Óreiðan hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness
Á síðasta ári komu upp grunsemdir um að ekki væri allt með felldu í fjármálum
Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Af þessum sökum tókst ekki að ljúka
aðalfundi félagsins, sem efnt var til hinn 26. janúar 2017, og var
framhaldsaðalfundur haldinn 20. mars. Fundargerðin sem birt var eftir þann fund
gaf ekki rétta mynd af því sem á fundinum gerðist. Af lestri hennar mátti ætla
að ekkert hefði komið fram sem væri óeðlilegt varðandi reikninga félagsins. Þess
var hvergi getið að undirritaður las upp og afhenti til bókunar
greinargerð þá
sem hér fylgir. Fram kemur að reikningar ársins 2015 hafi verið samþykktir með
12 atkvæðum en þrír hafi verið á móti. Vert er að benda á, að þessir þrír voru
þeir menn sem unnið höfðu að því mánuðum saman að grandskoða reikningana. Hinn 13.
maí var nýkjörnum formanni félagsins send athugasemd með tilmælum um að
fundargerðin yrði leiðrétt. Því var vel tekið, og standa vonir til að úrbætur
fáist. Nú hafa ársreikningarnir fyrir árin 2015 og 2016 loksins verið birtir hjá fundargerðinni á vefsíðu félagsins. Á ársreikningi 2016 kemur fram að 2 milljón króna greiðslan til Stjörnufræðivefjarins er færð undir liðinn "Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður". Á fundinum 20. mars lagði formaður ríka áherslu á það að reikningarnir hefðu verið samþykktir af virtu endurskoðunarfyrirtæki (Deloitte). Í því sambandi er rétt að benda á yfirlýsingu endurskoðenda sem fylgir skýrslu þeirra. Þar segir: "Ársreikningur og þær upplýsingar sem koma fram í honum eru á ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra. Ársreikningurinn er byggður á bókhaldi félagsins og öðrum upplýsingum stjórnenda félagsins. Þar sem fagleg aðstoð við gerð ársreiknings er ekki staðfestingarverkefni er þess ekki krafist af okkur að staðfesta nákvæmni eða heild þeirra upplýsinga sem stjórnendur hafa lagt fram. Þar af leiðandi veitum við hvorkí álit byggt á endurskoðun né ályktun byggða á könnun um hvort ársreikningurinn sé gerður í samræmi við lög um ársreikninga" Viðbót 10.10. 2018 Samkvæmt upplýsingum sem Sigfús Thorarensen hefur fengið hjá núverandi gjaldkera Stjörnuskoðunarfélagsins, Þóri Jónssyni, hefur fyrrverandi gjaldkeri aðeins endurgreitt um 300 þúsund krónur af skuld sinni við félagið, og sæta eftirstöðvarnar nú dráttarvöxtum. Þá hefur gjaldkerinn gefist upp við að innheimta það fé sem Stjörnufræðivefurinn skuldar félaginu.
|