Í Morgunblaðinu 19. janúar birtist grein eftir Lárus Þór Guðmundsson sem bar yfirskriftina „Ótakmarkaðar auðlindir?“. Þar vakti Lárus athygli á því hvernig fjölgun ferðamanna og hvers kyns framkvæmdir hafa valdið alvarlegri áníðslu á náttúruauðlindir Íslands. Ég vil leyfa mér að taka undir varúðarorð Lárusar og þakka honum fyrir þessa ágætu grein.
Tveimur dögum síðar, hinn 21. janúar, birti Morgunblaðið viðtal við Bjarnheiði Hallsdóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar, þar sem hún andmælir Lárusi. „Án erlendra ferðamanna gæti þessi fámenna þjóð aldrei staðið undir þessari miklu uppbyggingu,“ segir Bjarnheiður. Þetta er vissulega gilt sjónarmið; ferðaþjónustan er orðin svo mikilvæg tekjulind að hvers kyns takmörkun á henni gæti leitt til skerðingar á lífsgæðum fólks.
En þá vaknar spurningin: hvað eru lífsgæði? Varla eru þau fólgin í peningum einum saman. Ég minnist þess að á yngri árum gat ég ferðast um landið og notið útsýnis við fegurstu náttúruperlur án þess að truflast af grúa ferðamanna. Svo að dæmi sé tekið gat ég dáðst að Gullfossi með fjölskyldunni án þess að aðrir kæmu þar við sögu að heitið gæti. Sama var að segja um Kerlingarfjöll, Landmannalaugar, Öskju, Jökulsárlón, Skógafoss, Goðafoss, Dynjanda ... Listinn er lengri. Ég verð að segja að ég sakna þessa tíma ósnortinnar náttúru, sem aldrei kemur aftur.