Hugleiðing um mannanöfn


Í Fréttablaðinu 27. febrúar 2020 var frétt sem bar fyrirsögnina “Íslenskan þarf ekki á stífum reglum að halda”. Þessi setning er úr umsögn Eiríks Rögnvaldssonar prófessors um mannanafnafrumvarp sem lagt var fram á Alþingi nýverið. Frumvarp þetta er að mestu samhljóða frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi en fékk ekki framgöngu þá. Í Fréttablaðinu er rakið álit Eiríks á málinu, en að engu getið röksemda annarra svo sem talsmanna Árnastofnunar og mannanafnanefndar, sem voru á öndverðri skoðun.

Í fréttinni er þetta haft eftir Eiríki: “Hefð sem þarf að viðhalda með lögum er ekki hefð – heldur nauðung”. Sem dæmi um æskilega menningarhefð nefnir Eiríkur það að Íslendingar kenni sig við föður eða móður, en lagafrumvarpið gerir ekki ráð fyrir því að slíkt sé nein skylda. Þvert á móti segir strax í fyrstu grein: 

Heimilt er að nota ættarnafn sem kenninafn og er í þeim tilvikum ekki skylt að kenna barn til foreldris eða foreldra.“

Ættarnöfn eru algengari en ætla mætti: um fjórtándi hver maður ber ættarnafn. Það hlutfall er þó nægilega lágt til þess að þeir sem bera ættarnafn skera sig eilítið úr almúganum. Elstu ættarnöfnin þykja virðulegust. Þótt mér þyki ættarnöfn fremur hégómleg vil ég ekki gagnrýna notkun þeirra um of,  því að ég á mörg skyldmenni sem skarta þeim. Það sem mér finnst helst aðfinnnsluvert er það, að flestir nota ættarnafnið eitt sér. Af því leiðir, að á hverjum tíma verða gjarna tveir eða fleiri sem bera sama nafnið, og hætta verður á ruglingi. Það væri því til bóta ef menn notuðu föðurnafn um leið og ættarnafnið, jafnvel með skammstöfun. Þá væri til dæmis unnt að greina milli föðursystur minnar, Sigríðar Stefánsdóttur Thorlacius, og frænku minnar Sigríðar Kristjánsdóttur Thorlacius söngkonu. En til er önnur Sigríður Kristjánsdóttir Thorlacius sem ekki má gleyma. Sú er Kristjánsdóttir Ólafssonar, en söngkonan er Kristjánsdóttir Sigurðssonar. Það myndi því ekki nægja til fullrar aðgreiningar á þessum frændkonum mínum þótt föðurnafnið stæði með ættarnafninu.

Amma mín í föðurætt, Solveig Pétursdóttir, var gjarna kölluð Eggerz á sama hátt og ýmsir afkomendur hennar s.s. Pétur Eggerz föðurbróðir minn, Sólveig Eggerz myndlistarkona, Elín Eggerz Stefánsson hjúkrunarfræðingur og fleiri. En amma notaði aldrei þetta ættarnafn sjálf. Þegar Sigríður föðursystir mín ritaði frásögn um móður sína (ömmu mína) og prentaði sem handrit, gaf hún því heitið: „Um móður mína Solveigu Pétursdóttur Eggerz“. Þegar ég spurði Siggu hvort amma hefði nokkru sinni notað Eggerz nafnið, sagði hún að svo hefði ekki verið. Líklega hefur amma haft svipaða skoðun og ég á ættarnöfnunum.

Rétt er að taka fram að ég er hér að ræða um íslensk ættarnöfn. Þegar fólk af erlendum uppruna á í hlut er að sjálfsögðu eðlilegt að það haldi sínu ættarnafni.

Þegar Eiríkur Rögnvaldsson segir það hefð að menn kenni sig við föður eða móður, er það ekki fyllilega rétt. Hefðin var sú að menn kenndu sig við föður, sárasjaldan við móður. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum að menn eru farnir að kenna sig við móður, fyrir áhrif frá kvenréttindahreyfingum. Nú er það svo, eins og Baldur heitinn Jónsson prófessor benti á, að sá siður að kenna menn við föður, stafaði ekki einvörðungu af því að faðirinn væri talinn höfuð fjölskyldunnar. Þessi siður þjónaði jafnframt þeim tilgangi að negla niður hver væri faðir eða ábyrgðarmaður barnsins. Um móðernið þurfti sjaldnast að deila.

Í frumvarpi því um mannanöfn sem lagt hefur verið fyrir Alþingi, segir í 1. grein:

 „Kenna skal barn til foreldris eða foreldra þess.“

Undantekning frá þessu er þó í sömu grein, eins og áður var getið:

„Heimilt er að nota ættarnafn sem kenninafn og er í þeim tilvikum ekki skylt að kenna barn til foreldris eða foreldra.“

Enn segir:

„ Heimilt er hverjum einstaklingi að breyta nafni sínu“.

Þessi heimild virðist ekki lúta neinum takmörkunum, svo að viðkomandi getur breytt nafni sínu svo oft sem hann vill og þarf þá hvorki að kenna sig til foreldra né nota ættarnafn. Hann eða hún gæti þess vegna tekið upp nafnið „Fyrsti Apríl“.

Í greinargerð með frumvarpinu segir:

„Íslensk nafnahefð og íslenskt málkerfi er varið með neikvæðum íþyngjandi formerkjum í núgildandi lögum. Með því að fella brott ákvæði þess efnis að nöfn stangist ekki á við íslenskt málkerfi er opnað á möguleikann á því að tungumálið og nöfn þar á meðal fái að taka breytingum og þróast.“

Þá segir:

„Það sem þetta frumvarp á sammerkt með frumvarpinu sem lagt var fram á 144. löggjafarþingi er t.d. brottfelling ákvæða um að stúlkum skuli gefin kvenmannsnöfn og drengjum karlmannsnöfn, að nöfn megi ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi og að nafn megi ekki vera nafnbera til ama.“

„Hlutverk löggjafans er ekki að skilgreina hvað eru kvenmannsnöfn eða karlmannsnöfn.“

Með öðrum orðum, öll nöfn verða leyfileg, hvort sem þau fylgja íslenskri beygingarhefð eða ekki, og hvort sem þau hafa áður talist fylgja einu kyni fremur en öðru og hversu fáránleg sem þau gætu verið í annarra augum. Að drengur fái nafnið Sigríður eða Guðrún verður því heimilt.

Þessi nýmæli eru alvörumál. Svo að ég vitni í ummæli góðs vinar míns leiðir þetta frumvarp til "alvarlegrar skerðingar á rétti Íslendinga til að búa í því samskiptaumhverfi sem þeir hafa valið sér í gegnum aldirnar".

Frumvarpið birtist hér:

https://www.althingi.is/altext/149/s/0009.html
 

Þ.S. 5.3. 2020