Eldingar
 

    Þótt eldingar séu fremur fátíðar á Íslandi munu flestir hafa séð fyrirbærið. Stundum fara eldingar milli skýja, en aðrar fara milli jarðar og skýs. Oftast tekur þetta aðeins brot úr sekúndu og  eldingin spannar örfáa kílómetra. Í nýlegri frétt í vikuritinu New Scientist segir þó frá eldingum sem voru stórfenglegri en þetta. Árið 2020 slógu tvær eldingar met. Önnur sást í sunnanverðum Bandaríkjunum. Myndir úr gervitungli sýndu að hún spannaði 768 km. Hin eldingin varð á mörkum Úrugúæ og Argentínu og varði í fullar 17 sekúndur.
   Önnur tegund eldinga eru hnatteldingar. Þær eru mjög sjaldgæfar og flest á huldu um eðli þeirra og uppruna.  Þetta eru kúlulaga fyrirbæri, allt frá fáeinum sentimetrum upp í metra eða svo. Þau sjást svífa um í nokkrar sekúndur, allt upp í mínútu, en hverfa svo, gjarna með hvelli. Oftast er þrumuveður þegar þetta gerist. Hnatteldingar hafa birst á ólíklegustu stöðum, jafnvel inni í farþegaflugvélum.
   Hinn 20. desember 1972 sást hnattelding í Reykjavík. Ég frétti af þessu og sendi tvo starfsmenn mína á Raunvísindastofnun til að ræða við sjónarvottinn, Jórunni Kristjánsdóttur á Bókhlöðustíg 7. Hvers vegna ég fór ekki sjálfur, er nú gleymt. Frásögn af lýsingu Jórunnar birtist í tímaritinu Veðrið árið 1973 í grein Jónasar Jakobssonar veðurfræðings og má sjá það hér fyrir neðan . Viðtalið við Jórunni var tekið upp á segulband (13 mínútna upptaka).
     Í stuttu máli var frásögn Jórunnar á þann veg, að ljóshnötturinn hefði verið um 20 cm í þvermál og gulleitur, en grænleitur eða blár til jaðranna. Hann sveif milli húsa í um tveggja metra hæð. Eftir 2-3 sekúndur hvarf hann með hvelli. Þrumur heyrðust um svipað leyti, og steypiregn fylgdi í kjölfarið.
   Svo sorglega vildi til að Jórunn fórst í eldsvoða aðeins þremur mánuðum síðar, 73 ára að aldri.
 

Þ.S.  1.3. 2022


 

 

  Forsíða