Ingilaug Guðmundsdóttir – minningarorð
Andlát Ingilaugar, kærrar vinkonu okkar, kom ekki á óvart,
því að hún hafði átt við veikindi að stríða. Hversu alvarleg þau voru var
reyndar ekki vitað fyrr en í janúar á þessu ári, þegar hún var lögð inn á
Landspítalann til rannsóknar. Við kynntumst Ingu eftir að hún giftist frænda
Þorsteins, Brynjólfi í Núpstúni, árið 1965. Í hálfa öld höfum við heimsótt þau
hjón og notið gestrisni þeirra í hvert sinn sem við höfum komið í sumarbústað
okkar í Núpstúni. Inga gætti barna okkar í nokkur skipti þegar þau lítil, og
vorum við afar þakklát henni fyrir það. Brynjólfur sinnti þeim einnig, og bæði
hjónin reyndust börnunum góðir vinir þegar þau uxu úr grasi. Brynjólfur féll frá
á síðasta sumri eftir langvarandi veikindi. Sá tími hafði verið erfiður fyrir
Ingu, en Páll og Margrét, sem tóku við búinu af Brynjólfi, reyndust henni
traustir og umhyggjusamir nágrannar. Oft er sagt að maður komi í manns stað, en
það verður tómlegt að koma í Núpstún þegar Inga er horfin á braut. Við vottum
aðstandendum hennar innilega samúð okkar. Þorsteinn og
Guðný |
![]() |