Hrólfskviða
Rolf Karlberg hét Svíi sem stundaði nám í eitt misseri við
háskólann í St. Andrews í Skotlandi, árið 1955. Hann bjó á sama stúdentagarði
og ég, og við urðum mestu mátar. Karlberg var mikill málamaður og
talaði fjölda tungumála, þar á meðal dönsku eins og innfæddur, og
hygg ég það sé óvanalegt um Svía.
Karlberg vildi alltaf tala dönsku við mig til þess að samstúdentar
okkar skildu okkur ekki. Hann var mjög gamansamur og gerði einatt
gys að nærstöddum, einkum þýskum stúdentum, því að honum var mjög í
nöp við Þjóðverja og kunni margar sögur af illvirkjum þeirra á
stríðsárunum. Íslensku talaði hann bærilega, hafði verið samtímis
Örnólfi frænda mínum Thorlacius í Lundi og lært málið af honum.
Rolf Karlberg í hefðbundinni skikkju
stúdenta í St. Andrews |
Karlberg var lágvaxinn og fremur þrekinn. Hann þjáðist af sykursýki,
sem að líkindum hefur orðið honum að aldurtila fáum árum síðar. Ég
dreg þá ályktun af því, að bréf hættu að berast frá honum.
Þegar Karlberg kvaddi St. Andrews, í mars 1955, lét ég hann fá nokkrar vísur sem ég hafði barið saman og kallað Hrólfskviðu. Til að skilja kveðskapinn þarf lesandinn að vita
að St. Andrews er í héraði sem heitir Fife og ég kalla þarna Fífusveit
þótt merking nafnsins sé óþekkt (það mun komið úr gelísku).
Hrólfur kappi er heljarstór
við hurðarlása ber
Ekki er hann mittismjór
en mátulega sver
Svíakóngur sendir þann
sem hann bestan veit.
Engan væskil hefur hann
hér í Fífusveit
Í víkingu hann sigldi um sæ
í svaðilförum stóð
Veiðibjöllum veitti hann hræ
og valköstunum hlóð
Við blámennina barðist hann
og bitru sverði hjó
og heldur ekki af hólmi rann
í heitum Miðgarðssjó
Sumir hafa sagt við mig
þeir sæju á ferðum hans
hve glögglega hann gengi á svig
í greipar Þýskalands
Með Adolf barðist okkar vin
allt til Stalingrad
Beria og Bulganin
báðir vissu um það
Hér er lítt af hraustmennum
ef Hrólfur tækí á rás
Churchill gamli situr um
að setja hann undir lás
Vaki allir vaskir menn,
voði ber á dyr
Af hafi kemur Hrólfur senn
hann fær alltaf byrSyngur hátt í reiða og rá
riðar færleikur.
Hrólfur liggur aftur á
ærið sjóveikur
|
Þ.S. 17.7. 2017
Forsíða
|