Nokkur orð um símaskrána Símaskráin nýja hefur verið talsvert til umræðu að undanförnu. Sú ákvörðun að skipta skránni í nafnaskrá og atvinnuskrá hefur sætt mikilli gagnrýni, ekki síst vegna þess að skiptingin er svo ófullkomin að oft þarf að leita í báðum skrám. Símnotandi getur tæplega vitað það fyrirfram að símanúmer Landspítala og Borgarspítala séu í atvinnuskrá, en símanúmer Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og Elliheimilisins Grundar í nafnaskrá, svo að dæmi sé tekið. Misfellur af þessu tagi vekja spurningar um það hvernig ritstjórn símaskrárinnar sé háttað. Þær spurningar verða áleitnari þegar menn lesa það í símaskránni árið 1995 að Davíð Oddsson sé borgarstjóri, Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Sovétríkin hafi sendiráð í Reykjavík. Einn versti gallinn við símaskrána er að mínum dómi skipulagsleysið á upplýsingasíðunum fremst í skránni. Síbreytilegar stafastærðir, litaglundur og ruglingsleg uppsetning valda því að erfitt er að finna nokkurn skapaðan hlut. Að vísu eru efnisyfirlit bæði í nafnaskrá og atvinnuskrá, en þau eru ekki nógu skilmerkileg og koma að takmörkuðum notum. Annar vankantur sem ég hef oft hnotið um, eru skammstafanirnar í símaskránni. Þessar skammstafanir eru svo margar og óvenjulegar að undrun sætir. Ætla mætti að þær hefðu þann tilgang að fækka prentuðum línum, stytta skrána, gera hana meðfærilegri og spara pappír og prentunarkostnað. En strax og gluggað er í skrána kemur í ljós að þar er fjöldinn allur af skammstöfunum sem þjóna ekki neinum sýnilegum tilgangi. Hvarvetna blasa við styttingar á starfsheitum eða götuheitum þar sem nægt rúm myndi vera til að skrifa heitin fullum stöfum. Þessi styttingarárátta er þeim mun undarlegri að hún fylgir engu skipulagi eða reglu; hending ein virðist ráða því hvort skammstafað er eða ekki. Hér skal aðeins tekið eitt dæmi af handahófi. Á bls. 111 í nafnaskrá stendur nafnið "Einar S Hjartarson húsasmmst". Þarna er starfsheitinu hnoðað saman í skammstöfun þótt engin þörf sé á. En sami maður hefur annað símanúmer, og við það númer stendur "Einar S Hjartarson húsasmíðameistari" óstytt (orðið er reyndar stafað "hússmíðameistari", en það er væntanlega prentvilla). Ekki er verið að spara rúm í skránni því að nafn og heimilisfang mannsins eru endurtekin svo að þau taka samtals fjórar línur. Auðvelt hefði verið að spara eina línu með því að nota aðeins punktalínu við síðara númerið, og tvær línur hefðu sparast ef bæði númerin hefðu verið sett í eina línu, en á þessari sömu blaðsíðu eru einmitt tvö dæmi um að sú leið sé farin. Óskipuleg vinnubrögð af þessu tagi einkenna símaskrána alla. Á tölvuöld ætti að vera vandalaust að samræma vinnubrögð og skammstafa aðeins þar sem þess er þörf. Engar fastar reglur virðast ráða því hvaða aðferð er beitt við styttingar á götunöfnum í símaskránni. Stundum er einfaldlega skorið aftan af nafninu: "Miðva", "Selbre", "Sæva", "Kambase", "Kölduk", "Vatnagö", "Dyrham", "Reyre", "Hraunb", "Holtsbú". Í tveimur síðustu dæmunum er einungis einn stafur skorinn af, og það þótt nægt rúm sé í línunni. Stundum eru farnar aðrar, lítt troðnar slóðir í skammstöfunum: "Vesturbg", "Hvassalt", "Vesturstrnd", "Birkigrd", "Safamr", "Digraneshð", "Skiphlt", "Elliðavl". Þarna eru aftur dæmi um að einungis einn stafur sparist við (óþarfa) skammstöfun. Ekki batnar ástandið þegar villur slæðast inn í þessar undarlegu skammstafanir s.s. "Máfan" fyrir Mávanes. Ég sé fyrir mér útlending sem sest upp í leigubíl og biður bílstjórann að aka sér í Máfan 22. Stundum eru skammstafanirnar þannig að það er aðeins á færi kunnugra að ráða í þær. Sem dæmi má taka "Vatnagö" sem ókunnugir myndu lesa Vatnagötu fremur en Vatnagörðum. Í leiðarvísi um skammstafanir, sem finna má á bls. 7 í nafnaskrá, er reyndar gert ráð fyrir að þetta götuheiti skammstafist "Vatnagð", svo að "Vatnagö" kann að vera prentvilla. Ef svo er, verð ég að segja að skammstöfunin lítur skár út með prentvillunni en án hennar. Ekki er hægt að reiða sig á það að skammstafanir fylgi þágufalli, sbr. "Dyrham" sem á að merkja Dyrhömrum. Hvort skyldi nú "Hraunbr" merkja Hraunbraut eða Hraunbrún? Er hægt að ætlast til þess að menn séu sífellt að fletta upp í skýringum á skammstöfunum? Torræðar skammstafanir eru vissulega til baga, því að símaskráin er ekki aðeins notuð til að finna símanúmer; hún er nánast eina heimildin sem almenningi er tiltæk þegar finna þarf rétta áritun á sendibréf. Ég spurði ýmsa, þar á meðal blaðafulltrúa Pósts og síma, en enginn gat útskýrt hvað "Elliðavl" merkir. Líklega hefði ég þó fengið rétt svar ef ég hefði spurt einhvern frá Suðurnesjum, því að þetta mun vera skammstöfun á götunafni í Keflavík. Símaskráin er upplagt efni í gestaþrautir af þessu tagi. Fleira mætti nefna, sem aðfinnsluvert er í símaskránni, en hér verður
látið staðar Þorsteinn Sæmundsson Sett á vef 12.12. 2014 |