Þorsteinn Sæmundsson

Frækileg mistök

Erindi flutt á bekkjarsamkomu 21. maí 2015


Ágætu bekkjarsystkin.

Ég ætla að segja hér nokkur orð um skemmtilega bókaröð sem ber nafnið Heroic Failures, eða frækileg mistök. Höfundurinn,  Stephen Pile, hefur safnað alls kyns sögum af hrakfallabálkum og kostulegum óhöppum. Hér koma fáein dæmi.

Í mars 2001 var haldin ráðstefna lýðheilsufræðinga í Colindale í Norður-London. Fundarefnið var matareitrun, með sérstakri áherslu á drykkjarvatn. Ekki var að sökum að spyrja.  Af 87 þátttakendum veiktust 30 af matareitrun sem rakin var til hádegisverðar á ráðstefnunni. Talið var að mengað drykkjarvatn væri líklegasta orsökin. Um þetta segir Stephen Pile að fræðikenningar séu svo sem ágætar, en ekkert jafnist á við persónulega reynslu.

Þegar járnbrautirnar í Bretlandi voru einkavæddar, tók fyrirtæki að nafni Railtrack að sér að gefa út nýja tímatöflu, 2100 blaðsíður að stærð. Í henni voru svo margar villur að prenta þurfti leiðréttingabók upp á 57 síður. Það var í sjálfu sér frásagnarvert, en leiðréttingabókin sjálf reyndist vera í algjörum sérflokki. Til að leiðrétta hana þurfti aðra bók upp á 246 síður. Þar með var ekki öll sagan sögð, því að þessi seinni leiðréttingabók reyndist ekki villulaus heldur. Villurnar voru að vísu ekki eins margar og í þeirri fyrri, en þeim mun merkilegri. Talsmaður notenda sagði að járnbrautarlestir birtust á einni síðu en hyrfu á þeirri næstu og að ráðgátur af því tagi væru algjört nýmæli í tímatöflum. Safnarar sögðu að það væri synd að öllum bókunum, áttatíu þúsund talsins hefði verið eytt. Menn hefðu átt að varðveita eintök fyrir komandi kynslóðir.

P & O (Peninsular and Oriental Steam Navigation Company) er virt skipafélag, sem varð fyrst allra til að reka skemmtiferðaskip. Árið 2005 auglýsti félagið ferðina miklu, Grand Voyage, 103 daga ferð til 40 hafna í 23 löndum; þar á meðal voru Grænhöfðaeyjar og Páskaey. Ferðin skyldi farin á flaggskipi fyrirtækisins, Áróru. Þessi glæsilega áætlun stóðst ekki alveg því að ferðin stóð aðeins í 11 daga; farþegar misstu aldrei sýn af heimalandinu, og eina höfnin sem skipið lagðist að var heimahöfnin, Southampton. Atburðarásin var sem hér segir. Brottfarardaginn 9. september kom upp vélarbilun í skipinu. Farþegum var þá boðið upp á ókeypis drykki og skemmtiatriði. Tveim dögum síðar lét skipið úr höfn og komst til eyjarinnar Wight við suðurströnd Englands,  en þá var snúið aftur til Southampton. Farþegum var sagt að frekari viðgerð á vél skipsins myndi taka sex daga og þeim væri frjálst að skoða sig um í borginni á meðan. 17. janúar var aftur lagt úr höfn og siglt niður Southamptonfjörð að mynninu við voginn Solent, þar sem reyndar er ágætis útsýni til olíuhreinsunarstöðvarinnar Fawley, en síðan var snúið aftur til Southampton. Við sólarlag 18. janúar var aftur boðað til brottferðar; farþegar skáluðu á þilfari í ókeypis kampavíni og kvöddu hina sögufrægu borg. Hljómsveit spilaði og farþegar veifuðu. En Áróra hreyfðist ekki úr stað. Næsta dag gáfust 385 farþegar upp og gengu af skipi. Eftir það lét Áróra úr höfn. Hljómsveitin lék á ný og fánar voru dregnir að hún. Allir veifuðu og hið stóra skip, 70 þúsund lestir, sigldi á haf út. Í þetta sinn komst skipið alla leið vestur að syðsta odda Devon, á móts við vita sem þar er. Þetta er fallegur staður og áreiðanlega þess virði að sjá hann, en þarna gafst vél skipsins endanlega upp og frekari ferð var aflýst.

Í maí 1982 var stríðið um Falklandseyjar í hápunkti. Argentínumenn höfðu hertekið bæinn Goose Green og Bretar undirbjuggu árás fallhlífahermanna á bæinn í skjóli nætur. Það kom breskum herforingjum í opna skjöldu að BBC skyldi á þeirri stundu segja frá því hvar þeir hefðu komið sér fyrir og útvarpa því um allan heim, þar á meðal til Falklandseyja. "Þetta er yfirgengilegt", er haft eftir einum herforingjanna. "Hvernig getur nokkur maður verið svo vitlaus að útvarpa þessu?" Argentínumenn heyrðu fréttina líka og komust að svipaðri niðurstöðu. Þetta væri ekki annað en klaufaleg blekking sem ástæðulaust væri að sinna. Bresku hermennirnir gátu því farið sínu fram og komið óvinunum á óvart.

Leiðsögutæki í bílum eru ómissandi nú á tímum, en það er ekki rétt að fylgja þeim í blindni. Sýrlenskur vörubílstjóri með farm af lúxusbifreiðum komst að þessu þegar hann lagði af stað frá Tyrklandi árið 2008 og setti kúrsinn á Gíbraltar. Þegar hann taldi sig vera að koma á leiðarenda reyndist hann vera niðri á strönd í Lincolnskíri á Englandi. Þar hitti hann  fuglaskoðara sem fræddi hann á því, að þarna væri að vísu Gíbraltarhöfði, en ekki sá sem hann leitaði að. Að sögn fuglaskoðarans tók bílstjórinn þessu með stakri rósemi.

Leiðarvísar geta verið flókin lesning, en líklega slær enginn við leiðbeiningum sem fylgdu rafeindabúnaði í flugvél nokkurri. Það var Stofnun vísinda- og tæknisamskipta í Bretlandi sem vakti athygli á eftifarandi klausu:

"Innra leiðsögukerfið notar frávik til að framkalla leiðréttingarskipanir til að beina flugvélinni frá þeim stað sem hún er á, til þess staðar þar sem hún er ekki. Flugvélin flýgur til þess staðar,  þar sem hún var ekki, þannig að staðurinn þar sem hún var, er staðurinn þar sem hún er ekki. Ef svo skyldi fara að staða flugvélarinnar nú sé ekki sú sama og staðurinn sem hún upphaflega var ekki á, kemur upp misvísun, en misvísanir stafa af ytri kringumstæðum sem falla utan ramma þessarar einföldu skýringar."

Skömmu fyrir síðustu aldamót greindu stjörnufræðingar í Ástralíu útvarpsbylgjur sem þeir töldu hugsanlega vera fyrstu vísbendingar um vitsmunaverur í geimnum. Útvarpssjónauki í Parkes stjörnustöðinni nam óvenjuleg merki, sem bárust reglulega á hverju kvöldi. Á fundi stjörnufræðinga í Texas í janúar 1996 greindi dr. Peter Backus frá því að jarðbundnari skýring hefði fundist á merkjunum. "Þetta reyndist vera örbylgjuofninn í eldhúsinu hjá okkur", sagði hann. "Við tókum eftir því að merkin komu alltaf á matmálstímum".

Árið 1992 var tilkynnt um grunsamlegan böggul sem fundist hafði við byggingu í Bristol. Kallað var á lögreglu, sem aftur kallaði á sprengjudeild hersins. sem sprengdi böggulinn í loft upp. Þegar að var gáð kom í ljós, að í bögglinum höfðu verið leiðarvísar um það hvernig kanna skyldi innihald grunsamlegra pakka.

Árið 1976 sendi Evrópusambandið áminningu til írsku stjórnarinnar um það að Írar hefðu ekki gengið nægilega frá löggjöf um jafnrétti kynjanna. Stjórnin í Dublin tók viðbragð og auglýsti þegar í stað eftir umsjónarmanni til að fylgja eftir jafnrétti kynjanna í launamálum. Í auglýsingunni voru laun væntanlegs umsjónarmanns tilgreind, hærri fyrir karlmann en konu.

Í apríl 1976 var haldin ráðstefna skyggnra og sjáenda á Sheraton hótelinu í París. Þar var mættur fjöldi lófalesara, bollalesara, tarotspilalesara og kristalskúlurýnenda. Á lokadegi ráðstefnunnar spurði blaðamaður hvort ráðstefnan yrði endurtekin að ári. "Það er ekki vitað. Við getum ekkert sagt um það" var svarið.

Rithöfundinum Andrew Wilson gramdist það mjög að skáldið Matthew Arnold skyldi ekki hafa fengið minnisvarða með öðrum stórskáldum í  Westminster Abbey í London. Árið 1987 hleypti hann af stokkunum undirskriftasöfnun og fékk í lið með sér ævisöguritarann Viktoríu Glendinning og Auberon Waugh, ritstjóra tímaritisins Literary Review. Í baráttu fyrir söfnuninni benti Wilson á að virðing og frægð Arnolds stæði óhögguð þótt öld væri liðin frá láti hans. Hið sama væri ekki hægt að segja um ýmsa aðra sem ættu minnisvarða í Westminster Abbey. Hann hvatti menn til að rita djáknanum í Westminster, og sá góði maður var nánast kaffærður í kvörtunarbréfum.
Djákninn svaraði með opnu bréfi þar sem hann þakkaði áhugann á málefninu, en sagðist vilja benda mönnum á myndastyttu sem staðið hefði í Westminster Abbey allt frá árinu 1891 og þætti býsna lík fyrirmyndinni, skáldinu Matthew Arnold.

Hlustendur í Þýskalandi biðu með eftirvæntingu eftir áramótaræðu Helmuts Kohl kanslara í janúar 1987. Þetta var ágætis ræða, sem hlustendur kunnu vel að meta, þótt þeir hefðu reyndar heyrt hana áður, því að sjónvarpið flutti fyrir mistök gamla áramótaræðu kanslarans. Næsta ár biðu allir spenntir eftir því hvaða ræða yrði nú flutt. Sjónvarpið brást ekki vonum manna. Byrjað var á því að kynna nýársávarpið sem jólaávarp. Síðan tók við tveggja mínútna þögn. Þegar kynnirinn birtist á ný til að biðjast afsökunar, kynnti hann óvænt annað efni: "Nú flytjum við gamanþáttinn Dinner for One". Að þeim orðum slepptum birtist Kohl kanslari á skjánum og talaði um efnahagsmál.

Hinn 15. maí 1983 fékk lögregla í bænum Halesowen á Englandi tilkynningu um peningaskáp sem lægi þar á grasflöt. Lögreglumenn voru sendir á staðinn, og eftir að fingrafarasérfræðingar höfðu farið höndum um gripinn var ákveðið að flytja hann á lögreglustöð. Erfiðlega gekk að lyfta skápnum svo að lögreglan sótti Land Rover með dráttarbúnaði. Í tuttugu mínútur glímdu menn við að hreyfa gripinn þar til þeir áttuðu sig á að þetta var ekki peningaskápur heldur tengikassi frá rafveitunni sem múraður var niður.

Bretinn Hugh Pike var í hlutverki miskunnsama Samverjans þegar hann kom breskri fjölskyldu til hjálpar árið 1978. Fjölskyldan var í fríi í Bordeaux í Frakklandi þegar bílinn þeirra bilaði. Panta þurfti varahlut frá Bretlandi, en hjónin gátu ekki beðið eftir honum og þurftu að skilja bílinn eftir. Það jók á erfiðleikana að þau töluðu ekki frönsku. Pike, sem var slarkfær í frönsku,  bauðst til að hjálpa þeim að komast til Boulogne, þaðan sem þau færu með ferju til Englands. Hann ók með fjölskylduna til Parísar, fann brautarstöðina, Gare du Nord, keypti farmiða, kannaði frá hvaða brautarpalli lestin færi og kom fjölskyldunni um borð rétt áður en lestin lagði af stað. Hjónin kvöddu hann með tárin í augunum af þakklæti. Á leiðinni út úr járnbrautarstöðinni rak Pike augun í tilkynningaskilti og komst þá að raun um að áfangastaður lestarinnar, sem lögð var af stað, var ekki Boulogne við Ermarsund heldur Bologna á Ítalíu.

Í nóvember 1980 hóf fyrirtækið Texaco að bora eftir olíu við Peigneur vatn í Louisiana. Eftir þriggja stunda borvinnu gerðu starfsmennirnir hlé og væntu þess að sjá einhver merki um olíu. Þess í stað sáu þeir vatnshvirfil myndast og stöðuvatnið allt, 5 ferkílómetra að stærð, sogast niður í jörðina. Á eftir fylgdu fimm hús, nítján prammar, átta dráttarbátar, tveir olíuborar, húsvagn, og lystigarður.  Bormennirnir höfðu verið á röngum stað og opnað gat niður í gamla og yfirgefna saltnámu.

Í október 1992 var Alistair nokkrum  Emms boðið að halda erindi í skóla við ströndina í Devon í Englandi. Erindið átti að fjalla um það hvernig menn gætu bjargað sér við erfiðar aðstæður í óbyggðum. Umræddur skóli stendur á afskekktri hæð við bratta kletta. Emms var mættur full snemma, og þar sem veður var hið fegursta ákvað hann að fá sér göngutúr áður en hann héldi fyrirlesturinn. Þegar hann hafði ekki skilað sér klukkutíma síðar var kallað á björgunarsveit. Ekki fannst Emms, og var þá kallað á lögreglu og tvær björgunarsveitir í viðbót. Alls tóku fjörutíu manns þátt í leitinni, fimm lögreglumenn með leitarhund, og tvær þyrlur. Það tók fimm klukkutíma að finna Emms og bjarga honum þar sem hann sat fastur í runnum í klettunum. Honum var lyft upp í þyrlu. Fyrirlestrinum var aflýst.


Þ.S. 28.5. 2018.

 Forsíða