Óskar L. Ágústsson, minningarorð

    Það mun hafa verið árið 1964 að ég kynntist þeim öðlingsmanni, Óskari Lárusar Ágústssyni. Hann rak þá smíðaverkstæði ásamt öðrum manni, við Háaleitisbraut að mig minnir. Ég þurfti á aðstoð að halda við að endurnýja grindverk við sumarbústað minn, og einhver góður maður vísaði mér á Óskar. Um þetta leyti var ég að taka við umsjón og rekstri segulmælinga-stöðvarinnar í Leirvogi, og vegna ágætrar reynslu af Óskari fékk ég hann til að sjá um smíðar og viðhald í stöðinni. Jafnframt tók hann að sér að hanna og smíða hús fyrir norðurljósamyndavél sem sett var upp að Eyvindará við Egilsstaði. Það hús var vönduð smíð og hugvitsamleg. Þessar framkvæmdir  voru á vegum Eðlisfræðistofnunar Háskólans.
   Þegar Raunvísindastofnun hóf starfsemi árið 1966 og tók við verkefnum Eðlisfræðistofnunar, fór ég þess á leit við Óskar að hann gerðist starfsmaður hinnar nýju stofnunar. Það varð úr, og tók Óskar að sér að vera umsjónarmaður hússins við Dunhaga og sinna þar smíðaverkefnum. Reyndist hann hin mesta hjálparhella, bæði mér og öðrum starfsmönnum. Auk ferða til viðhalds og nýsmíða í Leirvogsstöð aðstoðaði Óskar mig við segulmælingar úti á landi, og á ég góðar minningar frá þeim ferðalögum. Óskar var einstaklega ljúfur maður í umgengni og gott að eiga hann að. Alltaf var hann boðinn og búinn til að veita aðstoð sína þegar þess var þörf. Hans verður saknað af öllum sem þekktu hann. Fjölskyldu hans færi ég innilegar samúðarkveðjur frá mér og Guðnýju konu minni.

                                                                           Þorsteinn Sæmundsson