Þorsteinn Sæmundsson |
Ég á dagbók um þessa ferð, ef bók skyldi kalla, því að þetta er minnisblaðahefti, illa farið og losaralegt. Textinn hefst með þessum orðum: "Þessa ferðasögu verður að hripa á heldur lélegan pappír sem Air France hefur góðfúslega léð í auglýsingaskyni fyrir þátttakendur í alþjóðaþingi stjörnufræðinga hér í Grenoble. Línur þessar eru ritaðar á miðvikudagskvöldi 25. ágúst, á fimmta degi fararinnar. Þrátt fyrir víðtæka leit í Parísarborg og í Grenoble hefur oss ekki tekist að hafa upp á stílabók eða minnisbók nema rúðustrikuð væri. Frakkar virðast ekki nota annað
en rúðustrikaðan pappír, eða þá óstrikaðan. Þetta er ritað með
penna frá Air France, og ef hann bilar í miðjum klíðum verð ég
ekkert hissa - mér kemur ekkert á óvart lengur úr franskri átt.
----------------------------------------------------------------------------------- Við höfðum eiginlega lokið við að setja niður í ferðatöskur á föstudagskvöld. Við höfðum lítinn farangur meðferðis, en komumst samt seint í háttinn vegna alls konar tafa. Til dæmis læstist lásinn á handtöskunni minni, og þar sem enginn lykill fannst varð ég að ná lásnum af innan frá. Guðný var orðin býsna úrill áður en lauk, sem von var. Ég held að ég hafi aldrei lagt af stað í ferðalag jafn illa fyrir kallaður. Frá Lofteiðahótelinu fór vagn með okkur til Keflavíkur, í
ágætisveðri auðvitað, eftir endalausar rigningar
undanfarið. Í Loftleiðaafgreiðslunni hittum við Magnús
Thoroddsen samstúdent minn. Hann var að kveðja Sigurð son sinn, 18 ára, sem
ætlaði að klífa Mont Blanc með hópi sem fer
þangað frá Sviss. Við röbbuðum talsvert við Sigurð þar
til leiðir skildu í London. Air France flugvélin fór frá London kl. 14:30 í steikjandi hita.
Þetta var Airbus vél, sú stærsta sem ég hafði setið í.
Á eftir gengum við upp að höll sem er norðvestan við turninn. Það mun vera Palais de Chaillot, safnahús sem hýsir m.a. þjóðleikhús, með fögrum gosbrunnum en heldur ljótum, gylltum styttum.
Palais de Chaillot Þarna tók ég
myndir af Guðnýju, en síðan gengum við alla Avenue Kléber út að
Sigurboganum. Þá vorum við bæði orðin steinuppgefin og slæm í
fótum, sérstaklega Guðný, því að skórnir meiddu hana; hún hafði
lagt af stað sokkalaus.
Á eftir gengum við út að óperuhöllinni og þaðan yfir á Vendome-torg þar sem dómsmálaráðuneytið er.
Var þá orðið mjög heitt. Ég leitaði uppi Hotel Mont-Thabor þar
sem ég gisti endur fyrir löngu með foreldrum mínum (1948). Óperuhöllin
Næst gengum
við út á Rue de Rivoli og í Tuileries-garðinn þar sem margt
var fólks, einkum við tjörn með gosbrunni. Voru þar skútur að
sigla. Hundur datt í tjörnina og gekk illa að komast upp úr. Við
fengum okkur drykk og ís, Guðný í sólinni, ég mest í skugganum
vegna hitans, sem var 31 stig eða meira. Við og við komu
vindhviður sem þyrluðu upp ryki af skrælþurrum gangstígum, en
annars sá lítið á gróðri, og þarna voru afar fögur blóm.
Um fimmleytið um
nóttina var Guðný orðin veik í maga með uppköst og
tilheyrandi og gat varla smakkað morgunmat. Ég arkaði upp í
íslenska sendiráðið og fékk ábendingu um lækni á bandarískum
spítala og aðstoð við að fá meðal í næsta apóteki. Sendiráðið
var á sama stað og ég hafði fundið það í fyrri ferðum, á
Boulevard Haussmann, og jafn fornfálegt og áður.
Við gröf Napóleons - Les Invalides Ekki dró úr hitanum. Þegar við komum á hótelið aftur var klukkan að verða 4. Við skrifuðum á kort til drengjanna og fórum síðan í leigubíl á endastöð Air France í Les Invalides. Bílstjórinn vildi umfram allt fá að aka okkur alla leið til Orly, en tókst ekki að sannfæra okkur. Við fórum síðan í vagni út á flugvöll og komum þangað um kl. hálfsex. Þar póstlögðum við kortin og eina filmu, en ekki vannst tími til að borða, eða réttara sagt, við töldum ekki ástæðu til þess. Það voru mikil mistök. Hleypt var út í vélina kl. 18:15 og hún lagði af stað kl. 18:40. Þetta var Caravelle þota. Fyrst var allt í lagi, ekki ský á lofti, en um það bil sem við áttum að fá eitthvað að drekka, spruttu upp skýstrókar miklir - þrumuský tíguleg, allt í kring, og okkur var sagt að spenna beltin. Við sigldum þó lengstum milli skýja, og aldrei kom ókyrrðin.Ég ýtti á hnapp til að fá þjónustu, en fékk enga. Þegar við lentum klukkustundu síðar á litlum flugvelli í Saint-Étienne de Saint-Geoirs, vorum við orðin þyrst og svöng. Á litlum bar gátum við fengið gos, og ég pantaði tvær flöskur meðan beðið var eftir vagni. Farið var að skyggja þegar hann kom loks og fór hægagang þessa 40 km sem eftir voru til Grenoble. Það stóð heima, að ferðin tók um klukkutíma og komið var myrkur, klukkan að ganga 10, þegar vagninn loksins staðæmdist. Við stigum öll út, en vagnstjórinn gat ekki upplýst hvert við ættum að fara. Í myrkrinu grillti ég í skilti sem á stóð "Bibliotéque des Sciences", og vissi að þangað átti að fara til innritunar. Römbuðum við því af stað með töskurnar, en það reyndist röng leið, skiltin höfðu verið tvö, og annað þeirra, hið stærra, með sömu áletrun, benti í gagnstæða átt. Loks komumst við á áfangastað.
Þar var stór salur, fullur af fólki og töskum. Flestir stóðu í
löngum biðröðum hér og þar. Guðný fékk sér sæti meðan ég fór í
fyrstu biðröðina, þar sem stóð "Registration". Þar
var fullt
af Rússum og gekk afgreiðsla seint. Þegar röðin kom að mér,
uppgötvaði ég að afgreiðsludömurnar skildu ekki ensku, en þegar þær höfðu
flett upp nafninu, bentu þær mér á aðra biðröð. Enn voru
Rússarnir fyrir, óskipulegir og sóttist seint. Þetta reyndist
vera biðröð til að fá að greiða fyrir gistinguna. Sjálfsagt hef ég
beðíð þarna í hálftíma. Þá loksins fékk ég að borga og fékk miða
upp á það. Var mér sagt að bíða eftir vagni sem flytti okkur upp
á stúdentagarð "H. Berlioz". Ég spurði um mat og var sagt að
allt væri lokað svona seint. Einhvern veginn þefaði ég uppi
afgreiðslu innar og heimtaði 4
flöskur, tvær af appelsíni og tvær af sódavatni. Appelsínið
drukkum við Guðný strax. Hitt setti ég í tösku til næturinnar.
Sódavatnið reyndist hins vegar vera Tonic (með kíníni o.fl.),
ódrekkandi með öllu. Herbergin virtust sæmileg eins manns herbergi, en sápu vantaði við handlaugina. Í ljós kom að hljóðeinangrun var lítil að utan sem innan en mikil umferðargata lá framhjá. Rússarnir voru með hávaða fram eftir öllu, og mér tókst ekki að blunda fyrr en kl. tvö. Eitt sem hávaða olli voru hlerar til sólvarnar utan glugganna. Heyrðist mikið í þessum hlerum þegar verið var að draga þá til og frá. Ég var dauðþyrstur, en þorði ekki að drekka kranavatnið. Svöng vorum við auðvitað, en það gerði ekki svo mikið til. Þegar þarna var komið sögu var ég að velta því fyrir mér að fara af staðnum strax næsta morgun. Á þriðjudag 24. ágúst fórum við veitingahúsið "Diderot"
sem var á háskólalóðinni nálægt aðalbyggingunni,
þ.e. bókasafninu, og fengum þar morgunverð. Þangað var talsverður gangur og þreytandi, enda
vel heitt. Við fengum morgunverðinn ókeypis, láðist að kaupa matarmiða
og rexuðum okkur framhjá konunni sem átti að taka við miðunum.
Allir aðrir stóðu í langri biðröð til að kaupa miða, það sáum
við eftir á.
Carole Jordan og Brian Warner Roy Garstang og Guðný
Eftir morgunverð fórum við með vagni (einum af mörgum) sem
flutti fólk niður að húsi miklu sem kallað var Patinoire og mun
vera skautahöll. Þar var ráðstefnan opnuð.
Ráðstefnuhöllin Töluðu þar margir fyrirmenn, flestir á frönsku, en ég varð mér úti um móttakara sem bauð upp á enska þýðingu. Mest undraði mig að konur þýddu oftast nær þegar karlmenn töluðu, og öfugt. Sjálfsagt frönsk rökvísi í því. Þarna talaði borgarstjórinn, fylkisstjórinn, háskólaráðherra (kona), rektor háskólans og forseti Alþjóðasambands stjörnufræðinga (International Astronomial Union, IAU). Á milli spilaði lúðrasveit, og sími hringdi af og til einhvers staðar til hliðar. Var það oft skásta hljóðið. Sætin voru einhver þau óþægilegustu sem ég hef kynnst. Af því leiddi, að þegar setningunni lauk, og gert var hlé áður en hefjast skyldi fyrsti fundur allsherjarþingsins, gáfumst við Guðný upp og héldum gangandi í átt niður í miðborgina. Sáum við fleiri gera það sama. Þetta var drjúgur gangur og afar heitt - ég í dökkbrúnum íslenskum jakkafötum, en í sandölum þó, sem bætti úr skák. Ég hélt fyrst til bankans Société General til að leysa út ávísun frá Landsbankanum, sem stíluð var á Guðnýju, en var þá sagt að koma aftur kl. 2. Meiri bankinn það! Við gengum nokkuð um og skoðuðum í búðum, fórum inn í eina stórverslun og borðuðum á hrað-matsölu þar, miður góðan mat. Síðan tókum við leigubíl heim, enda búðir lokaðar frá 12 til 2. Ég reyndi að leggja mig, en tókst ekki að sofna. Guðný var í sólbaði á svölum annars staðar í húsinu. Síðdegis fórum við upp í háskóla með smárútu sem gekk stöðugt milli húsanna. Þar hitti ég ýmsa eins og fyrr getur, og auk þess Michael Friedjung stjörnufræðing og ónefndan sýningarmann frá Carl Zeiss. Ég spurðist fyrir um það hvar við gætum fengið sápu og var vísað á vörumarkað ekki langt frá háskólasvæðinu. Við Guðný tókum vagninn aftur niður á Berlioz og gengum síðan þar til við fundum vörumarkaðinn, sem reyndist gríðarlega stór, með 30 rafeindavædd afgreiðsluborð. Auk sápunnar keyptum við drykki, ávexti og jógúrt, sem reyndist hið besta sem ég hafði smakkað. Þegar við komum út var skollið á þrumuveður og slík hellirigning, að ég varð að hringja í leigubíl til þess að við kæmumst heim. Símasjálfsalinn skilaði peningunum aftur, en slíkt mun tæpast algengt í Frakklandi. Er þó enn eitt dæmið um óreiðuna þar. Við létum leigubílinn fara beina leið á veitingastaðinn
"Diderot" og fengum þar ágætis kvöldverð. Ekki var hætt að
rigna, en litli 8-manna vagninn kom og bjargaði málum. Uppi á
Berlioz uppgötvuðum við að geltandi hundur var í einu
herbergjanna, en sáum hann aldrei.
Ekkert markvert virtist vera á
dagskrá þingsins þann daginn, svo að við ákváðum að fara aftur í
bæinn. Tókum við leigubíl þangað. Enn var sami hitinn. Guðný
keypti fatnað ýmiss konar og ég eitthvað smáræði. Við borðuðum á
allfínum og dýrum veitingastað, "Olympique", en maturinn var svo
sem ekkert sérstakur. Á eftir gengum við niður að ánni Isère og
sáum þar tengivagna sem gengu upp að kastala (Bastille) norðan
við bæinn og handan við ána. Ákváðum að fara þangað síðar.
Kl. 18 fór að rigna fyrir alvöru. Við tókum þá bílaleigubíl hjá Hertz, sem var með umboðsmann í aðalbyggingunni (bókasafninu), og ókum heim. Fimmtudag 26. ágúst, eftir morgunmat, ókum við um bæinn, og
eftir að hafa villst dálítið (Grenoble er óttalega ruglingslegur
bær) fundum við strengjalyftuna upp í kastalann og fórum þangað
upp. Þetta tók langan tíma og var ekki laust við að við værum
lofthrædd. Hver klefi (kúlulaga)tók sex manns. Mjög heitt var og
mikið mistur.
Á myndinni sjást
Guðný og Gaposchkin hjónin, Cecilia og Sergei. Cecilia
Payne-Gaposchin er meðal merkustu stjörnufræðinga. Hún
leiddi rök að því í doktorsritgerð sinni 1925 að
sól og fastastjörnur væru aðallega úr léttu frumefnunum, vetni
og helíni, en ekki efnasamsett líkt og jörðin. Þetta
þótti svo ótrúlegt að því var hafnað í fyrstu. Hún lést árið
1979, þremur árum eftir að þessi mynd var tekin. Kl. 13:50 lögðum við af stað í ferð til "Les Petits et les
Grands Goulets". Leiðin var 175 km löng og við komum ekki aftur
fyrr en klukkan hálfátta. Fyrri hluta tímans rigndi, en síðan
stytti upp. Þetta var mjög fróðleg ferð upp í fjöllin á
Vercours-svæðinu, um gífurleg gil. Því miður náði ég ekki að
mynda þau hrikalegustu, því að vagninn var stöðugt á ferð, enda hefði
ég líka þurft góða gleiðhornslinsu á myndavélina, en ég var bara með
litla Zeiss Ikontu. Stansað var þrisvar, einu sinni við
minjagripaverslun í Villard-de-lans, síðan við Stóragil, þar sem
við gengum nokkurn spöl, og loks stönsuðum við í hálftíma í Pont-en-Royans,
þar sem færi hefði gefist á að fá sér kaffi, en við gerðum það
ekki. Bakaleiðin um Gorges
de la Bourne var hrikaleg, og Guðný varð hálfhrædd því að
vegurinn var mjög mjór, en bílstjórinn var ágætur. Á leiðinni
ræddi ég við Heggie nokkurn (Douglas Heggie mun hann heita) frá
Edinborg, viðkunnanlegasta mann, sem hafði komið tvisvar til
Íslands og fengist við athuganir á gígum við Mývatn.
Mikið var þarna af vespum á sveimi að angra okkur. Við fórum svo heim á Berlioz og byrjuðum að undirbúa brottför. Rétt fyrir klukkan 9 skruppum við aftur niður á Joe's til að fá meiri drykkjarföng. Þá hafði stytt upp og komið besta veður, en í fjarska heyrðust þrumur. Mánudagur 30. ágúst. Veður var milt, ekki rigning og betri fjallasýn en áður. Mjög fallegt að sjá til fjallanna þótt ekki væri sólskin. Við fórum til morgunverðar, á bílnum auðvitað. Hann var seinn í gang, virtist alltaf vera það fyrst á morgnana. Við hitttum Carole og Garstang við morgunverðinn, en ekki aðra sem ég þekkti. Síðan fórum við út í vörumarkað og keyptum nesti til ferðarinnar. Jógúrt og snúðar eru með því besta sem Frakkar hafa upp á að bjóða. Svo fórum við og pökkuðum niður, skiluðum lyklunum og lögðum af stað. Þá var klukkan 11:20. Við fundum strax leiðina út úr bænum
í rétta átt, en komum brátt að vegamótum þar sem stóð Chambery
til vinstri og Chambery-directe til hægri! Völdum hægri leiðina,
en hún reyndist því miður seinfarin, því að alls staðar var
verið að breyta og gera við veginn. Ég held að leiðirnar hafi
sameinast áður en lauk. Um hádegið fór að rigna og rigndi síðan
sleitulaust það sem eftir var dags. Við stönsuðum eitt sinn til
að borða nestið okkar, fórum gegnum Chambery og svo Annecy. Þar
er mjög fallegt. Leiðin frá Grenoble til Genfar er 147 km. Áður
en kom að landamærunum stansaði ég og tók bensín - þorði ekki
annað, því að ég treysti ekki mælinum. Þá kom í ljós að bíllinn
hafði aðeins eytt 24 lítrum, þ.e. 6,5 lítrum á 100 km!
Við fórum síðan út í stórverslunina "Placette", beint á móti hótelinu. Þar var mikið um fínan varning en dýran. Þar sáum við líka mesta úrval af sælgæti sem hugsast gat. Þarna var allt annað andrúmsloft en í Frakklandi þótt töluð væri franska. Eftir að hafa borðað kvöldverð tókum við kökur með okkur heim á hótel. Þriðjudagur 31. ágúst. Við fórum á fætur upp úr kl. hálfátta, gengum f´rá töskunum og komum okkur í morgunverð. Veður virtist bjartara og við vonuðumst til að geta litast eitthvað um áður en við færum út á völl. Morgunverðurinn var svipaður og venjulega á meginlandinu, te og snúðar. Við hittum bandaríska konu sem var búin að vera þarna í vikutíma í sífelldri rigningu. Hún var að gefast upp og ætlaði að stytta ferðina og snúa aftur til New York. Það stóð líka heima, að þegar við komum út um níuleytið voru komnir dropar. Við gengum niður að vatninu, því að ég ætlaði að sýna Guðnýju gosbrunninn, en hann var þá ekki virkur. Vegfarandi sagði okkur að yfirvöld hefðu hann ekki á, nema vel viðraði. Við gengum þarna yfir brú í nokkuð stóran hring og um aðra brú til baka.
Við litum í búðarglugga en fannst flest afar dýrt. Klukkan var langt gengin í tíu þegar við komum upp á hótel aftur. Ég taldi rétt að fara strax út á flugvöll, þótt vélin ætti ekki að fara fyrr en kl. 12. Fyrst sótti ég bílinn í neðanjarðargeymsluna og svo lögðum við af stað. Hótelreikningurinn hljóðaði upp á 95 franka, bara herbergið með morgunverði. Á hótelinu var okkur sagt að leiðin út á flugvöll væri bein og greið og aksturinn tæki 10-15 mínútur.. Hið sama hafði starfsmaður BEA sagt þegar ég hringdi á völlinn. Þetta reyndist ekki alveg rétt, en ég hafði gert ráð fyrir slíku með því að leggja af stað snemma, kl. 10:15. Í byrjun lentum við gegnt
einstefnuakstursgötu og urðum að taka krók til að komast á rétta
leið. Síðan tók við mikil umferð og tafsöm. Loks kom vandamál:
tvö skilti sem bæði vísuðu á flugvöllinn. Á öðru stóð
Lausanne en á hinu Lyon. Ég valdi Lyon, en það reyndist auðvitað
rangt, og eftir alllanga töf fékk ég upplýsingar hjá manni (sem
aðeins talaði frönsku) um það hvernig ég ætti að komast að
vellinum þeim megin sem tilheyrir Frakklandi, til að skila
bílnum. Ég hélt loks að ég hefði fundið staðinn, fann Hertz
skrifstofu, en hún reyndist ekki Frakklandsmegin, og enn varð ég
að aka langa leið, undirgöng undir völlinn og kom loks að
frönskum landamærum. Landamæravörður þar gaf svo óglöggar
upplýsingar, að við lentum alllangt inni í landi, komumst með
herkjum til baka og fundum réttan stað. Klukkan var orðin 11:20
þegar ég loksins gat losnað við bílinn - það kostaði 375 franka
að leigja hann þessa 3 daga, eða 14000 kr. Aksturinn nam 395 km.
Þess má geta að í Sviss græddum við eina klukkustund, þar sem þeir eru á GMT+1 klst. og í London var sami tími. Hádegisverður var framreiddur í vélinni, sá besti sem ég hef fengið í flugvél. Lendingin í London var hörmuleg. Flugmaðurinn var alltaf að
gefa inn og draga af og lenti á endanum svo harkalega að vélin
hentist upp í loftið og lenti aftur. Sneri þá ekki beint við
brautinni. Þá var hemlað samstundis með hreyflunum svo að allt
lék á reiðiskjálfi. "Very curious" sagði náunginn við hliðina á
mér. Miðvikudag 1. september vorum við mest í búðum
í London. Ég var orðinn þrælkvefaður, síhnerrandi. Fengum
herramannsmat eins og fyrri daginn. Föstudagur 3. september. Glaða sólskin, mátulega heitt (um 20° hugsa ég). Við eyddum deginum í verslunum og keyptum ýmislegt nýtilegt handa okkur og drengjunum. Um kvöldið reyndi ég að hringja til Edgware, þangað sem ég hafði búið á námsárum mínum, en fékk ekki svar. Laugardagur 4. september. Vöknuðum óvenju snemma. Lentum í vandræðum út af stífluðu klósetti, sem flæddi út úr, en það mál leystist að lokum. Guðný hringdi í frú Dodson, sem hún hafði fyrrum dvalið hjá, og óskaði henni til hamingju með afmælið sem bar upp á þennan dag. Kl. 11:45 tókum við leigubíl frá hótelinu og fórum á flugstöðina (Air Terminal). Þaðan fór vagn fljótlega út á Heathrow flugvöll. Þangað komum við kl. 13. Þá tók við bið til að afhenda farangur og skrá sig til brottfarar. Um það leyti sem röðin kom að okkur, ruddist flugfreyja frá Loftleiðum fram fyrir alla með töskur einhverra farþega. Af tali hennar skildist mér að vélinni hefði seinkað, og þegar ég spurði hana beint, sagði hún að það yrði um klukktíma seinkun því að vélin hefði komið seint. Við ákváðum þá að fá okkur að borða, biðum í biðröð í veitingasal og fengum loks framreiddar fínustu svínakótilettur, en rétt þegar við vorum búin að smakka fyrstu bitana,var lesin upp tilkynning: "Final call for passengers with flight to Keflavik". Þetta var kl. 13:50. Við hættum við að borða, borguðum fyrir matinn og flýttum okkur allt hvað af tók gegnum vopnaleit og vegabréfaskoðun inn í biðsal. Þar tók við löng bið, líklega hálftími eða meira. Ég spurði afgreiðslu British Airways hvað brottför liði, en þeir vissu lítið, héldu að tilkynningar væri von um kl 14:30. Í biðsalnum hittum við frænku mína, Hallveigu Thorlacius og mann hennar, Ragnar Arnalds. Um kl. hálftvö var tilkynnt að farþegar ættu að fara út í vél um hlið nr. 15. Allir fóru þangað, en þar var fólk svo látið bíða í óratíma, líklega 30-40 mínútur. Aldrei kom nein skýring á þessu. Um borð í vélinni tók enn við löng bið. Ég fór og heimtaði að farþegum yrði gefin einhver skýring á allri biðinni. Þá var lesin tilkynning um seinkun að heiman, tæknilega bilun sem hefði verið lagfærð, en flugfreyjur höfðu líka orð á því að verið væri að bíða eftir einhverjum farþegum. Brottför var loks kl. 15:30. Flugið til Glasgow tók 50 mínútur. Fyrir lendingu þar kom mikill titringur á vélina, all snögglega og hélst um hríð. Orsökina veit ég ekki. Þetta var í mikilli hæð. Okkur var sagt að biðin í Glasgow yrði hálftími. Sjóðheitt var í vélinni og maður varð fljótlega sveittur og leið illa. Þegar klukkutími var liðinn, fór ég fram í og heimtaði að farþegar fengju skýringu á biðinni. Var þá sagt að beðið væri eftir farþegum! Sennilega hefur klukkan verið um 6 þegar við komumst í loftið. Hjá mér sat sagnfræðiprófessor frá Berlín. Sá var í hnattreisu og við töluðum saman alla leið til Keflavíkur, í tæpar 2 klst. Stytti það mjög ferðina. Í Keflavík tók tímann sinn að fá farangurinn og komast gegnum tollinn. Dálítil rigning var þar og hiti um 9°. Þegar til Reykjavíkur kom tókum við leigubíl frá Loftleiðahótelinu og vorum komin heim kl. 22, þ.e. kl. 21 eftir íslenskum tíma. Við hringdum í Ragnheiði og síðan í hjónin í Hveragerði. Fórum svo til Ragnheiðar og sóttum Mána. Lögðum síðan af stað til Hveragerðis án tafar. Þá var komin ausandi rigning og myrkur, mikil umferð á móti og óþægilegt að aka. Ókum við á 40 mínútum þangað og svo aftur til baka með Hákon. Heim komum við fyrir miðnætti. Drengirnir voru við bestu heilsu og virtust fegnir að sjá okkur, einkum Hákon! Lýkur svo þessari sögu. |
Þ.S. 2021 |