Þegar ég fann Plútó Það hafði ekki hvarflað að mér að færa þessa frásögn í letur fyrr en vinur minn, Snævarr Guðmundsson stjörnuskoðari par excellence, hvatti mig til þess með þeim rökum að ég hafi sennilega orðið fyrstur Íslendinga til að berja Plútó augum. Þetta gerðist árið 1959, skömmu eftir að ég fór til doktorsnáms við háskólann í London. Ég hafði fengið vinnuaðstöðu við stjörnuturn háskólans sem er í einu af úthverfum Lundúna, Mill Hill. Forstöðumaður stjörnuturnsins, Clabon W. Allen, var leiðbeinandi minn við doktorsverkefnið sem fjallaði um áhrif sólar á jörð, nánar tiltekið uppruna raðbundinna segulstorma. Allen er þekktastur fyrir bók sína, Astrophysical Quantities sem flestir ef ekki allir stjörnufræðingar hafa nýtt sér. Á þessum tíma var hann að vinna að þriðju útgáfu þessarar bókar. Ekki þurfti ég sjónauka vegna verkefnis míns því að vinna mín
byggði á mælingum og athugunum sem gerðar höfðu verið annars staðar, aðallega í
Frakklandi og Þýskalandi, svo og breskum heimildum. Á hinn bóginn fannst mér freistandi að notfæra mér
aðstöðuna í Mill Hill til stjörnufræðilegra athugana. Þarna voru ágætir
sjónaukar, bæði linsusjónaukar og spegilsjónaukar. Einn þeirra hafði
upphaflega verið í Radcliffe stjörnustöðinni í Oxford og var kenndur við þá
stöð. Þetta voru í raun tveir samfastir sjónaukar 7 metra langir, annar með 24-þumlunga linsu, hinn með 18-þumlunga linsu. Sá stærri var eingöngu notaður til
að taka ljósmyndir. Í þá daga var myndað á glerplötur sem voru 15 cm á hvorn
veg. Minni sjónaukann mátti nýta til beinna sjónathugana. Ég
notaði hann meðal annars til að skoða reikistjörnuna Mars og gat þá í
fyrsta sinn greint helstu landslagsdrætti á yfirborðinu. Úranus skoðaði ég
einnig og náði mynd af honum og fjórum stærstu tunglum hans. Sú mynd þætti ekki
merkileg nú á dögum, en þótti þá nægilega góð til þess að birta hana í bók þegar
útgefandi nokkur hafði samband við stjörnuturninn og leitaði eftir mynd af
Úranusi og tunglum hans. Ég læt myndina fylgja hér.
Þar kom að ég fór að hugleiða hvort hugsanlegt væri að sjá Plútó í 18- þumlunga sjónaukanum. Plútó var þá talinn í hópi reikistjarna, sú ysta í sólkerfinu og sú eina sem ég hafði ekki séð. Vandamálið var að finna þennan litla ljósblett innan um aragrúa af álíka daufum stjörnum. Í stjörnualmanaki fann ég upplýsingar um stöðu Plútós á himninum svo að ég gat beint sjónauka nokkurn veginn í rétta stefnu. Ég notaði fyrst 24-þumlunga sjónaukann og tók myndir á nokkurra daga fresti. Eftir að hafa framkallað myndirnar og borið þær saman gat ég fundið Plútó á myndunum vegna þess að hann hafði hreyfst miðað við fastastjörnurnar. Sömuleiðis gat ég áætlað hvar Plútó myndi verða næst þegar færi gæfist til að sjá hann. Þessi aðferð gafst vel, og mér tókst að finna Plútó með 18-þumlunga sjónaukanum að kvöldi 10. apríl 1959. Þegar ég sagði prófessor Allen frá þessu, sýndi hann strax áhuga á að sjá Plútó sjálfur. Þremur dögum síðar, hinn 13. apríl, var aftur bjart til lofts og við tókum til við athuganir. Ég fann Plútó fljótlega með hliðsjón af nálægum fastastjörnum, en prófessor Allen gat ekki komið auga á hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Þetta gramdist honum mjög. Við gátum ekki fundið aðra skýringu en þá, að sjón hans hefði dofnað með aldrinum. Nú var Allen ekki gamall maður, aðeins 54 ára og með ágæta sjón, en ég var þrjátíu árum yngri og það gerði gæfumuninn. Í sjálfu sér var þetta lærdómsríkt fyrir mig, því að það gerði mér ljóst hve miklar breytingar verða á ljósnæmi augans þegar aldurinn færist yfir. Hér fyrir neðan fylgja nokkrar myndir til skýringar.
Prófessor C.W. Allen (Mynd: Þ.S.)
Tao Kiang stjörnufræðingur við Radcliffe sjónaukann (Mynd: Þ.S.)
Þ.S. 14.4. 2017. Viðbót 16.4. 2017. |