Þorsteinn Sæmundsson
Almanaksmál og bekkjarbrandarnar |
Kæru
skólasystkin og makar.
Þá sjaldan ég er beðinn um að halda tækifærisræðu, segi ég yfirleitt þvert nei. Tækifærisræður eru ekki mín sterka hlið. Í þetta sinn lét ég til leiðast, en ábyrgðin verður að skrifast á okkar ágæta inspektor, Þorvald S. og þrákelkni hans. Þorvaldur sendi mér tölvubréf á dögunum. Bréfið var á þessa leið: "Ætla að prófa enn. Sé alltaf fyrir mér að þú getir sagt okkur eitthvað ljúflegt um almanaksárin þín öll." Ég féllst á að segja nokkur orð í öruggri vissu um að ég yrði aldrei beðinn um slíkt aftur. Fyrst skal ég rifja eitthvað upp um almanaksárin, eins og Þorvaldur fór fram á. Svo ætla ég að hverfa aðeins til gömlu góðu daganna í MR. Almanak Háskólans, öðru nafni Íslandsalmanakið, hefur komið út í 174 ár. Það var fyrst gefið út í Kaupmannahöfn árið 1837, en í þá daga var það Kaupmannahafnarháskóli sem var háskóli Íslendinga. Danir önnuðust hina stjörnufræðilegu útreikninga, en Íslendingar sáu um textann, sem tók mið af danska almanakinu, en var lagaður að íslensku tímatali. Sá sem lengst var ritstjóri á Kaupmannahafnarárunum var Jón Sigurðsson, og var nafn hans á forsíðu almanaksins í 31 ár. Í áranna rás hafa samtals 12 manns séð um útreikninga almanaksins, fjórir danskir, einn sænskur og sjö íslenskir. Sjálfur hef ég enst við þetta lengur en nokkur annar, eða í 47 ár. Sá sem átti fyrra metið var danski stjörnufræðingurinn Hans Christian Schjellerup, sem var forstöðumaður stjörnuturnsins í Kaupmannahöfn. Hann sá um almanaksútreikningana frá 1858 til 1888, eða í 31 ár. Schjellerup veittist síðar sá heiður að gígur á tunglinu var skírður í höfuðið á honum. Ég býst þó ekki við að það hafi verið fyrir almanaksvinnuna, því miður, svo að ég get víst ekki gert mér vonir um slíka upphefð. Vinna við almanakið er tvíþætt, annars vegar hinir stjörnufræðilegu útreikningar en hins vegar dagatalið sem krefst nokkurrar þekkingar á tímatali að fornu og nýju. Flestir ef ekki allir Íslendingar sem unnið hafa við almanakið hafa fengið áhuga á tímatalsfræðum og tekið að grúska í þeim, og ég er þar engin undantekning. En almanaksvinnan krefst ekki aðeins þekkingar heldur líka mikillar vandvirkni. Það var ekki að ástæðulausu að tveir menn unnu löngum saman við það verk, tvíreiknuðu hverja tölu og samlásu prófarkir. Þegar ég kom fyrst að almanakinu, tók ég við af Leifi Ásgeirssyni og gerðist samstarfsmaður Trausta Einarssonar, en þeir Trausti og Leifur höfðu þá annast útreikninga almanaksins í mörg ár. Í þeirra tíð var þetta hrein handavinna, menn notuðu blað og blýant og flettu upp í töflum um logaritma og hornaföll. Það kom í minn hlut að innleiða fljótvirkari aðferðir, fyrst rafmagnsreiknivél en síðar tölvu. Trausti sagði sig frá almanaksvinnunni eftir sjö ára samstarf okkar og bar því við að hann hefði ekki áhuga á að tileinka sér tölvutæknina sem þá var orðin lykilatriði í útreikningunum. Mér þótti þetta afar leitt, en Trausta varð ekki þokað. Í upphafi var ég svo bjartsýnn að halda að maður gæti skilað almanakinu þannig að það yrði algjörlega villulaust. Mér datt meira að segja í hug að lofa þeim lesanda verðlaunum sem fyrstur fyndi þar villu. Það var eins gott að ég lét ekki verða af því. Starfið við almanakið hefur kennt mér það að fullkomnun verður aldrei náð, hversu mjög sem maður leggur sig fram. Tölvurnar hjálpa manni vissulega, en þeim fylgja líka vandamál. Nóbelsverðlaunahafinn Paul Ehrlich orðaði það svo, að það væri mannlegt að skjátlast, en til að klúðra hlutunum gjörsamlega þyrfti tölvu. Nú á dögum er hægt að kaupa eða fá ókeypis á vefnum tölvuforrit til að leysa alls kyns stjörnufræðileg verkefni. Engin slík forrit voru til þegar ég hóf vinnu við almanakið, svo að ég þurfti að semja allt frá grunni. Tölvur auðvelda alla útreikninga, en maður þarf alltaf að vera á varðbergi gagnvart hugsanlegum villum. Sem dæmi get ég nefnt forrit sem ég samdi til að reikna gang reikistjarna fyrir almanakið. Þetta forrit notaði ég í í tuttugu ár án nokkurra vandræða, en þá fór það skyndilega í hnút og keyrslan stöðvaðist. Þegar ég fór að skoða málið kom í ljós að mér hafði sést yfir þann möguleika að reikistjarnan Mars gæti verið svo sunnarlega á himinhvelfingunni að hún kæmi ekki upp í Reykjavík. Þessi villa var ekki hættuleg, því að hún gerði vart við sig, og það hressilega. Annars konar villur eru varasamari, þær sem skila sennilegum, en ekki fyllilega réttum niðurstöðum. En jafnvel þegar rétt er reiknað, geta mannleg mistök spillt árangrinum. Ég man eftir einu dæmi sem var dálítið spaugilegt. Ég hafði samið forrit til að reikna út hvenær tunglið myndi skyggja á bjartar stjörnur frá Íslandi séð. Þetta er nokkuð flókið mál og ég þóttist góður þegar ég birti fyrstu niðurstöðurnar í almanakinu. Samkvæmt reikningunum átti tunglið að myrkva stjörnuna Regúlus, og ég lýsti myrkvanum nákvæmlega, hvenær stjarnan hyrfi og hvenær hún kæmi í ljós aftur séð frá Reykjavík. Það var ekki fyrr en almanakið var komið út að ég tók ég eftir því að myrkvinn var um hábjartan dag og þess vegna útilokað að nokkur maður sæi hann! Þegar tölva skilar niðurstöðum í töflu, og taflan lítur eðlilega út, er hættan sú að manni sjáist yfir villur í próförk. Ég man eftir einu slíku tilviki, neyðarlegustu villunni í almanakinu á mínum ferli. Ég hafði notað forrit til að setja upp yfirlitsdagatal á kápusíðu almanaksins. Ég tók ekki eftir neinu misjöfnu fyrr en vinur minn, Jón Ragnar Stefánsson stærðfræðingur, benti mér á það í allri vinsemd að septembermánuður væri í styttra lagi þetta árið. Tölvan hafði þá klippt af síðasta daginn svo að dagarnir í september urðu aðeins 29 í þessu yfirlitsdagatali aftan á almanakinu. Þarna hafði prófarkalestri verið áfátt - tölvunni treyst um of. En það gildir einu hve margar prófarkir eru lesnar, maður er aldrei öruggur. Í því sambandi rifjast upp saga sem Örnólfur frændi minn Thorlacius sagði mér. Rithöfundur nokkur í Svíþjóð hafði lesið svo margar prófarkir af bók sem hann var að gefa út, að hann var sannfærður um að bókin væri villulaus. Því ákvað hann að láta prenta á titilblaðið: "Í þessari bók eru engar prentvillur". Á sænskunni var setningin á þessa leið: "Denna bok er fri från trykfel". Ímyndið ykkur svipinn á vesalings manninum þegar hann opnaði fyrsta eintakið og las: "Denna bok er fri från tyrkfel". Staðreyndin er sú, að prentsmiðjan á alltaf síðasta orðið. Ég átti eftir að kynnast þessu sjálfur í viðskiptum mínum við fjórar prentsmiðjur, fyrst Gutenberg, síðan Ísafoldarprentsmiðju, svo Lithoprent og loks prentsmiðjuna Odda. Í Gutenberg og Ísafoldarprentsmiðju var allt handsett í blýi, staf fyrir staf. Hver síða sem fór í prentvélarnar var í rauninni samstæða af fjölmörgum blýstöfum. Einu sinni gerðist það að mynd prentaðist á hvolfi. Eftirgrennslan leiddi í ljós, að prentari hafði misst síðuna í gólfið og stafir og mynd hrokkið í allar áttir. Blessaður maðurinn þorði ekki að segja frá þessu, heldur raðaði öllu saman eftir bestu getu. Textinn komst í lag, en myndin lenti á hvolfi. Næsta skref í prenttækninni var það þegar menn hættu við blýið og tóku að setja texta á ljósmyndafilmu. Þannig var almanakið sett í fyrsta sinn í Lithoprent. Eitthvað gekk þetta brösulega í byrjun, því að ég man að á fyrstu 12 síðunum sem ég fékk í próförk voru meira en 200 villur. Ekki þótti gerlegt að lagfæra þetta á filmunum svo að setjarinn var látinn setja allan textann aftur. Í Odda urðu miklar framfarir þegar prentsmiðjan keypti úrvals tölvukerfi til að auðvelda filmusetninguna. Uppsetning á töflum almanaksins reyndist hins vegar svo flókin að starfsmennirnir réðu ekki við hana með góðu móti. Endirinn varð sá að ég þurfti sjálfur að semja forrit til að mata prenttölvuna í Odda. Þetta dró úr hættunni á prenvillum, en samt leið varla nokkurt ár svo að ekki kæmi eitthvað óvænt upp. Ég man eftir kostulegu atviki þegar starfsmaður í Odda tók sig til og eyddi reikistjörnunni Plútó. Í almanakinu hafði árum saman verið teikning sem sýndi stærðarhlutföll sólar og reikistjarna. Plútó var svo lítill, að depillinn sem táknaði hann var minni en títuprjónshaus. Starfsmenn prentsmiðjunnar fóru alltaf yfir filmurnar í leit að göllum. Einn þeirra tók eftir þessum litla depli, taldi hann vera filmugalla og þurrkaði hann út. Kannski má segja að maðurinn hafi verið á undan sinni samtíð, því að mörgum árum seinna var Plútó lækkaður í tign og telst nú ekki lengur til reikistjarna. Í annað skipti, eftir að allar prófarkir höfðu verið lesnar og verkið að fara í prentun, tók einhver í prentsmiðjunni eftir því að ein myndin í almanakinu var í daufara lagi. Eigum við ekki betra eintak af þessari mynd? var spurt. Jú, einhver fann filmu frá árinu áður og sýndist hún miklu betri. Þeir skiptu því um filmu. Gallinn var bara sá, að þótt myndin væri sú sama hafði textinn á síðunni breyst milli ára. Þegar almanakið kom út var þarna síða sem endaði í miðri setningu. Framhaldið var hvergi að sjá. Samstarfsmaður minn við prófarkalestur, Svanberg Jakobsson, komst svo að orði við starfsmann í Odda, að það sem prentsmiðjan skilaði frá sér væri réttnefnt "amlóðak". Ég held að starfsmaðurinn hafi aldrei fyrirgefið Svanberg þessi ummæli. Nú eru filmurnar að hverfa af sjónarsviðinu og prentsmiðjurnar fá sendar tölvuskrár sem ganga beint í prentvélarnar, ef svo má segja. Nýjasta almanakið, almanak ársins 2010, var prentað með þeim hætti. Væntanlega táknar þetta að minni hætta verði á mistökum í prentsmiðju, en enginn skyldi þó vanmeta möguleikana á þeim bæ. Fyrir nokkrum árum gerðist það að letrið varð svo dauft að það var nær ólæsilegt. Þurfti þá að prenta allt upplagið aftur. Hér læt ég staðar numið um almanakið og sný mér að öðru. Um daginn var ég að taka til í skáp heima hjá mér. Þar fann ég bunka af gömlum skólablöðum úr MR. Þetta voru blöð frá tveimur síðustu vetrum okkar í skólanum. Þarna kenndi margra grasa. Einna bestar þótti mér gamansögurnar. Ég ætla að leyfa mér að rifja nokkrar þeirra upp hér. Tökum fyrst fyrri veturinn, þegar við vorum í 5. bekk. Enska í 5.B. Sigurður Gústavsson þýðir: "no postpone business. Engin póst og símavinna." Gunnar Norland hefur orðið: "Berklar eru, eftir því sem mér skilst, ákaflega skæðir á Suðurhafseyjum, sbr. Grænland." Danska í 4.B. Í dönskutíma lenda Kristján og Einar Magg í heimspekilegum samræðum út af orðinu "definere". Einar segir: Segjum t.d. að útlendingur kæmi til yðar og bæði yður í guðslifandibænum að "definera" orðið gluggi. Hvað munduð þér segja? "Ha, hvað ég mundi segja? "Ég mundi segja að það væri glerveggur sem stæði einn sér innan í venjulegum vegg, oft hólfaður með timbri. Saga í 5.A. Þórhallur kennir í forföllum. "Jæja, hvað eigið þið að hafa?" Rödd úr bekknum svarar: Karlunga. "Jæja", segir Þórhallur. "Hvenær var hann uppi?" Saga í 6. B. Ólafur Hansson fjallar um erlend orð: "Já, ferðamaður er auðvitað túristi". Oddur Thorarensen skýtur inn: "Svo eru líka til statúristar". Ólafur hikar lengi, en segir svo: "Ha, er það eitthvert félag? "Nei", segir Oddur, "Statúristar eru íslenskir stjórnmálamenn sem ferðast á kostnað ríkisins." Jóhannes Áskelsson fræðir nemendur: "Maðurinn deyr ekki þótt heilinn sé tekinn úr honum. Þó er því ekki að neita að honum verður að ýmsu ábótavant á eftir." Arnljótur Björnsson býður fram aðstoð sína við tolleringu á nafngreindum nemanda: "Ég skal lyfta undir höfuðið, það er léttast." Sigurður Þórarinsson í IV. B. : Hvað heitir hið núverandi þjóðabandalag? Ólafur Karlsson svarar: "The United States." "O, ekki enn þá" segir þá Sigurður. Jón Thór kvartar við rektor: "Ég þarf að leggja fram kæru. Taflinu mínu hefur verið stolið." "Hefurðu gáð á kennarastofuna?" spyr þá rektor. Einar Magg í IV. B (gleraugnalaus): "Hér kemur þá bókin. Úrvalsbók. Löng og spennandi. Eitt hundrað og, ja nú sé ég ekki..." Frk. Else Hansen kemur til hjálpar: "Og halvfjerds." "Já, já," segir Einar, "eitt hundrað og og halvfjerds blaðsíður." Gunnar Nordal spyr: "Ólafur Jens, hvað þýðir orðið unconscious í eiginlegri merkingu." "Vitlaus", segir Ólafur. "Hja, ekki beinlínis", segir Gunnar. "Gerum t.d. ráð fyrir að ég yrði fyrir bíl, þá yrði ég kannski unconscious." "Já, vitlaus", segir Ólafur. Enska í VI. B. Gunnar Norland kennir. Oddur spyr: "Má ég fara út?" "Jú, takk", segir Gunnar. Ingvar Brynjólfsson kvartar: "Það er nú ansi heitt hérna inni. Má ekki opna út?" Svandís spyr: "Megum við ekki bara fara út?" "Ha, hvað segið þér?" segir Ingvar. Svandís endurtekur. "Nú út", segir Ingvar vonsvikinn, "mér heyrðist þér segja - fara úr." Einar Magg kemur með bækur í 4.C og krefst borgunar. Honum er svarað að allir séu blankir. "Það er allt í lagi" segir þá spekingurinn. "Þið fáið bara lánað hver hjá öðrum". Latína í 4.B. Magnús Finnbogason spyr : "Hvernig er lýsingarorðið af bene?" Kristján Baldvinsson svarar: "bonus". "Tuh, gott", segir Magnús. "Þú ert bara helvíti óvenjuvel lesinn núna, strákur." Enska í 4.B. Birgir þýðir: "Has she anything on her mind? Hefur hún einhverja dellu eða eitthvað svoleiðis." Gunnar Norland bregst hart við: " Eða eitthvað svoleiðis! Eruð þér að bjóða mér þetta? Þið eruð alltaf með þetta "eitthvað svoleiðis"". Birgir reynir aftur: "Liggur henni eitthvað á hjarta." "Jaaaá" segir Gunnar, " eitthvað svoleiðis." Enska í 4.A. "... Þér þarna, kraftidíót og kjaftatófa; ef þér ekki þegið verðið þér flengdar." "Hver á að gera það?" "Í eigin persónu, Guðni Guðmundsson." Þýska í 6.A. Ingvar útskýrir: "Káetan var einhvers konar ferhyrnt horn!" Jarðfræði í IV.B. Jóhannes spyr: "Er nokkur til frásagnar um Júratímabilið?" Svar: "Ekki í þessum bekk." Þá eru það skólablöð frá vetrinum 1953-54. Franska í 5.Z. Gunnar Norland, öðru nafni Gunnar le terrible, kennir framburð: "Orðið hefst á nefhljóði en endar ekki á neinu." Íslenska í 6.Y. Magnús Finnbogason er að útskýra fyrir nemendum hvenær ekki megi nota orðið tómur: "Sjáið þið nú bara, drengir góðir, hvað það væri bjánalegt ef ég segði eitthvað á þessa leið: Ég var í veislu í nótt, þar sem veitt var vín eins og hver vildi, en ég drakk bara tómt vatn". Enska í 5.B. Gunnar Norland hótar: "Ef þið haldið svona nokkru áfram, kasta ég ykkur út for good, if you know what that means." "Ykkur til góðs" segir Magnús Karl. Í bréfakörfu í 6.C finnst bréf frá Arnhildi: "Arnljótur minn, Í hvert skipti sem ég heyri nafn þitt nefnt fæ ég sting í hjartað, en ekki af því að ég elski þig svona heitt, heldur af því að þá held ég alltaf að það eigi að taka mig upp. Arnhildur." Halldór frá Höfnum kvartar: "Bölvuð skömm hvað menn leggja litla vinnu í grímubúninga." Jóhannes bregst við: "Þú þarft nú bara að þvo þér, þá þekkir þig enginn." Magnús Finnbogason spyr: "Hvaða bragur er á þessari vísu?" Jóhannes svarar: "Viðvaningsbragur". Íslenska í 5.Z: Þórhallur fræðir nemendur: "Um miðja öldina voru allir heilvita menn orðnir læsir, jafnvel kvenfólkið líka." Líffræði í 5.Z: Jóhannes Áskelsson spyr: "Hvað kom þá í ljós?" Svar: "Stærstu baunirnar voru stærri en þær minnstu." Þýska í 5.X. Ingvar tekur Leif upp í orðtökum: "Jæja, þá skulum við spjalla svolítið um tvær skemmtilegar sagnir, saufen og trinken". Enska í 5.C. Björgvin hefur verið veikur í þrjá daga. Guðna verður að orði: "Déskoti er Björgvin lengi veikur núna. Er hann eitthvað veikur?" Íslenska í 6.Y: Haraldur Antonsson spyr: "Var vit og hugarfar á sama stað í líkamanum hjá fornmönnum?" Magnús Finnbogason á dálítið erfitt með að skilja spurninguna. "Ég meina, sko, hvort þeir hafi aðgreint þau í sál?" spyr Haraldur. "Nei, nei", segir Magnús. "Kom sálin þá með kristninni?" spyr Haraldur. Náttúrufræði í 5.C. Jóhannes tekur Sigurvalda upp í Mendelslögmáli. "Tvö svín", segir Jóhannes, "annað svart og snögghært, hitt hvítt og síðhært." "Á að teikna þau?" spyr Sigvaldi. "Jaá, teikna þau, gott, já, gott." Sigurvaldi teiknar nú bæði svínin af mikilli vandvirkni, og ber listaverkið ótvírætt vitni um ágæta hæfileika og óvenjulegt hugmyndaflug. Að verkinu loknu snýr hann sér við og lítur hróðugur á læriföður sinn og yfir bekkinn. "Já, þetta er gott", segir Jóhannes og tekur um leið svampinn og þurrkar burt fætur svínanna. "En við skulum heldur hafa krómósómin innan í." Líffræði í 6.X. Jóhannes Áskelsson kennir: "Efri kjálkinn er fastur við hauskúpuna en neðri kjálkinn er laus..." (nú lítur Jóhannes til Halldórs frá Höfnum), "já, og stundum fulllaus." ---------------- Hér slæ ég botninn í þessa upprifjun og þakka áheyrnina.
|