Samtal milli bræðranna Þorsteins og Stefáns
Sæmundssona 11. ágúst 1950, en þá var Stefán fjögurra ára.
Spyrjandinn er Þorsteinn.
– Já, það var maður í fyrra
sem byggði sér hús.
– Nú já, og hvar byggði hann húsið?
– Það var fyrir sunnan Laugaveginn.
– Var það langt fyrir sunnan hann?
– Nei, það var ekki langt fyrir sunnan hann.
– Voru margir við að byggja húsið?
– Nei, maðurinn var bara einn.
– Nú, einmitt. Það hefur tæplega verið mjög stórt.
– Það var fjórtán hæðir.
– Fjórtán hæðir? Þá hafa svei mér verið mörg herbergi í því.
– Já, það voru þrjú herbergi í húsinu.
– Hvað segirðu? Bara þrjú herbergi í fjórtán hæða húsi?
– Já.
– Þá hefur ekki verið neitt herbergi á sumum hæðunum. Hvernig
stóð á þessu?
– Ja, maðurinn var svo þreyttur á því að sækja hurðirnar.
– Jæja. Hvar fékk hann hurðirnar?
– Hann fékk þær í afmælisgjöf.
– Fékk hann eitthvað fleira í afmælisgjöf?
– Já, hann fékk allt efnið í húsið.
– Það var einkennilegt. Til hvers notaði maðurinn þetta
merkilega hús?
– Hann átti það sjálfur.
– Og hvar í húsinu bjó hann?
– Hann bjó á fimmtándu hæð.
– Ha? Þú sagðir að hæðirnar hefðu bara verið fjórtán.
– Já, en svo var hænsnakofi uppi á húsinu.
– Bjó maðurinn þar?
– Já.
– Var þá ekkert fyrir ofan hænsnakofann?
– Jú, það var strompur þar.
– En segðu mér, hvað hafði maðurinn nú inni í kofanum hjá sér?
– Já, hann hafði kaupmannssölu þar.
– Er það virkilega? Hvað seldi hann?
– Hann seldi smábíla – fyrir smákrakka, sko.
– Hvernig voru þessir bílar?
– Þeir voru gráir á þakinu.
– Og hvernig voru þeir litir annars staðar?
– Þeir voru gráir þar líka.
– Hvar fékk maðurinn þessa bíla?
– Hann bjó þá til. Hann hafði skyr ...
– Seldi hann skyr líka?
– Nei. Hann bjó til sement úr skyrinu. Svo hrærði hann dálítið
í sementinu, og
þegar eitthvað kom upp úr því þá var það bíll.
– Þetta var merkilegt. Átti hann marga svona bíla?
– Hann hafði þrjá.
– Og seldi hann þá alla?
– Ekki alveg alla.
– Hvað seldi hann marga?
– Einn. Hann kostaði 5,75.
– Ekki hefur mannauminginn haft mikið upp úr þessari verslun.
En hvað gerði
hann við neðri hæðirnar í húsinu?
– Hann hafði stúlkurnar sínar þar.
– Hvað voru þær margar?
– Þær voru sjö.
– Hvað gerðu allar þessar stúlkur?
– Þær bjuggu til matinn hans.
– Gerðu þær ekkert annað?
– Nei.
– Hvernig stóð á því að maðurinn þurfti svona mikinn mat?
– Hann var alltaf svo svangur þegar hann kom heim.
– Nú, fór hann eitthvað í burtu?
– Já, í sumarbústaðinn sinn.
– Nú, einmitt. Hvað gerði hann í þessum sumarbústað?
– Hann drakk teið sitt þar.
– Fór hann aldrei niður í bæinn?
– Jú, hann fór þangað alltaf á mánudögum.
– Hvað gerði hann þá?
– Hann var að kaupa ýmislegt.
– Hvað keypti hann helst?
– Hann keypti sígarettur og tóbak.
– Til hvers notaði hann það?
– Hann reykti það í sumarbústaðnum sínum.
– Keypti hann ekkert fleira en þetta?
– Jú, mat og allt svoleiðis.
– Og hvar fékk hann peninga til að kaupa fyrir?
– Hann fékk þá á afmælinu sínu.
Sett á vefsíðu 29.8. 2014 |