Frímerkjasöfnun

Söfnun frímerkja var vinsæl tómstundaiðja fyrr á tíð. Ég hygg að faðir minn hafi hvatt mig til að sinna þessu viðfangsefni þegar ég var drengur, á aldrinum 10 til 14 ára eða þar um bil. Pabbi færði mér reglulega frímerki sem honum áskotnuðust í sínu starfi. Sem heildsali og innflytjandi átti hann í bréfaskiptum við menn í ýmsum löndum. Hann kom mér líka í samband við erlenda safnara. Einn þeirra var í Englandi, annar í Hollandi, sá þriðji í Suður-Afríku. Þeim fjórða kynntist ég í utanferð með foreldrum mínum. Sá var tollvörður í Gautaborg. Allir höfðu þeir áhuga á frímerkjum frá Íslandi og þáðu með þökkum það sem ég sendi þeim þótt sjaldnast væru það fágæt merki.

Þetta gamla frímerkjasafn mitt hefur legið óhreyft áratugum saman inni í skáp. Um daginn tók ég það fram og fannst það býsna forvitnilegt. Safnið er ekki vandað í sjálfu sér eða verðmætt. Ég varðveitti ekki umslögin eins og alvöru safnarar gera, heldur leysti frímerkin frá þeim í vatni. Það sem mér finnst merkilegt núna er sagan sem þessi frímerki geyma. Mörg þeirra eru gefin út af sérstöku tilefni, og bak við þau er oft áhugaverð saga. Þarna eru frímerki frá nýlendum sem seinna öðluðust sjálfstæði, og mörg landanna hafa síðan breytt um nafn. Eitt lítið og óásjálegt merki ber vitni um óðaverðbólguna í Þýskalandi á árunum eftir fyrri heimstyrjöldina. Skráð verðgildi þess er 20 milljarðar marka!  Sum frímerkjanna heiðra merka menn, byggingar og sögulega staði. Ég hygg að sá fróðleikur sem þessi merki geyma hafi að mestu leyti farið fram hjá mér þegar ég var að safna sem drengur. Sum merkjanna eru svo óræð útlits að erfitt var að ráða í hvaðan þau væru. Nú á dögum er hægt að komast að þessu með því að leita á veraldarvefnum og skoða myndir af frímerkjum þar. 

Mér til gamans hef ég tekið saman yfirlit yfir þetta gamla safn mitt og tengt það myndum af blöðum í frímerkjabókinni.  Yfirlitið er í þessari skrá. Þarna er tilgreint íslenskt nafn landsins svo og landsheitið á frímerkinu og loks núverandi heiti,  hafi það breyst. Ef smellt er á nafn í skránni fæst mynd af frímerkjum viðkomandi lands (og hugsanlegra fleiri landa á sömu blaðsíðu í frímerkjabókinni). Þarna eru eingöngu erlend merki. Íslensku merkin sem ég safnaði eru í annarri bók sem ég mun fjalla um síðar ef færi gefst.

 

Þ.S. 2.9. 2017

Forsíða