Þorsteinn Sæmundsson Madeiraferð 1992 |
||
Þessi ferð var óvenjuleg að því leyti að hún tengdist ekki neinu
erindi sem ég átti til útlanda vegna starfs míns. Þetta var
ósköp venjuleg sólarlandaferð án markverðra atburða, en ekki alveg
laus við vandamál. Við Guðný lögðum af stað eldsnemma sunnudaginn 11. október. Við áttum að mæta á Hótel Loftleiðum kl. 5 og fórum þess vegna á fætur kl. 4:20. Ég hafði ekki sofið dúr, en Guðný hafði náð þremur tímum eða svo. Ein ástæðan fyrir svefnleysinu var hávaðasamkvæmi uppi í risinu, sem endaði með því að ég hringdi dyrabjöllunni þar og kvartaði. Ég skildi bílinn (Toyota Camry) eftir við hótelið. Máni ætlaði svo að sækja hann. Ég hafði leyft Mána að nota bílinn meðan við værum í burtu, þó ekki að nauðsynjalausu (!). Flugið til Amsterdam var tíðindalaust. Frá Schiphol flugvelli tókum við leigubíl til hótel Avenue. Þangað komum við kl. 12, en leist ekki meira en svo á staðinn. Inngangurinn var í kjallaraholu í hálfskuggalegu stræti. Ekki bætti úr skák að okkur var sagt að við fengjum ekki herbergið fyrr en kl. 2. Þangað til yrðum við að mæla göturnar. Og það var komin súldarrigning. Við gengum um misjafnlega skuggaleg stræti, litum við á járnbrautarstöðinni, fengum okkur hamborgara á McDonalds og fórum svo aftur á hótelið. Eftir smáblund (klukkutíma eða svo) fórum við aftur út. Fengum okkur fyrirtaks mat á veitingahúsi. Hótelherbergið var það minnsta sem við höfum séð, en rúmið var ágætt. Fórum að sofa kl. 20. Mánudagur 12. október. Við létum vekjaraklukku vekja okkur kl. 4:45. Vorum þá reyndar vöknuð eftir að hafa sofið eins og steinar. Eftir skamma stund vorum við komin með farangurinn niður. Þar beið okkar morgunverður. Næturvaktmaðurinn hafði vinsamlegast séð um að hafa allt tilbúið þótt honum bæri ekki skylda til að gera það fyrr en kl. 7. Svo tókum við leigubíl út á Schiphol. Vorum fljót þangað því að umferð var lítil sem engin. Við komum nákvæmlega á réttum tíma, kl. 5:45. Vélin átti að fara kl. 6:45. Meðan við biðum fór mig að klæja ákaflega í hægri fót og þar hljóp upp stærðar kúla. Ég hélt að þetta væri flóabit, en mér til mikillar undrunar var þetta horfið eftir nokkra klukkutíma. Vélin tafðist lengi á vellinum og við vissum ekki ástæðuna.
Flugfélagið var hollenskt - Transavia - og allar tilkynningar voru á
hollensku. Til skýringar skal þess getið að við keyptum ferðapakkann
hjá Ferðaskrifstofu Reykjavíkur, sem aftur samdi við Arke-Reisen í
Hollandi. Þegar við lentum á Madeira var glaðasólskin og 25 stiga hiti. Við
fréttum síðar að kona frá ferðaskrifstofunni ARKE hefði verið þarna
á vellinum til að sækja okkur og fara með okkur á hótelið, en hún
hefði ekki fundið okkur. Ég vildi taka leigubíl frá flugvellinum til
Funchal, sem er eina borgin, 20 km sunnar (eftir veginum reiknað),
en Sarit, sem var í slagtogi með okkur, tímdi ekki að eyða peningi í
leigubíl, og Guðný vildi líka spara, svo að við biðum í steikjandi
hita eftir strætisvagni sem kom allt of seint og var svo troðinn að
ég hefði ekki fengið sæti ef kona nokkur hefði ekki látið ungan son
sinn rýma sæti fyrir mig. Horft yfir Funchal, "höfuðborg" Madeira
Við vorum heillengi að komast til Funchal, og síðan urðum við að
taka bíl (og kveðja Sarit) til að komast á hótelið okkar (Hotel
Monumental Lido) sem var í vesturjaðri borgarinnar. Þar fengum við íbúð á
2. hæð móti suðri. Íbúðin var stór og þægileg, en hávaðinn frá
götunni mikill að degi til. Aðalgata Funchal liggur þarna framhjá og
stöðugur straumur bíla er þarna á ferð. Þar að auki voru tvö ný
hótel í smíðum sjávarmegin við okkar hótel og umferð vörubíla þangað
talsverð.
Hótelið okkar á Madeira
Við vorum orðin mjög svöng og skruppum á nálægan veitingastað og
fengum okkur hamborgara. Svo fundum við stórmarkað, gerðum þar innkaup. Um kaffileytið vorum við
boðuð á fund á nálægu hóteli með fulltrúa ferðaskrifstofunnar. Sú
hét Wilma van der Heiden. Þarna var hópur Hollendinga auk okkar.
Wilma þessi var mesti skörungur. Hún skýrði út alla hluti fyrir
ókunnugum, þar með talið þær ferðir sem í boði væru um eyna. Guðný steikti nautasteik um kvöldið. Klukkan að ganga tvö fór Guðný að kvarta um að hún væri orðin
svöng. Susanne sagði að við gætum fengið 20% afslátt af mat á Roca
Mar, en við sögðumst hafa loforð fyrir ókeypis mat. Hún
kannaðist ekkert við það, en við höfðum okkar fram og borðuðum
eggjakökur. Áfram malaði Susanne, og var alltaf eins og hún væri að
fræða smábörn, að mér fannst. Aldrei gátum við fengið neitt prentað í
hendurnar. Videospólur sýndi hún okkur og myndir af eigendum. Þá sýndi
hún okkur íbúð sem hún kallaði sýnishorn - fimm stjörnu íbúð sagði hún,
en þar var þó enginn loftræstibúnaður. Þegar við bentum á það, sagði
hún að þess þyrfti ekki á Madeira. Enginn ofn var þar heldur, en
Susanne sagði að þess þyrfti ekki heldur. Hins vegar hafði
leigubílstjórinn sagt okkur að hitinn gæti farið niður fyrir 10° á
vetrum. Miðvikudagur 14. október. Þennan dag var bjart fyrst, en síðan skýjað, og um kvöldið kom ausandi rigning. Við biðum til kl. 11 eftir að hitta Wilmu og fengum þá leyst úr ýmsum spurningum. Wilma hjálpaði okkur til að fá flutning af annarri hæð upp á þá þriðju þar sem hávaði frá götunni var miklu minni, útsýnið betra og bjartara inni. Það tók okkur klukkutíma að flytja úr nr. 204 í 305. Í fyrstu áttum við að fá 304, en þar var maður fyrir, í baði, þegar við opnuðum. Mistök hótelsins! Svo tókum við strætisvagn í bæinn og litum í verslanir. Þær eru
dreifðar um allt, mest smáverslanir, en oft stærri þegar inn er
komið, og á mörgum hæðum. Flestar loka milli kl. 13 og 14 og þá fórum við
og fengum okkur að borða. Við völdum steik, ég nautasteik með
Madeirasósu en Guðný svínasteik. Hvort tveggja afar gott. Svo
ráfuðum við áfram um bæinn, skoðuðum fallegar byggingar og tókum
loks strætó heim á hótel. Á eftir fórum við á pósthús og í tvo
stórmarkaði. Þá lentum við í slíkri hellirigningu að fötin okkar
urðu rennblaut og þurftu sérstaka meðhöndlun um nóttina. Guðný
steikti afbragðs smásteik um kvöldið.
Fimmtudagur 15. október. Ég vaknaði með niðurgang og var með hann af og til allan daginn - ekki beint skemmtilegt það. Þó fórum við í bæinn að versla og vorum að til kl. 5, en þá voru þeir peningar á þrotum sem ég hafði sett í veskið (hitt var í peningaskáp á hótelinu). Visa kortið virkaði ekki þegar ein verslunin ætlaði að sannprófa það, svo að ekki var um annað að ræða en að halda heimleiðis. Ég þurfti þó einu sinni að hlaupa inn í opinbera byggingu og fá lögregluþjón til að vísa mér á klósett! Skúrir komu af og til þennan dag. Þegar heim kom tók Guðný sundsprett í sundlauginni á þaki hótelsins en ég hafði öðrum hnöppum að hneppa. Við borðuðum bara brauð og te, ég þorði ekki að hætta á meira. Regnveður mun vera óvenjulegt hér um slóðir í þessum mánuði. Áin sem rennur gegnum Funchal til sjávar var kolmórauð og litaði sjóinn langt út á haf. Ekki var ströndin vel hreinsuð. Baðstrendur eru engar á þessari eyju en finnast á annarri minni, Porto Santo. Frá hótelinu blasir við stærðar eyðieyja. Þar mun vera vatnslaust. Klósettmenning er ekki alls staðar beysin í Funchal; víða vantar setur og pappír. Sums staðar er þetta þó í lagi. Ég gerði heilmikla könnun á þessum hlutum í dag! Föstudagur 16. október. Nóttin var erfið hjá mér. Ég svaf varla meira en tvo tíma alls - endalaus niðurgangur. Var orðinn býsna máttfarinn að morgni og þorði ekki að fá mér neitt nema tebolla og smá brauðbita. Kl. 9:45 fórum við niður og hittum Wilmu. Hún benti mér á að fara í apótek, hvað ég gerði og fékk þar tvenns konar meðul, annað mjög áþekkt Bactrim, hitt eitthvað með góðkynja gerlum til að koma ró á gerlagróðurinn í þörmunum. Eftir léttan hádegisverð skruppum við í stórmarkaðinn og bættum við vistirnar. Öll matvæli (hráefni) virðast afbragð hér. Það rigndi snemma um morguninn, en síðan gerði sól og fínt veður með
vestan "kalda", þ.e. vestan "heita". Eftir hádegið fórum við á
pósthús og hringdum heim. Töluðum við börnin okkar, Mána og
Svanhildi, sem Þórhildur móðir Guðnýjar hafði umsjón með í fjarveru
okkar. Allt var í lagi hjá þeim, nema hvað eldavél Þórhildar hafði
bilað.
Ég fór í banka og tók peninga út á Visakortið. Kortið virkaði
fullkomlega. Svo tókum við það rólega í sólinni á svölunum. Guðný skrapp aftur
í sundlaugina á þakinu.
Fyrir ofan laugina gnæfir efsti hluti
hótelsins. Þar eru herbergi en ekki íbúðir. Ekki var ég alveg laus við niðurganginn. Ég
sagði við sjálfan mig að þetta yrði í síðasta sinn sem ég færi í
sólarlandafrí. (Það stóðst þó ekki.) Um kvöldið fór mér að líða
hálfilla, fékk skjálfta í sturtunni þrátt fyrir hitann inni. Taldi
meðalið (Bactrim-líki) eiga einhvern þátt í því og hætti að taka
það, en bætti við skammti af hinu. Svo gekk okkur illa að sofna út
af umgangi og hurðarskellum - líklega nýr hópur að koma. Hávaði
heyrðist líka úr næsta herbergi.
![]()
![]() Heim fórum við kl. 11 og fengum okkur bita. Guðný fór svo ein niður eftir aftur með sundföt. Hér er hvergi McDonalds og ekki hægt að finna Reader´s Digest nema á portúgölsku og þýsku. Ég keypti mér bók að lesa, skáldsögu eftir Asimov, miðlungi góða. Sótti svo Guðnýju niður á sundstað. Á eftir fór hún að póstleggja bréf. Ætlaði að koma aftur fyrir kl. 6, en það dróst fram undir kl. 7. Þá var farið að rökkva og byrjað að rigna, svo að ég var orðinn áhyggjufullur. Um kvöldið fór hún í sund uppi á þaki. Þar var enginn maður, enda orðið dimmt og komin rigning. Ég stóð þar með regnhlíf og handklæðið hennar. Um nóttina fékk ég verki í nárann og gat ekki sofnað fyrr en kl. 4. Sunnudagur 18. október. Við fórum seinna á fætur en venjulega, vöknuðum ekki fyrr en
kl. 7:40. Mér leið alveg þokkalega, og eftir morgunverð gengum við
vestur aðalgötuna og litum inn í minjagripaverslun þar sem við
keyptum eitthvað smávegis. Annars eru verslanir bæjarins að mestu leyti
lokaðar á sunnudögum. En stórmarkaðurinn var opinn svo að við gátum
birgt okkur upp af nauðsynjum. Eftir hádegismat fór Guðný í sólbað
upp á þak. Ég hef ekki borðað kökur eða sætindi síðan við fórum að
heiman, í heila viku. Það hlýtur að vera persónulegt met. Ég fór með
Canon myndavélina mína upp á þak til að taka myndir af
Guðnýju, en þá reyndist sjálfvirka linsan biluð. Sem betur fer var
ég með aðra myndavél, minni (Sony).
Seinna fórum við Guðný upp í efri hluta hótelsins, sem er 11 hæðir, og þar upp á þak til að skoða útsýnið. Með kvöldmatnum drukkum við sopa af Madeiravíni úr smáflösku, ekki þó svo mikið að maður fyndi á sér. Horfðum svo á sjónvarp, ágæta mynd um Elvis Presley. Úti gerði þrumuveður með tilheyrandi rigningu - einu sinni enn. Innfæddir segja að það eigi ekki að rigna nema sex daga í októbermánuði, það sé meðaltalið. Mánudagur 19. október. Klukkan rúmlega 9, eftir góðan morgunverð, fórum við út,
leituðum uppi álitlegan bílstjóra sem talaði góða ensku og sömdum
við hann um dagsferð um eyjuna. Því miður taldi hann ókleift að aka
um alla eyjuna á einum degi, en ráðlagði okkur að taka austurhlutann
fyrst. Við byrjuðum á að skoða blómagarð ofan við Funchal. Útsýni þaðan var afar fallegt. Síðan ætlaði bílstjórinn með okkur í einhverja körfugerð, en ég bað hann að fara beint upp í fjöllin, því að ég óttaðist að ský drægi fjótlega upp á himin. Hann ók þá með okkur upp í 1810 m hæð til Ariero, en þaðan er stórfenglegt útsýni til fjalla og út á sjó. Þaðan er tveggja klst. gangur norður til hæsta fjalls eyjarinnar, Pico Ruivo, sem er 1861 m á hæð. Stígurinn er mjór og fallega hellulagður.
Svo var ekið til Machico á austurströndinni og farið
upp á hæð þar sem útsýni var gott til austurodda eyjarinnar og yfir
til eyjarinnar Porto Santo. Í Machico skoðuðum við kirkju frá 16.
öld og gengum niður að sjónum.
Þarna var fiskiþorp, afar snyrtilegt, en yfir því gnæfði nýtísku hótel sem ekki féll inn í landslagið. Loks lá leiðin framhjá flugvellinum og inn í Funchal. Ókum við niður
ótrúlega bratta götu. Gatan sú endaði á torgi þar sem aftökur fóru
fram, allt til loka 19. aldar. Þriðjudagur 20. október.
Við vöknuðum kl. 7. Guðný sagði að nú væri illt í efni; hún væri
búin að fá verk í tönn sem Helgi tannlæknir hefði reynt að bjarga
með því að fjarlægja eina rótina. Okkur kom saman um að hætta við
ferðalagið, enda virtist ætla að verða skýjað. Eftir morgunmat fékk
ég símanúmer tannlæknis hjá hótelfólki og pantaði tíma.
Tannlæknirinn hét Richard Vidal og var Brasilíumaður. Hann var á
Clinica da Sé, sem sagt var besta læknastofan í bænum, rétt hjá
dómkirkjunni. Vidal sagði okkur að koma kl. 4. Síðan fór ég út í
banka og skipti DM 200 ferðatékka, en tapaði við það 1000 escudos sem
bankinn tók í þóknun. Þarna var mjög fallegt. Guðný fékk sér eggjaköku en ég reyndi við
túnfiskssteik sem er einn vinsælasti maturinn hér um slóðir. Ekki
fannst mér sá matur góður og leifði 3/4. Svo var ekið til suðurs og
upp á hásléttu, 1400 m háa. Þar lentum við í þoku og síðar rigningu
og vorum í rigningu mestalla leiðina heim. Á sléttunni sáum við kýr
á beit, en annars eru þær ein eða tvær saman í lokuðum kofum víðast
á eynni og sjá aldrei dagsljós. Á leiðinni var stansað í Ponta do
Sol þar sem útsýni við klettótta ströndina er tlkomumikið.
Við komum til hótelsins rétt fyrir kl. 4 og létum bílinn bíða
meðan við losuðum okkur við farangur. Síðan var ekið til
tannlæknisins. Umferð var afar þung í rigningunni og við vorum
kortéri of sein. Læknastofurnar reyndust vera inni í þröngstræti, og
var þar allt yfirfullt af fólki í stigum og göngum á mörgum hæðum.
Ekkert leist mér á skipulagið. Við fundum loks stofu dr. Vidal, en
þegar til kom var það ekki hann sem leit á Guðnýju heldur ung
stúlka, dr. Susanne. Hún skoðaði Guðnýju, tók mynd af tönninni, en
taldi ekkert alvarlegt á seyði. Guðný hafði engan verk haft síðan um
morguninn, en tannholdið var aumt. Susanne mælti með sterku og
bragðvondu munnskolvatni og skrifaði lyfseðil. Við spurðum hana í
leiðinni hvar við fengjum tannstöngla, því að við værum orðin
uppiskroppa með þá. Hún sagði okkur að tannstönglar þekktust ekki
þarna, en fyrir tilviljun hefði hún kynnst þeim sjálf því að
kærastinn hefði fært sér box frá Englandi. Bauðst hún til að útvega
okkur nokkur stykki og sendi okkur til kærastans sem átti krá
hinum megin við götuna. Við fundum krána, en eigandinn var ekki við.
Við reyndum tvisvar aftur, en árangurslaust. Miðvikudagur 21. október. Um morguninn var skýjað en ekki laust við að það væri að rofa til. Við ákváðum því að fara í seinna ferðalagið. Ég hringdi í bílstjórann og bað hann að koma kl. 9:30. Eftir morgunmat skrapp ég í stórmarkaðinn og keypti vistir og filmur. Guðný smurði nesti og við lögðum af stað. Fyrst var ekið upp fyrir Funchal svipaða leið og á mánudag, að stað sem heitir Camacha. Þar skoðuðum við körfugerð og keyptum nokkrar smákörfur. Úrvalið var glæsilegt.
Síðan var ekið til
Monte og við settumst í sleðakörfu sem tveir menn drógu niður bratt,
þröngt stræti um hálfan annan kílómetra, þangað sem bílstjórinn
beið okkar. Þessi ferðamáti mun vera ævaforn og einstakur í
heiminum. Við fórum aðeins hálfa leið niður að sjó. Leiðin öll er
líklega 3 km.
Ekki höfðum við legið lengi við laugina þegar ský dró fyrir sólu. Fórum við þá niður í íbúð. Á eftir skrapp ég út í næsta apótek, og viti menn - þar fann ég tannstöngla. Þeir voru að vísu dýrir, en hvað um það. Og allt í einu hrökk linsan á Canon vélinni í lag. Hún var í ólagi mátulega lengi, meðan við fórum í allar útsýnisferðirnar. Bílstjórinn sagði okkur að fáir yrðu efnaðir hér, nema þeir sem færu til útlanda til að vinna þar. Þeir kæmu oft aftur og settust að og byggðu fín hús. Nokkuð er um betlara hér. Ég hef gefið litlum strákum aur, svo og gamalli konu við dómkirkjuna. Hún hefur sennilega verið þurfandi, en strákarnir varla. Seinna fórum við Guðný saman á símstöðina. Lengi vel var á tali, svo fékk ég rangt númer (Háteigskjör!), en loks svaraði Svana dóttir okkar. Hún sagði allt gott af sér og þeim heima, nema það að eldavél Þórhildar, móður Guðnýjar, væri ónýt. Samtalið rofnaði tvisvar. Fimmtudagur 22. október. Ennþá einn sólarlítill dagur. Rigningarvottur fyrir hádegi, en
ekki til skaða. Ég byrjaði á því að fara út í banka. Ætlaði að nota
hraðbankann en hann neitaði að taka kortið mitt gilt. Í ljós kom að
hraðbankinn var bilaður og starfsmaður bankans afgreiddi peningana. Síðan
tókum við Guðný strætisvagn, gengum um öngstræti og skoðuðum alls
kyns verslanir. Guðný keypti peysu og eitthvað smávegis. Í hádeginu
fengum við okkur smábita á sérkennilegum kökubar þar sem aðallega
voru seldar kökur en líka pitsur, vínarbrauð með pylsum og brauð með
kjötfyllingu. Þarna fengust líka drykkir og te. Þegar lokað var kl.
13 fórum við heim í troðfullum strætisvagni. Eftir hádegið fórum við
upp þak til að vera í sólinni, en hún var næstum alltaf á bak við
ský - skýjabakkinn náði oftast rétt upp fyrir sólina. Guðný tók
sundsprett. Föstudagur 23. október.
Bjartara í lofti en undanfarna daga. Eftir morgunverð fórum við
niður á strönd á sundlaugarstaðinn Lido.
Eftir kvöldmat á veitingastað í grenndinni gengum við niður að Lido og horfðum á stjörnurnar. Ég sá Satúrnus í Steingeitinni, Bogmann og Vatnsbera. Venus hafði ég séð fyrr um kvöldið. Pegasus, Örninn og Svanurinn sáust vel. Ég áttaði mig ekki nógu vel á stjörnum sunnan við Vatnsbera og Steingeit. Rétt áður en ég fór að sofa fékk ég sjóntruflun af því tagi sem læknar vilja tengja við mígreni. Hafði fengið sams konar truflun rétt áður en ég fór að heiman. Laugardagur 24. október. Þegar leið á morguninn kom sólin fram og eftir það var steikjandi hiti. Við tókum strætisvagn í bæinn og vorum í búðarápi til hádegis. Eftir það var farið í sólbað uppi á þaki. Ég entist þar í tæpan klukkutíma en Guðný mun lengur. Ætlunin hafði verið að borða á veitingastað um kvöldið en Guðný vildi endilega borða heima, svo að við keyptum kjöt sem hún steikti og bar fram kartöflur, blómkál og brokkólí. Með pepsí var þetta herramannsmatur. Á eftir ætluðum við að horfa á sjónvarp, en það reyndist hörmulega leiðinlegt á öllum rásum, hvort heldur það var ítalskt sjónvarp, spánskt eða portúgalskt. Sunnudagur 25. október. Vð fórum á fætur kl. 7 eins og venjulega. Dagurinn virtist
bjartur og sólin lét sjá sig stöku sinnum, en aldrei lengi í einu.
Við fórum í langa gönguferð upp götur sem lágu upp brekkuna frá
hótelinu og gengum stóran hring. Rákumst á búð sem var opin, og
auðvitað var farið að versla. Guðný keypti handsaumaðan borðdúk
handa mömmu sinni. Í næstu búð vildi svo til að geitungur settist á
hálsinn á Guðnýju. Hún vissi ekki hvaða kvikindi þetta var, rak upp
skaðræðisóp og sló til flugunnar og kálaði henni, en þó ekki fyrr en
hún hafði náð að stinga Guðnýju í fingurinn. Stóð broddurinn fastur
í fingrinum, en Guðný kippti broddinum út. Ég hafði áhyggjur af
geitungsstungunni og spurði stúlku í móttökunni á hótelinu ráða. Hún
sagði að best væri að fá meðal í apóteki niðri í bæ. Við tókum bíl
þangað og fengum áburð við ofnæmi. Þótt ótrúlegt megi virðast varð
Guðnýju ekkert meint af þessu.
Um kvöldið fórum við á veitingastað á Lido svæðinu og pöntuðum dýrustu máltíðina þar, "Entrecote Bearnaise". Kjötið var fyrirtak. Svo pökkuðum við niður í töskur og fórum snemma að sofa. Mánudagur 26. október. Ég svaf í mesta lagi tvo tíma aðfaranótt mánudags. Bæði var hávaði í nágrönnum og svo var ég með óþægindi í maga. Eftir morgunverð kvöddum við hótelið. Þá var klukkan 8. Bíll frá Arke-Reisen ók okkur og fleirum út á flugvöll. Þangað komum við kl. 8:30. Þá tók við löng bið, því að vélin fór ekki fyrr en 11:15. Við spjölluðum við hollensk hjón sem höfðu verið þarna í viku. Þau höfðu komið til Madeira á hverju ári í 9 ár. Sögðu að Madeira væri miklu betri en Kanaríeyjar - allt væri fullt af kakkalökkum á Kanarí! Brottförin tafðist af því að vélin var troðfull af farþegum (138
manns) og flugbrautin svo stutt að það þurfti að tappa helmingi
bensíns af fyrir flugtak. Af því leiddi að vélin gat ekki flogið
beint til Amsterdam heldur varð að millilenda í Lissabon. Það
kostaði 30 mínútna töf þar. Til Amsterdam komum við kl. 16:45 að
staðartíma (15:45 eftir Funchaltíma). Þá var ég orðinn afar
þreyttur. Sætin voru slæm, allt of lítið bil milli þeirra og
endalausar biðraðir við klósettin sem eru aðeins tvö í þessum vélum
(Boeing 737-700). Maturinn kom seint og var lélegur. Miðvikudagur 28. október.
Við vöknuðum kl. 7 eins og venjulega eftir ágætan svefn. Rigning
var úti, en stytti upp kl. 10. Við morgunverðinn reyndum við að fá
betra te með því að biðja um tepoka og sjóðandi vatn, en vatrið
neyndist moðvolgt. Annars allt í lagi. Guðný var með höfuðverk sem
lagaðist ekki fyrr en við vorum komin í verslunargötuna klukkan að
ganga 10.
Þá tókum við sporvagn til Rijksmuseum þar
sem við skoðuðum málverk og marga undurfagra gripi í góða stund.
Fengum okkur smábita í ágætum veitingasal þar. Gengum svo heim
á hótel. Var það talsverður spölur. Fimmtudagur 29. október. Flugvélin fór næstum því á réttum tíma, kl. 14:05. Flugið til
Keflavíkur tók rúmar 3 klst. Við lentum kl. 16:15 eftir íslenskum
tíma. Máni beið á vellinum með Camryinn og ók okkur heim. Dimmt var
í lofti. Um kvöldið sóttum við Svönu út á Seltjarnarnes þar sem hún
var í teiknitíma. 1.5. 2021 |