Í fréttum er iðulega vitnað til svonefndra jafnréttislaga, sem í
rauninni heita "Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og
karla". Þar sem jöfn staða hefur forgang í heitinu og jafnvel í
lögunum líka, ætti fremur að kalla lögin jafnstöðulög en
jafnréttislög. Lög með þessu heiti voru upphaflega sett árið
2000, en voru endurskoðuð árið 2008. Allt frá því að upphaflegu
lögin voru samþykkt á Alþingi hef ég undrast að enginn skuli
hafa vefengt gildi þeirra fyrir dómstólum. Lögin virðast ganga í
berhögg við stjórnarskrá þar sem þau leggja blessun sína yfir
atferli sem er andstætt 65. grein stjórnarskrárinnar. Sú grein
er svohljóðandi:
"Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna." Þessi grein stjórnarskrárinnar er afdráttarlaus, og er hvergi gert ráð fyrir neinum undantekningum. Þrátt fyrir það stóð í upphaflegri útgáfu jafnréttislaganna að mismunun eftir kynferði væri leyfileg þegar um væri að ræða aðgerðir til að koma á "jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna". Í núgildandi útgáfu er þetta orðað á óbeinni hátt (í 24. grein): "Hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil. Þó teljast sértækar aðgerðir ekki ganga gegn lögum þessum". Skýringuna á því hvað felist í sértækum aðgerðum er að finna annars staðar (í 2. grein): "Sértækar aðgerðir: Sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á ákveðnu sviði þar sem á annað kynið hallar. Þar getur þurft tímabundið að veita öðru kyninu forgang til að ná jafnvægi." Ekki er útskýrt hvað átt er við með jafnri stöðu en ljóst er að þessar "sértæku aðgerðir" fela í sér mismunun eftir kynferði því að ákvæðið er beinlínis sett fram sem undantekning frá banninu við mismunun. Gallinn er sá að stjórnarskráin leyfir enga slíka undantekningu. Í 15. grein jafnréttislaganna segir svo: "Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að". Með öðrum orðum, kynferði á að skipta máli þegar valið er í nefndir, ráð og stjórnir. Það merkir að tiltekinn einstaklingur hefur ekki sama möguleika og annar einstaklingur af öðru kyni til að fá sæti í viðkomandi nefnd eða ráði. Þetta er brot á 65. grein stjórnarskrárinnar. Í 26. gr. laganna segir: "Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu. Þetta ákvæði gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni". Enga slíka undantekningu frá jöfnum réttindum er að finna í stjórnarskrá. Í þessari grein laganna er verið að gefa því undir fótinn að það sé í lagi að sniðganga stjórnarskrána ef tilgangurinn er góður. "Í augum okkar alþingismanna á stjórnarskráin að vera heilög" var sagt á Alþingi í júlí 2004. Fallega mælt, en heldur ógætilega eins og ofangreint dæmi sýnir. Um þessar mundir er mikið rætt um endurskoðun stjórnarskrárinnar. En hvaða tilgangi þjónar endurskoðun ef alþingismenn virða ekki stjórnarskrána? Þorsteinn Sæmundsson Sett á vefsíðu 26. 5. 2011. Mynd bætt við 20.9. 2020. |