Morgunblaðið
9. maí 2005 - Bréf til blaðsins
|
Kynbundið ofbeldi? "Drífa Snædal, fræðslu- og kynningarstýra Kvennaathvarfsins, segir að mikilvæg leiðrétting hafi verið í dómi Hæstaréttar þar sem því hafi verið hafnað að konan ætti sök á ofbeldinu. ”Þetta er það sem okkar barátta snerist um," segir Drífa en gagnrýnir löggjöfina fyrir að taka hvergi á kynbundnu ofbeldi. "Það er alveg horft framhjá því að 95% þeirra sem beita heimilisofbeldi eru karlar og 95% sem verða fyrir því eru konur."" (Tilvitnun lýkur.) Þær tölur sem þarna eru nefndar eru vissulega athyglisverðar. En eru þær réttar? Ég hef fyrir framan mig grein úr breska blaðinu Sunday Times. Greinin er eftir blaðamanninn og rithöfundinn Patriciu Pearson. Þar stendur m.a.: "Á fundi sem Alþjóðlegt félag um rannsóknir á ofbeldi (International Society for Research on Aggression) hélt í síðastliðnum mánuði greindi John Archer frá Háskólanum í Mið-Lancashire frá því að rannsóknir á þúsundum karlmanna og kvenna í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada sýndu að í heimiliserjum væru konur jafn líklegar til að beita ofbeldi og karlmenn. Tölur Archers staðfesta niðurstöður bandarískra félagsfræðinga sem í 20 ár hafa sent frá sér skýrslur þess efnis að kannanir sem ná til þjóðfélagsins í heild, en takmarkast ekki við hópa kvenna sem hafa orðið fyrir ofbeldi, leiði í ljós að konur slái, löðrungi, sparki, kýli, fleygi hlutum og beiti vopnum eins oft og karlmenn. Þótt kannanir sýni að konur verði venjulega fyrir meiri skaða í átökunum, sleppa karlmennirnir ekki alltaf ómeiddir þegar á þá er ráðist. Rannsókn á bandarískum sjúkrahúsum, sem birt var í ágúst 1997 og náði til eins árs, leiddi í ljós 30 000 tilvik þar sem karlmenn höfðu orðið fyrir meiðslum vegna heimilisofbeldis." (Tilvitnun lýkur.) Í grein sem blaðið birti síðar, eftir dálkahöfundinn Melanie Phillips, er reyndar gengið lengra og því haldið fram að nýjasta samantekt á nær 100 rannsóknum í Bretlandi og Bandaríkjunum bendi til þess að konur eigi oftar upptökin að ofbeldi á heimilum. Ofbeldi kvenna heima fyrir fari vaxandi með auknum völdum þeirra á heimilunum. Í greininni segir að margar rannsóknir á heimilisofbeldi séu hlutdrægar því að þær séu eingöngu byggðar á frásögnum kvenna sem leitað hafi til kvennaathvarfa. Þegar kannað hafi verið hverjir hefðu hlotið sýnilega áverka í heimilisátökum, hafi þriðjungur þess hóps reynst vera karlmenn. Í þessu sama blaði (Sunday Times) hafa birst frásagnir af stæðilegum lögreglumönnum og jafnvel sérsveitarmönnum sem komið hafa til vinnu sinnar bláir og marðir eftir eiginkonurnar. Þessir menn neyttu ekki aflsmunar, lögðu ekki fram kærur, og tilvikin koma ekki fram í neinum skýrslum. Með tilliti til þessara upplýsinga er rétt að spyrja: Hvaðan koma þær tölur sem birtust í Morgunblaðinu hinn 30. apríl og notaðar eru til að réttlæta hugtakið "kynbundið ofbeldi"? Er líklegt að á Íslandi sé hegðun kynjanna alls ólík því sem gerist í nágrannalöndum? Þorsteinn Sæmundsson Bólstaðarhlíð 14 Reykjavík |