Fyrstu kynni íslensks almennings af sjónvarpi voru
útsendingar varnarliðsins frá herstöðinni í Keflavík árið 1951. Þessar
útsendingar voru ýmsum þyrnir í augum, og árið 1964 tóku framtakssemir
menn að safna undirskriftum þar sem skorað var á stjórnvöld að láta
takmarka útsendingarnar við hervallarsvæðið og nágrenni þess.
Undirskriftaskjalið var m.a. birt á forsíðu
Tímans.
Árið eftir var orðið við þessum tilmælum þrátt fyrir mótmælaskjal sem
yfir 14000 manns höfðu skrifað undir. Í
Wikipediugrein um Keflavíkursjónvarpið segir: "... hlutir
dagskrárinnar voru sérstakir upplýsingaþættir framleiddir af Pentagon
sem af þótti nokkur áróðurskeimur." Í sömu grein á Wikipediu er því haldið fram að sjónvarpsviðtæki hafi verið svo dýr á þessum tíma að fá heimili hafi getað leyft sér slíkan munað. Þeir sem eru nógu gamlir til að muna eftir þeim fjölda loftneta sem "prýddi" hús Reykvíkinga á þessum tíma hljóta að undrast þessa fullyrðingu. Hitt er vitað, að sumir þeirra sem skrifuðu undir skjalið áttu ekki sjónvarpstæki sjálfir. Hefur það sennilega verið af annarri ástæðu en fjárskorti.
|