Sól, sjón og sjónaukar
eftir Þorstein Sæmundsson
Erindi flutt fyrir nemendur í Háskóla Íslands 7. mars
1991
Það gleymist oft, að einn áhugaverðasti himinhnötturinn er sólin. Á hana getum
við horft þótt borgarljósin trufli stjörnuskoðun, og á íslensku sumri er hún
nánast það eina sem stjörnuskoðunarmenn geta fylgst með. Þegar grannt er skoðað er
sólin
merkileg ásýndum. Flestir líta á hana sem bjarta kringlu, sem þeir fá ofbirtu af
að horfa á, og leiða svo ekki frekar hugann að því máli. En stundum geta menn
horft beint í sólina, sérstaklega þegar mistur er og hún er að koma upp eða
setjast. Þá er hún gjarnan rauðleit, og fyrir kemur að blettir sjást á
yfirborðinu, jafnvel með berum augum. Í síðasta Heklugosi, 1980, var öskumistur
svo mikið á Suðvesturlandi, að við lá að sólin hyrfi í sortann þótt hún væri
enn hátt á himni. Stundum getur þoka verið mátulega dimm til að
hægt sé að horfa á sólina í gegnum hana og jafnvel nota til þess stjörnukíki.
Þegar sólin er skoðuð á þann hátt, rennur upp fyrir manni að þetta er ekki bara
sviplaus skífa; þar eru bæði dekkri og ljósari svæði, og maður áttar sig á að
þetta er hnöttur, reyndar risastór glóandi hnöttur, hundraðfalt stærri en jörðin að
þvermáli og milljónfalt stærri að rúmmáli.

Þessi mynd er tekin þegar sól er að setjast í miklu mistri. Þarna
sést afar stór sólblettur sem sjást myndi með berum augum. Vegna
ljósbrots í andrúmsloftinu sýnist sólin ekki alveg kringótt þegar
hún er niður við sjóndeildarhring heldur aðeins stærri á þverveginn.

Svona myndi sólin líta út að degi til, séð gegnum þokuský eða
ljóssíu. Þarna sést annar blettahópur. Ef þessi mynd væri
tekin í hádeginu, og við skoðuðum svo sólina aftur á öðrum tíma dags,
gæti okkur sýnst að blettirnir hefðu hreyfst töluvert yfir
daginn. Það er þó sjónhverfing sem stafar af því að norðurpunktur
sólskífunnar, sem snýr beint upp í hádeginu, snýr meira til vinstri að
morgni og til hægri að kvöldi. Eftirfarandi myndir skýra þetta.
Það sem snýr upp á sólskífunni á hádegi er ekki alltaf norðurskaut
sólar. Myndin hér að neðan sýnir hvernig sólin horfir við jörðu á
mismunandi árstímum.

Þarna merkir NP norðurpól sólar, en N og S eru stefnurnar til
norðurs og suðurs á himninum. (Á hádegi eru þær stefnur upp og
niður.) Við sjáum enn fremur að fyrri hluta árs hallar sólin
suðurpól að okkur, en síðan hallar hún
norðurpól að okkur. Í júní og desember erum við (þ.e.
jörðin) beint yfir miðbaug sólar.
Séð frá jörðu snýst sólin um ás sinn á 27 dögum eða þar um bil. Hún
snýst reyndar heldur hraðar við miðbaug og hægar við pólana. Ef við
fylgjumst með sólblettum frá degi til dags getum við séð sólina
snúast. Meðfylgjandi mynd hefur hugmynd um það hvernig blettur myndi
færast yfir sólina á hálfum mánuði:
Sólblettir sýnast dökkir vegna þess að þeir eru kaldari en
yfirborðið umhverfis þá. Þeir myndast þar sem sterkt segulsvið kemur
upp úr yfirborðinu (ljóshvolfinu), hindrar varmastreymi og veldur
kólnun. Umhverfis blettina verða oft mikil umbrot sem geta haft áhrif á
jörðinni. Hér verður ekki farið nánar út í að lýsa þróun sólbletta,
en sýnd að lokum mynd sem tekin var úr sovéskum loftbelg árið
1970 og þótti þá sérlega athyglisverð. Myndin sýnir
stóran sólblett og svonefndar ýrur sem einkenna yfirborð sólar.
Þessar ýrur eru gjarna um 1000 km í þvermál.
Á myndinni sést kvarðinn sem nær yfir 16 bogasekúndur. Það samsvarar
nokkurn veginn þvermáli jarðar í þessari fjarlægð. Sólblettur af
þeirri stærð myndi alls ekki sjást með berum augum, en stóri bletturinn
á myndinni væri á mörkum þess að sjást.
Hinn 20. maí 1966 varð deildarmyrkvi á sólu í Reykjavík. Þetta var að morgni til
og veður bjart. Á þessum tíma vann ég á Eðlisfræðistofnun Háskólans, sem var
fyrirrennari þeirrar stofnunar sem nú heitir Raunvísindastofnun. Mér til
aðstoðar var kona að nafni Þorgerður. Ég hafði sagt Þorgerði frá myrkvanum, og
lýst honum í Almanaki Háskólans. Þennan morgun, áður en Þorgerður fór til vinnu, ákvað hún að reyna að sjá myrkvann,
sem samkvæmt almanakinu átti að vera í hámarki um klukkan hálf níu. Þorgerður
var ekki með sjónauka, en reyndi samt að horfa í sólina og vonaðist til að sjá
myrkvann. En hvernig sem hún reyndi, sá hún engin merki um myrkva. Þess var
heldur ekki von, því að klukkan hálf níu var enginn myrkvi. Var þá villa í
almanakinu? Alls ekki. Á þessum tíma var það viðtekin regla að flýta
klukkunni á sumrin og seinka henni á veturna. Almanakið sýndi alltaf fastan
tíma, svonefndan íslenskan miðtíma. Á sumrin var klukkan einni klukkustund á
undan þessum tíma. Þorgerður var því klukkutíma of snemma að skyggnast eftir
myrkvanum.
Þetta atvik gæti virst lítilfjörlegt, en það dró þó dilk á eftir sér. Þorgerður
horfði nefnilega svo stíft í sólina að geislarnir brenndu gat á augnbotninn, og
hún hefur ætíð síðan haft skerta sjón. Þar sem sjónin ætti að vera skörpust, er
nú eyða í sjónsviðinu. Síðan þetta gerðist hef ég ávallt sett viðvörun í
almanakið þegar sagt er frá myrkvum.
Ef það er hættulegt að horfa á sólina með
berum augum, er augljóslega enn hættulegra að horfa á hana gegnum sjónauka. Hvaða vörn myndi
þá vera nægileg fyrir augað? Lítum aðeins á það mál.
Allir vita að sjónauki safnar ljósi,
og að með stærri sjónauka sjást daufari stjörnur. Því stærri sem viðtökugler
eða spegill sjónaukans er, þeim mun meira ljósi safnar hann og því daufari
stjörnur er unnt að sjá. Ljósop mannsaugans er allt að 8 mm í þvermál þegar það
er opið upp á gátt en 2 mm þegar það dregst saman sem mest. Minnsti sjónauki
sem hægt er að kalla stjörnusjónauka hefur gler eða spegil sem er 8 cm í
þvermál, þ.e. 10 sinnum meira en ljósop augans. Inn um það op fer þá 10*10 = 100
sinnum meira ljósflæði en augað sjálft nemur án sjónaukans. Hundraðföldun samsvarar 5
birtustigum, og ef mannsaugað getur greint stjörnu á 6. birtustigi, ætti með 8
cm sjónauka að vera unnt að
greina stjörnu á 6 + 5 = 11. birtustigi, sem er ekki mjög
fjarri lagi. Almennt má setja þetta fram með einfaldri formúlu: m = 8 + 5*log D
þar sem m er birtustigið og D þvermál sjónaukans (þ.e. linsunnar eða spegilsins) í sentimetrum.
Þetta er ekki nákvæm formúla; ýmsar
aðrar og flóknari hafa verið settar fram, en þessi gefur þokkalegar
niðurstöður. Hún gildir um stjörnurnar, því að þær eru svo langt í burtu að
þær eru nánast punktar til að sjá, hvort sem horft er beint eða með sjónauka. En
ef við beinum sjónaukanum að einhverju sem tekur yfir nokkurt svæði á himninum,
t.d. geimþoku eða sólinni, verður annað upp á teningnum. Í þessu tilviki sýnist
yfirborðið sem horft er á ekki vitund bjartara gegnum sjónauka en það gerir með
berum augum, og getur meira að segja sýnst daufara þegar svo ber undir. Þetta
kann einhverjum að finnast undarlegt, sem hefur beint sjónauka að sólinni og
borið blað að augnglerinu; birtan sem fellur á blaðið er geysimikil og þeim mun
meiri sem sjónaukinn er öflugri. Með stjörnusjónauka er auðvelt að kveikja í
blaði á þennan hátt, og þess eru dæmi að stjörnufræðingar hafi notað
sjónauka og sólargeislana til að hita sér kaffi.
Hvernig getur það þá verið
rétt, að sólin sýnist ekki bjartari í sjónauka en án hans? Skýringin er sú, að
birtan eins og augað greinir hana fer í senn eftir ljósflæðinu á flatareiningu
og rúmhornseiningu. Sólin sýnist að vísu stærri þegar horft er í sjónaukann, en
yfirborð hennar sýnist ekki bjartara en áður. Hið sama myndi gilda ef við
kæmumst nær sólinni svo að hún sýndist jafnstór og myndin í sjónaukanum. Sólin
myndi þá ná yfir stærri flöt af himinhvelfingunni, en hver flatareining yrði
samt sem áður jafnbjört og áður. Sama er að segja ef horft er á heiðan himin
í sjónauka, hann sýnist ekki vitund bjartari en þegar horft er með berum augum.
Þetta skýrir hvers vegna auðveldara er að sjá stjörnur að degi til ef sjónauki
er notaður: Stjörnurnar sýnast bjartari, en birta himinsins eykst ekki að sama
skapi.
Ef horft er í sólina með berum augum án nokkurrar hlífar, verður mynd hennar á
nethimnu augans svo björt að hitinn getur valdið brunaskemmd á nethimnunni á
skömmum tíma. Ef sjónauki er notaður, verður mynd sólar á nethimnunni stærri og
brunaskemmdin stærri þess vegna, en myndin er í sjálfu sér ekki bjartari ef jafn
stórir fletir eru bornir saman.
Hitt er svo annað mál, að það er ekki nethimnan ein sem er í hættu. Þegar horft
er í sjónauka er augað venjulega haft sem næst þeim stað þar sem geislaknippi
sjónaukans er þrengst, við svonefndan ljósháls. Þegar ljósgeislarnir koma út úr
sjónaukanum mynda þeir keilu sem þrengist fyrst, en víkkar svo aftur (sjá mynd).
 |
Myndin sýnir geislagang í sjónauka. Rauðu línurnar
tákna ljós frá fjarlægum hlut. Mynd af þessum hlut
verður til í brennifleti viðfangs-glersins
(myndfletinum). Athugandinn skoðar svo þessa mynd með
augnglerinu. Bláu og grænu línurnar sýna ystu mörk þess
ljóss sem kemst gegnum sjónaukann. Þar sem geislaknippið
er þrengst, í ljóshálsinum, á auga athugandans að vera. |
Hversu mjótt geislaknippið verður í ljóshálsinum fer eftir
þvermáli sjónaukans (linsu eða spegils) og stækkuninni sem notuð
er. Formúlan er einfaldlega þessi: Þvermál ljóshálsins er jafnt D/s
þar sem D er þvermál sjónaukans og s stækkunin sem hann gefur með viðkomandi
augngleri. Ljósflæðið á hverja flatareiningu verður því í hlutfalli við D2/d2
= s2. Ef stækkunin er t.d. 100 föld verður ljósflæðið á flatareiningu 10000
föld. Það er því engin furða þótt eitthvað hitni aftan við kíkinn. Ef augað er
þar,
hleypir ytri hluti þess að vísu mestu af ljósinu í gegn, en dálítið stöðvast
þó og getur því hitað augað. Hornhimna augans og augasteinninn geta því verið í
verulegri hættu á slíkum stað.
Hvað nethimnuna snertir, þolir hún ekki að hitna meira en í 60° án þess að
varanlegar skemmdir komi fram. Þessi hitun verður ef orkan sem á nethimnuna
fellur er meiri en 30 kW á fermetrann í nokkra stund. Til samanburðar gefur
venjulegt sólarljós 1,2 kW á fermetrann hornrétt á sól. Ef brennivídd
augasteinsins er 2 cm verður mynd sólar á nethimnunni 0,2 mm í þvermál, og ef
ljósop augans er 2 mm er um tífalda samþjöppun ljósgeislans að ræða, þ.e. 100
falda orkuþjöppun, þ.e. við fáum 100 *1,2 = 120 kW/m2. Þetta er miklu
meira en augað þolir, og við þurfum að deyfa ljósið a.m.k. fjórfalt. Hér vega
þyngst áhrif innrauðra geisla, en talið er að blátt og fjólublátt ljós geti
einnig valdið skaða, svonefndum ljósefnafræðilegum skaða, þótt hitinn hækki ekki
verulega, en sá skaði mun sjaldnast vera varanlegur.
Innrautt ljós er stundum kallað hitageislar af því að við getum skynjað það sem
hita, þótt augað greini þetta ljós ekki. Ástæðan til að þessi hluti
sólarljóssins er áhrifamikill við að hita hluti er ekki sú, að mest orka sé þar
falin, heldur hitt, að venjulegir hlutir gleypa meira af þessum hluta
litrófsins og breyta orkunni í hita.
Venjulega er mönnum ráðlegt að horfa ekki beint á sólina í sjónauka heldur láta
mynd hennar falla á hvítt spjald aftan við sjónaukann. Margir vilja þó heldur
geta horft beint gegnum sjónaukann. Ýmsar leiðir eru að þessu marki, t.d. er
hægt að setja ljóssíu framan við
sjónaukann og mun það nú algengast. Ljóssían getur verið málmhúðað gler eða
plast. Einnig má nota prisma milli viðtökuglers og augnglers sem skiptir ljósinu
þannig að mest af því speglist til hliðar og út, en aðeins lítið brot komist til
augnglersins. Ljóssíu eins og t.d. dökkt gler ætti aldrei að
nota við augnglerið; hitinn getur auðveldlega sprengt glerið og er þá sjón athugandans í hættu.
Hvaða ráð eru þá fyrir þann sem vill fylgjast með sólmyrkva eða
reyna að sjá sólbletti með berum augum eða handsjónauka? Áður fyrr notuðu
menn gjarna sótað gler, en það er nú talið varasamt. Einnig má nota rafsuðugler
ef það er nægilega dökkt. Margir áhugamenn hafa freistast til að nota
dökka ljósmyndafilmu. Meðan svarthvítar filmur voru algengar var hægast að nota
þær. Þær eru ágæt vörn ef þær eru nægilega dökkar. Nú sjást svarthvítar
filmur sjaldan, en
litfilmur er víða að fá. Endar á slíkum filmum eru oft mátulega dökkir eftir
framköllun til að horfa á sólina gegnum þá, og margir
hafa brugðið þeim fyrir op handsjónauka, þar á meðal ég sjálfur. Hér á ég við filmur
fyrir litskyggnur, ekki fyrir litmyndir á pappír.
Fyrir nokkrum árum birtist grein
eftir Ralph nokkurn Chou við háskólann í Waterloo í Ontario, þar sem hann benti á, að þetta
gæti verið hættuspil að nota litfilmur á þennan hátt. Ólíkt svarthvítu filmunum hleypa litfilmurnar gegnum sig
ósýnilegu, innrauðu ljósi, og þær eru nánast gegnsæjar fyrir ljósi sem hefur
lengri bylgjulengd en 900 nanómetrar. Þetta ljós er nægilega sterkt til að valda skaða
samkvæmt útreikningum greinarhöfundar. Þótt ég efist reyndar um að
útreikningarnir geti verið fyllilega réttir, þar sem ég
hef ekki orðið var við sjónskaða sjálfur, er sjálfsagt að hafa allan varann á.
Meðfylgjandi mynd sýnir hvernig dæmigerðar svarthvítar filmur annars vegar og
litfilmur hins vegar bregðast við ljósi af mismunandi lit (bylgjulengd), þ.e.
hve mikill hluti af ljósinu kemst í gegn. Sýnilegt ljós hefur bylgjulengdina
400-700 nanómetra eða þar um bil (sjá nánar síðar).

Í maí 1959, þegar ég starfaði við stjörnuturn Lundúnaháskóla tókst mér að finna Plútó í
sjónauka. Aðferðin sem ég notaði var þessi: Fyrst tók ég
ljósmyndir með nokkurra daga millibili með 60 cm linsusjónauka og fann Plútó á
myndunum. Þar sem þessi sjónauki var eingöngu útbúinn fyrir myndatökur, varð ég
að nota minni sjónauka (45 cm) til að leita Plútó uppi, en studdist
þá við myndirnar. Plútó var nálægt 14.
birtustigi, og hann átti því að vera auðvelt skotmark fyrir sjónauka af þessari
stærð. Svo reyndist þó ekki vera vegna þess hve margar stjörnur eru í svipuðum
birtuflokki um allan himin, en þetta tókst að lokum. Ég ætlaði að sýna forstöðumanni
stjörnustöðvarinnar, prófessor C. W. Allen, reikistjörnuna, en honum tókst ekki að
koma auga á hana. Það olli honum miklum vonbrigðum og mér líka. Þetta var í
fyrsta sinn sem ég gerði mér grein fyrir, hvaða áhrif aldurinn gæti haft á sjónina,
þótt viðkomandi hefði það sem kalla mætti fullkomlega eðlilega sjón.
Prófessor
Allen var ekki gamall maður þegar þetta gerðist, þótt mér fyndist auðvitað þá,
að hann væri nokkuð við aldur. Ég gerði það að gamni mínu fyrir nokkru að fletta
því upp, hvað hann hefði verið gamall þegar þetta gerðist. Ég komst þá að því að
hann hefði verið 55 ára. Fyrir mig var þetta heldur ónotaleg niðurstaða, því að
sjálfur er ég kominn á þennan sama aldur nú. Merkir það að ég myndi ekki
sjá Plútó nú við sömu kringumstæður? Svo má vel vera, þótt vissulega eigi
ég erfitt með að sætta mig við þá tilhugsun.
Aldur hefur áhrif á sjónina á fleiri en einn veg. Í fyrsta lagi verður
augasteinninn smám saman ógegnsærri með aldrinum. Breytingin nemur um 1% á ári
hverju að jafnaði. Augasteinninn gulnar örlítið og hleypir minna af bláu ljósi
í gegn. Sumir telja að útfjólublátt ljós flýti þessari þróun, og því sé rétt að
forðast það sem mest, t.d. með því að nota sólgleraugu í mikilli birtu. Flest
sólgleraugu stöðva útfjólublátt ljós að mestu leyti. Útfjólublátt ljós hefur
einnig verið bendlað við augnskaða, þ.e. ský á augum eða starblindu, en sú
kenning er ósönnuð.
Önnur breyting með aldri er sú, að stærð ljósopsins í auganu
minnkar. Við það minnkar ljósnæmi augans að sjálfsögðu. Við 20 ára aldur er
þvermál ljósopsins um 8 mm þegar það er fyllilega opið, en í fólki um áttrætt er
þvermálið stundum aðeins 2 mm, eða 1/4 þess sem áður var. Þarna munar miklu, því
að ljósflæðið minnkar 4*4 = 16-falt. Saman hafa þessir þættir því gífurleg áhrif,
þótt einstaklingar taki ekki alltaf eftir því við venjulegar aðstæður. Því má
reikna með að maður yfir áttrætt sjái ekki nærri eins daufar stjörnur og sá
sem yngri er. Munurinn gæti hæglega numið 3 birtustigum, en ég hef ekki séð
kannanir á þessu.
Fleira getur haft áhrif á næmni augans en aldurinn. Reykingar og neysla
vímuefna, bæði áfengis og sterkari efna, draga einnig úr næmni um stundarsakir,
aðallega með því að sjáaldrið dregst saman, en áhrifin eru breytileg eftir
einstaklingum. Hjá sumum geta þau verið mjög veruleg, þannig að það hafi t.d. áhrif á
hæfni þeirra til að aka bifreið í myrkri. Minnkað súrefni, t.d. á háfjöllum,
dregur úr næmninni. Lítill blóðsykur hefur sömu áhrif: svangur maður sér
verr í myrki en sá sem saddur er. Ég hef þó ekki séð tölur um það, hve miklu
munar þarna. Skortur á A-vítamíni getur einning haft umtalsverð áhrif.
Í auganu eru, eins og flestir vita, tvenns konar ljósnemar, stafir og keilur.
Keilurnar eru flestar í miðgróf nethimnunnar; þær gefa skarpasta sjón og eru
dagnemar augans. Stafirnir eru utan miðjunnar. Þeir greina myndina ekki eins
skýrt, en eru miklu ljósnæmari. Þeir eru næturnemar augans. Í stöfunum myndast
litarefni (hormón), svokallaður sjónpurpuri (rhodopsin), sem örvar ljósnæmnina
þegar ljós er mjög dauft. Við meiri birtu eyðist þetta litarefni tímabundið, en
það myndast aftur smám saman í myrkri, sem skýrir hvers vegna augun þurfa tíma
til að aðlagast myrkrinu. Keilurnar nota aftur á móti litarefni til að verjast
ofbirtu og aðlagast henni.
Hver keila fyrir sig er tengd við taugakerfið og
skýrir það upplausnarhæfni keilanna. Stafirnir eru hins vegar tengdir margir í
knippi við taugakerfið; það skýrir minni upplausn en meiri næmni. Allir
stjörnuathugunarmenn þekkja, hvernig unnt er að sjá daufa stjörnu betur ef
sjóninni er beint til hliðar frá stjörnunni þannig að maður sjái stjörnuna út undan
sér, ef svo mætti segja. Þá fellur ljósið á stafina í auganu fremur en
keilurnar.
Ef augað hefur verið í birtu, þarf talsverðan tíma til að næmnin nái hámarki.
Venjulega er talið að a.m.k. tuttugu mínútur þurfi til þessa, en
nákvæmari athuganir hafa sýnt að um 40 mínútur þarf til fullkominnar aðlögunar.
Það eru stafirnir í auganu sem þurfa þennan tíma; keilurnar eru aðeins 10
mínútur að aðlaga sig. Skammtíma lýsing í augað hefur minni áhrif en langvarandi
lýsing.
Samanburður á aðlögunartíma keilna og
stafa |
Sólarljós að degi til hefur áhrif á stafi nethimnunnar, og þessi áhrif
geta varað í nokkra sólarhringa. Næmni augans er því að jafnaði minni að sumri
til en að vetri. Þeir sem stunda stjörnuskoðun vita að rautt ljós
truflar augað minna en hvítt ljós og nota því gjarnan rautt ljós ef þeir þurfa
að bregða upp ljósi meðan á athugunum stendur.
Ef sama myndin fellur lengi á nethimnu augans án hreyfingar, dofnar myndin og
augað hættir að greina hana. Þess vegna er augað á sífelldu flökti, um 10 sinnum
á sekúndu, án þess að maður verði var við það. Þeir sem fást við stjörnuskoðun
þekkja það af reynslunni, að ef lengi er starað á sama stað, dofnar myndin. Ráðið
er að hreyfa augað aðeins til, eða hvíla það augnablik.
Keilurnar í auganu eru um 6 milljón og stafirnir um 120 milljón talsins. Þetta
eru háar tölur ef borið er saman við einingarnar í þeim ljósnæmu rafeindaflögum
sem nú eru að taka við af ljósmyndafilmum í stjörnufræði. Venjuleg
CCD-kísilflaga, eða ljósflaga, sem stjörnufræðingar nota, og er rúmlega cm á
hvorn veg, hefur 800*800 = 640 þúsund myndeiningar (díla). Þær alstærstu, sem eru 6 cm á
hvorn veg, hafa 2040*2048 = 4 milljón einingar.
[Síðan þetta var ritað hefur tækninni fleygt fram, og með því að sameina
fjölmargar flögur hafa menn náð dílafjölda sem svipar til ljósnemafjölda augans]

Þéttleiki stafa og keilna í auganu eftir fjarlægð frá miðgróf
Þá er athyglisvert að augað getur greint og starfað í mjög misbjörtu ljósi,
þannig að sterkasta ljósið er 1014 þ.e. 100 milljón milljón sinnum bjartara en
það daufasta sem augað nemur.
Upplausnarhæfni augans er líka merkileg. Venjulega er talið að mannsaugað geti
greint sundur tvo bletti ef fjarlægðin milli þeirra er 1 bogamínúta. Þetta
svarar til hornsins sem tíukrónupeningur nær yfir, séð úr 100 m fjarlægð. Í
auganu svarar þetta aftur til þess að greint sé milli ljóspunkta
sem eru 1/200 úr millimetra hvor frá öðrum á nethimnunni. Fjarlægðin milli stafa
á nethimnunni er um það bil helmingi minni en þetta, þ.e. hálf bogamínúta og
þvermál hvers stafs um það bil 1/5 úr bogamínútu. Keilurnar eru helmingi
breiðari og miklu strjálli.
Einnar bogamínútu skerpa er venjulega talið algjört hámark. Oft er reiknað með 2
bogamínútum eða meiru.
Fyrir sjónauka er oft notuð formúlan R = 14 bogasekúndur/þvermál sjónauka í cm.
Sumir virðast hafa meira ljósnæmi og augnskerpu en aðrir, án tillits til aldurs
eða annarra þekktra atriða. Sem dæmi er sögð sú saga að sveitakona hafi spurt
prestinn sinn hvaða bjarta stjarna það væri sem hefði handföng, og átti þar við
reikistjörnuna Satúrnus. Þessi saga á að vera sönn, en ótrúleg er hún. Þvermál Satúrnusar þegar hringarnir eru meðreiknaðir er aðeins 0,7
bogamínútur, og því ólíklegt að nokkur geti greint hringana með berum augum.
Þvermál Júpíters séð frá jörðu er heldur meira en þetta, og Venus nær einni bogamínútu í
þvermál þegar hún er næst jörðu. Tungl Júpíters í útstöðu eru frá 2 upp í 10
bogamínútur frá reikistjörnunni og ættu því að sjást aðgreind frá henni, ef ekki
kæmi til hin mikla birta Júpíters. Þó er haft fyrir satt, að menn hafi greint
ystu tunglin, og má það heita dæmi um afburða sjón.
Þvermál sólar er um hálf gráða, eða um 30 bogamínútur. Jörðin er 109 sinnum
minni að þvermáli. Sólblettur á stærð við jörðina er því aðeins 0,3 bogamínútur
í þvermál og ósýnlilegur berum augum. En blettir eru oft miklu stærri en þetta,
allt upp í 15 þvermál jarðar þeir allra stærstu, og ná því yfir 4-5 bogamínútur
og sjást greinilega með berum augum.
Keilurnar í mannsauganu eru næmastar fyrir gulgrænu ljósi (560 nanómetra bylgjulengd) en stafirnir fyrir blágrænu
ljósi (510 nm). Í myrkri færist hámarksljósnæmni augans því lítið eitt til, en
er þó enn í græna hluta litrófsins. Það má heita einstök tilviljun að aðallitur
norðurljósanna er grænn, nálægt 560 nm, og þess vegna sjáum við þau betur en
við annars myndum gera. Hins ber að gæta, að stafirnir í auganu geta ekki aðgreint liti, og þess
vegna sjáum við ekki liti í mjög daufu ljósi, eins og t.d. daufum norðurljósum.
Í björtum norðurljósum sjáum við hins vegar litina greinilega. Stafirnir hafa
takmarkaða næmni fyrir rauðu ljósi, og því sjást rauðlitir hlutir verr í myrkri. Það eru því
ekki aðeins ljósmyndafilmur sem gefa skakka mynd af litum í daufu ljósi; fyrir
auganu breytast litirnir líka þegar ljósið dofnar. Ljósskyn keilnanna nær frá
u.þ.b. 410-720 nm, en ljósskyn stafanna frá 370 nm til 660 nm ( sjá mynd).

Eins og áður var sagt breytist stærð ljósopsins í auganu með aldrinum. Þetta hefur
áhrif á það hvernig sjónauki nýtist til stjörnuathugana. Ef augngler er
valið þannig að þvermál ljóshálsins sé jafnt þvermáli ljósops augans, fæst
best nýting úr sjónaukanum. Slíkt augngler er sagt gefa "normal" stækkun eða
málstækkun. Ef minni stækkun er notuð, fer hluti af ljósinu til spillis, og
myndin verður daufari. Hún verður líka óskýrari, því að skerpan nýtist ekki til
fulls. Ef meiri stækkun er notuð fer að vísu ekkert ljós til spillis, en
ljóskeilan fyllir ekki lengur út í ljósop augans og myndin dofnar,
sérstaklega ef við erum að horfa á eitthvað sem tekur yfir svæði á himninum, en
er ekki bara punktur eins og fastastjörnurnar. Málstækkunin er því besta
stækkunin ef við viljum fá sem mesta birtu á hverja flatareiningu þess svæðis
sem horft er á. Hún er einnig minnsta stækkun sem nýtir skerpu sjónaukans til
fulls.
Málstækkunin fer bæði eftir stærð sjónaukans og stærð ljósops augans, sem aftur
er háð aldri athugandans. Tökum dæmi. Spegilsjónauki af algengri stærð er 20 cm
í þvermál. Ef eigandinn er ungur maður, má gera ráð fyrir að ljósop í augum hans
séu 8 mm í þvermál, þ.e. 25 sinnum minni en þvermál sjónaukans. Þá er málstækkunin fyrir þennan mann
25. En ef öldungur með 2 mm ljósop ætlaði að nota sjónaukann, yrði málstækkunin
fyrir hann 4 sinnum meiri, þ.e. 100. Þetta merkir auðvitað ekki að öldungurinn
sjái betur en ungi maðurinn með 100 sinnum stækkun. Hins vegar getur gamli
maðurinn ekki nýtt sér minni stækkun á sama hátt og yngri maðurinn til þess að
fá bjartari mynd, því að myndin verður þá bæði daufari og óskýrari.
Mesta gagnleg stækkun er sú sem gefur auganu færi á að nýta skerpu sjónaukans
til hins ýtrasta, þannig augað aðgreini alla punkta sem sjónaukinn getur greint
að. Ef meiri stækkun er notuð verður myndin að vísu stærri, en augað aðgreinir
ekki fleiri punkta. Hér er ekki tími til að fara nánar út í það hvernig þessi
stækkun er reiknuð. Niðurstaðan er sú, að mesta gagnleg stækkun jafngildi um það
bil tíföldu þvermáli sjónaukans í sentimetrum. Fyrir 20 cm sjónauka yrði mesta
gagnleg stækkun því 200. Þetta er ekki nákvæm niðurstaða, og sumir nefna
hærri tölur, jafnvel tvöfalt hærri. Við sjáum, að mesta stækkun sem gagn er að
er miklu meiri en málstækkunin. Oft er sagt í fræðibókum, að mesta stækkun sé um 6 sinnum meiri en málstækkunin,
en eins og sjá má af því sem fyrr er sagt, fer hlutfallið m.a. eftir aldri
athugandans.
Maður sem þarf að nota gleraugu getur sleppt að nota þau við sjónauka ef aðeins
er um nærsýni eða fjærsýni að ræða. Sjónskekkja krefst þess hins vegar að
gleraugu séu notuð. Það getur valdið erfiðleikum, og augljóslega tapast ljós og
speglanir aukast. Linsur eru þarna mun betri en gleraugu, en þær eru þó ekki gallalausar.
Þær þurfa að vera hreinar og órispaðaðar. Í sumum tilvikum geta linsur valdið
því að hornhimnan fær ekki nægt súrefni og þá verður hún ekki eins gegnsæ.
Starblinda veldur því að augasteinninn verður ógegnsær. Þegar þessi sjúkdómur er
á byrjunarstigi, verða menn ef til vill ekki varir við hann að degi til, en við
athuganir með sjónauka koma í ljós alls konar speglanir og draugamyndir.
Aðgerðir við starblindu geta falið það í sér að augasteinninn sé fjarlægður og
linsa sett í staðinn. Venjulega eykst þá gegnsæi augans fyrir bláu ljósi, en þá
verður jafnframt að gæta þess betur að hlífa auganu við útfjólubláu ljósi sem
getur valdið skaða.

Einföld mynd af auga
Litum stjarna er oft fjálglega lýst í bókum. Lýsingarnar geta verið býsna skáldlegar.
Margar eru fengnar úr frægri bók, "Celestial Objects for Common Telescopes",
eftir Thomas William Webb, sem út kom árið 1859, en lýsingar á litum stjarna er líka að finna í
öðrum sígildum ritum eins og "Star Names" eftir Richard Hinckley Allen (1899). Sem dæmi er sagt að stjörnur séu rósrauðar,
lillarauðar, fölgular, brúnleitar, rúbínlitaðar, tópasgular, gylltar, eldrauðar,
safírbláar, appelsínugular, grænhvítar, smaragðgrænar, himinbláar, perluhvítar,
purpuralitaðar o.s.frv.
Ptólemeus lýsti Arktúrusi sem gullinrauðri stjörnu. Síríus er oftast talin hvít,
en Ptólemeus sagði hana rauðleita, og er það kapítuli út af fyrir sig.
Í raun eru litirnir alls ekki sterkir eins og stjörnuskoðunarmenn vita.
Sérstaklega eru litirnir óskýrir í hinum heitari stjörnum, sem eru bláleitar, en
kaldari stjörnur (rauðleitari) sýna hreinni liti.
Hvernig er sólin á litinn? Gulleit, segja margir, en nær mun þó að segja að hún
sé skjannahvít, og spurning hvort það sé ekki réttasta skilgreiningin á hvítum
lit. Hvað um tunglið? Er það hvítt, eða ofurlítið gulleitt? Á himninum skortir
samanburð, en í raun réttri er tunglið öskugrátt, eins og tunglfarar geta borið
vitni um. Tunglið er ótrúlega dökkt; það endurkastar aðeins 11% af því ljósi sem
á það fellur. Tunglfarar sem tóku hnefafylli af ryki á yfirborði tunglsins,
sögðu að það liti út eins og svört aska. Í fyrstu Mósebók segir að Guð hafi sett
tunglið á himininn til að lýsa jörðina að nóttu til. Hann hefur ekki valið
sérlega gott efni til endurskins, en kannski hefur það verið með ráðum gert,
a.m.k. held ég að stjörnuskoðunarmönnum finnist tunglið alveg nógu bjart.
Nútíma myndir af reikistjörnum og geimþokum sýna sterka liti sem eru fjarri
raunveruleikanum en eru dregnir fram til að leggja áherslu á hina og þessa
drætti eða sérkenni, sem áhugi vísindamanna beinist að. Ólíklegt er að vanir
stjörnuskoðunarmenn láti slíkt blekkja sig, en þetta kann að vekja væntingar hjá
öðrum, sem verða þá fyrir vonbrigðum ef þeir komast einhvers staðar í sjónauka.
Jafnvel litmyndir sem teknar eru af himinfyribærum án þess að reynt sé að skerpa
einstaka liti, gefa venjulega alranga mynd af litunum, því að filmurnar eru
miðaðar við að gefa rétta liti við aðrar kringumstæður, þ.e. miklu bjartara
ljós.
Það er helst þegar hægt er að bera saman nálægar stjörnur, sem litamunur verður áberandi.
Gott dæmi er tvístirnið Albireo þar sem saman fara gul stjarna og blá, sumir segja reyndar gul og græn. Jafnvel
reikistjörnurnar sýna mismundandi blæbrigði þegar þær sjást saman í sjónauka.
Þeir sem hafa séð tunglið skyggja á reikistjörnu hafa vafalaust tekið eftir
áberandi litarmun á tunglinu og reikistjörnunni.
Til að fá rétta hugmynd um liti, verður að gera nákvæmar litrófsmælingar. Slíkar
mælingar sýna að Merkúríus er dökkgrár eða örlítið brúnleitur, svipaður og tunglið.
Venus er hvít því að við sjáum aðallega skýin yfir henni. Jörðin, séð utan úr geimnum, er
bláleit vegna hafanna, en landsvæðin eru brúnleit. Mars er ekki rauður heldur
gulbrúnn. Júpíter er gulgrár. Tungl Júpíters, Íó, er gulleitt og sums staðar
gulgrænt. Hvað sem myndum frá Voyager líður, er þar hvergi nokkurt svæði sem er
eins rautt og Mars. Satúrnus hefur óljósan lit, en svipar þó til Júpíters,
Úranus er fölblár, Neptúnus virðist líkur honum, en er of daufur til að hægt sé
að sjá litinn í venjulegum sjónauka.
Hvað um fastastjörnurnar? Eðlisfræðilega eru litir stjarna skýrðir út frá
yfirborðshita þeirra. Heitustu stjörnurnar eru bláar eða bláhvítar, þær kaldari eru
gulleitar og þær köldustu gulrauðar eða rauðar, eða svo er venjulega sagt.
Þetta eru samt talsverðar ýkjur. Í rauninni eru flestar af hinum bjartari
stjörnum hvítar eða bláhvítar. Hinar svokölluðu "rauðu" stjörnur eru alls ekki
rauðar þegar að er gáð heldur gulleitar, í hæsta lagi rauðgular eða
appelsínugular. Jafnvel köldustu stjörnur, rauðar dvergstjörnur í
litrófsflokki M8, hafa yfirborðshita um 2800°, en hlutur sem hitaður væri upp í
slíkan hita myndi kallast hvítglóandi. Rauðglóandi er hlutur varla fyrr en hann
er kominn niður undir 1500 stig. Hins vegar munu stjörnufræðingar áreiðanlega
halda áfram að tala um rauða risa og rauðar dvergstjörnur - það er áhrifamikil
lýsing, en ekki skyldi taka hana bókstaflega.
Þ.S. 24. 5. 2020.
Forsíða |