Þegar föðursystir mín, Sigríður Stefánsdóttir Thorlacius, lést í júní s.l., rofnuðu síðustu tengsl mín við kynslóð hennar og foreldra minna. Síðustu árin sem Sigga frænka lifði notaði ég hvert tækfæri til að fræðast af henni um ýmislegt sem mér hafði láðst að spyrja foreldra mína og aðra nákomna um. Þegar ég fæddist bjuggu foreldrar mínir í leiguíbúð við Sóleyjargötu. Sigga sagði mér að hún hefði leigt herbergi hjá þeim og nafngreindi auk þess fleiri sem hefðu leigt hjá þeim á sama tíma. Íbúðin var ekki stór svo að þarna hefur fólk búið þröngt eins og algengt var á þessum árum. Í eftirmælum um Siggu hefur komið fram að hún hafi unnið við ótilgreind verslunarstörf í nokkur ár. Þar mun átt við störf sem hún vann hjá Sæmundi bróður sínum (föður mínum), fyrst í nýlenduvöruverslun sem hann rak um skeið á horni Freyjugötu og Njarðargötu, en síðar í Hafnarhúsinu eftir að hann stofnaði innflutningsfyrirtæki í félagi við annan mann. Þetta var á stríðsárunum, og mér er minnisstæð lýsing Siggu á því þegar hún gekk stigana í Hafnarhúsinu og þurfti stundum að stikla milli hermanna sem höfðu leitað þar skjóls í óblíðum veðrum. Eftir að Sigga giftist Birgi Thorlacius bjuggu þau í lítilli íbúð við Barónsstíg, og þaðan á ég fyrstu minningar mínar um Siggu. Í þá daga átti ég oft leið um Barónsstíginn því að ég sótti spilatíma hjá Gunnari Sigurgeirssyni píanóleikara sem bjó við götuna. Freistandi var að koma við hjá Siggu sem alltaf tók vel á móti mér og vék að mér einhverju góðgæti. Seinna meir höguðu atvikin því svo að við fluttumst í samliggjandi hús í Bólstaðarhlíð. Traust samband hélst alltaf milli fjölskyldnanna. Þau hjónin, Sigga og Birgir, ferðuðust oft til útlanda, og Sigga sendi gjarna póstkort og kom með gjafir úr þessum ferðum. Einu sinni minnist ég þess að hafa gert henni greiða á móti, nánast óvart. Það var þegar ég færði henni bókina Ævintýraeyjuna eftir Enid Blyton. Ég var þá að byrja að læra ensku, og þetta var fyrsta bókin sem ég réðst í að lesa á því tungumáli. Siggu þótti bókin góð, og það varð til þess að hún þýddi hana og fleiri bækur eftir sama höfund. Þessar bækur urðu afar vinsælar. Seinna fengu börnin mín nokkrar þessara bóka að gjöf frá Siggu. Sigga var fríðleikskona, virðuleg í fasi. Hún var þó ekkert stofublóm og gat tekið til hendinni þegar svo bar undir. Frændi minn, Brynjólfur í Núpstúni, varð vitni að því þegar hún kom eitt sinn úr gönguferð, forug upp að öxlum eftir að hafa bjargað lambi sem var fast í gaddavírsgirðingu úti í mýri. Þá var hún á fertugsaldri. Sigga var aldrei sérlega heilsuhraust, og ég undraðist hve miklu hún kom í verk í ritstörfum og félagsmálum. Þau störf sín ræddi hún sjaldan svo að ég heyrði. Hins vegar sagði hún mér margar skemmtilegar sögur af ferðalögum þeirra hjóna og kynnum af frægu fólki. Í því sem öðru voru þau hjónin samstíga, því að Birgir heitinn var einhver besti sögumaður sem ég hef kynnst. Það er sjónarsviptir að Siggu frænku, og ég kveð hana með söknuði. Þorsteinn Sæmundsson 31.7. 2009 |