér inn, vorum því að styðja að því, að hann fengi smá atvinnu, ef eitthvað kom fyrir og hegðuðum oss við hann, eins og peningalausan mann, en nú vitum við, að hann hefur haft miklu meiri peninga en flestir stúdentar."
Ugglaust hefur Bogi trúað því sem í bréfinu stendur, en hver var heimild hans, og var hún traust? Það verður mjög að draga í efa. Vísbending um það er í bréfinu sjálfu, því að Bogi segir: "hann (Þ.E.) hefur verið svo félaus, að hann aldrei eða manna minnst hefur getað tekið þátt í almennum samskotum, átt erfitt með að borga 25 aura mánaðartillög, gengið einna verst til fara af öllum stúdentum, sem hafa verið lausir við drykkjuskap.." Lesandinn hlýtur að spyrja hvað Þorsteinn hafi gert við þessar "fúlgur fjár" sem hann á að hafa fengið frá Jarþrúði úr því að hann var á þessum tíma reglusamur, en að svo hafi verið má einnig lesa í bréfum hans til Ólafar frá Hlöðum þar sem hann segist vera bindindismaður. Í þeim bréfum er líka frásögn af brottför hans frá Reykjavík í nóvember 1883 þegar hann var að fara til náms í Kaupmannahöfn. Minnstu munaði að Þorsteinn missti af skipinu því að hann var að reyna að verða sér út um farareyri og fékk loksins 200 krónur frá þingmanni Rangæinga, Þorvaldi í Núpakoti, gegn veði í líftryggingarskírteini. Ekki virðist hann þá hafa notið aðstoðar frá Jarþrúði unnustu sinni eða föður hennar, Jóni Péturssyni háyfirdómara, og enginn kom á bryggjuna til að kveðja hann við brottför.
Í ævisögu Þorsteins Erlingssonar eftir Bjarna Benediksson frá Hofteigi segir, að í bréfi til Sigurðar (Vigfússonar) fornfræðings, rituðu 15. apríl 1885, kveðjist Þ.E láta bréfið innan í Steingríms bréf "því ég er satt að segja svoleiðis staddur að mér kemur betur að senda fleiri en eitt saman". Ekki bendir þetta til mikils ríkidæmis. Í sömu bók er vitnað í dánarminningu sem Sigurður Guðmundsson ritaði um Þorstein Erlingsson. Þar er það haft eftir Þorsteini að hann hafi löngum ekki haft efni á að kaupa sér volgan mat en lifað á rúgbrauði með svínafeiti og púðursykri og drukkið mjólk með. Valtýr Guðmundsson, sem manna best þekkti Þorstein á Hafnarárunum, kemst svo að orði í fyrrnefndum eftirmælum í Eimreiðinni: "Þ.E. átti lengstum við þröngan kost að búa, enda víst enginn hagsýnismaður í fjármálum, fremur en flest önnur skáld. Þó mun hann aldrei hafa liðið reglulegt hungur, ekki einu sinni á Hafnarárunum, en jafnan haft uppeldi af skornum skammti." Þorsteinn var berklaveikur og kenndi það sultinum að hann fór "í blóðspýjuna og á spítalann" í Kaupmannahöfn segir Bjarni frá Hofteigi í sinni bók.
Ekki má gleyma þeirri áherslu sem Þorsteinn
lagði á sannleikann í kveðskap sínum. Um það segir Valtýr Guðmundsson: "Þ.E.
elskaði sannleikann og trúði á nýja gullöld hans og sigur." Er líklegt að Valtýr
hefði komist svo að orði ef Þorsteinn hefði orðið ber að stórfelldum ósannindum í
félagsskap þeirra í Höfn? Allt ber að sama brunni; frásögn Boga Melsteð, sem
skilar sér með vöxtum í bók Helga Ingólfssonar, fær engan veginn staðist.
Þorsteinn Sæmundsson
4.4. 2016 |