Móðir mín

eftir Þorstein Sæmundsson
 

(Erindi fyrir vistmenn á Grund, flutt 15. júlí 2015, lítillega lagfært. Nokkrar myndir, sem flestar voru sýndar á Grund, fylgja á eftir textanum.)

 

Séra Pétur Þorsteinsson hefur farið þess á leit að ég segi hér nokkur orð um móður mína, Svanhildi Þorsteinsdóttur.


Ég býst við að flestir tengist móður sinni sterkari böndum en föðurnum þótt báðir foreldrar séu kærir. Svo var um mig, og fæ ég aldrei nógsamlega þakkað móður minni fyrir ástríki hennar. Þegar ég fæddist var mamma nálægt þrítugu. Meðan hún lifði velti ég því sjaldan fyrir mér hvað kynni að hafa drifið á daga hennar á fyrri hluta ævinnar, þótt ljósmyndir sem hún átti vektu stundum forvitni mína.  En eftir hennar dag réðst ég í það að fara yfir fjöldann allan af bréfum, myndum og dagbókum sem hún hafði varðveitt. Við það fékk ég innsýn í liðinn tíma og uppgötvaði margt áhugavert. Nú á dögum er fólk hætt að skrifa sendibréf og ég er hræddur um að þar fari mikill fróðleikur forgörðum.

 

Móðir mín var fædd í nóvember 1905. Í minningargrein sem Sigurður Nordal ritaði eftir lát hennar segir hann:
 

"Frá vetrinum 1909-1910, sem ég dvaldist í Reykjavík, er mér fátt öllu minnisstæðara en roskinn maður sem leiddi við hönd sér fimm ára gamalt stúlkubarn  um fáfarnar götur Þingholtanna, enda varð víst fleirum starsýnt á þau. Maðurinn var Þorsteinn Erlingsson, sem var ekki einungis þjóðkunnugt skáld, heldur með yfirbragð sem hvarvetna hlaut að vekja eftirtekt. Litla stúlkan var Svanhildur dóttir hans, óvenjulega fallegt og yndislegt barn, ljóshærð og bláeyg, mjög lík föður sínum."

 

Móðir mín var á níunda ári þegar faðir hennar lést. Það hefur verið mikið áfall fyrir barnið að missa föður sinn svo snemma. Hún mundi hann vel og minntist hans oft. Í bókinni Veðrabrigði sem nýlega kom út og ég mun víkja að síðar, er frásögn þar sem mamma lýsir samverustund með föður sínum.

     

Þröngt var í búi meðan Þorsteinn Erlingsson lifði og ekki hefur fráfall hans bætt úr skák. Börnin voru þrjú; mamma átti yngri bróður, Erling og eldri hálfbróður, Brynjólf.  Húsið var allt í skuld. Sex árum eftir andlát afa segir mamma  frá því í dagbók að móðir hennar hafi loksins getað leyst ábyrgðarmenninna frá hússkuldinni svo að "bráðum getur okkur farið að líða vel" skrifar hún. Hún er þá á 15. ári.

 

Heimilið í Þingholtsstræti var að vissu leyti einstakt og það hefur áreiðanlega sett sitt mark á móður mína. Þar var ótrúlega gestkvæmt; þangað komu nær daglega skáld og menntamenn sem verið höfðu aðdáendur Þorsteins Erlingssonar. Ragnar Jónsson í Smára lýsir þessu í viðtali árið 1961. Ragnar segir:

 

"Á heimili Guðrúnar Erlings var mikið leikið á hljóðfæri, rætt um bókmenntir af miklum hita, trúmál, heimspeki og stjórnmál. Eg efast um að nokkur háskóli hafi haft upp á meiri og fjölbreyttari menningaráhrif að bjóða en heimili Guðrúnar Erlings í Þingholtsstræti 33."

 

Ragnar nefnir hljóðfæraleik og kann það vísa til þess að mamma lærði snemma að leika á píanó.  Þegar hún var sjö ára gáfu foreldrarnir henni nótnabók. Þorsteinn afi  áritaði bókina með vísu sem prentuð er í Þyrnum og hefst með orðunum: "Syngdu litla Svana mín". Mamma hafði góða söngrödd og var oft fengin til að syngja. Annað áhugamál hennar var leiklist. Um 12 ára aldur lék hún í leikritinu Óla smaladreng, sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi, og síðar lék hún í leikritunum Ímyndunarveikinni og Nýársnóttinni. Þá lék hún í kvikmyndinni Ævintýri Jóns og Gvendar, sem var fyrsta kvikmynd Lofts Guðmundssonar, frumsýnd árið 1923 í Nýja Bíói. Sú mynd fékk slæma dóma. Loftur gerði síðan aðra kvikmynd, Ísland í lifandi myndum, sem var frumsýnd 1925. Líklegt er að þaðan séu myndbrot sem oft hafa verið sýnd í sjónvarpi, þar sem mamma sést gangandi í upphlut á Suðurgötu og einnig sem sveitastúlka með fötu í hendi. Þá hefur hún verið um tvítugt.

 

Mamma þótti óvenju fríð og völdust margar myndir af henni á póstkort. Hún átti fjölda aðdáenda, bæði hérlendis og erlendis, og hafa bréf frá nokkrum þeirra varðveist. Eitt þeirra er frá Ásgrími Jónssyni málara, en bréfið ritar hann til móður minnar þegar hún er að fermast í Hrunakirkju. Bréfið er skreytt með vatnslitamynd, en einnig er  til olíumálverk af mömmu á unglingsaldri, sem Ásgrímur málaði og gaf henni. Í dagbók kemur fram að Ásgrímur hafi gefið mömmu veglega fermingargjöf. Ljóst er að hann hefur verið heillaður af stúlkunni, sem var þrjátíu árum yngri en hann sjálfur.

 

Af fermingunni er það að segja, að áður en hún fór fram þurfti að skíra mömmu, því að hún hafði aldrei hlotið skírn af presti. Vafalaust hefur það stafað af andstöðu afa míns, Þorsteins Erlingssonar, við trú og kirkju, sem þekkt er af kvæðum hans. Guðrún amma mín var aftur á móti sanntrúuð kona og bað hún frænda sinn, séra Kjartan Helgason í Hruna að skíra mömmu og ferma. Var það gert sama daginn.
 

Mamma hafði mikinn áhuga á tungumálum. Dönsku lærði hún í barnaskóla, og dálítið í ensku, en síðan bætti hún við fleiri málum. Þegar hún er 15 ára, byrjar hún sænskunám í einkatímum hjá Dóru Þórhallsdóttur og Ásgeiri Ásgeirssyni, síðar forseta, í Laufási við Laufásveg. Í apríl 1921 segir Dóra henni að meira geti hún ekki kennt henni og að hún ætti að fara til Svíþjóðar til að tileinka sér framburð og auka við kunnáttuna. Í júlí 1925 fer mamma til Svíþjóðar og dvelur þar í fimm mánuði hjá Viggó Zadig, miklum tungumálamanni sem hafði numið íslensku hjá Þorsteini Erlingssyni. Ég hef lesið frásögn finnsks ferðamanns sem hitti móður mína seinna meir austur í Fljótshlíð og spurði hana til vegar. Hann sagði að hún hefði talað sænsku svo vel að hún hefði getað verið Stokkhólmsdama.

 

Ensku og frönsku lærði mamma í tímum hjá franska konsúlnum André Courmont. Samskipti þeirra Courmonts eru sérstakur kafli í lífi mömmu. Um þau hefur mikið verið skrafað á liðinni tíð en lítið sem ekkert fært í letur. Courmont var einstakur tungumálamaður sem tileinkaði sér íslensku svo vel að enginn útlendingur mun hafa náð slíkri færni nema ef til vill Daninn Rasmus Kristian Rask, einhver mesti málasnillingur 19. aldar. Þess má geta að eitt nýyrði í íslensku er frá Courmont komið. Er það orðið "litróf", sem er þýðing á erlenda orðinu "spectrum".
 
Franska sendiráðið var við Skálholtsstíg, steinsnar frá húsi Þorsteins Erlingssonar við Þingholtsstræti, þar sem mamma átti heima. Þorsteinn lést árið 1914. Árið 1920, þegar mamma er á 15. ári, verður Courmont  heillaður af henni. Hann segir við ömmu að Svanhildur sé fegursta stúlka sem hann hafi séð og býðst til að kenna henni frönsku. Það verður úr að mamma lærir hjá honum frönsku og einnig ensku, en Courmont hafði meistarapróf í því máli frá Oxfordháskóla. Varðveist hefur fjöldi bréfa sem Courmont skrifaði mömmu, fyrst á ensku og íslensku, síðan á frönsku og stundum á öllum þremur málunum í sama bréfi. Á rösklega tveggja ára tímabili hef ég fundið 65 bréf og skeyti til mömmu frá Courmont, Bréfaskriftirnar stafa sumpart af ferðalögum þeirra hvors um sig, en bréfafjöldinn er samt með ólíkindum. Í síðustu bréfunum kemur fram að Courmont hafi viljað kvænast mömmu en hún ekki viljað samþykkja það þótt hann væri henni mjög kær. Foreldrar hans voru líka andvíg slíkum ráðahag þar sem  þau höfðu ætlað honum annað kvonfang.

Síðla árs 1923 fór Courmont af landi brott og skömmu síðar var hann allur. Hann mun hafa  svipt sig lífi, aðeins 33 ára að aldri. Þegar tíðindin spurðust til Íslands urðu margir til að syrgja hans. Dagblaðið Tíminn helgaði forsíðuna minningargrein um Courmont eftir ritstjórann, Jónas frá Hriflu, og er það sennilega einsdæmi að erlendur maður sé þannig heiðraður í íslensku dagblaði. Þá fjallaði Sigurður Nordal um Courmont og störf hans í langri ritgerð.  Sú saga gekk staflaust að Courmont hefðu fyrirfarið sér vegna þess að hann fékk ekki að eiga móður mína, en ég hygg að fleira hafi komið til. Þessi mikli gáfumaður gekk ekki heill til skógar. Hann hafði særst alvarlega í heimstyrjöldinni fyrri, og þótt hann næði sér smám saman líkamlega er sennilegt að andlega áfallið hafi orðið varanlegra. Síðasta árið hans á Íslandi einkenndist af miklu þunglyndi.
 

Fréttin um fráfall Courmonts olli mömmu mikilli sorg. Móðurbróðir minn, Erlingur Þorsteinsson, segir frá því í endurminningum sínum. Svanhildur var þá 18 ára en Erlingur 12.

 

Í ársbyrjun 1926, eftir hálfs árs dvöl í Svíþjóð sem fyrr er getið hélt móðir mín til Parísar þar sem hún stundaði nám í frönsku og frönskum bókmenntum og tók kennarapróf í frönsku. Eftir heimkomuna í júní 1926 auglýsti hún einkatíma í frönsku og stundaði þá kennslu í allmörg ár.
 

Af frönskukennslunni er skemmtileg saga. Jóhannes Kjarval var góður vinur móður minnar og reyndar föður míns líka, löngu áður leiðir foreldra minna lágu saman. Árið 1928 var Kjarval staddur í París og ritar þaðan svohljóðandi bréf til mömmu:

 

París Rue Schoelcher
      apríl 1928


Svana mín

Góða gerðu mér nú stóran greiða! Farðu suður í Hafnarfjörð og finndu hana mömmu - hún liggur á spítalanum þar. Ég ætla að biðja þig að kenna henni frönsku. Mamma er mállaus - hefur verið það í nokkur ár. Hún er stórgeðja kona og hefur reynt mikið, og ég hugsa að hún hafi verið orðin svo þreytt af að tala íslensku að hún hafi misst málið. Geturðu ekki farið einsog tvisvar í viku til hennar? - Bílferðir - hressandi loft á milli stöðvanna. Áttu tíma til þessa arna? Ragnar má draga frá því sem hann er vanur að senda mér - það sem þú lætur þetta kosta. Og svo borga ég þér auk ef eykst. En þú mátt ekki láta vantrú, ef Ragnar á, aftra þér þessu - hann á að virða þetta sem list.

Góð kveðja mömmu þinni. Blessaðar.

Jóhannes Sveinsson Kjarval, París"
 

 

Sá Ragnar sem Kjarval nefnir í bréfinu mun vera Ragnar í Smára.
 

Árið 1929 kynntist mamma föður mínum, Sæmundi Stefánssyni, og þau trúlofuðust árið eftir. Sama ár fór hún að vinna á skrifstofu Alþingis og starfaði þar í tólf ár. Með henni á skrifstofunni var önnur Svanhildur. Sú var Ólafsdóttir, dóttir stærðfræðingsins Ólafs Dan Daníelssonar. Meðal þingmanna var skrifstofan kölluð "Álftaver" af skiljanlegum ástæðum. Eitt sinn efndu þær nöfnur til verðlaunasamkeppni meðal þingmanna um bestu vísuna um Álftaver. Alls bárust 19 vísur, sem varðveittar eru innbundar í bók. Dómnefnd veitti Hermanni Jónassyni þáverandi forsætisráðherra verðlaunin. Vísa Hermanns var svona:
 

Allt mitt líf er eintóm leit
eftir villisvani
en ég er eins og alþjóð veit
aðeins kollubani.

Vísan vitnar til þess að Hermann hafði verið sakaður um að skjóta æðarkollu, en þær voru friðaðar.

Mamma sagði mér aðra sögu sem snerti Hermann. Árið 1939 var Agnar Kofoed Hansen flugmálastjóri skipaður ríkislögreglustjóri. Einhverju sinni átti Hermann erindi á skrifstofu Alþingis. Þá verður mömmu að orði: "Mikið er hann líkur yður þessi nýi lögreglustjóri." Hermann svaraði engu, en gekk út. Þá segir Svanhildur Ólafsdóttir: "Drottinn minn, Svana. Veistu ekki að það er altalað að Agnar sé launsonur hans?". En mamma hafði í sakleysi sínu aldrei heyrt þennan orðróm. Hermann mun um skeið hafa búið hjá þeim Kofoed-Hansen hjónum, og varð það að sjálfsögðu til að gefa sögunni byr undir báða vængi.

Foreldrar mínir gengu í hjónaband árið 1932. Þremur árum síðar fæddist fyrsta barn þeirra,  það sem hér stendur. Síðan liðu 11 ár þar til yngri bróðir minn,  Stefán, kom í heiminn. Þá var mamma fertug. Mamma sinnti okkur drengjunum báðum af stakri ástúð svo að ekki varð á betra kosið. Þegar ég stálpaðist aðstoðaði hún mig í málanámi, bæði í ensku og frönsku. Þegar ég fór til háskólanáms erlendis skrifaði hún mér bréf svo til vikulega í átta ár. Þessi bréf voru mér afar kærkomin, en eftir á að hyggja sé ég að þetta hefur tekið frá henni dýrmætan tíma og valdið því að henni varð minna úr verki við skáldsagnaritunina, sem var hennar helsta áhugamál.

Fyrsta smásagan sem móðir mín lét frá sér fara birtist í ritinu Dropar sem út kom árið 1927. Á næstu árum fylgdu fimm smásögur í viðbót sem birtust í öðru hefti Dropa, Eimreiðinni og víðar, þar á meðal í tímariti Þjóðræknisfélags Íslendinga vestanhafs. Árið 1943 gaf hún út bókina Álfaslóðir með tólf smásögum. Bókin fékk mjög góða dóma 1) og menn væntu mikils af framhaldinu. En þótt mamma gripi af og til í skriftir varð ekki af frekari útgáfu meðan hún lifði. Þegar hún lést skildi hún eftir sig þrettán óbirtar smásögur og þá fjórtándu í smíðum. Hún hafði látið það í ljósi að hún myndi gefa sögurnar út þegar þær yrðu tólf talsins. Nú voru sögurnar orðnar fleiri, og spurningin var, hvers vegna mamma hefði ekki látið verða af útgáfunni. Hugsanlegt var að hún hefði ekki verið fyllilega ánægð með eitthvað af  því sem komið var. Af þeirri ástæðu hikaði ég við að birta sögurnar, en gerði það loks á þessu ári í samvinnu við Stefán bróður minn. Bókin hlaut nafnið Veðrabrigði.

1) Sjá þó gagnrýni hér

Mamma tók þátt í félagsstörfum sem ritari í Rithöfundafélagi Íslands og í samtökunum Alliance Francaise,  en  tími hennar fór annars að mestu leyti í að sinna heimilinu og börnunum. Hjónaband hennar og föður míns var farsælt lengst af, en lauk því miður með skilnaði eftir þrjátíu ár. Sá skilnaður var móður minni þungbær. Hún var aðeins sextug þegar hún lést, skömmu eftir skilnaðinn. Í eftirmælum um móður mína komst fjölskylduvinur okkar, Víglundur Möller, svo að orði:

 "Svanhildur var óvenjulega sönn og heilsteypt manneskja. Hún var búin svo mörgum og miklum mannkostum að ég leyfi mér að fullyrða að sjaldgæfir séu allir í fari einnar persónu. Ég held að hún hafi verið af þeirri fágætu manngerð sem ekki getur gert rangt vísvitandi. Ekkert verkefni daglegs lífs var í hennar augum svo smátt að til þess bæri ekki að vanda svo sem best mátti verða."

Ég hygg að þessi lýsing Víglundar sé verðskulduð og geri hana að lokaorðum mínum.

Mynd af ömmu minni, Guðrúnu, með Svanhildi á fyrsta ári. Engin mynd hefur fundist sem sýnir Þorstein Erlingsson með dóttur sína. Aðeins örfáar myndir eru til af Þorsteini sjálfum.

Þarna er mamma nokkrum árum eldri. En hver heldur í hönd hennar og hvers vegna er sá klipptur frá?

Málverkið sem Ásgrímur málaði og gaf mömmu

Fermingarmynd af mömmu

Ódagsett mynd af mömmu nálægt fermingaraldri

Þessi mynd mun vera úr leikritinu Ímyndunarveikinni eftir Molière sem Leikfélag Reykjavíkur sýndi og mamma lék í

Þessi mynd mun vera úr kvikmynd Lofts Guðmundssonar, Ísland í lifandi myndum, sem frumsýnd var árið 1925

 

Þessa mynd tók André Courmont á Sandskeiði 20. júní 1920. Á myndinni sjást, auk bílstjórans, Guðrún amma, Svanhildur og Erlingur bróðir hennar. Courmont tók bílinn á leigu. Bílstjórinn var Egill Vilhjálmsson sem síðar varð þekktur bifreiðasali í Reykjavík. Í dagbók mömmu segir að aur og krap hafi verið þarna á veginum svo að vorið hefur verið í kaldara lagi. Bifreiðin mun vera af gerðinni Overland, árgerð 1918.

Mynd sem Courmont tók af móður minni árið 1923. Myndin er tekin í franska sendiráðinu og er ein af sex litmyndum sem Courmont tók og varðveist hafa. Munu þetta vera fyrstu litmyndir sem teknar voru hér á landi.  

Móðir mín og besta vinkona hennar, Ásfríður Ásgríms (Dúa). Þær voru nær óaðskiljanlegar á æskuárunum. Courmont tók myndina, líklega í franska sendiráðinu.
 

Þessa mynd tók Courmont á einhverju af mörgum ferðalögum hans og móður minnar. Því miður veit ég ekki með vissu hvar myndin er tekin, en giska á Gjá í Þjórsárdal. Stækkun af þessari mynd, 43 x 57 cm í ramma hékk á vegg í svefnherbergi í húsi ömmu við Þingholtsstræti þegar ég man fyrst eftir. Courmont hefur líklega stækkað myndina sjálfur og gefið móður minni. Nokkur munur er á stækkuninni og myndinni hér að ofan, sem er úr ljósmyndamöppu. Mynd af stækkuninni er hér fyrir neðan.


 

 

 

Ein af mörgum póstkortsmyndum af móður minni
 

Önnur mynd á póstkorti

Mynd sem sænski málarinn Nils Dardel málaði af móður minni í París árið 1926. Dardel (1888-1943) er einn þekktasti málari Svía.

 

Myndin sem veitt var í verðlaun fyrir bestu vísuna um "Álftaver". Þarna sjást þær nöfnur, Svanhildur Þorsteinsdóttir og Svanhildur Ólafsdóttir á skrifstofu Alþingis árið 1935.

 

Þessa mynd af mömmu á fullorðinsárum tók Jón Kaldal ljósmyndari


Önnur mynd Kaldals

Heiðurspeningur sem mamma fékk fyrir störf sín hjá fransk-íslenska félaginu Alliance Francaise
 

Þessa mynd tók ég árið 1954

Þessa mynd tók ég árið 1958

(1943)



(2015)

Þ.S. 26.8. 2015. Nokkrum myndum bætt við. Efnisatriði leiðrétt 13.12. 2020. Síðasta viðbót 3.9. 2023

Forsíða