Þorsteinn Sæmundsson

Frakklandsferð 1976


Ég á dagbók um þessa ferð, ef bók skyldi kalla, því að þetta er minnisblaðahefti, illa farið og losaralegt. Textinn hefst með þessum orðum:

"Þessa ferðasögu verður að hripa á heldur lélegan pappír sem Air France hefur góðfúslega léð í auglýsingaskyni fyrir þátttakendur í alþjóðaþingi stjörnufræðinga hér í Grenoble. Línur þessar eru ritaðar á miðvikudagskvöldi 25. ágúst, á fimmta degi fararinnar. Þrátt fyrir víðtæka leit í Parísarborg og í Grenoble hefur oss ekki tekist að hafa upp á stílabók eða minnisbók nema rúðustrikuð væri.

Frakkar virðast ekki nota annað en rúðustrikaðan pappír, eða þá óstrikaðan. Þetta er ritað með penna frá Air France, og ef hann bilar í miðjum klíðum verð ég ekkert hissa - mér kemur ekkert á óvart lengur úr franskri átt.

Ég sagði við Guðnýju í upphafi ferðarinnar, að ég hefði megnustu óbeit á Frökkum og hefði tamið mér þá reglu að fara eins hratt gegnum Frakkland og kostur væri, og stansa aldrei lengur en lífsnauðsyn bæri til. Eftir þessa ferð mun ég krækja framhjá landinu hvenær sem kostur gefst og stansa helst ekki á franskri grund."

Eins og textinn ber með sér hafði ég, aldrei þessu vant, látið undir höfuð leggjast að taka með mér minnisbók fyrir ferðasöguna.

-----------------------------------------------------------------------------------

Ferðin hófst á laugardagsmorgni 21. ágúst 1976. Það voru þreyttar og syfjaðar manneskjur sem stigu út í leigubílinn klukkan 6:10. Ég hafði haft óhemju mikið að gera og verið afar illa sofinn síðustu vikuna; var í prófarkalestri fyrir Almanak Háskólans (Íslandsmanakið) til kl. 7 á föstudagskvöld. Við biðum til kl. 9 eftir því að vinkona Guðnýjar og maður hennar kæmu frá Hveragerði til að sækja Hákon, 9 ára dreng okkar. Þau ætluðu að taka hann að sér meðan við værum í burtu.
Eftir að þau voru farin, með reiðhjól Hákonar bundið á toppgrindina, fórum við með Mána, 6 ára son okkar, inn í Sæviðarsund til Ragnheiðar, systur Guðnýjar. 

Við höfðum eiginlega lokið við að setja niður í ferðatöskur á föstudagskvöld. Við höfðum lítinn farangur meðferðis, en komumst samt seint í háttinn vegna alls konar tafa. Til dæmis læstist lásinn á handtöskunni minni, og þar sem enginn lykill fannst varð ég að ná lásnum af innan frá. Guðný var orðin býsna úrill áður en lauk, sem von var. Ég held að ég hafi aldrei lagt af stað í ferðalag jafn illa fyrir kallaður.

Frá Lofteiðahótelinu fór vagn með okkur til Keflavíkur, í ágætisveðri auðvitað, eftir endalausar rigningar undanfarið. Í Loftleiðaafgreiðslunni hittum við Magnús Thoroddsen samstúdent minn. Hann var að kveðja Sigurð son sinn, 18 ára, sem ætlaði að klífa Mont Blanc með hópi sem fer þangað frá Sviss. Við röbbuðum talsvert við Sigurð þar til leiðir skildu í London.

Flugvélin lagði af stað á réttum tíma, kl. 8:10. Þetta var Loftleiðavél af gerðinni DC-8 Super. Flugið gekk tíðindalaust. Öðru megin við mig sat bandarísk kona frá Chicago, sem lét móðan mása. Hún þekkti Grenoble vel, hafði stundað þar nám í æsku. Vélin lenti í Glasgow kl. 11:15 eftir þeirra tíma (1 klst. á undan okkar klukku). Þar var stansað í 20 mínútur en síðan haldið áfram til London. Þangað komum við um hádegisbil. Ég hafði valið þann kostinn að flytja sjálfur töskurnar okkar milli flugvéla, en það tók slíkan óratíma að ná þeim og flytja þær yfir til Air France að við höfðum engan tíma til að borða hádegismat. Sem betur fer hafði verið framreiddur góður morgunmatur í flugvélinni.

Air France flugvélin fór frá London kl. 14:30 í steikjandi hita. Þetta var Airbus vél, sú stærsta sem ég hafði setið í.


Ferðin til Parísar tók 40 mínútur.  Þar var klukkunni enn flýtt um 1 klst. Við lentum á De Gaulle flugvelli sem var nýr og mjög fallegur, allt afar haganlegt, mikið um rennibrautir til að ferðast á o.s.frv. Þaðan tókum við Air France vagn inn í bæ til endastöðvar við Les Invalides. Þar urðum við svo að bíða í hálftíma eftir leigubíl í sól og steikjandi hita. Leigubíllinn flutti okkur upp á Hótel Bedford, 17 Rue de l'Arcade. Þetta átti að vera fyrsta flokks hótel, 4-stjörnu, kostaði 172 franka fyrir nóttina. Okkur þótti hótelið ágætt, en ekkert fram yfir það. Þarna var kyrrlátt, og var það mikill kostur. Lyftudyrnar opnuðust sjálfkrafa á móti manni og var það nýjung fyrir okkur. Veitingasalurinn var lokaður þegar við komum, svo að við fórum út til að fá okkur matarbita. Við vorum orðin svo svöng að við leituðum ekki lengi heldur settumst fyrir utan "Pizzeria" veitingastað þarna í götunni. Fengum við þar nautasteik, "fillet", sem var hreint óæt, þó að Guðný borðaði eitthvað af henni. Ég ræddi við þjóninn,  sem síðan sótti yfirþjóninn.Sá lýsti því yfir að ég hefði rangt fyrir mér, þetta væri fyrsta flokks kjöt. Þegar við fórum kom hann sérstaklega til að tilkynna að hann hefði smakkað á stykkinu sem ég leifði, og hefði ekkert verið athugavert við það. Ég var ekki að þrátta við manninn; þrátta hvorki við Frakka né vitfirringa. En sennilega var þetta met í ókurteisi á veitingastað. Kartöflurnar voru ætar, og það bjargaði okkur. Við fengum okkur kók og ferskju á barnum á hótelinu, og ég keypti stóra flösku af Vichy-vatni. Með það var farið í háttinn.

Sunnudag 22. ágúst sváfum við til kl. 9. Snæddum morgunmat, lítinn meginlands-morgunverð, þ.e. te og vínarbrauð. Tókum síðan leigubíl að Eiffelturninum. Við vorum fremur lítið klædd og varð fljótlega kalt, því að talsverð norðangjóla var þarna fyrir hádegið. Þetta kom sérstaklega að sök af því að við þurftum að bíða svo lengi í biðröðum, fyrst við miðasöluna og síðan á 2. hæð eftir lyftu, því að fólksfjöldinn var svo mikill. Líklega hefur það tekið okkur klukkutíma að komast upp í turninn. Útsýnið var fagurt, hvergi ský á lofti og tiltölulega lítið mistur. Við dvöldum ekki lengi þarna uppi. Síðan tók nokkurn tíma að komast niður, þó ekki eins lengi og að komast upp.

Á eftir gengum við upp að höll sem er norðvestan við turninn. Það mun vera Palais de Chaillot, safnahús sem hýsir m.a. þjóðleikhús, með fögrum gosbrunnum en heldur ljótum, gylltum styttum.

Palais de Chaillot

Þarna tók ég myndir af Guðnýju, en síðan gengum við alla Avenue Kléber út að Sigurboganum. Þá vorum við bæði orðin steinuppgefin og slæm í fótum, sérstaklega Guðný, því að skórnir meiddu hana; hún hafði lagt af stað sokkalaus.



Við héldum austur Champs Élysées og fengum okkur hádegisverð á fínum stað, en furðu ódýrum. Svo gengum við að næsta torgi og litum í búðir. Tókum svo leigubíl heim á hótel og hvíldum okkur í einn og hálfan tíma eða svo.




 

Á eftir gengum við út að óperuhöllinni og þaðan yfir á Vendome-torg þar sem dómsmálaráðuneytið er. Var þá orðið mjög heitt. Ég leitaði uppi Hotel Mont-Thabor þar sem ég gisti endur fyrir löngu með foreldrum mínum (1948).

Óperuhöllin

Næst gengum við út á Rue de Rivoli og í Tuileries-garðinn þar sem margt var fólks, einkum við tjörn með gosbrunni. Voru þar skútur að sigla. Hundur datt í tjörnina og gekk illa að komast upp úr. Við fengum okkur drykk og ís, Guðný í sólinni, ég mest í skugganum vegna hitans, sem var 31 stig eða meira.  Við og við komu vindhviður sem þyrluðu upp ryki af skrælþurrum gangstígum, en annars sá lítið á gróðri, og þarna voru afar fögur blóm.



Við gengum að Louvre og minni Sigurboganum sem þar er. Litum aðeins inn í safnið, sem þá var verið að loka. Hitinn var óskaplegur og gott að koma inn í svalann. Við tókum svo leigubíl heim. Þá var komið að kvöldmat, og við gengum út á Boulevard Haussmann. Fundum þar veitingastað sem reyndist miður góður. Ég fékk að vísu sæmilegt kjöt en Guðný blóðhráa steik, sem hún þrælaði í sig gegn andmælum mínum. Mér hafði láðst að biðja um að steikin væri vel steikt, enda skildi þjónninn ekki orð í ensku. Hann þeyttist um á harðahlaupum, gamall skarfur.

Um fimmleytið um nóttina var Guðný orðin veik í maga með uppköst og tilheyrandi og gat varla smakkað morgunmat. Ég arkaði upp í íslenska sendiráðið og fékk ábendingu um lækni á bandarískum spítala og aðstoð við að fá meðal í næsta apóteki. Sendiráðið var á sama stað og ég hafði fundið það í fyrri ferðum, á Boulevard Haussmann, og jafn fornfálegt og áður.

Ég ætlaði að leysa út ávísun sem ég var með frá Landsbankanum. Ávísunin var stíluð á Société Géneral, stærsta bankann þarna, sem hafði útibú rétt hjá sendiráðinu, en það var ekki hægt, þeir vísuðu á aðalbankann, sem var í hinum enda Boulevard Haussmann. Þegar þangað kom var mér vísað á inngang sem gætt var af vopnuðum verði. Sá hleypti aðeins einum inn í einu. Þarna var biðröð og aðeins einn gjaldkeri. Þarna beið ég í a.m.k. 40 mínútur. Einkum tók langan tíma að afgreiða Japana nokkurn, og þurfti gjaldkerinn að hringja mörg símtöl hans vegna. Sagði honum loks að koma aftur eftir hálftíma.

Ég ætlaði að fá hluta upphæðarinnar í ferðatékkum, en var sagt að þá þyrfti ég að bíða til kl. 2. Ég tók þá allt út í seðlum og flýtti mér aftur á hótelið, enda klukkan orðin yfir 12 og vísast að farið yrði að reikna leigu fyrir einn dag í viðbót. Þegar þangað kom var Guðný miklu hressari og tók ekki í mál að halda herberginu lengur. Ég greiddi því reikninginn og fékk að geyma töskurnar í afgreiðslunni. Þaðan gengum við upp á Haussmann og út á  Galeries Lafayette. Við fengum okkur eitthvað að drekka og Guðný leit í búðir en sá ekkert sem henni líkaði. Þá tókum við leigubíl og skoðuðum í skyndi dómkirkjuna Notre Dame  og gröf Napóleons í Les Invalides.


 

Við gröf Napóleons - Les Invalides

Ekki dró úr hitanum. Þegar við komum á hótelið aftur var klukkan að verða 4. Við skrifuðum á kort til drengjanna og fórum síðan í leigubíl á endastöð Air France í Les Invalides. Bílstjórinn vildi umfram allt fá að aka okkur alla leið til Orly, en tókst ekki að sannfæra okkur.

Við fórum síðan í vagni út á flugvöll og komum þangað um kl. hálfsex. Þar póstlögðum við kortin og eina filmu, en ekki vannst tími til að borða, eða réttara sagt, við töldum ekki ástæðu til þess. Það voru mikil mistök. Hleypt var út í vélina kl. 18:15 og hún lagði af stað kl. 18:40. Þetta var Caravelle þota. Fyrst var allt í lagi, ekki ský á lofti, en um það bil sem við áttum að fá eitthvað að drekka, spruttu upp skýstrókar miklir - þrumuský tíguleg, allt í kring, og okkur var sagt að spenna beltin. Við sigldum þó lengstum milli skýja, og aldrei kom ókyrrðin.Ég ýtti á hnapp til að fá þjónustu, en fékk enga.

Þegar við lentum klukkustundu síðar á litlum flugvelli í Saint-Étienne de Saint-Geoirs, vorum við orðin þyrst og svöng. Á litlum bar gátum við fengið gos, og ég pantaði tvær flöskur meðan beðið var eftir vagni. Farið var að skyggja þegar hann kom loks og fór hægagang þessa 40 km sem eftir voru til Grenoble. Það stóð heima, að ferðin tók um klukkutíma og komið var myrkur, klukkan að ganga 10, þegar vagninn loksins staðæmdist. Við stigum öll út, en vagnstjórinn gat ekki upplýst hvert við ættum að fara. Í myrkrinu grillti ég í skilti sem á stóð "Bibliotéque des Sciences", og vissi að þangað átti að fara til innritunar. Römbuðum við því af stað með töskurnar, en það reyndist röng leið, skiltin höfðu verið tvö, og annað þeirra, hið stærra, með sömu áletrun, benti í gagnstæða átt.

Loks komumst við á áfangastað. Þar var stór salur, fullur af fólki og töskum. Flestir stóðu í löngum biðröðum hér og þar. Guðný fékk sér sæti meðan ég fór í fyrstu biðröðina, þar sem stóð "Registration". Þar var fullt af Rússum og gekk afgreiðsla seint. Þegar röðin kom að mér, uppgötvaði ég að afgreiðsludömurnar skildu ekki ensku, en þegar þær höfðu flett upp nafninu, bentu þær mér á aðra biðröð. Enn voru Rússarnir fyrir, óskipulegir og sóttist seint. Þetta reyndist vera biðröð til að fá að greiða fyrir gistinguna. Sjálfsagt hef ég beðíð þarna í hálftíma. Þá loksins fékk ég að borga og fékk miða upp á það. Var mér sagt að bíða eftir vagni sem flytti okkur upp á stúdentagarð "H. Berlioz". Ég spurði um mat og var sagt að allt væri lokað svona seint. Einhvern veginn þefaði ég uppi afgreiðslu innar og heimtaði 4 flöskur, tvær af appelsíni og tvær af sódavatni. Appelsínið drukkum við Guðný strax. Hitt setti ég í tösku til næturinnar. Sódavatnið reyndist hins vegar vera Tonic (með kíníni o.fl.), ódrekkandi með öllu.

Nú kom vagninn, var okkur sagt, og allir þustu út í myrkrið niður í næstu götu. Þar var "coach", eins og þeir kölluðu það, sem tók 8 manns í einu! Við komumst í þriðju ferðina. Með okkur var gamansamur Englendingur og gerðum við mikið grín að skipulagsleysi Frakkanna. Þegar að stúdentagarðinum kom, voru þar margar byggingar. Urðum við fyrst að fara í biðröð á skrifstofu til skráningar. Þar fengum við loks lykla sem merktir voru G 319 og G 321. Aftur var haldið út í myrkrið án leiðsagnar til að leita að byggingu G, mörg saman, berandi töskurnar. Að endingu kom í ljós að bygging G var ekki til, þetta átti að lesast C1! Herbergin okkar voru upp á fjórðu hæð, og vorum við orðin allþreytt þegar upp kom.

Herbergin virtust sæmileg eins manns herbergi, en sápu vantaði við handlaugina. Í ljós kom að hljóðeinangrun var lítil að utan sem innan  en mikil umferðargata lá framhjá. Rússarnir voru með hávaða fram eftir öllu, og mér tókst ekki að blunda fyrr en kl. tvö. Eitt sem hávaða olli voru hlerar til sólvarnar utan glugganna. Heyrðist mikið í þessum hlerum þegar verið var að draga þá til og frá. Ég var dauðþyrstur, en þorði ekki að drekka kranavatnið. Svöng vorum við auðvitað, en það gerði ekki svo mikið til. Þegar þarna var komið sögu var ég að velta því fyrir mér að fara af staðnum strax næsta morgun.    

Á þriðjudag 24. ágúst fórum við veitingahúsið "Diderot" sem var á háskólalóðinni nálægt aðalbyggingunni, þ.e. bókasafninu, og fengum þar morgunverð. Þangað var talsverður gangur og þreytandi, enda vel heitt. Við fengum morgunverðinn ókeypis, láðist að kaupa matarmiða og rexuðum okkur framhjá konunni sem átti að taka við miðunum. Allir aðrir stóðu í langri biðröð til að kaupa miða, það sáum við eftir á.

Kvöldið áður hafði ég hitt gamlan kunningja, Derek McNally, aðstoðarritara og síðar aðalritara Alþjóðasambands stjarnfræðinga. Þennan dag hitti ég svo Brian Warner. Einnig hitti ég Roy Garstang og Carole Jordan, sem nú var komin til Oxford. Wolstencroft hitti ég seinna. Öllu þessu fólki hafði ég kynnst í stjörnuturninum í London þegar ég vann þar að doktorsritgerð minni 1959-1962. Þau höfðu síðar dreifst um heiminn, Warner farið til Suður-Afríku og Garstang til Bandaríkjanna. Warner stofnaði og byggði upp stjörnufræðideild við háskólann í Höfðaborg. Garstang varð forstöðumaður rannsóknastofnunar í stjarneðlisfræði  (JILA) í Boulder í Colorado. Carole varð fyrst kvenna til að verða forseti Konunglega breska stjörnufræðifélagsins (1994-96) og fékk síðar heiðursnafnbót (CBE) fyrir framlag sitt til eðlisfræði og stjörnufræði (2006).

Carole Jordan og Brian Warner

Roy Garstang og Guðný

Eftir morgunverð fórum við með vagni (einum af mörgum) sem flutti fólk niður að húsi miklu sem kallað var Patinoire og mun vera skautahöll. Þar var ráðstefnan opnuð.


Ráðstefnuhöllin

Töluðu þar margir fyrirmenn, flestir á frönsku, en ég varð mér úti um móttakara sem bauð upp á enska þýðingu. Mest undraði mig að konur þýddu oftast nær þegar karlmenn töluðu, og öfugt. Sjálfsagt frönsk rökvísi í því. Þarna talaði borgarstjórinn, fylkisstjórinn, háskólaráðherra (kona), rektor háskólans og forseti Alþjóðasambands stjörnufræðinga (International Astronomial Union, IAU). Á milli spilaði lúðrasveit, og sími hringdi af og til einhvers staðar til hliðar. Var það oft skásta hljóðið.

Sætin voru einhver þau óþægilegustu sem ég hef kynnst. Af því leiddi, að þegar setningunni lauk, og gert var hlé áður en hefjast skyldi fyrsti fundur allsherjarþingsins, gáfumst við Guðný upp og héldum gangandi í átt niður í miðborgina. Sáum við fleiri gera það sama. Þetta var drjúgur gangur og afar heitt - ég í dökkbrúnum íslenskum jakkafötum, en í sandölum þó, sem bætti úr skák. Ég hélt fyrst til bankans Société General til að leysa út ávísun frá Landsbankanum, sem stíluð var á Guðnýju, en var þá sagt að koma aftur kl. 2. Meiri bankinn það! Við gengum nokkuð um og skoðuðum í búðum, fórum inn í eina stórverslun og borðuðum á hrað-matsölu þar, miður góðan mat. Síðan tókum við leigubíl heim, enda búðir lokaðar frá 12 til 2. Ég reyndi að leggja mig, en tókst ekki að sofna. Guðný var í sólbaði á svölum annars staðar í húsinu.

Síðdegis fórum við upp í háskóla með smárútu sem gekk stöðugt milli húsanna. Þar hitti ég ýmsa eins og fyrr getur, og auk þess Michael Friedjung stjörnufræðing og ónefndan sýningarmann frá Carl Zeiss.  Ég spurðist fyrir um það hvar við gætum fengið sápu og var vísað á vörumarkað ekki langt frá háskólasvæðinu. Við Guðný tókum vagninn aftur niður á Berlioz og gengum síðan þar til við fundum vörumarkaðinn, sem reyndist gríðarlega stór, með 30 rafeindavædd afgreiðsluborð. Auk sápunnar keyptum við drykki, ávexti og jógúrt, sem reyndist hið besta sem ég hafði smakkað. Þegar við komum út var skollið á þrumuveður og slík hellirigning, að ég varð að hringja í leigubíl til þess að við kæmumst heim. Símasjálfsalinn skilaði peningunum aftur, en slíkt mun tæpast algengt í Frakklandi. Er þó enn eitt dæmið um óreiðuna þar.

Við létum leigubílinn fara beina leið á  veitingastaðinn "Diderot" og fengum þar ágætis kvöldverð. Ekki var hætt að rigna, en litli 8-manna vagninn kom og bjargaði málum. Uppi á Berlioz uppgötvuðum við að geltandi hundur var í einu herbergjanna, en sáum hann aldrei.

Á miðvikudag  hitti ég kínverska vin minn Tao Kiang sem hafði verið "skrifstofufélagi" minn í stjörnuturninum í London. Hann sést hér á myndinni fyrir neðan.



 Ekkert markvert virtist vera á dagskrá þingsins þann daginn, svo að við ákváðum að fara aftur í bæinn. Tókum við leigubíl þangað. Enn var sami hitinn. Guðný keypti fatnað ýmiss konar og ég eitthvað smáræði. Við borðuðum á allfínum og dýrum veitingastað, "Olympique", en maturinn var svo sem ekkert sérstakur. Á eftir gengum við niður að ánni Isère og sáum þar tengivagna sem gengu upp að kastala (Bastille) norðan við bæinn og handan við ána. Ákváðum að fara þangað síðar.



Kl. 18 fór að rigna fyrir alvöru. Við tókum þá bílaleigubíl hjá Hertz, sem var með umboðsmann í aðalbyggingunni (bókasafninu), og ókum heim.

Fimmtudag 26. ágúst, eftir morgunmat, ókum við um bæinn, og eftir að hafa villst dálítið (Grenoble er óttalega ruglingslegur bær) fundum við strengjalyftuna upp í kastalann og fórum þangað upp. Þetta tók langan tíma og var ekki laust við að við værum lofthrædd. Hver klefi (kúlulaga)tók sex manns. Mjög heitt var og mikið mistur.


 




 Við vorum nokkra stund uppi á hæðinni og litum yfir bæinn, sem er á mótum ánna Isère og Drac. Á eftir ókum við heim. Ég fór og hlýddi á áhugavert erindi um snúning jarðar, en Guðný var í sólinni á meðan, kældi fæturna í tjörn sem þarna var og slóst við vespur. Ég rakst þarna á sænskan stjörnuáhugamann sem ég hafði nýlega skrifast á við, og á eftir hitti ég börn Van Flanderns frá U.S. Naval Observatory og fékk staðfest að Kenneth Seidelmann hefði tekið við af Raynor Duncombe sem yfirmaður þar. Þetta skipti mig máli vegna samskipta sem ég hef árlega við USNO vegna Almanaks Háskólans. Ég ætlaði að skila bílnum kl. 6 en stúlkan frá Hertz var þá farin og hafði skilið eftir skilaboð um að ég skyldi koma með bílinn daginn eftir.

Föstudag 27. ágúst var ennþá ágætt veður, steikjandi hiti. Ég var á fundum allan daginn. Var mjög fróðlegt að heyra nýjungar um reikistjörnurnar og sjá myndir frá Júpíter, Venusi, Mars o.fl. Normann Ness hélt áhugavert erindi um segulsvið Merkúríusar. Stanley Runcorn fræddi okkur um segulsvið tunglsins. Van Allen fjallaði um segulsvið Júpíters. Rússneskur stjörnufræðingur greindi  frá nýrri vitneskju um gufuhvolf Venusar. Ég hitti Van Allen og ræddi við hann. Ég hafði kynnst honum í Bandaríkjaferð minni 1965. Guðný talaði lengi við konuna hans og þær urðu mestu mátar.


 





Á myndinni sjást Guðný og Gaposchkin hjónin, Cecilia og Sergei. Cecilia Payne-Gaposchin er meðal merkustu stjörnufræðinga. Hún leiddi rök að því í doktorsritgerð sinni 1925 að sól og fastastjörnur væru aðallega úr léttu frumefnunum, vetni og helíni, en ekki efnasamsett líkt og jörðin. Þetta þótti svo ótrúlegt að því var hafnað í fyrstu. Hún lést árið 1979, þremur árum eftir að þessi mynd var tekin.
 
Um kvöldið fórum við niður í bæ, í sýningarsalinn Patinoire, til að hlýða á Carl Sagan halda erindi um reikistjörnurnar. Var það mjög fróðlegt. Þarna hittum við danskan kvenstjörnufræðing, Johansen að nafni, viðkunnanlega konu sem hefur starfað í Cambridge við rannsóknir á myrkvatvístirnum. Um það leyti sem við komum heim fór að rigna. Þá var komið myrkur, enda klukkan orðin hálftólf. Þarna var reyndar tveggja stunda sumartími.

Laugardaginn 28. ágúst var veður heldur svalara, sennilega ekki nema 16° fyrst að morgninum. Guðnýju var hrollkalt, enda hafði hún kvefast kvöldið áður og leið illa. Alltaf sami morgunverður og ekki spennandi: Tvö harðsoðin egg eða eitt egg og ostbiti eða skinka. Hálfvolgt te, og mjólkin svo ógeðsleg (með skán) að ég hef hætt að biðja um hana, þótt ég þykist vita að hún sé óskemmd. Brauð og marmelaði er það eina sem varið er í af morgunmatnum. 

Eftir morgunmat kom ég að máli við Garstang og fékk hjá honum 300 franka að láni, sem hann veitti með glöðu geði. Sagðist hann hafa þá reglu að lána þeim sem hann myndi geta hugsað sér að gefa peningana. Sagði að ég mætti endurgreiða hvenær sem væri. Síðan fór ég og hlýddi á erindi um tímamælingar, afstæðisáhrif o.fl. Uppgötvaði að ný skilgreining "dynamisks tíma" er á dagskrá, en fann engan sem gat skýrt fyrirbærið nánar. Um hádegið fór ég til umboðsmanns Hertz bílaleigunnar, konu að nafni Önnu Maríu. Kom þá í ljós að bíll var að vísu til reiðu (Renault 5) en ekki úr þeim hópi sem skilja mátti eftir í Sviss, en það hafði ég hugsað mér að gera. Við fórumm því með Önnu Maríu niður í bæ á aðalskrifstofu Hertz og fengum bíl þar. Hann var blár en ekki ljósbrúnn eins og sá fyrri. Mér fannst hann ljótari, en Guðný var á öðru máli. Bremsurnar voru skárri, en ekki nógu góðar. Komin var hellirigning þegar við fórum í hádegismat á Diderot. Eftir mat fórum við aftur út á miðsvæði og stigum upp í vagn sem átti að fara í eina af þeim fimm ferðum sem gefinn var kostur á seinnipartinn. Þá voru engir fyrirlestrar.

Kl. 13:50 lögðum við af stað í ferð til "Les Petits et les Grands Goulets". Leiðin var 175 km löng og við komum ekki aftur fyrr en klukkan hálfátta. Fyrri hluta tímans rigndi, en síðan stytti upp. Þetta var mjög fróðleg ferð upp í fjöllin á Vercours-svæðinu, um gífurleg gil. Því miður náði ég ekki að mynda þau hrikalegustu, því að vagninn var stöðugt á ferð, enda hefði ég líka þurft góða gleiðhornslinsu á myndavélina, en ég var bara með litla Zeiss Ikontu. Stansað var þrisvar, einu sinni við minjagripaverslun í Villard-de-lans, síðan við Stóragil, þar sem við gengum nokkurn spöl, og loks stönsuðum við í hálftíma í Pont-en-Royans, þar sem færi hefði gefist á að fá sér kaffi, en við gerðum það ekki. Bakaleiðin um Gorges de la Bourne var hrikaleg, og Guðný varð hálfhrædd því að vegurinn var mjög mjór, en bílstjórinn var ágætur. Á leiðinni ræddi ég við Heggie nokkurn (Douglas Heggie mun hann heita) frá Edinborg, viðkunnanlegasta mann, sem hafði komið tvisvar til Íslands og fengist við athuganir á gígum við Mývatn.

Þegar heim kom borðuðum við á Diderot, en maturinn var mjög lélegur.  Síðla kvölds, eftir að við vorum farin að sofa, kom einhver náungi inn í herbergi Guðnýjar og baðst afsökunar; eitthvað var nú lyklakerfið vafasamt sýndist mér. Við áttum kost á góðum konsert um kvöldið en fórum ekki, enda Guðný slöpp.

Sunnudagur 29. ágúst. Sváfum vel, vöknuðum ekki endanlega fyrr en kl. 9. Hafði þó verið mikill hávaði frá 6 til 8 vegna fólks sem var að búa sig í margs konar skipulagðar ferðir, ýmist kynnisferðir til stjörnustöðva eða skemmtiferðir. Við höfðum ákveðið að aka upp í fjöllin, en dagurinn byrjaði ekki sem best hvað veður snerti, með rigningu. Við skruppum fyrst í bílnum til að fullvissa okkur um að morgunverð væri hvergi að finna á háskólasvæðinu, en síðan ferðbjuggum við okkur í skyndi og lögðum af stað til suðausturs í átt til staðar sem heitir Deux-Alpes. Leiðin lá gegnum Grenoble, og við villtumst tvisvar áður en við komumst endanlega á rétt spor.

Svo var að sjá sem lítið væri um opin kaffihús. Það var ekki fyrr en um kl. hálftólf að við fundum kaffihús í þorpinu Vizille og gátum fengið okkur tesopa og snúð og horft á rigninguna, sem að vísu hafði slotað að mestu. Áfram héldum við upp í fjöllin og landslagið varð fallegt að sjá, mikill trjágróður, há fjöll og vötn.




Við komumst upp í Deux Alpes klukkan eitt eða að ganga tvö. Þetta er fallegur skíðastaður (ekki nýttur sem slíkur að sumri þó), með 50 hótel (flest húsanna virtust vera hótel) og allt mjög glæsilegt að sjá. Þetta var í 1600 metra hæð. Við borðuðum á besta stað sem við höfum enn komið á í Frakklandi, fengum okkur pizzu, sem reyndist svo risastór að það hálfa hefði verið nóg. Fram að því hafði útsýni verið gott, loft mjög tært og engin rigning, en svo syrti að, rigning skall á, og eftir það rigndi látlaust á okkur.

Við héldum niður eftir og áfram til staðar sem heitir La Grave, rétt undir hájöklum sem lyftur ganga upp að í mikilli hæð. Þar hefðum við notið stórfenglegs útsýnis ef ekki hefði stórrignt. Þarna var hópur stjörnufræðinga í einni af hinum skipulögðu ferðum. Guðný fékk sér te og veitti ekki af, því að hún var að sálast úr kvefinu. Klukkan var um 4 þegar við héldum heim á leið, og komum við heim um kl. hálfsex. Þetta var 75 km leið og ausandi Nóaflóð allan tímann. Okkur tókst að sneiða hjá miðbæ Grenoble í heimleiðinni og þökkuðum okkar sæla fyrir það.

Á háskólasvæðinu uppgötvuðum við að "Joe´s Bar", lítill skúr gegnt Diderot, var opinn, og fengum við okkur þar egg (harðsoðin, auðvitað),  ferskjur og drykki. Ég fékk mér líka pylsur. Ekki voru þær góðar, og tómatsósan var svo sterk að ég hef aldrei kynnst öðru eins.

Mikið var þarna af vespum á sveimi að angra okkur. Við fórum svo heim á Berlioz og byrjuðum að undirbúa brottför. Rétt fyrir klukkan 9 skruppum við aftur niður á Joe's til að fá meiri drykkjarföng. Þá hafði stytt upp og komið besta veður, en í fjarska heyrðust þrumur. 

Mánudagur 30. ágúst.  Veður var milt, ekki rigning og betri fjallasýn en áður. Mjög fallegt að sjá til fjallanna þótt ekki væri sólskin. Við fórum til morgunverðar, á bílnum auðvitað. Hann var seinn í gang, virtist alltaf vera það fyrst á morgnana. Við hitttum Carole og Garstang við morgunverðinn, en ekki aðra sem ég þekkti. Síðan fórum við út í vörumarkað og keyptum nesti til ferðarinnar. Jógúrt og snúðar eru með því besta sem Frakkar hafa upp á að bjóða. Svo fórum við og pökkuðum niður, skiluðum lyklunum og lögðum af stað. Þá var klukkan 11:20.

Við fundum strax leiðina út úr bænum í rétta átt, en komum brátt að vegamótum þar sem stóð Chambery til vinstri og Chambery-directe til hægri! Völdum hægri leiðina, en hún reyndist því miður seinfarin, því að alls staðar var verið að breyta og gera við veginn. Ég held að leiðirnar hafi sameinast áður en lauk. Um hádegið fór að rigna og rigndi síðan sleitulaust það sem eftir var dags. Við stönsuðum eitt sinn til að borða nestið okkar, fórum gegnum Chambery og svo Annecy. Þar er mjög fallegt. Leiðin frá Grenoble til Genfar er 147 km. Áður en kom að landamærunum stansaði ég og tók bensín - þorði ekki annað, því að ég treysti ekki mælinum. Þá kom í ljós að bíllinn hafði aðeins eytt 24 lítrum, þ.e. 6,5 lítrum á 100 km!

Við urðum lítið vör við svissnesku landamærin - okkur var bara veifað áfram án þess að stöðva. Þegar til Genfar kom, uppgötvaðist að kortið af borginni hafði týnst. Ég stansaði við fyrsta banka sem ég sá, til að skipta frönsku peningunum fyrir svissneska.  Í bankanum fékk ég kort og leiðbeiningar  um það hvernig ætti að finna Rue Rousseau þar sem hótelið okkar átti að vera, Hótel Excelsior. Fundum við það eftir nokkra leit, en umferðin var óskapleg og hvergi hægt að stansa. Á endanum skildum við bílinn eftir í neðanjarðar-bílageymslu rétt hjá hótelinu. Það kostaði peninginn en var eina úrræðið. Síðan fórum við með töskurnar á hótelið, sem reyndist það fínasta sem við höfum búið á, með sjónvarpi og ísskáp með alls konar drykkjarföngum. Rúmið var kringlótt, óskaplega fínt, gluggatjöld vegleg, ágætis bað.



Við fórum síðan út í stórverslunina "Placette", beint á móti hótelinu. Þar var mikið um fínan varning en dýran. Þar sáum við líka mesta úrval af sælgæti sem hugsast gat. Þarna var allt annað andrúmsloft en í Frakklandi þótt töluð væri franska. Eftir að hafa borðað kvöldverð tókum við kökur með okkur heim á hótel.

Þriðjudagur 31. ágúst. Við fórum á fætur upp úr kl. hálfátta, gengum f´rá töskunum og komum okkur í morgunverð. Veður virtist bjartara og við vonuðumst til að geta litast eitthvað um áður en við færum út á völl. Morgunverðurinn var svipaður og venjulega á meginlandinu, te og snúðar. Við hittum bandaríska konu sem var búin að vera þarna í vikutíma í sífelldri rigningu. Hún var að gefast upp og ætlaði að stytta ferðina og snúa aftur til New York. Það stóð líka heima, að þegar við komum út um níuleytið voru komnir dropar. Við gengum niður að vatninu, því að ég ætlaði að sýna Guðnýju gosbrunninn, en hann var þá ekki virkur. Vegfarandi sagði okkur að yfirvöld hefðu hann ekki á, nema vel viðraði. Við gengum þarna yfir brú í nokkuð stóran hring og um aðra brú til baka.

Við litum í búðarglugga en fannst flest afar dýrt. Klukkan var langt gengin í tíu þegar við komum upp á hótel aftur. Ég taldi rétt að fara strax út á flugvöll, þótt vélin ætti ekki að fara fyrr en kl. 12. Fyrst  sótti ég bílinn í neðanjarðargeymsluna og svo lögðum við af stað. Hótelreikningurinn hljóðaði upp á 95 franka, bara herbergið með morgunverði. Á hótelinu var okkur sagt að leiðin út á flugvöll væri bein og greið og aksturinn tæki 10-15 mínútur.. Hið sama hafði starfsmaður BEA sagt þegar ég hringdi á völlinn. Þetta reyndist ekki alveg rétt, en ég hafði gert ráð fyrir slíku með því að leggja af stað snemma, kl. 10:15.

Í byrjun lentum við gegnt einstefnuakstursgötu og urðum að taka krók til að komast á rétta leið. Síðan tók við mikil umferð og tafsöm. Loks kom vandamál: tvö skilti sem bæði vísuðu á flugvöllinn. Á öðru stóð Lausanne en á hinu Lyon. Ég valdi Lyon, en það reyndist auðvitað rangt, og eftir alllanga töf fékk ég upplýsingar hjá manni (sem aðeins talaði frönsku) um það hvernig ég ætti að komast að vellinum þeim megin sem tilheyrir Frakklandi, til að skila bílnum. Ég hélt loks að ég hefði fundið staðinn, fann Hertz skrifstofu, en hún reyndist ekki Frakklandsmegin, og enn varð ég að aka langa leið, undirgöng undir völlinn og kom loks að frönskum landamærum. Landamæravörður þar gaf svo óglöggar upplýsingar, að við lentum alllangt inni í landi, komumst með herkjum til baka og fundum réttan stað. Klukkan var orðin 11:20 þegar ég loksins gat losnað við bílinn - það kostaði 375 franka að leigja hann þessa 3 daga, eða 14000 kr. Aksturinn nam 395 km.

Við urðum svo að ganga yfir á svissneska hluta vallarsvæðisins til að komast í vélina. Sem betur fer var það ekki langt, en vopnaleit var mjög nákvæm og tafsöm, og vélin komst ekki í loftið fyrr en kl. 12:12. Þetta var Trident frá British Airways. Flugið til London gekk vel og við lentum kl. 13:25.

Þess má geta að í Sviss græddum við eina klukkustund, þar sem þeir eru á GMT+1 klst. og í London var sami tími. Hádegisverður var framreiddur í vélinni, sá besti sem ég hef fengið í flugvél.

Lendingin í London var hörmuleg. Flugmaðurinn var alltaf að gefa inn og draga af og lenti á endanum svo harkalega að vélin hentist upp í loftið og lenti aftur. Sneri þá ekki beint við brautinni. Þá var hemlað samstundis með hreyflunum svo að allt lék á reiðiskjálfi. "Very curious" sagði náunginn við hliðina á mér.

Í London var 19 stiga hiti, ágætt veður og þurrt. Við komumst vandræðalaust gegnum toll og þess háttar, tókum vagn inn að West London Air Terminal og þaðan leigubíl til hótels Mandeville. Leigubílstjórinn var viðkunnanlegasti náungi, sem sagði okkur margt af sér og lífinu í London þá stundina, þar sem vatnsskortur var á alvarlegu stigi og allt að skrælna eftir langvarandi þurrka. Búið var að skrúfa fyrir gosbrunninn á Trafalgartorgi.

Hótelið þekktum við úr fyrri ferð, en herbergið reyndist vera í nýrri álmu, þokkalegt, en gluggar óþéttir og ekki allt nógu hreint. En mér fannst dásamlegt að vera kominn í siðmenninguna aftur. Við fórum fljótlega út í búðir. Guðný verslaði talsvert í Selfridges og C.A.
Klukan hálfsjö fórum við og borðuðum á hótelinu, fengum einhverja bestu máltíð sem ég man eftir. Um kvöldið hringdi ég í vinkonu okkar, Janet Paton í Abernethy, og Guðný hringdi í kunningja sína Keith Bellman og Guðrúnu Bellman. Keith bauð okkur til sín næsta kvöld.

Miðvikudag 1. september vorum við mest í búðum í London. Ég var orðinn þrælkvefaður, síhnerrandi. Fengum herramannsmat eins og fyrri daginn.

Fimmtudagur 2. september. Ég svaf lítið um nóttina, með stöðugan hósta og magakveisu. Fór samt í búðir með Guðnýju en gafst upp kl. 11, fór upp á hótel og lagði mig. Guðný hélt sínu striki til kl. hálftvö, en þá kom hún á hótelið með samlokur og jógúrt í hádegismat. Hresstist ég þá nægilega til að fara aftur í búðir með henni. Kom við Burlington House þar sem konunglega stjörnufræðifélagið (R.A.S.) er til húsa, svo og breska stjörnuskoðunarfélagið (B.A.A.), en ég er meðlimur í þessum félögum. Fengum frábærar móttökur hjá starfsliðinu á báðum stöðum. Eftir meira búðarráp borðuðum við ódýran kvöldverð á Wimpy Bar. Heldur svalt í veðri þennan dag.

Föstudagur 3. september. Glaða sólskin, mátulega heitt (um 20° hugsa ég).  Við eyddum deginum í verslunum og keyptum ýmislegt nýtilegt handa okkur og drengjunum. Um kvöldið reyndi ég að hringja til Edgware, þangað sem ég hafði búið á námsárum mínum, en fékk ekki svar.

Laugardagur 4. september. Vöknuðum óvenju snemma. Lentum í vandræðum út af stífluðu klósetti, sem flæddi út úr, en það mál leystist að lokum. Guðný hringdi í frú Dodson, sem hún hafði fyrrum dvalið hjá, og óskaði henni til hamingju með afmælið sem bar upp á þennan dag. Kl. 11:45 tókum við leigubíl frá hótelinu og fórum á flugstöðina (Air Terminal). Þaðan fór vagn fljótlega út á Heathrow flugvöll. Þangað komum við kl. 13. Þá tók við bið til að afhenda farangur og skrá sig til brottfarar.

Um það leyti sem röðin kom að okkur, ruddist flugfreyja frá Loftleiðum fram fyrir alla með töskur einhverra farþega. Af tali hennar skildist mér  að vélinni hefði seinkað, og þegar ég spurði hana beint, sagði hún að það yrði um klukktíma seinkun því að vélin hefði komið seint. Við ákváðum þá að fá okkur að borða, biðum í biðröð í veitingasal og fengum loks framreiddar fínustu svínakótilettur, en rétt þegar við vorum búin að smakka fyrstu bitana,var lesin upp tilkynning: "Final call for passengers with flight to Keflavik". Þetta var kl. 13:50. Við hættum við að borða, borguðum fyrir matinn og flýttum okkur allt hvað af tók gegnum vopnaleit og vegabréfaskoðun inn í biðsal. Þar tók við löng bið, líklega hálftími eða meira. Ég spurði afgreiðslu British Airways hvað brottför liði, en þeir vissu lítið, héldu að tilkynningar væri von um kl 14:30.

Í biðsalnum hittum við frænku mína, Hallveigu Thorlacius og mann hennar, Ragnar Arnalds. Um kl. hálftvö var tilkynnt að farþegar ættu að fara út í vél um hlið nr. 15. Allir fóru þangað, en þar var fólk svo látið bíða í óratíma, líklega 30-40 mínútur. Aldrei kom nein skýring á þessu. Um borð í vélinni tók enn við löng bið. Ég fór og heimtaði að farþegum yrði gefin einhver skýring á allri biðinni. Þá var lesin tilkynning um seinkun að heiman, tæknilega bilun sem hefði verið lagfærð, en flugfreyjur höfðu líka orð á því að verið væri að bíða eftir einhverjum farþegum. Brottför var loks kl. 15:30. Flugið til Glasgow tók 50 mínútur. Fyrir lendingu þar kom mikill titringur á vélina, all snögglega og hélst um hríð. Orsökina veit ég ekki. Þetta var í mikilli hæð. Okkur var sagt að biðin í Glasgow yrði hálftími. Sjóðheitt var í vélinni og maður varð fljótlega sveittur og leið illa. Þegar klukkutími var liðinn, fór ég fram í og heimtaði að farþegar fengju skýringu á biðinni. Var þá sagt að beðið væri eftir farþegum! Sennilega hefur klukkan verið um 6 þegar við komumst í loftið. Hjá mér sat sagnfræðiprófessor frá Berlín. Sá var í hnattreisu og við töluðum saman alla leið til Keflavíkur, í tæpar 2 klst. Stytti það mjög ferðina.

Í Keflavík tók tímann sinn að fá farangurinn og komast gegnum tollinn. Dálítil rigning var þar og hiti um 9°. Þegar til Reykjavíkur kom tókum við leigubíl frá Loftleiðahótelinu og vorum komin heim kl. 22, þ.e. kl. 21 eftir íslenskum tíma. Við hringdum í Ragnheiði og síðan í hjónin í Hveragerði. Fórum svo til Ragnheiðar og sóttum Mána. Lögðum síðan af stað til Hveragerðis án tafar. Þá var komin ausandi rigning og myrkur, mikil umferð á móti og óþægilegt að aka. Ókum við á 40 mínútum þangað og svo aftur til baka með Hákon. Heim komum við fyrir miðnætti. Drengirnir voru við bestu heilsu og virtust fegnir að sjá okkur, einkum Hákon!

Lýkur svo þessari sögu. 


Þ.S. 2021