Skýst þótt skýrir séu
 Gömul áskorun rifjuð upp

    Fyrstu kynni íslensks almennings af sjónvarpi voru útsendingar varnarliðsins frá herstöðinni í Keflavík árið 1951. Þessar útsendingar voru ýmsum þyrnir í augum, og árið 1964 tóku framtakssemir menn að safna undirskriftum þar sem skorað var á stjórnvöld að láta takmarka útsendingarnar við hervallarsvæðið og nágrenni þess. Undirskriftaskjalið var m.a. birt á forsíðu Tímans. Árið eftir var orðið við þessum tilmælum þrátt fyrir mótmælaskjal sem yfir 14000 manns höfðu skrifað undir.

   Þegar horft er um öxl hlýtur að vekja undrun að svo margir skynsamir menn skyldu óttast áhrif Keflavíkursjónvarpsins á íslenska þjóð. Nú þegar erlent sjónvarpefni flæðir yfir landslýð fer ekki hjá því að þeir sem muna Keflavíkursjónvarpið geri samanburð og meti hvort tilefni hafi verið til þessarar áskorunar á Alþingi. Sjónvarpið frá herstöðinni var einstakt að því leyti, að það var laust við allar auglýsingar. Það flutti úrval efnis frá bandarískum sjónvarpsstöðvum, þar með talið barnaefni sem sent var út um helgar.

    Í Wikipediugrein um Keflavíkursjónvarpið segir: "... hlutir dagskrárinnar voru sérstakir upplýsingaþættir framleiddir af Pentagon sem af þótti nokkur áróðurskeimur."

    Þetta má rétt vera, þótt illa gangi að rifja það upp. En telja verður líklegt að það sjónvarpsefni sem nú er á boðstólum myndi skerðast til muna ef öllum áróðri væri þar útrýmt.

    Í sömu grein á Wikipediu er því haldið fram að sjónvarpsviðtæki hafi verið svo dýr á þessum tíma að fá heimili hafi getað leyft sér slíkan munað. Þeir sem eru nógu gamlir til að muna eftir þeim fjölda loftneta sem "prýddi" hús Reykvíkinga á þessum tíma hljóta að undrast þessa fullyrðingu. Hitt er vitað, að sumir þeirra sem skrifuðu undir skjalið áttu ekki sjónvarpstæki sjálfir. Hefur það sennilega verið af annarri ástæðu en fjárskorti.


Þ.S. 10. apríl 2019.

Forsíða