Forsíða
 

Um aðild Íslands að Alþjóðasambandi stjarnfræðinga

(Samantekt fyrir aðalfund Stjarnvísindafélags Íslands 1. des. 2018 með lítilsháttar viðbótum)

Þegar formaður okkar, Páll Jakobsson, bað mig að tala um aðild Íslands að Alþjóðasambandi stjarnfræðinga undanfarin þrjátíu ár, sagði ég að það yrði stutt frásögn og ekki sérlega spennandi. Til þess að hún taki sem stystan tíma hef ég sett hér nokkra punkta niður á blað. Ég hef flett upp í gömlum bréfabindum og gluggað í tölvupósta. Þar er meðal annars að finna aðdraganda þess að við gerðumst aðilar að þessu merka alþjóðasambandi sem skammstafað er IAU eða UAI, eftir því hvort notuð er enska eða franska, en í lögum sambandsins segir að franska útgáfan af lögunum sé sú sem gildi.

Síðla árs 1986 hafði gamall vinur minn, Derek McNally, samband við mig. Ég hafði kynnst McNally á árunum 1959-1962 þegar ég vann að doktorsritgerð minni í London. Hann starfaði þá við stjörnuturn Lundúnaháskóla og við áttum þar nánast dagleg samskipti. Þegar hér var komið sögu var McNally orðinn vararitari Alþjóðasambands stjarnfræðinga (hann varð síðar aðalritari) og var áhugsamur um að Ísland yrði aðili að sambandinu. Í framhaldinu fékk hann þáverandi aðalritara, Swings, til að rita formlegt bréf, sem ég sendi síðan áfram til menntamálaráðuneytis með ósk um að ráðuneytið styrkti þátttöku Íslendinga í þessu alþjóðlega samstarfi. Vegna fámennis fengi Ísland að vera í lægsta gjaldflokki (flokki 1 af 12) og yrði árgjaldið 1900 svissneskir frankar. Sú upphæð myndi samsvara 240 þúsund krónum á núverandi gengi.

Svar barst frá ráðuneyti í maí 1987, undirritað af ráðherra, og var það jákvætt. Í fyrstu þurfti ég að hafa milligöngu um greiðslu árgjalds til IAU, en frá árinu 1996 fékk ég því til leiðar komið að menntamálaráðuneytið væri skráð sem tengiliður fyrir Íslands hönd. Hefur ráðuneytið séð um árlegar greiðslur allar götur síðan. Aðild Íslands var formlega samþykkt á þingi sambandsins í Baltimore í ágúst 1988, nánar tiltekið 8. 8. '88. Við það tækifæri varð ég að að halda stutta tölu. Ég var svo heppinn að sá sem talaði næst á undan mér var langorður og þreytandi, svo að mín stutta ræða fékk betri undirtektir en ella hefði orðið. Mér tókst að grafa upp textann og ætla að dreifa honum hér ásamt öðru sem tengist umsókninni. Þarna er að finna nokkrar röksemdir fyrir þátttöku okkar í samtökunum.

Einar Guðmundsson sótti einnig þingið í Baltimore. Á þeim tíma vorum við einir Íslendinga í samtökunum. Skömmu síðar bættist Einar Júlíusson í hópinn, og síðan komu þeir Gunnlaugur Björnsson, Steinn Sigurðsson, Páll Jakobsson og Guðlaugur Jóhannesson. Aðeins sex af okkur sjö hafa verið skráðir sem íslenskir meðlimir, en Íslendingar búsettir erlendis eru gjarna skráðir í viðkomandi landi. Þannig er Steinn Sigurðsson skráður með bandarískum stjarnvísindamönnum. Páll Jakobsson var um tíma talinn með þeim bresku, en ég fékk það leiðrétt eftir að hann var kominn heim til Íslands.

Þegar við gengum í sambandið minnir mig að meðlimir hafi verið um 6 þúsund. Nú er talan að nálgast 14 þúsund frá 107 löndum. Aðildarlönd eru 82, en þar við bætast einstaklingar frá 25 löndum. Stjörnufræðin á greinilega vaxandi fylgi að fagna.

IAU skiptist í margar deildir og undirdeildir, og ráða einstaklingar því hvaða deildir þeir skrá sig í og fylgjast með. Sjálfur hef ég verið skráður í tvær deildir, deild A - Undirstöðustjörnufræði (Fundamental astronomy) þar sem m.a. er fengist við almanaksmál, og deild E þar sem fjallað er um sólina og sólvindshvolfið (Sun and heliosphere). Aðrir í íslenska hópnum hafa önnur áhugamál.

Þegar ég leit yfir meðlimaskrána um daginn sá ég að eitt nafn vantaði. Var það Einar Júlíusson. Ég spurðist fyrir um ástæðuna og fékk þau svör að Einar teldist ekki lengur virkur félagi. Sjálfur staðfesti hann það símtali og sagðist ekki hafa haft nein tengsl við samtökin síðan hann var í úthlutunarnefnd fyrir Norræna sjónaukann.

Það er kannski ekki tilviljun að Stjarnvísindafélagið skyldi vera stofnað skömmu eftir að við gengum í Alþjóðasamband stjarnfræðinga. Ein af kröfunum vegna aðildar var sú að stofnuð skyldi landsnefnd sem hefði síðan samskipti við IAU. Í landsnefndina völdust auk mín og Einaranna beggja, einn fulltrúi frá menntamálaráðuneytinu. Þessi nefnd varð aldrei virk, og tveim árum síðar tók ég að mér, að ósk Einars Guðmundssonar, að annast samskiptin við IAU. Einar átti hins vegar frumkvæðið að stofnun Stjarnvísindafélagsins og á mestan heiður af því framtaki þótt fleiri léðu því lið. Árið 1996 samþykktu svo menntamálaráðuneytið og Háskóli Íslands að styrkja aðild okkar að Norræna sjónaukanum. Samningur þess efnis var undirritaður 1997. Sá sem undirritaði fyrir hönd stjórnar Norræna sjónaukans var Johannes Andersen sem er íslenskum stjarnvísindamönnnum að góðu kunnur. Jóhannes var einnig mjög virkur innan IAU, meðal annars var hann aðalritari samtakanna um skeið.

Ég hef rennt yfir tölvuskeyti sem ég hef skráð síðustu 20 ár og flokkað undir IAU. Þau eru 80 talsins, þ.e. um 4 á ári og snúast aðallega um ýmiss konar skráningar og formsatriði, hverjir ætli að sækja þing sambandsins af okkar hálfu o.s.frv. Þingin eru haldin á þriggja ára fresti, hér og þar í heiminum. Ég hef sótt nokkur þeirra og haft af því mikið gagn, hlýtt á merka stjörnufræðinga og endurnýjað kynni við gamla kunningja sem nú eru margir horfnir af sjónarsviðinu, því miður. Sérstaklega er mér minnisstætt þing í Grenoble 1976, þar sem mér gafst færi á að ræða við þá merku konu, Ceciliu Payne-Gaposchin, og hlýða á hinn frábæra fyrirlesara Carl Sagan.

Í tölvuskeytunum sé ég að umsókn Gunnlaugs um aðild hefur verið send í nóvember 1993 og umsókn Páls Jakobssonar 1996. Umsókn Guðlaugs fann ég ekki. Á síðustu árum hafa umsóknareyðublöð verið sett á vefinn og hugsanlega hef ég gleymt að taka afrit. Árið 2006 sendi ég tilkynningu um að Einar Guðmundsson myndi annast öll samskipti af okkar hálfu vegna árs stjörnufræðinnar 2009 og verði það sem kallað var "single point of contact". Ég hafði haft hug á að sækja þing í Río de Janeiro það ár, en segi í skeyti að farareyrir hafi ekki fengist. Minnist ég þess að bankahrunið var ástæðan sem ráðneytið gaf. Árið 2014 tilkynnti ég í skeyti til IAU að Sævar Helgi Bragason hefði verið útnefndur fræðslufulltrúi okkar, svonefndur "IAU Outreach Contact" vegna árs ljóssins 2015 og annarra almannatengsla.

Í ágúst síðastliðnum tilkynnti ég svo að ég hyggðist hætta sem landsfulltrúi eftir 30 ára setu. Þótti mér mál til komið að yngri maður tæki við og fagna því að Gunnlaugur skyldi lýsa sig reiðubúinn til þess. Eins og ráða má af framansögðu er starfið ekki svo umfangsmikið að líklegt sé að það verði Gunnlaugi ofviða. Þó er nauðsynlegt að sinna því ef við viljum halda þátttöku okkar áfram, sem ég tel sjálfsagt mál. Ég vil líka hvetja menn til að sækja þing IAU ef þeir eiga þess kost. Of fáir hafa sinnt því hingað til. Ég minnist þess að í eitt skipti þurfti ég að fá Birgittu Nordström, eiginkonu Jóhannesar Andersen, til að vera fulltrúi Íslands í fjármálanefnd samtakanna því að enginn Íslendingur sótti þing í það skiptið.

Læt ég svo þessu spjalli lokið.



Þ.S. 3. 12. 2018

Almanak Háskólans